Fyrir u.þ.b. klukkustund gaf Icelandic Group (áður Sölumiðstöð Hraðfrystihúsanna með meiru) út fréttatilkynningu þess efnis að fyrirtækið hefði hafið vottunarferli í öllum þorsk- og ýsuveiðum við Ísland samkvæmt vottunarstaðli Marine Stewardship Council (MSC). Þetta verða að teljast mikil tíðindi, en um leið sönnun þess að breytingar gerast hratt, eins og ég nefndi í bloggfærslu 20. október sl. um Viðvörunarbjöllur í Hanstholm. Á heimasíðu Icelandic Group kemur m.a. fram að þetta sé gert til að tryggja „greiðan aðgang fyrir íslenskt sjávarfang á heimsmarkaði“.
Til skamms tíma hefur MSC nánast verið bannorð á Íslandi. Íslendingar, með LÍÚ og Fiskifélagið í broddi fylkingar, hafa viljað þróa sitt eigið merki, þar sem samtök seljenda setja leikreglurnar í stað þess að eftirláta það hlutlausum aðilum. Ég hef haft miklar efasemdir um þessa þróun, enda hægara sagt en gert að vinna slíku merki trúverðugleika á alþjóðlegum mörkuðum. Ég er því afar sáttur við þessa ákvörðun Icelandic Group, var reyndar farinn að óttast um framtíðarmöguleika íslenskra sjávarafurða til að keppa á bestu mörkuðunum. Það hefur nefnilega ekki farið fram hjá mér að stórir fiskkaupendur gera í auknum mæli kröfur um MSC-vottun. Sama gildir um stórmarkaði sem hver af öðrum setja slíka vottun sem skilyrði í innkaupum á sjávarafurðum.
Áður hefur útflutningsfyrirtækið Sæmark hafið vottunarferli samkvæmt staðli MSC, eins og lesa má um í bloggfærslu minni frá 28. apríl sl. Bendi líka á saltfiskbloggið 17. september sl.
Hægt er að lesa miklu meira um MSC-vottun og ákvörðun Icelandic Group m.a. í
- fréttatilkynningu Icelandic Group í dag,
- fréttatilkynningu MSC í dag og
- frétt Viðskiptablaðsins í dag.
Mér finnst dagurinn í dag vera gleðidagur fyrir íslenskan sjávarútveg!
Filed under: Sjálfbær þróun, Umhverfismál | 3 Comments »