• Heimsóknir

    • 119.667 hits
  • júlí 2013
    S M F V F F S
     123456
    78910111213
    14151617181920
    21222324252627
    28293031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Sæla á blautum Laugavegi

???????Ég hljóp Laugaveginn síðastliðinn laugardag, þ.e.a.s. þann Laugaveg sem liggur milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Þessi pistill hefur að geyma dálitla frásögn af hlaupinu og ýmsu sem tengdist því. Tilgangurinn með pistlaskrifunum er tvíþættur. Annars vegar gæti einhver haft gaman eða jafnvel gagn af því að lesa frásögnina, (þó að til þess þurfi reyndar álíka mikið úthald og til að hlaupa Laugaveginn) – og hins vegar er bloggið býsna öruggur staður til að geyma svona pistil á, sjálfum mér til upprifjunar fyrir næsta Laugavegshlaup. Upprifjun stuðlar að því að maður endurtaki ekki fyrri mistök en byggi frekar á því sem vel tókst.

Undirbúningurinn
Ég taldi mig vera í mjög góðu formi fyrir Laugaveginn þetta árið, ekki þó vegna þess að ég hefði æft svo mikið fyrir hann, heldur vegna þess að ég æfði mjög vel sl. vetur fyrir Parísarmaraþonið, þar með taldar allmargar intervalæfingar, svo og reglulegar styrktaræfingar að ráði Þorkels sonar míns. Þessar æfingar tel ég að hafi skipt sköpum. Æfingar sumarsins höfðu verið stopulli, en þó líklega dugað að miklu leyti til að halda fengnum hlut. Helsti veikleikinn var skortur á brekkuhlaupum. Upphaflega var ætlunin að byrja að vinna í þessu í apríl, þ.e.a.s. strax eftir París, en í reynd veigraði ég mér við því vegna meiðsla frá síðasta ári, sem ég finn eiginlega aldrei fyrir á meðan ég held mig á jafnsléttu. Einu brekkuæfingarnar þegar til kom voru þrjár ferðir á Hafnarfjallið, einn Þrístrendingur og eitt Hamingjuhlaup. Hins vegar tók ég nokkrar góðar æfingar á sléttu síðustu vikurnar.

Væntingarnar
Ég hafði sett mér það markmið fyrir löngu að hlaupa Laugaveginn undir 6 klst. Þetta átti að vera mjög raunhæft, m.a. þegar haft er í huga að árið 2007 hljóp ég minn fyrsta og eina Laugaveg til þessa á 6:40:50 klst. með miklu „færri kílómetra í löppunum“ og með miklu minni reynslu í kollinum. Varamarkmiðið var að bæta þann tíma, enda getur margt gerst á Laugaveginum sem setur strik í hinn ætlaða reikning. Þriðja markmiðið var að njóta hverrar stundar og hafa gleðina með í för allan tímann. Því skyldi náð hvað sem öðrum markmiðum liði.

Stundirnar fyrir hlaup
Það vildi þannig til að ég var aleinn heima kvöldið fyrir Laugaveginn. Þennan tíma nýtti ég vel í smáatriðaundirbúning af ýmsu tagi, svo sem til að ákveða nákvæmlega hvað ég ætlaði að taka með mér og í hvaða hirslu það ætti að vera. Mér finnst gott að hafa þetta allt á hreinu áður en gengið er til náða. Annars er hætt við að hugurinn haldi fyrir manni vöku við að fara í gegnum allan pakkann aftur og aftur í leit að einhverju sem gæti hafa gleymst. Áður en þessi undirbúningsvinna hófst hafði ég reyndar keypt mér ágæta fiskmáltíð á veitingastaðnum Edduveröld í Borgarnesi. Síðasta kvöldmáltíðin skiptir máli, og þegar maður er einn heima er snarlmatur óþarflega handhægur. Ef einhvern langar að vita hvort ég hlaði mig ekki upp af kolvetnum „karbólódi“ fyrir svona hlaup, þá er því fljótsvarað. Það hef ég aldrei gert og fer varla að byrja á því „á gamals aldri“. Mig grunar jafnvel að fyrirbærið sé ofmetið, auk þess sem ég get tekið undir með ágætum fyrrum kollega mínum vestan af fjörðum: „Ég hef nú aldrei verið mikið fyrir pasta“.

Eftir allan smáatriðaundirbúninginn gekk ég til náða stundvíslega kl. 21:45. Hugsanir um hlaupið og undirbúning þess létu mig alveg í friði, en samt náði ég ekki að sofna fyrr en um kl. 23:15. Líkaminn lætur ekki alltaf snúa á sig þegar rótgrónar venjur hans eru annars vegar.

Kl. 2:15 hringdi vekjarinn minn góðlátlega. Þar með hófst næsti hluti fyrirfram ákveðinnar atburðarásar í sama smáatriðastílnum, þ.m.t. sturta, morgunmatur (full skál af AB-mjólk með múslíi), endanleg röðun smáatriða í viðeigandi hirslur o.s.frv. Kl. 3:20 var ég svo lagður af stað akandi til Reykjavíkur – með allt á sínum stað.

Rútan í Landmannalaugar lagði af stað frá Skautahöllinni í Laugardal um kl. 4:30. Þar niðurfrá hitti ég Birki Þór Stefánsson, bónda og skíðagöngukappa í Tröllatungu á Ströndum. Hann var að fara sinn fyrsta Laugaveg, en á síðustu árum höfum við hlaupið ýmsa fjallvegi saman. Þeir sem hafa farið í nokkrar Vasagöngur eins og Birkir, vita líka nokkurn veginn við hvað hugurinn þarf að glíma. Við Birkir höfðum haft samráð um ýmislegt í undirbúningi hlaupsins og höfðum í hyggju að fylgjast að svo lengi sem hvorugur tefði fyrir hinum.

Tíminn í rútunni var fljótur að líða við spjall um heima og geima – og fyrr en varði renndum við í hlað við hálendismiðstöðina í Hrauneyjum þar sem þeir sem vildu gátu fengið keyptan morgunverð. Við Birkir vorum báðir í þeim hópi. Þessum pistli er ekki ætlað að vera nein veitingahúsarýni, en það verður þó að segjast að Hrauneyjar stóðu ekki undir væntingum. Staðurinn virtist engan veginn ráða við að afgreiða þennan þó fyrirsjáanlega fjölda fólks á svona stuttum tíma. Við okkur blöstu m.a. tómir hafragrautarpottar og fátæklegt hvítt brauð, og tímans vegna varð minna úr kaffidrykkju, tedrykkju og klósettferðum en stefnt hafði verið að. Ég hefði betur látið mér nægja seinni skonsuna og ostinn sem ég átti í fórum mínum í rútunni og afganginn af appelsínusafanum sem ég hafði skolað fyrri skonsunni niður með fyrr um morguninn. En þetta var svo sem allt í lagi. Stundum tekur maður bara rangar ákvarðanir. Það eina skynsamlega sem hægt er að gera í slíkri stöðu er að taka aðra ákvörðun næst þegar svipuð staða kemur upp.

Landmannalaugar
Það var hráslagalegt í Landmannalaugum þennan morgun, einhver sunnan gola, súld og líklega um 5 stiga hiti. Allir þurftu að skrá sig áður en lagt var af stað, enda nauðsynlegt í óbyggðahlaupum að vita hverjir leggja í hann og hverjir ekki. Þetta gekk frekar hægt til að byrja með og þess vegna myndaðist biðröð sem mér fannst ákaflega kalt að standa í. En reynslan hefur kennt mér að kuldahrollur fyrir hlaup er fljótur að gleymast þegar maður er kominn af stað. Naumlega tókst að ljúka skráningunni áður en fyrsti hópurinn var ræstur af stað í hlaupið kl. 9:00. Þessi fyrsti ráshópur var með gul keppnisnúmer og var því kallaður „guli hópurinn“. Við Birkir vorum hins vegar í „rauða hópnum“ sem var ræstur kl. 9:05. Röðun í hópa ræðst af áætluðum lokatíma. Þar hafði ég gefið upp 6 klst. en Birkir 7, auk þess sem við höfðum beðið um að vera í sama ráshópi.

Í Landmannalaugum skömmu áður en hlaupið hófst. Birkir tók myndina.

Í Landmannalaugum skömmu fyrir hlaup. Birkir tók myndina.

1. áfangi: Landmannalaugar-Hrafntinnusker
Kl. 9:05 lagði „rauði hópurinn“ af stað. Við Birkir vorum framarlega í hópnum, enda bjóst ég við að við værum með þeim hraðskreiðustu meðal rauðra. Fyrsti spölurinn upp frá Landmannalaugar liggur um þrönga götu í hrauninu. Þar verður maður að halda sér rólegum í röðinni, en af og til gefast tækifæri til að skjótast fram úr ef mikið liggur við.

Fyrstu kílómetrarnir voru tíðindalitlir. Við smeygðum okkur smám saman framar í röðina, en gengum upp flestar brekkur enda varla annað hægt á þessum slóðum. Áður en langt um leið tókum við að grilla í síðustu menn úr „gula hópnum“ og eftir rúman hálftíma vorum við búnir að brúa bilið. Okkur fannst okkur miða allvel áleiðis. Þarna hefur maður reyndar litla viðmiðun, því að meðalhraðinn á hverju tilteknu augnabliki segir svo sem ekki neitt. Í bröttustu brekkunum fer maður örhægt, en getur skokkað sæmilega þess á milli.

Á uppeftirleiðinni, 3 km að baki. Lambhúshettan á sínum stað og Birkir fylgir fast á eftir. (Ljósm. Hlaup.is (birt með leyfi)).

Á uppeftirleiðinni, 3 km að baki. Lambhúshettan á sínum stað og Birkir á næstu grösum, ef svo má að orði komast. (Ljósm. Hlaup.is (birt með leyfi)).

Þegar ofar dró fórum við að fá á tilfinninguna að sumarið væri ekki komið, heldur væri ennþá mars með vægri hláku. Þarna voru allar lautir fullar af hjarni, en efst var þunnt lag af nýföllnum snjó sem rigningarúðinn bræddi smátt og smátt. Fannirnar voru sæmilega greiðfærar því að bráðnun í efsta laginu var ekki mikil. Svona færi verður fyrst erfitt þegar mikil sólbráð er, því að þá er hálfbráðna lagið miklu þykkara.

Ég hafði áætlað að ferðin frá Landmannalaugum upp í Hrafntinnusker tæki 1:12 klst., þ.e.a.s. 20% af þeim 6 klst. sem ég ætlaði í hlaupið í heild. Þetta náðist ekki alveg, því að millitíminn í Hrafntinnuskeri var 1:15 klst. Þrjár mínútur til eða frá skipta hins vegar litlu sem engu máli í þessu samhengi, og því engin ástæða til að örvænta. Til viðmiðunar hafði ég líka millitímann frá hlaupinu 2007, en þá var ég 1:20 klst. þarna uppeftir.

Áfangi Samanlagt
Landmannalaugar-Hrafntinnusker 1:15:00 1:15:00
Áætlun 2013 1:12:00 1:12:00
Hlaup 2007 1:20:00 1:20:00

Það var skrýtið að koma upp í Hrafntinnusker. Þykkt snjólag var allt í kringum skálann, en breið geil meðfram öllum veggjum. Þarna var alautt þegar ég átti leið um í Laugavegshlaupinu 2007. Þegar þarna var komið sögu hafði Birkir dregist örlítið afturúr, en ég lét ótrauður fylla á vatnsbrúsann minn og hélt svo áleiðis í áfanga 2.

2. áfangi: Hrafntinnusker-Álftavatn
Mér leið vel þegar ég yfirgaf skálann í Hrafntinnuskeri eftir örstutta viðdvöl. Þessu var allt öðru vísi varið 2007, því að þá var ég tekinn að þreytast um þetta leyti og þótti langt eftir. Veðrið var enn svipað, svolítil gola í fangið og ísköld súld, enda hitinn varla nema um 2 gráður þarna uppi. Öll gil voru full af snjó og leiðin því líklega fljótfarnari en ella, sérstaklega fyrir þá sem láta snjóinn ekki angra sig. Einhvers staðar þarna uppi á fjöllunum lenti ég í smávegis vandræðum með ruslapokabeltið sem okkur var uppálagt að vera með. Ég hafði nælt keppnisnúmerinu í beltið, og þegar ég reyndi að opna pokann með krókloppnum fingrum skemmdist ein nælan þannig að ég gat ekki lokað henni aftur. Eftir það tróð ég því rusli sem til féll í annað hólf sem ég var með á drykkjarbeltinu mínu. Þetta sérhannaða ruslapokabelti verður varla notað meira, nema þá til að festa á það keppnisnúmer. Það virkar vel til þess.

Fyrst minnst er á rusl er rétt að taka fram að ég var vel birgur af orkugeli sem ég ætlaði að nota í hlaupinu. Geláætlunin mín hljóðaði upp á eitt stykki (38 g) á u.þ.b. 35 mínútna fresti. Samkvæmt þessu hefði ég þurft um 10 gel í ferðina. Af rælni hafði ég hins vegar líka með mér um 190 g. af hnetum og rúsínum sem ég hafði saltað dálítið aukalega í smáatriðaundirbúningi kvöldsins áður. Seinna í hlaupinu skipti ég að miklu leyti yfir í þessa fæðu, þrátt fyrir þá almennu reglu mína að breyta áætlun um fæðuinntöku aldrei í miðju hlaupi.

Birkir náði mér aftur á meðan ég glímdi við ruslapokabeltið og saman skokkuðum við sem leið lá suður á brún Kaldaklofsfjalla og niður Jökultungur. Ég fann vel á þessum köflum að Birkir var mun sterkari en ég í brekkum, en á jafnsléttu snerist dæmið við. Þetta kom svo sem ekkert á óvart, því að æfingarnar mínar höfðu í reynd miðast við maraþonhlaup á sama tíma og brekkuæfingar höfðu orðið útundan. Það var því öllu minni völlur á mér í Jökultungum en árið 2007 þegar ég geystist þar niður í óheftum unggæðingshætti.

Skömmu eftir að við komum niður af fjöllunum lá leiðin yfir Grashagakvísl, sem er fyrsta teljandi vatnsfallið á leiðinni. Vatnið var ákaflega kalt, enda við því að búast að teknu tilliti til lofthita og snjóþyngsla á fjöllum. Þarna reyndi á ódýru Adidas utanvegaskóna sem ég var með á fótunum þennan dag. Þeir stóðust prófið að því leyti að mér gekk sæmilega að stappa úr þeim vatninu þegar yfir var komið. Sumir aðrir skór eru þó betri hvað þetta varðar. Þegar þarna var komið sögu var ég reyndar farinn að finna töluvert fyrir sandi og smásteinum í skónum, enda  í örþunnum sokkum og ekki með neinar legghlífar. Ég ákvað að láta þetta ekki angra mig að sinni, enda tefst maður talsvert við að fara úr skóm og í þá aftur. Á endanum hljóp ég reyndar alla leið með sandinn í skónum – og varð ekki meint af.

Á sléttlendinu ofan við Álftavatn drógst Birkir aftur úr á nýjan leik, enda náði ég mér vel á strik á þessum kafla. Garminúrið sýndi iðulega 4:45 mín/km og Álftavatn nálgaðist óðfluga.

Millitíminn við Álftavatn var 2:26 klst., sem var 2 mín á eftir áætluninni minni. Ég hafði sem sagt unnið upp eina mínútu af þessum þremur sem vantaði á í Hrafntinnuskeri. Þarna staldraði ég ekkert við, lét bara fylla á vatnsbrúsann og hélt svo áfram ferðinni. Birkir var rétt á eftir mér.

Áfangi Samanlagt
Hrafntinnusker-Álftavatn 1:11:00 2:26:00
Áætlun 2013 1:12:00 2:24:00
Hlaup 2007 1:16:00 2:36:00

3. áfangi: Álftavatn-Emstrur
Mér leið enn ljómandi vel þegar ég yfirgaf skálann við Álftavatn. Veðrið hafði lítið breyst, nema hvað vindurinn var orðinn ívið austlægari. Áfram ringdi smávegis annað slagið, en alls ekkert til óþæginda.

Ég var kominn að Bláfjallakvísl eftir réttar 3 klst. Þar var strengdur kaðall yfir og aðstoðarmenn til taks, enda náði áin mér hátt upp á læri. Þegar ég kom upp úr að sunnanverðu voru fæturnir mjög dofnir af kulda, en það lagaðist fljótt á hlaupunum. Í hlaupinu 2007 skipti ég um skó sunnan við Bláfjallakvísl. Þá var ég kominn með krampa í fæturna og lentur í mesta basli. Núna átti ég engan farangur þarna á miðri leið og fann enga þörf til að staldra við eða hagræða einu né neinu. Sunnan við ána hitti ég franskan hlaupara búsettan í Kanada, sem var að hlaupa Laugaveginn til að halda upp á fertugsafmælið sitt. Við fylgdumst að dálítinn spöl, en síðan drógst hann aftur úr. Birki hafði ég ekki séð í nokkurn tíma.

Þessi merkimiði var aldrei notaður, enda lífið örlítið einfaldara án hans.

Þessi merkimiði var aldrei notaður, enda lífið örlítið einfaldara án hans.

Framundan voru sandarnir og ég hugsaði mér gott til glóðarinnar að nýta flatlendisformið sem ég kom mér upp í æfingunum fyrir Parísarmaraþonið. Þarna bar fátt til tíðinda, ég hitti fáa og hljóp bara sem leið lá án þess að fylgjast mikið með tímanum eða hraðanum. Þannig finnst mér tíminn líða hraðar, jafnframt því sem ég nýt stundarinnar betur. Það gerði ég virkilega á þessum kafla. Hlakkaði til að koma í Emstrur og sjá millitímann þar, en hann átti helst að vera um eða undir 4:12 klst. samkvæmt áætluninni minni. Og allt í einu blasti skálinn við – og klukkan ekki einu sinni komin í 4 klst. Þetta var gleðistund, mér fannst ég vera sigurvegari og var léttstígur þegar ég kom inn á pallinn hjá skálanum. Millitíminn var nákvæmlega 3:59:58 klst! Þessi þriðji áfangi hafði tekið 14 mín. skemmri tíma en ég hafði reiknað með og 21 mín. skemmri en í hlaupinu 2007.

Áfangi Samanlagt
Álftavatn-Emstrur 1:34:00 4:00:00
Áætlun 2013 1:48:00 4:12:00
Hlaup 2007 1:55:00 4:31:00

4. áfangi: Emstrur-Húsadalur
Mér dvaldist ekkert við skálann í Emstrum, nema til að láta fylla á vatnsbrúsann. Brúsinn tekur um 600 ml, og eftir að hafa áætlað vatnsþörfina það sem eftir var hlaups sullaði ég dálitlu niður til að minnka magnið í 450 ml. Það átti að vera hæfilegt miðað við að drekka u.þ.b. 300 ml. á hverjum 10 km. Mér finnst best að vera með nokkuð fasta fyrirfram gerða áætlun um vökva og fæði, því að ályktunarhæfnin eykst síður en svo þegar á líður hlaupið. Eftir sem áður þarf maður að læra að hlusta á líkamann og reyna að skynja hvað er honum fyrir bestu á hverjum tíma.

Nokkru áður en ég kom í Emstrur var ég farinn að finna örlitla krampatilfinningu í hægri kálfanum annað slagið. Meðal annars þess vegna breytti ég um mataræði, gaf gelinu frí og fékk mér þess í stað salthnetur og rúsínur á svo sem 20 mín. fresti til að reyna að koma í mig einhverjum steinefnum. Það virtist nú svo sem ekki hafa nein afgerandi áhrif, krampatilfinningin var enn til staðar, en líðanin að öðru leyti stórgóð. Auðvitað fann ég fyrir einhverri þreytu í skrokknum, en hugurinn var í sínu besta formi. Satt best að segja hef ég sjaldan skemmt mér betur en á þessum síðasta áfanga hlaupsins. Ég var í hreinskilni sagt með tárin í augunum af gleði yfir því að geta notið einmitt þessara gæða sem skipta mig svo miklu máli, þ.e.a.s. að geta verið á hlaupum allan daginn úti í náttúrunni. Um leið varð mér hugsað til vina og kunningja sem hefðu svo gjarnan viljað vera í þessum sporum en áttu þess engan kost – og líka til minna nánustu sem hafa skapað með mér aðstæður sem gera mér kleift að sinna þessu tímafreka áhugamáli mínu. Það er ekkert sjálfsagt að lífið leiki svona við mann. Það minnsta sem maður getur gert er að fyllast þakklæti og njóta stundarinnar á meðan hún gefst.

Þegar þarna var komið sögu var ég alveg viss um að ég myndi ljúka hlaupinu á 6:10 klst. í allra mesta lagi ef ekkert stórvægilegt kæmi fyrir. Þessi vissa byggðist á því að árið 2007 skrönglaðist ég síðasta áfangann á 2:10 klst. frekar illa á mig kominn. Ef allt gengi samkvæmt áætlun gæti tíminn hins vegar farið allt niður í 5:48 klst, og ef fjórði áfanginn yrði álíka léttur og sá þriðji eygði ég jafnvel möguleika á að bæta tímann minn frá 2007 um heilan klukkutíma niður í 5:41 klst. En hvað sem lokatímanum liði stæði ég uppi sem sigurvegari í keppninni við sjálfan mig.

Um þetta leyti jókst úrkoman til muna. Fram að þessu hafði þetta bara verið einhver súld og smárigning annað slagið, en núna fór að rigna fyrir alvöru. Og mótvindurinn jókst að sama skapi. Ég var nýbúinn að taka af mér lambúshettuna sem ég hafði haft meira og minna á hausnum alla leiðina. Var búinn að koma henni svo vel fyrir á drykkjarbeltinu að ég nennti ekki að draga hana fram aftur. Enginn er verri þótt hann vökni. Ég var auðvitað orðinn alveg gegndrepa frá hvirfli til ilja, en þó að hlýindi væru af skornum skammti vissi ég að ég gæti vel haldið á mér hita svo lengi sem ég héldist á hreyfingu. Ég hef oft hlaupið óþarflega fáklæddur í verra veðri en þessu.

Þrátt fyrir að þreytan og úrkoman hertu tökin smátt og smátt kom það ekki niður á gleðinni. Hún jókst jafnt og þétt. Allt í einu voru bara 12 km eftir. Þá hlaut ég að geta klárað á 1:20 mín. Svo voru 9 km eftir, sem gátu varla tekið meira en klukkutíma. Og þannig liðu kílómetrarnir í einskærri hamingju. Á nokkrum stöðum rifjuðust upp fyrir mér augnablik úr hlaupinu 2007, þar með talin erfið augnablik þegar ég vissi ekkert hvernig ég ætti að afgreiða kílómetrana sem eftir voru. Þá var ástandið verst í Fauskatorfum, þar sem á að giska 7 km eru eftir af hlaupinu. Núna var ég hins vegar staddur í einhverri allt annarri veröld. Þessir 7 km sem virtust svo langir fyrir 6 árum voru ekkert annað en þægilegur smáspotti sem ég hlakkaði til að kynnast á nýjan leik.

Þröngá var djúp og köld í rigningunni, en ferðin yfir hana var létt. Þar stóð Ingvar Garðarsson í miðjum streng, hlaupurum til halds og trausts. Mér fannst gaman að rekast á hann þarna. Ingvar er einn fárra sem hafa verið viðloðandi hlaupin álíka lengi og ég, nema hvað hann hefur lengst af verið langtum virkari. Þar hafa fá ár dottið úr síðustu fjóra áratugi.

Skógarstígarnir frá Þröngá niður í Húsadal voru mjúkir og hálir í bleytunni, en það skipti engu máli. Þetta var að verða búið, og ekki spillti fyrir að stórir hópar íslenskra göngumanna hvöttu mig óspart á lokasprettinum. Ég veit að ég fékk enga sérmeðhöndlun, en mér fannst ég samt vera aðalmaðurinn, já eiginlega ótvíræður sigurvegari hvað sem leið öllum þeim fjölda hlaupara sem komnir voru í mark á undan mér. Ég rétt náði að harka af mér til að ég kæmi ekki hágrátandi af gleði í markið. Það er lágmark að vera sæmilega frískur á markmyndinni, þó að sjálfsagt hafi ég verið með sjúskaðra móti, svona útlitslega séð. Hvað sem því leið sýndi markklukkan 5:57 klst. þegar ég skokkaði yfir línuna, sem þýddi að ég hafði lokið hlaupinu á 5:52 klst, því að  markklukkan var stillt fyrir „gula hópinn“ sem var ræstur 5 mín fyrr en „rauði hópurinn“ minn. Öll markmið höfðu náðst!

Síðustu skrefin, 3 sek. eftir í mark. (Klukkan á myndinni er 5 mín. of fljót, því að hún tók tímann á „gula hópnum“. Hér ríkir gleðin ein. (Ljósm. Hlaup.is (birt með leyfi)).

Síðustu skrefin, 3 sek. eftir í mark. (Klukkan á myndinni er 5 mín. of fljót, því að hún tók tímann á „gula hópnum“). Hér ríkir gleðin ein. (Ljósm. Hlaup.is (birt með leyfi)).

Áfangi Samanlagt
Emstrur-Húsadalur 1:52:33 5:52:33
Áætlun 2013 1:48:00 6:00:00
Hlaup 2007 2:09:50 6:40:50
Sigurvegari í unglingaflokki fullorðinna. (Ljósm. Guðmundur Löve (birt í fullkomnu leyfisleysi)).

Sigurvegari í unglingaflokki fullorðinna. (Ljósm. Guðmundur Löve (birt í fullkomnu leyfisleysi)).

Hrollur og hamingja
Starfsfólk Laugavegshlaupsins á miklar þakkir skildar fyrir alla þolinmæðina og umhyggjuna sem virtist hreint óþrjótandi þennan rigningardag. Ekki voru móttökurnar í markinu sístar, þar sem hópur fólks hjálpaði manni við að upplifa sig sem sigurvegara hvernig sem ástandið annars var. Reyndar var ástandið á mér alveg prýðilegt, svona líkamlega séð, og langt fyrir ofan öll eðlileg hámörk, svona andlega séð. Ég byrjaði á að stafla í mig hinum ólíklegustu fæðutegundum og fór svo að bauka við að komast í þurrt. Ég ætla ekkert að fjölyrða um þær aðfarir, að öðru leyti en því að ég hef sjaldan skolfið eins mikið. Ekki minnkaði skjálftinn þegar ég komst að því að sturtuhausarnir á útisturtunum sem ætlaðar voru karlhlaupurum voru einmitt á þeirri stundu sem ég stóð undir þeim eini þurri staðurinn á þessum landshluta. En hvað sem sturtuferðinni leið var ég kominn í þurrt eftir nokkra stund, þurfti reyndar smáhjálp við að reima skóna, en leið að öðru leyti stórvel. Birkir skilaði sér líka fyrr en varði. Hann hafði lokið þessu fyrsta hlaupi sínu á 6:11 klst þrátt fyrir lítinn undirbúning, sem þýddi að hann hafði í raun alls ekki dregist svo mikið aftur úr. Hann var vissulega ótvíræður sigurvegari!

Nú tók við hefðbundin slökun, spjall og neysla kjöts og annarra góðra veitinga. Svo var komið að verðlaunaafhendingunni – og ekki minnkaði gleðin þegar í ljós kom að ég hafði verið fyrstur í mark af körlum á aldrinum 50-59 ára. Þessu hafði ég alls ekki reiknað með, þó að mér hefði vissulega flogið möguleikinn í hug. Þetta var gaman!

Heim á leið
Strax að lokinni verðlaunaafhendingu settist ég upp í fyrstu rútu til Reykjavíkur. Leiðin þangað leið fljótt við spjall við Birki, Guðmund Löve og fleiri góða hlaupara, og frá Reykjavík tók við hefðbundinn akstur upp í Borgarnes. Á þeirri leið rifjaðist enn upp samanburðurinn við hlaupið 2007. Þá vildi það mér til happs að vera á sjálfskiptum bíl. Hægri fóturinn var nefnilega óökufær vegna krampa, en með því að leggja þann vinstri yfir og leyfa honum að sjá um bensíngjöfina komst ég alla leið heim. Nú var aksturinn ekkert vandamál, jafnvel þótt bíllinn væri beinskiptur og því nokkurt annríki hjá báðum fótum. Reyndar lét ég ekki staðar numið í Borgarnesi, heldur hélt áfram sem leið lá til Hólmavíkur þar sem öll fjölskyldan mín var stödd. Þar gekk ég til náða réttum sólarhring eftir að ferðalagið hófst.

Lokaorð
Þetta var ógleymanlegur dagur. Kannski fannst einhverjum veðrið leiðinlegt og færðin vond, en mér fannst þetta allt vera nákvæmlega eins og best verður á kosið. Kannski hefði verið örlítið fljótlegra að hlaupa þetta við örlítið betri aðstæður, en forréttindin eru þau sömu. Meiri gleði og meira þakklæti er varla hægt að upplifa á einum sólarhring.

Örlítið velkt þátttökunúmer að hlaupi loknu. Þátttakandinn var líka örlítið velktur, en ekkert umfram það.

Örlítið velkt þátttökunúmer að hlaupi loknu. Þátttakandinn var líka örlítið velktur, en ekkert umfram það.

Eftirmáli um nesti og búnað
Þessi eftirmáli er að miklu leyti hugsaður til eigin nota, en er þó eins og sjá má galopinn hverjum sem hafa vill. Eftirmálann ætla ég að lesa í byrjun júlí 2017 í lokaundirbúningi fyrir næsta Laugavegshlaupið mitt (að öðru óbreyttu). Er þegar byrjaður að hlakka til!

Ég var kappklæddur á Laugaveginum: Langerma hlaupabolur, hlírabolur utanyfir, hlaupajakki, hlaupanærbuxur, síðar hlaupabuxur, stuttir þunnir hlaupasokkar, utanvegaskór af gerðinni Adidas Kanadia 4 TR, þunnir en nokkuð vindheldir hlaupahanskar, lambhúshetta hálfa leiðina. Ég tel þetta hafa verið alveg hæfilegan klæðnað. Léttar legghlífar gætu þó verið góð hugmynd fyrir næstu ferð. Hvað skóna varðar, þá hef ég ekki hlaupið í Adidasskóm í u.b.b. 20 ár. Keypti þessa af því að þeir voru ódýrir. Þeir reyndust prýðilega og fóru vel með fæturna.

Ég var með þrjú belti en engan bakpoka, þ.e.a.s. drykkjarbelti með einum 600 ml brúsa, gelbirgðum og sérvasa fyrir annað nesti, einfalt belti með síma og nokkrum gelum – og ruslapokabelti í boði Laugavegarins. Þetta reyndist allt vel, nema ruslapokabeltið sem hentar vel til að festa á það hlaupanúmerið en síður til annars. Enginn farangur var geymdur við Bláfjallakvísl. Það tel ég hafa verið rétta ákvörðun.

Upphaflega ætlaði ég að taka gel (38 g / 80 kcal) á u.þ.b. 35 mín. fresti. Var með nógar birgðir til þess arna. Tók líka með slatta af hnetum og rúsínum sem ég hafði saltað aukalega, án þess að vera ákveðinn í hvenær og hvernig það skyldi notað. Skipti um áætlun á leiðinni, (sem ég geri annars aldrei). Tók ekki nema 5 gel, einkum á fyrri hluta leiðarinnar, en skipti svo yfir í hitt. Át þó varla meira en 60 g af því. Giska á að heildarorkuinntakan hafi ekki verið nema 700 kcal. Held að það sé frekar lítið, en orkan hélst vel alla leið. Aðkenning að krömpum í kálfa var eina vísbendingin um mistök hvað þetta varðaði. Veit ekki alveg hvað ég þarf að laga til að bæta þetta. Drakk 300 ml. af vatni á hverja 10 km, eða um 1,5 l samtals. Bætti á brúsann á drykkjarstöðvum eftir þörfum. Allt bendir til að vatnsbúskapurinn hafi verið í topplagi.

Hér lýkur þessum eftirmála og þar með pistlinum öllum.

10 svör

  1. Það var gaman að lesa þennan texta sem sonur minn ,,deildi“. Ég get vel ímyndað mér að hverjum og einum líði eins og sigurvegara. Til hamingju með daginn,flott hlaup og skemmtilegt blogg.

  2. Hjartans þakkir fyrir þennan skemmtilega pistil sem gefur svo góða innsýn í þetta stóra verkefni. Þú ert og verður laaaaannnnngflottastur

  3. Takk fyrir að deila 🙂 Skemmtileg og fræðandi lesning! Hef bara lötrað Laugaveginn og hlaupið 10 km í RVK maraþoni, en fannst þetta frábær upplifun að lesa 🙂 Þurrasti staðurinn,….sturtan 😀

  4. Skemmtileg lesning og ánægjulegt að þetta hafi gengið svona vel hjá þér. Hvað varstu að hlaupa marga km á viku vikurnar fyrir hlaupið? Og ekki vill svo til að þú sért með ascend og descend tölur úr því? Forvitinn því ég ætla mér að fara laugaveginn á næsta ári.

  5. […] Laugavegurinn 13. júlí var enn eitt ævintýrið. Þar stefndi ég að því að hlaupa á skemmri tíma en 6 klst. og vissi svo sem vel að það átti ekki að reynast mér mjög erfitt. Þetta var annað Laugavegshlaupið mitt, en sumarið 2007 hafði ég farið leiðina á 6:41 klst. með miklu minni undirbúning og reynslu en nú. Veðrið var að vísu ekki hagstætt, frekar kalt og blautt og vindurinn að mestu leyti í fangið. Hvað sem því líður var þetta ein stærsta upplifun ársins. Sérstaklega er mér eftirminnilegt augnablikið þegar ég kom að skálanum í Emstrum rétt áður en klukkan small í 4 klst. Því átti ég satt best að segja ekki von á. Lokatíminn var 5:52:33 klst., sem er reyndar næst besti tími sem 55-59 ára Íslendingur hefur náð á þessum spotta það sem af er. Aðeins Sigurjón Sigurbjörnsson hefur gert betur. Að hlaupi loknu kom líka í ljós að ég hafði unnið 50 ára flokkinn nokkuð örugglega. Það fannst mér heldur ekkert leiðinlegt. Og til að gera þetta enn skemmtilegra var Birkir Þór Stefánsson, skíðagöngukappi og bóndi í Tröllatungu, með mér í þessu ferðalagi. Laugavegurinn var án efa einn af hápunktum ársins, bæði í hlaupunum mínum og lífinu yfirleitt. […]

  6. […] hana til. Allt miðaðist þetta við aðalhlaupamarkmið ársins, þ.e.a.s. að hlaupa Laugaveginn á skemmri tíma en áður, eða með öðrum orðum undir 5:52:33 klst. Þess vegna bjó ég til nýja æfingaáætlun í […]

  7. […] örmum. En klukkan hafði tifað og sýndi 4:01:47 klst. Það var meira að segja hægara en í hlaupinu 2013 þegar millitíminn í Emstrum var 4:00:00 klst. Þar með voru allar hugmyndir um að bæta […]

  8. […] Laugavegurinn 2013 (5:52:33 klst) […]

  9. […] Laugavegurinn 2013 (5:52:33 klst) […]

Færðu inn athugasemd við Krampar á Laugaveginum | Bloggsíða Stefáns Gíslasonar Hætta við svar

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: