• Heimsóknir

  • 119.600 hits
 • maí 2012
  S M F V F F S
   12345
  6789101112
  13141516171819
  20212223242526
  2728293031  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Hinn árlegi Háfslækjarhringur, þriðji kapítuli

Í fyrradag hljóp ég Háfslækjarhringinn í góðra vina hópi og borðaði kjötsúpu á eftir – eins og jafnan á uppstigningardag. Þessi áralanga hefð hófst vorið 2010 með því að við hlupum þennan spotta fimm saman. Leikurinn var svo endurtekinn vorið 2011, og nú var hinn árlegi Háfslækjarhringur hlaupinn þriðja vorið í röð.

Að sigra sjálfan sig
Háfslækjarhringurinn er rosalega langur, já eða rosalega stuttur, allt eftir því við hvað er miðað. Hringurinn sjálfur er 17,9 km, en samkvæmt hefðinni var hlaupið af hlaðinu heima hjá mér og heim í hlað aftur, og með því móti er leiðin öll um 21,4 km. Þetta er sem sagt þónokkur spotti til að hlaupa. Öll þessi ár sem hinn árlegi Háfslækjarhringur hefur verið hlaupinn hafa einhverjir þátttakendur sigrast á nýju markmiði. Það er ekkert sjálfsagt að geta hlaupið rúma 20 km í einu lagi og það er talsverður sigur þegar því marki er náð í fyrsta sinn! Sigurvegarar fimmtudagsins voru þrír hvað þetta varðar. 

Allt tilbúið á Þórðargötunni kl. 9 að morgni uppstigningardags. F.v. Ester Alda, Klara, Kristín, Bjarni (2), Torfi (1), Haukur (0), Stefán (89), Kristinn (1), Sigríður Guðbjörg (0), Sigríður Júlía (0), Hrafnhildur (0), Ingimundur (u.þ.b. 40), Ragnar (0). (Þau síðastnefndu sjást reyndar varla í skugganum). (Í svigum er fjöldi áður hlaupinna Háfslækjarhringja (svona rétt eins og fjöldi landsleikja ef þetta væri handboltalið)). Björk tók myndina.

Hlaupaleiðin
Hið árlega Háfslækjarhringshlaup fer þannig fram að þátttakendur hlaupa frá heimili mínu í Borgarnesi og sem leið liggur upp úr bænum. Við hringtorgið við Húsasmiðjuna er beygt til vinstri eins og ferðinni sé heitið til Stykkishólms. Þeirri stefnu er þó bara haldið í 100 metra eða svo, (enda allt of langt að hlaupa alla leið til Stykkishólms á einum morgni). Þá er beygt til hægri inn á Sólbakka og hlaupið áfram ofan við væntanlegt iðnaðarhverfi, áfram ofan við hesthúsahverfið, upp í fólkvanginn í Einkunnum og þar eftir fáförnum malarvegi alla leið vestur undir Langá. Þar er Jarlangsstaðaveginum fylgt niður með ánni að austanverðu þar til komið er niður á aðalveginn (Þjóðveg 54 (áleiðis frá Stykkishólmi)). Aðalveginum er fylgt alla leið að fyrrnefndu hringtorgi og þá er stutt heim til mín aftur. Efst í þessum pistli er loftmynd af hringnum (sem ég stal frá Dr. Torfa í fyrra). Þegar smellt er á myndina birtist stærri útgáfa sem hentar vel sem kort fyrir þá sem vilja æfa sig fyrir næsta uppstigningardag.

Veðrið klukkan níu
Hlaupið í fyrradag gekk aldeilis prýðilega. Við lögðum af stað hlaupandi 10 saman rétt upp úr kl. 9 árdegis í góðri fylgd þriggja harðsnúinna hjólastúlkna. Samtímis fór líka sérstakur hjálparbíll af stað með vatn og vistir. Veðrið lék við hvern sinn fingur. Hægur vindur blés úr suðri, sólin skein lengst af og hitamælirinn sýndi 4 gráður. Seint í hlaupinu kom reyndar svolítið haglél, svona rétt til að minna á hvers virði sumarið er. 

Aukin réttindi kvenna
Þetta var sögulegt hlaup. Frá því að land byggðist hafa nefnilega aldrei svona margir hlaupið Háfslækjarhringinn á einum degi. Og þetta var líka í fyrsta skipti sem konur hlupu Háfslækjarhringinn. Konur á Íslandi fengu almennan kosningarétt árið 1915, þannig að það var löngu orðið tímabært að Háfslækjarhringurinn yrði líka opnaður með svipuðum hætti.

Sigríður Júlía og Hrafnhildur á fullri ferð á leið norður úr Borgarnesi. Sól skín í heiði.

Af borvélum
Fljótlega eftir að við lögðum af stað dreifðist úr hópnum. Karlarnir fóru á undan og spjölluðu um heima og geima, en konurnar komu í humátt á eftir, ein og ein, steinþegjandi með tónlist í eyrunum. Kannski fór Hellisbúinn með fleipur þegar hann gaf í skyn að karlar væru fámálli og síður félagslyndir en konur. Reyndar fer engum sögum af umræðuefnum karlanna. Kannski töluðu þeir um borvélar allan tímann.

