Næstu tvær vikur eru þrjú skemmtihlaup á dagskránni hjá mér, þ.e.a.s. hlaup sem ég hef átt þátt í að gera að veruleika í þeim tilgangi að gleðja sjálfan mig og aðra. Í þessum hlaupum vinna allir en enginn tapar. Hér á eftir gefur að líta örlítið nánari upplýsingar um þessa bráðskemmtilegu viðburði.
1. Leggjabrjótur, miðvikud. 18/6 kl. 16:00
Á miðvikudaginn ætla ég að gera aðra tilraun til að komast yfir Leggjabrjót frá Botnsskála í Hvalfirði að þjónustumiðstöðinni á Þingvöllum. Þetta verður 35. hlaupið í fjallvegahlaupaverkefninu sem ég gaf sjálfum mér í fimmtugsafmælisgjöf vorið 2007. Já, þetta er sem sagt 2. tilraun, því að þann 24. maí sl. varð ég frá að hverfa eftir að hafa streðað upp úr Hvalfirðinum í hvössum mótvindi, vatnsverði og þoku. Við lögðum af stað 28 saman og komust öll til einhverra byggða á næstu klukkutímum, fæstir þó til þeirra byggða sem upphaflega var ætlunin. Sem betur fer varð engum meint af.
Veðurspáin er betri en síðast, en samkvæmt framtíðarspá Veðurstofunnar verður suðvestan og vestanátt og rigning hérna megin á landinu og hitinn líklega um 9 stig á láglendi. Þetta er reyndar ekkert óskaplega ólíkt því sem var 24. maí, nema hvað vindurinn verður ívíð hægari en síðast og blæs rigningunni í bakið á hlaupurunum en ekki fangið. Mig grunar að þetta verði bara fínt. En maður þarf samt að klæða sig sómasamlega.
Öllum er sem fyrr velkomið að slást í för með mér á eigin ábyrgð. Upplýsingar um hlaupið er að finna á hlaup.is og á Facebooksíðu fjallvegahlaupahópsins.

Við upphaf ferðarinnar sem aldrei var farin (nema af 6 ofurhetjum) yfir Leggjabrjót 24. maí 2014. (Ljósm. Ólafur Gunnar Sæmundsson).
2. Þrístrendingur, laugard. 21/6 kl. 11:00
Laugardaginn 21. júní verður fjalla- og skemmtihlaupið Þrístrendingur haldið í fimmta sinn. Þarna er ekki keppt við tímann heldur miklu frekar keppst við að njóta dagsins og félagsskaparins. Hlaupið er öllum opið og þátttakendur velja sjálfir hvort þeir hlaupa alla leiðina eða bara einn eða tvo áfanga af þremur. Heildarvegalengdin er rétt um 41 km í þremur áföngum (u.þ.b. 20+10+11 km). Fyrsti áfanginn er frá Kleifum í Gilsfirði yfir Steinadalsheiði að Stóra-Fjarðarhorni í Kollafirði. Þessi spölur er allur hlaupinn á bílvegi, sem er einmitt nýbúið að opna fyrir sumarumferð. Vegurinn er fær öllum fjórhjóladrifnum bílum en varasamur fyrir eindrifsbíla. Næsti áfangi er frá Stóra-Fjarðarhorni yfir Bitruháls að Gröf í Bitru, þar sem ábúendur taka á móti hlaupurum með kaffi og pönnukökum. Lokaáfanginn er svo frá Gröf um Krossárdal aftur að Kleifum. Þarna er sem sagt hlaupið tvisvar þvert yfir Ísland á einni dagstund. Oft er hægt að fá far milli áfangastaða, en hlaupahaldarar skipuleggja enga flutninga. Nánari upplýsingar er að finna á hlaup.is, auk þess sem Internetið er hálffullt af ferðasögum úr Þrístrendingum síðustu fjögurra ára. Svo er Þrístrendingur líka til sem viðburður á Facebook. Þar er upplagt að láta vita af þátttöku, enda nauðsynlegt að hafa sæmilega hugmynd um fjöldann til að hægt sé að baka nóg af pönnukökum. (Þeir sem vilja renna fyrir lax í leiðinni geta keypt veiðileyfi á www.krossa.is). 🙂
3. Hamingjuhlaupið, laugard. 28/6 kl. 10:50
Laugardaginn 28. júní er röðin komin að hinu árlega Hamingjuhlaupi, en það fer nú fram í 6. sinn í tengslum við bæjarhátíðina Hamingjudaga á Hólmavík. Leiðin breytist ár frá ári og liggur að þessu sinni frá Kleifum í Gilsfirði um Vatnadal til Steingrímsfjarðar og áfram eftir veginum til Hólmavíkur, en þessa leið riðu móðurbræður mínir á sínum yngri árum áleiðis á böll á Ströndum. Síðan eru liðin mörg ár, enda téðir móðurbræður fæddir um aldamótin 1900. Frómt frá sagt verða hófför bræðranna þó ekki þrædd alveg frá byrjun, því að leiðin er valin með hliðsjón af því að hún sé sem aðgengilegust. Þess vegna verða fyrstu kílómetrarnir úr Þrístrendingi endurnýttir og lagt af stað áleiðis upp á Steinadalsheiði. Þar verður beygt þvert úr leið um vegleysur yfir í Vatnadal og svo áfram sem leið liggur niður dalinn. Heildarvegalengdin er um 37 km og er seinfarin að hluta. Á Hólmavík mun eitt glæsilegasta hnallþóruhlaðborð Evrópska efnahagssvæðisins bíða hlauparanna, sem njóta munu þeirra forréttinda að fá að skera fyrstu sneiðarnar og sporðrenna þeim. Til að ekkert fari úrskeiðis (þ.e. til að enginn sleppi í terturnar á undan hlaupurunum) er nauðsynlegt að hlaupinu ljúki á fyrirfram ákveðnum tíma, þ.e.a.s. stundvíslega kl. 16:00. Til að auðvelda þetta og gera fólk kleift að slást í hópinn einhvers staðar á leiðinni fer hlaupið fram eins og hver önnur strætóferð, í þeim skilningi að hlaupararnir verða á tilteknum stöðum á tilteknum tímum. Tímatöflu og aðrar helstu upplýsingar er að sjálfsögðu að finna á hlaup.is. Þar eru líka tenglar á glaðlegar frásagnir af fyrri hamingjuhlaupum.

Frá Hamingjuhlaupinu í fyrra. Svona lagað er aðeins á færi hamingjusamra. Aðrir geta yfirleitt ekki flogið.
Filed under: Hlaup | Tagged: Þrístrendingur, fjallvegahlaup, Hamingjuhlaup, Leggjabrjótur | Leave a comment »