Ég hef stundum heyrt því haldið fram að orkusparnaður á heimilum og í fyrirtækjum sé neikvæður fyrir hagkerfið, vegna þess að umsvifin minnki sjálfkrafa þegar minna er keypt af orku. Rannsóknir benda hins vegar einmitt til hins gagnstæða, þ.e. að orkusparnaður sé atvinnuskapandi og til þess fallinn að auka umsvif í hagkerfinu!
Niðurstöður rannsóknanna sem ég vísa hér til voru birtar í árslok 2007 og voru hluti af mun stærri rannsóknarpakka Evrópusambandsins, þar sem skoðuð eru tengsl umhverfis og hagkerfis. Þar kemur m.a. fram að bætt orkunýting, t.d. 10% orkusparnaður framleiðslufyrirtækja, myndi auka veltu og skapa fjöldann allan af störfum, einfaldlega vegna þess að orkugeirinn er langt frá því að vera mannaflsfrekur. Það skapast sem sagt mun fleiri störf í framleiðslugeiranum heldur en þau sem tapast í orkugeiranum.
Vildi bara segja ykkur frá þessu til að minna á að á hverju máli eru jafnan a.m.k. tvær hliðar. Samdrætti í einum hluta hagkerfisins fylgja jafnan tækifæri í öðrum hlutum þess. Lífið er nefnilega ekki stærðfræðijafna með einni óþekktri stærð, heldur jöfnuhneppi þar sem hver breyting hefur áhrif á margar aðrar stærðir, eða með öðrum orðum raunveruleiki þar sem samhengið milli orsakar og afleiðingar liggur alls ekki í augum uppi, eins og ýmsir „miðaldra hvítir karlmenn“ freistast þó gjarnan til að halda fram.
(Sjá: GHK Consulting et.al (2007): Links between the environment, economy and jobs. DG Environment, ESB).
Filed under: Sjálfbær þróun |
Færðu inn athugasemd