• Heimsóknir

    • 126.882 hits
  • desember 2025
    S M F V F F S
     123456
    78910111213
    14151617181920
    21222324252627
    28293031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Hugsað um hreyfiseðla

Það gladdi mig mjög að lesa um það í Fréttablaðinu sl. þriðjudag, að nú hillti undir það að jafnvel á Íslandi muni hreyfiseðlar í ákveðnum tilvikum taka við af lyfseðlum. Gaman væri að heyra meira af þessu, hvar málið sé statt í kerfinu, hvenær búast megi við að hreyfiseðlar verði orðnir almennur valkostur og hvernig ætlunin sé að standa að þessu.

Mitt í þessum þönkum mínum rakst ég sem oftar inn á heimasíðu sveitarfélagsins Landskrona í Svíþjóð, og þar fann ég einmitt eitt dæmi um það hvernig svona nokkuð gæti litið út í framkvæmd. Í Landskrona hefur verið unnið með hreyfiseðla síðustu 5 ár, og á síðasta ári var kerfið orðið nokkurn veginn tilbúið til notkunar. Kerfið í Landskrona byggir á samstarfi margra aðila, þ.á.m. sveitarfélagsins, sjúkrahússins, heilsugæslustöðva, íþróttafélaga og líkamsræktarstöðva. Hreyfiseðlar sem gefnir eru út af læknum gilda þá sem afsláttarmiðar í tilteknar íþrótta- og líkamsræktarstöðvar og á tiltekin námskeið, allt samkvæmt sérstakri gjaldskrá sem birt er á heimasíðu sveitarfélagsins.

Unnið hefur verið með hreyfiseðla árum saman í Svíþjóð, og reyndar líka í Noregi og Danmörku. Í Svíþjóð er í þessu sambandi talað um „Fysisk aktivitet på recept“ eða „FaR“, sem er skrásett vörumerki þar í landi. Norðmenn hafa reyndar farið örlítið aðra leið, eða öllu heldur útvíkkað hugtakið. Þar er talað um „græna lyfseðla“ („Grønn resept“) og litið á aðstoð til að breyta reykingavenjum og lífsstíl sem hluta af pakkanum. Íslendingar hafa verið skrefinu á eftir frændum sínum í þessum efnum, en þó eru nokkur ár síðan fyrst var farið að ræða hugmyndir af þessu tagi, m.a. í kynningum Landsskrifstofu Staðardagskrár 21 á meðan hún var starfrækt. Flest bendir til að hér leynist stórkostleg tækifæri til úrbóta hvað varðar meðferð þunglyndis og annarra geðrænna vandamála. Steindór J. Erlingsson vísindasagnfræðingur bendir t.d. á það í grein sinni í Fréttablaðinu í gær, að á síðustu 20 árum hefur tíðni örorku vegna geð- og atferlisraskana nánast tvöfaldast hérlendis, á sama tíma og ávísun þunglyndislyfja og annarra geðlyfja hefur aukist upp í það að vera með því mesta sem þekkist í heiminum. Í grein sem þrír íslenskir læknar birtu í tímaritinu British Journal of Psychiatry 2004 kom fram að ekkert benti til að gríðarleg aukning í notkun þunglyndislyfja á Íslandi hefði leitt til bættrar geðheilsu þegar á heildina er litið. Því væri þörf á að leita annarra og betri úrræða. Dr. Vilhjálmur Ari Arason gerir þetta sama mál að umtalsefni í ágætu bloggi sínu á Eyjunni í gær.

Ég bíð spenntur eftir næstu fréttum af íslenskum hreyfiseðlum.

Hanastélsáhrifin vanmetin

Við umgöngumst daglega fjöldann allan af tilbúnum efnum á heimilum okkar og vinnustöðum. Sum þessara efna eru skaðleg umhverfi og heilsu, en sem betur fer hittum við þau sjaldan fyrir í nógu miklum styrk til að hin skaðlegu áhrif komi fram. Til að vernda okkur enn frekar hafa opinberir aðilar gefið út leiðbeiningar um hámarksstyrk margra þessara efna í tilteknum neytendavörum og/eða heilsufarsmörk sem segja til um hámarksstyrk efnanna í umhverfi okkar. Helsti veikleikinn í þessu ágæta kerfi er sá, að heilsufarsmörkin gilda alla jafna um hvert efni fyrir sig, en taka ekki tillit til þeirra samanlögðu áhrifa sem við verðum hugsanlega fyrir þegar við umgöngumst fleiri efni á sama tíma. Þetta er það sem gjarnan er kallað „cocktail effect“ á erlendum málum eða „hanastélsáhrif“ í hrárri þýðingu.

Á heimasíðu dönsku upplýsingamiðstöðvarinnar um umhverfi og heilsu (IMS) eru hanastélsáhrif skilgreind sem „samanlögð áhrif sem fólk verður fyrir þegar það umgengst fleiri en eitt varasamt efni samtímis, þar sem hvert efni um sig er ekki til staðar í nægum styrk til að hafa áhrif

Lítið hefur verið fjallað um hanastélsáhrif hérlendis. Þó var þetta fyrirbæri nefnt lauslega í „Orðum dagsins” á heimasíðu Staðardagskrár 21 á Íslandi á sínum tíma, t.d. þann 21. febrúar 2008. Þar var vísað í fréttatilkynningu frá Tækniháskóla Danmerkur DTU, þar sem fram hafði komið að „hormónatruflandi efni, sem hvert um sig er óskaðlegt í litlum skömmtum, geta í sameiningu valdið hættulegum „hanastélsáhrifum“ (e: Cocktail effects) sem m.a. geta endurspeglast í vansköpuðum kynfærum nýfæddra karldýra“. Því væri „nauðsynlegt að taka meira tillit til „hanastélsáhrifa“ við áhættumat á efnavörum“. Þá hefur Neytendablaðið fjallað um þessi mál, m.a. í 1. tbl. 2010, bls. 14-15.

Það er hollt að rifja þetta upp núna þegar hugsanleg áhrif díoxíns á heilsu fólks eru til umræðu. Kannski er styrkur þess alls staðar innan heilsufarsmarka, en dæmið gæti litið öðru vísi út ef líka væri hægt að skoða í hve miklum mæli fólk umgengst önnur efni samtímis. Af nógu er að taka – og þarf ekki díoxín til. Þar má nefna parabena, BPA, þalöt, brómeruð eldvarnarefni, PFOA, PFOS, azo-liti, resorcinol eða jafnvel PCB, svo eitthvað sé nefnt.

Þetta hljómar sjálfsagt allt sem hálfgerð „latína, sem hjálpar venjulegu fólki ekki neitt“. Öll erum við frekar venjulegt fólk, og flest eigum við það sameiginlegt að nota helling af efnum dags daglega, m.a. í snyrtivörum, án þess að velta fyrir okkur hugsanlegum neikvæðum samlegðaráhrifum efnanna á heilsu okkar. Framleiðendur keppast við að nota ólíklegustu efni í vörurnar sínar til að gefa þeim rétta virkni, lykt eða áferð. Og allt á þetta að gera okkur fallegri, hraustari og hamingjusamari. Skuggahliðarnar eru sjaldnar nefndar.

Og hvað er þá til ráða? Hvernig á að hegða sér í þessum flókna efnaheimi, þar sem sjaldnast er til neitt eitt rétt svar, og því síður að einhver geti eða vilji segja manni hvert það er. Hér sem víðar er varúðin aðalatriði. Besta leiðin er að draga úr notkun tilbúinna efna í daglegu lífi, og næstbest að velja alltaf umhverfismerkt eða lífræn vottuð efni, ef efni eru keypt á annað borð.

Leynist PCB í íslenskum húsum?

Ég hef lengi velt fyrir mér þeirri þögn sem ríkir hérlendis um hættuna sem kann að stafa af PCB í gömlum byggingum. Annað hvort hljótum við að vera svo blessunarlega laus við þetta vandamál, að það taki því ekki að ræða það, enda þótt norrænir nágrannar okkar virðist hafa af þessu miklar áhyggjur hver heima hjá sér, eða þá að í okkur blundar meira kæruleysi og þekkingarskortur en hollt er. Ég get ekki lagt dóm á það hvor skýringin sé líklegri. Samt finnst mér hæpið að við getum afskrifað allar áhyggjur fyrr en við erum búin að kanna málið svolítið. Það hefur ekki verið gert mér vitanlega.

Hvar er þetta PCB?
PCB getur leynst víða í gömlum byggingum, svo sem í fúgumassa og í lími og þéttingum í tvöföldu gleri. Kannski er þetta stærra vandamál á hinum Norðurlöndunum en hér, vegna þess að þar er miklu hærra hlutfall bygginga gert úr hleðslusteini, og þar af leiðandi leynist miklu meiri fúgumassi í þarlendum byggingum en íslenskum. En einangrunargler og lím var jú notað á Íslandi líka á þeim tíma sem slíkar vörur innihéldu verulegt magn af PCB.

Vangaveltur um íslenskt gler
Í athugun sem ég gerði fyrir Félagsbústaði hf. á árunum 2001-2003 komst ég að því að rík ástæða væri til að ætla að „flestar gerðir samsetningarlíms og a.m.k. nokkrar þeirra kíttistegunda, sem notaðar voru við framleiðslu og ísetningu einangrunarglers hérlendis á árunum 1956-1980, og hugsanlega lengur, hafi innihaldið PCB, þar sem efnið var mjög almennt notað sem mýkingarefni fram eftir 8. áratug 20. aldar“. Eftir að hafa lesið mér svolítið til um innlenda glerframleiðslu á þessum árum taldi ég mig geta staðhæft að PCB hefði komið við sögu í framleiðslu og ísetningu á öllu einangrunargleri hérlendis á umræddu tímabili. PCB var á þessum tíma m.a. að finna í lími og kítti úr Thiokolefnum, sem notað var við samsetningu á CUDO-gleri og væntanlega einnig við ísetningu á CUDO-gleri og Glerborgargleri. Vitað er að á árunum í kringum 1970 innihéldu þessi Thiokolefni um 1-40% PCB, sem í því tilviki var notað sem mýkingarefni. PCB var líka í efninu PRC 408, sem notað var við samsetningu á Glerborgargleri og gleri frá Íspan. Sömuleiðis innihéldu þéttiefnin Bostic-vulkfil og Bostic Vulkseal (103 og 104) talsvert magn af PCB. Með einföldum útreikningum komst ég að því að hérlendis gætu tugir tonna af PCB hafa leynst í byggingum sem reistar voru eða endurbættar á árunum 1956-1980, en líklega væri mikill meirihluti þessa efnis þegar sloppinn út í umhverfið, m.a. vegna þess að íslenskt einangrunargler sem framleitt var um þetta leyti þótti ekki sérlega endingargott.

Hvað svo?
Nú eru bráðum 10 ár síðan þessum PCB-pælingum mínum lauk. Ég veit ekki til að hérlendis hafi neinn aðhafst neitt í þessum málum síðan þá, nema hvað iðnaðarmenn og húseigendur hafa haldið áfram að skipta út gömlu einangrunargleri og koma því til urðunar, óvarðir að öllu leyti, á sama tíma og norrænir kollegar þeirra stunduðu sömu iðju íklæddir einhverju sem líkist meira geimfarabúningi en gallasamfestingi frá Vinnufatabúðinni.

Varúðarreglan
Hér er rétt að endurtaka og undirstrika að ég hef ekki hugmynd um hversu mikil hætta leynist enn í PCB-menguðum byggingum á Íslandi. En ég er samt ekki í vafa um að hættan er til staðar, a.m.k. á meðan enginn hefur kannað málið og sýnt fram á að svo sé ekki. Hér ætti Varúðarreglan að gilda sem víðar.

Hvað segir Gúgúl?
Fyrr í dag gerði ég afar óformlega könnun á því á Google hversu oft PCB í byggingum ber á góma á íslenskum og norrænum vefsíðum. Sú könnun felur auðvitað ekki í sér neinn stóran sannleik, en gefur þó vísbendingu um hvort málið sé yfirleitt á dagskrá. Niðurstöðurnar voru þessar:

  • Leitarorðið „PCB í byggingum“ (væntanlega aðallega íslenskar vefsíður) gaf 7 svör (sem öll tengdust mér eða Norrænu ráðherranefndinni).
  • Leitarorðið „PCB i bygg“ (væntanlega aðallega norskar vefsíður) gaf um 1.600 svör.
  • Leitarorðið „PCB i bygninger“ (væntanlega aðallega danskar vefsíður) gaf um 6.620 svör.
  • Leitarorðið „PCB i byggnader“ (væntanlega aðallega sænskar vefsíður) gaf um 19.700 svör.

Af Dönum og Svíum
Ég gaf mér ekki tíma til að skoða allar þær vefsíður sem þarna var vísað í. En það sem fyrst vakti þó athygli mína voru harðorð skrif í Ingeniøren í Danmörku, þar sem umhverfisráðherrann Karen Ellemann er sökuð um að hunsa álit sérfræðinga með því að neita að setja lög um að PCB skuli fjarlægt úr byggingum. Umræddir sérfræðingar telja brýnt að gerð verði landsáætlun um það hvernig staðið skuli að hreinsuninni og vísa þar m.a. til fordæmis Svía. Þar voru reglugerðarákvæði um þessi mál skerpt á síðasta ári, með sérstakri áherslu á skyldu húseigenda til að greina PCB í byggingum og láta fjarlægja það innan tilskilins frests.

Niðurstaða
Niðurstaða mín er þessi: Það getur vel verið að PCB í byggingum sé ekkert vandamál á Íslandi. En efnið var samt notað hér á sínum tíma, og meðan ekki hefur verið sýnt fram á að það finnist ekki í skaðlegu magni, þá er ástæða til að óttast að svo sé. Varúðarreglan á að gilda í þessu sem öðru.

Lokaorð
Það skyldi þó aldrei vera að við höfum sofið á verðinum – og sofum enn.

(Meiri upplýsingar um þessi mál er m.a. að finna í rúmlega ársgömlu bloggi sem ég skrifaði eftir að hafa gluggað í danskt blað, og svo náttúrulega á þessum nokkurþúsund vefsíðum sem nefndar voru hér að framan, þ.á.m. í Ingeniøren og á heimasíðu sænsku umhverfisstofnunarinnar (Naturvårdsverket). Ef einhvern langar að fræðast enn meira get ég líka bent á norrænar skýrslur um málið, svo og aðrar norskar, danskar og sænskar heimildir).

Þalöt í plastskóm

Þalöt eru enn í einhverjum mæli notuð sem mýkingarefni í neytendavörur úr plasti, svo sem skó. Þetta kom fram í nýlegri rannsókn á vegum Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen), en þar var leitað að tilteknum þalötum í plastsandölum fyrir börn og fullorðna. Þalöt fundust í einhverjum mæli í tæplega helmingi þeirra 60 skópara sem rannsóknin náði til, ýmist í sólunum eða í böndunum.

Hvað eru þalöt?
Þalöt eru sem fyrr segir gjarnan notuð sem mýkingarefni í plast, aðallega PVC-plast,  (sem auðkennt er með tölustafnum „3“ í þar til gerðum þríhyrningi). Þalöt eru hópur efna, sem ýmist geta truflað hormónastarfsemi líkamans eða eru grunuð um að hafa slík áhrif. Þau þykja þess vegna ekki æskileg í varningi sem fólk er í náinni snertingu við. Innan Evrópusambandsins er bannað að nota slík efni í leikföng fyrir börn yngri en þriggja ára.

Engar nýjar fréttir
Það er svo sem ekkert nýtt að hættuleg efni finnist í plastskóm. Sumarið 2009 (ef ég man rétt) birtu t.d. sænsku náttúruverndarsamtökin Naturskyddsföreningen fremur sláandi niðurstöður um eiturefnainnihald í svonefndum Crocskóm og nokkrum öðrum tegundum skófatnaðar úr plasti.

Hvað er til ráða?
En hvernig geta neytendur þá forðast þessi efni? Það er í raun ekki sérlega auðvelt. Naturskyddsföreningen og Danska upplýsingamiðstöðin um umhverfi og heilsu (IMS) hafa þó gefið út leiðbeiningar hvað þetta varðar. Hér verða tínd til nokkur atriði þaðan:

  • Kaupið umhverfismerkta skó, t.d. með Umhverfismerki Evrópusambandsins (Blóminu), (þeir eru til, en kannski vandfundnir)
  • Kaupið skó úr lífrænt vottuðum hráefnum eða úr endurunnu efni, sé slíkt fáanlegt
  • Spyrjið hvort framleiðandinn sé með umhverfisvottun
  • Veljið skó og gúmmístígvél án PVC, t.d. úr náttúrulegu gúmmíi
  • Veljið leður sem er sútað með jurtum eða án þess að notað sé þrígilt króm
  • Spyrjið í búðinni hvort skórnir innihaldi efni sem eru á lista Evrópusambandsins yfir hættuleg efni eða á svonefndum „kandídatlista“
  • Látið gera við skóna ykkar í stað þess að kaupa nýja
  •  

Verum dugleg að spyrja!
Það er ekki alltaf auðvelt að vera neytandi, sérstaklega í landi þar sem neytendavitund er enn í bernsku. Þess vegna eigum við að vera enn duglegri en ella að spyrja. Kannski fáum við ekki alltaf rétt eða greinargóð svör í búðum, en ef við spyrjum ekki, frétta seljendurnir aldrei að okkur sé ekki sama!

Lokaorð um díoxín og fleira
Svona í lokin er rétt að minna á að skór eiga ekki að enda ævi sína í ruslatunnum fyrir óflokkaðan úrgang. Skilið þeim endilega í fatagáma. Suma þeirra er nefnilega hægt að endurnýta, og svo innihalda þeir oft efni sem eru skaðleg fyrir náttúruna til langs tíma litið og eiga því ekkert erindi á urðunarstaði. Og af því að díoxín er vinsælt umræðuefni þessa dagana, þá sakar ekki að ítreka að plastskó ætti aldrei að brenna við opin eld. PVC er nefnilega gott hráefni í díoxínframleiðslu.

Ólögleg fosföt í saltfiski

Saltfiskur - mynd af heimasíðu RÚVÍ kvöld var sagt frá því í útvarps- og sjónvarpsfréttum RÚV að öllum starfsmönnum fiskverkunar Karls Sveinssonar á Borgarfirði eystri hefði verið sagt upp störfum í dag. Ástæðan kvað einkum vera sú að saltfiskur frá Karli væri ekki lengur samkeppnishæfur í útflutningi, þar sem hann hafi ekki viljað sprauta fiskinn með hvítunarefni, eins og aðrir íslenskir saltfiskverkendur hafi gert síðustu ár, þrátt fyrir að notkun efnisins sé bönnuð í saltfiskvinnslu. Mér þykir þetta mál einkar athyglisvert, hvernig sem á það er litið, og ætla að velta upp nokkrum hliðum þess í þessum pistli.

Hvaða efni er þetta?
Hvítunarefnið sem um ræðir er fjölfosfat (e: polyphosphate) sem selt er undir nafninu Carnal, (líklega Carnal 2110). Eftir því sem ég kemst næst er þar um að ræða natríumkalíumfjölfosfat, þ.e.a.s. efnasamband sem sett er saman úr natríum- og kalíumfosfötum með fleiri en þrjá fosfathópa í hverri sameind.

Til hvers er efnið notað?
Eins og fyrr segir er umræddu efni sprautað í fisk til að gera hann hvítari. Efnið hefur fyrst og fremst áhrif á yfirborð fisksins, en breytir sem slíkt ekki gæðum hans eða bragði. Það gerir yfirborð fisksins sleipara, sem getur auðveldað pökkun og aðra meðhöndlun. Auk þess dregur það úr útstreymi vatns. Sem slíkt þykir það eftirsóknarvert í fiskvinnslu, sérstaklega þegar unnið er úr lélegu hráefni. Lélegt hráefni heldur nefnilega ekki eins vel í sér vatni og ferskt og gott hráefni. Þetta þýðir m.a. að fiskafurðir úr lélegu hráefni verða enn ótútlegri en ella vegna vökvans sem lekur úr fiskinum og safnast í umbúðirnar. Fjölfosföt gera ekki lélegar fiskafurðir betri, en þau láta þær líta betur út.

Færri grömm af fiski í kílóinu!
Sem fyrr segir draga fjölfosföt úr útstreymi vatns úr fiski, sérstaklega lélegum fiski. Með því að nota þessi efni í fiskvinnslu fæst því eilítið þyngri afurð en ella. Í raun er þar verið að villa um fyrir kaupandanum hvort sem það er viljandi eða óviljandi, því að hvert meðhöndlað fiskstykki vegur þá þyngra en sambærilegt ómeðhöndlað stykki. Það eru bara færri grömm af fiski og fleiri grömm af vatni í hverju kílói!

Hver segir að þetta sé bannað?
Í 5. grein reglugerðar nr. 285/2002 um aukefni í matvælum er sett fram eftirfarandi meginregla: “Við tilbúning og framreiðslu matvæla er einungis heimilt að nota þau aukefni sem fram koma í viðauka II (aukefnalisti) og með þeim skilyrðum sem þar koma fram”. Aukefni er í þessu sambandi skilgreind sem “efni sem aukið er í matvæli til þess að hafa áhrif á geymsluþol, lit, lykt, bragð eða aðra eiginleika matvæla, […]. Í fullunninni vöru eru aukefni til staðar að öllu leyti eða að hluta, í breyttri eða óbreyttri mynd”. Fjölfosföt falla undir þessa skilgreiningu, enda virðist ljóst að í þeim tilvikum sem hér um ræðir sé þeim bætt í fiskinn til að hafa áhrif á lit hans (og e.t.v. rakaheldni). Við matvælaframleiðslu eru líka notuð svonefnd “tæknileg hjálparefni”, en það eru “efni sem notuð eru til að ná ákveðnum tæknilegum tilgangi í meðhöndlun eða vinnslu matvæla eða efnisþátta sem notaðir eru við framleiðslu þeirra, án þess að efnunum sé ætlað að koma fyrir eða hafa tæknileg áhrif í fullunninni vöru”. Munurinn á aukefnum annars vegar og tæknilegum hjálparefnum hins vegar skiptir máli í rökræðum um lögmæti efna, eins og síðar verður vikið að.

Og hvað með það?
Í umræddum viðauka II við reglugerð nr. 285/2002 kemur fram að nota megi fjölfosföt í ýmsar matvörur. Þegar 9. kafli viðaukans er skoðaður, en hann fjallar um leyfileg aukefni í fiski og fiskafurðum, kemur í ljós að tiltekin fosföt eru leyfð við tilbúning og framleiðslu á frosnum fiski, þ.m.t. aukefnið E452, (en ég geri ráð fyrir að Carnal falli í þann flokk). Hins vegar eru engin fosföt á skrá yfir leyfð aukefni í ferskum fiski og saltfiski. Það þýðir einfaldlega að í slíkri framleiðslu er notkun þessara efna bönnuð.

Hvers vegna er þetta bannað?
Reglugerð nr. 285/2002 um aukefni í matvælum er sett í samræmi við tilteknar Evróputilskipanir, sem ég ætla ekki að telja upp hér, en eru samviskusamlega tíundaðar í 18. grein reglugerðarinnar. Þar með er í raun búið að svara spurningunni um það hvers vegna þetta sé bannað. Aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) skyldar okkur einfaldlega til að hafa sambærilegar reglur um þetta og önnur ríki innan EES.

En eru þessi efni hættuleg?
Það getur vel verið að þessi efni séu hvorki skaðleg heilsu né umhverfi, en það skiptir í raun ekki máli í þessu sambandi. Ef menn telja sig geta sýnt fram á skaðleysi efnanna er sjálfsagt hægt að fá regluverki Evrópusambandsins breytt, en þangað til gilda þessar reglur, nema veitt sé sérstök undanþága frá þeim. Svo einfalt er það nú. Samkvæmt upplýsingum frá FAO (Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna) er reyndar ólíklegt að pólyfosföt hafi skaðleg áhrif á heilsu neytenda, þó að reyndar sé ekki hægt að útiloka neitt í því sambandi. Þessi efni skolast að einhverju leyti burt og brotna að mestu niður í einföld fosföt þegar fiskurinn er afvatnaður, eldaður og borðaður. Hitt er svo annað hvort það sé skynsamlegt að nota fosfór til að láta mat líta betur út, sérstaklega þegar haft er í huga að nýtanlegar fosfórbirgðir heimsins munu ganga til þurrðar á næstu áratugum og öldum, með býsna víðtækum afleiðingum fyrir mannskepnuna. En það er svo sem annað mál og efni í aðrar bloggfærslur.

Þáttur Matvælastofnunar
Matvælastofnun (MAST) á að sjá til þess að framleiðendur fylgi reglum um notkun aukefna við framleiðslu matvæla. Karl Sveinsson hefur bent á að þarna hafi MAST brugðist hlutverki sínu. Ekki er annað hægt en taka sterklega undir það sjónarmið. Vanræksla stofnunarinnar er enn meira sláandi þegar haft er í huga að þann 15. júní 2009 birtist frétt á heimasíðu MAST þess efnis að stofnunin hefði “fengið athugasemdir frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) er varðar notkun fjölfosfata (polyphosphates) í framleiðslu á saltfiski”. Þar sé sérstaklega “bent á viðauka II, en þar kemur fram hvaða aukefni má nota í fiskafurðir. Ekki er heimilt að nota fjölfosföt í ferskan eða saltaðan fisk, en heimilt er að nota fjölfosföt í frystan fisk og fiskafurðir. Undantekningalaust þá er skylt að merkja aukefni ef þau eru notuð”. Í fréttinni kemur líka fram að Matvælastofnun muni “frá og með 1. september 2009 ganga eftir því að þessi ákvæði séu uppfyllt”. Aðgerðaleysi Matvælastofnunar í þessu máli er því ekki yfirsjón heldur ásetningur gegn betri vitund. Svör starfsmanna við fyrirspurn fréttamanna RÚV í dag bæta ekki úr skák. Þar var viðurkennt að afstaða stofnunarinnar orkaði tvímælis, en “hefði Matvælastofnun gengið harðar fram en systurstofnanir á Norðurlöndunum hefði það geta skaðað íslenskan saltfiskiðnað. Yrði banninu framfylgt yrði íslenskur saltfiskur gulari en annar saltfiskur og ekki eins eftirsóttur”. Auðvitað á stofnunin að fylgja þeim reglum sem henni ber að vinna eftir, hvað sem systurstofnanir á Norðurlöndunum gera. Allt annað er bara fúsk!

SF með í ráðum?
Það vekur athygli að á heimasíðu Samtaka fiskvinnslustöðva (SF) kemur fram að samtökin bjóða upp á námskeið fyrir saltfiskverkendur í samvinnu við Rannsóknarþjónustuna Sýni ehf., þar sem m.a. er tekið fyrir: “Íblöndunarefni; salt og fosföt, eiginleikar og virkni”. Reyndar er ekkert við þetta að athuga, þar sem þarna er fjallað um eiginleika og virkni. Þeir sem starfa í greininni þurfa að sjálfsögðu að kunna skil á þessu. Væntanlega kemur líka fram á námskeiðinu að notkun fosfata sé óheimil í saltfiskvinnslu.

Neytendur plataðir
Eins og fram kom í fyrrnefndri frétt á heimasíðu MAST um aðfinnslur ESA er “skylt að merkja aukefni ef þau eru notuð”. Nú hef ég svo sem ekki kynnt mér hvort íslenskir saltfiskframleiðendur láti þess getið á umbúðum utan um fiskinn að hann innihaldi fosföt, (sem að vísu séu óleyfileg). En ég geri fastlega ráð fyrir að menn þegi yfir því. Sé það rétt til getið er brotið því tvíþætt. Annars vegar felst það í notkun efnanna og hins vegar í ófullnægjandi merkingum. Það getur svo sem vel verið að erlendar saltfiskætur vilji endilega kaupa svolítið af fosfötum og vatni með íslenska saltfiskinum, bara ef fiskurinn er vel hvítur. En það er þá alla vega lágmark að þeim sé sagt hvað þær eru að kaupa, enda “skylt að merkja aukefni”. Karl Sveinsson orðaði það svo í dag að hann hefði ekki viljað “fjárfesta í sprautusöltunarbúnaði fyrir 30 milljónir til þess að brjóta lög og plata saklaust fólk úti í heimi”. Það væri eitthvað sem Íslendingar hefðu víst gert nóg af. Í þessum orðum liggur reyndar að mínu mati enn einn mikilvægur punktur. Allt þetta á nefnilega að mínu mati rætur í því sama agaleysi og óheilindum sem sköpuðu forsendur fyrir hrun efnahagskerfisins.

Eru fosföt kannski bara tæknileg hjálparefni?
Matís ohf. og fleiri aðilar vinna nú að því með styrk frá AVS Rannsóknasjóði í sjávarútvegi að “safna og leggja fram upplýsingar um hvort viðbætt fosfat finnst í útvötnuðum saltfiski sem boðinn er neytendum til sölu í markaðslöndum og eyða þar með óvissu um hvort nota megi fjölfosföt sem tæknileg hjálparefni við verkun á saltfiski”. Markmið verkefnisins er að “tryggja stöðu saltfisks á mörkuðum á Spáni”. Takist að sýna fram á að fosfötin komi ekki fyrir í fullunninni vöru eða hafi tæknileg áhrif í henni, þá er hægt að halda því fram fosfötin séu “tæknileg hjálparefni” en ekki aukefni. Þá væri í raun ekki lengur tilefni til að banna notkun þeirra í saltfiskverkun. En notkun efnanna er augljóslega bönnuð þar til annað kemur í ljós. Og ef efnin gera fiskinn hvítari, hlýtur líka að vera erfitt að halda því fram að þau hafi ekki tæknileg áhrif í fullunninni vöru!

Hvað eiga heiðarlegir framleiðendur að gera?
Fréttirnar frá Borgarfirði eystri í dag minna okkur á, að það er erfitt að vera heiðarlegur í heimi þar sem flestir hafa rangt við. Ein leið út úr þeim vanda er hugsanlega að sækjast eftir alþjóðlegri vottun MSC (Marine Stewardship Council) á veiðar og vinnslu hjá viðkomandi fyrirtæki. Þar með opnast aðgangur að vaxandi og öruggum markaði þar sem greidd eru hærri verð og fúsk er í algjöru lágmarki. Um leið komast menn hjá því að keppa við aðila sem hafa rangt við. Ég get hins vegar ekkert fullyrt um það á þessu stigi hvort þessi leið sé fær í tilviki Karls Sveinssonar. Ég slæ þessu bara fram til umhugsunar.

Lokaorð
Það er erfitt að sætta sig við að þeim sem fylgja reglum sé refsað á meðan aðrir græða á að brjóta reglur og selja vörur með fölsuðu innihaldi – og það undir verndarvæng opinberra stofnana.

Helstu heimildir og frekara lesefni:

Um tímann og heilsuna

Um daginn skrifaði ég svolítið um vanmetin tækifæri til líkamsræktar. Nú ætla ég að halda áfram á sömu braut og nefna tvö lítil dæmi þar sem menn hafa keypt sig undan snúningum fyrir talsvert fé, gjarnan í nafni tímasparnaðar, án þess að huga að því hvort nokkur tími sparist í raun þegar upp er staðið og án þess að velta því fyrir sér hvort meintur tímasparnaður hafi kannski neikvæð áhrif á heilsuna.

Stórvirkar sláttuvélar
Ég bý í raðhúsi með u.þ.b. 100 fermetra grasflöt. Á svoleiðis grasflöt er óþarfi að beita stórvirkum vinnuvélum við slátt. Samt veit ég til þess að fólk með álíka stórar grasflatir hafi keypt sér þungar bensínknúnar garðsláttuvélar í heyskapinn fyrir tugi þúsunda. Sjálfur sníkti ég lítið notaða handsláttuvél fyrir 10 árum, sem hefur dugað mér ágætlega síðan, eingöngu knúin vöðvaafli. Með þessu móti hef ég sparað mér töluverð fjárútlát í tækjum, varahlutum og eldsneyti. Hins vegar hef ég líklega ekki fengið neitt meiri líkamsrækt út úr slættinum en bensínsvélafólkið, því að vélarnar þeirra eru jú þyngri og umsýslan öll snúningasamari.

Bændur á torfæruhjólum
Fjórhjól og sexhjól eru til margra hluta nytsamleg í sveitinni. En mig rekur alveg í rogastans þegar ég sé unga og ófatlaða bændur mjakast um á þessum hjólum í þeim tilgangi einum að spara sér sporin stuttar leiðir. Ég veit jafnvel dæmi þess að farið sé á svona hjólum milli húss og bæjar til gegninga, þó að vegalengdin sé ekki meiri en svo sem 100 eða 200 metrar! Og ég hef líka séð kúasmala á svona hjólum í hægagangi á eftir kúnum, sem eru þó yfirleitt ekkert að flýta sér á röltinu.

Lokaorð

  1. Ef maður á tvo valkosti, þar sem annar er betri fyrir fjárhaginn, heilsuna og umhverfið en hinn, hvorn velur maður þá?
  2. “Ef þú hefur ekki tíma fyrir heilsuna í dag, hefurðu ekki heilsu fyrir tímann á morgun”.

Vanmetin tækifæri til líkamsræktar

Líkamsrækt er til þess fallin að auka lífsgæði þeirra sem hana stunda, og um leið verður samfélagið örlítið sterkara. Hins vegar held ég að mörgum yfirsjáist upplögð tækifæri til líkamsræktar í daglega lífinu. Þessi tækifæri koma ekki í staðinn fyrir heimsókn í ræktina, sundsprett eða hlaupatúr, en þau styrkja grunninn og bæta heilsuna, séu þau nýtt. Hér á eftir verða nefnd nokkur tækifæri af þessu tagi.
 
