Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til Stjórnlagaþings, en sem kunnugt verður kosið til þingsins 27. nóvember nk.
Tilgangur minn með framboðinu er einkum tvíþættur: Annars vegar vil ég leggja mitt af mörkum til að hagsmuna íslenskrar náttúru og komandi kynslóða verði sem best gætt í nýrri stjórnarskrá, og hins vegar langar mig að eiga þátt í að efla lýðræði og gagnsæi í stjórn landsins.
Í stuttu máli eru aðaláhersluatriði mín þessi:
- Komandi kynslóðir
Ég vil að réttindi komandi kynslóða verði tryggð eins og kostur er í nýrri stjórnarskrá í samræmi við hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Fyrirmynd að slíku er þegar að finna í stjórnarskrám nokkurra Evrópulanda. Ísland hefur tækifæri til að vera í fararbroddi á þessu sviði og á að vera það! - Náttúruauðlindir
Ég vil að náttúruauðlindir Íslands verði sameign þjóðarinnar, og að þau réttindi verði tryggð eins vel og kostur er í nýrri stjórnarskrá. - Lýðræði
Ég vil að fólkið í landinu geti haft meiri áhrif á ákvarðanir stjórnvalda en gert er ráð fyrir í núverandi stjórnkerfi, m.a. með því að tiltekinn hluti kjósenda og tiltekinn fjöldi Alþingismanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekið mál. - Raunveruleg þrískipting valdsins
Ég vil að þrískipting valdsins verði skilgreind mun skýrar í nýrri stjórnarskrá en í þeirri sem nú gildir, með sérstakri áherslu á aðgreiningu löggjafarvalds og framkvæmdarvalds, m.a. með því að ráðherrar sitji ekki á Alþingi. - Vinnulag við nýja stjórnarskrá
Ég vil að Stjórnlagaþingið leggi mikla áherslu á að niðurstöður Þjóðfundarins 6. nóv. nk. endurspeglist í drögum að nýrri stjórnarskrá, og að þjóðin fái að segja álit sitt á drögunum í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en þau eru send Alþingi til meðferðar.
Öll þessi áhersluatriði eru í takt við hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Í allri þessari vinnu þurfum við að hafa hugfast að „maðurinn fékk ekki jörðina í arf frá forfeðrum sínum, heldur hefur hann hana að láni frá börnunum sínum“. Við þurfum líka að hverfa frá þeim „gamla húsgangshætti“, sem Þorvaldur Thoroddsen nefndi svo á þarsíðustu öld, að „hugsa eingöngu um stundarhaginn, nokkra aura í svipinn, en láta sér standa á sama hvort gerður sé stór skaði öldum og óbornum“.
Nú er tækifæri til breytinga. Ég vil vera hluti af breytingunni og tel mig hafa mikið fram að færa hvað það varðar.
Filed under: Sjálfbær þróun, Stjórnlagaþing |
Þakka þér fyrir Stefán
…að gefa kost á þér og fyrir að gerast málsvari þessara sjónarmiða sem þú nefnir.
Nú er brýnni ástæður til breytinga en nokkru sinni. Við erum mörg sem viljum leggja okkar af mörkum í því efni og saman höfum við mikið fram að færa.
ÉG STYÐ ÞIG.
Kæri S
Ert þú til í að setja inn á málefnalistann þinn að inn í stjórnarská fari ákvæði um jafnt vægi atkvæða? Þ.e. einn maður eitt akvæði, hvort heldur hann er staddur á Ísafirði eða 101 R?
kv
jojo
Sæll Jón Jóel!
Ég lít svo á að jöfnun atkvæðavægis komi nánast sjálfkrafa inn í mannréttindakafla nýrrar stjórnarskrár, en geri ekki ráð fyrir að setja það sérstaklega á málefnalistann. Þetta getur líka tengst umræðu um kjördæmaskipan. Almennt tel ég heppilegast að landið verði eitt kjördæmi, enda hygg ég að núverandi skipting og sú togstreita milli kjördæma sem af henni hefur leitt, hafi fremur verið landsbyggðinni til tjóns en gagns. Hef verið þessarar skoðunar lengi, alveg síðan á sveitarstjóraárunum á Hólmavík.
Bestu kv,
Stefán
Vil benda þér á að kynna þér málefni stjórnarskrárfélagsins og öðrum vefsíðum sem hafa upplýsingar um þessi mál. Eitt sem ég rak augun í hjá þér og vil benda þér á að kanna nánar, en það er að menn hafa nefnt að ekki einungis þrískiptingu valds, heldur miklu frekar allt að 6 eða 7 skiptingu valds hvert og eitt sjálfstætt og óháð. Sem dæmi um slíka valdaskiptingu þá er talað um löggjafa og framkvæmdaraðila og dómsvaldið (3 skiptingu), við þetta er svo að bæta rannsóknarvald (s.b rannsóknarnefnd alþingis), upplýsingavald (upplýsir almenning jöfnum höndum um það sem gert er í kerfinu og svo hagstjórnarvald. Kíktu á þetta , gangi þér vel á stjórnlagaþingi.
Styð þig. Þarftu það skriflegt?
Ég styð þig, vertu í bandi ef þú þarft undirskriftina mína.
Þú átt minn stuðning Stebbi. Gangi þér vel
Takk allir! Stuðningur ykkar er mér mikils virði.
Við erum bara nokkuð mjög mikið sammála! Styð þig af heilum hug! Hefur þú fengið nógu marga meðmælendur á blað? – Þarftu fleiri? – Vil gjarna leggja þér lið.
Kærar þakkir fyrir þetta Hafsteinn, ekki ónýtt að eiga þig að! Jú, ég er kominn með nóga meðmælendur, þurfti bara 30, og fyrr en varði var blaðið orðið fullt. En ég þigg öll góð ráð og liðveislu með þökkum. Verðum í sambandi.
Frábært!
Vegni þér vel, ligg ekki á góðum ummælum um þig við þá sem velta fyrir sér þessum málum – og hverja eigi að kjósa 🙂
Takk Arnheiður! Gott að eiga þig að!
🙂
[…] og áður hefur komið fram á þessari síðu (og mörgum öðrum) er ég í framboði til Stjórnlagaþings. Á dögunum setti ég upp sérstaka […]