Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til Stjórnlagaþings, en sem kunnugt verður kosið til þingsins 27. nóvember nk.
Tilgangur minn með framboðinu er einkum tvíþættur: Annars vegar vil ég leggja mitt af mörkum til að hagsmuna íslenskrar náttúru og komandi kynslóða verði sem best gætt í nýrri stjórnarskrá, og hins vegar langar mig að eiga þátt í að efla lýðræði og gagnsæi í stjórn landsins.
Í stuttu máli eru aðaláhersluatriði mín þessi:
- Komandi kynslóðir
Ég vil að réttindi komandi kynslóða verði tryggð eins og kostur er í nýrri stjórnarskrá í samræmi við hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Fyrirmynd að slíku er þegar að finna í stjórnarskrám nokkurra Evrópulanda. Ísland hefur tækifæri til að vera í fararbroddi á þessu sviði og á að vera það! - Náttúruauðlindir
Ég vil að náttúruauðlindir Íslands verði sameign þjóðarinnar, og að þau réttindi verði tryggð eins vel og kostur er í nýrri stjórnarskrá. - Lýðræði
Ég vil að fólkið í landinu geti haft meiri áhrif á ákvarðanir stjórnvalda en gert er ráð fyrir í núverandi stjórnkerfi, m.a. með því að tiltekinn hluti kjósenda og tiltekinn fjöldi Alþingismanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekið mál. - Raunveruleg þrískipting valdsins
Ég vil að þrískipting valdsins verði skilgreind mun skýrar í nýrri stjórnarskrá en í þeirri sem nú gildir, með sérstakri áherslu á aðgreiningu löggjafarvalds og framkvæmdarvalds, m.a. með því að ráðherrar sitji ekki á Alþingi. - Vinnulag við nýja stjórnarskrá
Ég vil að Stjórnlagaþingið leggi mikla áherslu á að niðurstöður Þjóðfundarins 6. nóv. nk. endurspeglist í drögum að nýrri stjórnarskrá, og að þjóðin fái að segja álit sitt á drögunum í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en þau eru send Alþingi til meðferðar.
Öll þessi áhersluatriði eru í takt við hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Í allri þessari vinnu þurfum við að hafa hugfast að „maðurinn fékk ekki jörðina í arf frá forfeðrum sínum, heldur hefur hann hana að láni frá börnunum sínum“. Við þurfum líka að hverfa frá þeim „gamla húsgangshætti“, sem Þorvaldur Thoroddsen nefndi svo á þarsíðustu öld, að „hugsa eingöngu um stundarhaginn, nokkra aura í svipinn, en láta sér standa á sama hvort gerður sé stór skaði öldum og óbornum“.
Nú er tækifæri til breytinga. Ég vil vera hluti af breytingunni og tel mig hafa mikið fram að færa hvað það varðar.
Filed under: Sjálfbær þróun, Stjórnlagaþing | 13 Comments »