Auglýsingar
 • Heimsóknir

  • 95,144 hits
 • febrúar 2018
  S M F V F F S
  « Jan    
   123
  45678910
  11121314151617
  18192021222324
  25262728  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Tvöföld Vesturgata öðru sinni

Miði með millitímum frá 2014

Miði með millitímum frá 2014

Á dögunum hljóp ég tvöfalda Vesturgötu í annað sinn, en þessa leið fór ég fyrst sumarið 2014. Sú ferð var mikil gleðiferð eins og ráða má af þar til gerðum bloggpistli og eðlilega langaði mig til að endurtaka gleðina. Í stuttu máli sagt tókst það fullkomlega. Auðvitað er hver ferð sérstök og það sem gleður í einni ferð er e.t.v. ekki til staðar í þeirri næstu. En þá kemur bara einhver önnur og nýrri gleði í staðinn.

Hvað er tvöföld Vesturgata?
Tvöföld Vesturgata er keppnishlaup sem er hluti af Hlaupahátíð á Vestfjörðum. Lagt er af stað frá Þingeyri í Dýrafirði, hlaupið inn Kirkjubólsdal, yfir Álftamýrarheiði niður í Fossdal í Arnarfirði, út að Stapadal og áfram eftir Kjaransbraut og Svalvogavegi út í Svalvoga og inn að Sveinseyri við Dýrafjörð. Leiðin öll er 45 km og liggur um stórbrotið landslag og eitt af ótrúlegustu mannvirkjum á Íslandi, þ.e.a.s. veginn sem Elís Kjaran kroppaði inn í þverhníptar hlíðar sumarið 1973 á örsmárri jarðýtu, nánast fyrir eigin reikning þrátt fyrir „loforð um 400 þúsund hjá Þorvaldi Garðari, 500 þúsund hjá Steingrími og Fálkaorðuna hjá Hannibal“, eins og Elís orðaði það sjálfur, (Elís Kjaran (2007): Svalvogavegur. Kafli úr lífsbók minni ásamt vísnagátum. Vestfirska forlagið, Brekku í Dýrafirði, (bls. 34)).

Þátttaka mín í tvöföldu Vesturgötunni þetta árið var hluti af vikulangri hlaupaferð til Vestfjarða. Mestan hluta þessarar viku bjuggum við hjónin ásamt fleira fólki í sumarbústað í Önundarfirði og þaðan var gert út til þátttöku í hinum ýmsu hlaupum, ýmist á malbiki eða á fjöllum. Frá þessum bústað lögðum við einmitt af stað fimm saman í bítið að morgni sunnudagsins 17. júlí, þ.e.a.s. ég sjálfur, Gunnar Viðar hlaupafélagi minn úr Borgarnesi, Birkir Þór Stefánsson bóndi í Tröllatungu á Ströndum og hjónin Sævar Skaptason og Bryndís Óladóttir sem hafa fylgt mér í fleiri hlaupum um fjöll en nokkrir aðrir.

Tvöföld Vesturgata á korti með áfangaskiptingu SG.

Tvöföld Vesturgata á korti með áfangaskiptingu SG.

Áætlun dagsins
Ég legg yfirleitt ekki af stað í hlaup án þess að vera með áætlun eða markmið. Í þetta skiptið var markmiðið einfalt: Ég ætlaði að bæta tímann minn frá sumrinu 2014, þ.e.a.s. að hlaupa á betri tíma en 4:12:03 klst. Aðgerðaáætlunin sem fylgdi þessu markmiði var líka einföld: Sem flestir áfangar hlaupsins skyldu hlaupnir hraðar en síðast, sérstaklega fyrri hluti hlaupsins inn Kirkjubólsdal og yfir Álftamýrarheiði. Ég taldi mig nefnilega vera sterkari í brekkum en ég var 2014. Það mat mitt byggði ég á vel heppnuðum hraðferðum upp og niður Hafnarfjallið fyrr í sumar. Ég var því bjartsýnn á að markmiðið næðist. Við þetta bættist svo að sumarið 2014 tóku aðeins þrír karlar og tvær konur þátt í hlaupinu og við karlarnir (Gunnar Viðar, Klemenz og ég) fylgdumst allir að yfir heiðina og vorum meira í því að spjalla en flýta okkur. Þar hlutu því að liggja tækifæri til úrbóta hvað hlaupatímann varðaði. Eftir að yfir heiðina væri komið myndi ég svo bara þurfa að þrauka og þá væri markmiðið í höfn.

Til þess að sem auðveldast yrði að fylgjast með framgangi áætlunarinnar skipti ég hlaupinu fyrirfram í sömu áfanga og ég gerði 2014. Og til að vera nú alveg viss um að stopult minni myndi ekki rugla mig í útreikningunum skrifaði ég alla millitímana frá 2014 á miða sem ég tók með mér í hlaupið, (sjá mynd efst í þessum pistli).

26 hlauparar
Hlaupið var ræst við kirkjuna á Þingeyri stundvíslega kl. 8 þennan sunnudagsmorgun í hægum vindi, þurrviðri og u.þ.b. 10 stiga hita. Þátttakendur voru fimmfalt fleiri en síðast eða samtals 26, þar af 20 karlar og 6 konur. Í þessum hópi voru m.a. tveir bestu langhlauparar Íslands, þeir Kári Steinn Karlsson og Þorbergur Ingi Jónsson. Það var því næsta víst að ég yrði ekki með í baráttunni um gullið.

1. áfangi: Þingeyri-Kirkjuból
Ég fór talsvert hraðar af stað en í hlaupinu 2014, enda var það líka ætlunin. Svo er líka alltaf hvetjandi að hafa hraðari hlaupara á undan sér. Kári Steinn og Þorbergur hurfu svo sem strax, en þarna var líka hópur af öðrum mönnum sem voru nær mér að getu en þó ívið hraðari. Í þannig félagsskap hleypur maður gjarnan hraðar en ella.

Strax á fyrstu kílómetrunum skýrðust línur. Kári Steinn og Þorbergur voru strax orðnir langfyrstir og tveir erlendir hlauparar fóru í humátt á eftir þeim. Gunnar Atli, Gauti Gíslason og Guðmundur Guðnason mynduðu næsta hóp þar á eftir og ég fylgdi þeim til að byrja með. Gunnar Viðar og Birkir voru heldur ekki langt undan og Svíinn Linus Björk var líka þarna einhvers staðar. Þar fyrir aftan myndaðist strax bil sem ég bjóst varla við að myndi lokast.

Í hlaupinu 2014 var ég 28:18 mín. inn að Kirkjubóli, en þangað eru u.þ.b. 5,63 km frá Þingeyri. Í þetta skiptið sýndi klukkan 27:34 mín sem þýddi að ég var strax kominn með 44 sek í „plús“, þ.e.a.s. kominn með 44 sek forskot miðað við hlaupið 2014. Þar með var ég strax næstum sannfærður um að ég myndi ná markmiðinu, þ.e.a.s. ef allt gengi áfallalaust fyrir sig. Þetta var góð tilfinning.

2. áfangi: Kirkjuból-Álftamýrarheiði
Á leiðinni inn Kirkjubólsdal dróst ég aftur úr þremenningunum sem fyrr voru nefndir og fylgdist þess í stað með Gunnari, Birki og Línusi. Mér fannst ég frekar þungur á mér á þessum kafla og var ekki alveg frá því að í fótum mér leyndust eftirstöðvar af Arnarneshlaupinu einum og hálfum sólarhring fyrr. Þar hafði ég lagt 10 km að baki á 40:44 mín, sem var upp á sekúndu sami tími og í sama hlaupi 2014, (sem þá hét reyndar Óshlíðarhlaup). Það var enn ein vísbending um að ég væri ekki verr á mig kominn en þá. Þrátt fyrir þyngslin í fótunum hafði ég líka á tilfinningunni að hraðinn væri meiri en 2014. Og ef það skyldi nú vera misskilningur þóttist ég viss um að ég myndi vinna þetta upp á leiðinni upp heiðina, eða þá að minnsta kosti niður hana hinum megin enda tiltölulega góður á undanhaldinu.

Þegar við vorum komnir í brekkurnar voru þremenningarnir að mestu horfnir úr augsýn og þarna skildi Birkir bóndi okkur Gunnar líka eftir. Brekkur eru kjörlendi Birkis og það síðasta sem við sáum til hans var að hann var búinn að ná hinum. Linus dróst hins vegar afturúr, enda sagðist hann vera linur upp brekkur en fljótur niður.

Þegar þarna var komið sögu var okkur Gunnar farið að lengja eftir drykkjarstöð. Ég hafði búist við fyrstu stöð niðri í dalnum eftir svo sem 7-10 km, en nú var kílómetramælirinn „alveg að detta“ í 12 km og ekkert að frétta af drykkjunum. Ég hafði ákveðið, rétt eins og síðast, að hlaupa vatnslaus og reiða mig á brynningar á leiðinni. Þannig finnst mér ég verða ögn léttari og frjálsari. En þetta var svo sem allt í lagi. Vatnslöngunin er aðallega huglæg svona snemma í hlaupi. Það er líklega ekki fyrr en eftir 20 km eða meira sem þetta fer að skipta einhverju máli í raun. Og ofarlega í brekkunum birtist drykkjarstöðin líka allt í einu og þá skellti ég í mig einu orkugeli til að viðhalda þokkalegu næringarjafnvægi. Þegar til átti að taka var hins vegar ekkert vatn í boði á þessari drykkjarstöð, heldur bara orkudrykkir. Svoleiðis lagað drekk ég aldrei ótilneyddur. Í sumum orkudrykkjum eru gervisætuefni sem ég held að séu manni frekar til armæðu en gagns. Gunnar var hins vegar svo vinsamlegur að gefa mér af vatnsbirgðunum sínum og þannig gat ég skolað gelinu niður vandræðalaust. Staðsetning og framboð á þessari tilteknu drykkjarstöð var það eina sem fór úrskeiðis í framkvæmd þessa hlaups. Allt annað var að mínu mati eins og best gerist. Jafnvel betra!

Og skömmu síðar vorum við Gunnar komnir í skarðið á háheiðinni, sem ég hef haldið að heiti Kvennaskarð en heitir það líklega ekki. Þarna voru 13,96 km að baki og klukkan sýndi 1:23:41 klst. Nú var ég glaður! Við höfðum greinilega verið miklu fljótari upp brekkurnar en síðast og allt í einu var forskotið komið í 5:30 mín.

3. áfangi: Niður heiðina
Ég var ákveðinn í að njóta þess að hlaupa eins og fætur toguðu niður í Fossdal, fullviss um að niðurhlaupin á Hafnarfjalli hefðu gert sitt gagn. Mér leið stórvel og hlakkaði til framhaldsins. En allt í einu var Gunnar horfinn. Ég hafði svolitlar áhyggjur af honum en vissi svo sem að ég gæti ekkert gert í málinu, hvert sem málið væri. Málið var eitthvert magavesen, en ég frétti auðvitað ekkert af því fyrr en við hittumst á marksvæðinu löngu síðar.

Þrátt fyrir dágóðan hraða niður brekkurnar geystist Linus fram úr mér. Ég var þá einn eftir, í 10. sæti í hlaupinu þá stundina. Neðar í brekkunum datt Linus en slapp sem betur fer með smáskrámur. Þar náði ég líka Guðmundi Guðnasyni og við þrír fylgdumst að mestu leyti að þar til við vorum komnir niður á veg Arnarfjarðarmegin. Þarna voru 19,67 km að baki, millitíminn 1:47:53 klst. og forskotið komið í 6:29 mín miðað við hlaupið 2014. Þetta gekk alveg eins og í sögu hjá mér. Meðalhraðinn niður heiðina hafði verið 4:14 mín/km.

4. áfangi: Út í Stapadal
Mér er það sérstakt tilhlökkunarefni í tvöföldu Vesturgötunni að koma út í Stapadal. Þar finnst mér fyrri hluta hlaupsins lokið, en hitt er þó meira að þar hittir maður hlauparana sem eru að bíða eftir því að hið hefðbundna 24 km Vesturgötuhlaup verði ræst. Hvatningin sem bíður manns þarna er aðaltilhlökkunarefnið. Í Stapadal voru 20,94 km að baki og millitíminn 1:53:50 mín, þ.e.a.s. 7:48 mín betri en í hlaupinu 2014. Tilhlökkunin hafði greinilega nýst mér vel. Meðalhraðinn þennan stutta spöl út með Arnarfirði hafði verið 4:41 mín/km þó að leiðin sé hreint ekki öll lárétt. Og ég sá í hendi mér að ég gæti lokið hlaupinu á 4:04 mín, bara með því að halda í horfinu það sem eftir lifði hlaups, þ.e. með því að halda sama hraða og 2014. Þetta var við það að fara fram úr björtustu vonum.

5. áfangi: Þar til 20 km eru eftir
Mér finnst sérstaklega gaman að hlaupa fyrsta spölinn út fjöruna fyrir utan Stapadal. Undirlagið er reyndar frekar erfitt því að þarna er hlaupið í óvenjugrófri sjávarmöl, eða næstum því sjávargrjóti. En þetta svæði er bara svo einstakt að maður getur ekki annað en verið glaður að fá tækifæri til að hlaupa þarna um, vel varinn fyrir þeim náttúruöflum sem gerðu lífsbaráttuna þarna eins harða og raun bar vitni.

Í flestum götuhlaupum sýna kílómetramerkingar hversu langt er liðið á hlaupið, en í Vesturgötunni sýna skilti þann fjölda kílómetra sem eftir er. Þetta finnst mér skemmtileg tilbreyting, auk þess sem þetta auðveldar framkvæmd hlaupa þar sem fleiri en ein vegalengd er í boði en endamarkið það sama. Samkvæmt áætluninni skyldi næsti millitími tekinn þegar 20 km væru eftir.

Við Guðmundur fylgdumst að fyrstu kílómetrana út með firðinum. Hann stefndi að því að ljúka hlaupinu á svipuðum tíma og ég gerði 2014, en þá einsetti ég mér að ljúka síðustu fjórum 5 km köflunum í hlaupinu á 27:30 mín að meðaltali. Þegar við komum að 20 km skiltinu (u.þ.b. 25 km að baki) sýndi klukkan 2:15:49 klst. Forskotið á 2014-hlaupið hafði enn aukist lítillega og var komið í 7:59 mín. Guðmundur hafði orð á því að ég gæti hugsanlega náð undir fjóra tímana. Það hafði vissulega hvarflað að mér, en þá þyrfti forskotið að aukast úr 8 mínútum í 12, sem þýddi að ég yrði að sneiða heila mínútu af hverjum 5 km kafla sem eftir væri. Ég sá að það var ekki raunhæft. Hálf mínúta á hverja 5 km væri líklega það mesta sem ég gæti gert mér vonir um og þá myndi lokatíminn verða um 4:02 klst, en 4:04 ef ég næði bara að halda í horfinu. Það yrði að duga í þetta sinn, hvað sem síðar yrði.

6. áfangi: Þar til 15 km eru eftir
Þegar 15 km eru eftir af tvöfaldri Vesturgötu eru 30 km búnir. Um það leyti eru flestir teknir að lýjast. Mér fannst líka heldur vera farið að hægjast á mér, en í hvert sinn sem ég leit á hraðamælinn í GPS-úrinu („peisið“ (eða kannski „peysið“(?))) var hraðinn meiri en ég hélt. Þetta gekk sem sagt alveg áætlega og í raun fann ég lítið fyrir þreytu. Guðmundur var farinn að dragast aðeins aftur úr þegar hér var komið sögu, Linus hafði ég ekki séð lengi og Gauti var ekki svo ýkja langt á undan mér. Ég var sem sagt í 8. sæti í hlaupinu um þetta leyti. Eins og ég hef margsagt og skrifað skiptir það mig svo sem engu máli hvort ég er á undan einhverjum eða eftir, því að ég sjálfur er alltaf eini keppinauturinn sem ég þarf að hafa áhyggjur af. En samt er hvetjandi að sjá einhvern á undan sér og reyna að ná honum. Í því felst líka afþreying fyrir hugann. Þegar 15 km voru eftir sýndi klukkan 2:43:07 klst. Forskotið var komið í 8:45 mín sem leit reyndar býsna vel út. Lokatími upp á 4:00 var svo sem enn fræðilegur möguleiki, en ég mat stöðuna þó svo að 4:02-4:04 væri ennþá það sem eðlilegt væri að miða við.

7. áfangi: Þar til 10 km eru eftir
Einhvers staðar langt út með Arnarfirðinum fór ég fram úr tveimur hlaupurum, þ.e.a.s. Gauta og breskum hlaupara sem hafði verið annar þeirra tveggja sem fylgdu í humátt á eftir Kára Steini og Þorbergi í upphafi hlaups. Bretinn sagðist hafa átt betri daga. Eftir þetta var ég einn míns liðs þar til undir lok hlaupsins. Var orðinn svolítið lúinn en naut þess virkilega að hlaupa í þessu ótrúlega umhverfi. Úti við Svalvoga var ljósmyndari sem gaf mér tilefni til að hlaupa léttilega upp brekku sem ég hefði annars líklega gengið og þegar upp var komið blasti 10 km skiltið við. Klukkan sýndi 3:09,23 klst., sem var 8:50 mín betra en 2014. Ávinningurinn síðustu 5 km hafði sem sagt ekki verið nema 5 sek, en enn voru þó allir áfangar hraðari en síðast. Það gat hins vegar orðið erfitt yrði að halda þessu forskoti, því að eflaust hafði meiri hraði á Álftamýrarheiðinni tekið sinn toll í þetta skiptið.

Við Svalvoga. (Ljósm. Guðmundur Ágústsson)

Hlaupið fyrir ljósmyndara við Svalvoga. (Ljósm. Guðmundur Ágústsson)

8. áfangi: Þar til 5 km eru eftir
Næstu kílómetrar voru tíðindalitlir. Aðalviðfangsefnið var að þrauka þannig að ekki drægi mikið úr hraðanum. Þegar ég kom upp á hæðir eða út í beygjur á veginum var ég farinn að eygja Gunnar Atla nokkur hundruð metrum á undan mér. Hugsaði með mér að gaman væri að ná honum, þó að forskotið virtist reyndar heldur mikið. Ég var hins vegar hissa á að vera ekkert farinn að sjá til Birkis bónda. Ég var ekkert hissa á að hann væri fljótur yfir heiðina, en mér hafði frómt frá sagt ekki dottið í hug að hann gæti haldið út svona lengi á þessum hraða. Hæfileikana vantar ekki, en Birkir er erfiðisvinnumaður og ég vissi að miðað við æfingamagn sumarsins ætti hann að vera löngu sestur út í kant ef hann væri einhver meðalmaður að upplagi.

