• Heimsóknir

  • 119.667 hits
 • desember 2010
  S M F V F F S
   1234
  567891011
  12131415161718
  19202122232425
  262728293031  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Hvaðan kemur hamborgarhryggurinn?

Svínahamborgarhryggur verður eflaust á mörgum íslenskum matborðum á aðfangadag. En hversu margir sem sitja við þessu sömu borð skyldu velta því fyrir sér hvaðan þetta bragðgóða kjötstykki er upprunnið?

Mér finnst skipta máli hvaðan hamborgarhryggurinn kemur. Líklegast er að hann komi frá íslensku verksmiðjubúi, þar sem

 • nokkur þúsund grísir eru aldir samtímis,
 • velferð dýra er ekki ofarlega á forgangslistanum,
 • sjúkdómar breiðast hratt út,
 • sýklalyfjanotkun er tiltölulega mikil,
 • gríðarlegt magn af úrgangi fellur til og er jafnvel dælt í sjóinn,
 • vinnan er unnin af farandverkamönnum sem taka engan þátt í nærsamfélaginu og greiða engin gjöld til þess,
 • búið hefur verið byggt upp á skömmum tíma með miklum lántökum – og þar sem
 • einhver banki er löngu búin að taka búið upp í skuldir, „aflúsa“ það á kostnað almennings og selja það til nýrra eigenda á niðursettu verði.

Flest af þessu gildir nefnilega um þá framleiðslustaði sem sjá Íslendingum fyrir miklum meirihluta af árlegri svínakjötsneyslu þeirra.

Ólíklegra er að hamborgarhryggurinn komi frá íslensku fjölskyldubúi, þar sem

 • takmarkaður fjöldi grísa er alinn samtímis,
 • allvel er séð fyrir velferð dýranna,
 • sjúkdómar er tiltölulega fátíðir,
 • sýklalyfjanotkun er tiltölulega lítil,
 • úrgangur sem fellur til er nýttur á búinu,
 • vinnan er unnin af heimilisfólki sem tekur þátt í nærsamfélaginu og greiðir gjöld til þess – og þar sem
 • búið hefur verið byggt upp á tiltölulega löngum tíma fyrir eigið fé og hófleg lán, án þess að nokkurn tíma hafi komið til afskrifta.

Já, mér finnst skipta máli hvaðan hamborgarhryggurinn kemur. En þarna er mér og öðrum svínakjötsneytendum vandi á höndum. Umbúðirnar utan um hamborgarhrygginn í búðinni segja nefnilega fátt um upprunann, nema þá í hvaða fyrirtæki kjötstykkinu var pakkað í neytendaumbúðir. Til að bregðast við þessu hringdi ég á dögunum í svínabónda sem ég kannast við, einn af þessum fáu sem enn reka fjölskyldubú, og spurði hvort hann gæti útvegað mér hamborgarhrygg af einum grísanna sinna. Svona hringingar voru greinilega ekki daglegur viðburður, en bóndinn tók erindinu einkar ljúflega, og áður en yfir lauk var hann búinn að finna leið sem líklega mun duga til að ég geti boðið fjölskyldunni upp á hamborgarhrygg af þessum ólíklegri uppruna á aðfangadag. Bóndinn lét þess reyndar getið að líklega væri kjötið frá honum ekkert öðruvísi á bragðið en kjötið frá verksmiðjubúunum, því að svínin fengju nokkurn veginn sama fóður á báðum stöðum. En mér er svo sem sama um bragðið, bara ef mér finnst það gott. Það eru öll hin atriðin sem ég taldi upp hér að framan sem mér er ekki sama um.

Uppruni matvöru á ekki að vera neitt leyndarmál! Og ef fólki er ekki sama, og ef upplýsingar um upprunann eru ekki á umbúðunum, þá á þetta sama fólk að spyrja. Nærtækast er að spyrja í búðinni, og jafnvel þótt fátt verði um svör skiptir spurningin máli. Þegar nokkrir eru búnir að spyrja svipaðrar spurningar er þetta nefnilega orðið að „eftirspurn“, sem er nógu merkilegt hugtak í verslunarrekstri til að það kalli á viðbrögð. Nú, svo er líka hægt að hringja í svínabónda, ef maður þekkir einhvern svoleiðis.

Svínakjöt og svínakjöt er ekki endilega það sama, þó að það sé eins á bragðið!

6 svör

 1. Þú ert dásamlegur frændi minn! Vildi óska að allir hugsuðu svona. (Ég borða ekki kjöt og m.a. eru þessar ástæður fyrir því)

 2. Í Frú Laugu er uppruninn á hreinu – alls konar kræsingar þar sem eru upprunamerktar.
  Svo er það kjötið af heimaslátruðu – verst að mega ekki selja það….

 3. Takk fyrir þetta. Fólk þarf að vakna og hugsa um þessi mál. Sjálf er ég hætt að neyta dýraafurða því bæði vil ég ekki taka þátt í þessum iðnaði og eins tel ég að dýr eigi sinn tilverurétt óháð okkur.

 4. Sæll Stefán

  Það væri forvitnilegt að athuga afhverju íslensk stjórnvöld hafa ekki gripið til aðgerða vegna svínaflensu á svínabúi/búum á Íslandi. Það hlýtur að vera fordæmalaust miðað við opinbera stefnu um sjúkdómafrían landbúnað. Þegar nær dregur jólahátíðinni ættu neytendur að spá í hvaðan kjötið sem þeir ætla að borða til að halda upp á fæðingu frelsarans og/eða hátíð ljósanna kemur og ef fólk ætlar að borða svína eða grísakjöt er vissara að vita frá hvaða býli og úr hverju grísinn hefur verið alinn.
  Annars var afar fínn þáttur í DR1 um heilsufarslegt öryggi og jólasteikur – Kontant.
  Danir borða margir önd eða gæs og því voru þær tegundir kjöts sérstaklega sjúkdómsprófaðar. Það verður að segjast að mismunandi verslanir komu misvel útúr könnuninni. ALDI einna verst en fiðurfé í þeirri verslun kemur einkum frá stórum iðnaðarbúum í Þýskalandi, sem útskýrir lágt vöruverð.
  Einkunnarorð okkar ættu að vera – borðum heldur minna en betra.

 5. Takk fyrir ljómandi gott og málefnalegt innlegg

 6. Eftir að hafa lesið mjög áhugaverðan pistil langar mig að benda ykkur á fjölskyldurekið svínabú
  sjá þennan link
  http://pizzavagninn.is/new_page_6.htm

  þar eru svínin fóðruð á Íslensku byggi sem bændurnir sjálfir, eða bændurnir í kringum þau rækta.

  Þetta er mjög gott kjöt og þau eru mjög liðleg að sinna óskum hvers og eins.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: