Fyrsta „plúshúsið“ í Svíþjóð á ársafmæli um þessar mundir. Reynslan af húsinu hefur verið vonum framar, því að á þessu fyrsta ári var heildarorkunotkunin -1.600 kWst. Húsið framleiddi með öðrum orðum 1.600 kílówattstundum meiri orku en það notaði, þrátt fyrir að síðasti vetur hafi verið óvenju kaldur á þessum slóðum.
Margir kannast sjálfsagt við svonefnd „passívhús“, en þar er yfirleitt um að ræða hús þar sem heildarorkunotkun er að hámarki 120 kWst á fermetra á ári að öllu orkutapi meðtöldu. Svo hafa líka verið byggð „núllhús“ þar sem ekki á að vera þörf fyrir neina aðkeypta orku. En til að standa undir nafni sem „plúshús“ þarf heildarorkunotkunin sem sagt að vera minni en orkan sem framleidd er í húsinu. Plúshús er með öðrum orðum framleiðandi en ekki neytandi.
Þetta fyrsta plúshús í Svíþjóð stendur í bænum Åkarp á Skáni, (sem upphaflega hét Ákaþorp og er einn af þremur viðkomustöðum Strákalestarinnar (Pågatåg) milli Malmö og Lundar). Húsið er 150 fermetrar að flatarmáli, og þar býr Karin Adalberth, doktor í byggingaeðlisfræði, með fjölskyldu sinni. Karin er jafnframt höfundur hússins. Tilgangur hennar með því að byggja þetta hús var ekki síst að ganga úr skugga um hvort hægt væri að nota þá tækni sem þegar er til staðar til að byggja einbýlishús sem framleiðir meiri orku en það notar, en uppfyllir jafnframt allar þær væntingar um útlit, þægindi o.fl. sem almennt eru gerðar til góðra íbúðarhúsa.
Miðpunkturinn í orkubúskap hússins er varmaskiptir sem nýtir varma úr frárennslisvatni og loftræstingu. Sólarrafhlöður og sólfangarar sjá húsinu fyrir meiri hita og raforku, og öll raftæki á heimilinu eru eins sparneytin og kostur er. Innanhúss er líka að finna gifsplötur með vaxkornum sem safna í sig hita á hlýjum dögum og gefa hann frá sér aftur þegar kalt er í veðri. Með þessum búnaði tekst að halda hitastigi inni í húsinu í 20-22°C að jafnaði.
Karin Adalberth gerir sér vonir um að fleiri fylgi í kjölfarið, nú þegar sýnt hefur verið fram á að þetta sé hægt. Enn er líka, að hennar sögn, hægt að þróa tækni og byggingaraðferðir og ná þannig enn betri árangri.
(Þessi færsla er aðallega byggð á grein í Teknik360 í gær. Hægt er að fræðast meira um hús Karinar Adalberth í fréttaþætti á sjónvarpsstöðinni TV4 í Svíþjóð, (umfjöllunin byrjar á u.þ.b. 2:18 mín). Þaðan er myndin hér að neðan einnig fengin að láni).
Filed under: Umhverfismál |
Færðu inn athugasemd