Hér sést undir iljar Ragnari, Ingimundi og Kristni á leið upp Einkunnaveginn. Um 5,5 km að baki og ekkert dregið af.

Hneggjandi herfi
Uppi við Álatjörn biðu Olga og Elías á hjálparbílnum. Þar var um þriðjungur hlaupsins að baki og þar fengu þreyttir hlauparar vatn og aðrar lífsnauðsynjar. Líklega voru þeir samt ekkert þreyttir, því að fyrr en varði voru þeir roknir af stað aftur. Framundan var hinn eiginlegi Háfslækjarvegur (eins og ég kýs að kalla hann) gegnum fólkvanginn í Einkunnum. Háfslækjarvegurinn er svo sem 4 km að lengd, en afar krefjandi fyrir hlaupara. Vegurinn er nefnilega mjög laus í sér á köflum, og ekki bætir úr skák að þar eru bílar bannaðar en hestar velkomnir. Hestar sem vegagerðartæki eiga meira skylt við herfi en valtara. Óslétt undirlag virtist þó ekki tefja þá hlaupara sem fyrstir fóru, með Ingimund Grétarsson næstreyndasta Háfslækjarhringshlaupara sögunnar í broddi fylkingar.

Á hraðferð í gegnum fólkvanginn í Einkunnum: Kristinn, Ragnar, Torfi, Ingimundur, Haukur og Bjarni.

Múrinn rofinn
Þessi uppstigningardagsmorgunn leið fljótt og fyrr en varði kom hjálparbíllinn aftur í ljós. Þá var ekkert eftir nema 8 km endasprettur upp Laufáshallann og heim Mýrarnar. Á þeim kafla féllu nokkur persónuleg met, því að nokkur í hópnum höfðu aldrei áður hlaupið lengra en 14-15 km. Samt vafðist þetta ekkert fyrir þeim.

Olga mætt með hjálparbílinn. Viðgerðarhlé nr. 2 fyrir hlaupara.

Metin falla
Endaspretturinn (eins og ég kýs að kalla hann) gekk eins og í sögu eins og allt annað í þessari sögu. Fyrstu menn komu í mark á Þórðargötunni 1:59:20 klst. eftir að þeir lögðu þaðan af stað. Þetta var hvorki meira né minna en nýtt uppstigningardagsmet, líklega bæting um einar 3 mínútur frá því í hitteðfyrra þegar þessi áralanga hefð hófst. Og þegar 2 klst og 22 mínútur voru liðnar voru allir komnir á leiðarenda sáttir og sælir.

Sigríður Júlía og Torfi að hlaupi loknu.

Bitrukjötsúpa a la Björk
Hluti af áralöngu hefðinni á uppstigningardag er að snæða kjötsúpu á Þórðargötunni að hlaupi loknu. Björk hafði staðið yfir pottunum meðan aðrir hlupu, og árangurinn olli engum vonbrigðum. Hráefnið var enda fengið á búgarði bróður míns í Bitrufirði, en þar er fé vænt og beit á ræktað land ekki iðkuð, enda rúmt í högum. Þetta var stórveisla, 16 manns í mat og vor í lofti.

Kjötsúpuveisla að hætti Bjarkar – bregst aldrei! Kristín Gísla tók myndina.

Allt er gott sem endar vel
Samkvæmt hefð endaði þessi vel heppnaða uppstigningardagshátíð í heita pottinum. Vatnið úr Deildartunguhver svíkur engan.

Stærðfræðilegur viðauki
Alls hlupu 9 manns allan Háfslækjarhringinn að þessu sinni. Í fyrra hlupu 6 manns og 5 í hitteðfyrra. Því er augljóst að fjöldi þeirra sem ljúka hlaupinu er 2. gráðu fall af raðnúmeri hlaups (x), nánar tiltekið fallið y = 1,5x(2)-3,5x+6. Þetta þýðir að næsta ár munu 16 manns ljúka hlaupinu, 26 árið 2014 og 39 árið 2015. Myndin hér fyrir neðan tekur af öll tvímæli um þetta.

Raunveruleg og fyrirsjáanleg þátttaka í hinum árlega Háfslækjarhring 2010-2015.

 

2 svör

 1. […] sérverkefnið var hinn árlegi Háfslækjarhringur, en sú hefð hefur skapast að ég hlaupi hann með nokkrum frískum Borgfirðingum á […]

 2. […] PS2 Hér fyrir neðan má finna tengla á frásagnir af þremur síðustu árlegu Háfslækjarhringjum. Þetta er gert til að auðvelda sagnfræðingum vinnuna. Hinn árlegi Háfslækjarhringur 2010 Hinn árlegi Háfslækjarhringur 2011 Hinn árlegi Háfslækjarhringur 2012 […]

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: