• Heimsóknir

    • 119.667 hits
  • ágúst 2014
    S M F V F F S
     12
    3456789
    10111213141516
    17181920212223
    24252627282930
    31  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Skemmtilegt fjölskylduhálfmaraþon

RM2014 basno bakhliðÁ laugardaginn hljóp ég hálft maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu. Þetta var afskaplega skemmtilegt hlaup, aðallega af þremur ástæðum. Í fyrsta lagi bætti ég mig töluvert (náði sem sagt að bæta „pébéið“). Í öðru lagi voru veðrið og aðstæður allar með því besta sem gerist. Og síðast en ekki síst tóku eldri börnin mín tvö bæði þátt í hlaupinu. Það gerðist síðast árið 1994, fyrir 20 árum.

Markmið okkar þriggja voru ólík eins og gengur. Ég var búinn að lýsa því yfir að ég ætlaði að ljúka hlaupinu á 1:27:55 klst., Þorkell ætlaði að fara álíka hratt og ég af stað og sjá svo til hvað hann myndi endast og Gitta stefndi að því að hlaupa á 2:10:00 klst. Í stuttu máli var ég sá eini sem náði ekki markmiðinu. Þar vantaði 18 sekúndur upp á. Þorkell lagði af stað um leið og ég og allir hinir, en ég sá hann lítið eftir það, nema þá tilsýndar. Og hann entist alla leið á stöðugum hraða sem var talsvert meiri en hraðinn minn. Og hjá Gittu skakkaði þetta ekki svo mikið sem sekúndu. Þetta var sem sagt einkar vel heppnað hlaup hjá okkur öllum, (þrátt fyrir þetta með 18 sekúndurnar).

Fyrir þetta hlaup átti ég best 1:29:25 klst. í hálfmaraþoni síðan í vor. Markmiðið var sem sagt að bæta þann tíma um eina og hálfa mínútu. Til þess að svo mætti verða þurfti ég að hlaupa hvern kílómetra á 4:10 mín. að meðaltali, þ.e.a.s. hverja 5 km á 20:50 mín. Ef ég gæti það var ég nokkuð viss um að geta klárað heilt maraþon í München 12. október á meðalhraðanum 4:25 mín/km, sem jafngildir lokatímanum 3:06:30 eða þar um bil.

Fyrir hlaupið á laugardaginn var ég viss um að geta bætt tímann frá því í vor ef ekkert óvænt kæmi upp á, en ein og hálf mínúta var kannski í bjartsýnna lagi. Oftast finn ég nokkurn veginn á fyrstu kílómetrunum hvernig horfurnar eru. Eftir þrjá kílómetra var meðalhraðinn rétt um 4:02 mín/km, sem var náttúrulega í góðu lagi. Þorkell hafði farið örlítið hraðar af stað, en ég sá hann alltaf svo sem 50 m á undan mér. Langhlaup eru formlega séð ekki hans grein. Síðustu árin hefur hann aðallega keppt í 400 m hlaupi og í samræmi við það lagt mikla áherslu á styrkæfingar og lóðalyftingar. Lengri hlaup hafa beðið betri tíma.

Þorkell (lengst til vinstri) á sprettinum eins og ekkert sé. (Ljósm. Birgir Þ. Jóakimsson).

Þorkell spretthlaupari (lengst til vinstri) á fullri ferð með langhlaupurunum. (Ljósm. Birgir Þ. Jóakimsson).

Á 4. kílómetranum hægðist á mér og Þorkell fjarlægðist. Enn var þó allt mögulegt. Millitíminn eftir 5 km var 20:34 mín (4:07 mín/km). Svoleiðis millitíma hef ég ekki séð áður í hálfu maraþoni, enda hefði þetta verið persónulegt met í 5 km götuhlaupi fyrir bara tveimur árum. Þarna var ég með 16 sek. í plús miðað við áætlun, en hafði samt á tilfinningunni að aðalmarkmið dagsins myndi ekki nást. Oftast hægist eitthvað á mér seinni partinn og þá er auðvelt að tapa 16 sek. forskoti.

Næstu 5 km hélt ég nokkurn veginn sama hraða. Millitíminn eftir 10 km var 41:28 mín (4:09 mín/km). Þetta var u.þ.b. 30 sek. betra en í hlaupinu í vor og enn 12 sek. undir viðmiðunartímanum. Og eftir 15 km var tíminn 1:02:21 klst., sem þýddi að ég var enn með 9 sek. í plús. Þetta var svo sem alveg mögulegt.

Á kaflanum milli 5 og 15 km bar annars margt til tíðinda. Á þessum kafla fylgdist ég lengst af með Tate nokkrum Cantrell, sem bæði hefur drjúga reynslu af hlaupum og atvinnurekstri. Hann var með svipuð markmið í hlaupinu og ég, þannig að eðlilega rökræddum við möguleikana á að ná þessum markmiðum. Þeir voru enn til staðar. Á sömu slóðum var líka annar reyndur hlaupari sem ég vissi ekki fyrr en eftir á hver var. Hann hélt sama hraða og við Tate, þrátt fyrir að vera með gervifót fyrir neðan hné vinstra megin. Við höfðum einmitt orð á því hvor við annan hvílíkur innblástur þessi maður væri okkur sem hefðum  báða fætur jafnlanga. Eftir að heim var komið um kvöldið sá ég að einmitt þessi maður, Belginn Kim de Roy, hafði sett heimsmet í sínum fötlunarflokki í hlaupinu þegar hann kláraði heila maraþonið á 2:57:09 klst. Slíkan árangur hef ég aldrei látið mig dreyma um. Á þessum sama kafla bar það líka til tíðinda að Þorkell fjarlægðist smám saman meir og meir – og einhvers staðar í kringum 13. kílómetrann var ég alveg hættur að sjá hann. Ég var auðvitað hæstánægður með það, enda gleður fátt meira en gott gengi afkvæmanna.

Á fullri ferð með Tate Cantrell og Kim de Roy. (Ljósm. Ingimar Sigurðsson).

Á fullri ferð með Tate Cantrell og Kim de Roy. (Ljósm. Ingimar Sigurðsson).

Þegar ég leit á Garminúrið mitt eftir 15 km áttaði ég mig á því að ég hafði stillt það óskynsamlega fyrir þetta hlaup, því að eftir að klukkustundinni var náð hætti úrið að sýna sekúndur. Þarna stóð sem sagt bara 1:02 en ekki 1:02:21. Þetta truflaði mig dálítið það sem eftir var hlaupsins. Ég uni mér einmitt við það í svona hlaupum að reikna eitt og annað út frá millitímum, og nú var ljóst að þessir útreikningar yrðu helst til ónákvæmir. En við því var ekkert að gera. Óskynsamlegar stillingar Garminúra hljóta líka að flokkast sem lúxusvandamál, a.m.k. þegar maður hleypur við hliðina á manni með gervifót. Frómt frá sagt var sá góði maður reyndar búinn að ná dálitlu forskoti á mig þegar þarna var komið sögu, og það sama gilti um Tate Cantrell. En ég var samt alls ekki einmana. Alls staðar var fólk meðfram brautinni að hvetja hlauparana, og í þeim hópi voru furðu margir sem ég þekkti. Það var kannski ekki að undra þótt erlendir samferðamenn mínir spyrðu hvort ég þekkti alla í Reykjavík. Þetta er sjálfsagt öðruvísi í flestum borgarhlaupum erlendis.

Ég bjóst við að illa stillta Garminúrið mitt myndi sýna 1:15 klst. eftir 18 km og vissi að ef það gengi eftir myndi líklegasti lokatíminn vera á bilinu 1:28 og 1:29 klst. Þessi varð líka raunin. Þegar aðstæður eru góðar og næg reynsla með í för kemur sjaldnast margt á óvart á síðustu kílómetrunum. Þar snýst málið um nokkrar sekúndur til eða frá en mínútur eru frekar fyrirsjáanlegar. Að sama skapi er hugarreikningur í mínútum ekki sérlega spennandi eða hvetjandi tómstundaiðja.

Átján kílómetra markið í Reykjavíkurmaraþoni er í næsta nágrenni við Kirkjusand. Þá er maður búinn að hlaupa inn í Vatnagarða og hálfmaraþonhlauparar eiga  ekkert eftir nema Sæbrautina niður í bæ. Á þessu svæði mætir maður hlaupurum sem hafa farið sér ívið hægar og eru um þetta leyti búnir með 13 km eða svo. Í þeim hópi voru margir sem ég þekkti, þ.á.m. eitthvað af hlaupafélögum mínum úr Flandra og svo hún Gitta mín. Þarna var gaman að hvetja og fá hvatningu.

Síðustu kílómetrarnir voru frekar erfiðir, enda sjálfsagt ekkert óeðlilegt að þá sé maður farinn að þreytast. Skemmtilegra er samt að vera í standi til að halda nokkurn veginn sama hraða á leiðarenda. Á þessum kafla létti Gottskálk Friðgeirsson, gamall skólafélagi og vinur, mér lífið um stund en hann var þarna á hjóli. Fáir Íslendingar hafa hlaupið fleiri maraþon en hann, en aldrei þessu vant gat hann ekki verið með þetta árið.

Millitíminn eftir 20 km var 1:23:43 klst. en á úrinu mínu stóð náttúrulega bara 1:23. Með einföldum útreikningi sá ég að líkurnar á því að enda undir 1:28 voru hverfandi en þó ekki alveg úr sögunni. Það færi auðvitað eftir því hvaða sekúndum úrið þegði yfir. Eftir á að hyggja missti ég einmitt af markmiðinu á kílómetrum 15-20. Sá 5 km kafli var sá langhægasti í hlaupinu (21:22 mín). En hvað um það. Ég hljóp bara eins hratt og ég gat þann spöl sem eftir var og kom í mark á 1:28:13 klst., langbesta tímanum mínum til þessa. Ég var reyndar alsæll með þann tíma „þótt mig hrakið hafi frá / hæsta takmarkinu“ eins og segir í vísunni.

Tekið á því á síðustu metrunum. (Ljósm. Jón Kristinn Haraldsson).

Tekið á því á síðustu metrunum. (Ljósm. Jón Kristinn Haraldsson).

Þorkell var einn af þeim fyrstu sem ég hitti á marksvæðinu. Hann hafði haldið sama hraða í gegnum allt hlaupið, þrátt fyrir algjöran skort á langhlauparaæfingum síðustu árin. Lokatíminn hans var 1:24:48 klst. (4:01 mín/km). Ég þóttist reyndar vita að hann yrði á undan mér ef ekkert kæmi upp á, en þessi tími var enn betri en ég hafði reiknað með.

Næsta hálftímann notaði ég til að spjalla við ótrúlega margt og ótrúlega vinsamlegt fólk sem ég kannaðist við á marksvæðinu, þar með talda hlaupafélaga mína úr Flandra, þá Gunnar og Kristin sem báðir voru að enda við að stórbæta hálfmaraþontímana sína. Ætli ég sjái ekki undir hælana á þeim næsta sumar? Marksvæðið er annars heill heimur út af fyrir sig. Reykjavíkurmaraþon er nefnilega ekki bara hlaup, heldur einnig og ekki síður uppskeruhátíð og góðra vina fundur. Fátt er nú glaðara en það. Gleði dagsins var svo fullkomnuð þegar Gitta skilaði sér í markið á 2:10:00 klst. Það kallar maður að setja sér markmið og ná því! Og með þessu var hún líka að stórbæta tímann sinn frá því fyrr í sumar.

Það eru forréttindi að geta hlaupið sér til gamans. Og enn meiri forréttindi felast í því að geta hlaupið með börnunum sínum. Þetta var reyndar ekki alveg í fyrsta sinn sem við þrjú lögðum saman upp í Reykjavíkurmaraþon, því að eins og ég nefndi í upphafi gerðum við þetta líka sumarið 1994. Þá vorum við reyndar öll fimm saman í för. Við Björk og dæturnar röltum þá 3 km, enda þær ekki nema tveggja og sjö ára gamlar. Þorkell var hins vegar orðinn 9 ára og hljóp á undan okkur. Lokatíminn hans þá var 15:42 mín. (5:14 mín/km). Er ekki sagt að snemma beygist krókurinn?

Öll fjölskyldan eftir Reykjavíkurmaraþon 1994.

Öll fjölskyldan eftir Reykjavíkurmaraþon 1994. (Þetta var í lok Don Cano tímabilsins í tískusögunni).

Hálft maraþon nægir

21kmbadgeÉg ætla að láta mér nægja að hlaupa hálft maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu næstkomandi laugardag. Hálft maraþon er vissulega ekki stutt hlaup, en eftir að hafa hlaupið heilt maraþon fimm ár í röð finnst mér samt pínulítið skrýtið að hlaupa styttra. En hér fær skynsemin að ráða, enda eflaust gott að gefa henni tækifæri annað slagið. Ástæða þess að ég ætla að bregða svona út af vananum er að ég stefni á að bæta mig í maraþonhlaupi í München í október og hálft maraþon passar betur en heilt inn í undirbúningsvinnuna.

Mér finnst út af fyrir sig ekkert tiltökumál að hlaupa tvö maraþon með tveggja mánuða millibili, enda býst ég við að líkaminn losni við þreytuna úr fyrra hlaupinu innan þriggja vikna. Hins vegar truflar fyrra maraþonið æfingar fyrir það síðara. Um þessar mundir þarf ég nefnilega að leggja áherslu á styrk og hraða og svoleiðis æfingar tekur maður ekki stuttu eftir maraþonhlaup. Ef áformin um bætingu í München eiga að ganga eftir er þetta því skynsamlegasta leiðin.

Mér finnst rétt að taka fram að staðhæfingin hér að framan um að líkaminn losni við maraþonþreytu innan þriggja vikna á ekki við um þá sem stefna að hámarksárangri í greininni í alþjóðlegum keppnum. Þar gilda allt önnur lögmál en hjá okkur skokkurunum, æfingaálagið er miklu meira og álagið í hlaupinu sjálfu sömuleiðis. Þess vegna þurfa hlauparar í þeim gæðaflokki að láta líða lengri tíma á milli keppnishlaupa á vegalengdinni.

En hvert er þá markmiðin mitt fyrir laugardaginn? Jú, ég stefni að því að hlaupa hálft maraþon á skemmri tíma en 1:28 klst., helst á 1:27:55 eða þar um bil. Ef þetta tekst veit ég að ég get bætt mig í maraþoni í München ef ekkert óvænt kemur upp á. Besti tíminn minn í hálfu maraþoni til þessa er 1:29:25 klst. frá því í vormaraþoni FM í apríl. Um það má lesa í þar til gerðum bloggpistli, þar sem hálfmaraþonævisagan mín er líka rakin í stórum dráttum.

Ég á mér líka annað markmið. Ég vil endilega nota hlaupið á laugardaginn til að safna sem mestum peningum fyrir FSMA á Íslandi, en FSMA er félag aðstandenda og einstaklinga sem haldnir eru SMA sjúkdómnum (Spinal Muscular Atrophy). Ég hef reynt að styrkja þetta félag eftir föngum í hlaupum síðustu ára. Þetta hefur bætt tilgangi við hlaupin hjá mér, enda eðlilegt að á hlaupum verði manni hugsað til þeirra sem ekki njóta þeirra forréttinda að geta sjálfir hlaupið eins og þá lystir. Tekið er við framlögum á síðunni minni á hlaupastyrkur.is. Gaman væri að sem flestir tækju þátt í því. FSMA er lítið félag. Þar munar um allt.

Þrír fjallvegir framundan

Í næstu viku ætla ég að hlaupa þrjá fjallvegi á Norðurlandi á þremur dögum. Dagskráin er nánar tiltekið á þessa leið:

  1. Þriðjud. 5. ágúst: Hjaltadalsheiði frá Reykjum í Hjaltadal að Staðarbakka í Hörgárdal. Safnast saman að Hólum í Hjaltadal kl. 10:00 og ekið þaðan að Reykjum þar sem hlaupið hefst. Um 29 km, mesta hæð um 1.030 m. Áætlaður hlaupatími um 7 klst.
  2. Miðvikud. 6. ágúst: Leirdalsheiði frá Grýtubakka í Hvalvatnsfjörð (í Fjörðum). Brottför frá Grýtubakka kl. 10:00. Um 28 km, mesta hæð um 340 m. Áætlaður hlaupatími um 3,5 klst.
  3. Fimmtud. 7. ágúst: Reykjaheiði frá Reykjum í Ólafsfjarðardal til Dalvíkur. Brottför frá Reykjum kl. 10:00. Um 13-15 km, mesta hæð um 850 m. Áætlaður hlaupatími um 2,5 klst.

Mjög snjóþungt er enn til fjalla á Norðurlandi og gildir það m.a. um allar umræddar heiðar. Samkvæmt upplýsingum kunnugra ættu snjóþyngslin þó ekki að spilla fyrir hlaupunum. Jeppavegur er yfir Leirdalsheiði og var hann ruddur í þessari viku.

Öll eru þessi ferðalög hluti af fjallvegahlaupaverkefninu sem ég gaf sjálfum mér í fimmtugsafmælisgjöf 2007. Öllum er velkomið að slást í för með mér á eigin ábyrgð. Nokkrir hafa þegar gefið sig fram. Ekki er nauðsynlegt að skrá sig í hlaupin, en slíkt auðveldar þó samnýtingu ökutækja.

Meðfylgjandi mynd sýnir hlaupaleiðirnar í afar grófum dráttum, en drög að leiðarlýsingum birtast ef smellt er á nöfn leiðanna hér að framan. Grunnupplýsingar er einnig að finna á hlaup.is.

3heiðarweb