Upp og niður stigann
Fólk venur sig á mismunandi hegðunarmynstur í daglegu amstri inni á heimilum. Reyndar sýnast mér flestir hafa tilhneigingu til að spara sér sporin innandyra eins og framast er hægt, til dæmis með því að fara sem fæstar ferðir milli herbergja eða upp og niður stigann, þar sem um slíkt er að ræða. Með þessu geta vissulega sparast nokkrar mínútur á sólarhring, en ætli það væri nú ekki samt hollara að taka hverju tækifæri til slíkrar hreyfingar fagnandi, vitandi það að hreyfingin er góð fyrir líkamann og sálina, þótt lítil sé? Einn frændi minn tók upp á því einu sinni að ganga með skrefateljara á sér. Í ljós kom að það hvernig hann hagaði daglegu amstri hafði veruleg áhrif á fjölda skrefa yfir daginn. Í stað þess að reyna að fækka skrefunum til að nýta tímann, legg ég til að fólk reyni að fjölga þeim, líka til að nýta tímann.
 
Í og úr vinnu
Sumir eru þeirrar gæfu aðnjótandi að búa sæmilega stutt frá vinnustaðnum sínum. Auðvitað er skilgreiningaratriði hvað teljist “sæmilega stutt”, en við mat á því má hafa í huga að vel frískt fólk getur gengið allt að 1 km á 10 mínútum. Ég þori alveg að fullyrða að í ferðum til og frá vinnu liggja mikil tækifæri til líkamsræktar. Tíu til tuttugu mínútna ganga tvisvar á dag, til og frá vinnu, ætti að vera viðráðanlegur skammtur af hreyfingu fyrir flesta, auk þess sem bílferðir á svo stuttum vegalengdum kalla á mikla eldsneytisnotkun með tilheyrandi mengun og kostnaði. Ekki er ólíklegt að maður þurfi um ¼ lítra af bensíni til að komast 1 km til vinnu á fólksbíl með kalda vél. Svoleiðis akstur kostar 100 kall á dag, eða um 2.000 kr. á mánuði. Þá peninga er vel hægt að nota í annað.
 
Auðvitað geta aðstæður í vissum tilvikum gert það ómögulegt að ganga í vinnuna. Þeim sem eiga vanda til að svitna mikið finnst t.d. ekkert óskaplega skemmtilegt að mæta rennblautir til vinnu. Og á vinnustaðnum er e.t.v. ekki aðstaða til baðferða og fataskipta. Aðrir eru hins vegar lausir við þetta vandamál og gætu sem best nýtt sér þetta tækifæri til líkamsræktar. Þegar allt kemur til alls tekur þessi ferðamáti heldur ekki endilega lengri tíma en bílferðin, alla vega ekki ef maður tekur tillit til þess tíma sem það tekur að vinna sér inn ráðstöfunarfé fyrir eldsneytinu.
 
Veðrið er oft nefnt sem ástæða þess að fólk gengur ekki í vinnuna þótt vegalengdin sé viðráðanleg. Auðvitað er veðrið misgott, en eins og einhver sagði, þá er kannski “ekki til vont veður, heldur bara lélegar yfirhafnir”. Yfirhafnir þurfa ekkert endilega að vera með fjögur hjól og 100 hestafla mótor!
 
Allt sem hér hefur verið sagt um göngu í og úr vinnu gildir að sjálfsögðu líka um hjólaferðir, nema hvað þar má auðveldlega komast lengri vegalengdir á sama tíma.
 
Skroppið í búðina
Að flestu leyti gilda sömu lögmál um hversdagslegar búðarferðir og um ferðir í og úr vinnu. Þar liggja sem sagt líka ónotuð tækifæri til líkamsræktar. Reyndar bætist þarna við nýtt viðfangsefni, nefnilega að koma vörunum heim. Svolítill burður eykur reyndar á líkamsræktina, en slíkum þolraunum eru þó einhver takmörk sett. Í þessu sambandi er til bóta að nota trausta taupoka með góðum höldum í stað teygjanlegra plastpoka sem fást við búðarkassana. Enn öflugra er þó að koma sér upp innkaupatösku á hjólum, sem hægt er að draga á eftir sér, eins konar flugfreyjutösku. Þá gerir lítið til þótt kílóafjöldinn sé kominn í tveggja stafa tölu.
 
Skroppið í ræktina
Er ekki einhver þversögn fólgin í því að fólk fari akandi stuttar vegalengdir heiman að frá sér í ræktina? Hér gildir auðvitað það sama og ég hef áður nefnt varðandi ferðir í og úr vinnu og hversdagslegar búðarferðir, allt að því tilskildu að vegalengdirnar séu viðráðanlegar. Til að undirstrika þessa þversögn ætla ég að enda þennan pistil með mynd sem ég tók einhvers staðar traustataki og hef gjarnan notað í fyrirlestrum um heilbrigðan lífsstíl og sjálfbæra þróun.

   

Góðir þessir rúllustigar!