Laugardaginn 23. maí sl. hljóp ég hálft maraþon í Gautaborg, þar sem ég tók þátt í Göteborgsvarvet með tveimur góðum hlaupafélögum úr Borgarnesi. Göteborgsvarvet er ekki bara eitthvert hlaup, heldur er þetta fjölmennasta hálfmaraþon í heimi. Þetta árið voru öll met slegin, því að auk okkar þriggja skilaði 46.441 hlaupari sér í mark áður en yfir lauk. Þessu hafa Svíarnir náð með góðri markaðssetningu og með því að láta borgina skarta sínu fegursta dagana fyrir og eftir hlaupið til að gera þetta allt sem eftirminnilegast. Og eftirminnilegt var það, þó að ég hafi yfirleitt verið kátari með árangur minn í hlaupum. Í stuttu máli skein sólin allan tímann en samt sá ég aldrei til sólar í hlaupinu. En þó að mér finnist skemmtilegra að skrifa pistla um hlaup sem ganga vel, þá ætla ég samt að skrifa líka um þetta hlaup. Hlaupastærðfræði er nefnilega eins og önnur stærðfræði. Einhverjar tölur verða að vera fyrir neðan meðaltalið. Já, eða eins og mamma sagði við mig þegar ég var lítill: „Stundum þarf að vera vont veður til að við kunnum að meta góða veðrið“.
Hópferð til Gautaborgar
Gautaborgarferðin átti upphaflega að vera hópferð hlaupahópsins Flandra í Borgarnesi. En til þess að svo mætti verða þurfti fólk að ákveða sig tímanlega. Hlaupið fyllist nefnilega yfirleitt tæpu ári áður en það er ræst. Einhver varð að ríða á vaðið og því skráðum við þremenningarnir okkur strax eftir að opnað var fyrir skráningar um mánaðarmótin maí/júní 2014. Og eftir það stækkaði hópurinn ekki neitt. En þetta var líka góður hópur. Í honum voru ég sjálfur, Birgitta dóttir mín og Gunnar Viðar hlaupafélagi nr. 1.
Aðal- og varamarkmið
Undirbúningur okkar þriggja gekk misvel. Sjálfur var ég ekki búinn að ná fullum styrk eftir meiðsli vetrarins, en þóttist þó svo sem fær í flestan sjó. Hafði upphaflega sett mér það markmið að hlaupa undir 1:30 klst. í Gautaborg, en síðar endurskoðaði ég það markmið í ljósi aðstæðna og setti stefnuna á 1:31:30 klst. Reyndar var mig farið að gruna að það myndi e.t.v. ekki ganga upp, þannig að ég var búinn að koma mér upp þrautavaramarkmiði upp á 1:33:07 klst. Þar með yrði þetta alla vega besta hlaup ársins það sem af var.
Ferðaskipulagið
Skipulagið fyrir Gautaborgarferðina miðaðist allt við lágmörkun kostnaðar. Þó að við værum hópur töldum við vonlítið að fá verulegan hópafslátt hjá flugfélögunum. Náðum þó að kaupa flugmiða í beint flug fram og til baka fyrir rúmlega 30 þús. kr. á mann, sem okkur fannst vel sloppið. Sá böggull fylgdi reyndar skammrifi að við þurftum að vera á ferðinni að næturlagi. Lögðum til að mynda upp frá Keflavík um 1-leytið aðfaranótt föstudags (þegar Gunnar var búinn að keppa í einu 10 km hlaupi í Reykjavík til að nota ferðina) og vorum sest út í vél í Gautaborg á heimleið kl. 6:30 á mánudagsmorgni. Gistingin og uppihaldið ytra var enn ódýrari en flugið, því að þar báru sænskir vinir mínir, María og Karl-Axel, okkur á höndum sér frá fyrstu stundu til hinnar síðustu. Þessu fólki kynntist ég í vinabæjarsamstarfi á sveitarstjóraárunum mínum á Hólmavík. Síðan eru liðin 25 ár en tengslin eru enn sem ný. Jákvæðar afleiðingar þeirra kynna eru efni í langan bloggpistil sem verður ekki skrifaður í kvöld.
Bjartur og fagur
Föstudaginn notuðum við til að hvíla okkur eftir næturflugið, kynna okkur sporvagnakerfið, sækja keppnisgögnin og þar fram eftir götunum. Og svo rann laugardagurinn upp bjartur og fagur. Morgunninn var að vísu svolítið svalur, hitastigið varla nema um 10°C og sólin ekki byrjuð að skína að neinu ráði. En þetta var náttúrulega hitabylgja í samanburði við vorið á Íslandi 2015.
„Einn, tveir og nú“
Í 50 þúsund manna hlaupi er ekki bara hægt að stilla öllum upp á ráslínuna og segja „einn, tveir og nú“. Fyrir hlaupið hafði öllum skaranum verið skipt niður í ráshópa með nokkur þúsund hlaupurum í hverjum, sem hleypt var af stað með nokkurra mínútna millibili. Við Gunnar höfðum sent tímana okkar frá því í fyrra til skrifstofu hlaupsins og á grundvelli þeirra hafði okkur verið raðað í ráshóp nr. 2 sem átti að fara af stað kl. 13:03, 3 mín á eftir þeim bestu. Gitta var hins vegar í ráshóp 18 sem skyldi ræstur kl. 15:13. Allt í allt minnir mig að ráshóparnir væru 25 og líklega náði rássvæðið yfir um 2 km af götum miðborgarinnar.
Við Gunnar vorum tímanlega í því enda viðbúið að þröngt yrði í sporvögnunum þennan annasama dag, en að marksvæðinu var um 20 mín. akstur þaðan sem við gistum. Við ákváðum að fara í keppnisfötunum til að þurfa ekki að nota geymslusvæðið í miðbænum. Eftir á að hyggja tel ég okkur hafa borið nokkuð af öðrum farþegum í klæðaburði. Ferðin gekk að óskum og ekki sakar að nefna að þennan dag giltu rásnúmer sem farmiðar í allar almenningssamgöngur í Gautaborg. Alls staðar voru líka skilti og fánar sem minntu á hvers konar hátíðisdagur þetta var í borginni.
Á rássvæðinu tók við hefðbundin upphitun og rjátl. Þarna var líka margt að sjá fyrir þá sem áhuga hafa á framkvæmd almenningshlaupa. Undirbúningurinn og allt utanumhald var einfaldlega fullkomið hjá Svíunum. Upp úr kl. 12:30 vorum við svo mættir í okkar hólf sem smám saman fylltist af fólki. Sólin var farin að skína, frískur vindur blés úr norðvestri, hitinn kominn upp í 12-14 stig og allt tilbúið.
Lagt í hann
Kl. 13:03 lögðum við í hann, fyrst svolítinn hring í Slottsskogen og svo áleiðis vestur að Älvsborgsbrúnni. Allan tímann var hlaupaleiðin full af hlaupurum og því lítið annað hægt að gera en láta berast með straumnum. Straumhraðinn var líka bara hæfilegur enda við félagarnir nokkuð rétt staðsettir í þvögunni miðað við getu. Ég hafði hugsað mér að hlaupa hvern kílómetra ekki hægar en á 4:20 mín, en það hefði skilað mér í mark á 1:31:30 klst. Eftir 5 km var millitíminn 21:47 mín (4:22 mín/km), sem var svo sem nokkurn veginn í lagi. En ég fann samt að þetta væri ekki dagur stórra afreka. Það vantaði allan ferskleika í skrokkinn og gott ef hugurinn var ekki líka nokkuð frá sínu besta.
Þegar brýr verða að fjöllum
Sjötti kílómetrinn var sá erfiðasti í hlaupinu. Þá lá leiðin upp á Älvsborgsbrúna sem mér fannst jafnast á við þokkalegan fjallveg. Samt var heildarhækkunin þarna ekki nema um 40 m á 2 km kafla. Þetta átti maður að geta þolað, jafnvel þótt vindurinn blési vel í fangið. Hinum megin við ána tók við léttari kafli. Þar leið mér þokkalega og gladdist við að fylgjast með áhorfendunum sem stóðu meðfram brautinni alla leið og hljómsveitunum sem lögðu sitt af mörkum til gleðinnar. Samtals höfðu að ég held 55 hljómsveitir raðað sér meðfram hlaupaleiðinni eftir sænsku skipulagi.
Eftir 10 km var millitíminn 43:16 mín sem jafngilti nákvæmlega 4:20 mín/km frá upphafi. Það var svo sem eftir áætlun en þarna var líka krafturinn horfinn úr líkama og sál. Við Gunnar höfðum fylgst að fram að þessu en þarna hvatti ég hann til að fara sína leið. Þetta væri einhvern veginn búið hjá mér. Hann fór að þessum góðu ráðum mínum og eftir þetta fjarlægðist hann smátt og smátt.
Ætli maður verði ekki að reyna að klára þetta?
Segir nú fátt af ferðum mínum. Síðari hluti hlaupsins snerist bara um að þrauka og mér var svo sem orðið sama hver lokatíminn yrði. Hlauparar streymdu fram úr mér í hundraðatali og ég þurfti að takast á við þá framandi tilfinningu að ég gæti ekki það sem ég hefði „alltaf“ getað. Millitíminn eftir 15 km var 1:06:20 klst., sem mér þykir bara allt í lagi í maraþonhlaupi. Þriðji 5 km kaflinn hafði sem sagt lagt sig á 23:04 mín. Fjórði 5 km kaflinn varð enn hægari, 24:17 mín. Undir lokin sá ég Gittu og gestgjafann Maríu í klappliðinu. Það hressti mig verulega og ég náði að bæta aðeins í áður en ég hljóp inn á frjálsíþróttaleikvanginn þar sem hlaupið endaði. Lokatíminn var 1:35:33 klst, vissulega sá lakasti í nokkur ár en svo sem bara í meðallagi þegar öll hálfmaraþonævisagan mín er skoðuð. Sjö sinnum hef ég verið fljótari, sjö sinnum hægari.
Mér gekk vel að finna Gunnar í mannfjöldanum. Hann hafði skilað sínu vel og lokið hlaupinu á 1:32:51 klst. sem var hans næstbesti tími til þessa. Eftir að hafa notið sólargeislanna nokkra stund tókum við sporvagninn „heim“ í sturtu og veitingar – og svo aftur niður í bæ til að fylgjast með Gittu. Náðum að sjá hana sem snöggvast í Slottsskogen áður en hún skeiðaði í markið á 2:21:43 klst. Þá voru enn rúmlega 7.000 manns ókomnir í mark og alls staðar var fólk á hlaupum, hreint og beint endalaus straumur.
Að kunna eða kunna ekki – að taka sporvagn
Einhvern veginn tókst okkur að sameina hópinn á nýjan leik og þá var stefnan enn tekin á sporvagninn. Á sporvagnastöðinni var nokkurhundruð metra löng biðröð, því að nú voru allir á leiðinni heim. En það vildi svo vel til að „heim“ var í sömu átt hjá flestum og sporvagnarnir í hina áttina voru næstum tómir. Gestgjafarnir okkar komu þá með þá snjöllu tillögu að taka vagninn í hina áttina og skipta svo um stefnu þegar komið væri út úr miðbænum. Við gerðum þetta og vorum komin til baka á teinunum hinum megin eftir nokkrar mínútur. Þá komust miklu færri inn í vagninn en vildu, en við sátum bara þarna í bestu sætum eins og fínt fólk. Jafnvel skipulögðustu Svíar geta komið með klók og úthugsuð útspil í svona aðstæðum.

Í makindum og alein að bíða eftir sporvagninum á Axel Dahlströmstorgi á heimleið rétt sunnan við miðbæinn eftir úthugsað útspil sérfræðinga í sporvagnasamgöngum. F.v. Birgitta, SG, Gunnar, Emeli (formaður Flandri Fanklubb í Gautaborg) og Karl Axel. (Ljósm. Maria Lejerstedt).
Gestrisni og enn meiri gestrisni
Segir nú ekki öllu fleira af ferðum okkar nema hvað á laugardagskvöld og á sunnudeginum héldum við áfram að njóta gestrisni vinanna á heimaslóðum þeirra í Havstenssund í skerjagarðinum í Nyrðra-Bóhúsléni. Þar er alltaf gott að koma og náttúrufegurðin með því mesta sem gerist. Aðfaranótt mánudagsins var stutt og brottfarartímann frá Gautaborg hef ég þegar tíundað.
Eftirmáli og minnispunktar fyrir næsta hlaup
Þetta var skemmtileg og eftirminnileg ferð hvað sem árangri mínum líður. Og ég hef reyndar enga ástæðu til að kvarta. Það er ekki eins og það sé sjálfsagt að maður geti hlaupið hálft eða heilt maraþon hvenær sem manni sýnist hversu hratt sem manni sýnist. En þegar eitthvað gengur ekki eins og ætlað var er þó ástæða til að rýna í hvað fór úrskeiðis, því að eitthvað vill maður jú læra af reynslunni. Þarna var það ekkert eitt. Ef til vill átti óreglulegur svefntími næturnar fyrir hlaup einhvern hlut að máli og sjálfsagt var hitinn í sólinni eitthvað umfram þarfir. Þetta voru nú samt ekki nema um 15 gráður þegar mest var. Nú og svo voru æfingar vetrarins langt frá því að vera eins margar og góðar og til stóð, bæði vegna meiðsla, óhagstæðs tíðarfars og amsturs í vinnu. Ætli maður þurfi ekki bara að æfa betur til að ná betri árangri?
Og enn skín sólin
Það er gaman að hlaupa, gaman að njóta stunda með fjölskyldu og vinum og gaman að eiga þess kost að ferðast og upplifa fleira en innréttingarnar á skrifstofunni, svo ágætar sem þær annars eru. Og eins og Hólmvíkingurinn og nafni minn frá Hvítadal sagði: „Það er engin þörf að kvarta / þegar blessuð sólin skín“.
Filed under: Hlaup | Tagged: Gautaborg, Göteborgsvarvet, hálfmaraþon |
[…] keppnishlaup ársins var Göteborgsvarvet, stærsta hálfmaraþon í heimi, sem haldið var 23. maí. Þangað fór ég í góðri fylgd […]