Ég er einn af þeim sem bíða í ofvæni eftir úrslitum kosninganna til Stjórnlagaþings. Tja, reyndar er ofmælt að tala um ofvæni í þessu sambandi, því að ég er alveg rólegur yfir þessu. Ég fæ nefnilega engu um þetta breytt héðan af.
Eitthvað er fólk að ræða og blogga um lélega kosningaþátttöku. Vissulega hefði mér fundist gaman að fleiri tækju þátt, en samt finnst mér þessi kosningaþátttaka alls ekki léleg. Þvert á móti finnst mér hún góð! Þetta var góð kosningaþátttaka vegna þess að þeir sem vildu kjósa gerðu það – og þeir sem vildu það ekki gerðu það ekki. Þannig á það einmitt að vera. Reyndar vildu einhverjir kjósa en fengu það ekki. Það er verra, en sem betur fer bara undantekningartilvik.
Mér finnst alveg marklaust og órökrétt að bera þátttökuna í þessum kosningum saman við einhverjar aðrar kosningar á Íslandi, hvort sem það eru Alþingiskosningar, sveitarstjórnarkosningar eða Ísbjargarkosningar. Kosningar eins og þær sem haldnar voru sl. laugardag hafa nefnilega aldrei verið haldnar áður, hvorki á Íslandi né annars staðar! Næst þegar svona kosningar verða haldnar getum við borið þær saman við þessar, en þangað til er allur samanburður næsta gangslaus.
Og eitthvað er fólk líka að ræða og blogga um það hvort kosningaþátttakan styrki eða veiki Stjórnlagaþingið. Þetta eru óþarfar vangaveltur. Þjóðin er búin að kjósa sér Stjórnlagaþing, sem hefur fullt umboð þjóðarinnar til að vinna það verk sem því er falið. Fullt umboð segi ég, vegna þess að þeir sem vildu kjósa gerðu það. Flóknara er það nú ekki.
Það verður fróðlegt að sjá hverjir muni sitja á umræddu þingi. Ég vil gjarnan vera þar á meðal, en hvernig sem allt veltist er ég glaður og bjartsýnn. Þetta verður þing þjóðarinnar. Og þetta þing getur tekið til óspilltra málanna í febrúar, með birtuna í hönd!
Filed under: Stjórnlagaþing |
Færðu inn athugasemd