Í gær opnaði UNICEF á Íslandi vefverslun á heimasíðu sinni, þar sem hægt er að kaupa sannar jólagjafir fyrir vini og ættingja á borð við moskítónet, bólusetningu, vatnshreinsitöflur og skóla í kassa. Reyndar fær maður ekki vöruna senda heim, heldur er hún send frá vöruhúsi UNICEF í Kaupmannahöfn til þeirra sem þurfa mest á henni að halda. Vinurinn eða ættinginn fær hins vegar persónulegt gjafabréf með ljósmynd eða lýsingu á gjöfinni. Svona jólagjafir eru sérlega hentugar fyrir þá sem eiga allt og vantar ekki neitt – annað en að vita að maður hugsi til þeirra á jólunum.
Það er gaman að gefa og fá jólagjafir. En á þeirri ánægju geta verið umhverfislegar og félagslegar skuggahliðar, því að hluturinn sem gefinn er hefur í mörgum tilvikum skilið eftir sig óþrifaleg spor í samfélaginu þar sem hann var framleiddur. Kannski voru vinnuaðstæður verkafólks á framleiðslustaðnum óviðunandi, og kannski voru notuð efni sem sköðuðu umhverfi þess og heilsu, svo eitthvað sé nefnt. Þessar skuggahliðar eru eiginlega því dekkri sem hluturinn er gagnslausari, en það á því miður einmitt stundum við jólagjafir, sem vissulega eru gefnar af góðum hug, en þó oft fremur af skyldurækni en til að uppfylla þarfir viðtakandans.
Gjafabréf frá UNICEF er sönn jólagjöf. Hún gleður ekki bara þann sem gefur gjöfina og þann sem fær hana, heldur getur hún líka bjargað mannslífum og bætt lífsskilyrði og afkomumöguleika annars fólks. Þannig verða áhrif hennar á umhverfi og samfélag jákvæð en ekki neikvæð.
Það er auðvelt að kaupa sanna jólagjöf hjá UNICEF. Slóð vefverslunarinnar er http://www.unicef.is/sannargjafir, og þegar inn er komið skýrir framhaldið sig sjálft.
Filed under: Sjálfbær þróun |
Færðu inn athugasemd