• Heimsóknir

    • 119.667 hits
  • júlí 2010
    S M F V F F S
     123
    45678910
    11121314151617
    18192021222324
    25262728293031
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Út að hlaupa – með lausum hundum

Á liðnum árum hef ég nokkrum sinnum hitt lausa hunda á hlaupum mínum. Þetta hefur sjaldnast angrað mig neitt að ráði, enda er mér ekkert sérlega illa við hunda. Í morgun varð ég hins fyrir því í fyrsta skipti að vera bitinn af hundi. Og þó að þetta væri ekki meira en misheppnað glefs sem skildi eftir sig óljóst tannafar á vinstra lærinu en ekkert sár, þá finnst mér þetta samt ekkert fyndið. Mér finnst með öðrum orðum að fólk eigi að geta gengið eða hlaupið hvar sem er á almannafæri, án þess að eiga á hættu að verða fyrir barðinu á illa uppöldum hundum, eða öllu heldur ábyrgðarlausum hundaeigendum.

Stundum finnst mér bara gaman að hitta hunda þegar ég er úti að hlaupa. Fyrir fáeinum árum hitti ég til dæmis vingjarnlegan smalahund í Skorradal, sem hvorki hafði í frammi grimmdar- né fleðulæti heldur fylgdi mér þá 10 km sem eftir voru af Andakílshringnum mínum – ekki bara einu sinni, heldur í nokkur skipti. Þetta var hreint ágætur félagsskapur. Minna gaman þótti mér þegar ég hitti óagaðan Schaefferhund í ónefndri sveit fyrir margt löngu. Vörslumanni viðkomandi hunds tókst með naumindum af fá hann til að velja sér annan morgunmat. Þá var ég hræddur. Hin skiptin eru fæst eins eftirminnileg.

Atvikið í morgun átti sér stað á göngustíg í útjaðri Hólmavíkur. Ég var að koma hlaupandi inn í þorpið á hefðbundum Óshring, en umræddur hundur var bandlaus úti að ganga með konu, sem ég kannast við og býst við að sé eigandi hundsins. Eitthvað leist hundinum illa á mig, því að hann réðst að mér með urri og gelti og fylgdi í engu ráðum konunnar. Ég hef svo sem heyrt urr og gelt áður og hljóp því áfram eins og ekkert hefði í skortist. En hundinum þótti ekki nóg að gert og tókst að glefsa svo sem tvisvar í mig áður en yfir lauk. Það var býsna hlýtt í veðri í morgun, en af einhverjum ástæðum hafði ég þó valið að hlaupa í síðbuxum. Eftir á að hyggja var það góð hugmynd, því að hundurinn einbeitti sér ekki nóg að glefsinu til að vinna á hlaupabuxunum.

Mér var svolítið brugðið eftir þessi viðskipti við hundinn, og sveið líka dálítið í lærið. En annars tók ég þessu bara eins og hverju öðru hundsbiti, kláraði Óshringinn og hljóp annan til. En eftir því sem ég hugsa meira um þetta atvik, því ósáttari verð ég. Bæði veit ég að á þéttbýlisstöðum eru víða til reglur sem banna lausagöngu hunda, og eins finnst mér það algjör lágmarkskrafa eins og fyrr segir að fólk þurfi ekki að óttast árásir af þessu tagi. Reyndar veit ég um fólk sem er hrætt við hunda og getur af þeim sökum hreinlega ekki farið út að ganga eða hlaupa, þótt það fegið vildi.

Ef ég man rétt gilti sú einfalda regla í minni sveit, að hundum sem réðust á fólk eða búfénað skyldi umsvifalaust lógað. Ekki veit ég hvort sama regla er skrifuð inn í samþykkt Strandabyggðar um hundahald. Ég tek heldur ekki að mér að kveða upp dauðadóma yfir hundum. Það sem ég get gert í málinu er fyrst og fremst að upplýsa stjórnendur sveitarfélagsins um umrætt atvik og hvetja til úrbóta til að tryggja öryggi fólks sem best. Svo get ég líka hvatt til umræðu um málið og hvatt hundaeigendur til að axla þá ábyrgð sem þeim ber.

4 svör

  1. PS: Því er við að bæta, að ég var einmitt að kíkja í samþykkt um hunda- og kattahald í Strandabyggð. Þar stendur m.a.: „Hunda sem ráðast á menn eða skepnur skal fjarlægja og er heimilt að lóga þeim þegar í stað“. Svo mörg voru þau orð.

  2. Sæll Stefán. Ég vil bara taka undir orð þín varðandi hundaeigendur og ábyrgð þeirra. Ég hleyp flesta daga vikunnar hér heima í Hafnarfirði og er alltaf að lenda í illa uppöldum hundum. Hef ekki verið alvarlega bitinn, en það hefur verið glefsað í mig og buxur mínar rifnað. Mér er almennt ekki illa við hunda, en ég vil getað verið öruggur og afslappaður á hlaupum og tel mig eiga reyndar rétt á því. En ég hef ekki treyst mér til að kæra og er lítið fyrir illindi. Hvað gerðir þú, kærðir þú þessa hundaárás til lögreglu?

    Kv. Jón Sigurðsson, hlaupari og áhugamaður um vistvæn málefni

  3. Sæll Jón og takk fyrir innleggið. Það er einmitt þetta sem mér finnst vera aðalatriðið; að maður eigi ekki að þurfa að hafa áhyggjur af lausum hundum. Mér er eins farið og þér, að ég er lítið fyrir vesen. Ég kærði málið sem sagt ekki til lögreglu, en sendi hins vegar bréf til sveitarstjórnar með upplýsingum um tildrög, auk lýsingar á hundinum og upplýsingum um vörslumanninn, sem ég þekki reyndar.

  4. Mjög er þú fremri mér í geðprýði frændi. Ég þoli ekki hættulega hunda og illa siðaða eigendur þeirra. Ég hefði því vísast drepið hundinn og bitið eigandann.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: