• Heimsóknir

  • 119.041 hits
 • október 2010
  S M F V F F S
   12
  3456789
  10111213141516
  17181920212223
  24252627282930
  31  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Viðvörunarbjöllur í Hanstholm

Í sjónvarpsfréttum RÚV í gærkvöldi kom fram að erfiðlega gengi að selja rauðsprettu á dönskum fiskmörkuðum vegna þess að evrópskir fiskkaupmenn séu farnir að setja það fyrir sig að veiðarnar séu ekki vottaðar sem sjálfbærar. Í fréttinni kom líka fram að Íslendingar hefðu ekki lent í teljandi vandræðum af þessum sökum, og að hér væri unnið að „alþjóðlegri vottun löggilts þriðja aðila undir eigin merki“.

Frétt RÚV og myndirnar frá fiskmarkaðnum í Hanstholm hljóma sem viðvörunarbjöllur í mínum eyrum. Vissulega fer gott orð af íslenskum fiski, en engu að síður óttast ég að fyrr en síðar lendi Íslendingar í sambærilegum vandræðum. Íslenska vottunin er góð svo langt sem hún nær, en ég tel að hún verði samt aldrei meira en upprunavottun. Ég tel sem sagt að kaupendur muni ekki líta á hana sem vottun um sjálfbærni, m.a. vegna þess að hún er ekki óháð í reynd. Til að standa undir nafni sem slík þurfa þrír aðilar að koma að málinu, þ.e.a.s. kaupandinn, seljandinn og eigandi kerfisins. Íslenska kerfið er í eigu samtaka seljenda eftir því sem ég kemst næst. Það er þá með öðrum orðum seljandinn sem setur reglurnar. Óháði vottunaraðilinn staðfestir aðeins að reglunum sé fylgt. Annað vandamál sem tengist þessum vottunaráformum Íslendinga er hversu gríðarlega dýrt og erfitt það er að vinna nýju merki sess á alþjóðlegum mörkuðum. Fróðlegt væri að kynna sér hvaða fjárhæðir önnur svipuð merki hafa lagt í kynningarmál, án þess að ná endilega þeim árangri sem að var stefnt. Fleiri vandamál mætti nefna, en verður ekki gert hér.

Aukin krafa markaðarins um sjálfbærnivottun mun ekki aðeins birtast í fiski sem ekki selst. Önnur og mildari áhrif koma fram í því að vottaði fiskurinn á greiðari aðgang að dýrustu mörkuðunum. Það þýðir að annar fiskur verður undir í samkeppninni og seljendur hans verða að sætta sig við lægra verð.

Ég hvet til opinnar og breiðrar umræðu um framtíð íslenskra sjávarafurða í ljósi þess sem hér hefur verið sagt. Þessi framtíð er ekki einkamál LÍÚ heldur varðar hún þjóðina alla. Og það er ekki víst að við höfum allan heimsins tíma til að ræða málið. Breytingar gerast hratt og það þarf ekki mikið að koma upp á til að við sitjum í sömu súpunni og fiskimennirnir á Jótlandi. Það gerist ekki endilega smátt og smátt, heldur e.t.v. skyndilega! Við megum ekki láta sjálfumglaða vissu okkar um eigið ágæti koma okkur í koll.

(Myndin með þessum pistli er tekin úr fréttaútsendingu RÚV)