• Heimsóknir

    • 119.010 hits
  • september 2010
    S M F V F F S
     1234
    567891011
    12131415161718
    19202122232425
    2627282930  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Story of Stuff

Heimildamyndin „Story of Stuff“ eða „Saga af dóti“ hefur vakið töluverða athygli í netheimum síðustu vikur og mánuði. Í myndinni er vakin athygli á því hversu mikil neikvæð áhrif ýmsar vörur sem við kaupum og notum geta haft á umhverfi og samfélag, án þess að við leiðum hugann að því. Mestur hluti þessara áhrifa kemur nefnilega fram áður en vörurnar rata alla leið til okkar.

Margt af því sem fram kemur í „Story of Stuff“ hljómar kunnuglega. Sumt af þessu hafa margir reynt að segja okkur áður, en við ekki skilið. Umhverfismál eru nefnilega stundum flókin, og þegar sérfræðingar reyna að útskýra þau, geta þau jafnvel orðið enn flóknara. Konan á bak við myndina „Story of Stuff“, Annie Leonard, er sjálf sérfræðingur í umhverfismálum og hefur unnið í þeim geira mikinn hluta ævinnar. Forsögu myndarinnar „Story of Stuff“ má rekja til þess þegar Annie reyndi sjálf án árangurs að útskýra eitthvað á þessu sviði á fundi eða ráðstefnu fyrir nokkrum árum. Þá varð henni ljóst að aðferðin var ekki rétt. Upp úr þessu fór hún að velta fyrir sér þeim möguleikum sem liggja í einföldum skýringarmyndum. Þetta þróaðist svo í átt að „Story of Stuff“, sem flytur sem sagt ekki nýjar fréttir, en gerir það á svo einfaldan og augljósan hátt að allir skilja!

„Story of Stuff“ er teiknimynd, sem minnir sem slík meira á Hugleik Dagsson en Walt Disney. Og í forgrunni myndarinnar stendur Annie Leonard í hlutverki sögumannsins, skýrmælt, spaugsöm og laus við málalengingar.

Ég hvet fólk eindregið til að fara inn á www.storyofstuff.org og horfa á myndina. Þar eru reyndar líka fleiri myndir sem Anna hefur gert, þ.e.a.s. „Story of Cosmetics“ („Saga af snyrtivörum“), „Story of Bottled Water“ („Saga af flöskuvatni“) og „Story of Cap and Trade“ („Saga af verslun með losunarheimildir“). Og þessa dagana er hún að vinna að næstu mynd, „Story of Electronics“ („Saga af raftækjum“).

Bendi líka á bloggfærslu sem ég skrifaði um „Story of Cosmetics“ 19. ágúst sl og á Fésbókarsíðu „Story of Stuff“.

Vanmetin tækifæri til líkamsræktar

Líkamsrækt er til þess fallin að auka lífsgæði þeirra sem hana stunda, og um leið verður samfélagið örlítið sterkara. Hins vegar held ég að mörgum yfirsjáist upplögð tækifæri til líkamsræktar í daglega lífinu. Þessi tækifæri koma ekki í staðinn fyrir heimsókn í ræktina, sundsprett eða hlaupatúr, en þau styrkja grunninn og bæta heilsuna, séu þau nýtt. Hér á eftir verða nefnd nokkur tækifæri af þessu tagi.
 
Upp og niður stigann
Fólk venur sig á mismunandi hegðunarmynstur í daglegu amstri inni á heimilum. Reyndar sýnast mér flestir hafa tilhneigingu til að spara sér sporin innandyra eins og framast er hægt, til dæmis með því að fara sem fæstar ferðir milli herbergja eða upp og niður stigann, þar sem um slíkt er að ræða. Með þessu geta vissulega sparast nokkrar mínútur á sólarhring, en ætli það væri nú ekki samt hollara að taka hverju tækifæri til slíkrar hreyfingar fagnandi, vitandi það að hreyfingin er góð fyrir líkamann og sálina, þótt lítil sé? Einn frændi minn tók upp á því einu sinni að ganga með skrefateljara á sér. Í ljós kom að það hvernig hann hagaði daglegu amstri hafði veruleg áhrif á fjölda skrefa yfir daginn. Í stað þess að reyna að fækka skrefunum til að nýta tímann, legg ég til að fólk reyni að fjölga þeim, líka til að nýta tímann.
 
Í og úr vinnu
Sumir eru þeirrar gæfu aðnjótandi að búa sæmilega stutt frá vinnustaðnum sínum. Auðvitað er skilgreiningaratriði hvað teljist “sæmilega stutt”, en við mat á því má hafa í huga að vel frískt fólk getur gengið allt að 1 km á 10 mínútum. Ég þori alveg að fullyrða að í ferðum til og frá vinnu liggja mikil tækifæri til líkamsræktar. Tíu til tuttugu mínútna ganga tvisvar á dag, til og frá vinnu, ætti að vera viðráðanlegur skammtur af hreyfingu fyrir flesta, auk þess sem bílferðir á svo stuttum vegalengdum kalla á mikla eldsneytisnotkun með tilheyrandi mengun og kostnaði. Ekki er ólíklegt að maður þurfi um ¼ lítra af bensíni til að komast 1 km til vinnu á fólksbíl með kalda vél. Svoleiðis akstur kostar 100 kall á dag, eða um 2.000 kr. á mánuði. Þá peninga er vel hægt að nota í annað.
 
Auðvitað geta aðstæður í vissum tilvikum gert það ómögulegt að ganga í vinnuna. Þeim sem eiga vanda til að svitna mikið finnst t.d. ekkert óskaplega skemmtilegt að mæta rennblautir til vinnu. Og á vinnustaðnum er e.t.v. ekki aðstaða til baðferða og fataskipta. Aðrir eru hins vegar lausir við þetta vandamál og gætu sem best nýtt sér þetta tækifæri til líkamsræktar. Þegar allt kemur til alls tekur þessi ferðamáti heldur ekki endilega lengri tíma en bílferðin, alla vega ekki ef maður tekur tillit til þess tíma sem það tekur að vinna sér inn ráðstöfunarfé fyrir eldsneytinu.
 
Veðrið er oft nefnt sem ástæða þess að fólk gengur ekki í vinnuna þótt vegalengdin sé viðráðanleg. Auðvitað er veðrið misgott, en eins og einhver sagði, þá er kannski “ekki til vont veður, heldur bara lélegar yfirhafnir”. Yfirhafnir þurfa ekkert endilega að vera með fjögur hjól og 100 hestafla mótor!
 
Allt sem hér hefur verið sagt um göngu í og úr vinnu gildir að sjálfsögðu líka um hjólaferðir, nema hvað þar má auðveldlega komast lengri vegalengdir á sama tíma.
 
Skroppið í búðina
Að flestu leyti gilda sömu lögmál um hversdagslegar búðarferðir og um ferðir í og úr vinnu. Þar liggja sem sagt líka ónotuð tækifæri til líkamsræktar. Reyndar bætist þarna við nýtt viðfangsefni, nefnilega að koma vörunum heim. Svolítill burður eykur reyndar á líkamsræktina, en slíkum þolraunum eru þó einhver takmörk sett. Í þessu sambandi er til bóta að nota trausta taupoka með góðum höldum í stað teygjanlegra plastpoka sem fást við búðarkassana. Enn öflugra er þó að koma sér upp innkaupatösku á hjólum, sem hægt er að draga á eftir sér, eins konar flugfreyjutösku. Þá gerir lítið til þótt kílóafjöldinn sé kominn í tveggja stafa tölu.
 
Skroppið í ræktina
Er ekki einhver þversögn fólgin í því að fólk fari akandi stuttar vegalengdir heiman að frá sér í ræktina? Hér gildir auðvitað það sama og ég hef áður nefnt varðandi ferðir í og úr vinnu og hversdagslegar búðarferðir, allt að því tilskildu að vegalengdirnar séu viðráðanlegar. Til að undirstrika þessa þversögn ætla ég að enda þennan pistil með mynd sem ég tók einhvers staðar traustataki og hef gjarnan notað í fyrirlestrum um heilbrigðan lífsstíl og sjálfbæra þróun.

   

Góðir þessir rúllustigar!