Sunnudaginn 8. september sl. hljóp ég maraþon í Tallinn. Þetta var 20. maraþonið mitt og það fyrsta í tæplega tvö ár. Hlaupið gekk svo sem bara vel, aðstæður í Tallinn voru eins og best gerist og ferðalagið í heild enn betra. Og ég var alls ekki eini Íslendingurinn í Tallinn, því að samtals hlupu þarna um 50 Íslendingar. Flestir, og ég þar á meðal, voru þeir á vegum Bændaferða sem skipulögðu allt ferðalagið af stakri snilld.
Undirbúningurinn
Hlaupið í Tallinn var fyrsta maraþonið mitt síðan í október 2017 þegar ég tók þátt í Þriggjalandamaraþoninu og kom í mark í Bregenz í Austurríki á 3:25:31 klst. Þá var ég löngu farinn að finna fyrir einhverjum óþægindum neðst í baki, í rassvöðvum og niður í læri, sem síðan ágerðust og útilokuðu hlaup að mestu leyti allt árið 2018. Þá meiðslasögu hef ég rakið áður og ætla ekki að endurtaka hana hér, nema hvað mér tókst smátt og smátt að komast af stað aftur með drjúgri þolinmæði og góðri hjálp sérfræðinga á jaðri opinbera heilbrigðiskerfisins. Á aprílmánuði síðastliðnum var ég farinn að geta hlaupið sæmilegar vegalengdir alveg vandræðalaust, en fann samt að ég átti langt í land með að ná sama styrk og fyrir meiðsli.
Ég hljóp mikið fyrri hluta sumars og náði að klára Laugaveginn á þokkalegum tíma (6:05:48 klst.) um miðjan júlí, þó að mig vantaði reyndar enn eitthvað af þeirri getu sem áður var til staðar. Eftir Laugaveg tók hins vegar við tímabil með helst til litlum hlaupaæfingum, sem helgaðist m.a. af því að um þetta leyti vorum við hjónin að skipta um húsnæði og í því ati varð lítill tími aflögu. Ég mætti þó í Reykjavíkurmaraþonið (RM) að vanda og hljóp þar alveg sæmilegt hálfmaraþon (1:35:26 klst.). Mér hefur reynst vel að reikna líklegan tíma í maraþoni út frá árangri í hálfmaraþoni með hjálp McMillan hlaupareiknivélarinnar, sem ég er reyndar búin að laga örlítið að eigin þörfum. Samkvæmt þeim fræðum gaf tíminn í RM fyrirheit um að ég gæti hlaupið maraþon á 3:20:51 klst. Til að einfalda þetta aðeins má skjóta því inn að fyrir fólk á mínu getustigi í hlaupum lætur nærri að hægt sé að giska á raunhæfan maraþontíma með því að margfalda hálfmaraþontímann með tveimur og bæta 10 mínútum við.
Ég þóttist vita að í því tilfelli sem hér um ræðir værum við McMillan óþarflega bjartsýnir. Til að reiknivélin gefi raunhæfa niðurstöðu þarf maður nefnilega að vera hlutfallslega svipað sterkur á báðum vegalengdunum sem um ræðir. Og þar sem ég tók mjög fáar langar æfingar (30+ km) í sumar og enn færri „tempóæfingar“ á maraþonhraða og hraðari, þá var líklegt að maraþongetan væri minni en hálfmaraþongetan. Yfirleitt hefur mér gengið tiltölulega betur í hlaupum eftir því sem þau eru lengri, en fortíðin hjálpar manni ekki mikið ein og sér. Það þarf líka að æfa.
Markmiðin
Með hliðsjón af því sem fram kemur hér að ofan ákvað ég að setja mér fjórskipt markmið fyrir hlaupið í Tallinn, þ.e.a.s. allt frá A-markmiði sem ég taldi fræðilega mögulegt að ná ef allt gengi upp, niður í D-markmið sem ég vildi alveg endilega geta náð hvað sem á gengi. Þessi markmið setti ég upp í töfluna hér að neðan.
Eins og ráða má af töflunni miðaðist A-markmiðið við að ég myndi standa mig a.m.k. eins vel og í hálfa maraþoninu í RM, auk þess sem 3:20 klst. er ágætis viðmið. Ég mat það reyndar svo að líkurnar á að ég næði þessu væru afar litlar, þar sem vikurnar tvær sem liðnar voru frá RM höfðu síður en svo bætt neinu við formið. B-markmiðið gekk út á að ná besta tíma Íslendings 60 ára og eldri það sem af var árinu, en þar sem oftar gat ég notað goðsögnina Trausta Valdimarsson, jafnaldra minn, sem viðmið. Hann hljóp sem sagt heilt maraþon í Reykjavík í ágúst á 3:24:09 klst. í stuttu hléi á milli keppna í heilum og hálfum járnkörlum. C-markmiðið var að hlaupa á betri tíma en í Bregenz 2017, því að þá gæti ég sagst hafa náð mínum besta árangri (PB) eftir sextugt. Og D-markmiðið var að ljúka alla vega hlaupinu undir 3:30 klst. vegna þess að ég vissi að mér myndi finnast svolítið leiðinlegt að vera lengur, auk þess sem 3:30 klst. er ágætis viðmið.
Skipulagður eða kærulaus?
Þegar ég legg af stað í maraþonhlaup finnst mér ég eiga tvo valkosti, þ.e. að vera skipulagður eða kærulaus. Að vera skipulagður í þessu samhengi þýðir í mínum huga að vera með raunhæfa áætlun sem gengur út á að halda jöfnum hraða alla leið, þrátt fyrir að mér finnist ég geta hlaupið hraðar fyrstu kílómetrana. Kæruleysið felur hins vegar í sér að ég fari alfarið eftir tilfinningunni og hlaupi bara eins hratt eða hægt og mig langar á hverjum tíma. Ég veit af reynslu að skipulagið skilar oftast betri niðurstöðu, en kæruleysið er óneitanlega skemmtilegt, sérstaklega framan af hlaupi og í þeim örfáu tilvikum þegar formið er betra en ætlað var. Núorðið veit ég reyndar oftast hvað ég get og veit að það þýðir lítið að láta sig dreyma um meira. Í þetta skiptið valdi ég því að vera skipulagður. Hver kílómetri skyldi hlaupinn á 4:44 mín því að það var sá hraði sem ég þurfti til að ná undir 3:20 klst. En eins og fram kemur hér að framan vissi ég að þetta plan væri í djarfara lagi.
Ferðin til Tallinn
Eins og ég nefndi í upphafi sáu Bændaferðir um að skipuleggja Tallinnferðina fyrir mig og fjölda annarra Íslendinga. Ég get svo sem vel skipulagt svona ferðir sjálfur, bæði fyrir mig og hlaupafélagana, en það er bara miklu auðveldara að láta aðra sjá um það. Eftir að hafa reynt hvort tveggja kann ég virkilega vel að meta að þurfa ekkert að hugsa um að bóka flug, skipuleggja ferðir frá flugvelli, leita að hóteli, finna staðinn þar sem maður sækir skráningargögnin sín, komast á rásmarkið snemma að morgni hlaupadags, tryggja að ég sjálfur og aðrir séu alltaf á réttum stað á réttum tíma og leysa öll þau ófyrirséðu vandamál sem geta komið upp í svona ferðalagi. En auðvitað er ekki sama hverjum maður felur þetta verkefni. Tallinnferðin var þriðja hlaupaferðin mín á vegum Bændaferða (á eftir München 2014 og Bregenz 2017) og í þessum ferðum hefur bókstaflega aldrei neitt farið úrskeiðis. Í öll skiptin hefur Sævar Skaptason verið aðalfararstjórinn og hann hefur einmitt þetta einstaka lag á að skapa þægilegt andrúmsloft, halda streitustiginu í hópnum innan marka og halda samt áætlun í öllum atriðum hvað sem á gengur. Í þetta sinn var Inga Dís Karlsdóttir honum til halds og trausts, eins drífandi og jákvæð og hún er. Þessi tvö eru bæði vanir hlauparar – og þegar það bættist við allt hitt var ljóst að þetta „gat ekki klikkað“. Svona ferð er svo miklu meira en bara að fljúga, sofa, hlaupa, borða og fljúga. Góðir fararstjórar eru ómissandi í öllum hinum þáttunum.
Í Bændaferðahópnum vorum við samtals 14 sem kennum okkur beint eða óbeint við Hlaupahópinn Flandra í Borgarnesi, þ.á.m. Björk og þrír aðrir makar sem ekki ætluðu að hlaupa sjálf en komu með til að njóta ferðarinnar með okkur hinum. Fjögur úr Flandrahópnum ætluðu að hlaupa maraþon en hin hugðu á styttri vegalengdir (hálft maraþon og 10 km).
Ferðaskipulagið var þannig að við flugum til Helsinki á föstudagsmorgni og náðum að rölta þar aðeins um miðborgina áður en við tókum ferju áfram til Tallinn. Ég hef oft áður komið til Helsinki, en svo sem aldrei náð að skoða neitt annað en lestarstöðina, nokkur hótelherbergi og fundarsali finnsku umhverfisstofnunarinnar og umhverfisráðuneytisins. Þessi heimsókn var allt öðruvísi og bætti heilmiklu við. Hæst bar heimsókn í borgarbókasafnið Oodi, sem hannað var af ALA arkitektum í Helsinki og opnað í desember 2018. Þarna hefur tekist að byggja upp ótrúlega aðlaðandi setustofu og félagsaðstöðu fyrir gesti og gangandi í miðborginni, í byggingu sem útnefnd hefur verið sem fegursta bygging Finnlands.
Hér verður ferðasagan ekki rakin í smáatriðum, en þegar nokkuð var liðið á föstudagskvöldið vorum við öll komin inn á eitt og sama hótelið í Tallinn, skammt frá gömlu miðborginni. Laugardagurinn fór svo í létt morgunskokk, heimsókn á Frelsistorgið þar sem númer og önnur keppnisgögn voru afhent – og í dágott búðarrölt, að því ógleymdu að fylgjast með 10 km hlaupurunum sem reyndu með sér þennan dag. Jafnframt boðuðu fararstjórarnir til fundar þar sem farið var yfir helstu skipulagsatriði og gefin góð og róandi ráð fyrir átök sunnudagsins.
Við rásmarkið
Maraþonhlaupið hófst í gömlu miðborginni í Tallinn kl. 9 á sunnudagsmorgninum. Við vorum mætt á svæðið tæpum klukkutíma fyrr og veðrið var nógu gott til að hægt væri að yfirgefa hótelið í keppnisfötunum og engu utanyfir. Þarna á milli var í mesta lagi korters gangur, sem gerði þetta allt auðveldara en ella. Veðrið var þurrt, vindur hægur og hitinn eitthvað um 12°C.
Eftir hefðbundið spjall og vangaveltur og frekar hófsama upphitun var tími til kominn að finna starthólfið sitt og bíða þess að hlaupið yrði ræst. Við fjögur úr Flandrahópnum höfðum öll verið sett í ráshóp D, sem þýddi að við vorum eiginlega allt of aftarlega í startinu. Ráshópar eru ákveðnir eftir fyrri árangri, en þar sem hlaupahaldarar höfðu ekki upplýsingar um þann árangur lentum við þarna, væntanlega með fólki sem ætlaði að klára maraþonið á 4:20 klst. eða þar um bil. Við áttum að geta klárað þetta á 3:20-3:50, sem þýddi að líklega hefði ráshópur B hentað betur, eða í mesta lagi C. Þessu hefði mátt breyta þegar skráningargögnin voru sótt, en við töldum okkur trú um að þrengslin á rássvæðinu væru ekki meiri en svo að þetta skipti nánast engu máli. Þetta voru mistök, en þó svo sem ekkert sem réði úrslitum.

Glaðir fjórmenningar (SG, Inga Dísa, Gunnar Viðar og Birkir) fyrir maraþon í Tallinn. (Ljósm. Inga Dís Karlsdóttir).
Fyrstu 5 km
Eftir að hlaupið var ræst tók það mig rúmlega eina og hálfa mínútu að komast á ráslínuna. Það breytti svo sem engu, því að í reynd byrjar ekki hlaupið fyrr en þar og þá. Hins vegar var fyrsti kílómetrinn seinfarinn í þrengslunum. Við Birkir og Gunnar Viðar fylgdumst að eftir því sem hægt var og reyndum eftir föngum að smeygja okkur fram úr sem flestum hægfara hlaupurum sem áttu betur heima í ráshópi D en við. Þessi viðleitni fól í sér góðan skammt af dansi á kantsteinum og í kringum ljósastaura. Gunnar Viðar hnaut við einhvers staðar í þessum jafnvægisæfingum og tognaði að öllum líkindum í læri. Það er ekki skemmtileg byrjun á maraþonhlaupi, en Gunnar beit á jaxlinn að vanda og jók heldur hraðann ef eitthvað var.
Það tók mig 5:45 mín að skáskjóta mér fyrsta kílómetrann, sem þýddi að ég hafði þá þegar tapað heilli mínútu í troðningnum, miðað við A-markmiðið mitt. Eftir það náði ég hins vegar nokkurn veginn að halda áætluðum hraða og þegar 5 km voru að baki sýndi klukkan 25:09 mín. Þar var ég sem sagt 1:29 mín á eftir áætlun (sjá töfluna hér að framan). Með því áframhaldi myndi ég ekki einu sinni ná D-markmiðinu mínu (3:30 klst.) og ljóst að ég yrði að bæta talsvert í ef ég ætlaði að komast nálægt A-markmiðinu (3:20 klst.).
5-15 km
Mér leið vel á þessum kafla í hlaupinu og fór fram úr fjöldanum öllum af hlaupurum, þ.á.m. flestum eða öllum Íslendingunum sem höfðu verið framar í rásröðinni. Birkir var lengst af nokkrum skrefum á undan mér, en Gunnar var horfinn og ég gerði ráð fyrir að hann væri kominn með talsvert forskot. Það gladdi mig og vakti vonir um að meiðslin í byrjun hefðu jafnað sig. Millitíminn eftir 15 km var 1:12:04 klst., sem þýddi að ég var enn 1:04 mín. á eftir áætlun en átti þó alla vega að ráða við B-markmiðið með svipuðu áframhaldi.
Kannski finnast einhverjum þessar tímapælingar flóknar eða ruglingslegar, en svona pælingar eru einmitt helsta tómstundagamanið mitt í maraþonhlaupum. Mér finnst gott að hafa eitthvað til að hugsa um og mér finnast tölur skemmtilegar.
15-30 km
Þar sem ég var staddur í dýragarðinum í Tallinn og búinn með u.þ.b. 17 km af hlaupinu fór ég að finna fyrir þreytu eða orkuleysi, sem fljótlega skilaði sér í minni meðalhraða. Þessi þreytumerki voru fyrr á ferðinni en ég hafði vonað og ég áttaði mig fljótlega á að A-markmiðið væri út úr myndinni og að B-markmiðið væri á leið út úr henni líka. Tíminn á hverjum kílómetra var ekki lengur 4:40-4:45 mín. eins og hann hafði verið lengst af eftir að ég komst út úr þvögunni, heldur allt upp í 4:50-5:00 mín. Þegar hlaupið var hálfnað stóð klukkan í 1:41:43 klst., sem þýddi að ég gæti svo sem hlaupið undir 3:24 klst. ef ekkert myndi hægjast á mér á seinni helmingnum. En ég fann vel að þessi seinni helmingur yrði erfiður. Líklega hafði of mikil orka farið í að vinna upp tímann sem tapaðist á fyrsta kílómetranum.
Þessi hluti hlaupsins var strembinn bæði fyrir líkama og sál og stemmingin í brautinni var heldur ekkert sérstök, frekar fáir áhorfendur og fátt til að leiða hugann frá neikvæðri talnaspeki. Það jákvæðasta voru þrjár ungar konur sem stóðu á einhverri gangstéttinni með stórt spjald með áletruninni (á ensku) „Hlauptu hraðar, ég var að prumpa“. Jú, og einhvers staðar stóð gamall maður sem hrópaði hvatningarorð á eistnesku þar sem orðið „Island“ kom fyrir. Mann munar um allt.
Millitíminn á 30 km var 2:25:53 klst. Ég var sem sagt orðinn 53 sek. á eftir áætlun B og átti ekki nema 7 sek til góða á áætlun C. Og ég fann alveg hvert stefndi. Nú snerist þetta um að þrauka og reyna með öllum tiltækum ráðum að skreiðast í mark á skemmri tíma en 3:30 klst. Þar var enn sæmilegt borð fyrir báru. Reyndar miða ég oft við að síðustu 12,2 kílómetrarnir eigi ekki að þurfa að taka meira en klukkutíma, sem þýddi að lokatími upp á 3:26 klst. var ekkert fráleitur. Maður verður nú að reyna að vera aðeins bjartsýnn.
30-38 km

Afskaplega þreyttir Strandamenn í Stroomi strandgarðinum. Búnir með u.þ.b. 31 km og mikið eftir. (Ljósm. Sportfoto).
Þarna var hver kílómetri orðinn óþægilega langur. Það hressti mig þó töluvert þegar ég sá Birki í næsta hópi á undan mér. Smám saman dró saman með okkur og eftir það fylgdumst við að drjúgan spöl í gegnum Stroomi strandgarðinn. Hann bar mér þær fréttir að Gunnar hefði tafist á einhverri drykkjarstöðinni og væri líklega orðinn langt á eftir okkur en ekki á undan. Birkir var sjálfur orðinn frekar þreyttur, en þrátt fyrir það seig hann fram úr mér á nýjan leik og ég var aftur „einn“ og fannst ég sjaldan hafa verið þreyttari. Millitíminn eftir 35 km var 2:51:27 klst. sem þýddi að ég var svo sem enn 2:23 mín. á undan áætlun miðað við síðasta og lakasta markmiðið, markmið D sem sagt. En líkaminn var ekki samvinnuþýður og hver kílómetri var farinn að taka 5:15-5:30 mín. Með því áframhaldi benti flest til að ég myndi engu markmiði ná. Ekki bætti það úr skák að um þetta leiti fóru „3:30 blöðrurnar“ fram úr mér, eða með öðrum orðum hópur hlaupara sem fylgdi hraðastjóra sem merktur var með lokatímanum 3:30 klst. Það var ekki uppörvandi.
Í maraþonhlaupum skoða ég jafnan millitímann eftir 37 km. Þá eru bara 5,2 km eftir og ef sú vegalengd klárast ekki á hálftíma er illa komið fyrir mér. Þessi millitími var 3:01:58 klst., útlitið hreint ekki gott og tankurinn alveg að verða tómur. Kílómetri nr. 38 jók mér ekki heldur bjartsýni. Hann var einn af þeim alhægustu.

Kristín Ól. og Björk J. bíða áhyggjufullar eftir sínum mönnum á marksvæðinu í Tallinn. (Ljósm. Torfi Bergsson).
Síðustu kílómetrarnir
Einhvern tímann rétt eftir 38 km línuna var eins og eitthvað lifnaði við í mér á nýjan leik. Kannski var það tilhugsunin um að þessu færi bráðum að ljúka, en kannski eitthvað miklu flóknara. Alla vega fór ég allt í einu að geta hlaupið hraðar. Eiginlega voru þessir fjórir kílómetrar eins og ein löng hraðaaukning, alveg frá 6:00 mín/km niður í 4:00 mín/km þegar best lét. Allt í einu var ég búinn að ná Birki aftur og einhvers staðar fór ég líka fram úr 3:30 blöðrunum, án þess að taka eftir því. Þreytan vék fyrir endurnýjaðri gleði og mér fannst allt vera mögulegt, þ.m.t. að klára þetta hlaup undir 3:30 klst. Millitíminn eftir 40 km var 3:17:52 klst. og svo var ég allt í einu kominn í mark í gamla Viru-borgarhliðinu á 3:28:06 klst. Birkir kom nákvæmlega 14 sek. síðar og Björk og fleiri úr stuðningsliðinu biðu þarna rétt hjá. Ég hef sjaldan verið þreyttari eftir hlaup (sbr. mynd fremst í þessum pistli), en móttökurnar voru svo góðar og vel þegnar að flestar neikvæðar hugsanir og tilfinningar gufuðu upp og létu ekki sjá sig það sem eftir var dagsins.
Eftir hlaup
Fyrsti hálftíminn eftir hlaup, já eða kannski fyrsti klukkutíminn, fór í að taka á móti félögunum, hitta stuðningsliðið og rölta á stirðum fótum á staðinn þar sem Íslendingarnir ætluðu að safnast saman. Gunnar Viðar og Inga Dísa skiluðu sér í mark u.þ.b. 14 mínútum á eftir okkur Birki. Óhappið á fyrstu kílómetrunum hafði tekið sinn toll af Gunnari en Inga Dísa var hins vegar að ná sínum langbesta árangri á þessari vegalengd. Og svo skiluðu Íslendingarnir sér hver af öðrum.
Þegar upp var staðið kom í ljós að ég var með besta tíma af þeim 15 Íslendingum sem hlupu heilt maraþon og í 3. sæti í heildarkeppni karla 60-64 ára. Samanlagt var ég í 445. sæti af 2.428 keppendum, sem sagt örugglega í fyrstu 20 prósentunum. Ég nota þá tölu gjarnan sem viðmið og finnst svolítið leiðinlegt að vera neðar á listanum. Samt er allur svona samanburður hégómi, því að maður er jú fyrst og fremst að keppa við sjálfan sig. Ég hleyp bara mitt hlaup og aðrir sitt. Samanburðurinn getur samt verið hvetjandi og haldið manni við efnið.

Glaðir fjórmenningar (Inga Dísa, SG, Birkir og Gunnar Viðar) eftir maraþon í Tallinn. (Ljósm. Sævar Skaptason).
Kvöldið, mánudagurinn og heimferðin
Að kvöldi hlaupadags naut stærstur hluti hópsins góðra veitinga á vel völdum veitingastað í Tallinn og mánudagurinn var m.a. notaður í skoðunarferð um nágrenni Kardiorghallarinnar sem Pétur mikli Rússakeisari lét byggja fyrir Katrínu I snemma á 18. öld. Katrín tók við keisaratigninni þegar Pétur dó árið 1725, rétt um það leyti sem höllin var tilbúin. Þegar til kom langaði Katrínu ekkert að búa þar, en höllin stendur sem fastast og hefur komið í góðar þarfir. Hluti af hallarmannvirkjunum var síðar gerður upp til að hýsa forseta Eistlands. Forsetahöllin er nýtt við opinberar uppákomur, en ég hef reyndar ekki kynnt mér hvort núverandi forseti, Kersti Kaljulaid, hafi þar aðsetur. Hins vegar veit ég að hún er liðtækur maraþonhlaupari og hljóp t.d. New York maraþonið í fyrra á 4:02:40 klst.
Auk þess að skoða mannvirkin í Katrínardalnum (Kadriorg) kíktum við m.a. á hina glæsilegu útitónleikaaðstöðu Tallinna Lauluväljak, þar sem pláss er fyrir 100.000 tónleikagesti framan við tilkomumikið svið sem var að grunni til byggt árið 1959. Meðal tónlistarmanna sem þar hafa troðið upp má nefna Madonnu, Michael Jackson, Lady Gaga, Rolling Stones og Tínu Turner. Ekkert þeirra var þó á svæðinu þegar okkur bar að garði. Skoðunarferðin endaði svo með göngu með leiðsögn um gömlu borgina í Tallinn þar sem sagan bíður við hvert fótmál.
Á þriðjudegi var svo botninn sleginn í ferðalagið með ferjusiglingu til Helsinki og flugi þaðan til Keflavíkur.
Þakkir
Í mínum huga eru það slík forréttindi að geta tekið virkan þátt í ævintýraferðum á borð við þá sem hér hefur verið lýst, að ég veit varla hvernig ég á að koma orðum að því. Þess vegna er líka þakklæti sú tilfinning sem liggur hæst í tilfinningastaflanum þegar heim er komið. Þakklátastur er ég Björk fyrir að umbera þetta áhugamál mitt og leggja það á sig að koma með mér í þessa ferð. Ég hef farið í nokkrar hlaupaferðir til útlanda án hennar og það er líka bara ágætt, en samt er allt miklu betra ef hún er með. Móttökurnar í markinu eru vissulega mikilvægur hluti af þessu, en þar við bætast ótalmörg fleiri stór og smá atriði, m.a. það eitt að fá að upplifa það sem fyrir augu ber með þeim sem standa manni næst. Bestu hlaupafélagarnir mínir fá líka drjúgan skammt af þakklætinu, því að án þeirra væri þetta allt svo miklu tómlegra. Og Bændaferðir áttu líka stóran þátt í að gera þessa ferð jafn óaðfinnanlega og hún var, sérstaklega fararstjórarnir tveir. Já, og svo má heldur ekki gleyma meðferðaraðilunum sem hjálpuðu mér að komast á lappirnar eftir þrálát meiðsli 2018. Þetta gerist ekki af sjálfu sér.
Eftirmáli
Þessi langa maraþonsaga átti upphaflega að birtast í september en annríki á öðrum sviðum varð til þess að sagan varð ekki fullskrifuð fyrr en í jólafríinu.
Filed under: Hlaup | 1 Comment »