Í gær var sagt frá því á vef Bæjarins besta á Ísafirði, að nokkur fjöldi sjómanna geti ekki neytt kosningaréttar síns í kosningum til Stjórnlagaþings á laugardaginn, þar sem þeir voru lagðir af stað í veiðiferð þegar utankjörfundaratkvæðagreiðslan hófst og koma ekki í land aftur fyrr en eftir kosningar. Sjálfsagt er ekkert við þessu að gera héðan af, en þetta er samt alveg óásættanleg staða. Kosningarétturinn er jú hornsteinn lýðræðisins, ekki satt?
Einn frambjóðendanna til Stjórnlagaþings, Eyþór Jóvinsson arkitektúrnemi á Flateyri, er í hópi sjómannanna sem kerfið sviptir kosningarétti með þeim hætti sem hér er lýst. Hann fór á sjóinn 29. október sl., en utankjörfundaratkvæðagreiðslan hófst 10. nóv. Veiðiferðinni lýkur á sunnudaginn, degi eftir kosningar.
Í 48. og 49. grein laga nr. 24/2000 um kosningar til Alþingis eru ákvæði um utankjörfundaratkvæðagreiðslur á skipum, en þessi lög gilda einnig um slíkar atkvæðagreiðslur vegna kosninga til Stjórnlagaþings eftir því sem við á. Í lögunum er gert ráð fyrir að skipstjóri fái afhent utankjörfundarkjörgögn áður en veiðiferð hefst, þ.e. í þeim tilvikum þar sem sýnt er að veiðiferðin standi framyfir kjördag. Í því tilviki sem hér um ræðir var þetta ekki hægt, þar sem kjörgögnin voru ekki tilbúin þegar veiðiferðin hófst. Hins vegar var ljóst hverjir yrðu í framboði og hvernig kosningu skyldi háttað.
Nú hljóta að vakna þrjár spurningar.
- Hófst utankjörfundaratkvæðagreiðslan of seint?
- Er kjördagur of snemma?
- Er kerfið of ósveigjanlegt?
Svarið við fyrstu spurningunni er nei, því að umrædd atkvæðagreiðsla hófst 17 dögum fyrir kjördag eins og lög gera ráð fyrir. Svarið við spurningu nr. 2 er líka nei, því að kjördagur er 17 dögum eftir að utankjörfundaratkvæðagreiðslan hófst eins og lög gera ráð fyrir. Svarið við þriðju spurningunni er já – og er skrifað á milli línanna í hinum svörunum.
Það getur barasta ekki verið að kerfið þurfi að vera svo ósveigjanlegt að ekki sé hægt að tryggja sjómönnum kosningarétt í tilviki sem þessu! Það er vissulega frekar mikið vesen að leita uppi með þyrlu öll þau skip sem um ræðir, afhenda þannig kjörgögn og sækja þau aftur. Auk þess myndi þetta hafa mikil neikvæð áhrif á umhverfið. Hins vegar hlýtur að vera hægt að byggja inn í kerfið sveigjanleika sem gerir rafræna atkvæðagreiðslu mögulega þar sem svona stendur á. Ég veit svo sem ekkert um tæknileg vandamál í þessu sambandi, en þau hlýtur að vera hægt að leysa. Það eru kerfislægu vandamálin sem eru erfiðari viðfangs. Og kerfið er jú ekki skapað af æðri máttarvöldum. Kerfið er mannanna verk, og þess vegna geta mennirnir líka breytt því. Eða er kerfið kannski einhvers konar Frankensteinskrímsli sem lifir svo sjálfstæðu lífi að menn fái ekki rönd við reist?
Lýðræðið þarf að vera fyrir alla, ekki bara okkur landkrabbana!
Filed under: Stjórnlagaþing |
Færðu inn athugasemd