Fyrir nokkru fór Biskupsstofa þess á leit við frambjóðendur til Stjórnlagaþings að þeir gerðu í stuttu máli grein fyrir afstöðu sinni til 62. gr. stjórnarskrárinnar sem hljóðar svo: „Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum“. Spurt var hvort frambjóðendur teldu þörf á að breyta þessari grein, og ef svo væri, hvernig. Þá var spurt um afstöðu frambjóðenda til núverandi sambands ríkis og þjóðkirkju.
Svör mín við þessum spurningum fara hér á eftir, en þau má einnig lesa á vef Þjóðkirkjunnar, ásamt með svörum annarra frambjóðenda.
Spurning: Telur þú þörf á að breyta þessari grein (62. gr.)?
Svar: Já
Spurning: Ef svo er hvernig?
Svar: Ég tel rétt að fella 62. greinina úr stjórnarskránni. Fyrir því eru einkum tvær ástæður: Annars vegar tel ég að ákveða eigi samband ríkis og kirkju í lögum, en ekki í stjórnarskrá. Í stjórnarskrá ætti hins vegar að tiltaka helstu gildi sem þjóðin hefur í heiðri og byggir tilveru sína á. Í öðru lagi er núverandi orðalag umræddrar greinar órökrétt, þar sem fram kemur að henni megi breyta með lögum. Ákvæði sem breyta má með lögum eiga ekki heima í stjórnarskrá.
Spurning: Hver er afstaða þín til núverandi sambands ríkis og þjóðkirkju?
Svar: Samband ríkis og kirkju er margslungnara mál en svo að því verði gerð skil í stuttu svari, (sjá t.d. grein Arnfríðar Guðmundsdóttur á DV-vefnum (http://www.dv.is/stjornlagathing/arnfridur-gudmundsdottir/grein/663)). Auk heldur tel ég Stjórnlagaþing ekki þurfa að taka afstöðu í þessu, sbr. svar mitt við fyrri spurningu. Hins vegar voru skilaboð nýafstaðins Þjóðfundar skýr hvað þetta varðar, þ.e. að stuðlað skyldi að aðskilnaði ríkis og trúfélaga. Stjórnlagaþinginu ber að taka mið af niðurstöðum Þjóðfundar, en sem fyrr segir tel ég liggja beinast við að fella 62. grein niður og láta ríkisvaldinu og kirkjunni eftir að þróa samband sitt til farsældar fyrir báða aðila.
Filed under: Stjórnlagaþing |
Færðu inn athugasemd