Undanfarna daga hafa fjölmiðlar flutt okkur fréttir af mengunarslysinu í súrálsverksmiðjunni í Ajka í Ungverjalandi. Í þessum fréttum hefur hins vegar lítið farið fyrir fræðslu um súrálsframleiðslu almennt og tengsl hennar við áliðnaðinn á Íslandi. Þetta tvennt langar mig að gera að umtalsefni í þessum pistli.
Hvað er súrál?
Hreint ál fyrirfinnst ekki í náttúrunni. Hins vegar inniheldur bergtegundin báxít töluvert magn af áli, en er líka rík af öðrum málmum. Til að ná álinu úr berginu er það fyrst malað og síðan skolað með heitum vítissóda (NaOH) við 143-280°C, (mism. eftir eiginleikum viðkomandi bergs). Við þetta myndast rauð leðja, sem er í raun grautur úr föstum efnum. Álið er eina efnið sem leysist upp við þessa meðferð, og með því að bæta þykkingarefnum í leðjuna er tiltölulega auðvelt að sía álið frá. Á þessu stigi er það uppleyst í álhýdróxíðlausn, sem kristallast þegar hún er kæld. Þegar álhýdróxíðkristallarnir eru síðan hitaðir upp í u.þ.b. 1.000°C gefa þeir frá sér vatnsgufu, og eftir stendur hvítt duft, súrál (áloxíð). Þetta hvíta duft er hráefni fyrir álverksmiðjur eins og þær þrjár sem starfræktar eru hérlendis. Þær framleiða sem sagt ál úr súráli með rafgreiningu. Til að framleiða 1 tonn af áli þarf um 1,9 tonn af súráli.
Ferlið sem lýst er hér að framan er svonefnt Bayer-ferli. Eins og þarna kemur fram er afurðin hreinlegt hvítt duft, sem flutt er til Íslands, eða eitthvert annað, í áframhaldandi vinnslu. Aukaafurðin er hins vegar rauð leðja sem verður eftir í nágrenni við súrálsverksmiðjuna, yfirleitt í stórum tönkum eða tjörnum.
Nokkrar tölur
Eins og áður segir þarf 1,9 tonn af súráli til að framleiða 1 tonn af áli. Í þetta fara að meðaltali um 4 tonn af báxíti (rúm 2 tonn fyrir hvert tonn af súráli). Til skolunar á 4 tonnum af báxíti þarf 60-140 kg af 50% vítissóda og 2-10 tonn af vatni, svo eitthvað sé nefnt. Og eftir liggja 1,2-3,0 tonn af rauðri leðju.
Niðurstaðan er sem sagt í grófum dráttum þessi:
Fyrir hvert tonn af áli sem framleitt er á Íslandi liggja 1,2-3,0 tonn af rauðri leðju eftir einhvers staðar annars staðar í heiminum og þar hafa líka verið notuð 60-140 kg af vítissóda og 2-10 tonn af vatni.
Rauða leðjan
Rauða leðjan sem um ræðir er misjöfn að efnasamsetningu eftir því hvaða efni voru upphaflega til staðar í berginu. Aðallega eru þetta ýmis málmoxíð, sem eru ekkert bráðeitruð sem slík. Langmest er af járnoxíðum sem gefa leðjunni þennan ryðrauða lit. (Við þekkjum járnoxíð einmitt best í föstu formi sem ryð). Í leðjunni eru líka oxíð af kísil, áli, kalsíum, natríum og títaníum, auk einhvers magns þungmálma á borð við vanadíum, króm, arsen og kvikasilfur. Þungmálmarnir eru sjaldnast þarna í bráðhættulegum styrk, en hins vegar er augljóst að leðjan er engin hollustuvara þegar hún streymir fram í miklu magni. Því má heldur ekki gleyma að hún inniheldur töluvert af sóda, og er því gríðarlega basísk (lútkennd (hátt pH-gildi)) og getur af þeim sökum verið ætandi og reyndar bráðdrepandi fyrir lífverur sem eru viðkvæmar fyrir breytingum á sýrustigi.
Samantekt
Svona er sem sagt staðan. Rauða leðjan safnast upp jafnt og þétt, og er bæði hættuleg og til einskis nýt. Tölurnar hér að framan líta reyndar sakleysislega út, enda er þar verið að tala um það sem til fellur fyrir hvert tonn sem framleitt er af áli. En til að setja þessar tölur í raunverulegra samhengi má t.d. minna á að álverið á Reyðarfirði getur eitt og sér framleitt eitthvað um 350.000 tonn af áli á ári. Það þýðir að á þessu ári verða til 400 þúsund til milljón tonn af rauðri leðju, bara vegna framleiðslu í þessu eina álveri. Og þá á eftir að reikna öll hin álverin í heiminum og öll hin árin.
Nokkur góð ráð
En hvað er þá til ráða? Við þurfum jú ál! Hér fara á eftir nokkrar tillögur til úrbóta:
- Þurrka leðjuna
Það er hægt að vinna áfram með rauðu leðjuna, þannig að hún verði að þurru föstu efni, sem hægt er að nota í sementsframleiðslu, í keramikiðnaði, vegagerð o.fl. - Herða starfsleyfisskilyrði og eftirlit
Það hlýtur að mega herða starfsleyfisskilyrði fyrir súrálsverksmiðjur og bæta eftirlit, þannig að rauð leðja sé ekki geymd í forgengilegum tönkum nálægt mannabyggð og viðkvæmum búsvæðum lífvera. - Endurvinna miklu meira
Það er hægt að endurvinna ál óendanlega oft án þess að það tapi gæðum. Í hvert sinn sem eitt tonn af áli er endurunnið í stað þess að framleiða nýtt sparast öll þau hráefni og allur sá úrgangur (rauð leðja o.fl.), sem getið er um hér að framan, (að ógleymdum 95% orkusparnaði sem er efni í aðra langa bloggfærslu). - Skilja samhengi hlutanna
Við þurfum að læra að sjá samhengi hlutanna. Þótt slysið í Ungverjalandi virðist fjarlægt og þó að súrálið sem flutt er til Íslands komi e.t.v. ekki þaðan, þá er okkur samt hollt að hugleiða að allar okkar gjörðir hafa áhrif langt út fyrir landsteinana. Ál á sér sína forsögu eins og allt annað, og þessi forsaga kemur okkur við þó að við sjáum hana ekki. Í hvert sinn sem við kaupum eða notum ál að óþörfu – og í hvert sinn sem við förgum álpappír eða einhverjum öðrum hlut úr þessum ágæta málmi, í stað þess að skila honum til endurvinnslu – stuðlum við að því að meiri orku sé sóað, meiri vítissódi sé notaður, meiri rauð leðja safnist upp og fleiri slys verði á borð við slysið í Ajka!
(Aðalheimild: Evrópusambandið, Framkvæmdastjórnin, IPPC-skrifstofan: Draft Reference Document on Best Available Techniques for the Non-Ferrous Metal Industry. Draft July 2009. ftp://ftp.jrc.es/pub/eippcb/doc/nfm_2d_07-2009_public.pdf)
Filed under: Umhverfismál |
Takk fyrir þessa samantekt. Alltaf gott að geta horft á heildarmyndina en ekki bara búta.
Takk Stefán fyrir þessa samantekt og fyrir að setja hana á mannamál. Þörf ábending varðandi endurvinnslu á áli!
Takk Stefán
Takk fyrir þennan fróðleik, en svo er spurningin hvernig aukaefni og hvað mikið þarf þá til að breyta t.d. álpappír í ál eða í endurvinnslu áls?
Þakka þér fyrir þessa fróðlegu grein. Framleiðsla á ýmsum fleiri efnum hefur líka í för með sér að úrgangur safnast fyrir og ýmiskonar fleiri ógnanir við umhverfið. Þess vegna er það ljóst að efni, svosem ál, ýmsir fleiri málmar og gerviefni eru of ódýr. Það verður að leggja á verðið, hvort sem það kallast gjald, skattur eða annað, fyrir kostnaði við að gera þessi efni óskaðleg með endurvinnslu og slíku. Því lengur sem heimurinn sparar sér mengunarvarnir og skynsamlegri nýtingu, því meiri og dýrari verður vandinn seinna, sem okkar kynslóð er að velta á undan sér. En hærra verð hefur í för með sér minni sölu og það er eitur í beinum stóriðjufyrirtækja, sem hafa stjórnmálamenn í vasanum.
Kærar þakkir fyrir jákvæð viðbrögð við þessari samantekt. Og ég er alveg sammála þér Húnbogi með verðlagið. Mér finnst t.d. mjög athyglisvert að fylgjast með umræðu um það hver beri ábyrgð á slysinu í Ungverjalandi. Kostnaður við svona slys er hluti af kostnaði við framleiðslu á áli, og þann kostnað eiga auðvitað framleiðendur að bera! Ef eitthvað væri að marka allt tal síðustu 18 ára um sjálfbæra þróun, varúðarregluna og mengunarbótaregluna, ættum við að vera komin miklu lengra en raun ber vitni í að innlima umhverfiskostnað inn í verðlag viðkomandi vöru. Það gengur ekki til lengdar að náttúran og komandi kynslóðir niðurgreiði neyslu okkar, hvort sem málið snýst um framleiðsluvörur úr áli eða öðrum hráefnum!