Rétt utan við Keldudal kom ég að 5 km skiltinu. Þetta var alveg að verða búið og nóg eftir af gleði í sinninu. Klukkan sýndi 3:37:35 klst sem þýddi að ég hafði ekki alveg náð að halda í horfinu síðustu 5 km. Forskotið á tímann frá 2014 hafði minnkað niður í 8:47 mín. Allt innan skekkjumarka, en ég vissi að ég yrði að hafa mig allan við til að ljúka hlaupinu á 4:03 klst. Líklega yrði ég nær 4:04.

9. áfangi: Síðustu 5 kílómetrarnir
Nú var ég farinn að taka hvern kílómetra fyrir sig og hugarreikningsæfingarnar gengu út á að giska á líklegan lokatíma. Gunnar Atli virtist alltaf vera í svipaðri fjarlægð en allt í einu var ég búinn að ná Birki. Mér fannst hann hafa unnið ótrúlegt afrek að halda hraðanum í rúmlega 40 km, en hann var á öðru máli og sagði alla vera að fara fram úr sér. Allir voru engir nema Gunnar Atli og ég, en auðvitað verður maður svolítið svartsýnn þegar þreytan sverfur að.

Í brekkunni upp úr Keldudal rifjaði ég upp það sem ég hafði lesið kvöldið áður í Vesturgötupistlinum mínum frá 2014 að þá hefði ég náð að skokka upp alla brekkuna. Það varð mér hvatning til að gera slíkt hið sama núna. Annað hefði verið merki um afturför og líklega leitt til lakari lokatíma en vonir stóðu til. Á brekkubrúninni voru ekki nema 2,5 km í mark og ég var ekki þreyttari en svo að ég gat notið hvers einasta metra sem eftir var af hlaupinu. Brekkan niður að Sveinseyri var tekin á góðum og vaxandi hraða og eins og stundum áður var ég vandræðalega glaður þegar ég kom í markið. Lokatíminn var 4:03:20 klst, þ.e.a.s. 8:43 mín bæting frá því í hlaupinu 2014. Síðustu 5 km voru að vísu 4 sek. hægari en þá, en hverjum var ekki sama. Markmiðinu var náð og auk þess var ég í 5. sæti í hlaupinu á eftir Kára Steini, Þorbergi, Svíanum Markus Living og Gunnari Atla. Ég gat ekki með nokkru móti gert mér vonir um hagstæðari úrslit en þetta!

Á marklínunni í Dýrafirði. 45 km að baki. (Ljósm. Björk Jóh.)

Á marklínunni í Dýrafirði. 45 km að baki. (Ljósm. Björk Jóh.)

Að hlaupi loknu
Gleðin í markinu var enn meiri en ella þegar ég sá að Björk, Gitta og Etienne voru öll mætt til að taka á móti mér og hinum fjórum sem lögt höfðu upp frá bústaðnum í Önundarfirði snemma um morguninn. Svo var þarna fjöldinn allur af öðru fólki sem ég þekki og þekki ekki – og gleðin og gestrisnin í aðalhlutverki eins og ævinlega á Hlaupahátíð á Vestfjörðum. Mér finnst ekki á neinn hallað þótt ég fullyrði að hvergi gangi maður að þessum systrum eins vísum að hlaupi loknu og þarna.

Eitt af mörgu sem gladdi mig þennan dag var að heyra hversu margir höfðu haft Vesturgötupistilinn minn frá 2014 til hliðsjónar í undirbúningi hlaupsins. Þetta átti jafnt við um þann sem kom fyrstur og þann sem kom síðastur í mark og meira að segja Markus Living hafði rennt í gegnum pistilinn með dyggri aðstoð Google Translate. Svona vitneskja hvetur mig til að halda áfram að skrifa. Ég þarf reyndar ekki sárlega á slíkri hvatningu að halda. En hún er góð samt.

Þrír fyrstu menn í flokki 40-99 ára. F.v. SG, Gunnar Atli og Birkir. (Ljósm. Björk Jóh.)

Þrír fyrstu karlar 40-99 ára: SG, Gunnar Atli og Birkir. (Ljósm. Björk Jóh.)

Af mörgum tilfinningum sem eiga vísan stað í huga mínum að loknu góðu hlaupi er þakklætið jafnan með þeim efstu. Þennan dag var það efst. Ég var þakklátur forsjóninni fyrir að leyfa mér að leika mér eins og mér þykir skemmtilegast, þakklátur Björk og öllum hinum sem fylgdu mér í þessu hlaupi og í þessari Vestfjarðaferð og þakklátur öllu þessu frábæra fólki sem stendur að Hlaupahátíð á Vestfjörðum og hefur tekist að gera hana að þeirri gleðiveislu sem hún er.

Þetta var góður dagur.

Tölulegt uppgjör í boði Garmin Connect

Tölulegt uppgjör í boði Garmin Connect.

(Stærri mynd birtist ef smellt er á þessa).

Auglýsingar

Þrjár strendur, fjórir menn

Um þarsíðustu helgi, nánar tiltekið laugardaginn 18. júní, var Þrístrendingur hlaupinn í 7. sinn. Fyrir þá sem ekki vita, sem hljóta að vera teljandi á fingrum annarrar handar,  er Þrístrendingur árlegt skemmtihlaup þar sem hlaupið er þvert yfir Íslands, tvisvar, sama daginn. Hlaupið hefst á hlaðinu á Kleifum í Gilsfirði þar sem sameiginlegir forfeður og formæður okkar Dofra Hermannssonar bjuggu í 100 ár og þar sem móðir mín og afi hans slitu barnskónum snemma á síðustu öld. Frá Kleifum er hlaupið norður yfir Steinadalsheiði í botn Kollafjarðar á Ströndum, yfir Bitruháls að æskiheimili mínu í Gröf í Bitru, og áfram sem leið liggur í vesturátt suður Krossárdal alla leið að Kleifum. Leiðin er á að giska dagleið, nánar tiltekið rétt rúmir 40 km. Það er vissulega langt í samanburði við þær vegalengdir sem tíðkast að skokka á einum degi, en þetta er samt hér um bil stysta leiðin tvisvar yfir Ísland. Landið er breiðara annars staðar.

Allt tilbúið á hlaðinu á Kleifum. F.v.: Arnór, Stefán, Hlynur, Dofri, Birkir, Magnús, Ási, Erlendur, Sigríður, Marta.

Allt tilbúið á hlaðinu á Kleifum. F.v.: Arnór, Stefán, Hlynur, Dofri, Birkir, Magnús, Ási, Erlendur, Sigríður, Marta.

Það var óvenjufámennt á hlaðinu á Kleifum þennan laugardagsmorgun, enda mörg önnur afþreyingartækifæri í boði fyrir hlaupara landsins þennan dag. Samtals lögðum við af stað tíu saman niður heimreiðina um hálfellefuleytið, þar af 8 hlaupandi og 3 á hjóli. Þurrt var í veðri, austan gola, skýjað að mestu og 10 stiga hiti, en í norðri var Húnaflóaþokan skammt undan.

Heimreiðin að Kleifum (eða öllu heldur frá Kleifum í þessu tilviki). Þær gerast ekki öllu lengri og beinni. Gilsfjörður blasir við.

Heimreiðin að Kleifum (eða öllu heldur frá Kleifum). Þær gerast ekki öllu lengri og beinni. Gilsfjörður blasir við.

Okkur sóttist allvel ferðin frá Kleifum, yfir að Gilsfjarðarbrekku og áleiðis upp Steinadalsheiði, enda var þetta allt hreyfivant fólk. Ólíkt því sem verið hafði öll hin árin var Vegagerðin ekki búin að opna heiðina. Það snerist þó fremur um form en innihald, því að heiðin var orðin vel fær fyrir sæmilega fjórhjóladrifsbíla, bara einn þunnur skafl eftir. Fyrir svo sem 70 árum var vegurinn yfir Steinadalsheiði eini akfæri bílvegurinn að sunnan áleiðis til Hólmavíkur. Vegurinn hefur verið endurbættur talsvert síðan þá, en aðrir vegir hafa verið endurbættir talsvert meira og henta því síður til náttúruhlaupa. Steinadalsheiðin er upplögð til þeirra nota.

Á leið upp Steinadalsheiði. Gaman væri að vita nafn á þessum fossi sem rennur í skömmtum niður hlíðina.

Á leið upp Steinadalsheiði. Gaman væri að vita nafn á þessum fossi sem rennur í skömmtum niður hlíðina.

Heiðin að baki. Hlaupið yfir Steinadalsá.

Heiðin að baki. Hlaupið yfir Steinadalsá.

Einn helsti kosturinn við að hlaupa upp heiðar er að þá getur maður hlakkað til að hlaupa niður þær hinum megin. Niðurhlaup eru oftast sýnu auðveldari en upphlaup, að því tilskyldu að niðurleiðin sé ekki mjög brött. Þessi niðurleið er það ekki og því var ekkert slegið af, ekki heldur við Hestasteininn í Steinadal þar sem venja hefur verið að staldra við í Þrístrendingshlaupum. Þess í stað var haldið áfram framhjá myndarbýlinu í Steinadal þar sem hvergi er óreiðu að sjá og alla leið að Stóra-Fjarðarhorni í Kollafirði, þaðan sem Stefán frá Hvítadal gekk til kirkju á Felli á jóladag, líklega 8 ára gamall, árið 1895. Þessi gönguferð varð að öllum líkindum kveikjan að sálminum „Kirkjan ómar öll“ sem margir þekkja. Nú er engin kirkja á Felli, en ættmenni Stefáns búa enn í Stóra-Fjarðarhorni, rétt eins og þau hafa gert allar götur síðan 1844.

Við Stóra-Fjarðarhorn sýndi Garminúrið 18,91 km og 2:05:36 klst. Líklega höfðum við verið ögn fljótari en oftast áður, en í Þrístrendingi er ekki keppt við tímann. Og það sem meira er, tíminn var í fríi þennan dag.

Trússbíllinn beið við Stóra-Fjarðarhorn. Sumir segja að gott sé að liggja undir Land-Rover.

Trússbíllinn beið við Stóra-Fjarðarhorn. Mörgum finnst gott að liggja undir Land-Rover.

Hugað að fótabúnaði. Slíkur búnaður er mikilvægur á hlaupum.

Hugað að fótabúnaði. Slíkur búnaður er mikilvægur á hlaupum.

Allir hlauparar dagsins samankomnir við Stóra-Fjarðarhorn. Hjólreiðafólkið farið.

Allir hlauparar dagsins samankomnir við Stóra-Fjarðarhorn. Hjólreiðafólkið farið.

Á leið upp frá Stóra-Fjarðarhorni.

Á leið upp frá Stóra-Fjarðarhorni.

Eftir hefðbundna áningu lögðum við upp í næsta áfanga, upp Fjarðarhornssneiðinga áleiðis upp á Bitruháls. Tveir hlauparar höfðu látið Steinadalsheiðina nægja og sömuleiðis var hjólreiðafólkið farið sína leið. Í staðinn bættust tvær hraustar konur frá Hólmavík í hópinn þannig að við vorum sex saman þarna á hálsinum. Þokan var á undanhaldi og sólin gægðist meira að segja fram. Vorið hafði líka greinilega verið fyrr á ferð en síðustu ár, því að leiðin var orðin snjólaus og klaki farinn úr jörðu. Tíminn leið fljótt við spjall um hlaup, líf, tilveru og uppvaxtarárin mín í Gröf. Þangað vorum við svo komin fyrr en varði, nánar tiltekið kl. 14:48. Tölur hafa alltaf skipt máli í Gröf, í það minnsta í þau tæpu 60 ár sem ég hef fylgst með í þeim efnum.

Arnór á háhálsinum. Þokan alveg að hverfa.

Arnór á háhálsinum. Þokan alveg að hverfa.

Húsráðendur í Gröf voru fjarverandi þennan dag en við tókum okkur engu að síður bessaleyfi að bæla grasið við suðurgafl vélageymslunnar ofan við bæinn. Þar átti ég mín fyrstu markskot á knattspyrnuferlinum. Boltinn var að mig minnir minjagripur frá heimsmeistaramótinu 1966, gerður úr einhvers konar plasti með ventli sem átti það til að detta inn í boltann ef maður var ekki nógu gætinn með loftpumpuna. Þessi bolti var í nokkurn veginn réttri stærð af fótbolta að vera en helst til léttur. Þyngdarpunkturinn var heldur ekki alveg í miðjum bolta, sem gerði það að verkum að hann beygði stundum af leið í miðju skoti. Það gat komið sér illa, bæði fyrir útileikmenn og markmenn (hvort tveggja í eintölu). Og svo var líka hættulegt að hitta ekki markið, því að þá gat boltinn skoppað „út í gil“, þ.e.a.s. út í lækinn sem rann eftir gilinu niður með bænum. Þá var aldrei að vita hvort maður næði gripnum í tæka tíð áður en straumurinn tæki hann. Til þess kom reyndar aldrei. Samt varð knattspyrnuferillinn stuttur.

Í Gröf - áður en konurnar yfirgáfu okkur.

Í Gröf – áður en konurnar yfirgáfu okkur.

Eftir svo sem hálftíma hvíld og sögustund við vélageymsluna í Gröf var tekið á rás suður Krossárdal, fram hjá Gili og Árdal og fram fyrir Torffell. Torffell blasti við úr glugganum fyrir ofan rúmið mitt í Gröf í gamla daga, það lokaði eiginlega dalnum og þar endaði heimurinn minn til vesturs. Heiminn á bak við Torffell kannaði ég ekki fyrr en á unglingsárum. Og fyrst að hér er notuð hugtökin „suður Krossárdal“ og „fram fyrir Torffell“ er rétt að taka fram að Krossárdalur liggur í vestur og það sem ég kalla „fram fyrir Torffell“ væri kallað „inn fyrir Torffell“ í einhverjum öðrum landshlutum.

Á þessum síðasta áfanga leiðarinnar vorum við bara fjórir eftir. Í Gröf hafði hjálpsamur bílstjóri beðið eftir konunum frá Hólmavík og þar endaði hlaupið þeirra þennan dag. Önnur þeirra giftist meira að segja þessum bílstjóra viku síðar. Svona eru forlögin.

Við Skáneyjargil áðum við um stund og söfnuðum liðinu saman. Þar endar hinn greinilegi slóði fram (eða inn) dalinn og því hentaði vel að bera þar saman bækur sínar um áframhaldið. Eftir þessa áningu fylgdumst við Birkir bóndi að fram að Krossárvatni en hinir tveir, Arnór og Hlynur, fóru hraðar yfir. Í Þrístrendingi fyrir ári síðan hafði ég einhver orð um að ég myndi dýfa mér í vatnið næst, enda voru ferðafélagarnir þá búnir að gefa tóninn hvað það varðaði. Sannast sagna er ég hvorki mikið fyrir böð í köldu vatni né fyrir sundiðkun yfirleitt. Ég lét samt verða af því að vaða út í vatnið, en bara upp í mið læri.

Síðasta spölinn niður að Kleifum hlupum við fjórmenningarnir í fjórum hópum, sem allir komu þó á leiðarenda á svipuðum tíma. Sem fyrr segir er leiðin öll rétt rúmir 40 km og á hverju ári fær einhver Þrístrendingshlaupari þá flugu í höfuðið að ekki sé nóg að gert fyrr en dagleiðin er orðin jafnlöng maraþoni, þ.e.a.s. 42,2 km. Að þessu sinni var ég þessi einhver, enda engan veginn orðinn saddur af hlaupum. Bætti því við svolitlu skokki niður heimreiðina á Kleifum og aftur til baka. Að þeirri viðbót lokinni settist ég að kjötsúpuveisluborði að hætti Birnu á veröndinni á Kleifum. Það var án nokkurs vafa hápunktur dagsins! Þaðan fóru allir saddir og glaðir rétt í þann mund sem íslenska landsliðið í knattspyrnu var búið að gera 1:1 jafntefli við Ungverja á EM í Frakklandi.

Birna beið með súpuna heima á Kleifum. Þarna var gestrisnin allsráðandi!

Birna beið með súpuna heima á Kleifum. Þar var gestrisnin allsráðandi!

Sum föt henta einfaldlega betur en önnur að hlaupi loknu.

Sum föt henta einfaldlega betur en önnur að hlaupi loknu.

Eftirtaldir hlauparar tóku þátt í Þrístrendingi 2016:

 • Alla leið (3 fjallvegir með tilheyrandi):
  Arnór Hauksson
  Birkir Þór Stefánsson
  Hlynur Skagfjörð Pálsson
  Stefán Gíslason
 • Einn fjallvegur (Steinadalsheiði):
  Magnús Steingrímsson
  Sigþór Ási Þórðarson
  Erlendur Breiðfjörð Magnússon (á hjóli)
  Marta Sigvaldadóttir (á hjóli)
  Sigríður Drífa Þórólfsdóttir (á hjóli)
 • Einn fjallvegur (Bitruháls):
  Esther Ösp Valdimarsdóttir
  Hrafnhildur Þorsteinsdóttir
 • Styttri leið (hluti af Steinadalsheiði):
  Dofri Hermannsson

Hlaupaannáll 2015 og markmiðin 2016

Lau2015 endaspr Sævar 200

Laugavegurinn 2015. Endasprettur í bígerð. (Ljósm. Sævar Skaptason).

Það er orðinn kækur hjá mér að staldra við um áramót, rifja upp hlaup ársins, skoða hvort ég hafi náð markmiðunum sem ég setti mér og velta fyrir mér hvert skuli stefna á nýju ári. Úr þessu verður gjarnan þokkalega langur bloggpistill. Þessi áramót eru engin undantekning hvað þetta varðar.

Þriðja besta hlaupaárið
Árið 2015 var eitt af bestu hlaupaárunum mínum til þessa, líklega það þriðja besta þegar grannt er skoðað. Minni háttar tognun í febrúar setti strik í reikninginn og seinkaði árangri. Þetta þýddi um það bil tveggja mánaða seinkun á framfarabrautinni, þannig að formið sem ég ætlaði að vera kominn í í lok apríl lét bíða eftir sér fram á sumarið. Svona frávik eru bara hluti af leiknum, því að þrátt fyrir góðan ásetning og þokkalega aðgát kemur að því að maður meiðist. Tíminn sem fer til spillis vegna meiðsla virðist langur á meðan hann er að líða, en mun styttri þegar horft er um öxl nokkrum mánuðum síðar. Langhlaup eru langhlaup, bæði líkamlega og andlega. Þar duga engar skyndilausnir.

Líklega er ekki til neinn algildur mælikvarði á gæði hlaupaára, en með hjálp þeirra mælitækja sem mér eru tömust hef ég komist að þeirri niðurstöðu að árið 2015 hafi verið þriðja besta hlaupaárið mitt frá upphafi. Næstu tvö ár á undan, þ.e.a.s. árin 2013 og 2014, sitja í toppsætunum. Hápunktar ársins 2015, árangurslega séð, voru tveir. Annars vegar óvænt bæting í 10 km hlaupi seint í júlí (39:59 mín) og hins vegar vel heppnað Laugavegshlaup fyrr í sama mánuði. Margt fleira gekk vel eins og rakið verður í ítrustu smáatriðum hér á eftir. Ekkert gekk illa. Sumt var vissulega undir væntingum, en allt voru þetta eðlilegir áfangar á lengri leið.

Tvö markmið af fimm
Ég setti mér fimm hlaupatengd markmið fyrir árið 2015 og náði ekki nema tveimur þeirra. Í fyrsta lagi ætlaði ég að bæta mig í 5 km götuhlaupi með því að hlaupa undir 19:39 mín. Besti staðfesti tími ársins á þessari vegalengd var 20:13 mín í Víðavangshlaupi ÍR í apríl. Ég var reyndar nokkuð sáttur við þennan tíma, því að þarna var ég enn að ná fullum styrk eftir meiðsli. Tók ekki þátt í 5 km hlaupum við nothæfar aðstæður eftir þetta, en kláraði reyndar fyrri helminginn af einu 10 km hlaupi í júlí á 19:44 mín. Markmiðið var því svo sem alveg raunhæft.

Markmið nr. 2 var að hlaupa 10 km undir 40 mín. Það tókst. Meira um það síðar í þessum pistli. Þriðja markmiðið var að bæta mig í Laugavegshlaupinu. Það tókst líka. Hins vegar náði ég ekki tveimur auðveldustu markmiðunum. Þannig áttu fjallvegahlaupin að vera fimm talsins (markmið nr. 4) en urðu bara þrjú. Þar kom slæmt veður við sögu, auk þess sem ég þurfti að létta aðeins á álagi sumarsins til að fá tíma til uppbyggingar. Svo tókst mér ekki að hafa gleðina með í för í öllum hlaupum (markmið nr. 5), sem ætti þó að vera næsta auðvelt. Þetta er auðvitað alltaf matsatriði, en gleðistuðullinn í Gautaborgarhlaupinu í maí stóðst ekki mál.

Hlaupaæfingar ársins
Hlaupaæfingar ársins fóru vel af stað. Var kominn í þægilegan 60 km vikuskammt um miðjan febrúar, með hæfilegri blöndu af sprettæfingum og lengri hlaupum. Allt stefndi í að ég yrði kominn í mitt besta form í lok apríl. Þá tognaði ég í kálfa eftir að hafa tekið aðeins of erfiðar æfingar aðeins of marga daga í röð í aðeins of erfiðu færi. Í byrjun mars þóttist ég vera orðinn nokkuð góður en þá tóku meiðslin sig upp. Eftir góða sjúkraþjálfun, heilun og skipulagða endurhæfingu var ég loks kominn aftur í 60 km vikuskammt um miðjan apríl. Í tengslum við þetta bjó ég mér til nýja æfingaáætlun með vinnuheitið Björgum Laugaveginum, því að aðalmarkmið ársins var jú að bæta annars ágætan tíma sem ég náði þar sumarið 2013. Þetta átti svo sem ekki að vefjast fyrir mér en vissulega var staðan breytt eftir þessa tveggja mánaða truflun. Ég ákvað að lækka forgangsstig annarra hlaupaverkefna og sinna Hafnarfjallsæfingum þess betur, því að ég taldi mest tækifæri til úrbóta liggja í auknum styrk á ferðalögum upp og niður brekkur.

Hafnarfjallsæfingarnar urðu ekki alveg eins margar og ég ætlaði. Maður þarf jú stundum líka að vinna og svoleiðis. En þær urðu samt fleiri þetta vor en nokkru sinni fyrr. Í apríl, maí og júní fór ég fjórum sinnum upp á topp með Gunnari Viðari, hlaupafélaga nr. 1, og nokkrum sinnum langleiðina. Oftar en ekki lögðum við af stað heiman að og náðum þannig 16 km æfingu, þó að leiðin upp fjallið sé ekki nema rúmir 3 km. Hækkunin er næstum 800 m, þannig að þetta tekur vel í, bæði á leiðinni upp og niður. Í þessum ferðum bætti ég mig bæði á uppleiðinni og niðurleiðinni miðað við fyrri ár, sem nægði mér sem sönnun þess að bæting á Laugaveginum væri innan seilingar.

Fyrri hluta sumars jókst hið vikulega hlaupamagn jafnt og þétt og um mánaðarmótin júní/júlí náði ég lengstu viku æfinnar, 102,70 km. Þá viku hljóp ég m.a. Háfslækjarhringinn (21 km) tvisvar og Hvanneyrarhringinn (33 km) einu sinni. Á þessu tímabili var helst til lítið um sprettæfingar, en meira um löng hlaup og Hafnarfjallsferðir. Auk þess keppti ég fjórum sinnum í hálfmaraþonhlaupi frá því í lok apríl og fram að Jónsmessu. Slík hlaup eru betri æfingar en flest annað. Eftir á að hyggja held ég að þessi hlaup hafi skipt hvað mestu máli fyrir framhaldið.

Júlí og ágúst eru venjulega tími keppnishlaupa og fjallvegahlaupa, en æfingar hafa að sama skapi minna vægi. Svona var þessu líka varið sumarið 2015. Eftir Reykjavíkurmaraþonið í ágúst ætlaði ég að halda áfram að æfa vel fram yfir haustmaraþon í lok október, en veikindi og fleiri ástæður urðu þess valdandi að ég ákvað að taka haustfríið snemma þetta ár. Í byrjun september hófst því 7 vikna hvíldartími. Reyndar hljóp ég eitthvað í hverri viku en aldrei meira en 20 km. Ég held að svona haustfrí séu ágæt. Þá gefst líkamanum tími til að lagfæra það sem kann að hafa farið úrskeiðis í hlaupum ársins og hugurinn getur metið stöðuna og undirbúið sig fyrir næsta tímabil. Reyndar var ég lengi þeirrar skoðunar að maður ætti aldrei að taka sér langt frí frá hlaupum, því að þá yrði svo erfitt að komast aftur í fyrra form, sérstaklega þegar árin færast yfir. En ég sannfærðist um að þetta væri góð hugmynd eftir að ég vissi að stórhlaupararnir Meb Keflezighi og Bernard Lagat hafa svipaðan hátt á. Þeir eru báðir orðnir fertugir en eru þrátt fyrir það í fremstu röð meðal langhlaupara í heiminum. Manni hlýtur að vera óhætt að taka mark á svoleiðis fólki.

Um miðjan október urðu æfingarnar reglulegri á nýjan leik. Þá einsetti ég mér að hlaupa a.m.k. 40 km á viku, en það tel ég vera hæfilegan skammt til viðhalds. Hélt þeirri áætlun í öllum aðalatriðum út árið og í desember var meðalvikan komin nær 50 km. Þessu til viðbótar var ég óvenjuduglegur í ræktinni, en styrktaræfingar eru ekki síður mikilvægar hlaupurum en hlaupaæfingar. Í árslok var ég kominn í ágætt stand að eigin mati og tilbúinn í verkefni næsta árs.

Eftirfarandi mynd sýnir hlaup ársins í kílómetrum, skipt eftir mánuðum. Þar má í einni svipan sjá nokkurn veginn það sama og útskýrt er í löngu máli hér að framan.

Hlaup 2015 mán

Á gamlárskvöld hafði ég lagt samtals 2.371 km að baki á árinu. Árið 2015 var þar með fjórða lengsta árið í lífinu. Stærstur var ársskammturinn árið 2013, 2.731 km. Næsta mynd gefur hugmynd um ástundunina frá og með árinu 1991.

Hlaup 2015 ár

Keppnishlaupin
Keppnishlaupin mín á árinu 2015 urðu 14 talsins sem er það næstmesta á einu ári frá upphafi. Í orði kveðnu eru fjallavegahlaup aðalviðfangsefnið á hlaupadagskránni minni, en mér finnst samt nauðsynlegt að taka þátt í nokkrum keppnishlaupum á hverju ári. Þau gefa mér færi á að sjá hvar ég stend í samanburði við fyrri ár og í samanburði við aðra. Auk þess eru keppnishlaup bestu æfingar sem völ er á. Og svo má ekki gleyma því að í tengslum við þessi hlaup hittir maður fjöldann allan af hlaupavinum sínum. Þessu vinafólki fer fjölgandi ár frá ári og kynnin við það auðga lífið langt út fyrir sporin sem hlaupaskórnir skilja eftir sig.

Fyrsta keppnishlaup ársins var 1. hlaupið í hlaupaseríu Atlantsolíu og FH í Hafnarfirði 29. janúar. Mér leið vel í þessu hlaupi en hafði einhvern veginn ekki líkamlegan styrk til að ná þeim hraða sem ég vildi ná. Kannski var færið aðeins of laust fyrir mig. Tíminn í þessu 5 km hlaupi var 20:59 mín sem var jöfnun á lakasta 5 km tímanum mínum frá upphafi. Ætlunin var að mæta líka í hlaup nr. 2 og 3 en meiðslin í febrúar gerðu þær fyrirætlanir að engu.

Hlaup nr. 2 var 100. Víðavangshlaup ÍR 23. apríl, á sumardaginn fyrsta. Þarna var í fyrsta sinn hlaupin ný leið, upp Hverfisgötu og niður Laugaveg, sem mér fannst stórskemmtileg nýbreytni. Sjálfur var ég ekkert sérstaklega sprækur, en hélt nokkuð jöfnum hraða og kláraði hlaupið á 20:13 mín. Var vel sáttur við það, enda til þess að gera nýstiginn upp úr meiðslum.

Þriðja hlaupið var hálft vormaraþon 25. apríl í NA-kalda, sólskini og 0-3 stiga frosti. Vissi sem var að ég myndi ekki gera neina rósir, en vildi alla vega ganga úr skugga um að kálfameiðslin væru úr sögunni. Kálfinn stóðst prófið en ég var frekar þreyttur undir lokin. Tókst líka að villast aðeins á leiðinni og tafðist eitthvað við það. Kláraði hlaupið á 1:33:58 klst. sem var lakasti tíminn minn í 5 ár.

Næst var röðin komin að hinu árlega 7 km Icelandairhlaupi 7. maí. Þarna taldi ég mig eiga að geta hlaupið á 28:35 mín en lokatíminn var 28:55, rúmri mínútu lakari en í fyrra. Kannski átti norðanáttin og kuldinn einhvern þátt í þessu, en fyrst og fremst var ég einfaldlega ekki kominn í eins gott form og ég vildi. Icelandairhlaupið var samt skemmtilegt, m.a. vegna þess að nokkrir félagar mínir úr Flandra voru með í för. Gunnar Viðar sem var svo eftirminnilega rétt á eftir mér í hlaupinu í fyrra var langt á undan mér í þetta skiptið. Svona breytast hlutverkin.

Fimmta keppnishlaup ársins var Göteborgsvarvet, stærsta hálfmaraþon í heimi, sem haldið var 23. maí. Þangað fór ég í góðri fylgd Birgittu dóttur minnar og Gunnars Viðars. Þetta var dásamlegt ferðalag, sérstaklega vegna þess hversu vel vinafólk okkar í Svíþjóð tók á móti okkur. Við flugum út með næturflugi aðfaranótt föstudags, enda náðum við þannig einkar hagstæðum fargjöldum. Hlaupið var á laugardegi og eftir á að hyggja gæti stopull svefn flugnóttina hafa rænt mann einhverjum hluta þeirrar orku sem ætlunin var að nota í hlaupið. Alla vega sá ég aldrei til sólar í hlaupinu þrátt fyrir sól og blíðu og mikinn mannfjölda innan brautar og utan. Tíminn var sá lakasti í mörg ár, 1:35:33 klst, en samt svo sem bara í meðallagi þegar öll hálfmaraþonævisagan mín er skoðuð. Sjö sinnum hafði ég verið fljótari, sjö sinnum hægari. Og aldrei höfðu eins margir hlauparar komið á eftir mér í mark, eitthvað rúmlega 43.100 manns. Samtals skiluðu 46.444 hlauparar sér í mark eftir því sem ég kemst næst.

Með Gittu, Gunnari og sænskum vinum eftir Göteborgsvarvet í maí. (Ljósm. Maria Lejerstedt).

Með Gittu, Gunnari og sænskum vinum eftir Göteborgsvarvet í maí. (Ljósm. Maria Lejerstedt).

Tveimur vikum eftir Gautaborg var röðin komin að 6. keppnishlaupi ársins og 3. hálfmaraþoninu. Þetta var Mývatnsmaraþonið 6. júní. Mér finnst alltaf gaman að hlaupa í kringum Mývatn en brautin býður einhvern veginn ekki upp á mikinn hraða. Oft er vindurinn eitthvað að stríða manni og svo eru a.m.k. tvær letjandi brekkur á leiðinni. Ég tók forystu í þessu hlaupi strax í fyrsta skrefinu og hélt henni til loka, sem var vissulega skemmtileg tilfinning. Tíminn var 1:34:41 klst, vissulega sýnu betri en í Gautaborg en samt langt frá því sem ég vil geta gert. Þarna komst ég að því að líkamlega formið var orðið betra en það andlega. Síðasti kílómetrinn var nefnilega einn sá hraðasti þrátt fyrir að vera næstum allur upp í móti, upp brekkuna að jarðböðunum. Í stuttu máli var gaman að vinna þetta hlaup og gaman að finna að skrokkurinn var tilbúinn í meiri átök.

Þann 23. júní hljóp ég 7. keppnishlaup ársins og 4. hálfmaraþonið, að þessu sinni í Miðnæturhlaupi Suzuki. Mér fannst ég þungur framan af, þ.e. á leiðinni neðan úr Laugardal og upp að Rauðavatni. En þegar halla tók undan fæti fór allt að ganga betur og seinnihlutinn var virkilega léttur og skemmtilegur. Og ekki spillti veðrið fyrir, hægviðri, skýjað og 12-13 stiga hiti. Tíminn var 1:31:16 klst. sem er 4. besti tíminn minn í hálfmaraþoni. Samtals hef ég hlaupið 17 slík, það fyrsta sumarið 1985.

Frekar glaður inn við Elliðaár á síðustu kílómetrum Miðnæturhlaupsins. (Ljósm. Hlaup.is).

Frekar glaður inn við Elliðaár á síðustu kílómetrum Miðnæturhlaupsins. (Ljósm. Hlaup.is).

Ármannshlaupið 8. júlí var 8. keppnishlaup ársins. Þetta gekk bara nokkuð vel, ég hélt jöfnum hraða allt hlaupið og kláraði það á 41:13 mín. Ætlaði að hlaupa á 40:55 en átti svo sem aldrei möguleika á því. Þetta var líka fyrsta 10 km hlaupið á árinu. Mér finnst maður þurfa að hlaupa hverja vegalengd tvisvar til þrisvar sinnum sama sumarið til að ná út því sem í manni býr.

Þá var komið að Laugaveginum sem var án nokkurs vafa hápunkturinn á hlaupaárinu mínu. Ég þóttist vera kominn í býsna gott brekkuform en hafði efasemdir um þolið á sléttu undirlagi. Sumum fannst óþægilega mikill snjór á leiðinni en það angraði mig svo sem ekki neitt. Gleðin jókst jafnt og þétt eftir því sem á leið hlaupið og var við það að fara úr böndunum í lokin. Öfugt við það sem ég hafði búist við var fjallahlauparinn í mér alveg búinn á því eftir Emstrur, en maraþonhlauparinn var þá í essinu sínu sem aldrei fyrr. Kom í mark á 5:41:10 klst. sem var rúmlega 11 mínútna bæting frá því í hitteðfyrra. Náði öðru sæti (af 45) í flokki 50-59 ára á eftir einhverjum ofur-Ítala og 17. sæti af 361 hlaupara sem lauk hlaupinu. Að sjálfsögðu skrifaði ég langan bloggpistil um þessa skemmtilegu upplifun.

Í miðri Þröngá, 50 km að baki og gleðin allsráðandi. Rjúpnafell í baksýn. (Ljósm. Magnús Jóhannsson).

Í miðri Þröngá, 50 km að baki og gleðin allsráðandi. Rjúpnafell í baksýn. (Ljósm. Magnús Jóhannsson).

Einmitt lokatíminn sem ég vildi sjá!

Einmitt talan sem ég vildi sjá!

Tíunda keppnishlaupið var Adidas Boosthlaupið 29. júlí. Adidasumboðið hafði verið svo vinsamlegt að gefa mér hlaupaskó fyrr um sumarið og í þakklætisskyni ákvað ég að nota þá í þessu hlaupi, jafnvel þó að mér finndust þeir kannski helst til mjúkir. Fór frekar gætilega af stað enda byrjunin heldur á fótinn og svo sem engar sérstakar væntingar í kortunum. En þegar ég sá millitímann 19:44 mín eftir 5 km og 27:53 eftir 7 km var 40 mínútna múrinn allt í einu orðinn raunhæft markmið. Þann múr hefur mig lengi dreymt um að brjóta, þó að ég tryði því reyndar ekki fyrr en á síðasta ári að ég ætti möguleika á því, kominn fast að sextugu. Síðasti kílómetrinn var erfiður en ég notaði alla þá orku sem til var og í markinu sýndi klukkan mín 39:59,95 mín. Ég var náttúrulega ógurlega spenntur að fá það staðfest hvort réttur hlaupatími væri 39:59 eða 40:00, enda er gríðarstór munur á þessu tvennu. Ég var heppinn, tíminn var 39:59 og þar með var ég búinn að ná einu helsta hlaupamarkmiði síðustu ára, eiginlega óvart. Tölulega séð var þetta langbesti götuhlaupaárangurinn minn á árinu, alla vega ef marka má hlaupareiknivél McMillan sem ég nota gjarnan og hefur reynst mér vel. Líklega var þetta jafnframt næstbesta götuhlaupið mitt frá upphafi á eftir hálfmaraþoni á 1:28:13 klst. í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra.

Barðsneshlaupið austur á Norðfirði var næst á dagskrá. Það var án nokkurs vafa eitt af skemmtilegustu hlaupum ferilsins, með friðsæld og náttúrufegurð í aðalhlutverkum. Ég hljóp reyndar aleinn allan tímann ef frá eru talin stutt kynni af hlaupurum úr fyrri ráshóp sem ég fór fram úr á leiðinni. Samt var ég þarna í góðum félagsskap með Þorberg Inga ofurhlaupari einhvers staðar langt á undan mér og Elísabetu Margeirssóttur ofurhlaupara í humátt á eftir mér. Þessu hlaupi gerði ég skil í þar til gerðum bloggpistli að hlaupi loknu.

Lagt af stað frá Barðsnesi. Tuttuguogátta km ævintýri framundan. (Ljósm. Haukur Snorrason).

Lagt af stað frá Barðsnesi. Tuttuguogátta km ævintýri framundan. (Ljósm. Haukur Snorrason).

Jökulsárhlaupið 8. ágúst var sögulegt. Þar ætlaði ég að bæta tíma sem ég náði sumarið 2011, 2:43:33 klst. Vantaði 16 sek. upp á það. Datt illa þegar ég var nýkominn framhjá Vesturdal, það dró úr mér kjark en seinkaði mér ekkert, eftir á að hyggja. Sekúndurnar sem á vantaði töpuðust í fyrri hluta hlaupsins þar sem stígarnir höfðu vaðist upp í bleytu eftir miklar rigningar. Byltan lék hins vegar gleraugun mín grátt og gerði það að auk þess að verkum að ég leit ekki alveg eins vel út í markinu og ég hafði ætlað mér. Um kvöldið þegar ég staulaðist út úr bílnum utan við hús okkar hjónanna í Borgarnesi sagði nágranni minn að þetta myndi lagast fljótt, ég yrði örugglega farinn að hlaupa aftur innan tveggja mánaða. Ég sagði honum að ég væri nú meira að spá í svona tvær vikur. Það gekk eftir eins og sjá má hér að neðan. Og það er svo sem enginn vandi að kaupa ný gleraugu, sérstaklega ef tryggingarfélagið hjálpar til. Auk þess gróa flest meiðsli. Fjórum og hálfum mánuði síðar eru þrjár tær á hægri fæti reyndar svolítið stærri og öðru vísi í laginu en þær voru fyrir Jökulsárhlaupið, en það háir mér ekki neitt. Þær voru líka ljótar fyrir.

Reykjavíkurmaraþonið 22. ágúst var 13. keppnishlaup ársins. Það gekk hreint alveg eins og í sögu og veðrið var það besta sem nokkur hlaupari getur óskað sér. Mér leið vel allan tímann og kom í mark á 3:12:00 klst. sem var þriðji besti maraþontíminn minn frá upphafi og vissulega vel umfram væntingar. Og ég gleymdi ekki að skrifa maraþonbloggpistil að hlaupi loknu.

Reykjavíkurmaraþon, 37 km búnir. (Ljósm. Hlaup.is).

Reykjavíkurmaraþon, 37 km búnir. (Ljósm. Hlaup.is).

Atvikin höguðu því þannig að eftir Reykjavíkurmaraþonið tók ég mér að mestu frí frá hlaupum fram í október. Þann 17. desember bætti ég svo 14. keppnishlaupi ársins í Excelskjalið mitt, en þá tók ég þátt í Flandraspretti í Borgarnesi í leiðindaveðri og vondri færð. Þeim 5 km spretti lauk ég á 24:52 mín. sem er langlakasti tími ferilsins. (Átti verst áður 20:59 mín). En þetta var líka bara gert til gamans af því að veðrið var svo vont, þátttakendur mjög fáir og óvenjurólegt í starfsmannahaldinu, sem annars er að hluta til á minni könnu.

Fjallvegahlaupin
Sumarið 2015 var níunda og næstsíðasta sumarið í fjallvegahlaupaverkefninu sem ég gaf sjálfum mér í fimmtugsafmælisgjöf hérna um árið. Alla jafna hleyp ég fimm fjallvegi á hverju sumri en sumarið 2015 urðu þeir bara þrír. Einum sleppti ég til að gefa mér meira svigrúm til að „bjarga Laugaveginum“ og í annað skipti flúði ég af hólmi, gegnblautur og hrakinn í austfirsku slagviðri.

Fyrsti fjallvegur ársins og sá fertugastiogfyrsti frá upphafi var Flatnavegur frá Rauðamelsölkeldu á Snæfellsnesi norðuryfir nesið að bænum Setbergi neðst í Litla-Langadal. Það gekk alveg skínandi vel og aldrei hafa fleiri hlauparar fylgt mér alla leið í svona hlaupi. Alls vorum við 23 á ferðinni þennan fallega dag. Það má eiginlega segja að félagsskapurinn hafi batnað með árunum. Alla vega hef ég ekki verið einn á ferð í fjallvegahlaupi síðan ég hljóp yfir Helkunduheiði í ágúst 2011.

Næsti fjallvegur átti að vera Víkurheiði og Dys, úr Reyðarfirði yfir í Viðfjörð. Við lögðum upp í þetta ferðalag sex saman að morgni þriðjudagsins 4. ágúst, þremur dögum eftir Barðsneshlaupið. Hrepptum vonskuveður, norðan hvassviðri beint í fangið, úrhellisrigningu og kulda. Eftir 3,75 km barning á móti veðrinu ákvað ég að snúa við. Þá vorum við efst á Víkurheiði og ég sá ekki fram á að þetta ferðalag gæti endað vel, að teknu tilliti til hitastigsins og rakastigsins á sjálfum mér. Ferðalagið endaði í sundlauginni á Eskifirði. Þar var nóg af heitu vatni. Seinna frétti ég að Þverá, sem við vorum rétt ókomin að, hefði líklega verið óvæð þennan dag enda vatnavextir eystra með því mesta sem sést hefur að sumri til. Þetta hlaup minnti mig á það sem ég hef sjálfur sagt, að eiginlega sé vont veður ekki til, heldur bara vond föt. Um haustið keypti ég mér vatnsheldan hlaupagalla.

Tveimur dögum eftir hrakningana á Víkurheiði hljóp ég við þriðja mann yfir Berufjarðarskarð milli Breiðdals og Berufjarðar. Enn rigndi einhver ósköp norðar á Austfjörðum, en þarna suðurfrá var hið besta hlaupaveður ef frá er talin dimm þoka norðanvert í skarðinu. Þetta var góður fjallvegahlaupadagur í góðum félagsskap.

Með Sævari Skaptasyni og Bryndísi Óladóttur á leið niður úr Berufjarðarskarði.

Með fjallvegahlaupurunum Sævari Skaptasyni og Bryndísi Óladóttur á leið niður úr Berufjarðarskarði 6. ágúst.

Um miðjan ágúst hljóp ég svo yfir Haukadalsskarð milli Dala og Hrútafjarðar með 9 góðum félögum. Það gekk að óskum, enda veðrið hagstætt og leiðin auðveld. Þar með voru 43 fjallvegahlaup komin á skrá og 7 eftir. Sumarið 2016 verður síðasta sumar fjallvegahlaupaverkefnisins og þá verður sýnilega nóg að gera. Meira um það síðar.

Skemmtihlaupin
Árlega stend ég fyrir eða á einhvern þátt í þremur skemmtihlaupum, sem hvorki eru keppnishlaup né formleg fjallvegahlaup. Þar ber fyrst að nefna hinn árlega Háfslækjarhring sem jafnan er hlaupinn á uppstigningardag. Nú var þetta hlaup þreytt í 6. sinn. Umræddur hringur er í nágrenni Borgarness, rúmlega 21 km að lengd heiman að frá mér og heim. Þetta er eiginlega boðshlaup, því að hluti af uppákomunni er annáluð kjötsúpa Bjarkar, gerð úr kjöti af Strandalömbum sem aldrei hafa kynnst ræktuðu landi af eigin raun. Sjálfur var ég að hlaupa hringinn í 106. sinn þennan dag.

Hin tvö skemmtihlaupin eru Þrístrendingur og Hamingjuhlaupið, sem oftast lenda hvort á sínum laugardeginum seint í júní. Þrístrendingur er hugarfóstur okkar Dofra Hermannssonar, en móðir mín og afi hans voru systkini og ólust upp á Kleifum í Gilsfirði. Þaðan hlaupum við einu sinni ári norður Steinadalsheiði til Kollafjarðar, yfir Bitruháls að æskuheimili mínu í Gröf í Bitru og loks suður (eða vestur) Krossárdal að Kleifum. Hringurinn allur er um 40 km, en auðvelt að skipta honum upp í þrjá áfanga. Að þessu sinni bar hlaupið upp á laugardaginn 20. júní. Þátttakendur voru 16 þegar allt er talið, þar af 14 sem hlupu alla leið. Allt er þetta tíundað í smáatriðum í viðeigandi bloggpistli. Hamingjuhlaupið fór svo fram viku síðar, en það var nú haldið í 7. sinn í tengslum við Hamingjudaga á Hólmavík. Í þetta sinn lá leiðin um Laxárdalsheiði frá Klukkufelli í Reykhólasveit og niður með Þiðriksvallavatni alla leið til Hólmavíkur, samtals rétt tæpir 35 km. Við hlupum fimm saman alla leiðina og fleiri bættust í hópinn undir lokin. Fengum frábært veður, norðaustan kalda, sólskin og 14-18 stiga hita. Af einhverjum ástæðum hefur farist fyrir að skrá ferðasöguna, en kannski geri ég það við tækifæri til að varðveita minningarnar enn betur. Leiðarlýsinguna er hins vegar að finna á blogginu.

Hamingjuhlaup á Laxárdalsheiði

Hamingjuhlaup á Laxárdalsheiði 27. júní.

Markmiðin 2016
Eins og áður sagði náði ég ekki nema tveimur af fimm hlaupamarkmiðum ársins 2015. Þannig gengur það bara stundum. Ætli ég geti ekki skrifað það sem á vantar á meiðsli síðasta vetrar. Og meiðslin get ég skrifað á eigin aðgæsluleysi. Oftast er maður sinnar eigin gæfu smiður á þessu sviði eins og öðrum. Og þá er bara að halda áfram að bæta sig á nýju ári.

Hlaupamarkmiðin mín fyrir árið 2016 eru sem hér segir:

 1. Sjö fjallvegahlaup
 2. Bæting í 5 km götuhlaupi (undir 19:39 mín)
 3. Bæting á ofur-Vesturgötunni (45 km) í júli (undir 4:12:03 klst)
 4. A.m.k. eitt keppnishlaup á braut
 5. Gleðin með í för í öllum hlaupum

Þessi markmið eru keimlík markmiðum nýliðins árs og áranna þar á undan. Viðfangsefnið er líka alltaf svipað, nema hvað auðvitað gerir maður sér vonir um einhverjar framfarir á hverju ári. Eitt markmiðið er þó alveg nýtt, en það er þetta með brautarhlaupið. Þar er ég bara að sækjast eftir tilbreytingu, nýrri tegund af fjöri og svolitlu fóðri fyrir sjálfsmyndina (sem er reyndar í nokkuð góðu lagi fyrir). Auk þess eru svona hlaup einstaklega góðar æfingar fyrir öll hin átökin. Myndi helst vilja velja 1.500 eða 3.000 m hlaup, en sumarið verður þéttskipað og því kannski ekki mörg færi á svona hliðarsporum.

Talandi um markmið, þá eru áformin fyrir árið 2017 líka tekin að skýrast. Þá á að reyna að slá persónuleg met í maraþoni og á Laugaveginum. Held að það verði ágæt sextugsafmælisgjöf. Svo er eitthvað verið að tala um 90 km hlaup í Svíþjóð sumarið 2018. Á maður ekki að reyna að vera framsýnn?

Öll þau tölulegu markmið sem ég set mér í hlaupum passa vel inn í Excelskrár, en eins og þeir vita sem gerst þekkja leika slíkar skrár stórt hlutverk í hlaupaheiminum mínum. En þrátt fyrir ást mína á tölum er gleðin aðalatriðið. Hún býr í manni sjálfum og hana hef ég ákveðið að taka með mér hvert sem ég hleyp. Ekki er verra að hún blandist saman við gleði annarra á leiðinni.

Árið 2016
Hlaupaáætlun ársins 2016 verður í grófum dráttum eins og lýst er hér að neðan.

 • Janúar-mars: Hægt vaxandi æfingamagn, gjarnan 5 æfingar í viku, þar af ein styrktaræfing, ein sprettæfing og eitt langt hlaup (a.m.k. 25 km). Vikuskammtur um 50 km til að byrja með en yfir 70 km undir lokin. Hugsanleg þátttaka í hlauparöð Atlantsolíu og FH.
 • Apríl: Enn stígandi í æfingum. Víðavangshlaup ÍR 21/4 (vonandi undir 19:39 mín (sbr. markmið)). Hálft maraþon í Vormaraþoni FM 23/4 (vonandi um 1:30 klst).
 • Maí: Væntanlega tvö fjallvegahlaup á Vesturlandi (nánari upplýsingar á fjallvegahlaup.is á næstu vikum). Þátttaka í e-m almenningshlaupum. Háfslækjarhringurinn á uppstigningardag.
 • Júní: Mývatnsmaraþon (heilt) 4/6. Þrístrendingur 18/6. E.t.v. 1-2 fjallvegahlaup og eitthvað fleira skemmtilegt.
 • Júlí: Hamingjuhlaupið 2/7. Hlaupahátíð á Vestfjörðum 15-17/7 og tvö fjallvegahlaup þar í kring. Fimmtugasta (og síðasta) fjallvegahlaupið yfir Arnarvatnsheiði 23/7 og e-s konar lokahóf að því loknu.
 • Ágúst: Reykjavíkurmaraþon (heilt) 20/8.
 • September-desember: Alveg óráðið. Gert ráð fyrir 3-4 vikna hlaupafríi á tímabilinu.

Þakkir
Þó að maður sé einn úti að hlaupa er maður aldrei einn. Í kringum hvern hlaupara er hópur af fólki sem ýmist gerir hlauparanum kleift að stunda þetta áhugamál sitt eða gefa honum beinlínis ástæðu til þess. Ég er ekkert öðruvísi en aðrir hlauparar hvað þetta varðar og þess vegna er ég afskaplega þakklátur því fólki sem hefur stutt mig í þessu með einum eða öðrum hætti. Fjölskyldan á mestar þakkir skildar fyrir stuðning, hvatningu og umburðarlyndi gagnvart öllum þessum 230 klukkutímum sem ég var á hlaupum á árinu, að ótöldum öllum hinum tímunum sem fóru í undirbúning, eftirköst og bloggskrif. Af öðru fólki kemur hlaupafélaginn Gunnar Viðar fyrst upp í hugann. Hann fylgdi mér í flest hlaup ársins og gerðist bílstjóri og aðstoðarmaður þegar meiðsli hindruðu hann frá beinni þátttöku. Ég er líka þakklátur öðrum hlaupafélögum úr hlaupahópnum Flandra í Borgarnesi, en tilurð og nærvera þess hóps hefur bætt drjúgum skammti af tilgangi og gleði við hlaupin mín síðustu þrjú ár. Öllum öðrum hlaupavinum færi ég líka bestu þakkir fyrir alla hlýjuna og hvatninguna. Hlakka til að hitta ykkur á nýju ári!

Gleði safnað í 16. maraþoninu

Gleðin allsráðandi enda bara 1-2 km í mark. (Ljósm. Stefán Helgi Valsson).

Gleðin allsráðandi enda bara 1-2 km í mark. (Ljósm. Stefán Helgi Valsson).

Maraþonið mitt í Reykjavíkurmaraþoninu í gær var það sextánda frá upphafi. Sjaldan hef ég notið maraþonhlaups meira og betur en í þetta skipti og tíminn var líka sá þriðji besti. Ég hef það aðalmarkmið í hlaupum að hafa gleðina með í för. Í þessu hlaupi vék hún aldrei frá mér.

Undirbúningurinn
Ég undirbjó þetta hlaup ekkert sérstaklega. Eftir svolítil meiðsli síðasta vetur var ég kominn í prýðilegt hlaupaform um mitt sumar, sem m.a. skilaði mér persónulegum metum á Laugaveginum 18. júlí og í 10 km hlaupi í lok sama mánaðar. Um það leyti taldi ég mig geta hlaupið maraþon á 3:12 klst., en þá útreikninga byggði ég á fyrri reynslu og reiknivél sem ég nota oft til að áætla getuna. Hins vegar slakaði ég talsvert á hlaupaæfingum eftir Laugaveginn. Hljóp t.d. ekki nema 48 km á viku að meðaltali vikurnar fjórar þar á eftir. Tók helst á því á laugardögum, aðallega í Barðsneshlaupinu 1. ágúst og í Jökulsárhlaupinu viku síðar. Í því síðarnefnda datt ég reyndar illa og laskaðist dálítið. Það tafði mig svo sem ekkert þá en hafði eftirköst dagana á eftir. Með tilliti til alls þessa ákvað ég að 3:12 klst. væri ekki lengur raunhæft markmið og ákvað þess í stað að miða við 3:15 klst. Lagði af stað í hlaupið í gær með þetta markmið og hugsaði að allt umfram það væri sigur – og örlítið lakari tími væri ekki ósigur. Krefjandi markmið eru nauðsynleg, en líkurnar á að maður nái markmiðunum þurfa helst að vera góðar til að maður sitji ekki upp með óþörf vonbrigði að hlaupi loknu. Gleðin er miklu betri ferðafélagi en vonbrigðin, bæði í hlaupum og í lífinu sjálfu.

Út á 4:30
Hlaupaveðrið í gær var alveg fullkomið, þ.e.a.s. hægur vindur, nokkurn veginn þurrt, sólarlaust og 11-14 stiga hiti. Betra maraþonveður býðst hvergi, hvorki hérlendis né erlendis. Ég stefndi að því að hlaupa fyrstu kílómetrana á 4:30 mín stykkið. Sá hraði dugar reyndar til að ljúka maraþonhlaupi á 3:10 klst, sem mér datt ekki í hug að ég myndi gera. Ætlaði bara að byrja svona og sjá svo til. Hef oft þennan háttinn á, þ.e. að byrja aðeins hraðar en markmiðið segir til um. Þá á ég svolitla inneign fyrir seinni helminginn sem oftast er ögn hægari.

Fyrstu 5 km
Fyrstu fimm kílómetrarnir liðu fljótt og þægilega. Ég leit eiginlega á þá sem upphitun og tækifæri til að meta stöðuna. Lauk þeim á 22:37 mín og var þá kominn með 7 sek í mínus miðað við 4:30 mín/km. Var alveg sléttsama um það. Fann að ég þoldi ögn meiri hraða og bætti því heldur í. Hugsaði samt mest um að njóta stundarinnar og halda mýktinni í hlaupastílnum. Að vanda hitti ég nokkra hlaupara sem ég þekki, sem ýmist voru að fara fram úr mér eða ég fram úr þeim. Í svona löngum hlaupum er hraðinn ekki meiri en svo að maður getur spjallað við samferðamennina, borið saman líðan og markmið og gefið og þegið hvatningu.

Að hugsa um krampa – eða ekki
Ég tók upp á því í fyrra að taka steinefnahylki í löngum hlaupum til að minnka líkur á krömpum, sem ég hef annars oft þurft að glíma við. Ætlaði að halda uppteknum hætti í þessu hlaupi, en þegar ég þreifaði eftir boxinu með hylkjunum einhvers staðar á 10. kílómetranum greip ég í tómt. Boxið hafði sem sagt dottið úr beltinu sem það átti að vera í. Þar með var ljóst að ég tæki engin steinefni þennan dag. Öll svona frávik frá upphaflegum áformum geta sett mann út af laginu, en þá gildir heilræðið frá gömlu norsku konunni sem sagði „det er ikke hvordan man har det, men hvordan man tar det“. Ég gat sem sagt valið um að hafa áhyggjur af því að ég fengi krampa síðar í hlaupinu eða að hafa ekki áhyggjur af því og láta hverjum kílómetra nægja sína þjáningu. Ég valdi síðari kostinn. Í þessu fólst líka tækifæri til að bæta í reynslubankann.

Í góðum félagsskap
Eftir 10 km sýndi klukkan 44:29 mín. Ég var allt í einu kominn með 31 sek. í plús miðað við upphaflega áætlun. Mér leið aldeilis stórvel og ákvað að halda þessum hraða á meðan sú líðan héldist. Á næstu kílómetrum náði ég líka nokkrum hlaupurum sem ég var lengi búinn að sjá á undan mér, þ.á.m. Trausta Valdimarssyni jafnaldra mínum, sem var þarna að hlaupa sitt 75. maraþon. Maður breytist næstum því í byrjanda við hliðina á svona mönnum. Þegar þarna var komið sögu voru rúmir 12 km að baki og næstu 25 km fylgdumst við tveir að miklu leyti að. Góð fylgd styttir manni stundir og gerir hlaupið auðveldara. Við Trausti spjölluðum líka um ýmislegt, m.a. um það hvernig maður safnar að sér gleði í svona hlaupum. Var ég ekki annars búinn að segja ykkur frá heilræði norsku konunnar?

Með orku frá áhorfendum
Millitíminn eftir 15 km var 1:07:01 klst. Síðustu 5 km höfðu sem sagt verið nær alveg á áætlun og inneignin 29 sek, já eða eiginlega 5 mínútur og 29 sek miðað við að ég ætlaði að hlaupa á 3:15 klst. Mér leið enn alveg prýðilega og fann ekki fyrir neinni þreytu sem orð er á gerandi. Hér og þar meðfram brautinni stóð fólk og hvatti hlaupara til dáða og ég ákvað að þau væru þarna öll sérstaklega til að hvetja mig. Sú hugsun er ein af þeim hugsunum sem ég nota til að safna gleði. Og með því að brosa til fólks, veifa og þakka fyrir sig, fær maður enn meiri hvatningu og enn meiri gleði. Þetta er ekkert flókið!

Er kannski betra að hlaupa bara hálft maraþon?
Á gatnamótum Sæbrautar og Kringlumýrarbrautar skildu leiðir að vanda. Þar beygja maraþonhlauparar til vinstri upp Kringlumýrarbraut en hálfmaraþonhlauparar halda áfram beint niður í bæ og eiga ekki nema um 3 km eftir í mark. Ég hef oft staðið mig að því að öfunda þá svolítið, en þegar allt kemur til alls er hálft maraþon ekkert endilega léttara en heilt. Maður þarf bara fyrr að takast á við erfiðu síðustu kílómetrana. Síðasti spölurinn er alltaf síðasti spölurinn hvað sem hlaupið er langt.

Hálft maraþon búið og enn 10 sek á reikningnum
Mér fannst Kringlumýrarbrautin hallast óvenjulítið þennan dag og það sama gilti um Suðurlandsbrautina framhjá Hótel Nordica. Fyrr en varði var hálft maraþon að baki og klukkan sýndi 1:34:49 klst. Eitthvað var farið að hægjast á mér en enn var ég þó með u.þ.b. 10 sek. í plús miðað við 4:30 mín/km, þ.e. 3:10 klst lokatíma. Enn gat allt gerst en ég hafði alla vega fulla trú á að markmiðið um 3:15 klst næðist.

Af vatnsdrykkju og geláti
Næstu kílómetrar voru tíðindalitlir. Ég var duglegur að gleypa orkugel og drekka vatn, en eftir að steinefnahylkin voru úr sögunni ákvað ég að leggja áherslu á vökvunina. Krampar geta sjálfsagt hvort sem er stafað af ofþornun eða steinefnaskorti, já eða þá því að líkaminn geti ekki unnið úr því hráefni sem er til staðar. Ég miða yfirleitt við að ég þurfi um 300 ml af vatni á hverja 10 km og orkugel get ég tekið á 5-7 km fresti án þess að setja allt á hvolf í meltingarfærunum. Í þessu hlaupi notaði ég öll 8 gelin sem ég hafði meðferðis og drakk 2-3 glös af vatni á flestum drykkjarstöðvum. Eitt glas er of lítið. Allt ræðst þetta þó svolítið af aðstæðum, þ.m.t. hitastigi. Þegar heitt er í veðri og sól í heiði svitnar maður meira en ella og tapar þá meiri söltum og meiri vökva. Þennan dag voru aðstæður hins vegar eins og best verður á kosið, eins og fyrr segir.

Hvað er svona merkilegt við 30 km?
Tíminn eftir 25 km var 1:52:59 klst, sem þýddi að ég var kominn 29 sek. í mínus miðað við 4:30 mín/km. Mér fannst það bara fínt enda ekki ætlunin að halda þessum hraða allan tímann. Næstu 5 km voru örlítið hraðari og eftir 30 km var tíminn 2:15:23 klst. Þar var ég sem sagt 23 sek. á eftir þessari margnefndu áætlun.

Það er oft haft á orði að maraþonhlaup byrji þegar 30 km eru að baki. Ég get tekið undir það að vissu leyti. Það má kannski orða það þannig að maður viti nokkurn veginn hvernig líkaminn muni bregðast við álaginu fyrstu 30 kílómetrana, en eftir það hefjist óvissuferð þar sem sitthvað getur komið á óvart. Mér finnst 30 km markið afskaplega mikilvægur áfangi í maraþonhlaupi, m.a. vegna þess að þá þykist ég geta sagt til um lokatímann minn með 10 mín. skekkjumörkum. Ef allt gengur upp get ég hugsanlega lokið hlaupinu á næstu 54 mínútum og það má mikið fara úrskeiðis til að ég nái því ekki á 64 mínútum. Á þessum tímapunkti í hlaupinu þóttist ég sem sagt viss um að lokatíminn minn yrði á bilinu 3:09-3:19 klst. Oftast tekur þessi síðasti spölur mig rétt um klukkutíma, þannig að 3:15 var orðinn líklegur lokatími, alveg eins og stefnt var að.

Að velja sér hugsanir
Mínúturnar eftir að 30 km markinu er náð eiga það til að líða hægt. Þarna er þreytan oftast farin að segja svolítið til sín og enn finnst manni býsna langt eftir. Þarna fer að reyna meira á það en fyrr í hlaupinu að maður sé með hausinn rétt skrúfaðan á. Það er auðvelt að ílengjast við hugsanir um þreytuna og allt erfiðið sem eftir er, en miklu vænlegra til árangurs að bægja slíkum hugsunum frá sér og einbeita sér að því jákvæða, umhverfinu, áhorfendunum og þakklætinu yfir því að geta gert það sem maður er að gera. Þegar þreytan ágerist er líka gott að muna að maður hefur oft orðið þreyttari og ekki orðið meint af. Eins er upplagt að rifja upp skemmtilega tónlist og fara jafnvel með heilu textana í huganum ef mikið liggur við, já eða sjá fyrir sér mannfjöldann sem fagnar manni þegar maður hleypur í markið með uppáhaldstöluna sína á markklukkunni.

3:15 í höfn að öllu stórslysalausu
Þegar 35 km voru búnir (og 7,2 km eftir) sýndi klukkan 2:38:56 klst sem þýddi að ég var orðinn 1:26 mín á eftir upphaflegu áætluninni. En ég hafði hvort sem er bara ætlað að fylgja þeirri áætlun eins lengi og mér liði vel með það. Aðalmarkmiðið um 3:15 klst. var enn vel innan seilingar og reyndar næstum gulltryggt nema eitthvað mjög sérstakt kæmi upp á. Í mínu tilviki þýðir „eitthvað mjög sérstakt“ að ég þurfi meira en 5 mínútur til að klára hvern kílómetra. Fimm mín/km jafngilda 7,2 km á 36 mín – og 2:38:56 + 0:36:00 = 3:14:56. Svo einfalt er það nú.

2-7 km er örstutt leið
Á næstu kílómetrum kom ekkert mjög sérstakt upp á og ég varð smátt og smátt öruggari um að markmiðið næðist. Á þessum kafla í maraþonhlaupi reyni ég að hugsa um eitthvað sem lætur mér finnast leiðin sem eftir er vera stutt en ekki löng. Ég ber þann spöl þá kannski saman við eitthvað sem ég hef gert á stystu og auðveldustu æfingunum mínum, já eða við spölinn frá Þröngá niður í Þórsmörk í Laugavegshlaupinu. Sá spölur er svo stuttur að þar er varla pláss fyrir aðrar tilfinningar en gleðina.

Millitíminn eftir 40 km var 3:02:12 klst. og nokkuð öruggt að ekki væru nema 11 mínútur eftir. Í mínum bestu hlaupum hef ég jafnvel náð að ljúka þessum síðasta hluta á 9:30 mín eða þar um bil. Einhvers staðar á þessum slóðum hitti ég Birgi Þ. Jóakimsson sem var þarna að fylgjast með hlaupinu. Að öðrum ólöstuðum tókst honum best upp með hvatninguna. Mér fundust mér vera allir vegir færir.

Endasprettur og lokaorð
Loks var ekki nema 1 km eftir og alveg óhætt að gefa gleðinni og hlaupaviljanum lausan tauminn. Engir krampar höfðu gert vart við sig og ekkert því til fyrirstöðu að auka hraðann. Lækjargatan var full af fólki og þar sá ég m.a. hluta af fjölskyldunni minni og nokkra hlaupafélaga úr hlaupahópnum Flandra í Borgarnesi. Þarna var tekinn góður endasprettur og í þann mund sem ég skeiðaði í gegnum markið sýndi klukkan 3:12 klst. Lokatíminn var reyndar nákvæmlega 3:12:00 klst sem þýddi að hver kílómetri hafði tekið 4:33 mín að meðaltali, þ.e. 3 sek lengri tíma en lagt var upp með. Þar með var þetta þriðja besta maraþonið mitt frá upphafi, en besta tímanum náði ég í Reykjavík sumarið 2013, 3:08:19 klst.

Endaspretturinn hafinn. (Ljósm. Etienne Menétrey)

Endaspretturinn hafinn. (Ljósm. Etienne Menétrey)

Mér leið mjög vel eftir þetta hlaup og náði m.a.s. hátt í 2 km niðurskokki til að auðvelda líkamanum að komast í samt lag. Svoleiðis nokkuð hefur mér aldrei áður dottið í hug að gera eftir maraþon. Gleðin var líka ósvikin og að vanda hitti ég margt skemmtilegt fólk á marksvæðinu og þar í kring. Reykjavíkurmaraþonið er ekki bara hlaup, það er líka hátíðarsamkoma fyrir alla þá sem hafa yndi af þessari tómstundaiðju. Ég tilheyri örugglega þeim hópi!

Sjálfsmynd með yngsta barninu á Skólavörðustígnum eftir hlaup. (Ljósm. Jóhanna Stefáns Bjarkardóttir)

Sjálfsmynd með yngsta barninu á Skólavörðustígnum eftir hlaup. (Ljósm. Jóhanna Stefáns Bjarkardóttir)

Fyrsta Barðsneshlaupið mitt

Kort af hlaupaleiðinni (sem stækkar ef smellt er á það).

Kort af hlaupaleiðinni (sem stækkar ef smellt er á það).

Ég skellti mér í Barðsneshlaupið síðasta laugardag (1. ágúst). Ákvað þetta síðasta haust og var búinn að hlakka lengi til. Og ég varð síður en svo fyrir vonbrigðum. Hlaupaleiðin er sérlega falleg og mjög áhugaverð, en leiðin liggur m.a. um eyðibyggðir sem ég býst við að tiltölulega fáir Íslendingar hafi heimsótt. Veðrið var líka aldeilis ljómandi gott, hægur vindur, sólarglæta annað slagið og sæmilega milt þrátt fyrir innlögnina inn Norðfjarðarflóann. Umgjörð hlaupsins var afslöppuð og vingjarnleg og ekki spillti fyrir að mér gekk vel og naut lífsins frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu.

Hlaupið hófst eiginlega á bryggjunni við safnahúsið á Neskaupstað, en þaðan voru hlaupararnir fluttir á báti út í Barðsnes eða Hellisfjörð, eftir því hvort þeir höfðu valið að hlaupa lengri vegalengdina (27 km) eða þá styttri (13 km). Við sem ætluðum að hlaupa alla leið frá Barðsnesi vorum 14 talsins og vorum flutt yfir flóann í tveimur hópum, fyrst þeir sem reiknuðu með að þurfa 3 klst. eða meira til að ljúka hlaupinu og síðan hinir sem töldu sig geta farið þetta á styttri tíma. Ég var í síðarnefnda hópnum enda taldi ég líklegt að ég kæmist þetta á 2:30-2:40 klst. Sú áætlun byggði á úrslitum fyrri ára, því að fyrri árangur hlaupara sem maður þekkir getur gefið góða vísbendingu um það við hverju megi búast. Í svona hlaupi segir vegalengdin hins vegar lítið um líklegan lokatíma.

Lagt af stað frá Neskaupstað. (Af Facebooksíðu Felix Bergssonar).

Lagt af stað frá Neskaupstað. (Af Facebooksíðu Felix Bergssonar).

Í þessari síðari bátsferð voru fimm hlauparar, auk björgunarsveitarfólksins sem annaðist flutninginn. Sjóferðin tók ekki nema fáeinar mínútur og áður en varði vorum við komin í land við eyðibýlið Barðsnes. Þar var vel tekið á móti okkur og eftir stutta viðdvöl á hlaðinu var hlaupið ræst kl. 10:53.

Síðari ráshópurinn á hlaðinu á Barðsnesi. F.v. Guðmundur Sverrisson, SG, Elísabet Margeirsdóttir, Arnór Gauti Hauksson, Þorbergur Ingi Jónsson. (Ljósm. Haukur Snorrason).

Síðari ráshópurinn á hlaðinu á Barðsnesi. F.v. Guðmundur Sverrisson, SG, Elísabet Margeirsdóttir, Arnór Gauti Hauksson, Þorbergur Ingi Jónsson. (Ljósm. Haukur Snorrason).

Lagt af stað frá Barðsnesi. Tuttuguogátta km ævintýri framundan. (Ljósm. Haukur Snorrason).

Lagt af stað frá Barðsnesi. Tuttuguogátta kílómetra ævintýri framundan. Við fjögur fengum 10 mín forskot á Þorberg Inga og þess vegna er hann ekki með á myndinni (Ljósm. Haukur Snorrason).

1. Barðsnes – Viðfjörður: 7,20 km, 35:42 mín, 4:58 mín/km
Við vorum ekki nema fjögur sem hlupum af stað frá Barðsnesi áleiðis inn í Viðfjörð. Hægari hlaupararnir voru farnir á undan eins og fyrr segir – og sú ákvörðun var tekin þarna á hlaðinu að sá langhraðasti, ofurhlauparinn Þorbergur Ingi Jónsson, yrði ræstur 10 mínútum síðar til að gera hlaupið skemmtilegra, bæði fyrir hann og aðra. Ég fór hraðast af stað og hljóp einn míns liðs inn túnið á Barðsnesi og áfram áleiðis inn dráttarvélaslóðann inn með firðinum. Mér hafði verið ráðlagt að fara sem hraðast til að byrja með, þar sem fyrsti kaflinn væri sá greiðfærasti í hlaupinu að endasprettinum frátöldum. Ég ákvað að fylgja þessu ráði og hvílast þá frekar í grýttum brekkum sem ég bjóst við að biðu mín síðar í hlaupinu.

Slóðinn frá Barðsnesi inn í Viðfjörð liggur yfir holt, hæðir og lækjarskorninga, en undirlagið er hvergi mjög gróft. Mér gekk eiginlega betur en ég hafði búist við að halda sæmilegum hraða þarna inneftir. Mér fannst heimurinn brosa við mér þar sem ég leið þarna áfram í frelsinu. Tvisvar eða þrisvar leit ég um öxl en sá ekkert til mannaferða. Lengst framundan sá ég íbúðarhúsið í Viðfirði, sem byggt var eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar árið 1932. Glæsilegri sumardvalarstaðir hljóta að vera vandfundnir, hvort sem hugsað er um húsakynnin eða kyrrðina.

Á miðri göngubrúnni yfir Viðfjarðará sýndi klukkan 35:42 mín, rúmir 7 km að baki og meðalhraðinn yfir 12 km/klst. Þetta gekk vonum framar.

2. Viðfjörður – Hellisfjörður: 6,77 km, 39:43 mín, 5:52 mín/km
Skammt fyrir utan Viðfjarðarbæinn hitti ég fólk sem sagði mér að fyrsta drykkjarstöðin væri við bátinn sem stóð þarna uppi á kambinum örlítið utar. Þar gleypti ég í mig eitt orkugel og drakk vel af vatni áður en ég hélt áfram út með firðinum. Þarna var enginn dráttarvélaslóði lengur, heldur aðallega fjár- og hestagötur. Þær voru reyndar greiðfærar, en sums staðar var lágvaxið kjarr langt komið með að loka leiðinni. Plönturnar voru hrjúfar viðkomu fyrir bera leggi, en það var þó allt innan sársaukamarka.

Úr Viðfirði er ekki langt út á Viðfjarðarnes og hækkunin ekki veruleg. Mér miðaði því svo sem ágætlega á þessum kafla, þó að auðvitað hefði ég enga viðmiðun. Um það leyti sem ég var kominn út á nesið kom ég auga á mann sem veitti mér eftirför og fór mikinn. Þar var Þorbergur Ingi á ferð, en ég hafði einmitt reiknað út að það myndi taka hann um 50 mínútur að vinna upp þetta 10 mínútna forskot sem ég hafði fengið á hann í startinu. Hann fór fram úr mér stuttu eftir að við beygðum af nesinu áleiðis inn í Hellisfjörð, rétt í þann mund sem ég hafði verið 1 klst. á hlaupum. Um svipað leyti náði ég fyrstu hlaupurunum úr fyrri ráshópnum. Það var gaman að sjá til Þorbergs Inga þótt sú skemmtun varaði ekki lengi. Það er í raun ótrúlegt að hægt sé að fara svo hratt yfir í þessu mjög svo óslétta landi.

Mér fannst ekki augljóst hvar leiðin lægi yfir Hellisfjarðará í botni Hellisfjarðar, en það skipti svo sem engu meginmáli. Áin var ekki djúp og ég óð bara einhvers staðar yfir hana. Garminúrið sýndi að 13,97 km og 1:15:25 klst. væru að baki. Þarna hlaut hlaupið að vera um það bil hálfnað.

3. Hellisfjörður – Götuhjalli: 3,84 km, 26:52 mín, 7:00 mín/km
Innarlega í Hellisfirði varð mér litið suður yfir fjörðinn og sá þá til ferða Elísabetar Margeirsdóttur, sem ég bjóst einmitt við að væri þarna ekki alllangt á eftir mér. Ég leit ekki á þetta hlaup sem neina keppni, nema náttúrulega við sjálfan mig, en samt var uppörvandi að vita af einhverjum á eftir sér. Við eyðibýlið Sveinsstaði hitti ég hóp af fólki sem hvatti mig til dáða og utar með firðinum beið Jóhann Tryggvason, aðalumsjónarmaður Barðneshlaupsins, með drykki fyrir hlauparana. Þar var kominn tími á annað orkugel og meira vatn, auk þess sem ég gleypti þarna í mig eitt steinefnahylki í þeim tilgangi að draga úr líkum á krömpum. Þeir gerðu aldrei vart við sig þennan dag. Þarna voru u.þ.b. 16,5 km að baki og framundan erfiðasti hluti leiðarinnar með talsverðri hækkun upp á Götuhjalla og síðan bratt undanhald í Norðfjarðarskriðum. Leiðin upp á hjallann reyndist reyndar bæði styttri og léttari en ég hafði ímyndað mér og fyrr en varði var ég kominn á hæsta punktinn. Neskaupstaður blasti við hinum megin við Norðfjörð og mér fannst lífið vera dásamlegt.

4. Götuhjalli – Norðfjarðará: 5,17 km, 28:40 mín, 5:33 mín/km
Norðfjarðarskriður sýnast óárennilegar þegar horft er á þær yfir fjörðinn frá Neskaupstað. Þarna eru vissulega brattir kaflar þar sem meiri þörf er á að fylgjast með tánum á sér en útsýninu, en mér fannst þetta samt hvorki bratt né erfitt yfirferðar. Rétt eins og „brekkur eru oftast lægri upp að fara, en til að sjá“, eins og Hannes Hafstein orðaði það, eru þær líka lægri á niðurleiðinni. Einhvers staðar á niðurleiðinni var þriðja drykkjarstöðin og þriðja gelið, en annars snerist málið bara um að ljúka hlaupinu. Til þess þurfti að afgreiða þessar brekkur og hlaupa inn með fjarðarbotninum þar til komið væri að einu hlöðunni á svæðinu. Handan við hlöðuna skyldi tekin kröpp hægri beygja og stefnt beint yfir Norðfjarðará. Yfir ána hafði verið strengdur kaðall til að auðvelda hlaupurum að fóta sig. Áin náði mér í mið læri og úti í henni miðri leit ég svo á að fjórða áfanga hlaupsins væri lokið og ekkert eftir nema endaspretturinn.

Tveir fyrstu menn í aldursflokki 40+ (SG og Hari Stojanovic). (Ljósm. Kristín Óladóttir).

Tveir fyrstu menn í aldursflokki 40+ (SG og Hari Stojanovic). (Ljósm. Kristín Óladóttir).

5. Norðfjarðará – Safnahús: 5,28 km, 24:48 mín, 4:42 mín/km
Fyrsti hluti endasprettsins lá í útjaðri golfvallar Norðfirðinga og hinum megin við fjarðarbotninn beið malbikið og fjórða og síðasta drykkjarstöðin. Malbik hefur þann kost að vera þokkalega slétt, en eftir hátt í 25 km hlaup á misjöfnu undirlagi getur þessi harði og slétti flötur verið erfiður þreyttum fótum. Fæturnir mínir voru ekkert sérstaklega þreyttir þegar þarna var komið sögu og mér fannst malbikið bara ágætt. Hlaupið hafði allt gengið eins og í sögu, mér leið vel og það lá nokkuð ljóst fyrir að ég væri búinn að gulltryggja annað sætið í hlaupinu á eftir Þorbergi Inga. Það var líka gaman að koma hlaupandi inn í bæinn eftir aðalgötunni. Malbikskaflinn mældist nákvæmlega 4,2 km og þann spöl hljóp ég á 19:19 mín. Það jafngildir 4:36 mín/km, sem ég flokka sem viðunandi maraþonhraða. Ég kom í mark við Safnahúsið á 2:35:41 klst, sem var vel innan þeirra tímamarka sem ég hafði sett mér. Heildarvegalengdin var 28,26 km skv. Garminúrinu mínu. Stórskemmtilegu hlaupi í fögru umhverfi var lokið.

Lokaorð
Barðsneshlaupið á skilið miklu fleiri þátttaendur en raun varð á síðasta laugardag. Hlaupið var ekki eins erfitt og ég hafði reiknað með og eins og ég nefndi í upphafi þessa pistils fannst mér hlaupaleiðin falleg og áhugaverð. Móttökurnar á Norðfirði voru góðar og umgjörð hlaupsins afslöppuð og vingjarnleg. Hlaupið er virkilega þess virði að bregða sér í verslunarmannahelgarferð austur á land þess vegna!

Eftirmáli
Eins og yfirskrift þessarar færslu bendir til var þetta í fyrsta sinn sem ég tók þátt í Barðsneshlaupinu. Ég sé svo sannarlega ekki eftir því! En þetta hlaup var líka sögulegt að öðru leyti fyrir sjálfan mig, því að þetta var 100. almenningshlaupið sem ég tek þátt í síðan sá hluti „ferils míns sem íþróttamanns“ hófst síðsumars 1985. Tölfræði af þessu tagi er hluti af þeirri skemmtun sem hlaupin veita mér.

39:59

Svona leit Garminúrið út í markinu.

Svona leit Garminúrið út í markinu.

Á miðvikudagskvöldið (29. júlí) náði ég óvænt langþráðu takmarki, þ.e. að hlaupa 10 km á styttri tíma en 40 mín. Þetta hef ég aldrei gert áður ef frá er talið eitt keppnishlaup á gamla Melavellinum haustið 1974. Síðan ég byrjaði að taka þátt í götuhlaupum hef ég séð þetta markmið í hillingum. Og nú bara náðist það allt í einu án þess að ég hefði svo mikið sem íhugað möguleikann.

Ég hljóp fyrsta götuhlaupið mitt sumarið 1985 og fyrsta 10 km hlaupið 1993. Þá var tíminn 45:33 mín. Á næstu tólf árum hljóp ég tólf 10 km hlaup til viðbótar, oftast í kringum 45 mín. Náði reyndar einu óvenjugóðu hlaupi sumarið 1996 í miðjum undirbúningi fyrir fyrsta maraþonið mitt. Komst þá niður á 41:00 og bjóst ekki við að bæta þann árangur nokkurn tímann. Hin hlaupin voru öll á bilinu 43:14-46:38 mín.

Sumarið 2007 þegar ég var nýorðinn fimmtugur hitti ég gamlan vin að norðan, Pétur Pétursson þrístökkvara. Leiðir okkar lágu oft saman á 8. og 9. áratug síðustu aldar, bæði í íþróttum og á öðrum vettvangi. Pétur hefur alltaf haft lag á að hvetja mig til dáða og í þetta skiptið sagði hann að ég hlyti að geta hlaupið 10 km undir 43:27 mín, því að þeim tíma hefði hann sjálfur náð eftir fimmtugt. Þar með var ég kominn með nýtt markmið!

Markmiðið um 43:27 mín náðist í annarri tilraun haustið 2008. Hljóp þá á 42:32 mín. Var vel sáttur við það en gamla „metið“ frá 1996 stóð óhaggað. Næstu ár mjakaðist ég þó smátt og smátt nær því og vorið 2013 hljóp ég á 41:03 mín eftir gríðarlega góða æfingartörn fyrir Parísarmaraþonið fyrr um vorið. Þegar þarna var komið sögu var ég eiginlega „kominn í nýtt borð“ í hlaupunum og búinn að átta mig á að árangurinn mætti auðveldlega bæta með meiri og betri æfingum.

Sumarið 2014 komst ég loks undir 41 mín og var meira að segja farinn að trúa að ég gæti rofið 40 mínútna múrinn þrátt fyrir „háan aldur“. Gerði nokkrar alvarlegar tilraunir til þess og náði best 40:09 mín í lok ágústmánaðar. Eftir misjafnt gengi á æfingum síðasta vetur sló ég hins vegar áformum um frekari bætingar á frest og ákvað að hugsa ekki meira um 40 mínútna múrinn í bili. Æfingar sumarsins miðuðust fyrst og fremst við að ná góðum tíma á Laugaveginum og þar reynir að hluta til á aðra þætti en í styttri götuhlaupum.

Laugavegurinn gekk eins og í sögu og einhvern veginn hafa skrefin orðið léttari eftir því sem liðið hefur á sumarið. En þegar ég lagði af stað í Adidashlaupið á miðvikudagskvöldið datt mér samt ekki í hug að ég myndi fara nálægt 40 mínútna múrnum. Markmiðið var að hlaupa undir 41 mín til að finna að ég væri að nálgast sama form og í fyrra.

Fyrstu kílómetrarnir í hlaupinu voru frekar venjulegir, en mér ós ásmegin eftir því sem leið á hlaupið. Eftir 9 km var tíminn 35:50 mín og þar með ljóst að 40 mínúturnar væru innan seilingar. Síðasti spölurinn var erfiður enda heldur á fótinn, og í markinu sýndi klukkan 40:00. Þetta var þá bara spurning um sekúndubrot til eða frá. Og viti menn, þetta lenti réttu megin við strikið. Lokatíminn var 39:59 mín. Hefði ekki viljað neinn annan tíma frekar.

Þetta var gaman! Það er alltaf gaman að bæta sig og ekki minnkar gleðin þegar aldurinn færist yfir. Ætli maður verði þá ekki enn meðvitaðri um að ekkert gerist af sjálfu sér. Svo er þetta líka enn skemmtilegra þegar maður á ekki von á því.

Þetta var Adidas Boost hlaup. Þess vegna fannst mér viðeigandi að mæta í Adidas Boost skónum mínum sem Adidasumboðið var svo vinsamlegt að gefa mér í vor í samvinnu við Borgarsport í Borgarnesi. Við fyrstu kynni fundust mér þessir skór helst til mjúkir, enda er ég vanur að nota þynnri og léttari skó í keppnishlaupum. Ég ætla ekkert að fullyrða um þátt skónna í árangrinum, en þeir spilltu örugglega ekki fyrir. Mýktin í botninum gerir það að verkum að maður verður óragari að láta vaða þar sem hallar undan fæti, þó að undirlagið sé hart.

Hvað er svo framundan? Jú, Barðsneshlaupið í fyrramálið og einhver fjallvegahlaup og Jökulsárhlaupið í framhaldinu. Svo er það Reykjavíkurmaraþonið. Ég hef engin áform um að bæta 10 km tímann á næstu dögum og vikum, en finnst líklegt að ég sneiði eitthvað af honum sumarið 2016. Þegar markmiði er náð setur maður sér ný.

Dásamlegur Laugavegur

Á endasprettinum í Þórsmörk. (Ljósm. Sævar Skaptason).

Á endasprettinum í Þórsmörk. (Ljósm. Sævar Skaptason).

Um síðustu helgi (18. júlí) hljóp ég Laugaveginn í þriðja sinn. Leiðin er alltaf jafnlöng en að öðru leyti eru engin tvö hlaup eins, því að bæði breytast aðstæður í náttúrunni og í manni sjálfum. Þess vegna er þetta ný og spennandi áskorun í hvert einasta sinn. Þessi þriðja ferð var enn ánægjulegri en hinar og ekki spillti fyrir að ég bætti tímann minn frá því síðast um rúmar 11 mínútur.

Undirbúningurinn
Meiðsli trufluðu hlaupaæfingarnar mínar á liðnum vetri og líklega bætti rysjótt tíðarfar ekki úr skák. Ég hafði gert ráð fyrir að vera kominn í mitt besta hlaupaform í byrjun apríl og geta svo byggt afrek sumarsins á þeirri innistæðu. En innistæðan var sem sagt ekki fyrir hendi og því þurfti að nota vorið og fyrrihluta sumars til að búa hana til. Allt miðaðist þetta við aðalhlaupamarkmið ársins, þ.e.a.s. að hlaupa Laugaveginn á skemmri tíma en áður, eða með öðrum orðum undir 5:52:33 klst. Þess vegna bjó ég til nýja æfingaáætlun í byrjun apríl undir vinnuheitinu „Björgum Laugaveginum“. Í þeirri áætlun var gert ráð fyrir tilteknum fjölda æfinga af mismunandi tagi og tilteknum fjölda kílómetra í hverri viku. Sumum þessara kílómetra átti að ná með 11 ferðum upp á topp á Hafnarfjallinu.

Til að gera langa sögu stutta gekk áætlunin um björgun Laugavegarins upp í öllum aðalatriðum. Samkvæmt henni ætlaði ég að hlaupa samtals 870 km á tímabilinu frá 13. apríl fram að Laugavegi, en í reynd urðu þetta 885 km eða um 65 km á viku. Kílómetrafjöldinn segir auðvitað ekki allt, því að það skiptir ekki bara máli hversu mikið maður gerir, heldur hvað maður gerir. Magn og gæði fara ekki alltaf saman. Þannig fór ég ekki nema fjórum sinnum upp á topp á Hafnarfjallinu og líklega þrisvar í viðbót langleiðina í of vondu veðri eða of vondri færð til að fært væri á toppinn. Á þessum tíma hljóp ég líka Þrístrending og Hamingjuhlaupið, auk fjallvegahlaups um Flatnaveg. Auk þess tók ég þátt í nokkrum keppnishlaupum, þ.m.t. fjórum hálfmaraþonhlaupum. Fæst þessara hlaupa gengu alveg að óskum en úr þeim mátti þó lesa batnandi líkamsástand, þó að framfarirnar væru hægari en ég hafði gert ráð fyrir. Dagana fyrir Laugaveginn hafði ég þó á tilfinningunni að ég ætti að geta bætt mig ef aðstæður yrðu þokkalegar. Ég taldi mig vera komin í betra fjallahlaupaform en nokkru sinni fyrr, og þó að eitthvað vantaði upp á maraþonformið taldi ég ástandið vera orðið nógu gott að meðaltali til að markmiðið gæti náðst.

Áhyggjur af snjó
Dagana fyrir Laugavegshlaupið var mikið talað um hversu snjóþungt væri á leiðinni og að þess vegna gæti hlaupið orðið með erfiðasta móti. Ég var frá upphafi ákveðinn í að hafa ekki áhyggjur af þessu. Laugavegurinn er ekki hlaupabretti, hann er bara hluti af náttúrunni og þess vegna gilda þar engar staðlaðar aðstæður. Ef færið er verra en í meðallagi verður ferðalagið seinlegra en ella. Að öðru leyti breytir þetta svo sem engu, nema hvað útbúnaðurinn verður alltaf að taka mið af líklegum aðstæðum.

Góð veðurspá
Þeir sem ætla að hlaupa Laugaveginn þurfa að fylgjast með veðurspánni og muna að á hálendinu getur veðurfar verið talsvert miskunnarlausara en í byggð. En í þessu tilviki þurfti maður engu að kvíða. Spáin fyrir hlaupadaginn lofaði góðu, norðanátt í kortunum og þar með meðvindur, nær engar líkur á úrkomu sem máli skipti og hitastigið líklega nógu lágt til að snjóbráð yrði í lágmarki á fjöllum og nógu hátt til að ekki yrði hrollkalt í Landmannalaugum í upphafi hlaups eða í Þórsmörk í lokin. Þetta leit vel út!

Fatatíska ársins
Það er alltaf vandasamt að klæða sig rétt fyrir hlaup á fjöllum og auk þess er besta leiðin í þeim efnum einstaklingsbundin. Fólk er misheitfengt, fer mishratt yfir og þekkir eigin takmörk misvel. Ég er frekar mikill naumhyggjumaður hvað þetta varðar og reyni að klæða mig heldur minna en meira fyrir svona verkefni, án þess þó að stefna eigin öryggi í augljósa tvísýnu. Ég ákvað að klæðast langerma hlaupabol, hlírabol utanyfir, þunnum vindheldum hlaupajakka, hlaupanærbuxum, síðum hlaupabuxum, þunnum hlaupasokkum og hlaupahönskum úr ull. Lambhúshetta átti líka að vera með í för en hana skildi ég reyndar eftir eftir að hafa endurmetið aðstæður við komuna í Landmannalaugar. Ég er lítið fyrir húfur, enda veitir hárið þokkalegt skjól í þurrviðri. Meðvindur í hlaupi jafngildir líka næstum því logni þegar maður er kominn af stað. Skófatnaðurinn var löngu ákveðinn. Ég ætlaði  að vera í utanvegaskóm af gerðinni Adidas Kanadia 4 TR, þeim sömu og ég hljóp Laugaveginn í fyrir tveimur árum og einhverja 700 km því til viðbótar við ýmis tækifæri. Þessir skór höfðu reynst mér einkar vel og voru enn til þess að gera óslitnir. Ég ætlaði sem sagt í þetta ferðalag með nesti, en ekki með nýja skó. Hins vegar var ég búinn að fjárfesta í nýjum skóhlífum í ljósi reynslunnar frá Laugavegshlaupinu 2013 þegar ég hvolfdi svo sem einni matskeið af grófum sandi úr hvorum skó í Borgarnesi daginn eftir hlaup.

Vaknað snemma
Laugavegsdagar eru langir dagar. Ég vaknaði kl. 2 árdegis þennan dag eftir góðan 4 klst. svefn og var lagður af stað til Reykjavíkur um kl. 3 ásamt Gunnari Viðari, hlaupafélaga mínum úr Borgarnesi. Kl. 4:30 var lagt af stað með rútu úr Laugardalnum og komið á leiðarenda í Landmannalaugum upp úr kl. 8. Eitthvað tókst að dotta á leiðinni, en að öðru leyti verður ekki orðlengt um þennan hluta ferðarinnar. Í Landmannalaugum var fremur hægur norðanvindur, þurrt veður og líklega um 6 stiga hiti, allt eins og best varð á kosið og í góðu samræmi við veðurspána. Dagurinn lagðist vel í mig.

Við rásmarkið
Við Gunnar höfðum báðir gefið upp lokatíma í kringum 6 klst. sem þýddi að við vorum báðir í fyrsta ráshópi af þremur. Nú hafði verið tekin upp sú nýbreytni að rífa þar til gerða miða af rásnúmerinu til að halda yfirsýn yfir hverjir hefðu lagt af stað. Það gekk fljótt og vel. Fyrir tveimur árum þurftu hlauparar að skrá sig sérstaklega í Landmannalaugum. Það gekk seint og illa. Til þess er einmitt reynslan að læra af henni og finna betri leiðir í stað annarra sem virka ekki sem skyldi.

Við rásmarkið hitti ég Norðmanninn Bjørn Lindberg sem var að hlaupa Laugaveginn þriðja árið í röð. Við höfðum einmitt verið samferða drjúgan spöl á söndunum sunnan við Bláfjallakvísl í hlaupinu 2013 – og í fyrra hittumst við vestur í Dýrafirði eftir að hafa hlaupið Vesturgötuna. Svona kynni eru skemmtileg og eiga það til að endast. Bjørn á tengdafólk á Íslandi og reiknaði með að halda áfram að koma til Íslands á þessum tíma árs og taka þátt í Laugavegshlaupinu.

1. áfangi: Landmannalaugar – Hrafntinnusker: 9,85 km
Og svo var klukkan orðin níu og þá var hlaupið ræst með óvæntu flauti. Landslagið á fyrsta kílómetranum er þannig að maður hleypur bara svipað hratt og næsti maður á undan, því að óvíða gefast færi á að færa sig framar í röðina. Þetta tafði mig svolítið í hlaupinu 2013, en þá var ég í ráshópi nr. 2 með mörgum hægari hlaupurum. Nú var þetta ekkert vandamál, nema þá kannski fyrir þá sem voru næstir á eftir mér. Þessi fyrsti spölur er líka svo ósléttur að maður getur lítið hlaupið. Þessa vegna byrjar hlaupið sjálfkrafa á hæfilegri upphitun þar sem líkami og sál eru búin undir átökin sem framundan eru.

Við Gunnar höfðum ráðgert að fylgjast að á meðan báðir entust. Hann var þó hógværari en ég í startinu og því var ég alltaf nokkrum skrefum á undan. Leit af og til við í beygjum til að ganga úr skugga um að allt gengi að óskum hjá honum líka.

Fyrstu 2,5 kílómetrarnir að baki og allt í góðu. (Ljósm. Hlaup.is).

Fyrstu 2,5 kílómetrarnir að baki og allt í góðu. (Ljósm. Hlaup.is).

Fyrstu 10 kílómetrarnir upp í Hrafntinnusker eru nánast allir á fótinn og því fer ekki mikið fyrir hlaupum á þeim kafla, nema þá kannski hjá þeim allra bestu. Þeir voru farnir sína leið þegar hér var komið sögu. Mikill snjór var á leiðinni eins og við var búist, en mér miðaði sæmilega áfram í sköflunum. Á þessum kafla valdi ég þann kost að fylgja slóðinni sem göngumenn og fyrstu hlaupararnir höfðu mótað, en þar var efsta lagið reyndar orðið dálítið laust í sér. Þarna var hópurinn enn nokkuð þéttur og margir góðir kunningjar úr hlaupunum á næstu grösum, ef hægt er að nota það orðalag. Gauti Gíslason var t.d. lengst af rétt á undan mér og Anton Magnússon nokkrum skrefum á eftir. Bjørn Lindberg og Gunnar Viðar voru heldur ekki langt undan, svo einhverjir séu nefndir.

Í hlaupinu 2013 var ég 1:15 klst upp í Hrafntinnusker. Nú þóttist ég vera í betra brekkuhlaupaformi og bjóst því við að þetta væri sá kafli í hlaupinu þar sem ég gæti helst bætt mig. Með einhverjum útreikningum hafði ég meira að segja fundið út að ég gæti hugsanlega komist þessa leið á 1:09 klst, án þess að það væri þó nokkurt markmið í sjálfu sér. Löngu áður en hæstu hæðum var náð sá ég að það var engan veginn raunhæft. Þegar ég hljóp í hlaðið við skálann í Hrafntinnuskeri sýndi klukkan 1:14:30 klst. Ég var sem sagt „kominn hálfa mínútu í plús“ miðað við hlaupið 2013 og var hæstánægður með það. Kannski hafði snjórinn tafið mig eitthvað og hvernig sem á málið var litið var þarna alla vega komin vísbending um að ég ætti að geta lokið hlaupinu á svipuðum tíma og síðast.

2. áfangi: Hrafntinnusker – Álftavatn: 10,91 km
Ég staldraði ekkert við í Hrafntinnuskeri, þáði bara fyllingu á vatnsbrúsann minn og hélt svo rakleiðis áfram áleiðis suður fjöllin. Reynslan segir mér að ég geti auðveldlega borið með mér alla þá næringu sem ég þarf í svona hlaup, að vatni frátöldu, og því finnast mér áningar vera tímasóun. Samt er það alltaf tilhlökkunarefni að koma á næstu drykkjarstöð, sumpart vegna þess að þá er ákveðnum áfanga lokið, en aðallega þó vegna þess hve móttökurnar eru alltaf góðar. Frískir Flóamenn og aðrir sem mönnuðu drykkjarstöðvarnar á Laugaveginum þetta árið eiga sérstakar þakkir skildar fyrir einstaklega vinsamlegt viðmót sem létti manni skrefin inn í næsta áfanga.

Ég fann fyrir svolítilli þreytu um það leyti sem ég var kominn upp í Hrafntinnusker, aðallega í kringum bæði hnén. Það olli mér engum áhyggjum, enda hef ég oft áður fundið fyrir þreytu snemma í hlaupi án þess að það hefði nein áhrif á líðanina síðar. Hlaup á fjölbreyttu undirlagi, eins og Laugavegurinn er svo sannarlega, hafa það líka sér til ágætis að sumir kaflar eru erfiðir fyrir tiltekna vöðva sem fá svo kannski góða hvíld á næsta kafla þar sem aðrir vöðvar bera hitann og þungann af verkefninu.

Það tók mig svolitla stund að finna taktinn að nýju eftir Hrafntinnusker en í heildina fannst mér þetta ganga ágætlega. Þarna uppi voru miklar samfelldar fannir og í stað þess að fylgja slóðinni eins og ég hafði gert lengst af á uppeftirleiðinni valdi ég nú þann kostinn að hlaupa sem lengst fyrir utan hana í því sem næst ósnertum snjó. Þar var undirlagið ögn stöðugra og mér fannst það koma betur út. Ég held reyndar að snjórinn á þessum kafla hafi kannski flýtt fyrir mér, því að þarna er mikið af giljum og skorningum sem nú voru öll barmafull og leiðin því greið þó að undirlagið væri hvítt á litinn og ögn laust í sér.

Á þessum kafla reyndi ég að hugsa sem minnst um hvað tímanum leið, enda hefur maður svo sem enga viðmiðun í svona hlaupi að frátöldum einhverjum fáum föstum punktum sem kveikja minningar úr fyrri hlaupum, tölulegar eða aðrar. Annað slagið leit ég um öxl til að leita frétta af Gunnari – og þegar ég sá glitta í gula derhúfu vissi ég að þar væri allt á réttu róli.

Skyggnið þennan dag var ekkert til að kvarta yfir, enda loftið tært og háskýjað. Fyrr en varði sá ég líka Álftavatn lengst framundan. Þá vissi ég að skammt væri eftir suður á brún Kaldaklofsfjalla og að nú gæti ég farið að hlakka til að hlaupa niður Jökultungur. Þar taldi ég mig aftur eiga inni bætingu frá því í hlaupinu 2013 eftir afar vel heppnaðar niðurhlaupsæfingar á Hafnarfjallinu síðustu vikur. Mörgum finnast Jökultungurnar einn erfiðasti kaflinn í Laugavegshlaupinu, en ég hef alltaf verið frekar góður í að hlaupa niður í móti og líklega aldrei betri en nú.

Sjálfsagt var ég tiltölulega fljótur niður Jökultungurnar, en þær reyndust þó torfærari en ég hafði átt von á. Gatan var orðin mjög troðin og lausir smásteinar ofaná. Við slíka aðstæður getur manni skrikað illa fótur ef of hratt er farið. Eftir því sem lausa lagið er þykkara er auðveldara að fóta sig á miklum hraða. Ég neyddist sem sagt til að fara svolítið varlega þarna niður.

Nú var stutt eftir að Álftavatni og leiðin greið á tiltölulega sléttu landi. Ég vonaðist auðvitað til að mér tækist að halda þessari hálfu mínútu sem ég tók með mér í nesti frá Hrafntinnuskeri og jafnvel að bæta heldur við hana. Í hlaupinu 2013 var tíminn við Álftavatn 2:26 klst og ég var því bæði undrandi og glaður þegar klukkan sýndi 2:22:30 klst í þann mund sem ég kom þar í hlaðið. Mér hafði sem sagt tekist að bæta þremur mínútum við forskotið og var „kominn með þrjár og hálfa mínútu í plús“.

Ég hafði lagt af stað um morguninn í vindjakka sem hægt er að breyta í lítið mittisveski með ól. Þessa breytingu framkvæmdi ég á hlaupum rétt áður en ég kom að Álftavatni og í þessu veski var líka pláss fyrir ullarhanskana sem ég hafði haft á höndunum. Uppi á fjöllunum blés napur norðanvindur í bakið á hlaupurunum, en þarna niðurfrá var vindur hægari og loftið talsvert hlýrra, auk þess sem sólin var farin að skína. Þörfin fyrir vindjakka og ullarhanska var úr sögunni þennan daginn og óhætt að hlaupa með uppbrettar ermar.

Við Álftavatn skildi ég eftir þar til gerðan miða af rásnúmerinu mínu, en með þessu móti ganga aðstandendur hlaupsins úr skugga um að allir skili sér af fjöllunum. Að öðru leyti staldraði ég ekki við heldur hélt rakleiðis áfram þegar búið var að hella vatni í drykkjarbrúsann minn. Við Álftavatn sá ég Lilju Kristófersdóttur á Akranesi í hópi starfsmanna. Hún hafði ætlað að vera með í hlaupinu en þurft að hætta við vegna meiðsla og slegist í hóp starfsmanna í staðinn. Kunnugleg andlit á drykkjarstöðvum auka manni gleði og kraft í næsta áfanga.

3. áfangi (a): Álftavatn – Bláfjallakvísl: 5,18 km
Venjulega er litið á áfangann frá Álftavatni í Emstrur sem þriðja áfanga Laugavegshlaupsins. Það geri ég líka, en mér finnst þó enn betra að skipta þessum áfanga í tvennt og fjölga þannig tilhlökkunarefnum og samanburðarstöðum fyrir klukkuna. Mér fannst mér miða vel á þessum kafla og bilið milli mín og annarra hlaupara virtist haldast nokkuð svipað. Gauti var oftast nokkurn spöl á undan mér og Anton ýmist fáum skrefum á undan eða eftir. Ég sá hins vegar lítið til Gunnars og reiknaði með að hann væri heldur farinn að dragast aftur úr. Þetta var líka fyrsta Laugavegshlaupið hans og í þokkabót var hann að glíma við meiðsli sem gera mátti ráð fyrir að gerðu honum lífið leitt þegar liði á hlaupið. Það er ekkert smáverkefni að hlaupa Laugaveginn.

Víða á leiðinni hlupum við framhjá göngufólki sem hafði vikið úr vegi til að hvetja hlauparana til dáða. Svona hvatning skiptir mig miklu máli, og eins og ég hef einhvern tímann skrifað finnst mér alltaf að þetta fólk sé þarna alveg sérstaklega fyrir mig. Hvatningin gefur manni orku sem auðvelt er að virkja sér í hag. Það er kannski ögn sjálfhverft að eigna sér hvatninguna, en þetta er svo sem ekki frá neinum tekið og nýtist næsta manni örugglega jafnvel eftir sem áður.

Við skálann í Hvanngili var sem víðar dálítill hópur af sérlegum stuðningsmönnum mínum sem ég þekkti ekki neitt og frá Hvanngili var ekki langt að Bláfjallakvísl. Þangað hafði ég náð á sléttum 3 klst í hlaupinu 2013, en núna sýndi klukkan 2:54:30 klst. Ég hafði sem sagt grætt 2 mín frá því við Álftavatn og var kominn með 5:30 mín í plús þegar á heildina var litið.

Vatnið í Bláfjallakvísl náði mér vel upp fyrir hné, en var ekki svo ýkja kalt. Á bakkanum hinum megin beið aukafarangur þeirra sem höfðu kosið að skipta um föt eða bæta á nesti þegar þarna var komið sögu. Ég valdi þann kost í fyrsta Laugavegshlaupinu mínu 2007 en að fenginni þeirri reynslu finnst mér ávinningurinn af þessu lítill sem enginn. Þarna hefði svo sem verið gott að losa sig við mittisveskið með vindjakkanum og hönskunum, en það þyngdi mig ekki neitt. Ég hélt því ótrauður áfram suður á sandana með allt mitt hafurtask, bjartsýnn á framhaldið. Eftir þetta var fáliðað í kringum mig, því að margir höfðu greinilega átt erindi í farangurshrúguna.

3. áfangi (b): Bláfjallakvísl – Emstrur: 10,69 km
Sandarnir sunnan við Bláfjallakvísl eru vafalítið tilbreytingarlausasti hluti Laugavegarins en að sama skapi sá fljótfarnasti. Þarna hafði ég farið tiltölulega hratt yfir í hlaupinu 2013 enda var ég í mínu besta maraþonformi það sumarið. Bjóst varla við að geta gert öllu betur í þetta sinn, en þó gat ég bundið einhverjar vonir við hagstæðari aðstæður. Nú var jú vindurinn í bakið, sól á lofti og þokkalega hlýtt, en 2013 var frekar svalur mótvindur og svolítil úrkoma. Ég reyndi alla vega að halda góðum hraða. Held að það hafi gengið þokkalega, í það minnsta á meðan hlaupið var eftir veginum. Eftir að veginum sleppti tók við lausari sandur sem mér gekk ekki eins vel að hlaupa í. Þegar sunnar dregur liggur leiðin yfir nokkra hóla og hæðir og þar fannst mér heldur vera farið að draga af mér.

Einhvers staðar í grennd við Innri-Emstruá náði ég fótfráustu konunni á Laugaveginum þetta árið, Amber Ferreira frá New Hampshire. Við fylgdumst að miklu leyti að næstu kílómetra, nema hvað ég seig heldur fram úr á sléttu köflunum og hún náði mér aftur í brekkunum. Amber er enginn aukvisi í úthaldsgreinum. Hún hefur keppt a.m.k. 10 sinnum í Ironman (járnkarli), sem felst í að synda 3,8 km í sjónum, hjóla 180 km og hlaupa svo maraþon í lokin. Besti tíminn hennar í þessari grein er 9:07 klst. Hún er reyndar atvinnumaður í þríþraut og á að baki ótrúlegan feril á því sviði þrátt fyrir tiltölulega ungan aldur. Besti tíminn hennar í maraþonhlaupi er 3:03 klst, en þá var hún búin með tilheyrandi sund og hjólreiðar. Sjálfur þykist ég góður að hafa náð að hlaupa á 3:08 klst eftir markvissan undirbúning og góðan nætursvefn. Amber hefur líka orðið Bandaríkjameistari í snjóþrúguhlaupi svo eitthvað sé nefnt.

Hápunkturinn í Laugavegshlaupinu mínu 2013 var að koma niður að skálanum í Emstrum og sjá að þá voru ekki enn liðnar 4 klst. af hlaupinu. Núna fannst mér auðvitað lágmark að ég yrði 5:30 mín fljótari, þ.e.a.s. að ég næði að hlaupa kaflann frá Bláfjallakvísl á sama tíma og síðast. Helst vildi ég ná enn meira forskoti á tímann minn frá 2013, þrátt fyrir að maraþonformið væri tæplega eins gott og þá. Stundum er maður tilætlunarsamur.

Þegar klukkan var komin vel yfir 3:50 klst. bólaði enn ekkert á skálanum í Emstrum og þegar hann loks kom í ljós var tíminn kominn yfir 3:53 klst. Reyndin varð sú að hlaupið frá Bláfjallakvísl að Emstrum tók nánast nákvæmlega jafnlangan tíma og síðast, þ.e.a.s. 1 klst. Millitíminn í Emstrum var 3:54:30 klst. Ég var sem sagt enn með u.þ.b. 5:30 mín í plús miðað við 2013. Forskotið hafði ekki aukist, en ég var samt mjög sáttur. Ég hlaut að ná að ljúka hlaupinu á mínum besta tíma ef ekkert óvænt kæmi upp á á síðasta áfanganum. Það væri klúður að tapa niður meira en 5 mínútna forskoti, sérstaklega þegar haft var í huga að nú var meðvindur, þurrt og hlýtt, en 2013 var mótvindur og slagveðursrigning mestalla leiðina frá Emstrum og suðurúr.

4. áfangi (a): Emstrur – Þröngá: 13,31 km
Ég gaf mér rétt tíma til að endurnýja vatnsbirgðirnar í Emstrum og flýtti mér svo áleiðis, fullur gleði og tilhlökkunar. Þetta hafði allt gengið að óskum, mér leið vel þrátt fyrir svolitla þreytu í lærunum og fannst frekar stutt eftir. Ég skipti reyndar um skoðun á því á leiðinni upp úr gljúfrinu við Fremri-Emstruá og á leið upp brekkurnar þar fyrir sunnan. Það var engu líkara en roskinn fjallgöngumaður með þungan bakpoka hefði verið ráðinn í sumarafleysingar fyrir fjallahlauparann í mér, sem ég hafði þó haldið að væri sterkari en nokkru sinni fyrr. Á þessum kafla fór Hallgrímur Vignir Jónsson fram úr mér og þegar ég leit við sá ég að Amber var aftur farin að nálgast, en leiðir okkar höfðu skilið að mestu í grennd við Emstrur. Reyndar er mér alveg sama í svona hlaupum hvort ég verði á undan eða eftir einhverjum í mark, því að ég er sjálfur eini keppinauturinn. Þegar samferðamennirnir hópast fram úr mér hlýt ég samt að taka það sem vísbendingu um að heldur sé farið að halla undan fæti.

Þegar komið var lengra suður með Markarfljótsgljúfrum tók aftur við heldur sléttara land. Þar kom í ljós að maraþonhlauparinn í mér hafði hvergi nærri sagt sitt síðasta orð þó að fjallahlauparinn væri kominn í sumarfrí. Á þessum kafla kom ég sjálfum mér á óvart og náði að auka hraðann jafnt og þétt. Þarna náði ég Hallgrími aftur og eftir það sá ég í rauninni aldrei aðra hlaupara. Allir sem ég hafði fylgst með á leiðinni höfðu dregist aftur úr og næstu menn á undan voru með of mikið forskot til að þeir kæmu nokkurn tímann inn í sjónsviðið. Einhvers staðar á þessum kafla hitti ég fólk sem sagði mér að Þorbergur Ingi Jónsson hefði náð að ljúka hlaupinu á innan við 4 klst. Það töldu menn með öllu ómögulegt til skamms tíma. Hann var sem sagt að koma í mark þegar ég var ný lagður af stað frá Emstrum! Ótrúlegur afreksmaður!

Ég á erfiðar minningar úr Fauskatorfum frá því í Laugavegshlaupinu 2007, en þar var ég algjörlega þrotinn að kröftum. Núna var þessu þveröfugt farið. Mér hafði sjaldan liðið betur á hlaupum. Veðrið var dásamlegt og landslagið skartaði sínu fegursta til allra átta. Gleðin jókst enn frekar þegar ég sá stóran hóp göngufólks framundan og heyrði nafnið mitt kallað. Þar var komin Gunnur Róbertsdóttir með fríðu föruneyti. Þessi hlýja og persónulega hvatning var ómetanlegt nesti fyrir þá fáu kílómetra sem eftir voru.

Fyrr en varði var ég komin að Ljósá. Þar var drykkjarstöð sem kom í góðar þarfir, því að ég var orðinn vatnslaus fyrir nokkru. Vatnsskammturinn sem hafði dugað í hráslaganum 2013 var ekki nægur þennan sólskinsdag. Allt var þetta þó innan skekkjumarka og engin hætta á ofþornun. Nú var ekkert eftir nema Kápan og svo endaspretturinn frá Þröngá niður í Húsadal. Brosið var fast á andlitinu.

Kápan er aldrei létt yfirferðar þegar maður er búinn að hlaupa 48 km eða þar um bil. Ég var svolítið lengi upp en þess fljótari niður hinum megin. Þröngá var vatnslítil og þar stóð Magnús Jóhannsson úti í miðri á, hlaupurum til aðstoðar. Þetta var orðið svo skemmtilegt að elstu menn mundu varla annað eins.

Í miðri Þröngá, 50 km að baki og gleðin allsráðandi. Rjúpnafell í baksýn. (Ljósm. Magnús Jóhannsson).

Í miðri Þröngá, 50 km að baki og gleðin allsráðandi. Rjúpnafell í baksýn. (Ljósm. Magnús Jóhannsson).

4. áfangi (b): Þröngá – Húsadalur: 2,82 km
Við Þröngá sýndi klukkan 5:24 klst. Ég mundi ekki alveg hversu langt var þaðan í markið. Hafði séð einhvers staðar að það væru 4 km, en hafði samt hugboð um að það væri styttra og að þennan spotta gæti ég jafnvel hlaupið á korteri á góðum degi. Ákvað samt að stilla öllum væntingum í hóf og gera bara mitt besta. Ef þetta væru tæpir 4 km hlyti ég að geta afgreitt málið á 24 mín, þannig að lokatíminn yrði 5:48 klst. Það væri bara frábær niðurstaða. Þetta var alla vega örstutt og ég vissi að mér væri óhætt að taka á því sem til væri.

Í rauninni var nóg til. Á þessum síðasta kafla eru reyndar nokkrar stuttar brekkur sem ég neyddist til að ganga upp, en að öðru leyti hljóp ég eins og fætur toguðu. Ég hafði tekið steinefnatöflur reglulega alla leiðina til að bæta upp það sem tapast með svita, og hvort sem það var þeim að þakka eða einhverju öðru hafði ég ekki fundið fyrir minnsta votti af krömpum þegar hér var komið sögu. Það er algjör óskastaða. Í löngum hlaupum hef ég næstum alltaf þurft að berjast við krampa síðustu kílómetrana, og þó að þeir nái ekki yfirhöndinni er nánast útilokað að auka hraðann við slíkar aðstæður. Nú var það leikur einn.

Kominn í mark, alsæll. (Ljósm. Gunnlaugur Júlíusson).

Kominn í mark, alsæll. (Ljósm. Gunnlaugur Júlíusson).

Spölurinn frá Þröngá niður í Húsadal var enn styttri en mig minnti. Allt í einu sá ég ljósastaur sem ég mundi að var rétt fyrir ofan grasflötina við endamarkið. Og svo tók grasflötin við og ég heyrði rödd kalla rásnúmerið mitt í talstöð til að auðvelda þulunum í markinu að þekkja komumann. Ég tók góðan endasprett og kom alsæll og lítið lerkaður í markið á 5:41:10 klst. Ég hafði sem sagt hlaupið áfangann úr Emstrum á nærri 6 mínútum betri tíma en 2013 og bætt minn fyrri árangur um rúmlega 11 mínútur. Hlaupið var búið og mér leið hreint stórkostlega, bæði til sálar og líkama.

Á marksvæðinu
Í markinu tók við þetta hefðbundna, einhver myndataka, spjall við eitthvað af því góða fólki sem þar tók á móti mér og ótæpileg næringarinntaka í tjaldinu sem aðstandendur hlaupsins höfðu komið upp. Ég hafði líklega eytt um 3.600 hitaeiningum (kcal) í hlaupinu og orkugelin sex og önnur næring sem ég hafði innbyrt á leiðinni hafði að hámarki skilað 650 hitaeiningum til baka. Maður þolir alveg svoleiðis skuld í einhvern tíma, en ef hún er ekki endurgreidd að miklu leyti á fyrsta hálftímanum eftir hlaup er hætt við að eftirköstin verði þyngri en ella.

Næsta verk var að fylgjast með næstu hlaupurum koma í mark. Í þeim hópi kannaðist ég við marga. Einhverjir höfðu hitt Gunnar á leiðinni og þannig gat ég haft hugmynd um hvenær hann væri væntanlegur. Gunnar er ekki maður sem hættir við hálfklárað verk, og þó að heilsan væri ekki góð skilaði hann sér í mark á góðum tíma.

Á marksvæðinu hitti ég meðal annarra fimmtugan bónda úr Öræfum, Ármann Karl Guðmundsson á Svínafelli. Hann var ekki bara að ljúka sínu fyrsta Laugavegshlaupi, heldur var þetta líka fyrsta keppnishlaupið hans frá upphafi. Og árangurinn var glæsilegur. Hann lauk hlaupinu á 5:58 klst. og náði 31. sæti af öllum skaranum. Ármann ákvað um síðustu áramót að spreyta sig á þessu verkefni og hóf skipulegan undirbúning í janúar. Hann var auðvitað vel á sig kominn fyrir, en saga hans er samt gott dæmi um þann árangur sem hægt er að ná með markvissum undirbúningi. Ef menn sá, þá uppskera þeir. Annars ekki.

Eftirvinnslan
Þegar Gunnar var búinn að næra sig svolítið brugðum við okkur út í örstutt niðurskokk. Flestum finnst kannski nóg að hlaupa rúma 50 kílómetra, þó að maður bæti ekki einhverju við að óþörfu. En niðurskokk er til þess fallið að draga úr eftirköstum. Fyrstu skrefin eru kannski ekki auðveld, en svo mýkist maður smátt og smátt. Þegar við komum til baka úr þessari stuttu ferð rákumst við á Ívar Adolfsson sem stóð fyrir stórfelldum pönnukökubakstri í grennd við marksvæðið. Sævar Skaptason og Bryndís Óladóttir voru þarna líka, en þau hafa verið í hópu dyggustu hlaupavina minna síðustu ár. Veitingarnar sem ég þáði hjá Ívari voru punkturinn yfir i-ið og nánast endanleg trygging fyrir því að þetta Laugavegshlaup myndi ekki hafa nein teljandi eftirköst.

Sturturnar í Húsadal virkuðu óaðfinnanlega í þetta skiptið, ólíkt því sem var 2013. Síðan tók við hefðbundin matarveisla og verðlaunaafhending, þar sem ég hreppti 2. sætið í flokki 50-59 ára á eftir ótrúlega sprækum fimmtugum Ítala sem kláraði hlaupið á 4:58 klst. Þarna kom líka í ljós að ég hafði verið 17. maður í mark af 361 sem skilaði sér í mark og að af þessum 16 sem voru á undan mér voru ekki nema 6 Íslendingar. Ég gat ekki annað en verið alsæll með þessa tölfræði.

Samantekt um millitíma og næringu
Hvert hlaup færir manni nýja reynslu sem bætist við þá sem fyrir er. En flestir eru fljótir að gleyma, og þrátt fyrir ást mína á tölum er ég engin undanteking hvað það varðar. Þess vegna finnst mér borga sig að skrásetja sem flest af því sem gerist í hverju hlaupi sem líklegt er að nýtist mér (og kannski öðrum) í næstu ferð. Vegalengdir og millitímar eru dæmi um upplýsingar af þessu tagi, en mér finnast minnispunktar um klæðaburð, næringarinntöku o.fl. ekki síður mikilvægir. Klæðaburðinn hef ég áður tíundað, en hinum atriðunum ætla ég að safna saman í þessum kafla.

Lítum fyrst á tölulegar upplýsingar um vegalengdir og tíma, þ.m.t. samanburð við hlaupið 2013.

Tölulegur samanburður við hlaupið 2013. (Smellið á myndina til að fá stærri og ögn læsilegri útgáfu).

Tölulegur samanburður við hlaupið 2013. (Smellið á myndina til að fá stærri og ögn læsilegri útgáfu).

Næringin mín í þessu hlaupi var aðallega orkugel af gerðinni High-5+. Hvert gel er 40 g og orkugildi hvers þeirra er rétt um 90 kcal. Auk þess hafði ég meðferðis slatta af hnetum og rúsínum sem ég hafði saltað dálítið aukalega. Orkugildið í þessari næringu liggur ekki alveg fyrir, auk þess sem erfitt er að mæla inntökuna nákvæmlega í grömmum.

Ég hef það fyrir reglu að fylgja fyrirfram næringaráætlun í hlaupum, enda segir reynslan mér að getan til að taka skynsamlegar ákvarðanir minnkar eftir því sem líður á. Í þessu hlaupi ætlaði ég að taka eitt gel á 45 mínútna fresti og nota hnetur og rúsínur í staðinn ef ég yrði leiður á gelinu eða finndi fyrir óþægindum í maga. Með hverju geli ætlaði ég að taka tvo góða gúlsopa af vatni og drekka vatn þar fyrir utan eftir þörfum. Samtals átti vatnsdrykkjan ekki að vera minni en 300 ml á hverja 10 km. SaltstickAuk þess sem hér hefur verið talið hafði ég meðferðis nokkur steinefnahylki af gerðinni Saltstick, sem ég hafði keypt á sínum tíma hjá Daníel Smára í Afreksvörum. Þessi hylki ætlaði ég að taka samtímis orkugelunum og drekka þá kannski örlítið meira vatn en ella. Hylkin innihalda natríum, magnesíum, kalíum, kalsíum og D-vítamín og er ætlað að bæta upp eitthvað af því sem tapast með svita. Lauslegar tilraunir mínar á sjálfum mér benda til að inntaka hylkjanna dragi úr líkum á krömpum.

Ég fylgdi áætluninni í öllum aðalatriðum. Tók fjögur fyrstu gelin og samsvarandi steinefnahylki eftir 45, 90, 135 og 180 mín. Á söndunum sunnan við Bláfjallakvísl ákvað ég að skipta yfir í hneturnar og rúsínurnar. Þeirri fæðu tel ég hæfilegt að skófla í mig á 20 mínútna fresti, svo sem einni lúku í senn. Þessir matartímar voru því þegar 3:45 og 4:05 klst. voru búnar af hlaupinu, með steinefnahylki í fyrra skiptið. Að þessu sinni fannst mér þessi næring ekki alveg virka og því skipti ég aftur yfir í gelið. Gel nr. 5 og 6 voru því tekin eftir 4:30 og 5:15 klst. Samtals urðu þetta því 6 gel, 7 steinefnahylki og eitthvað af hnetum og rúsínum. Vatnsdrykkjan varð eitthvað meiri en að var stefnt, líklega um 400 ml á hverja 10 km. Vatnsmagnið verður eðlilega að ráðast af aðstæðum. Þannig þarf meira vatn í hlýju og þurru veðri en í slagviðri og kulda.

Hvort sem það var vatni, næringu, steinefnum eða einhverju öðru að þakka var heilsan með allra besta móti í öllu hlaupinu og að hlaupi loknu. Maginn var þokkalegur alla leið, orkuástand með besta móti og krampar víðsfjarri. Þetta gat varla verið betra.

Því er svo við að bæta að skóhlífarnar voru bylting til hins betra. Nú gat ég óhikað tekið til fótanna í lausum sandi og möl án þess að eiga það á hættu að fylla skóna af fylgihlutum. Þessi búnaður mun örugglega fylgja mér í utanvegahlaupum framtíðarinnar.

Þakkarorð og næstu skref
Gleði er góð tilfinning og af henni átti ég nóg eftir þetta Laugavegshlaup. Í svona hlaupi getur maður ekki treyst á neinn nema sjálfan sig, því að enginn annar gerir þetta fyrir mann. Engu að síður eiga margir aðrir mikinn hlut að máli. Þess vegna eru gleðin og þakklætið eins og síamstvíburar á svona stundum. Þakklætið í huga mínum beindist mest að fjölskyldunni minni og þá sérstaklega eiginkonunni Björk sem hefur umborið þetta tímafreka áhugamál mitt í áratugi og lagt margt gott til málanna þegar mest hefur á reynt. Svo er líka ástæða til að þakka hlaupafélögum mínum í Flandra, og þá sérstaklega Gunnari Viðari sem hefur fylgt mér af meiri elju en nokkur annar síðustu tvö árin. Aðstandendur Laugavegshlaupsins eiga líka þakkir skildar, þar með taldir allir starfsmennirnir sem virtust eiga endalausa ljúfmennsku í pokahorninu. Allt það góða fólk sem ég hef kynnst á hlaupum síðustu árin eiga líka skilinn sinn skerf af þakklæti. Í þessu hlaupi lék Gunnur einna stærsta hlutverkið. Hún og þeir sem voru í fylgd með henni voru svo sannarlega rétt fólk á réttum tíma. Annað göngufólk á Laugaveginum átti líka stóran þátt í að gera þennan góða dag að góðum degi. Og svo mætti lengi telja.

Næstu skref? Jú, þau verða hlaupin hér og þar, t.d. í Barðsneshlaupinu, í fjallvegahlaupum á Austurlandi, í Jökulsárhlaupinu og í Reykjavíkurmaraþoni í ágúst. Næsta sumar ætla ég að taka Hlaupahátíð á Vestfjörðum fram yfir Laugaveginn, en þessir tveir viðburðir lenda oft á sömu helginni. Sumarið 2017 verður svo kominn tími á fjórða Laugaveginn. Hann verður hluti af sextugsafmælisgjöfinni minni til mín, ef allt gengur að óskum. Markmiðið fyrir það hlaup er einfalt: Hlaupa á skemmri tíma en 5:41:10 klst og njóta hverrar mínútu.