• Heimsóknir

    • 119.667 hits
  • júní 2015
    S M F V F F S
     123456
    78910111213
    14151617181920
    21222324252627
    282930  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Hamingjuhlaup framundan

Laxárdalsh 011 (448x336)

Lagt á Laxárdalsheiði úr Reykhólasveit í fjallvegahlaupi 2008.

Hið árlega Hamingjuhlaup verður haldið í sjöunda sinn laugardaginn 27. júní 2015 og hefst í Reykhólasveit kl. 9:45 árdegis, nánar tiltekið um það bil miðja vegu milli bæjanna Gillastaða og Klukkufells og enn nánar tiltekið við GPS-punktinn N65°31,77‘ – V22°01,83‘. Þessi punktur er um 8 km vestan við vegamótin sunnan við Þröskulda. Leiðin öll er um 35 km og fer hæst í um 590 m hæð.

Hlaupaleiðin liggur að þessu sinni yfir Laxárdalsheiði, sem er ein margra fjallvega sem farnir voru fyrr á árum milli Reykhólasveitar og Stranda. Þetta er hins vegar alls ekki sama Laxárdalsheiði og flestir þekkja, enda er þetta engan veginn einnota örnefni.

Fyrsti 12 km spölurinn í Hamingjuhlaupinu þetta árið er allur heldur á fótinn. Fylgt er greinilegum vegarslóða yfir Gillastaðafell, upp með Geitá og áfram upp að svonefndri Miðheiðarborg sem er líka fjölnota örnefni. Þar lýkur fyrsta áfanga hlaupsins og þar endar líka vegarslóðinn og við taka grýttar og veðurbarðar auðnir. Svo sem 1-2 km norðar er hæstu hæðum náð og eftir það tekur vötnum að halla til Steingrímsfjarðar. Að sama skapi breytist landslagið og í ljós koma gil og gljúfur sem greinilega víkka til norðurs. Slóðar, fjárgötur eða vörðubrot vísa veginn lengst af og nú liggur leiðin ofarlega í hæðunum sem skilja að Húsadal og Þiðriksvalladal, Húsadalsmegin, allt þar til 2. áfanga hlaupsins lýkur við Kerlingarskarð. Þá eru samtals um 22 km að baki og ekki langt eftir niður að Þverárvirkjun, þ.e.a.s. ef haldið væri áfram beinustu leið. En það stendur ekki til, því að í Kerlingarskarði er tekin kröpp vinstri beygja og hlaupið eftir fjárgötum skáhallt niður bratta hlíð niður í Þiðriksvalladal og svo áfram um afskaplega blautar mýrar inn með Þiðriksvallavatni. Á leiðinni þarf að vaða nokkra læki, sérstaklega einn sem kemur úr Nautadal og gæti sem best heitið Nautadalsá eða Nautagil. Þarna skammt frá stóð bærinn Þiðriksvellir en túnin fyrir neðan bæinn hafa verið sérlega blaut síðustu 60 árin eða svo, þ.e. síðan Þiðriksvallavatn var gert að uppistöðulóni fyrir Þverárvirkjun. Áfram er haldið um stund inn mýrarnar í dalbotninum þar til komið er á móts við Grímsdal. Þar þarf að vaða aðalvatnsfallið í dalnum, sem náði meðalmanni upp á mið læri þegar dýpið var kannað fyrr í þessum mánuði. Þarna á árbakkanum lýkur þriðja áfanga hlaupsins.

Horft úr Kerlingarskarði inn Þiðriksvalladal. Bæjarhóllinn í Vatnshorni er lengst til hægri á myndinni en leiðinni er heitið lengst inn í dalbotninn. Myndin er tekin að morgni þjóðhátíðardagsins 2015.

Horft úr Kerlingarskarði inn Þiðriksvalladal. Bæjarhóllinn í Vatnshorni er handan við vatnið lengst til hægri á myndinni, en ferðinni er heitið lengst inn í dalbotninn. Myndin er tekin að morgni þjóðhátíðardagsins 2015.

Af bakkanum þarna á móts við Grímsdal liggur jeppaslóði til byggða, sem þýðir að hlauparar sem vilja slást í hópinn um þetta leyti komast hugsanlega á staðinn á jeppa. En það verður þá að vera jeppi á stórum dekkjum, því að slóðinn er sundurskorinn síðasta spölinn og enn mjög blautur. Þeir sem ætla að spreyta sig á þessum akstri, sem þeir gera vissulega á eigin ábyrgð, aka sem leið liggur inn Þiðriksvalladal og taka krappa hægri beygju innst í bæjarhólnum í Vatnshorni. Ástæða er til að minna þá sem þetta reyna á að ganga vel um náttúruna. Reyndar má líka benda á að þeir sem vilja kynnast alvöru utanvegahlaupi án þess að hlaupa alla leið yfir heiðina, geta sem best slegist í hópinn í Kerlingarskarði. Þangað eru um 3,5 km frá Þverárvirkjun og hægt að komast á jeppa nokkuð af leiðinni eftir slóða sem liggur frá virkjuninni fram Húsadal.

Frá bakkanum á móts við Grímsdal eru um 10,1 km til Hólmavíkur. Fjórði áfangi hlaupsins er þaðan og niður að eyðibýlinu Vatnshorni sem stóð við norðvesturhorn Þiðriksvallavatns. Þessi spölur er ekki nema um 1,7 km, sem þýðir að frá Vatnshorni eru um 8,4 km til Hólmavíkur. Leiðin frá Vatnshorni er þokkalega fær á hvaða fjórhjóladrifsbíl sem er, en ökumenn þurfa þó að fara að öllu með gát.

Hlaupaleiðin frá Vatnshorni til Hólmavíkur skýrir sig að mestu sjálf. Fimmti áfanginn, þ.e. leiðin frá Vatnshorni niður á stífluna við neðri endann á vatninu, er greiðfær fyrir hlaupara, en býður upp á nokkrar góðar brekkur. Eftir það tekur við góður malarvegur niður að aðalveginum norður Strandir. Komið er inn á hann á móts við golfvöllinn í Skeljavík og þaðan eru ekki nema 3,3 km inn á hátíðarsvæði Hamingjudaganna.

Hamingjuhlaupið er ekki keppnishlaup, heldur halda hlaupararnir yfirleitt hópinn og fylgja fyrirfram gerðri tímaáætlun, eins og hver annar strætisvagn. Þetta auðveldar fólki að slást í hópinn á leiðinni. Áfangaskiptingu og tímaáætlun Hamingjuhlaupsins 2015 má sjá á myndinni hér fyrir neðan. (Stærri útgáfa birtist ef smellt er á myndina).

Hamingjuhlaup 2015 tímaáætlun

Hamingjuhlaupinu 2015 lýkur við hátíðarsvæðið á Klifstúni á Hólmavík stundvíslega kl. 15:00. Sú hefð hefur skapast að hamingjuhlaupararnir fái fyrstu sneiðarnar af hinu víðfræga tertuhlaðborði Hamingjudaganna og er haft fyrir satt að önnur eins forréttindi séu fátíð nú til dags. Sömuleiðis þykir sannað að hamingja þeirra sem taki þátt í hlaupinu aukist verulega á meðan á því stendur og nái hámarki þarna við tertuhlaðborðið.

Sýnishorn af Hnallþóruhlaðborði Hamingjudaga 2014.

Sýnishorn af Hnallþóruhlaðborði Hamingjudaga 2014.

Nánari og ögn formlegri upplýsingar um hlaupið er að finna á hlaup.is og þar eru m.a. tenglar á safaríkar frásagnir af fyrri hamingjuhlaupum.

Í lokin birtast hér nokkrir GPS-punktar fyrir þá sem vilja vera öruggir um að rata alla leið. (Reyndar er leiðin frekar auðrötuð og lítil hætta á villum þegar fleiri eru saman. En ef maður á GPS-tæki er ágætt að nota það annað slagið. Reynslan af því kemur sér vel seinna).

Hamingjuhlaup 2015 GPS-hnit

PS: Á það má líka benda að hægt er að sjá leiðina í grófum dráttum á gönguleiðakorti Ferðamálasamtaka Vestfjarða (Vestfirðir & Dalir 6), þ.e. leið nr. 26 (Laxárdalsheiði) og leið nr. 27 (Þiðriksvallavatn). (Sjá einnig: http://fjallvegahlaup.com/hlaupasogur/laxardalsheidi).

2 svör

  1. […] ferðasöguna, en kannski geri ég það við tækifæri til að varðveita minningarnar enn betur. Leiðarlýsinguna er hins vegar að finna á […]

  2. […] 2015. Fersk gleði á fjöllum, nánar tiltekið á […]

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: