
Á karöflurnar frá Jørgen Lindemann eru grafin kjörorð átaksins, nefnilega „Skift vane – drik vand fra hane“, eða „Droppaðu vananum – drekktu úr krananum“ eins og kjörorðin hljóma í afar lauslegri íslenskri þýðingu. Jørgen hefur unnið að þessu verkefni í tvö ár – og m.a. tekist að afla fjár til að framleiða allar þessar flöskur. Kveikjan að þessu var að á sínum tíma fékk vatnið frá vatnsveitunni í Furesø viðurkenningu sem besta vatn Danmerkur. Það fékk Jørgen til að hugleiða hversu fráleitt það er kaupa venjulegt vatn á flöskum í stað þess að nýta það eins og það kemur fyrir úr krananum. Karöflurnar eiga að auðvelda fólki þessa ódýru og umhverfisvænu vatnsneyslu, því að þær henta einkar vel til geymslu á kranavatni í ísskápum.
Það er útbreiddur misskilningur að flöskuvatn sé betra eða öruggara en kranavatn. Rannsóknir benda hins vegar til að flöskuvatn geti innihaldið allt að 50 sinnum fleiri bakteríur en leyft er í kranavatni, auk þess sem flöskuvatnið er allt að því 1.500 sinnum orkufrekara þegar tekið hefur verið tillit til framleiðslu og flutnings umbúða. Loks má nefna, að á Íslandi er flöskuvatnið allt að því 5.000 sinnum dýrara en kranavatnið!
(Þessi bloggfærsla er að hluta til byggð á frétt í Furesø avisen 8. sept. sl. (skv. ábendingu Auðar Þórsdóttur) og að hluta á þriggja ára gamalli frétt úr Aftonbladet, sem á sínum tíma var kveikjan að „Orðum dagsins“ sem birtust á heimasíðu Staðardagskrár 21 á Íslandi 13. september 2007, (en eru nú horfin eins og annað á þeirri annars ágætu síðu)).
Þeim sem vilja velta ágæti kranavatns enn frekar fyrir sér er bent á heimildamyndina „The Story of Bottled Water“ á http://storyofstuff.com.
Filed under: Umhverfismál |
Best er þó að sjóða kranavatnið og kæla eftir vild.
Bíddu, Björg, af hverju er best að sjóða kranavatnið og kæla það svo? Það kostar orku og þar með peninga að sjóða það og er nær alls staðar óþarft hér á landi, að ég best veit.