• Heimsóknir

    • 119.600 hits
  • október 2010
    S M F V F F S
     12
    3456789
    10111213141516
    17181920212223
    24252627282930
    31  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

2072

Í fyrrakvöld fengu frambjóðendur til Stjórnlagaþings úthlutað auðkennistölum vegna framboðsins, þ.e.a.s. tölum sem kjósendur skrifa á kjörseðilinn 27. nóv. nk. Ég fékk töluna 2072, og sé ekki annað en það sé aldeilis prýðileg tala.

Ég hef alltaf haft gaman af tölum, og hef ekki hugsað mér að láta af þeim vana núna. Því ákvað ég að helga sunnudagsmorgunskokkið þessari ágætu tölu, sem þýddi náttúrulega að ég varð að hlaupa 20,72 km,  já eða 2072 dekametra (Dm) nánar tiltekið. Þetta tók nákvæmlega 1:45:06 klst. Og til að halda talnaleiknum áfram, þá lá leið mín í morgun um þær slóðir sem ég kalla Háfslækjarhring, þ.e.a.s. frá Borgarnesi, meðfram Kárastaðaflugvelli, fram hjá hesthúsahverfinu, norður og vestur fyrir fólkvanginn í Einkunnum, norður með Háfslæk og yfir hann, áfram vestur á Jarðlangsstaðaveginn, eftir honum niður með Langá, og svo þjóðveginn heim aftur. Þetta var í 56. skipti sem ég skokka þennan hring, þar af í 15. sinn á þessu ári. Og tíminn var sá 19. besti hingað til. Fleira bar til tíðinda, því að í þessari ferð náðu hlaupaskórnir mínir 1.000 km markinu, voru nánar tiltekið komnir í 1.009 km þegar heim var komið. Og þar sem þetta var síðasta hlaup októbermánaðar er gaman að segja frá því, að þetta er orðinn lengsti október sögunnar, nefnilega 186 km, já eða reyndar 186,2 km til að maður sýni nú lágmarksnákvæmni. Ég mæli lengd mánaða nefnilega í kílómetrum fremur en dögum. Dagafjöldinn er frekar tilbreytingarlaus stærð.

Það liggur í augum uppi að þessi talnaáhugi minn nálgast það að flokkast sem röskun. En hvað hlaupin varðar, þá er ég einn þeirra 3.850 einstaklinga sem færir allar hlaupaæfingar sínar reglulega inn í þar til gerða hlaupadagbók á www.hlaup.com. Sú ágæta bók hefur haldið utan um alla hlaupatölfræðina mína síðustu árin, þannig að ég þarf ekkert að gera nema fletta upp og ná mér í tölur til að leika mér með.

Já, margt er sér til gamans gert. En ný stjórnarskrá verður ekki búin til með talnaleikfimi einni saman. Stjórnarskrárgerðin snýst um að búa til forskrift fyrir löggjöf og stjórnun samfélagsins, byggða á þeim gildum sem skipta íslensku þjóðina mestu. Í nýrri stjórnarskrá þurfa m.a. að vera skýr ákvæði um réttindi komandi kynslóða og íslenskrar náttúru. Þar þarf að skilgreina valdmörk, m.a. milli löggjafarvaldsins og framkvæmdavaldsins, og þar þarf líka að tryggja þjóðinni viðunandi aðgang að ákvarðanatöku sem hana varðar, m.a. með þjóðaratkvæðagreiðslum. Og svo þarf náttúrulega að bera afraksturinn af vinnu Stjórnlagaþingsins undir þjóðina áður en Alþingi tekur hann til endanlegrar afgreiðslu. Frambjóðandi nr. 2072 vil beita sér fyrir þessu.