• Heimsóknir

    • 119.600 hits
  • október 2014
    S M F V F F S
     1234
    567891011
    12131415161718
    19202122232425
    262728293031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Maraþons notið í München

Að hlaupi loknu. (Ljósm. Inga Dís).

Að hlaupi loknu. (Ljósm. Inga Dís Karlsd.).

Síðastliðinn sunnudag hljóp ég maraþon í München og náði næstbesta tímanum mínum frá upphafi. Markmiðið var reyndar að bæta þann tíma um eina sekúndu í það minnsta, en þegar upp var staðið vantaði 12 sekúndur upp á. En maraþonhlaup er ekki bara hlaup, heldur viðburður sem á sér margar hliðar. Þetta er ekki bara líkamlegt viðfangsefni, heldur ekki síður andlegt, já og reyndar líka félagslegt því að enda þótt maður hlaupi vissulega á eigin fótum en ekki annarra, þá er maður háður mörgum öðrum um framkvæmdina og ferlið allt. Þess vegna fjallar þessi pistill ekki bara um kílómetra, mínútur, meðalhraða og svita, heldur líka um svolítið brot af öllu hinu.

Hugmyndin
Núna er liðið um það bil ár síðan ég fékk þá flugu í höfuðið að skreppa til München til að hlaupa maraþon. Ég hef kynnst nokkrum svipuðum flugum um dagana. Sumar þeirra hafa lifað en flestar hafa horfið sporlaust þegar veruleikinn bankaði á dyrnar. Þessi umrædda fluga fæddist þegar ég heyrði af hópferð Bændaferða í Münchenmaraþonið í fyrra. Hvort tveggja var að ég hafði ekki farið í þess konar hópferð áður, og eins hitt að þarna var boðið upp á 10 km hlaup og hálfmaraþon, auk heila maraþonsins. Það fól í sér tækifæri til að gera þetta jafnframt að hópferð fyrir félaga í hlaupahópnum Flandra í Borgarnesi. Þegar þarna var komið sögu átti hópurinn sér aðeins eins árs sögu og fáir í hópnum höfðu látið sér detta í hug að hlaupa heilt maraþon á næstu mánuðum. Hugmyndin fékk góðar undirtektir og nokkrum dögum síðar voru nokkrir af harðsnúnustu hlaupurunum búnir að skrá sig í ferðina, enda ekki seinna vænna því að flugan hafði greinilega átt greiða leið að kollum margra annarra, bæði norðan heiða og sunnan.

Undirbúningurinn
Undirbúningur fyrir svona ferð er í raun og veru alveg tvískiptur. Annars vegar þurfti að ganga frá lausum endum varðandi ferðalagið sjálft, þ.m.t. flugi og gistingu. Þetta var auðveldi hlutinn, því að Bændaferðir sáu um allt sem að þessu sneri. Þar var allt á hreinu frá upphafi, og ef einhver vandamál komu upp voru þau leyst jafnharðan með glöðu geði. Það var greinilegt á öllu að hjá Bændaferðum vinnur fólk sem finnst gaman í vinnunni og skortir aldrei vilja til að aðstoða þá sem til þeirra leita. Hins vegar þurfti að æfa sig eitthvað fyrir hlaupið.

Maður æfir svo sem ekki í heilt ár fyrir maraþonhlaup, eða það geri ég í það minnsta ekki. Engu að síður finnst mér skynsamlegt að sjá ár fram í tímann á hlaupabrautinni, er svo má að orði komast. Þarna var sem sagt búið að taka ákvörðun um að maraþonið í München yrði aðalhlaupaverkefni ársins 2014, sem þýddi að önnur verkefni hlutu að taka mið af því eftir því sem nauðsyn krafði. Í mínu tilviki þýddi þetta að ég lagði frekar litla áherslu á löng hlaup yfir vetrarmánuðina og reyndi þess í stað að byggja upp vöðvastyrk og hraða. Aðgerðir í þá veru hefðu svo sem getað verið markvissari, en allt ræðst þetta jú að hluta til af öðrum aðstæðum, þ.m.t. heimafyrir og í vinnunni. Eina nýjungin sem ég bætti við fyrri æfingar voru 10 hnébeygjur með 12 kg ketilbjöllu inni á baðherbergi á hverjum einasta morgni, allt frá því að Þorkell sonur minn gaf mér umrædda bjöllu á jólunum 2013. Svo hljóp ég bara þessa venjulega 40-50 km á viku, ýmist með félögum mínum í Flandra eða einn míns liðs, svona rétt til viðhalds. Þetta virtist virka ágætlega. Alla vega kom ég vel undan vetri, sem endurspeglaðist í persónulegum metum (hér eftir nefnd „PB“) í 5 km og hálfu maraþoni seint í apríl. Í maí féll svo persónulega metið í 10 km (41:00 mín) sem hafði staðið sem fastast í 18 ár. Ég hlaut sem sagt að vera á réttri leið, alla vega að einhverju leyti.

Fyrirfram hafði ég gert ráð fyrir því að hlaupa þrjú maraþon á þessu ári eins og í fyrra. Það finnst mér ekkert tiltökumál, enda reyni ég yfirleitt að vera í nógu góðu standi til að geta skellt mér í svoleiðis hlaup með tveggja eða þriggja vikna fyrirvara. Ætlunin var sem sagt að taka Mývatnsmaraþonið í byrjun júní, Reykjavíkurmaraþonið í ágúst og svo München í október. Eftir hálfa vormaraþonið í lok apríl, þar sem ég náði sem sagt mínum besta tíma frá upphafi (1:29:25 klst.), hitti ég jafnaldra minn Sigurð P., sem státar af meiri reynslu á þessu sviði en flestir aðrir, enda handhafi Íslandsmetsins í maraþoni í áratugi. Honum leist miðlungi vel á hugmyndina um að hlaupa maraþon bæði í ágúst og október. Ef ég liti á októberhlaupið sem aðalhlaup ársins væri skynsamlegra að taka hálft maraþon á góðum tíma í Reykjavíkurmaraþoninu. Ef ég gæti klárað það dæmi undir 1:28 klst. yrði ég í miklu betri málum fyrir München en ef ég myndi hlaupa heilt maraþon með tilheyrandi bakslagi í æfingum dagana eða vikurnar þar á eftir. Ég setti þessa ábendingu bak við eyrað og sannfærðist smám saman um að þetta væri rétta leiðin. Ég vissi vel að ég gæti hlaupið tvö maraþon með nokkurra vikna millibili, enda hef ég gert svoleiðis áður. En maraþon og gott maraþon er sitt hvað.

Sumarið leið með rysjóttu tíðarfari en mörgum og fjölbreyttum hlaupum og hlaupaæfingum. Mývatnsmaraþonið var reyndar eitt af mínum lakari hlaupum, en þar setti óvenjuhátt hitastig sjálfsagt strik í reikninginn. En ég var fyrstur allra í mark, sem var auðvitað mjög skemmtilegt. Annar sigur bættist í safnið í löngu Vesturgötunni í júlí, en þar var keppendahópurinn reyndar í fámennara lagi. Þessu til viðbótar hljóp ég nokkur götuhlaup og náði að bæta 10 km tímann minn enn frekar, eða niður í 40:09 mín. Þá eru ótalin 6 fjallvegahlaup, Þrístrendingur, Hamingjuhlaup um Vatnadal og sitthvað fleira skemmtilegt. Ég setti mér svo það markmið fyrir Reykjavíkurmaraþonið að hlaupa hálft maraþon á 1:27:55 klst., og þó að þar vantaði 18 sek. uppá þegar á hólminn var komið var ég sýnilega kominn í betra hlaupaform en nokkru sinni fyrr, ef frá eru talin nokkur unggæðingsleg millivegalengdahlaup á árunum upp úr 1970.

Eftir Reykjavíkurmaraþonið voru 7 vikur til stefnu fram að hlaupinu í München. Allar mælingar bentu til að ég ætti vel að geta náð markmiðinu mínu þar, þ.e.a.s. að ljúka hlaupinu á skemmri tíma en ég hafði best gert áður. Umrætt PB var 3:08:19 klst. frá því í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra. Það eina sem ég taldi vanta voru nokkrar langar hlaupaæfingar. Hraðinn var sem sagt nógur en spurning hversu lengi ég gæti haldið honum.

Æfingar haustsins gengu svo sem ágætlega, en vinna og aðrar ástæður gerðu það að verkum að eilítið minna varð úr en stefnt var að. Ég hafði þó ekki yfir neinu að kvarta, því að yfirleitt gekk allt upp sem ég reyndi og líkamleg heilsa var eins og best gerist, engin meiðsli höfðu gert vart við sig í rúm tvö ár og í raun lék allt í lyndi. Ég náði bara ekki alveg að skapa rými fyrir þessar löngu æfingar sem ég taldi vanta í safnið. Meðalvikan átta síðustu vikurnar varð þannig ekki nema 64 km, sem þykir sjálfsagt heldur naumt í þessu samhengi.

Ferðalagið til München

Nýja ráðhúsið við Maríutorgið í München.

Nýja ráðhúsið við Maríutorgið í München.

Hið eiginlega ferðalag til München hófst í Borgarnesi að kvöldi miðvikudagsins 8. október 2014. Það kvöld ókum við hjónin suður á Ásbrú við Keflavíkurflugvöll, þar sem við gistum í góðu yfirlæti nóttina fyrir brottför á Start Hosteli hjá heiðurshjúunum Ragnheiði og Binna. Þau voru að vísu fjarverandi þessa nótt, en það fór engu að síður ágætlega um okkur. Í bítið morguninn eftir var svo lagt af stað í loftið, burt frá kulda og gosmóðu, áleiðis í sól og yl suður í Bæjaralandi. Og auðvitað sá Sævar Skaptason, fararstjóri og framkvæmdastjóri Bændaferða, um að ekkert færi úrskeiðis, allt frá þeirri stundu er við komum í flugstöðina og til ferðaloka tæpri viku síðar.

Flugferðin til München gekk að flestu leyti eins og í sögu og ástæðulaust að fjölyrða meira um hana. Bæjaraland tók á móti okkur með sólskini og 20 stiga hita. Þá tilfinningu var gott að upplifa eftir heldur snautlegt sumar suðvestanlands, a.m.k. í sólskinsstundum talið. Og fyrr en varði var hópurinn allur kominn heilu og höldnu inn á hótel Ibis við lengstu götuna í München, (Dachauer Strasse, 11,2 km. (Ath.: Þetta eru náttúrulega gagnslausar upplýsingar, enda er þeim eingöngu ætlað að krydda frásögnina)). Og þetta var enginn smáhópur. Eitthvað um 50 manns höfðu þegið boð Bændaferða um að skipuleggja þessa maraþonferð og þar af voru hvorki meira né minna en 7 á vegum hlaupahópsins Flandra.

Dagarnir fram að hlaupi
Við komum til München síðdegis á fimmtudegi og hlaupið var ekki fyrr en á sunnudag. Því gafst góður tími til að hrista úr sér flugþreytuna og hverja þá þreytu aðra sem ef til vill hafði fylgt með í farangrinum að heiman. Tíminn var notaður til að skoða sig um í miðborginni, en þangað var um stundarfjórðungsgangur frá hótelinu. Við hjónin röltum um með félögum okkar úr Borgarnesi, horfðum á klukknaspilið framan á turninum á „nýja ráðhúsinu“, leituðum uppi nokkrar skóbúðir, litum inn í gamlar kirkjur og gerðum þokkalega við okkur í mat og drykk. Föstudagurinn hófst með mjúku morgunskokki í blíðunni og svo var tekinn sporvagn á maraþonsýninguna í einni af byggingunum frá Ólympíuleikunum 1972. Þar voru hlaupanúmerin afhent og gengið frá öllum lausum endum fyrir hlaupið, ef einhverjir voru, auk þess sem fjölmörg fyrirtæki kynntu vöru sína og þjónustu og skiptu á varningi og fáeinum evrum við þá sem áhuga höfðu. Á laugardeginum hélt Sævar fararstjóri fund með öllum hópnum og gaf nokkur góð ráð sem ég veit að nýttust mörgum, þar á meðal ráðið um að eyða ekki alltof mikilli orku á fyrstu metrum hlaupsins í að troðast fram fyrir aðra sem höfðu af einhverjum ástæðum staðsett sig helst til framarlega miðað við getu.

Beðið eftir grænu ljósi í mjúku morgunskokki í München.

Beðið eftir grænu ljósi á mjúku morgunskokki í München.

Allt tilbúið kvöldið fyrir hlaup.

Allt tilbúið kvöldið fyrir hlaup.

Að morgni hlaupadags
Sunnudagurinn 12. október rann upp bjartur og fagur. Að vísu er þessi staðhæfing ekki alveg sönn ef fyllstu nákvæmni er gætt, því að snemma um morguninn lá svolítil þoka yfir München og hitastigið var ekki nema rétt um 10°C. Þeir sem voru skráðir í heilt maraþon söfnuðust saman í anddyri hótelsins um 8-leytið, og á slaginu 8:07 var lagt af stað með sporvagninum áleiðis á Ólympíuleikvanginn þar sem hlaupið átti að hefjast kl. 10:00 og ljúka tiltölulega skömmu síðar. Við Gunnar Viðar héldum uppi merki Flandra og Borgarfjarðar í þessum hópi. Þrjú hinna stefndu á hálfa maraþonið sem átti að hefjast 4 klst. síðar og lífsförunautarnir Björk og Kristín hugðust taka sporvagn að endamarkinu í tæka tíð til að taka á móti okkur. Þetta síðastnefnda er reyndar ekki auðvelt verk í hlaupum eins og þessum þar sem maður er ókunnugur marksvæðinu og þar sem erfitt getur reynst að finna hvert annað í mannmergðinni.

Við vorum komin á leikvanginn upp úr kl. 8:30. Mér finnst afar þægilegt að vera mættur svona tímanlega. Þegar maður er á annað borð kominn á staðinn er erfitt að finna sér nokkuð til að hafa áhyggjur af. Og tíminn leið líka hratt við spjall og vangaveltur um áform dagsins. Sólin var farin að gægjast fram og hitastigið hækkaði jafnt og þétt. Kannski var hægt að búa sér til svolitlar áhyggjur af því að hitinn yrði til trafala þegar á liði hlaupið, en áhyggjur eru reyndar síst til þess fallnar að bæta árangur og upplifun í lífinu.

Um hálftíma fyrir hlaup lögðum við af stað gangandi að rásmarkinu sem var á að giska 2 km sunnan við Ólympíuleikvanginn. Þeir sem vildu voru þá búnir að skila af sér yfirhöfnum og öðrum varningi í þar til gerðum pokum í geymslu undir stúku vallarins. Ég ákvað að skilja símann minn eftir í slíkum poka til að auðveldara yrði að ná sambandi við Björk og Kristínu að hlaupi loknu.

Við rásmarkið stilltu hlauparar sér upp í þremur aðskildum hólfum eftir líklegum lokatíma. Við Gunnar fylgdumst að fram í fremsta hólfið, sem ætlað var þeim sem töldu sig geta lokið hlaupinu á skemmri tíma en 3:30 klst. Aftarlega í því hólfi skildu leiðir og ég slóst í för með Gísla Einari Árnasyni fram eftir hólfinu þar sem við stilltum okkur upp á að giska 20 metrum aftan við ráslínuna. Áform beggja voru svipuð, þ.e. að hlaupa af stað á 4:20 mín/km og sjá svo til hvað yrði í framhaldinu.

Fyrstu 5 kílómetrarnir
Hlaupið var ræst með látum stundvíslega kl. 10:00. Ég fylgdi straumnum til að byrja með og Gísli var skrefi á undan til að byrja með. Fljótlega greiddist úr hópnum og þar með var hlaupið hafið fyrir alvöru. Gísli seig fram úr og hvarf mér smám saman sjónum en ég hafði það samt á tilfinningunni að upphafið væri nokkurn veginn eins og ég hafði ætlað. Reyndar var erfitt að átta sig á hraðanum því að Garminúrið sló úr og í, ef svo má að orði komast, sýndi stundum 3:30 mín/km og stundum 4:50. Ég vissi að hvorugt var rétt, enda var Sævar búinn að vara okkur við því að gervihnattasambandið gæti verið óstöðugt inni í borginni, inni á milli húsa og inni á milli trjáa.

Ég sá fá kunnugleg andlit á fyrstu kílómetrunum, enda varla við því að búast. Þarna voru jú 6 eða 7 þúsund manns að hlaupa og flestir Íslendingarnir höfðu hógværari markmið en ég í mínútum talið. Auk Gísla vissi ég af Óskari Jakobssyni einhvers staðar á undan mér og svo hitti ég Geir Jóhannsson rétt sem snöggvast stuttu eftir að hlaupið hófst.

Snúið á punktinum á Ludvigstraße eftir 4 km. (Ljósm. Marathon Photos).

Snúið á punktinum á Ludvigstraße eftir 4 km. (Ljósm. Marathon Photos).

Fyrstu 5 kílómetrarnir áttu að taka 21:40 mín. ef ég héldi mig við 4:20 mín/km. Þegar þangað var komið sýndi klukkan 21:46 mín sem var algjörlega innan skekkjumarka og reyndar hraðasti 5 km kaflinn minn í maraþonhlaupi til þessa. Mér fannst samt einhvern veginn að ég hefði átt að vera enn fljótari miðað við það hvernig ég skynjaði álagið í líkamanum. En maður dregur engar ályktanir á þessum stað í maraþonhlaupi. Úrslitin ráðast löngu síðar. Kannski var hraðinn jafnvel óþarflega mikill.

5-10 km
Eins og ég hef lýst einhvern tímann áður, skipti ég maraþonhlaupum yfirleitt upp í 5 km kafla. Slík skipting léttir álagi af huganum og gefur líka færi á ýmsum skemmtilegum útreikningum til að glíma við á leiðinni. Ég sá fljótt að þessi 5 km kafli sóttist mér heldur betur en sá fyrsti. Ég ákvað reyndar að taka ekkert mark á kílómetratalningunni í hlaupaúrinu, því að stopult gsm-samband getur spillt mælingunni. En klukkan heldur sínu striki og eins var hver kílómetri greinilega merktur með skiltum við hlaupaleiðina. Ég gerði mér það til dundurs að reikna út eftir hvern kílómetra hversu langt ég væri frá markmiðinu um 4:20 mín/km. Sekúndurnar sex sem upp á vantaði eftir 5 km voru fljótar að skila sér til baka og fyrr en varði var ég kominn nokkrar sekúndur í plús. Það var svo sem hvorki skynsamlegt né nauðsynlegt, enda samsvara 4:20 mín/km lokatíma upp á 3:03 klst. eða þar um bil. Slíkan tíma lét ég mig ekki dreyma um, enda var markmiðið að hlaupa á 3:08:18 klst. eins og fyrr segir. Reyndar taldi ég mig geta hlaupið á 3:06:30 á góðum degi, en þá þarf maður að afgreiða hvern km á 4:25 mín. að meðaltali. Geymdi þá tölu á bak við eyrað.

Hlaupaleiðin í München er tiltölulega flöt og víðast hvar slétt malbik undir fótum. Léttari brautir eru til, en þetta var samt með því betra. Og veðrið lék við okkur enn sem komið var. Sólin var reyndar farin að skína býsna ákveðið, en lengst af gat maður hlaupið í skuggum trjáa eða húsa og fann þá ekki mikið fyrir hitanum.

Hver kílómetrinn af öðrum leið hjá á 4:20 mín eða tæplega það. Reyndar fannst mér óvenju stutt á milli kílómetramerkinga, sem þýddi náttúrulega bara að mér leið vel og að hraðinn var þokkalegur. Eftir um 7,5 km kom ég að drykkjarstöð þar sem ætlunin var að sporðrenna fyrsta orkugelinu. Slíka fæðu gleypi ég jafnan í mig í maraþonhlaupum á 5-7 km fresti og drekk svo sem 150 ml. af vatni með. Á þessari stöð ætlaði ég líka að taka inn eitt steinefnahylki, en það reyndi ég fyrst í Vesturgötunni í sumar með góðum árangri. Steinefnin eiga að draga úr líkum á krömpum á síðustu kílómetrunum, en ég hef nokkuð oft lent í þess háttar hremmingum. Nú vildi hins vegar ekki betur til en svo að ég missti tvö hylki í götuna og varð því að breyta steinefnaáætluninni dálítið til að láta lagerinn duga alla leið. Hvort þetta óhapp hafði áhrif á lokaniðurstöðuna skal ósagt látið. Held samt varla.

Eftir 10 km sýndi klukkan 43:05 mín. Að baki var langhraðasti 10 km kaflinn minn í maraþonhlaupi frá upphafi og reyndar líka hröðustu 5 km (21:19 mín). Meðaltíminn á hvern km hafði verið um 4:18 mín. þegar þarna var komið sögu og ég kominn 15 sek. í plús miðað við 4:20 áætlunina. Þessi hraði var rétt yfir skynsemismörkum, þannig að ég ákvað að reyna heldur að halda aftur af mér á næsta kafla.

10-15 km
Líðanin var áfram góð á næsta 5 km kafla og sekúnduinnistæðan breyttist frekar lítið. Fátt minnisvert bar til tíðinda, nema hvað þarna lá leiðinn í gegnum Enska garðinn og þegar ég kom að 15 km markinu sýndi klukkan 1:04:57 klst. Síðustu 5 km hafði ég lagt að baki á 21:52 og enn átti ég 3 sek. til góða miðað við 4:20 áætlunina.

15-20 km
Þetta gekk eiginlega allt eins og í sögu, en ég vissi svo sem alveg að seinni hlutinn yrði erfiðari, bæði vegna þess að seinni hlutinn er alltaf erfiðari og vegna þess að ég taldi mig vanta fleiri langar æfingar, eins og áður var getið. Á þessum kafla átti ég von að sjá Evu Skarpaas og manninn hennar hann Þórólf á hliðarlínunni. Eva var að fara að hlaupa hálft maraþon og hafði sagst myndi verða einhvers staðar ekki alllangt frá rásmarki þess hlaups, nánar tiltekið nálægt 17 km markinu í maraþonhlaupinu. Þarna var ég kannski aðeins farinn að þreytast og þá er gott að eiga eitthvert tilhlökkunarefni í pokahorninu. Það þarf heldur ekki neina stórviðburði til að lífga upp á tilveruna á hlaupum. Þetta gekk eftir. Allt í einu kom ég auga á Evu með myndavélina á lofti og handfylli af brosi og hvatningarorðum. Nokkru seinna hljóp ég fram hjá Þórólfi og sagan endurtók sig. Næstu skref voru hálfu léttari fyrir bragðið.

17 km búnir og Eva mætt með myndavélina. (Ljósm. Eva Skarpaas).

17 km búnir og Eva mætt með myndavélina. (Ljósm. Eva Skarpaas).

Þegar hér var komið sögu var fyrrnefndur sekúnduforði á þrotum og mínussekúndur farnar að safnast upp hægt og bítandi. Það skipti mig þó engu máli enda mátti ég tapa 5 sekúndum á hverjum kílómetra hlaupsins miðað við 4:20 áætlunina, án þess að meðaltíminn á km færi niður fyrir 4:25 mín. Enn væri þá draumurinn um 3:06:30 innan seilingar og bæting vissulega í kortunum þótt þetta gengi ekki eftir.

Eftir 20 km var millitíminn 1:27:17 klst., síðustu 5 km á 22:20 mín. og síðustu 10 km á 44:12 mín. Þar með var ég allt í einu kominn 37 sek. í mínus miðað við margumræddar 4:20 mín, en svo sem enn í góðum málum miðað við 4:25.

20-25 km
Hálfmaraþonmarkið er alltaf tilhlökkunarefni í maraþonhlaupum, því að þar gefst nýtt tækifæri til uppbyggjandi útreikninga. Í þessu tilviki gat ég líka hlakkað til að sjá eitthvað af hálfmaraþonhlaupurunum, sem voru sjálfsagt mættir á svæðið þótt enn væru meira en 2 klst. í að hlaupið þeirra yrði ræst. Ég kom reyndar ekki auga á marga sem ég kannaðist við, en Gunnar Atli var þó alla vega þarna á kantinum að hvetja samferðamennina. Hálfmaraþontíminn var 1:32:21 klst., sem var meira en 2 mín. betri tími en ég hafði áður náð í maraþonhlaupi. Samkvæmt því mátti halda að auðvelt yrði að bæta PB-ið, en ég bæði vissi og fann að það væri alveg á mörkunum. Reynslan sagði mér að seinni helmingurinn gæti sem best tekið um 3 mín. lengri tími en sá fyrri. Þar með væri lokatíminn kominn í 3:08 klst., sem þýddi að ekkert mátti út af bera til að markmiðið næðist. Í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra var ég reyndar talsvert fljótari með seinni helminginn en þann fyrri, hljóp á „negatívu splitti“ sem sagt, en svoleiðis gerist bara á hátíðis- og tyllidögum. Nú voru líkurnar á slíku nær engar að teknu tilliti til æfinga undanfarinna mánuða og þess hvernig hlaupið hafði þróast.

Áfram hélt ég að tapa sekúndum, enda þreytan aðeins farin að segja til sín. Mér fannst líka óþarflega heitt þar sem sólin náði að skína óhindrað. Held samt að hitastigið hafi ekki verið komið nema í 16°C þegar þarna var komið sögu. Millitíminn eftir 25 km var 1:49:37 klst., sem var eftir á að hyggja næstum 3 mín. betri tími en í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra. En ég mundi það ekki svo glöggt þarna á götunni í München. Hitt vissi ég að ég var kominn 1:17 mín í mínus miðað við 4:20 og hraðinn fór minnkandi ef eitthvað var. Auðvitað hefði ég getað bætt eitthvað í til skamms tíma, en í maraþonhlaupi er slíkt varla í boði fyrr en þá í blálokin. Best er að halda svipuðu álagi í gegnum allt hlaupið og það taldi ég mig einmitt hafa gert.

25-30 km
Mér finnst 30 km markið einkar mikilvægur áfangi í maraþonhlaupi. Sumir segja að þar byrji hlaupið fyrir alvöru og ég get svo sem alveg tekið undir það. En hvað sem því líður þykist ég yfirleitt viss um að geta klárað það sem eftir er af hlaupinu á 1 klst. hvernig sem allt velkist, jafnvel þótt einhverjir krampar geri vart við sig. En maður á svo sem ekkert víst í þessum efnum. Alla vega var millitíminn þarna 2:12:10 klst., sem ég vissi að var um 2 mín. betra en í fyrra. Meðalhraðinn frá upphafi samsvaraði 4:24 mín/km og síðustu 5 km höfðu verið á 22:33 mín (4:31 mín/km). Lokatíminn í hlaupinu gat varla orðið verri en 3:12 klst., sem var náttúrulega vel ásættanlegt og PB-ið var svo sem enn raunhæfur möguleiki.

30-35 km
Rétt eftir 30 km markið hljóp ég inn í gamla miðbæinn þar sem við höfðum verið á röltinu dagana á undan. Það var gaman, sérstaklega að koma inn á Maríutorgið þar sem nýja ráðhúsið með klukkuspilinu blasti við. Þarna var líka fullt af fólki meðfram brautinni að hvetja hlauparana.

Ég fann að nú var farið að hægjast svolítið á mér en ég lét það ekki angra mig neitt sérstaklega. Einbeitti mér þess í stað að því að halda sem jöfnustu álagi. Eftir u.þ.b. 32,5 km lá leiðin inn á háskólasvæðið þar sem tekin var 4 km slaufa, að hluta til fram og til baka eftir sömu götunni. Þetta var bæði dálítið leiðinlegt og dálítið skemmtilegt, kannski aðallega skemmtilegt því að þarna mætti maður fyrst þeim sem voru talsvert fljótari í förum en maður sjálfur og síðan þeim sem voru ívíð seinni. Í þeim hópi var Gunnar Viðar. Hann leit vel út en ég gat ekki reiknað út hversu langt hann var kominn í hlaupinu. Í þessari slaufu hljóp ég líka fram úr Gísla, líklega á 34. kílómetranum. Honum hafði gengið ágætlega framan af hlaupinu en þarna sagðist hann vera „alveg búinn á því“. Seinni parturinn í maraþoni leikur marga grátt. Sjálfur var ég orðinn býsna þreyttur og farinn að hlakka mikið til að ljúka hlaupinu. En mér leið nú samt bara ágætlega.

Ég held að þessi mynd sé tekin á háskólasvæðinu. Maðurinn í græna bolnum var lengi rétt á undan mér. Ég á einmitt líka svona bol. Hann er úr Parísarmaraþoninu í fyrra. (Ljósm. Marathon Photos).

Ég held að þessi mynd sé tekin á háskólasvæðinu. Maðurinn í græna bolnum var lengi rétt á undan mér. Ég á einmitt líka svona bol. Hann er úr Parísarmaraþoninu í fyrra. (Ljósm. Marathon Photos).

Eftir 35 km sýndi klukkan 2:34:59 mín. Ég mundi ekki 35 km tímann frá „methlaupinu“ mínu í fyrra, en eftir á að hyggja var ég enn 2 mín á undan þeirri áætlun. Síðustu 5 km höfðu verið á 22:49 mín (4:34 mín/km). Vissulega var farið að hægjast á mér, en þetta var alls ekkert hrun og möguleikinn á bætingu enn til staðar. Ég hugsaði með mér að ég gæti hreinlega ekki þurft meira en 36 mín. til að klára hlaupið. Þá yrði lokatíminn 3:11. Ákvað að það væri versta mögulega niðurstaða og að líklega yrði ég alla vega undir 3:10.

35-37 km
Ég hef svolítið dálæti á 37 km markinu í maraþonhlaupi, af því að þá eru bara 5 km eftir. Millitíminn þarna var 2:44:18 klst., sem mig minnti að væri alla vega um mínútu betri tími en í fyrra. Það var rétt munað, ég var enn með 1:14 mín í plús miðað við „methlaupið“. Það gat varla verið mikið mál að ljúka þessum 5,2 km sem eftir voru á 26 mín. Ég myndi þá enda á rúmlega 3:10 hvernig sem allt slægist. Það var bara fínt.

37-40 km
Kílómetramerkin liðu enn furðu fljótt hjá. Ég tók ekki mikið eftir umhverfinu, en sums staðar var fólk meðfram brautinni og jafnvel ein og ein trommusveit. Mig minnti að tíminn minn eftir 40 km í fyrra hefði verið rúmlega 2:58 klst. Núna reyndist hann vera 2:58:21 klst. Síðust 5 km höfðu liðið á 23:22 mín (4:40 mín/km) og síðustu 10 á 46:11. Ég dró þá ályktun að til þess að bæta mig þyrfti ég að hlaupa síðasta spölinn a.m.k. jafnhratt og í fyrra. Taldi það ólíklegt eða næstum ómögulegt, því að þá var einhver óskiljanlegur léttleiki með í för sem ég fann ekki núna. Eftirá sá ég reyndar að þarna var ég enn með 34 sek. í plús. Þá tölu hefði verið gott að hafa í kollinum síðasta spölinn. Málið snýst nefnilega býsna mikið um að telja hausnum trú um að það sé vel þess virði að erfiða svolítið í stað þess að slaka á og sætta sig við orðinn hlut.

40-42,2 km
Það er ótrúlega gaman að eiga bara stuttan spöl eftir, en þessi stutti spölur getur oft reynst lengri en maður ætlar. Rétt eftir 40 km markið fékk ég smávegis krampa aftan í vinstra lærið, eitthvað sem ég hafði hreinlega ekki búist við. Þetta sló mig dálítið út af laginu, bæði andlega og líkamlega. Alla vega neyddist ég til að labba nokkur skref og eftir að krampar hafa gert vart við sig getur maður varla leyft sér miklar rósir. Hraðabreytingar eru til dæmis varasamar. Þarna fannst mér möguleikinn á bætingu gufa upp, en ég var samt bara nokkuð sáttur. Hvernig sem allt veltist myndi þetta verða næstbesta maraþonið mitt frá upphafi og lokatíminn varla langt frá 3:09 klst. Það er bara vanþakklæti að vera óánægður með það.

Ég á Excel-skjal í fórum mínum þar sem ég held m.a. utan um tímana á síðustu 2,2 kílómetrunum í öllum mínum maraþonhlaupum. Ég veit að bestu tímarnir liggja nálægt 10 mínútum, en smáatriðin mundi ég ekki þarna á götunni í München. Hvað sem því leið ákvað ég að njóta síðustu stundarinnar til hins ýtrasta. Framundan voru undirgöngin inn á Ólympíuleikvanginn og tilhlökkunin að hlaupa þar inn hafði glatt hugann allan daginn.

Hlaupið inn á Ólympíuleikvanginn í einlægri gleði og diskóljósum., (Ljósm. Marathon Photos).

Hlaupið inn á Ólympíuleikvanginn í einlægri gleði og diskóljósum., (Ljósm. Marathon Photos).

Og allt í einu var stundin runnin upp. Völlurinn opnaðist í allri sinni dýrð með háværri tónlist og fagnaðarópum. Síðustu 300 metrarnir liðu eins og í draumi og ég átti nóga orku eftir í góðan endasprett. Hræðslan við að krampinn tæki sig upp var gleymd og tilfinningin í fótunum bara eins og á góðri sprettæfingu hjá Flandra á mánudegi, enda var ég ekki nema rétt um eina mínútu að skeiða síðustu 300 metrana. Veifaði auðvitað svolítið til áhorfenda og svona, enda þess fullviss að þeir væru allir að fagna mér. Vissi að Björk sæti þarna einhvers staðar uppi í stúkunni, en mannfjöldinn og hávaðinn var miklu meiri en svo að ég kæmi auga á hana eða heyrði hvatningarhrópin. En það var svo sem aukaatriði. Aðalatriðið var að vita af henni þarna.

Kominn inn á völlinn. Um 250 m eftir í mark. Gaman hjá mér. (Ljósm. Marathon Photos).

Kominn inn á völlinn. Um 250 m eftir í mark. Gaman hjá mér. (Ljósm. Marathon Photos).

Horft yfir Ólympíuleikvanginn þar sem hlauparar hvíldu sig á (gervi)grasinu. Eitt skref eftir inn á beinu rauðu brautina. (Ljósm. Björk Jóhannsd).

Horft yfir Ólympíuleikvanginn þar sem hlauparar hvíldu sig á (gervi)grasinu. Eitt skref eftir inn á beinu rauðu brautina. (Ljósm. Björk Jóhannsd.).

Síðustu metrarnir! (Ljósm. Marathon Photos).

Síðustu metrarnir! (Ljósm. Marathon Photos).

Þegar ég kom inn á beinu brautina sá ég á markklukkunni að bæting var ekki lengur í spilunum. En þetta var samt ótrúlega gaman, algjör sigurstund barasta. Kom í markið á 3:08:30 mín, þ.e. ekki nema 11 sek frá besta tímanum mínum. Síðustu 2,2 kílómetrarnir höfðu sem sagt verið 45 sek. hægari en í fyrra, en hverjum var ekki sama. Hlaupið var búið og mér leið vel, bæði í sál og líkama.

Á Ólympíuleikvanginum
Inni á Ólympíuleikvanginum var allt fullt af hlaupurum sem ráfuðum um gervigrasið, misvel á sig komnir, að ógleymdu öllu starfsliðinu sem var boðið og búið að rétta manni hjálparhönd. Veitingaborðin biðu í röðum með vatni, léttöli, saltkringlum, ávöxtum og kökum og veðrið var eins og á besta sumardegi heima á Íslandi. Fljótlega rakst ég á Óskar Jakobsson, sem var nýkominn í mark, fyrstur Íslendinga. Hann hafði lent í erfiðleikum í síðari hluta hlaupsins rétt eins og Gísli sem kom til okkar nokkrum mínútum síðar. Líklega var hitastigið orðið aðeins of hátt fyrir Íslendingana, enda stóð mælirinn í 18-20 gráðum.

Við Óskar og Gísli komum okkur vel fyrir á gervigrasinu og smátt og smátt tíndust fleiri Íslendingar inn á blettinn sem við höfðum helgað okkur. Fæstir höfðu náð markmiðum sínum í hitanum, en á því voru þó einstaka undantekningar. Gunnar Viðar skilaði sér áður en langt um leið. Hann bætti sig um 12 mínútur og kláraði hlaupið á 3:35:33 klst. Hafði reyndar stefnt á enn meiri bætingu, en árangurinn var samt framúrskarandi miðað við aðstæður allar.

Ég vissi það ekki þá en ég veit það núna að ég endaði í 381. sæti af 4.950 körlum sem tóku þátt í hlaupinu, en í 407. sæti af 6.227 ef konurnar eru taldar með. Í flokki 55-59 ára karla var ég í 9. sæti af 324.

Endurfundir!

Endurfundir! (Ljósm. Kristín Ólafsd.).

Eftir hlaupið
Eftir að hafa notið samvistanna við hina Íslendingana á vellinum, góða veðursins og veitinganna, röltum við Gunnar af stað yfir brúna neðan af gervigrasinu út fyrir áhorfendapallana. Næsta verkefni var að finna fatapokann minn og símann sem þar var geymdur. Það gekk vel og skömmu síðar vorum við búnir að hafa upp á Björk og Kristínu sem biðu okkar á grasbala þarna rétt fyrir utan. Þar urðu fagnaðarfundir, enda ekkert sjálfsagt að maður njóti þeirra forréttinda að manns nánustu geti fylgt manni í hlaup og stutt mann á alla lund. Og þá var ekkert annað eftir en að rölta út á sporvagnastöðina og koma sér niður á hótel í sturtu og almenna slökun.

Ferðalok
Münchenferðinni lauk ekki í markinu á Ólympíuleikvanginum. Um kvöldið safnaðist hópurinn sem var þarna á vegum Bændaferða saman á veitingastað eigi alllangt frá hótelinu til að fagna góðum árangri og snæða góðan mat. Mánudagurinn var svo notaður í borgarrölt og slökun og á þriðjudagsmorgni var haldið heim á leið. Að baki var einstaklega vel heppnuð ferð. Auðvitað voru hlaupararnir eitthvað missáttir við eigin árangur eins og gengur, en allir voru þó örugglega sáttir við framkvæmdina, bæði á hlaupinu sjálfu sem var í afar styrkum höndum Þjóðverjanna og ekki síður á ferðalaginu í heild. Þar fá Bændaferðir og Sævar fararstjóri hæstu einkunn sem völ er á. Það er talsvert auðveldara að fara í svona ferð og þurfa ekki að hugsa um neitt annað en að hlaupa, heldur en að þurfa líka að vasast í að leysa öll þau mál sem upp kunna að koma og fást við öll þau óvæntu atvik sem geta angrað mann á ferðalögum um ókunnar slóðir. Sævar létti þessu öllu af okkur hinum í þessu ferðalagi.

Ketilbjalla og þolinmæði
Ég náði ekki takmarkinu mínu í þessu hlaupi, en 12 sekúndna frávik er minna en svo að það spilli gleðinni. Auðvitað getur maður alltaf valið hvort glasið sé hálffullt eða hálftómt. Mitt glas var augljóslega hálffullt, eða kannski meira. Þessar 12 sekúndur voru alla vega ekki nema 0,1% af heildartímanum í maraþoninu. Þetta gekk með öðrum orðum eins og í sögu. Og þá er eðlilegt að spurt sé hver hafi verið lykillinn að velgengninni. Vissulega vantaði mig nokkrar langar æfingar í undirbúninginn, en á móti komu ketilbjölluæfingarnar sem eflaust skiluðu sínu þrátt fyrir allan sinn einfaldleika. Og ætli þolinmæðin eigi ekki líka sinn stóra þátt í þessu. Mér liggur nefnilega ekkert á. Fyrst ég bætti mig ekki í þessu hlaupi, þá geri ég það bara seinna. Ég hef nógan tíma. Í langhlaupum er hvergi hægt að stytta sér leið, hvorki á brautinni sjálfri né í undirbúningsferlinu. Óþolinmæði kallar á meiðsli og þá frestast gamanið enn um sinn. Meira er ekki alltaf betra.

Eitt svar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: