• Heimsóknir

    • 119.667 hits
  • júní 2017
    S M F V F F S
     123
    45678910
    11121314151617
    18192021222324
    252627282930  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Hamingjuhlaup 1. júlí

Tertuhlaðborð á Hamingjudögum á Hólmavík 2014.

Laugardaginn 1. júlí nk. verður hlaupið til móts við hamingjuna á Hólmavík 9. árið í röð. Að þessu sinni liggur leiðin yfir fjallveginn Bæjardalsheiði, þannig að þetta er ekki bara hamingjuhlaup, heldur líka fjallvegahlaup. Þetta tvennt fer einstaklega vel saman. Leiðin öll er um 31,3 km að lengd og fer hæst í um 485 m hæð. Þeir sem ekki treysta sér alla leið geta auðveldlega valið að hlaupa hluta leiðarinnar, sbr. tímatöflu sem finna má neðar á þessari síðu.

Hamingjuhlaupið er fastur liður í bæjarhátíðinni Hamingjudögum á Hólmavík. Sú hefð hefur skapast að þegar hlaupararnir koma á leiðarenda fái þeir fyrstu sneiðarnar af árlegu hnallþóruhlaðborði sem þar er jafnan boðið upp á. Þetta hefur aukið hamingju þátttakenda enn frekar.

Lagt af stað úr Króksfirði
Hamingjuhlaupið yfir Bæjardalsheiði hefst kl. 11:10 á laugardag rétt vestan við Bæ í Króksfirði. Fyrir þá sem ekki vita hvar Króksfjörður er, þá er hann í Reykhólahreppi, ekki ýkja langt frá Króksfjarðarnesi, bara aðeins vestar. Upphafsstaður hlaupsins er nánar tiltekið á Vestfjarðavegi um 4,4 km vestan við vegamótin þar sem beygt er upp á Þröskulda. Enn nánar tiltekið er upphafsstaðurinn u.þ.b. 325 m vestan við bæinn Bæ í Króksfirði og hefur hnattstöðuna N65°30,71′ – V21°58,56′. Hlaupaleiðin liggur til norðurs, nokkurn veginn samsíða veginum upp á Þröskulda. Munurinn er bara sá að bílvegurinn liggur upp Gautsdal en hlaupaleiðin upp Bæjardal. Báðir enda þessir vegir hins vegar á sama stað Steingrímsfjarðarmegin.

Fróðleikur um leiðina
Leiðin yfir Bæjardalsheiði er ein nokkurra leiða sem menn gátu valið um á árum áður þegar þeir áttu erindi úr Reykhólasveit til Hólmavíkur, t.d. í verslunarleiðangra eftir að lauaskaupmenn hófu að stunda verslun í Skeljavík upp úr miðri 19. öld og eftir að Hólmavík fékk verslunarréttindi með konungsbréfi 3. janúar 1890. Tröllatunguheiði er dálítið austar og Laxárdalsheiði dálítið vestar, þ.e.a.s. sú Laxárdalsheiði sem sagt er frá í Fjallvegahlaupabókinni minni (leið nr. 5) og sem hlaupin var í Hamingjuhlaupinu 2015.

Bæjardalsheiði er afar fáfarin nú til dags og slóðin yfir hana sums staðar orðin ógreinileg. Fyrsta spölinn inn Bæjardal er þó fylgt greinilegum vegi, en af kortum að dæma virðist vegurinn gerast öllu frumstæðari þegar komið er á stað með hnattstöðuna N65°31,82′ – V21°57,62′ inn undir Selgili. Áfram er þó haldið sem leið liggur, enn eftir auðrötuðum slóða, upp á heiðina þar til komið er að þremur vötnum sem nefnast Lambavötn, vestan við svonefndar Bláfjallabrúnir. Leiðin liggur á vesturbakka syðsta vatnsins og miðvatnsins, (þ.e.a.s. vinstra megin við vötnin þegar hlaupið er sunnan frá). Vestan við miðvatnið er punktur með hnattstöðuna N65°33,31′ – V21°53,62′ og þangað eru u.þ.b. 7,15 km frá upphafsstaðnum. Rétt rúmlega hálfum kílómetra síðar er beygt til austurs sunnan við nyrsta vatnið (N65°33,52′ – V21°53,15′) og hlaupið áfram til norðurs eða norðaustur austan við það og áfram eftir háum hrygg með stefnu á Miðheiðarborg (494 m). Vestur og norður af Miðheiðarborg er allstórt vatn Gedduvatn. Þangað liggur leiðin þó ekki, enda kváðu þar þrífast hræðilega hættulegir fiskar, svonefndar eiturgeddur. Þær eru bláar á lit, eða kannski gylltar, og svo eitraðar að þær brenna gat á hvern þann flöt sem þær eru lagðar á, jafnvel löngu eftir að þær eru dauðar.

Sem fyrr segir liggur leiðin ekki að Gedduvatni, heldur er sveigt lítið eitt meira til austurs (til hægri) áður en þangað er komið og stefnan tekin á Þrívörður (N65°34,40′ – V21°50,99′). Þar er hæsti punktur leiðarinnar, um 485 m. yfir sjávarmáli. Að Þrívörðum eru u.þ.b. 10,4 km frá upphafsstaðnum. Þaðan er hægt að velja þrjár mismunandi leiðir norður af heiðinni og niður í Arnkötludal og allar eru þessar leiðir varðaðar að einhverju leyti. Greinilegasta leiðin liggur áfram nokkurn veginn beint frá Þrívörðum út fjallið, en þar hlóð fjallvegafélagið upp vörður á sínum tíma, líklega seint á 19. öld. Í þessu hlaupi verður hins vegar fylgt þeirri leið sem líklega var fjölförnust fyrr á öldum, þ.e.a.s. innstu leiðinni, í þeirri frómu trú að hún sé upphaflegust og þannig „mest ekta“, þó að lítið standi þar eftir af merkingum nema lúin vörðubrot og slóðin víðast orðin máð. Þessi leið liggur í austnorðaustur frá Þrívörðum, rakleiðis niður í Arnkötludal með stefnu á Víghól (N65°34,65′ – V21°47,63′) á vesturbakka Arnkötludalsár. Frá Þrívörðum eru u.þ.b. 2,8 km að Víghóli, þannig að þar er heildarvegalengdin frá upphafi komin í u.þ.b. 13,2 km.

Í Fóstbræðrasögu er sagt frá því þegar Þorgeir Hávarsson skrapp um öndverðan vetur frá Reykhólum norður að Hrófá í Steingrímsfirði til að drepa mann fyrir kónginn. Að loknu verki fór hann svo aftur að Reykhólum, eins og hann gerði gjarnan þegar hann var búinn að drepa einhvern. Til eru sagnir af því, þó að þess sé ekki getið í Fóstbræðrasögu, að honum og mönnum hans hafi verið veitt eftirför frá Hrófá og að slegið hafi í brýnu á Víghóli. Þar var barist með bareflum og grjóti, enda nóg til af því á svæðinu. Þrír lágt settir menn eiga að hafa týnt lífi í þessum átökum og verið dysjaðir í urðinni skammt frá hólnum, þar sem síðan heitir Dys.

Við Víghól liggur beinast við að vaða austur yfir ána, enda eru hún vatnslítil á venjulegum sumardegi. Á austurbakkanum er komið inn á aðalveginn til Hólmavíkur, Djúpveg, og um leið breytist hlaupið úr utanvegahlaupi í malbikshlaup. U.þ.b. einum kílómetra neðar liggur vegurinn vesturyfir ána og eftir u.þ.b. 2,2 km til viðbótar má sjá rústir eyðibýlisins Vonarholts á árbakkanum rétt fyrir neðan veginn. Síðustu ábúendurnir þar voru hjónin Sigurður Helgason og Guðrún Jónatansdóttir. Þau fluttu frá Vonarholti árið 1935 og settust að í Arnkötludal, einni bæjarleið neðar í dalnum. Þaðan fóru þau líka síðust manna árið 1957 þegar þau færðu sig niður að Hrófá þar sem þau bjuggu eftir það. Síðan þá hefur enginn búið í dalnum.

Við Vonarholt eru um 16,4 km að baki og 14,9 km eftir til Hólmavíkur. Arnkötludalsbærinn er um 6 km neðar í dalnum og stendur handan við ána. Frá Arnkötludal eru um 2,7 km niður að vegamótunum við Hrófá, þar sem valið stendur um að beygja til hægri og hlaupa inn Strandir, áleiðis til Akureyrar, eða til vinstri og taka stefnuna á Hólmavík. Frá þessum vegamótum eru um 6,9 km eftir af Hamingjuhlaupinu.

Endaspretturinn
Segja má að á vegamótunum við Hrófá ljúki fjallvegahlaupinu yfir Bæjardalsheiði og að við taki endasprettur Hamingjuhlaupsins. Hvernig sem þessari orðanotkun er háttað gerir tímaáætlun hlaupsins ráð fyrir að hamingjuhlaupararnir verði staddir við Hrófá kl. 14:40 á laugardag og að endaspretturinn þaðan taki nákvæmlega 50 mínútur að meðtaldri u.þ.b. einnar mínútu viðdvöl við lögreglustöðina á Kálfanesskeiði í útjaðri Hólmavíkur. Hlaupið endar að þessu sinni á túninu við Galdrasafnið og að vanda er þess að vænta að hlaupurum verði fagnað eins og þjóðhetjum þegar þangað er komið, (sbr. mynd í upphafi þessa pistils).

Tímaáætlun
Rétt er að minna á að Hamingjuhlaupið er ekki keppnishlaup, heldur halda hlaupararnir yfirleitt hópinn og fylgja fyrirfram gerðri tímaáætlun sem svipar mjög til strætisvagnaáætlunar. Áætlunin fyrir Hamingjuhlaupið 2017 fer hér á eftir.

Tímatafla Hamingjuhlaupsins 2017. (Smellið á myndina til að stækka hana).

Úr myndaalbúmum sögunnar
Eins og fram hefur komið verður þetta 9. Hamingjuhlaupið frá upphafi. Myndirnar hér að neðan gefa örlitla innsýn í sögu hlaupsins og fela í sér sönnun þess hversu mikil hamingja fylgir jafnan þátttökunni í því. Sé smellt á ártölin undir myndunum birtast sögulegar heimildir um viðkomandi hlaup, hafi þær á annað borð verið skráðar.

Hamingjuhlaupið 2009. Þarna byrjaði þetta allt saman – á Drangsnesi. F.v.: Arnfríður, Birkir, Guðmann, Ingimundur, Stefán, Þorkell og Eysteinn.

Hamingjuhlaupið 2010. Þetta var frekar fámennt en afskaplega góðmennt hlaup yfir Þröskulda. F.v.: Kristinn, Birkir, Stefán og Ingimundur.

Hamingjuhlaupið 2011. Á leið upp Bitruháls með Gunnlaug Júlíusson, Birki Stefánsson og Hafþór Benediktsson í broddi fylkingar.

Hamingjuhlaupið 2012 í ótrúlega góðu veðri norður í Reykjarfirði.

Hamingjuhlaupið 2013. Afskaplega hamingjusamir hlauparar í fjörunni í Djúpavík.

Hamingjuhlaupið 2014. Líf og yndi í grænum dal, Vatnadal.

Hamingjuhlaupið 2015. Fersk gleði á fjöllum, nánar tiltekið á Laxárdalsheiði.

Hamingjuhlaupið 2016. Á Bjarnarfjarðarhálsi með Birki, Hauk og Noémie fremstum meðal jafningja.

Helstu heimildir

  • Jón Guðnason (1955): Strandamenn. Æviskrár 1703-1953. Jón Guðnason, Reykjavík.
  • Jón Torfason o.fl. (ritstj.) (1985): Íslendingasögur. Fyrra bindi. Svart á hvítu, Reykjavík.
  • Matthías Lýðsson (2010): Lítið eitt um Arnkötludalhttp://strandir.is/litid-eitt-um-arnkotludal.
  • Sigurður Ægisson og Jón Baldur Hlíðberg (2008): Af öfuguggum og öðrum kynjaskepnum á Vestfjörðum. Í „Vestfirðir. Sumarið 2008“. H-prent ehf., Ísafjörður.

Sérstakar þakkir

  • Hafdís Sturlaugsdóttir fyrir aðstoð við leiðarlýsingu og GPS-mælingar
  • Hólmvíkingar fyrir góðar móttöku og hvatningu öll þessi ár

Eitt svar

  1. […] en alls fóru 8 hlauparar einhvern hluta leiðarinnar, þar af þrír sem kláruðu allan hringinn. Hamingjuhlaupið fór svo fram í 9. sinn laugardaginn 1. júlí – og var fjallvegahlaup í leiðinni. Að þessu sinni var hlaupið yfir Bæjardalsheiði til […]

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: