• Heimsóknir

    • 119.009 hits
  • desember 2010
    S M F V F F S
     1234
    567891011
    12131415161718
    19202122232425
    262728293031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Marklaus vottun sjávarafurða

Íslenskar þorskveiðar hafa nú fengið vottun samkvæmt kerfi Fiskifélagsins undir merki „Iceland Responsible Fisheries“. Þetta er í sjálfu sér jákvætt, en ástæða er þó til að vara við væntingum um að það bæti stöðu íslenskra fiskafurða á alþjóðlegum mörkuðum. Þegar betur er að gáð virðist vottunin marklaus á þeim vettvangi, þar sem vottunarkerfið er ekki rekið af óháðum aðila.

Til að vottunarkerfi fyrir vöru eða þjónustu geti talist óháð þarf sá sem rekur kerfið að vera óháður bæði framleiðendum og kaupendum vörunnar. Í þessu sambandi er gjarnan talað um „óháða vottun þriðja aðila“. Sá sem rekur vottunarkerfið er „þriðji aðilinn“ í þessu samhengi, en framleiðandinn og kaupandinn eru aðilar númer eitt og tvö. Kerfið sem hér um ræðir er byggt upp af Fiskifélaginu, sem í eru helstu samtök hagsmunaaðila í íslenskum sjávarútvegi. Þarna er með öðrum orðum enginn „þriðji aðili“ til staðar. Það að óháð vottunarstofa sjái um úttektir samkvæmt kerfinu er jákvætt, en nægir þó ekki til að bæta úr þessum alvarlega ágalla. Vottunarstofan gerir í raun ekki annað í þessu tilviki en að staðfesta að vara framleiðandans uppfylli þær kröfur sem framleiðandinn hefur sjálfur sett.

Í frétt á vef RÚV um málið í fyrrakvöld kom fram að írsk óháð vottunarstofa hefði gert úttekt á þorskveiðum íslendinga og staðfest að veiðarnar samræmdust alþjóðlegum kröfum. Þetta er rangt. Vottunarstofan getur ekki staðfest neitt annað í þessu sambandi en að veiðarnar standist kröfur þessa íslenska vottunarkerfis. Það að kerfið taki mið af leiðbeinandi reglum Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) gerir það ekki að alþjóðlegu kerfi.

Það er dapurlegt að hagsmunaaðilar í íslenskum sjávarútvegi skuli verja miklum tíma og fjármunum í að þróa kerfi sem fyrirfram er vitað að getur ekki bætt stöðu íslenskra sjávarafurða á alþjóðlegum mörkuðum svo neinu nemi. Þessi þrönga áhersla getur jafnvel tafið fyrir nauðsynlegri aðlögun greinarinnar að kröfum markaðarins, ekki vegna þess að vottunin spilli neinu sem slík, heldur vegna þess að á sama tíma og Íslendingar sýsla við þetta eru samkeppnisaðilarnir á fullri ferð í þessari aðlögun. Ef svo heldur sem horfir er veruleg hætta á að íslenskar sjávarafurðir tapi þessu kapphlaupi að matborðum erlendra neytenda og verði að sætta sig við óstöðugri markaði og lægri verð en ella.

(Þeim sem vilja kynna sér nánar þær kröfur sem gerðar eru til óháðra vottunarkerfa er bent á að kynna sér staðalinn ÍST EN 45011:1998 – Almennar kröfur vegna aðila sem reka vöruvottunarkerfi (ISO/IEC-leiðbeiningar 65:1996). Í staðlinum er gerð grein fyrir þeim almennu kröfum sem þriðji aðili sem rekur vöruvottunarkerfi þarf að uppfylla til að geta talist hæfur og áreiðanlegur. Þar kemur m.a. fram í grein 4.2 að formgerð aðilans skuli vera með þeim hætti að hún styðji við áreiðanleika vottana á hans vegum. Sérstaklega skuli aðilinn vera óháður).

Helstu heimildir:
Frétt á heimasíðu RÚV 15. des. 2010: http://www.ruv.is/frett/vottunin-mikilvaeg-thorskutflutningi.
Frétt á heimasíðu LÍÚ 16. des. 2010: http://www.liu.is/frettir/nr/1308.
Íslenskur staðall ÍST EN 45011:1998 – Almennar kröfur vegna aðila sem reka vöruvottunarkerfi (ISO/IEC-leiðbeiningar 65:1996). Staðlaráð Íslands.

4 svör

  1. Takk fyrir pistilinn. Hver ætli borgi fyrir vinnu við gerð merkisins og markaðssetningu og hvað mikið? Hefurðu rekist á upplýsingar um það?

  2. Það er mikill galli á merkingunni að það vantar óháðan þriðja aðila en það sem vekur líka upp spurningar er: Ef íslenskar fiskveiðar uppfylla allar alþjóðlegar kröfur því notum við þá ekki alþjóðlega vottun?
    Það er mjög ótrúverðugt að þurfa að fara aðrar leiðir en aðrar þjóðir.
    Sem sjávarútvegsfræðingur með mastersnám í umhverfisstjórnun efast ég um þessa nýju merkingu. Eins og staðan er í dag þá er alþjóðleg vottun einskonar samnefnari til að neytendur geti beint viðskiptum sínum til þeirra aðila sem uppfylla ákveðin skilyrði sem þeir setja. Í frumskógi merkinga er sérmerking frá einu landi ekki mjög sterk og til að það nái brautargengi þarf að kynna það jafn vel og vöruna sem verið er að selja.
    Höfum við eitthvað að fela?

    • Ég er algjörlega sammála þessu öllu Guðrún Anna. Ég treysti mér ekki til að svara síðustu spurningunni, en von er að spurt sé.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: