• Heimsóknir

  • 114.237 hits
 • október 2021
  S M F V F F S
   12
  3456789
  10111213141516
  17181920212223
  24252627282930
  31  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Hættuleg efni í snyrtivörum

Krabbameinsvaldandi og hormónatruflandi efni í snyrtivörum voru til umfjöllunar í opnugrein í norska dagblaðinu (Dagbladet) í dag. Þar var m.a. bent á að ýmsar snyrtivörur innihaldi efni á borð við parabena, tríklósan og síloksön, sem hugsanlega geta valdið alvarlegu heilsutjóni ef þau berast inn í líkamann.

Þetta eru svo sem ekki nýjar fréttir. En slæmu fréttirnar eru þær að fjölbreytni efnanna eykst jafnt og þétt, og að áhrifin koma ekki fram fyrr en eftir langan tíma þegar of seint er orðið að bregðast við. Í þokkabót getur skaðsemin magnast vegna samverkandi áhrifa fleiri efna, ekki bara efna í snyrtivörum heldur líka í byggingarvörum, plasti, íþróttafatnaði o.s.frv. Þetta er það sem kallað eru „hanastélsáhrif“ (e. Cocktail effect) og er stundum lýst með stærðfræðijöfnunni 0+0+0=7.

Góðu fréttirnar eru hins vegar þær, að núorðið er auðvelt að finna snyrtivörur sem eru lausar við þessi skaðlegu efni. Fljótt á litið er þetta kannski ekkert áhlaupaverk, því að innihaldslýsingar eru sjaldnast auðlesnar eða auðskildar. Hér koma umhverfismerkin til hjálpar, t.d. Norræni svanurinn. Í hillum verslana er auðvelt að finna Svansmerktar snyrtivörur til flestra nota. Eins og fram kemur á heimasíðu Svansins í Noregi í dag, geta þarlendir neytendur til að mynda valið á milli 250 tegunda af svansmerktum kremum, sápum og sjampóum. Sjálfsagt er úrvalið eitthvað minna á Íslandi, en þó er af nógu að taka núorðið, jafnvel þótt engar íslenskar snyrtivörur séu svansmerktar enn sem komið er. Hins vegar fer úrvalið af íslenskum lífrænt vottuðum snyrtivörum stöðugt vaxandi. Þær eru líka algjörlega lausar við þessi varasömu efni.

Í leitinni að umhverfisvottuðum og lífrænt vottuðum snyrtivörum er hægt að styðjast við grænu síðurnar á Náttúran.is. Þeir sem eru læsir á norsku geta líka haft mikið gagn af www.erdetfarlig.no.

Þessi pistill er aðallega byggður á frétt á heimasíðu Svansins í Noregi í dag.

Smábörn þurfa heilbrigt umhverfi

Notið svansmerktar blautþerrur, þvoið ný föt fyrir notkun, sleppið því að lita á ykkur hárið og forðist þvottaefni með ilmefnum. Þetta ættu nýbakaðir foreldrar og þungaðar konur að hafa í huga, en þessi góðu ráð eru meðal þeirra sem finna má í nýjum bæklingi frá dönsku upplýsingamiðstöðinni um umhverfi og heilsu, sem kom út á dögunum.

Í daglegu umhverfi okkar er að finna mikið af alls konar efnum, sem geta verið skaðleg umhverfi og heilsu. Oft eru þetta efni sem bætt er í neytendavörur til að gefa þeim ákjósanlega áferð eða lykt, eða til þess að halda bakteríugróðri í skefjum, gera vöruna síður eldfima o.s.frv. Vörur sem eru sérstaklega ætlaðar smábörnum eru engin undantekning hvað þetta varðar. Lítil börn eru viðkvæmari en annað fólk fyrir efnum af þessu tagi, og óhófleg návist við þau getur aukið líkurnar á ofnæmi, ófrjósemi, krabbameini og öðrum kvillum síðar á lífsleiðinni. Þess vegna er mikilvægt að reyna að verja börnin eftir bestu getu. En foreldrum er vandi á höndum í þessu fyrirbyggjandi starfi, því að efnin leynast víða og upplýsingar um þau eru ekki alltaf aðgengilegar eða skiljanlegar.

Til þess að auðvelda foreldrum að búa börnunum sínum heilbrigt umhverfi hefur danska upplýsingamiðstöðin um umhverfi og heilsu (IMS) tekið saman bækling með yfirskriftinni Ren information om kemiske stoffer i produkter til gravide og små børn. Í bæklingnum eru m.a. góð ráð um brjóstagjöf, umhirðu smábarna og mæðra, snuð og pela, mat, bleyjur, leikföng, föt, inniloft og svefnaðstæður, svo eitthvað sé nefnt.

Hægt er að nálgast bæklinginn á heimasíðu IMS, forbrugerkemi.dk. Íslenskir foreldrar ættu að geta haft mikið gagn af þessu framtaki, enda flestir vel læsir á dönsku eftir 7 vetra dönskunám.
🙂

Bæklingur IMS um efni í vörum fyrir þungaðar konur og smábörn. (Smellið á myndina til að sækja pdf-útgáfu. Einnig er hægt að fletta bæklingunum á skjánum (sjá tengil ofar á þessari síðu)).

Á morgun fæ ég að vita það!

Morgundagurinn verður gleðidagur í lífi mínu sem neytanda, því að frá og með morgundeginum á ég rétt á því að vita hvort maturinn minn innihaldi erfðabreyttar lífverur eða efni unnið úr þeim. Á morgun tekur nefnilega gildi Reglugerð nr. 1038/2010 um merkingu og rekjanleika erfðabreyttra matvæla og erfðabreytts fóðurs.
 
Erfðabreytt matvæli???
Hingað til hef ég ekki haft hugmynd um hvort matvælin sem ég hef lagt mér til munns væru erfðabreytt eður ei, en með erfðabreyttum matvælum er átt við matvæli sem „innihalda eða samanstanda af erfðabreyttum lífverum eða eru framleidd úr eða innihalda innihaldsefni sem eru framleidd úr erfðabreyttum lífverum“, svo vitnað sé beint í reglugerðina. Ég hef bara vitað að meirihluti af öllum soja og maís sem kemur frá Bandaríkjunum er erfðabreyttur, og einhver lítill hluti af evrópskum maís líka. Og ég hef líka vitað að efni sem unnin eru úr maís finnast í ólíklegustu matvörum.

Hvernig verður þetta merkt?
Frá og með morgundeginum á það að sjást á umbúðum matvæla hvort þau innihaldi erfðabreytt efni, annað hvort með því að orðið „erfðabreytt“, komi fram innan sviga strax á eftir vöruheiti, þ.e.a.s. ef viðkomandi matvæli eru erfðabreyttar lífverur, eða þá með því að orðin „erfðabreytt“, eða „framleitt úr erfðabreyttu (nafn innihaldsefnisins)“ komi fram innan sviga strax á eftir viðkomandi innihaldsefni í innihaldslýsingu. Þessar upplýsingar mega reyndar líka koma fram í neðanmálsgrein við innihaldslýsingu, enda séu þær þá prentaðar með letri sem er að minnsta kosti jafnstórt og letrið á innihaldslýsingunni. Nú, og ef umbúðirnar eru engar eða svo litlar að upplýsingarnar komist ekki fyrir á þeim, þá eiga upplýsingarnar ávallt að vera sýnilegar þar sem matvælunum er stillt upp.

Hvernig verður þessu framfylgt?
Ef upp kemur rökstuddur grunur um að matvæli  sem ekki eru merkt samkvæmt framanskráðu innihaldi engu að síður erfðabreytt efni, þá ber framleiðendum eða seljendum að að leggja fram gögn sem staðfesta fjarvist slíkra efna. Nú, og svo eiga heilbrigðisnefndir sveitarfélaga undir yfirumsjón Matvælastofnunnar að hafa eftirlit með því að ákvæðum reglugerðarinnar sé framfylgt.

Gaman hjá mér á morgun!
Á morgun ætla ég í búðir að skoða kornflexpakka, kexpakka, örbylgjupopp og alls konar aðrar matvörur til að fræðast um útbreiðslu erfðabreyttra matvæla. Og í framhaldinu ætla ég að taka upplýstar ákvarðanir um það hvað ég borða og hvað ekki. Þetta verður gaman!

Pínulítil leiðrétting
Já, ég sagði víst framarlega í þessum pistli að ég hefði hingað til ekki haft hugmynd um hvort matvælin sem ég hef lagt mér til munns væru erfðabreytt eður ei. Þetta er reyndar ekki alveg rétt. Ég kaupi nefnilega oft lífrænt vottuð matvæli. Í þeim er aldrei neitt erfðabreytt efni.

Nokkur merki sem votta lífrænan uppruna matvæla. Í lífrænt vottuðum matvælum eru engin erfðabreytt efni.

Gleðilegar díoxínfréttir

Í gær birti Landlæknisembættið niðurstöður mælinga á díoxínmagni í blóði fólks sem búið hefur og unnið í nágrenni sorpbrennslustöðvanna þriggja sem um langa hríð hafa sleppt út díoxíni umfram það sem leyfilegt er samkvæmt regluverki Evrópusambandsins. Niðurstöðurnar hljóta að vera flestum fagnaðarefni, því að enda þótt nokkur hækkun hafi mælst í einhverjum tilvikum, var styrkur díoxíns í öllum tilvikum lægri en svo að hann sé talinn geta skaðað heilsu fólks.

Samkvæmt því sem fram kemur á heimasíðu Landlæknis var díoxínmagn í blóði 10 heilbrigðra einstaklinga frá Ísafirði og 10 frá Reyjavík mælt og notað til viðmiðunar. Notuð er mælieiningin píkógrömm díoxíns í  grammi af fitu (pg/g fitu), en 1 píkógramm er einn billjónasti úr grammi (0,000000000001 g). Viðmiðunargildið frá Reykjavík reyndist vera 9,7 pg/g fitu, en 10,2 pg á Ísafirði. Þetta er í góðu samræmi við það sem gengur og gerist á Norðurlöndunum. Díoxínmagn í blóði starfsmanna við brennsluofnana og íbúa í næsta nágrenni mældist hins vegar á bilinu 2,7–16,2 pg/g fitu.

Þetta þykja mér gleðitíðindi! Mér sýnast þessar tölur gefa nokkuð góða tryggingu fyrir því að fólkið sem dvalið hefur næst þessum díoxínuppsprettum þurfi ekki að óttast að heilsa þess bíði tjón vegna mengunarinnar sem það hefur búið við, hvorki nú né síðar á ævinni. Í frétt á visir.is í dag kemur fram að Bandaríkjamenn miði við 25-30 pg/g fitu sem heilsuverndarmörk, og í allstórri japanskri rannsókn  sem ég rakst á í gær reyndust meðalgildin vera nálægt 20 pg.

Ég held að hámarksgildi upp á 16 pg gefi ekki tilefni til að draga neinar ályktanir, þó að það sé 60% hærra en í „meðal-Jóninum“ á Ísafirði og í Reykjavík og annars staðar á Norðurlöndunum. Það er ekki einu sinni hægt að fullyrða að þessi munur sé marktækur, nema með því að greina frumgögnin. Og alla vega er þetta allt minna en í meðal-Japananum og vel fyrir neðan heilsuverndarmörk Bandaríkjamanna. 

Mér finnst þetta sem sagt vera mikill léttir. Ég óttaðist að ástandið gæti verið verra, en bjóst þó frekar við að það væri innan hættumarka (hver sem þau annars eru nákvæmlega). Það að díoxín í útblæstri, jarðvegi eða fæðu fari yfir viðmiðunarmörk þarf alls ekki að þýða að fólk verði fyrir skaða. Þarna reyna menn jú að hafa vaðið fyrir neðan sig með því að hafa umhverfismörkin mjög lág. Þá fá menn jú viðvörun í tæka tíð og geta ráðist strax beint að mengunarvaldinum (þ.e.a.s. ef þessir sömu menn sofa ekki á verðinum) áður en það er orðið of seint. Þar með á að vera hægt að koma í veg fyrir að heilsu fólks stafi hætta af.

Þrátt fyrir það sem hér hefur verið sagt, má alls ekki túlka þessar niðurstöður svo að nú sé óhætt að slaka á. Við verðum að hafa í huga að díoxín safnast upp í fituvefjum líkamans og yfirgefur þá ekki svo glatt, svo lengi sem við lifum. Svolítil árleg viðbót er nóg til þess að styrkurinn í fitunni verði kominn á hættulegt stig seint á ævinni. Þess vegna tel ég alls enga ástæðu til að slaka neitt á gagnvart hlutaðeigandi brennslustöðvum (á Ísafirði, Kirkjubæjarklaustri og Vestmannaeyjum). Við verðum að hafa vaðið fyrir neðan okkur hér eftir sem hingað til – og gæta fyllstu varúðar. Umhverfismörkin eru sett til að vernda okkur og börnin okkar. Við skulum gleðjast yfir því að þetta hafi sloppið fyrir horn í þetta sinn – og gera allt sem við getum til að svona uppákomur endurtaki sig ekki. Ef það kallar á lokun einhverra sorpbrennslustöðva, þá á bara að loka þeim.

Sorpbrennslustöðin í Sisimiut á Grænlandi. Myndin var tekin í júlí 2001 og tengist ekki efni þessa pistils með beinum hætti.

Mataræði helsta orsök ADHD

Mataræði á stóran þátt í ofvirkni og athyglisbresti (ADHD) meðal 4-8 ára barna. Þetta kom fram í viðamikilli rannsókn sem sagt var frá í grein í febrúarhefti læknatímaritsins Lancet. Niðurstöðurnar benda til að í 63% tilvika megi rekja ADHD beint til mataræðis.

Eins og fram kom í bloggpistli mínum 16. mars sl. hafa ýmsar vísbendingar komið fram um að tiltekin litarefni stuðli að ofvirkni og öðrum hegðunarvandkvæðum meðal barna. Rannsóknin sem sagt er frá í Lancet tekur litarefni ekki sérstaklega til umfjöllunar, heldur var þar kannað hvort neysla unninna matvæla hefði mælanleg áhrif á ADHD. Rannsóknin var í stuttu máli framkvæmd þannig að 100 börnum sem greinst höfðu með ADHD var skipt í tvo jafnstóra hópa. Annar hópurinn (viðmiðunarhópur) fékk almennar ráðleggingar um heilbrigt mataræði en hinn hópurinn (sérfæðishópur) var settur á sérfæði þar sem unnin matvæli voru útilokuð („restricted elimination diet“). Að 5 vikum liðnum voru ADHD-einkenni borin saman milli hópa út frá algengum ADHD-mælikvörðum (annars vegar ARS og hins vegar ACS). ADHD-einkennin höfðu þá lækkað marktækt meira í sérfæðishópnum, hvort sem litið var á ARS eða ACS. Þau 30 börn í sérfæðishópnum sem sýnt höfðu mestar framfarir (a.m.k. 40% lækkun ARS) voru þá sett á almennt fæði í 4 vikur, að teknu vissu tilliti til IgG-gilda (immúnóglóbúlín) í blóði. Eftir þennan síðari hluta tilraunarinnar voru bæði ARS- og ACS-gildi 19 barna af þessum 30 (63%) komin í nokkurn veginn sama horf og áður en tilraunin hófst, óháð IgG-gildum.

Kristin Wartman gerir niðurstöður umræddrar rannsóknar að umtalsefni í pistli á heimasíðu GRIST-Magazine 28. mars sl. og vitnar þar m.a. í viðtal við aðalhöfund greinarinnar í Lancet, Dr. Lidy M Pelsser, sem starfar við ADHD-rannsóknarstöðina í Hollandi. Dr. Pelsser gengur svo langt að segja að mataræði sé aðalorsök ADHD, og að þörf sé að viðhorfsbreytingu hvað varðar umræðu og meðhöndlun þessara einkenna. ADHD sé nefnilega ekki sjúkdómur, heldur samsafn einkenna. Þegar barn greinist með ADHD ætti því að segja: „OK, hér höfum við þessi einkenni, nú er að leita að orsökunum“.

Þrátt fyrir þessar eindregnu niðurstöður Dr. Pelssers og félaga telur Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) ekki tilefni til aðgerða varðandi litarefni og önnur aukefni í unnum matvörum, meðan ekki liggja fyrir frekari sannanir um skaðsemi þessara efna. Evrópusambandið hefur hins vegar þegar gert ráðstafanir til að vara við notkun þeirra 6 litarefna sem helst eru talin stuðla að ofvirkni og öðrum hegðunarvandkvæðum meðal barna, eins og fram kom í bloggpistlinum 16. mars sl. Þær ráðstafanir voru reyndar gerðar löngu áður en umrædd grein birtist í Lancet, enda má telja nokkuð augljóst að beita beri Varúðarreglunni í málum sem þessu, þar sem nægar vísbendingar eru um skaðsemi, jafnvel þótt menn geti rökrætt hvort um „vísindalega fullvissu“ sé að ræða. Málið snýst jú um velferð barna!

Leiðrétting á nammibarapistli

Í bloggpistli mínum um nammibari 16. mars sl. kom fram að seljendum væri skylt að merkja nammibarina með innihaldslýsingu. Eftir að pistillinn birtist í Mogganum á dögunum fékk ég ábendingu um að þarna hefði ég ekki farið með rétt mál. Í reglugerð um merkingu matvæla nr. 503/2005 stendur nefnilega í 28. grein: „Þegar vöru er dreift án umbúða, eða pakkað á sölustað eða sett í umbúðir til beinnar sölu til neytenda, skal seljandi vörunnar geta veitt kaupanda upplýsingar um þau atriði sem tilgreind eru í 6. gr. þessarar reglugerðar, sbr. einnig ákvæði 27. gr„. Seljandinn þarf með öðrum orðum ekki að merkja nammibarinn með innihaldslýsingu, en er skyldugur til að upplýsa um innihaldið ef einhver spyr.

Um leið og ég kem þessari leiðréttingu á framfæri og þakka fyrir ábendinguna, biðst ég velvirðingar á mistökunum. Ég byggði þetta á munnlegri heimild, sem annað hvort var ekki nógu nákvæm, eða þá að mig misminnti um innihald hennar. Almennt fylgi ég þeirri reglu að leita frumheimildar, en þarna fórst það sem sagt fyrir.

Hins vegar breytir þetta ekki meginniðurstöðunni, þ.e.a.s. að í sælgæti á nammibörum og í fleiri matvælum sé að finna litarefni sem grunuð eru um að stuðla að ofvirkni eða annarri hegðunarröskun – og að í löndum Evrópusambandsins sé skylt að setja sérstaka varúðarmerkingu á matvæli sem innihalda þessi tilteknu litarefni. Þangað til sú regla hefur verið innleidd á Íslandi er ástæða til að hvetja foreldra til að spyrja um efnainnihald sælgætis á nammibörum, þ.e.a.s. ef þau ætla að kaupa svoleiðis fyrir börnin sín og langar ekki til að fóðra þau á efnum sem gætu stuðlað að ofvirkni eða annarri hegðunarröskun.

Kvartað yfir veðrinu

Íslendingar eru duglegir að finna sér umkvörtunarefni. Þetta hef ég m.a. séð á Fésbókinni síðustu daga, þar sem fólk keppist við að kvarta undan vetrinum. Og þá er ég ekki að tala um fólkið fyrir norðan, þar sem veturinn hefur líklega verið í öflugra lagi, svona miðað við síðustu ár, heldur fólkið hérna fyrir sunnan, sem virðist vera farið að örvænta um að vorið komi bara nokkurn tímann, nú séu komin jafndægur og enn þurfi að skafa snjó af bílrúðum, enda búin að vera vetrartíð í heila viku, ef ekki 10 daga.

Svona vetur er bara hugarástand. Auðvitað er notalegra að koma út á morgnana þegar allt er þurrt og hlýtt, heldur en þegar skafrenningurinn smeygir sér ofan í hálsmál og inn um allar glufur vanhugsaðs vetrarklæðnaðar. En samt er þetta bara hugarástand. Maður velur sér einfaldlega sjálfur hvað manni finnst um þetta. Ef maður hugsar og talar nógu mikið um hvað allt sé ömurlegt og kalt, þá líður manni illa. En ef maður rifjar upp að enn er bara mars og vikulangur vetur hefur aldrei talist til harðinda í annálum – og hugsar og talar um hvað snjórinn sé fallegur og frískandi, þá líður manni vel.

Maður getur sem sagt valið hverju maður lýgur að sjálfum sér, svo notuð séu orð Bodil Jönsson úr bókinni Tíu þankar um tímann. Þar var umræðuefnið reyndar ekki sunnlenskur smávetur, heldur tímaskorturinn sem margir kvarta yfir. Bodil bendir á að í stað þess að segja „Ég hef engan tíma“ við öll hugsanleg tækifæri, geti maður sjálfur valið að segja „Ég hef nógan tíma“. Og viti menn, þannig verður allt léttara  – og fólkið í kringum mann jafnvel glaðara. Þetta er það sem mig minnir að Bodil kalli að „skipta um lífslygi“ (s: „byta livslögn“).

Kæru landsmenn. Það er bjart framundan. Veðrið getur alveg verið gott, þó að snjór fjúki ofan í hálsmálið á manni illa klæddum. Það er mars ennþá sko!

Jóhanna Stefáns við fánastöngina í garðinum á Hólmavík í mars 1995

Ofvirk á nammibarnum

Sú var tíðin að börn fengu að kaupa sér nammi yfir búðarborð fyrir smápeninga, svona rétt neðan í litla græna plastpoka. Á þeim tíma sem liðinn er síðan börnin mín voru lítil hafa hins vegar öll viðmið í þessum efnum brostið. Nú halda foreldrar börnum sínum til beitar í risastórum nammibörum í verslunum, þar sem miklu er hægt að moka á stuttum tíma fyrir lítið verð. Líklega eru nammibarirnir m.a. notaðir sem verðlaun, t.d. ef börnin hafa vælt óvenjulítið í búðarferðinni eða kannski beðið alla vikuna eftir að nammidagurinn rynni upp bjartur og fagur. Mig grunar sem sagt að foreldrar telji sig gera börnunum sínum greiða með því að veita þeim aðgang að þessum litskrúðugu kræsingum. En um leið er hugsanlega verið að stuðla að ofvirkni eða annarri hegðunarröskun, sem fáum þykir hátíðlegt að fást við, nema kannski þeim sem selja ritalín til að bregðast við vandanum. Rannsóknir benda nefnilega til að tiltekin litarefni í matvælum geti stuðlað að ofvirkni í börnum, og þessi litarefni eru að öllum líkindum til staðar í ríkum mæli í margnefndum nammibörum.

Varúðarmerkingar í nágrannalöndunum
Hugsanleg tengsl litarefna við ofvirkni í börnum eru ekki nýjar fréttir. Ég veit ekki hvenær fyrstu vísbendingarnar um þessi tengsl komu fram, en elstu niðurstöður sem ég man eftir að hafa séð eru frá árinu 2000. Síðar hafa fleiri rannsóknir bent í sömu átt, þó að skaðsemi litarefnanna hvað þetta varðar hafi ekki beinlínis verið sönnuð. Líkurnar þykja þó það miklar að Evrópusambandið hefur talið sig knúið til aðgerða. Með Evrópureglugerð nr. 1333/2008 um aukefni í matvælum var þannig lögfest sú skylda að öll matvæli (önnur en áfengir drykkir) sem innihalda umrædd litarefni skuli merkt með áletruninni “Getur haft óæskileg áhrif á hegðun og einbeitingu barna” (e: “May have an adverse effect on activity and attention in children”). Merkingarskyldan tók gildi í löndum Evrópusambandsins 20. júlí 2010, en ekki er enn búið að fella þessi ákvæði inn í íslenskt regluverk.

Hvaða efni eru þetta?
Litarefnin sem um ræðir tilheyra öll nema eitt flokki svonefndra azo-litarefna. Efnin eru oftast auðkennd með E-númerum, en framleiðendur mega þó tiltaka heiti þeirra í staðinn. Þar með flækist málið fyrir neytendur sem vilja forðast þessi efni, því að heitin á bak við E-númerin eru margvísleg. Eftirfarandi upptalning gefur nokkurn veginn tæmandi yfirlit yfir umrædd efni og mismunandi heiti þeirra:

 • E102  Tatrasín (Cl Food Yellow 4, FD&C Yellow #5)
 • E104  Kínólíngult (Cl Food Yellow 13, FD&C Yellow #10) (ekki azo-litarefni)
 • E110  Sunset Yellow (Cl Food Yellow 3, FD&C Yellow #6, Orange, Orange Yellow, Para-orange, Yellow S)
 • E122  Asórúbín (Karmósín, Cl Food red 3)
 • E124  Panceau (Cl Food red 7, Kochenillerautt A, New coccine, Nykockin)
 • E129  Allúra rautt (Cl Food red 17)

Frostpinnar og fleira gott
Nammibarirnir eru ekki einu staðirnir þar sem þessi efni er að finna. Reyndar get ég ekkert fullyrt um málið hvað nammibarina varðar, því að enn hef ég hvergi séð nammibar með innihaldslýsingu, sem seljendum er þó skylt að setja upp!!! Það gefur manni reyndar tilefni til að óttast að þeir gleymi líka að hengja upp varúðarmerkin þegar reglugerðin tekur gildi hérlendis. Nei, efnin eru sem sagt víðar í notkun, svo sem í einhverjum drykkjum og í ýmsu sælgæti, jafnt innfluttu sem íslensku. Þessi litarefni eru meira að segja í flestum gerðum frostpinna frá a.m.k. öðrum af stærstu ísframleiðendunum hérlendis.

Þetta VAR bannað
Reyndar voru azo-litarefni bönnuð hérlendis þegar börnin mín fengu nammi í litlum grænum pokum. Bannið var hins vegar afnumið árið 1997 til samræmis við regluverk Evrópska efnahagssvæðisins. Neytendasamtök hérlendis og erlendis (m.a. í Danmörku) hafa um árabil ýmist barist fyrir því að þessi efni verði bönnuð eða hvatt framleiðendur til að hætta notkun þeirra, enda nóg til af öðrum efnum til sömu nota. Reglan um varúðarmerkingu er skref í þessa átt, en enn þykir mönnum skaðsemin ekki nægjanleg sönnuð til að hún réttlæti algjört bann. (Þarna er Varúðarreglunni að vísu snúið á haus).

Skilaboð til foreldra
Skilaboðin til foreldra eru einföld: Varist þessi efni. Börnin ykkar og þið sjálf eigið betra skilið!

(Þessi pistill er m.a. byggður á fréttum á heimasíðu Neytendasamtakanna 1. febrúar og 25. janúar 2011, frétt á heimasíðu dönsku neytendasamtakanna (Forbrugerrådet) 13.júlí 2010 og grein í 3. tbl. Neytendablaðsins 2007. Upplýsingar um nafngiftir litarefnanna eru fengnar úr lista á heimasíðu Matvælastofnunar).

Hugsað um hreyfiseðla

Það gladdi mig mjög að lesa um það í Fréttablaðinu sl. þriðjudag, að nú hillti undir það að jafnvel á Íslandi muni hreyfiseðlar í ákveðnum tilvikum taka við af lyfseðlum. Gaman væri að heyra meira af þessu, hvar málið sé statt í kerfinu, hvenær búast megi við að hreyfiseðlar verði orðnir almennur valkostur og hvernig ætlunin sé að standa að þessu.

Mitt í þessum þönkum mínum rakst ég sem oftar inn á heimasíðu sveitarfélagsins Landskrona í Svíþjóð, og þar fann ég einmitt eitt dæmi um það hvernig svona nokkuð gæti litið út í framkvæmd. Í Landskrona hefur verið unnið með hreyfiseðla síðustu 5 ár, og á síðasta ári var kerfið orðið nokkurn veginn tilbúið til notkunar. Kerfið í Landskrona byggir á samstarfi margra aðila, þ.á.m. sveitarfélagsins, sjúkrahússins, heilsugæslustöðva, íþróttafélaga og líkamsræktarstöðva. Hreyfiseðlar sem gefnir eru út af læknum gilda þá sem afsláttarmiðar í tilteknar íþrótta- og líkamsræktarstöðvar og á tiltekin námskeið, allt samkvæmt sérstakri gjaldskrá sem birt er á heimasíðu sveitarfélagsins.

Unnið hefur verið með hreyfiseðla árum saman í Svíþjóð, og reyndar líka í Noregi og Danmörku. Í Svíþjóð er í þessu sambandi talað um „Fysisk aktivitet på recept“ eða „FaR“, sem er skrásett vörumerki þar í landi. Norðmenn hafa reyndar farið örlítið aðra leið, eða öllu heldur útvíkkað hugtakið. Þar er talað um „græna lyfseðla“ („Grønn resept“) og litið á aðstoð til að breyta reykingavenjum og lífsstíl sem hluta af pakkanum. Íslendingar hafa verið skrefinu á eftir frændum sínum í þessum efnum, en þó eru nokkur ár síðan fyrst var farið að ræða hugmyndir af þessu tagi, m.a. í kynningum Landsskrifstofu Staðardagskrár 21 á meðan hún var starfrækt. Flest bendir til að hér leynist stórkostleg tækifæri til úrbóta hvað varðar meðferð þunglyndis og annarra geðrænna vandamála. Steindór J. Erlingsson vísindasagnfræðingur bendir t.d. á það í grein sinni í Fréttablaðinu í gær, að á síðustu 20 árum hefur tíðni örorku vegna geð- og atferlisraskana nánast tvöfaldast hérlendis, á sama tíma og ávísun þunglyndislyfja og annarra geðlyfja hefur aukist upp í það að vera með því mesta sem þekkist í heiminum. Í grein sem þrír íslenskir læknar birtu í tímaritinu British Journal of Psychiatry 2004 kom fram að ekkert benti til að gríðarleg aukning í notkun þunglyndislyfja á Íslandi hefði leitt til bættrar geðheilsu þegar á heildina er litið. Því væri þörf á að leita annarra og betri úrræða. Dr. Vilhjálmur Ari Arason gerir þetta sama mál að umtalsefni í ágætu bloggi sínu á Eyjunni í gær.

Ég bíð spenntur eftir næstu fréttum af íslenskum hreyfiseðlum.

Hanastélsáhrifin vanmetin

Við umgöngumst daglega fjöldann allan af tilbúnum efnum á heimilum okkar og vinnustöðum. Sum þessara efna eru skaðleg umhverfi og heilsu, en sem betur fer hittum við þau sjaldan fyrir í nógu miklum styrk til að hin skaðlegu áhrif komi fram. Til að vernda okkur enn frekar hafa opinberir aðilar gefið út leiðbeiningar um hámarksstyrk margra þessara efna í tilteknum neytendavörum og/eða heilsufarsmörk sem segja til um hámarksstyrk efnanna í umhverfi okkar. Helsti veikleikinn í þessu ágæta kerfi er sá, að heilsufarsmörkin gilda alla jafna um hvert efni fyrir sig, en taka ekki tillit til þeirra samanlögðu áhrifa sem við verðum hugsanlega fyrir þegar við umgöngumst fleiri efni á sama tíma. Þetta er það sem gjarnan er kallað „cocktail effect“ á erlendum málum eða „hanastélsáhrif“ í hrárri þýðingu.

Á heimasíðu dönsku upplýsingamiðstöðvarinnar um umhverfi og heilsu (IMS) eru hanastélsáhrif skilgreind sem „samanlögð áhrif sem fólk verður fyrir þegar það umgengst fleiri en eitt varasamt efni samtímis, þar sem hvert efni um sig er ekki til staðar í nægum styrk til að hafa áhrif

Lítið hefur verið fjallað um hanastélsáhrif hérlendis. Þó var þetta fyrirbæri nefnt lauslega í „Orðum dagsins” á heimasíðu Staðardagskrár 21 á Íslandi á sínum tíma, t.d. þann 21. febrúar 2008. Þar var vísað í fréttatilkynningu frá Tækniháskóla Danmerkur DTU, þar sem fram hafði komið að „hormónatruflandi efni, sem hvert um sig er óskaðlegt í litlum skömmtum, geta í sameiningu valdið hættulegum „hanastélsáhrifum“ (e: Cocktail effects) sem m.a. geta endurspeglast í vansköpuðum kynfærum nýfæddra karldýra“. Því væri „nauðsynlegt að taka meira tillit til „hanastélsáhrifa“ við áhættumat á efnavörum“. Þá hefur Neytendablaðið fjallað um þessi mál, m.a. í 1. tbl. 2010, bls. 14-15.

Það er hollt að rifja þetta upp núna þegar hugsanleg áhrif díoxíns á heilsu fólks eru til umræðu. Kannski er styrkur þess alls staðar innan heilsufarsmarka, en dæmið gæti litið öðru vísi út ef líka væri hægt að skoða í hve miklum mæli fólk umgengst önnur efni samtímis. Af nógu er að taka – og þarf ekki díoxín til. Þar má nefna parabena, BPA, þalöt, brómeruð eldvarnarefni, PFOA, PFOS, azo-liti, resorcinol eða jafnvel PCB, svo eitthvað sé nefnt.

Þetta hljómar sjálfsagt allt sem hálfgerð „latína, sem hjálpar venjulegu fólki ekki neitt“. Öll erum við frekar venjulegt fólk, og flest eigum við það sameiginlegt að nota helling af efnum dags daglega, m.a. í snyrtivörum, án þess að velta fyrir okkur hugsanlegum neikvæðum samlegðaráhrifum efnanna á heilsu okkar. Framleiðendur keppast við að nota ólíklegustu efni í vörurnar sínar til að gefa þeim rétta virkni, lykt eða áferð. Og allt á þetta að gera okkur fallegri, hraustari og hamingjusamari. Skuggahliðarnar eru sjaldnar nefndar.

Og hvað er þá til ráða? Hvernig á að hegða sér í þessum flókna efnaheimi, þar sem sjaldnast er til neitt eitt rétt svar, og því síður að einhver geti eða vilji segja manni hvert það er. Hér sem víðar er varúðin aðalatriði. Besta leiðin er að draga úr notkun tilbúinna efna í daglegu lífi, og næstbest að velja alltaf umhverfismerkt eða lífræn vottuð efni, ef efni eru keypt á annað borð.