• Heimsóknir

    • 119.039 hits
  • mars 2023
    S M F V F F S
     1234
    567891011
    12131415161718
    19202122232425
    262728293031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Ævintýri í Kielder

Í byrjun apríl skruppum við fjögur saman til Kielder í Englandi til að taka þátt í utanvegahlaupi, 32-100 km eftir þörfum og þorsta hvers og eins. Tilefnið var fimmtugsafmæli eins úr hópnum, Gunnars Viðars Gunnarssonar í Borgarnesi. Þegar maður verður fimmtugur og er búinn að hlaupa maraþon 9 sinnum, Laugaveginn tvisvar og 90 km keppnishlaup einu sinni, þá þarf maður að finna hærri kílómetratölu til að glíma við. Þess vegna ákvað Gunnar að gefa sér 100 km hlaup í fimmtugsafmælisgjöf.

Forsaga málsins
Gunnar Viðar byrjaði að hlaupa árið 2012 og síðan hefur þróunin verið hröð. Fyrsta maraþonið var hlaupið vorið 2013 og Laugavegurinn 2015. Árið 2018 var svo ráðist í það stórvirki að hlaupa 90 km keppnishlaup í Svíþjóð, nánar tiltekið Ultravasan-90 þar sem hlaupið er í spor skíðagöngumanna sem hafa gengið þessa sömu 90 km leið í Vasagöngunni á hverju ári í rúm 90 ár í minningu frægrar ferðar Gustavs Vasa Svíakonungs milli Mora og Sälen árið 1520. Hlaupið í fyrra tengdist hálfrar aldar afmæli góðs hlaupafélaga okkar Gunnars, Birkis Þórs Stefánssonar bónda í Tröllatungu á Ströndum. Upphaflega hafði ég ætlað að fylgja Birki og Gunnari í þetta hlaup, en meiðsli komu í veg fyrir það, Kristinn Óskar Sigmundsson í Borgarnesi hljóp í skarðið og ég réði mig sem fararstjóra í staðinn.

Birkir, Gunnar og Kristinn skiluðu sér allir heilir mark í Ultravasan-90 eftir 10-12 tíma hnjask og undirbúningur fyrir fyrsta 100 km hlaupið hófst strax á marklínunni í Mora undir skiltinu „Í feðranna spor fyrir framtíðarsigra“.

Í framhaldi af bollaleggingunum á marklínunni í Mora hófst leit að hentugu 100 km hlaupi vorið 2019, sem næst fimmtugsafmæli Gunnars. Hlaupið átti helst ekki að fela í sér mikið fjallabrölt, helst ekki að vera óþarflega langt og helst að vera í viðráðanlegri fjarlægð til að halda ferðakostnaði og ferðatíma innan þolmarka. Fljótlega bárust böndin að Bretlandi og í vetrarbyrjun 2018 lá ákvörðun fyrir: Stefnan var sett á ofurhlaupið Kielder Ultra, nyrst í Norðymbralandi á Englandi, rétt sunnan við landamærin við Skotland. Þar var boðið upp á 100 km hlaup á frekar viðráðanlegu undirlagi, með hæfilegri blöndu af flötum skógarstígum og lágum fellum.

Ferðafélagarnir
Þar sem Gunnar Viðar hafði farið með Birki til Svíþjóðar í fyrra til að hjálpa honum að opna fimmtugsafmælisgjöfina, lá beint við að Birkir færi með Gunnari til Bretlands til að gjalda líku líkt. Ef allt hefði verið með felldu hefði ég náttúrulega hlaupið með þeim, en þrálát meiðsli komu í veg fyrir að ég gæti undirbúið mig nægjanlega. Ég varð því að hafa sama hátt á og í Ultravasan-90 í fyrra, þ.e. að ráða sjálfan mig sem fararstjóra. Ekki vill maður missa af svona afmælisveislum!

Strax eftir að Kielderferðin var ákveðin bættist fjórði ferðafélaginn í hópinn, Úlfhildur Ída Helgadóttir, sauðfjárbóndi með meiru á Ytra-Álandi í Þistilfirði. Áður en þetta ævintýri hófst þekkti hún engan okkar og við ekki hana. Úr þessu varð samt einstaklega samhentur fjögurra manna hópur, þar sem engan vantaði og engum var ofaukið. Úlfhildur á ekki langa hlaupasögu að baki og Laugavegurinn 2018 var eina keppnishlaupið hennar fram að hlaupinu í Kielder, þar sem hún skráði sig í 50 km hlaup.

Auk 100 km hlaups og 50 km hlaups var nú í fyrsta sinn boðið upp á styttra hlaup í Kielder, þ.e.a.s. 20 mílur, eða 32 km. Í samanburði við hinar vegalengdirnar hljómaði það sem einhvers konar Latabæjarhlaup fyrir aðstandendur ofurhlaupara, og þar sem mér hafði gengið þokkalega að æfa mig út úr meiðslum sá ég mér leik á borði að bæta virkri þátttöku við fararstjórahlutverkið. Skráði mig því í 32 kílómetrana, en sagði fáum frá því. Þegar maður er rétt að skríða upp úr langvarandi meiðslum er ekkert sjálfsagt að leiðin liggi beint upp á við. Og þá er best að fleipra sem minnst um glæst áform.

Undirbúningur fyrir 32 km
Eftir að ég gat byrjað að hlaupa stuttar vegalengdir í lok október 2018 gengu æfingar áfallalaust, og þó að mikið skorti enn upp á styrk og hraða var ég farinn að geta hlaupið 20 km vandræðalítið um mánaðarmótin janúar/febrúar. Þegar komið var fram í mars voru vikurnar farnar að teygjast upp í 50 km og jafnvel 70 km. Lengsta laugardagshlaupið fyrir ferðina til Kielder var 27 km, þannig að ég vissi vel að 32 km myndu ekkert vefjast fyrir mér. En þar sem getan var enn af skornum skammti miðað við það sem var fyrir meiðsli, ákvað ég að líta á hlaupið í Kielder frekar sem langa æfingu en keppni. Markmiðið var bara að ljúka hlaupinu og njóta þess eftir bestu getu. Aðaltilgangur ferðarinnar var eftir sem áður að vera Gunnari, Birki og Úlfhildi innan handar.

Ferðin til Kielder
Ferðin mín til Kielder hófst í Borgarnesi fyrri part aðfaranætur fimmtudagsins 4. apríl, þ.e.a.s. tveimur sólarhringum fyrir hlaup. Þegar ég skipulegg hlaupaferðir til útlanda fylgi ég einfaldri formúlu, sem byggir bæði á góðri reynslu og slæmri. Meginreglan er sú að fljúga út í síðasta lagi tveimur dögum fyrir hlaup og heim aftur í fyrsta lagi tveimur dögum eftir hlaup. Ef hlaupið er á laugardegi, eins og í þessu tilviki, hentar vel að fara út á fimmtudegi og heim á mánudegi. Aðalaukareglan í ferðaskipulaginu er að varast næturflug – og svo þykja bein flug mun æskilegri en tengiflug. Svo er líka voða gott að hægt sé að leggja vegalengdina frá flugvelli að gististað að baki á 2 klst. eða svo, en auðvitað er ekki á allt kosið í þeim efnum.

Ferðin frá Borgarnesi til Keflavíkur gekk algjörlega áfallalaust, auk þess sem þessi hluti ferðalagsins var rafknúinn og kolefnishlutlaus. Að vísu orsakaði rautt blikkandi ljós við norðurenda Hvalfjarðargangnanna dálitlar hjartsláttartruflanir, en þar var sem betur fer bara verið að hægja á umferð til að tryggja öryggi sópara inni í göngunum. Frá Keflavík var svo flogið með Icelandair til Glasgow, stutt flug og þægilegt.

Birkir, Úlfhildur og Gunnar lent á flugvellinum í Glasgow.

Á öfugum kanti
Áður en við lögðum af stað í þessa ferð hafði Gunnar lýst því yfir að hann kviði ekkert fyrir því að hlaupa þessa 100 km. Verra væri að þurfa að keyra 200 km – á öfugum vegarhelmingi. Svoleiðis keyrir fólk nefnilega í Bretlandi. Til að gera langa sögu stutta gekk þessi vinstrikantskeyrsla stóráfallalaust, þó að í eitt eða tvö skipti hafi hurð skollið nærri hælum – eða vinstri hlið nærri vörubíl. Hins vegar fær konan í leiðsögutækinu í bílaleigubílnum ekki háa einkunn fyrir leiðsögnina. Ef einhver Grjótháls væri á Englandi hefðum við örugglega keyrt yfir hann – og ef þar væri einhver Siglufjörður hefðum við komið þar við á Laugarvegi. Þess vegna varð tveggja tíma keyrsla á öfugum kanti að fjögurra tíma keyrslu á svo mjóum sveitavegum að þar þurfti að nota báða kanta jöfnum höndum og samtímis.

Á leið út í öfugsnúna umferð í Skotlandi. (Ljósm. Úlfhildur).

Á áfangastað
Það hafði vafist töluvert fyrir mér að finna hentugan gististað sæmilega nálægt Kielder þar sem hlaupið átti að hefjast og enda. En fyrir einhverja einstaka lukku hafði ég komist á snoðir um orlofshúsahverfi á vegum samtakanna Calvert Trust, sem er eins konar bresk útgáfa af Sjálfsbjörg eftir því sem ég kemst næst. Þessi samtök reka sem sagt orlofsbúðir fyrir fatlaða á nokkrum stöðum í Bretlandi, þ.á.m. rétt við Kielder uppistöðulónið, svo sem 10 km sunnan við Kielder. Þarna höfðum við tryggt okkur hús til að sofa í þessar fjórar nætur sem við áttum saman í Bretlandi – og þangað vorum við komin síðdegis á fimmtudeginum eftir ítarlega úttekt á sveitavegum syðst í Skotlandi.

Ég veit ekki hvort við fjórmenningarnir teljumst „venjulegir Íslendingar“, en það fyrsta sem við gerðum þegar við vorum komin inn í þetta annars stórgóða hús við Kieldervatnið var það sama og „venjulegir Íslendingar“ myndu líklega gera, þ.e.a.s. að athuga hvort þar væri þráðlaust netsamband. Svo reyndist ekki vera. Næsta mál var þá að tengjast netinu í gegnum farsímana, en þá kom í ljós að í húsinu var heldur ekkert farsímasamband, hvorki 4G, 3G, E, H, N, eða hvað þetta nú heitir allt saman. Það eina sem símarnir sýndu var hringur með skástriki yfir. Eftir að hafa gert þessa uppgötvun rölti ég út í miðstöðina sem þjónustar orlofshverfið og spurði frétta af símasambandinu. Þar var mér sagt að þarna væri ekkert svoleiðis, enda væri ég kominn svolítið langt út á land. Mig rámaði reyndar í að hafa sjálfur búið úti á landi lengst af og jafnvel verið í góðu símasambandi í snöggtum afskekktari byggðum en þessari. Hafði þó að sjálfsögðu ekki orð á því.

Í þjónustumiðstöðinni var þráðlaust netsamband og fræðilega séð hægt að komast á netið í gegnum það. Hraðinn á nettengingunni var hins vegar svipaður og í þá gömlu góðu daga þegar mótöldin voru upp á sitt besta. Þarna vantaði bara hljóðið sem fylgdi þeim.

Það þarf ekki að vera slæmt að vera án símasambands og netsambands. Helsti gallinn er sá að geta ekki látið fjölskyldur og vini vita af gangi mála. Sambandsleysi hóps við umheiminn er hins vegar til þess fallið að efla sambandið innan hópsins. Við þurftum sem sagt að tala saman í staðinn fyrir að „hanga á netinu“. Ég held að ekkert okkar hafi skaðast af því.

Yfirlitskort af svæðinu. 50 km hlaupaleiðin lá í kringum allt vatnið og 100 km hlaupararnir fóru tvo hringi. (Teiknað með aðstoð Strava.com).

Eitthvað verður maður að éta
Eftir að hafa kortlagt helstu matvöruverslanir á svæðinu með aðstoð fólksins í þjónustumiðstöðinni fórum við til Bellingham að kaupa í matinn, u.þ.b. 20 km akstur í suðaustur frá húsinu okkar. Bellingham er stærsta borgin á stór-Kielder svæðinu, með á að giska 1.300 íbúa. Þar fundum við stórgóða kaupfélagsbúð og við hliðina á henni byggingarvöruverslun, þar sem hnífapörum, keðjusögum og axlaböndum var stillt upp hlið við hlið. Allt minnti þetta á tíma sem eru að mestu liðnir heima á Íslandi, en þarna voru gestrisni og þjónustulund á heimavelli, auk þess sem þarna fékkst allt sem þurfti. Og svo var líka sæmilegt farsímasamband fyrir utan búðina. Sumu þarf ekki að breyta.

Fyrir utan kaupfélagið í Bellingham.

Eftir velheppnuð sameiginleg matarinnkaup í Bellingham var snæddur kvöldverður á veitingastað rétt utan við Falstone, stutt suðaustur af Kielder-stíflunni sem hlaupaleiðin liggur einmitt yfir.

Daginn fyrir hlaup
Föstudagurinn 5. apríl var dagurinn fyrir hlaup. Svoleiðis dagar eru öðruvísi en allir aðrir dagar, því að þá er hugurinn orðinn fullur af hlaupi og lítið pláss þar fyrir annað. Á svona dögum gæti öðru fólki fundist hlauparar frekar leiðinlegir, en það kemur ekki að sök þegar ekkert annað fólk er til staðar.

Dagurinn fyrir hlaup var m.a. nýttur í langa gönguferð í svölu vorveðri í skóginum. Í þeirri ferð vaknaði sú spurning hvers vegna ár og lækir væru dökk á litinn, en við því fékkst ekkert svar. Á Íslandi er rennandi vatn yfirleitt gagnsætt, nema jökulvatn. Sú skýring dugði ekki þarna.

Gönguferð í skóginum daginn fyrir hlaup.

Af öðrum helstu verkefnum dagsins má nefna útreikninga á akstursvegalengdum – og brautarskoðun, að því marki sem hægt var að framkvæma hana á bíl. Í þeirri ferð keyrðum við m.a. yfir Kielder-stífluna og komumst að því að á bílastæðinu hinum megin við hana er ágætis símasamband og mikið af kanínum. Fyrsta drykkjarstöðin í hlaupinu átti einmitt að vera þarna, u.þ.b. 14 km og 64 km frá rásmarkinu, eftir því hvort hlaupinn væri einn hringur (50 km) eða tveir hringir (100 km) í kringum lónið. Drykkjarstöð nr. 2 var við Lewis Burn, 36 og 86 km frá rásmarkinu og drykkjarstöð nr. 3 við rásmarkið. Þar með var það upptalið. Ekki var hægt að keyra að drykkjarstöðinni við Lewis Burn, sem gerði stuðning við hlauparana ögn flóknari en ella.

Expóið
Seinni part föstudagsins fórum við í Kielder kastalann að sækja hlaupagögnin okkar. Kastalinn reyndist vera gamalt tveggja hæða steinhús og þar á efri hæðinni voru númerin afhent. Framleiðendur íþróttavarnings nota jafnan tækifæri sem þessi til að sýna vörurnar sínar og selja þær með góðum afslætti. Það er það sem hlauparar tala um sem „Expóið“. Kielder var engin undantekning frá þessu, en eðlilega var allt smærra í sniðum en í München og Róm, þar sem ég hafði ráfað um risastórar vöruskemmur á svona degi nokkrum árum fyrr. Í Kielder var expóið bara eitt borð með vörum frá einum framleiðanda. En það var líka alveg nóg.

Fyrir utan Kielder kastalann. (Ljósm. Birkir).

Expóið í Kielder eins og það lagði sig. Búið að sækja gögnin.

Kielder Village Shop
Kielder er lítið þorp. Þar búa líklega um 200 manns sem hafa líklega m.a. atvinnu af því að þjónusta náttúruverndarsvæðið sem afmarkast af Kielder-uppistöðulóninu og skóginum í kringum það. Þarna er a.m.k. einn lítill gististaður, sveitakrá, kaffihúsið í kastalanum, bókasafn og búð, auk bensínstöðvar í útjaðri þorpsins. Og að öðrum viðkomustöðum ólöstuðum var búðin hugsanlega hápunktur ferðarinnar.

Búðin í Kielder fer ekkert fram hjá manni þegar ekið er inn í þorpið, því að þar er stórt skilti sem vísar á hana. Inni í þorpinu eru svo fleiri vegpóstar sem gegna sama hlutverki. Í búðinni fæst hins vegar næstum ekki neitt. Fljótleg vörutalning okkar leiddi í ljós þrjár appelsínur, fimm brauð, rúmlega 20 DVD-diska og nokkrar mjólkurflöskur í goskæli. Þarna áttaði ég mig á að verslun Kaupfélags Bitrufjarðar á Óspakseyri var stórmarkaður. Ég held reyndar að ég hafi vitað það fram á unglingsár, enda var þetta lengi vel eina búðin sem ég hafði komið í. Seinna gleymdi ég því og fór að halda að þetta hefði bara verið örlítil sveitaverslun.

Kielder Village Store fer ekkert fram hjá manni þegar ekið er inn í þorpið.

Fyrir framan búðina í Kielder.

Inni í búðinni í Kielder.

Fyrir aftan búðina í Kielder.

Um kvöldið eldaði Gunnar hakk og spaghettí úr búðinni í Bellingham (ekki Kielder) og ég veit ekki annað en við höfum öll farið södd og sæl að sofa, sum kannski örlítið spennt fyrir morgundeginum.

Síðasta kvöldmáltíðin fyrir hlaup.

Að morgni hlaupadagsins 6. apríl
Við fjögur vorum mætt til Kielder um það leyti sem bjart var orðið, þ.e.a.s. um kl. 6 þennan laugardagsmorgun. Hitastigið var nálægt 0,5°C, sem sagt ekki sérlega hlýtt, en hægviðri og skýjað og því nánast fullkomið hlaupaveður. Birkir og Gunnar voru ræstir af stað í 100 km hlaupið kl. 6:30 ásamt u.þ.b. 40 öðrum hlaupurum, en við Úlfhildur gátum haft það náðugt öllu lengur. Byrjuðum á að keyra niður að Kielder-stíflunni til að fylgjast með köppunum á fyrstu drykkjarstöð (14 km). Ferðin þangað tók þá um 1:25 klst, þannig að þeir voru mættir á staðinn laust fyrir kl. 8, vel útlítandi og eldhressir. Við náðum svo að kíkja á þá aftur á tveimur stöðum á næstu 4 km, þar sem hlaupaleiðin lá nálægt bílveginum. Næstu klukkutímana urðu þeir hins vegar að spjara sig án hvatningar frá okkur.

Gunnar og Birkir í morgunsvalanum, tilbúnir í langþráð 100 km hlaup.

Gunnar á fyrstu kílómetrunum. (Ljósm. Grand Day Out Photography).

Gunnar kominn að Kielder stíflunni. Ekki nema 86 km eftir.

Við Little Whickhope. U.þ.b. 18 km að baki. Þarna fann Birkir grindverk sem hann þurfti aðeins að bregða sér gegnum. Svona hlaup eiga að vera skemmtileg.

Kl. 9:30 lagði Úlfhildur upp í 50 km hlaupið frá Kielder kastalanum ásamt um 150 öðrum og þar með lauk hlutverki mínu sem fararstjóra í bili. Næstu klukkutíma hafði ég engar spurnir af gengi þeirra þriggja, en hugsaði þess meira um sjálfan mig.

Úlfhildur tilbúin í 50 km hlaupið.

Úlfhildur (aftan við miðja mynd) á fyrstu metrunum. Langt og skemmtilegt hlaup framundan.

Hlaupið mitt
Tuttugu mílna hlaupið mitt (32 km) var ræst í Kielder kl. 10:00. Ég lagði af stað í þetta hlaup laus við alla pressu, enda var þetta aukaafurð ferðarinnar en ekki megintakmark. Ég hafði auk heldur hvorki undirbúið þetta hlaup sérstaklega né byggt upp neina spennu – og þarna átti ég auðvitað engan „gamlan tíma“ sem ég „þurfti“ að bæta, eins og gjarnan gerist í götuhlaupum á þekktum vegalengdum.

Í hlaupinu voru 78 þátttakendur, líklega allt Bretar nema ég. Mikil hógværð ríkti við rásmarkið og enginn virtist hafa áhuga á að byrja alveg frammi við línuna. Ég er vanur örlítið meiri ágengni og var því fyrstur af stað og hélt forystunni fyrstu 200 metrana eða svo. Eftir það tóku fljótari hlauparar við og ég bjó mér strax til það tómstundagaman að telja þá sem fóru fram úr mér og fylgjast þannig með í hvaða sæti ég væri. Var fljótlega kominn niður í 10. sæti og svo það tólfta. Fyrstu kílómetrarnir voru frekar erfiðir, upp hlykkjótta skógarstíga, en inn á milli voru bílfærir vegarkaflar. Þegar þarna var komið sögu var hitinn líklega kominn í 3-4°C og aðstæður til hlaupa allar hinar bestu.

Ég sjálfur á fyrstu kílómetrunum. (Ljósm. Grand Day Out Photography).

Eftir 7-8 km fannst mér kominn tími til að fækka fötum, sem tók svolitla stund því að bakpokinn þvældist fyrir. Í honum var skyldubúnaður samkvæmt reglum hlaupsins, þ.m.t. regnföt, álteppi og fullhlaðinn sími, sem er auðvitað öryggistæki í utanvegahlaupi, kannski samt ekki í þessu tiltekna hlaupi þar sem leiðin var nánast öll utan þjónustusvæðis farsímakerfa. En maður hefði þá alla vega getað skoðað myndir af fjölskyldunni á meðan beðið var eftir hjálp sem ekki var hægt að hringja í.

Ég missti nokkra hlaupara fram úr mér á meðan ég fækkaði fötum, en náði þeim fljótlega öllum aftur. Taldist þá til að ég væri í 11. sæti í hlaupinu. Var þó líklega nr. 10. Maður getur alltaf ruglast í tölfræðinni. Stuttu áður en ég kom að drykkjarstöðinni við Kielder stífluna fór ég að ná öftustu hlaupurunum í 50 km hlaupinu. Var sem sagt búinn að vinna upp hálftíma forskot þeirra. Taldi þessa hlaupara líka mér til dundurs og var kominn upp í 10 þegar ég skokkaði niður úr fellunum ofan við drykkjarstöðina.

Við drykkjarstöðina sýndi úrið mitt 13,52 km og 1:19:07 klst, sem þýddi að meðalhraðinn hafði verið um 5:51 mín/km. Ég var vel sáttur við það, enda leiðin seinfarin um krókótta skógarstíga, holt, móa og mýrar. Yfirlýst markmið mitt var að ljúka hlaupinu á innan við 3:30 klst, en annað markmið til eigin nota var að klára þetta á 3:12 klst og til þess þurfti ég að vera á 6:00 mín/km að meðaltali. Ég var sem sagt vel á undan áætlun þegar þarna var komið sögu.

Við drykkjarstöðina skildust leiðir 50 og 100 km hlaupara annars vegar og skemmtiskokkara hins vegar. Leið aðalhlauparanna lá eftir stíflunni og síðan eftir krókaleiðum meðfram lóninu að suðvestanverðu, en ég og mínir líkar beygðu til hægri og hlupu aftur til Kielder eftir greiðfærum göngu- og hjólastíg norðaustan við lónið, (sjá yfirlitskort).

Seinni hluti hlaupsins var einsleitari en fyrri hlutinn þar sem nú var hlaupið eftir fólksbílafærum stíg, sem er reyndar ætlaður göngu- og hjólafólki en ekki bílum. Leiðin var samt svolítið erfið, þar sem hver smábrekkan tók við af annarri. Alla vega hægðist á mér. Verð reyndar að viðurkenna að mér hálfleiddist. Bæði var að ég fann ekki ferskleikann sem hefur fylgt mér lengst af á hlaupaferlinum, og svo hitt að leiðin var tilbreytingarlaus og ég aleinn á ferð að frátöldu hjólafólki sem ég ýmist mætti eða sá á eftir. Stuttu eftir að ég hljóp fram hjá drykkjarstöðinni mætti ég reyndar konu sem hafði verið talsvert langt á undan mér fram að því – og eðlilega fór ég þá að efast um að ég væri á réttri leið. Vissulega voru allar merkingar einstaklega bleikar og greinilegar, en þegar þarna var komið sögu hafði ég ekki séð nein merki lengi. Þau voru líka óþörf þar sem stígurinn var eina mögulega leiðin. Efinn hvarf svo við næsta merki, alllöngu síðar. Seinna í hlaupinu fór þessi sama kona fram úr mér aftur. Hún hefur væntanlega átt aðkallandi erindi á drykkjarstöðina og því ákveðið að leggja lykkju á leið sína.

Eftir 30 km hlaup náði ég að bæta stöðu mína með því að fara fram úr einum þreyttum Breta efst í 1,7 km langri brekku, sem mér tókst að skokka upp þrátt fyrir 100 m hækkun. Eftir það lá leiðin niður krókótta stíga og þó að síðasti áfanginn reyndist drýgri en ég hafði búist við var stutt eftir í markið. Þangað kom ég sæmilega haldinn og úrið mitt sýndi 32,75 km, 3:17:28 klst. og 6:01 mín/km. Ég hafði sem sagt hægt heldur mikið á mér á seinni hlutanum, en það skipti svo sem engu máli. Þetta hafði allt gengið áfallalaust, fyrsta keppnishlaupinu í eitt og hálft ár var lokið og ég í 9. sæti af 78 keppendum. Það var náttúrulega bara fínt, þó að eflaust hafi allir aðalhlaupararnir tekið þátt í 50 eða 100 km hlaupi en ekki „bara“ 32 km.

Í markinu fékk ég lítinn útprentaðan miða með tímanum mínum í hlaupinu og þar koma líka fram að ég hefði verið fyrstur allra í mark í flokki 60-69 ára. Það kom mér reyndar svolítið á óvart, því að snemma í hlaupinu hljóp gráhærður öldungur fram úr mér og ég náði honum aldrei aftur. Eftir á að hyggja var hann kannski miklu yngri en ég. En mér fannst gaman að hafa unnið aldursflokkinn, þó að ég upplifði það svo sem ekki sem neinn stórsigur.

Beðið við Lewis Burn
Eftir að hafa mokað í mig hitaeiningum á marksvæðinu settist ég með nokkrum erfiðismunum inn í bíl og ók sem leið lá áleiðis að drykkjarstöðinni við ána Lewis Burn þar sem ég hafði sagst ætla að hvetja félagana. Samkvæmt tímaáætlun sem ég gerði fyrir hlaupið var von á Úlfhildi þangað í fyrsta lagi kl. 14:30, en við þessa stöð voru 36 km búnir af 50 km hlaupinu. Ferðalagið þangað tók mig drykklanga stund, því að almenningi var bannað að fara þangað keyrandi. Ég þurfti því að leggja bílnum á bílastæði niður við lónið og komast á tveimur jafnfljótum um 2,5 km leið upp með Lewis Burn. Hvorugur þessara tveggja jafnfljótu var fljótur í förum þennan spöl, enda krampar í þeim báðum. Það tók mig nánar tiltekið 23 mín. að skakklappast þennan spotta, sem var að vísu heldur á fótinn. Var kominn á áfangastað kl. 14:33 og þá var Úlfhildur löngu farin hjá að sögn starfsmanna á drykkjarstöðinni. Það voru að vissu leyti vonbrigði en þó fyrst og fremst gleðiefni, því að þetta þýddi að hún var komin langt á undan áætlun.

Drykkjarstöðin við Lewis Burn. Allt frekar smátt í sniðum, en aðbúnaður og viðmót til fyrirmyndar.

Ég átti von á Birki og Gunnari að Lewis Burn á milli kl. 16:04 og 17:48 skv. upphaflegu tímaáætluninni. Hafði fengið upplýsingar á marksvæðinu í Kielder um að þeir hefðu lagt upp þaðan í seinni hringinn kl. 12:17, sem þýddi að tíminn á fyrri hring hafði verið 5:47 klst, sem var mjög nálægt því sem við höfðum reiknað með. Ég beið því hinn rólegasti og hélt á mér hita með því að „ganga um gólf“ á svæðinu. Átti líka gott spjall við breskan jarðfræðing á mínum aldri sem var þarna að bíða eftir dóttur sinni sem líka var meðal þátttakenda í 100 km hlaupinu. Hann var fróður um Ísland og fannst Ófærð frábært sjónvarpsefni.

Birkir birtist við Lewis Burn kl. 17:08 og Gunnar nákvæmlega 48 mínútum síðar. Báðir voru hinir kátustu, þó að auðvitað væri þreytan farin að segja til sín eftir 86 km hlaup. Gunnar sló á létta strengi við starfsfólkið á drykkjarstöðinni sem þáði þó ekki boð hans um bita af sviðasultunni sem hann var með í nesti. Samt útskýrði hann skilmerkilega úr hverju þessi eðalfæða væri gerð. Stórskrýtnir þessir Bretar! Þess má reyndar geta að Birkir og Úlfhildur höfðu bæði tekið sams konar góðgæti með sér að heiman. Hlaupagel eru sennilega orðin úrelt.

Birkir búinn með 86 km og kominn til Lewis Burn, ágætlega hress.

Gunnar kominn niður úr skóginum við Lewis Burn, búinn með 86 km af hólum, hæðum, móum og mýrum.

Þegar þarna var komið sögu var Gunnar orðinn nokkuð laskaður á fæti og sagðist búast við að þurfa að ganga mikið af þessum 14 km sem eftir voru. En hann kveið því ekkert, enda nógur tími til stefnu.

Þegar Gunnar var lagður af stað frá Lewis Burn í síðasta áfangann skokkaði ég aftur niður að bílastæðinu. Sú ferð gekk ögn fljótar en fyrr um daginn, nánar tiltekið rúmar 14 mín. (Þetta var auðvitað allt skilmerkilega skráð).

Allir í mark
Þegar ég kom aftur til Kielder var Úlfhildur auðvitað löngu komin í mark og búin að bíða þar í hátt í þrjá tíma. Hún hafði klárað 50 km hlaupið á 6:29:12 klst. sem var um hálftíma betri tími en við höfðum reiknað með. Sem betur fer hafði hún sett Top Reiter gallann sinn í geymslu á marksvæðinu og í svoleiðis klæðnaði verður manni víst aldrei kalt.

Úlfhildur komin í mark, óþreytt eftir 50 km krefjandi hlaup. (Ljósm. Óþekktur hlaupari).

Rétt eftir að ég mætti á marksvæðið birtist Birkir þar á gríðarlegum endaspretti á 12:12:53 klst. sem var mjög í takti við upprunalega áætlun. Gunnar bættist svo í hópinn rétt um það leyti sem birtu tók að bregða. Tíminn hans var 13:50:10 klst, heilsan bærileg en matarlystin takmörkuð. Þar með voru þessir tveir kappar búnir að hlaupa sig inn í 100 kílómetra félagið, en fá félög setja eins erfið inntökuskilyrði.

Birkir og Úlfhildur á marksvæðinu í Kielder með árangurinn sinn útprentaðan. (Takið eftir Top Reiter gallanum).

Gunnar búinn með langþráða 100 km. Svona gera ekki nema ofurmenni.

Kanínur og vont veður
Þegar allir voru komnir í mark voru enn tvö stórverkefni eftir þennan daginn, annars vegar að láta vini og vandamenn á Íslandi vita að allt hefði gengið vel og hins vegar að reyna að troða í sig sem mestum mat til að vinna upp hluta af brennslu dagsins. Við létum upplýsingamiðlunina ganga fyrir og ókum sem skjótast niður á bílastæðið við Kielder-stífluna þar sem við vissum að hægt væri að komast í samband við umheiminn. Á meðan við vorum þar kom til okkar frekar valdsmannleg kona á sendibíl og sagði okkur að þarna væri bannað að leggja bílum. Okkur kom það reyndar svolítið á óvart, þar sem þetta var jú merkt bílastæði. En þar sem við vildum ekki koma okkur í klandur í útlöndum bjuggumst við til brottfarar. Konan bætti því svo við að þarna væri mikið af kanínum og að ekki væri mjög gott að vera þarna í svona vondu veðri. Við vissum reyndar af þessu með kanínurnar en vorum í óvissu um hlutverk þeirra í sögunni. Þarna í kvöldstillunni var hins vegar ekkert sem minnti á vont veður.

Langþráður kvöldmatur
Eftir löng hlaup er maður oftast bæði svangur og latur að elda. Þess vegna var löngu ákveðið að við myndum finna okkur vel útilátinn kvöldverð á hentugu veitingahúsi, þó að vissulega værum við með vissar efasemdir um samkvæmisklæðnaðinn sem við vorum öll í. Auk þess var síðustu eldhúsum svæðisins lokað kl. 20:00 þetta kvöld sem var í það minnsta hálftíma of snemmt. Þess vegna höfðum við, af mikilli fyrirhyggju, pantað okkur tvöfalda brottnámsborgara (e. take away burgers) á línuna. Þeir voru hitaðir upp og snæddir af áfergju þegar heim í húsið var komið. Matartekjan var að meðaltali sæmileg, en borgarnir voru það svo sem ekki. Einhver minntist á bylgjupappa í því sambandi. En matur er matur, sérstaklega á svona stundum.

Í húsi fyrir fatlaða
Eins og fram hefur komið bjuggum við í húsi sem var byggt sem orlofshús fyrir fatlaða. Úlfhildur var samt sú eina sem bjó svo vel að vera með lyftu yfir rúminu sínu, og þar sem hún var sýnu best á sig komin eftir hlaup dagsins bauð hún 100-körlunum í hópnum að skipta við þá um herbergi. Þeir þáðu það ekki, en viðurkenndu samt daginn eftir að upphækkanir og slár á salernum hússins hefðu komið í góðar þarfir fyrstu klukkutímana eftir hlaup.

Daginn eftir hlaup
Sunnudagurinn var tíðindalítill enda tíðindi laugardagsins nóg fyrir heila helgi. Allar hlaupaæfingar og knattspyrnuleikir féllu niður þennan dag, en við náðum samt ágætum göngutúr. Og seinni partinn komumst við að því að stærsta veitingahúsinu á stór-Kieldersvæðinu er lokað kl. 18 á sunnudögum. Það kom þó ekki að sök, þar sem við fengum ágætan viðurgerning í veitingasal hótels í Bellingham. Þar var meira að segja rífandi netsamband.

Heimferðin
Við tókum mánudaginn snemma og vorum komin mjög tímanlega á flugvöllinn. Brugðum nefnilega á það ráð að afþakka aðra skoðunarferð um sveitir Skotlands í boði konunnar í leiðsögutækinu. Hraðbrautin frá Gretna Green til Glasgow var mun fljótfarnari. Í stuttu máli gekk allt að óskum þennan dag – og hópferðinni sem slíkri lauk í Reykjavík síðdegis.

Utan við húsið okkar eldsnemma að morgni brottfarardags.

Lent í Keflavík. (Ljósm. Starfsmaður í Leifsstöð).

Meginniðurstaða
Ferðin til Kielder var öðruvísi en aðrar ferðir og ég veit að hún verður okkur öllum lengi í minni. Margt var ólíkt því sem maður hélt að það yrði, en allt sem skipti máli gekk fullkomlega upp. Eftir standa minningar og þakklæti fyrir að hafa fengið að upplifa ævintýri þessara daga með góðu fólki sem allt var að takast á við nýjar áskoranir. Og enda þótt hlaupin séu ekki lífið sjálft eins og það leggur sig, þá er þau endurspeglun af lífinu. Þeir sem sigrast á áskorunum í hlaupum styrkjast í vissunni um að þeir geti tekist á við aðrar áskoranir sem bíða á leiðinni framundan.

Þetta tekur sinn tíma

Á hlaupaæfingu með meistara Birki 9. mars í 7 stiga frosti – við Sævang, þar sem keppnisferillinn minn í hlaupum hófst fyrir tæpum 47 árum.

Þessa dagana eru fimm mánuðir liðnir frá því að ég byrjaði að hlaupa markvisst á nýjan leik eftir að hafa verið í hlaupalegum lamasessi nánast allt síðasta ár. Alla þessa fimm mánuði hafa hlaupaæfingar gengið eins og í sögu, að því leyti að ég hef nánast aldrei fundið fyrir verkjunum sem hrjáðu mig áður. Hins vegar hefur sagan ekki gengið eins og hélt að hún myndi ganga, að því leyti að framfarirnar hafa verið hægari en ég bjóst við. Í bloggpistli sem ég skrifaði á aðfangadag sagðist ég hafa „enga ástæðu til að ætla annað en að með vorinu verði ég kominn á nokkurn veginn sama stað og ég var áður en allt þetta vesen byrjaði fyrir alvöru“. Ég bjóst sem sagt við að þurfa u.þ.b. hálft ár til að koma mér í fyrra form. Nú veit ég að þetta var ekki raunhæf áætlun. Segjum eitt og og hálft ár. Ég verð þá orðinn alsprækur í apríl 2020. Ég hef nógan tíma. Þolinmæði er dyggð. Vanþakklæti er löstur.

Æfingarnar síðustu 5 mánuði
Frá því í lok október 2018 hef ég aukið æfingaálagið smátt og smátt. Lengstu hlaupin eru ekki lengur 7-10 km, heldur rúmlega 25 km. Og vikurnar hafa lengst úr því að vera um 20 km í að vera allt upp í 75 km. Það er hreint ekki svo lítið. Stólparit yfir vikuskammtana í nóvember til mars segir sína sögu.

Hlaupnir km í hverri viku nóv 2018 – mars 2019 ásamt aðhvarfslínu sem sýnir þróunina. (Stærri mynd birtist sé smellt á þessa).

Eins og sjá má á stólparitinu hefur þróunin verkið skrykkjótt, en þannig á það líka að vera. Stundum er skrykkirnir áformaðir og stundum tengjast þeir mislöngum vinnutíma. Aðalaatriðið er að aukið æfingaálag hefur ekki haft nein líkamleg vandamál í för með sér. Já, og andlega hliðin hefur yfirleitt talsvert góða fylgni við fjölda og lengd hlaupaæfinga.

Gengur þá ekki bara allt eins og í sögu?
Jú, í rauninni gengur þetta allt eins og í sögu. Það er bara hraðinn sem lætur bíða eftir sér. Löngu hlaupin eru ekki hlaupin á 5:00 mín/km eins og tíðkaðist oft fyrrum. Nú þykist ég góður ef ég get klárað þau á 5:30 mín/km. Ég verð sem sagt ekki kominn í mitt besta form í apríl og markmiðið sem ég var búinn að setja mér fyrir Víðvangshlaup ÍR í vor mun ekki nást. En það er allt í lagi. Ég var hvort sem er ekki búinn að segja neinum frá þessu markmiði, (já, eða alla vega ekki nema einum eða tveimur). Víðavangshlaup ÍR 2020 er skammt undan og þá verður tekið á því.

Auðvitað ætla ég að mæta í Víðavangshlaup ÍR í vor hvað sem hraðanum líður. Ég er meira að segja löngu búinn að ákveða í hvaða skóm ég ætla að hlaupa. Þeir hafa beðið í eitt og hálft ár eftir þessum stóra degi, ónotaðir inni í fataskáp, alla daga síðan þeir voru keyptir í Bregenz í október 2017. Í Bregenz hljóp ég mitt síðasta keppnishlaup til þessa og ég viðurkenni fúslega að ég hlakka mikið til að taka til við þá iðju á nýjan leik eftir eins og hálfs árs hlé. Já, og svo get ég svo sem alveg upplýst um markmiðið fyrir ÍR-hlaupið: Ég stefni að því að hlaupa þessa 5 km undir 22:00 mín. Besti tíminn minn á þessari vegalengd hingað til (í götuhlaupi) er 19:39 mín frá því í Víðavangshlaupi ÍR 2014. Og í eitt skipti var ég lengur en 22 mín. Þá var ófærð og hríð.

Næsta hlaupaverkefni
Næsta hlaupaverkefnið mitt er reyndar ekki Víðavangshlaup ÍR, heldur svokallað Kielder Ultra hlaup í Bretlandi sem fer fram um næstu helgi (laugardaginn 6. apríl). Þangað fer ég sem sérlegur stuðningsmaður og fjölmiðlafulltrúi hlaupafélaga minna, Gunnars og Birkis, sem eru að fara að hlaupa sitt fyrsta 100 km hlaup, af því að nú eru þeir samtals 100 ára. Og svo verður Úlfhildur þarna líka, en hún er miklu yngri og þarf þess vegna ekki að hlaupa „nema“ 50 km. Ég sé um vatnsbrúsana og að setja myndir á Facebook.

Hvað segir fólk?
Ég fer yfirleitt ekkert sérstaklega leynt með áhuga minn á hlaupum og hvar sem ég kem eru hlaup eitt helsta umræðuefnið. Í þeim umræðum fæ ég margar gagnlegar ábendingar og auðvitað aðrar minna gagnlegar, eins og gengur. Stundum er ég minntur á að ég sé náttúrulega maður á sjötugsaldri og að kannski sé bara kominn tími til að taka því aðeins rólega. Ég geti örugglega haldið áfram að hlaupa ef ég endilega vil, en það sé kannski skynsamlegt að hætta að hlaupa svona oft, svona langt, svona hratt eða svona … eitthvað. Auðvitað þigg ég allar ábendingar með þökkum, enda felst umhyggja í þeim öllum. Og auðvitað veit ég að menn á sjötugsaldri geta búist við að eitthvað hægist á þeim á hlaupum. En þrátt fyrir það finnst mér sjálfsagt að stefna að því að komast aftur á þann stað sem ég var á fyrir meiðsli. Þau fræði sem ég hef lesið segja að gera megi ráð fyrir u.þ.b. 0,7% afturför á hverju ári. Þess vegna er engin ástæða til að sætta sig við 5% eða 10% á tveimur árum. Það eina sem þarf að gera til að halda sér nálægt fyrri getu er að æfa aðeins betur – á meðan maður getur. Vissulega mun mér fara aftur með aldrinum. Ég ætla bara ekki að hafa frumkvæði að þeirri þróun.

Lokaorð
Sjáumst sumardaginn fyrsta í Víðavangshlaupi ÍR í miðborg Reykjavíkur. Og ef eitthvað markvert gerist í hlaupaævisögunni minni fyrir þann tíma mun ég örugglega ekki þegja yfir því.

Hlaupaannáll 2018 og markmiðin 2019

Um áramót er ég vanur að gera upp nýliðið hlaupaár og gefa yfirlýsingar um fyrirhuguð afrek á nýja árinu. Ég ætla ekki að bregða út af þessari venju núna, þó að þetta nýliðna hlaupaár hafi verið óvenjulegt – og sé auk þess ekki lengur nýliðið.

Hlaupaárið 2018 í stuttu máli
Hlaupaárið 2018 var eiginlega ekki hlaupaár frá mínum bæjardyrum séð, þar sem ég notaði nánast allt árið í að glíma við þrálát meiðsli sem komu að mestu í veg fyrir hlaup. Líklega byrjuðu þessi vandræði að gera vart við sig árið 2016, en svona nokkuð getur verið að grafa um sig í langan tíma án þess að maður geri sér grein fyrir því. Í október 2016 var ég alla vega farinn að fá einhverja verki í rassvöðva og niður eftir vinstra lærinu að aftan, sérstaklega eftir löng hlaup og langar setur í bíl. Mér tókst hins vegar að humma þetta fram af mér lengi vel, alveg fram til 20. janúar 2018. Þá varð mér loksins ljóst að lengra yrði ekki haldið á þeirri braut sem ég var á, því að þann dag var verkurinn orðinn svo slæmur að ég gat með naumindum skrönglast heim úr annars venjulegum hlaupatúr á laugardagsmorgni. Næstu mánuði lagaðist ástandið ekki neitt þrátt fyrir tilraunastarfsemi af ýmsu tagi. Í lok september var loks lagður hornsteinn að lausn vandans, í lok október var ég farinn að geta skokkað stuttar vegalengdir vandræðalaust á litlum hraða og í árslok var ég hættur að finna til svo orð væri á gerandi. En það mun taka margar vikur (eða mánuði) til viðbótar að byggja upp eðlilegt hlaupaform.

Meiðslavandræðin gerðu það að verkum að ég náði engu af þeim hlaupamarkmiðum sem ég setti mér í ársbyrjun 2018, nema því að taka a.m.k. 28 styrktaræfingar frá áramótum til aprílloka. Því markmiði „rúllaði ég upp“, því að styrktaræfingarnar á þessu tímabili urðu samtals 46. Hin markmiðin fóru öll forgörðum og mér tókst ekki einu sinni að hafa gleðina með í för í öllum hlaupum. Sömuleiðis varð þetta ástand til þess að ég tók ekki þátt í einu einasta keppnishlaupi og öllum fjallvegahlaupum var aflýst. Það jákvæðasta á þessu hlaupaári var að ég hætti aldrei að leita að lausninni á meiðslavandamálinu mínu þó að mánuðirnir streymdu hjá.

Æfingarnar
Árið fór bara vel af stað, æfingalega séð. Ég mætti tvisvar í viku í ræktina og hljóp úti þrisvar í viku, þ.á.m. 30 km túra á laugardögum, þó að ég væri reyndar orðinn frekar slæmur í vinstra lærinu og þar í kring. Laugardaginn 20. janúar hljóp ég svo Háfslækjarhringinn (21,7 km) (í 139. sinn frá upphafi) í frekar þungu færi og fann þá fljótt að ekki var allt með felldu. Kláraði samt hringinn og „hökti heim með harmkvælum. Einhverjar breytingar framundan“, eins og ég skrifaði í dagbókina þennan dag.

Ég ætla ekki að rekja þróun mála eftir 20. janúar í smáatriðum hér, enda hef ég gert henni ærin skil í þremur bloggpistlum (Brjósklos til batnaðar? 11. mars 2018, Sjúkrasaga Stefáns jan-sept 23. september og Sjúkrasaga Stefáns sept-des 4. desember). Í stuttu máli hélt ég stundum að ég væri búinn að finna lausnina og byrjaði þá að reyna að hlaupa eitthvað. En ég endaði alltaf aftur á byrjunarreit, ákvað að veðja á nýja lausn – og svo koll af kolli. Lausnin fæddist svo loks á fundi með David McGettigan í Reykjavík 25. september, þar sem mér var í fyrsta sinn bent á að verkur í tilteknum líkamshluta þyrfti ekki endilega að þýða að eitthvað væri skemmt í þessum sama líkamshluta, enda væri verkur í rauninni bara frásögn sem gæti brenglast í meðförum, svona rétt eins og hver önnur kjaftasaga. Þetta gæti sem sagt snúist um oftúlkun heilans á boðum um tiltölulega saklaust áreiti.

Í lok október fór ég í fyrsta tímann af mörgum hjá Guttormi Brynjólfssyni, naprapat, þar sem áfram var unnið með taugaboð og jafnvægi. Um svipað leyti, nánar tiltekið 29. október, byrjaði ég að hlaupa eftir heimatilbúinni áætlun, sem líktist venjulega æfingaprógrammi deilt með 5. Þannig varð lengsta hlaup vikunnar kannski 7 km í stað þess að hafa stundum verið 35 km áður en þessi vandræði byrjuðu af fullum þunga. Og hraðinn var oft í námunda við 6 mín/km í stað þess að vera um 5 mín/km. Þar var svo sem ekki deilt með 5, en allt samt býsna frábrugðið því sem áður hafði tíðkast.

Síðustu 9 vikur ársins hljóp ég reglulega þrisvar í viku og vegalengdirnar og hraðinn jukust smátt og smátt. Lengsta vikan á þessu tímabili fór í 35 km, lengsta hlaupið var 18 km og á góðum degi var hraðinn gjarnan um 5:40 mín/km. Efirfarandi stólparit yfir vikuskammta ársins segir sína sögu.

Vikuleg hlaup 2018. (Stærri mynd birtist ef smellt er á þessa).

Eins og ráða má af myndinni gerði ég nokkrar misheppnaðar tilraunir á árinu til að ná upp hlaupamagninu. Í febrúar og mars stundaði ég t.d. sundhlaup í talsverðum mæli. Umreiknaði þau og færði til bókar. Í apríl hljóp ég smávegis utandyra en fann svo að það gekk ekki upp. Eitthvað reyndi ég líka yfir sumarmánuðina en varð alltaf frá að hverfa áður en langt um leið. Best gekk mér með Hafnarfjallið. Síðustu vikur ársins var hins vegar nokkuð jafn stígandi í hlaupamagninu eins og sjá má.

Sjálfsmynd á Hafnarfjallinu 29. ágúst.

Í heild varð árið eðlilega með stysta móti í kílómetrum talið. Eftir að ég komst af stað í lok október eygði ég þó möguleika á að teygja vegalengdina upp í samtals 1.000 km. Það fannst mér ágætt markmið í sjálfu sér, þó að ég gætti þess reyndar mjög vel að auka álagið aldrei mikið á milli vikna. Þetta markmið náðist. Á árinu 2018 hljóp ég sem sagt samtals 1.000,12 km sem er eðlilega það stysta hin síðari ár, en samt lengra en árið 1996 þegar ég hljóp mitt fyrsta maraþon.

Árlegir hlaupaskammtar 1985-2018. (Stærri mynd birtist ef smellt er á þessa).

Skemmtihlaupin
Yfirleitt stend ég fyrir eða stuðla að þremur skemmtihlaupum á ári, þ.e.a.s. hinum árlega Háfslækjarhring og matarveislu á uppstigningardag, Þrístrendingi og Hamingjuhlaupinu. Þrístrendingur féll niður þetta árið, þar sem hvorugur aðstandandinn (ég og Dofri frændi minn) var í standi til að láta hlaupið verða að veruleika. Hin tvö hlaupin fóru hins vegar fram þótt ég hlypi lítið.

Hinn árlegi Háfslækjarhringur var hlaupinn 10. maí 2018, 9. árið í röð. Hlaupaleiðin er heimanað frá okkur hjónunum í Borgarnesi, framhjá fólkvanginum í Einkunnum, vestur að Langá og aftur heim. Og þegar hlaupið er búið er Björk jafnan búin að elda kjötsúpu eða grilla nokkur læri ofaní mannskapinn. Hringurinn er rúmlega 21 km og samkvæmt lauslegri talningu luku 17 manns hlaupinu þetta árið, auk þess sem tveir voru á hjólum. Sjálfur skokkaði ég hluta af leiðinni og stytti mér svo leið heim yfir þúfur og mýri. Var viku að ná mér. Hvað sem því leið var þarna líklega slegið þátttökumet þar sem ekki finnast heimildir um fleiri en 16 hlaupara á fyrri árum. Að hlaupi loknu tók við hefðbundin lambakjötsveisla í boði Bjarkar og að því loknu var dagurinn gerður upp í heita pottinum.

Síðasti og reynslumesti ráshópurinn tilbúinn í Háfslækjarhringinn.

Hamingjuhlaupið fór fram í 10. sinn laugardaginn 30. júní. Að þessu sinni var hlaupið sunnan úr Geiradal eftir gamla bílveginum yfir Tröllatunguheiði og svo áfram til Hólmavíkur, þar sem hlaupið endaði með tertuhlaðborði að vanda. Sjálfur gat ég náttúrulega ekki hlaupið með en naut þess í staðinn að sniglast i kringum hlauparana. Skokkaði reyndar með þeim síðasta kílómetrann, bara til að sýnast.

Í Geiradal við upphaf Hamingjuhlaupsins 2018. Flest þetta fólk hljóp alla leið til Hólmavíkur (um 35 km) og sumir í hópnum gerðu garðinn frægan í ofurhlaupum (allt að 100 km) annars staðar í heiminum síðar um sumarið.

Staða og horfur
Staðan í upphafi ársins 2019 var sú að ég gat hlaupið verkja- og vandræðalaust. Það hefur haldist en enn á ég mjög langt í land við að ná fyrri getu. Þar munar mestu um styrk og hraða. Líklega hafa einhverjir vöðvar verið duglegir við að rýrna á þeim tíma sem ég hljóp sem minnst – og í þokkabót var ég líka latur við að fara í ræktina allan síðari hluta ársins. Þar hefði ég getað gert betur. Í þessu atriði örlar kannski örlítið á öldrun, því að rýrnunin er sögð verða hraðari þegar árin færast yfir og uppbyggingin að sama skapi hægari. Í þesum efnum er ekkert ómögulegt, en líklega líða mánuðir þangað til ég verð kominn nokkurn veginn á þann stað sem ég vil vera á. Þolið er hins vegar á góðri leið, enda er almennt fljótlegra að byggja upp þol en styrk, auk þess sem ég hef alltaf verið meira þolinn en sterkur.

Næstu vikur ætla ég að reyna að vinna meira með styrkinn en þolið, með það að markmið að verða orðinn slarkfær 5 km hlaupari fyrir sumarbyrjun. Sumardaginn fyrsta ætla ég svo að ganga úr skugga um hvernig til hafi tekist. Þá ætla ég sem sagt að mæta í fyrsta alvöru keppnishlaupið frá því í Þriggjalandamaraþoninu í Bregenz 8. október 2017, nánar tiltekið í Víðavangshlaup ÍR.

Upp úr því þarf svo að fara að huga að lengri hlaupum og fjallabrölti, því að ég er búinn að skrá mig í Laugavegshlaupið 13. júlí nk. – og þar langar mig ekki til að vera klukkutíma lengur á leiðinni en ég er vanur. (Ég er sem sagt „vanur“ að hlaupa Laugaveginn á 5:41-6:41 klst. Hef gert það fjórum sinnum). Í september ætla ég svo að hlaupa heilt maraþon í Tallinn. Þá þarf allt að vera komið í toppstand.

Markmiðin 2019
Markmið eru lykillinn að árangri, bæði í hlaupum og í öðrum þáttum lífsins. Þess vegna held ég þeim upptekna hætti að setja mér nokkur hlaupamarkmið í upphafi nýbyrjaðs árs. Að þessu sinni miðast markmiðin fyrst og fremst við að ljúka tilteknum verkefnum, hvort sem það tekur fleiri eða færri mínútur. Það þýðir ekki að keppnismaðurinn í mér sé genginn fyrir ætternisstapa. Í ljósi þess hvernig hlaupin hafa gengið (eða ekki gengið) síðustu mánuði ætla ég fyrst um sinn að halda fyrir sjálfan mig þeim markmiðum sem hægt er að mæla í sekúndum, mínútum og klukkustundum. Þau eru þarna samt – einhvers staðar á bak við.

Hlaupamarkmið ársins 2019 eru sem sagt eftirfarandi:

  1. A.m.k. eitt 5 km keppnishlaup fyrir lok apríl
  2. A.m.k. eitt 10 km keppnishlaup fyrir lok maí
  3. A.m.k. eitt hálft maraþon fyrir lok júní
  4. Laugavegurinn heilu og höldnu 13. júlí
  5. Maraþonhlaup fyrir lok september
  6. A.m.k. 7 fjallvegahlaup
  7. Gleðin með í för í öllum hlaupum (endurnotað og sígilt)

Lokaorð
Þetta nýja ár byrjar á sömu tilfinningu og gamla árið endaði á, þ.e.a.s. þakklæti. Stundum finnst mér þróunin ískyggilega hæg, en núna get ég alla vega hlaupið vandræðalaust – sem ég gat alls ekki fyrir ári síðan. Það er ekki sjálfgefið að geta stundað þetta áhugamál áratug eftir áratug og ég geri mitt besta til að stjaka frá mér neikvæðum hugsunum þótt hlaupin séu erfið, hraðinn lítill og framfarirnar takmarkaðar. Ég mun ekki slá nein persónuleg met á næstu mánuðum, en ég er kominn af stað og sé fram á bjarta tíma, bæði í huga og undir berum himni.

Sjúkrasaga Stefáns sept-des 2018

Þann 23. september sl. skrifaði ég afskaplega langan bloggpistil um þrálát meiðsli sem þá höfðu haldið mér frá hlaupum allar götur frá 20. janúar, þ.e.a.s. hlaupum „í eðlilegri merkingu þess orðs“ eins og það var orðað í pistlinum. Núna, þremur mánuðum síðar, er ekki úr vegi að birta nýtt yfirlit yfir stöðu mála. Meginniðurstaða þessa nýja yfirlits er að staðan er orðin miklu betri en hún var í september. Lausnin sem ég leitaði að er sem sagt að öllum líkindum fundin. Ég á bara eftir að vinna aðeins meira með hana.

Tímabilin fimm
Í septemberpistlinum skipti ég meiðslasögunni minni í 5 tímabil:

  1. Undirbúningstímabilið frá því fyrir löngu og fram í desember 2016
    Þetta var tímabilið þegar ég kom mér upp margnefndum vandræðum og þróaði þau.
  2. Piriformistímabilið desember 2016 – 20. febrúar 2018
    Þetta var tímabilið þegar lélegur piriformisvöðvi (peruvöðvi) utanvert á vinstri mjöðm var talinn helsti sökudólgurinn.
  3. Brjósklostímabilið 20. febrúar – 30. apríl 2018
    Þetta var tímabilið frá því að segulómun leiddi í ljós brjósklos á milli neðsta lendarliðar (L5) og efsta spjaldliðar (S1) og þangað til ég var hættur að trúa því að brjósklosið væri aðalástæðan.
  4. Festumeinstímabilið 1. maí – 7. júní 2018
    Þetta var tímabilið þegar ég var viss um að vandamálið lægi í úr sér gengnum sinafestum á efri enda aftanlærisvöðvans.
  5. Spjaldliðartímabilið 7. júní – 25. september 2018
    Þetta var tímabilið þegar takmarkaður hreyfanleiki spjaldliðar var talin helsta orsök vandans.

Aðgerðarleysistímabilið
Þann 25. september hófst nýr kafli í sjúkrasögunni. Og þó að sá kafli einkenndist af meiri svartsýni en öll hin tímabilin, þá leyndist lausnin eftir á að hyggja á milli línanna í honum. Það var þarna sem Írinn David McGettigan kom til sögunnar. David er sjúkraþjálfari sem beitir nýstárlegri nálgun, m.a. því sem kallast P-DTR (Proprioceptive – Deep Tendon Reflex). Hægt er að fræðast meira um það allt saman á heimasíðunni hans (https://www.davidmcgettiganclinic.com).

Ég heyrði David McGettigan fyrst nefndan í íþróttavöruverslun í Mora í Svíþjóð í ágúst þegar ég var að fylgja hlaupafélögunum í Ultravasan-90. Þetta var hlaupið sem ég hafði stefnt á sem toppinn á vel heppnuðu hlaupaári, en þátttaka mín í hlaupinu var löngu afskrifuð þegar þetta var. Ég var sem sagt bara þarna að leita mér að merktum bol til að eiga til minningar um hlaupið sem ég fór ekki í – og þá birtist þarna sænskur afgreiðslumaður, sem reyndist vera sjúkraþjálfari að aðalstarfi. Og til að gera langa sögu stutta var það hann sem kom mér í samband við David. Þetta var of góð byrjun á sögu til að láta hana ekki eignast framhald.

Þann 25. september hitti ég sem sagt David McGettigan í Reykjavík. Eftir ítarlega skoðun og greiningu lét hann í ljós það álit sitt að líkurnar á að vandamálið mitt stafaði af skemmdum í stoðkerfinu væru í mesta lagi 5%. Vissulega væri ég með brjósklos, en hann fann engin merki um að verkurinn tengdist því. Hann minnti líka á, sem ég vissi reyndar fyrir, að mjög hátt hlutfall fólks á mínum aldri er með einhverjar einkennalausar skemmdir í hrygg. Þetta var í góðu samræmi við það sem ónefndur sjúkraþjálfari hafði sagt við mig um vorið þegar hann líkti því sem sást á segulómunarmyndinni við grá hár.

David taldi sem sagt 95% líkur á að málið snerist um oftúlkun heilans á boðum um tiltölulega saklaust áreiti á einhvern vöðva eða líkamspart. Verkurinn sem var að angra mig gæti hugsanlega verið afleiðing áverka, uppskurða eða annarra áfalla, líkamlegra eða andlegra, jafnvel þótt löngu virtist gróið um heilt.

Eftir greininguna hófst sjálf meðferðin og að henni lokinni sagði David að hann væri hugsanlega búinn að lagfæra villuna sem leiddi til verksins, en það ætti þá að vera komið í ljós innan fjögurra daga eða svo. Sú varð þó ekki raunin og ástandið á mér tók engum stakkaskiptum við þetta. En þrátt fyrir það var þarna búið að sá fræi sem hefur spírað vel síðan.

Eftir fundinn með David vissi ég hreint ekki hvernig ég ætti að snúa mér í málinu. Ég sá eiginlega engan tilgang í að reyna að halda áfram að hlaupa, því að það var alltaf álíka vont og sama mátti segja um flestar þær æfingar sem ég hafði verið að reyna að gera. Ekkert af þessu skilaði heldur neinum merkjanlegum árangri. Það var ekki fyrr en undir lok októbermánaðar sem ég fann leið út úr aðgerðarleysinu.

Naprapattímabilið
Þann 31. október fór ég í fyrsta tímann af mörgum til Guttorms Brynjólfssonar naprapats. Naprapati er ein af stærstu heilbrigðisstéttum Norðurlandanna i háþróaðri stoðkerfismeðhöndlun og greinin hefur verið löggilt starfsgrein í Svíþjóð og hluti af sænska heilbrigðiskerfinu allar götur síðan 1994. Hins vegar virðast fáir Íslendingar kannast við fyrirbærið, ef marka má samtöl mín síðustu vikur við fólk á förnum vegi.

Ég frétti fyrst af Guttormi og aðferðum hans í Fréttablaðinu einhvern tímann í haust og eftir að ég birti sjúkrasögubloggpistilinn minn 23. september fékk ég ábendingar frá þremur hlaupavinum um að þetta væri kannski eitthvað sem ég ætti að skoða betur. Mig skortir þekkingu til að lýsa þessum fræðum af neinu viti, en þau ganga m.a. út á að skoða virkni miðtaugakerfisins og hvernig það stýrir því sem vöðvarnir gera. Nálgunin er ekki sú sama og í P-DTR, en grunnhugmyndin er engu að síður svipuð eins og ég skil hana, þ.e.a.s. að verkur í vöðva stafi ekkert endilega af einhverjum áverka á vöðvanum, heldur geti hann allt eins stafað af einhverju allt öðru sem hefur frekar með taugaboð en eiginlega áverka að gera.

Til að gera langa sögu stutta er ég búinn að fara 11 sinnum til Guttorms þegar þetta er skrifað og þess á milli hef ég gert fáeinar einfaldar og fljótlegar æfingar sem snúast miklu meira um jafnvægi og einbeitingu en um leiðleika og styrk. Á þessu tímabili er ég líka búinn að heimsækja David McGettigan öðru sinni. Í samráði við þessa kappa hef ég tekið til við hlaupin á nýjan leik, enda ekkert sem bendir til að þau hafi bein áhrif til hins verra á verkina. Þvert á móti er hreyfingin nauðsynlegri en flest eða allt annað í þessari stöðu. Og fyrst vöðvarnir sem verkirnir virðast búa í eru óskemmdir, þá er afar ólíklegt að þeir versni neitt við skynsamlega notkun.

Ég byrjaði sem sagt að hlaupa reglulega í lok október og hef síðan hlaupið reglulega þrisvar í viku. Nú eru liðnar 8 vikur af því tagi. Til að byrja með voru lengstu hlaupin 5-6 km og hraðinn oftast um eða rétt innan við 6 mín/km. En svo hefur þetta lengst smátt og smátt. Nú er vikuskammturinn kominn í rúma 30 km, lengsta hlaupið í tæpa 17 km og venjulegur hraði 5:30-5:45 mín/km. Og öll þessi 8×3 hlaup hafa verið verkjalaus eða því sem næst. Mér líður eins og ég hafi verið leystur úr álögum og ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að með vorinu verði ég kominn á nokkurn veginn sama stað og ég var áður en allt þetta vesen byrjaði fyrir alvöru fyrir tæpu ári síðan. Á næstunni bæti ég væntanlega fjórðu æfingunni við vikuna og fer að leggja aukna áherslu á styrk og hraða. Mjög löng hlaup fá að bíða eitthvað lengur en gætu farið að koma meira inn í áætlunina þegar vorar. Og auðvitað halda jafnvægis- og einbeitingaræfingarnar áfram enn um sinn. Þetta snýst m.a. um að kenna vöðvum og miðtaugakerfi nýtt samspil og það verður ekki gert á einni nóttu.

Lærdómurinn
Allt þetta ferli hefur verið afskaplega lærdómsríkt og ég tel mig vera mun betur staddan en ég var áður en það hófst. Auðvitað langar hvorki mig né aðra hlaupara til að missa marga mánuði úr, en ég er samt þakklátur fyrir þetta óumbeðna tækifæri til að víkka sjóndeildarhringinn.

Eitt af því sem ég hef lært er að líkamanum dugar yfirleitt hálft ár til að lagfæra nánast hvað sem er, nema ef eitthvað er beinlínis ónýtt eða farið í sundur. Ef verkur er enn til staðar eftir að hálft ár er liðið frá því að vandræðin byrjuðu, þrátt fyrir markvissa sjúkraþjálfun og alls konar skynsamlegar styrktar- og liðleikaæfingar, á verkurinn sér líklega flóknari skýringar, sem geta sem best átt lögheimili í miðtaugakerfinu frekar en í vöðvanum sjálfum. Hvorki meiri æfingar, verkjalyf eða sprautur eru líklegar til að vinna bug á svoleiðis verk, nema þá í stutta stund.

Annað sem ég lærði snemma í þessu ferli er að myndgreiningar leiða ekkert endilega í ljós ástæður tiltekins verkjar. Þær gefa bara vísbendingar um hugsanlegar ástæður. Tengsl orsakar og afleiðingar eru oft miklu flóknari en fólk langar til að trúa. Flestir karlar á sjötugsaldri eru t.d. með einhverja einkennalausa missmíði í hryggnum. Einkenni sem menn finna fyrir geta allt eins stafað af einhverju allt öðru. Missmíði sem birtist á mynd er kannski bara eins og hvert annað grátt hár, sem sagt vissulega vísbending um að æskan sé að baki en alls ekki vísbending um sjúklegt ástand. Ástandið á manni batnar ekkert þótt reynt sé „að lækna myndina“.

Langvarandi verkir eru ekki eðlilegt ástand, hvort sem maður er á þrítugsaldri eða sjötugsaldri. Suma verki er sjálfsagt engin leið að losna við, en líkurnar á að verkirnir sem maður finnur fyrir séu af því taginu eru litlar. Maður má aldrei gefast upp í leitinni að betra lífi, jafnvel þótt leiðin þangað bjóði ekki upp á neinar skyndilausnir. Lífið er langhlaup og mikið þolinmæðisverk.

Sjúkrasaga Stefáns jan-sept 2018

Þessa dagana eru liðnir 8 mánuðir síðan ég gat síðast hlaupið í eðlilegri merkingu þess orðs. Þann 20. janúar sl. var mér sem sagt orðið ljóst að lengra yrði ekki haldið á þeirri braut sem ég var á, því að þann dag var gamalkunnur verkur í vinstri mjöðminni og í vinstra lærinu orðinn svo slæmur að ég gat með naumindum skrönglast heim úr annars venjulegum hlaupatúr á laugardagsmorgni.

Undirbúningstímabilið
Verkurinn í vinstri mjöðminni og í vinstra lærinu fæddist ekki 20. janúar, heldur einhvern tímann löngu fyrr. Reyndar hef ég ekki hugmynd um hvenær þetta byrjaði. Allir finna einhvern tímann til einhvers staðar, jafnt hlauparar sem aðrir, og smávegis óþægindi hér og þar gleymast fljótt. Forsaga málsins gæti þess vegna sem best náð nokkur ár aftur í tímann. Það fyrsta sem ég man alveg með vissu er að föstudaginn 21. október 2016 ók ég Toyota Yaris bílaleigubíl frá Hnappavöllum í Öræfum alla leið í Borgarnes og þurfti að fara út úr bílnum nokkrum sinnum á leiðinni af því að ég var kominn með svo mikla verki í setbeinið vinstra megin og þar í kring. Vissulega var leiðin í lengra lagi og bíllinn í minna lagi og sjálfsagt átti það sinn þátt í þessu, en einhvern veginn held ég að ég hafi ekki verið ókunnugur þessum verk á þessum tíma. Daginn eftir hljóp ég hins vegar maraþon í Reykjavík án nokkurra sérstakra vandræða.

Næstu vikur og mánuði ágerðist verkurinn heldur, aðallega ef ég sat lengi eða hljóp langt. Um miðjan desember 2016 var þetta orðið svo slæmt að ég tók mér frí frá hlaupum í nokkra daga og reyndi að komast í botns í málinu með Halldóru sjúkraþjálfara í Borgarnesi, sem síðan þá hefur öllum öðrum fremur verið stoð mín og stytta í þessu máli. Þar með hófst nýr kafli í þessari sögu eða nýtt tímabil.

Piriformistímabilið
Niðurstaðan úr vangaveltum desembermánaðar 2016 var að verkirnir þarna vinstra megin stöfuðu líklega af of stuttum, veikburða og stífum peruvöðva (piriformis) utanvert á sitjandanum. Stærsta taug líkamans, settaugin (nervus sciatica), liggur undir þessum vöðva eða jafnvel í gegnum hann á leið sinni frá hryggnum og niður aftanvert lærið – og ef vöðvinn er stuttur, stífur og bólginn getur hann þrengt að tauginni og framkallað verk sem leiðir eitthvað þarna niður á við. Þetta er algengt vandamál, ekki síst hjá fólki sem situr of mikið og sinnir ekki styrktar- og teygjuæfingum nógu vel. Hvort tveggja á vel við mig, ekki bara í nútímanum, heldur líka í öllum aðalstörfum mínum síðan ég útskrifaðist úr Háskóla Íslands vorið 1982. Fyrir þann tíma var ég auk heldur búinn að sitja á skólabekk í allmörg ár.

Ég var byrjaður að hlaupa aftur fyrir árslok 2016. Um þær mundir var ég að leggja lokahönd á Fjallvegahlaupabókina sem kom út á sextugsafmælinu mínu 18. mars 2017. Því fylgdu miklar og langar setur flest kvöld eftir vinnu, á frekar lélegum skrifborðsstól við skrifborðið heima hjá mér. Skriftartörninni lauk snemma í febrúar og á þessum tíma var ég oft svo slæmur að ég gat varla staðið upp frá tölvunni. En verkurinn leið hjá þegar ég var búinn að staulast nokkur skref með limaburði níræðs manns. Mér fannst þetta hins vegar ekki há mér mikið á hlaupum. Um þessar mundir hljóp ég gjarnan 30 km túra á laugardögum og fór létt með það. Var samt alltaf verri fyrst á eftir, sérstaklega ef ég fór í langan bíltúr seinna sama dag. Reyndar hittist svo skemmtilega á, ef þannig má að orði komast, að afmælisdagurinn var hvað verstur. Þann morgun tók ég mjög langan hlaupatúr að vanda og síðan var ekið til Reykjavíkur í útgáfuhóf Fjallvegahlaupabókarinnar. Síðustu kílómetrarnir í bílnum voru hreint kvalræði. En svo leið það fljótt hjá þegar ég var staðinn upp.

Sumarið 2017 var ekki eitt af bestu hlaupasumrunum mínum, en peruvöðvinn átti litla sök á því. Þar komu önnur heilsufarstengd atvik við sögu. Í júlí hljóp ég Laugaveginn í 4. sinn og gekk eftir atvikum vel, að öðru leyti en því að ég datt og axlarbrotnaði þegar 5 km voru eftir. Í framhaldi af því fékk peruvöðvinn frí í sjúkraþjálfunartímunum, því að auðvitað var endurhæfing axlarinnar sett í forgang. Sú endurhæfing gekk einstaklega vel og í dag er öxlin miklu betri en hún var fyrir brot. Þetta var því axlarbrot til batnaðar, þó að það skipti reyndar litlu máli í þeirri sjúkrasögu sem hér er verið að skrifa.

Haustið 2017 hljóp ég maraþon í útlöndum, nánar tiltekið í Bregenz í Austurríki og þar í kring. Þar fann ég vissulega fyrir þeim óþægindunum sem hér eru til umræðu en ég held að þau hafi ekki háð mér neitt. Hins vegar var ég nýtognaður í læri, þannig að ég hafði nóg annað til að hugsa um. Maraþonið gekk vonum framar miðað við aðstæður.

Þegar komið var fram á vetur féllu styttri hlaupaæfingarnar mínar oft niður, sjálfsagt vegna þess að ég hafi haft mikið að gera í vinnunni á virkum dögum. En laugardagarnir voru oftast lausir og þá hljóp ég yfirleitt langt, þ.e.a.s. 25-35 km. Eftir á að hyggja var þetta vont æfingaprógramm og ég mér leið yfirleitt ekkert sérstaklega vel vinstra megin eftir lengstu hlaupin – og verr eftir því sem færið var erfiðara. En ég leiddi það hjá mér. Maður finnur svo sem alltaf til einhvers staðar. En svo þegar ég hljóp Háfslækjarhringinn enn eina ferðina með uppáhalds hlaupafélögunum 20. janúar 2018 vissi ég að þessu tímabili væri lokið. Síðan þá hef ég ekki getað hlaupið í eðlilegri merkingu þess orð, eins og ég gat um í upphafi þessa pistils.

Þegar hér var komið sögu var enn lagst yfir málið í hverjum sjúkraþjálfunartímanum á fætur öðrum og til að gera langa sögu stutta varð það úr að ég færi í segulómun (MRI) til að hægt væri að átta sig betur á hvað væri eiginlega í gangi. Niðurstöðurnar lágu fyrir 20. febrúar 2018 og þá hófst nýtt tímabil í sjúkrasögunni.

Brjósklostímabilið
Segulómunin leiddi í ljós að ég var með brjósklos á milli hryggjarliða L5 og S1, þ.e.a.s. alveg neðst í hryggnum á mörkum neðsta lendarliðs og spjaldhryggs. Þar með var ég kominn með nýtt verkefni fyrir næstu vikur og um leið breyttust áherslur í æfingum og sjúkraþjálfun. Ég fjárfesti til að mynda í þar til gerðu flotbelti og gerðist ákafur sundhlaupaiðkandi. Var gjarnan mættur í djúpa endann í sundlauginni í Borgarnesi klukkan hálfsjö á morgnana og hljóp þar í hálfu kafi í næstum klukkutíma þegar mest var. Tilgangurinn var að viðhalda hlaupaforminu að einhverju leyti, án þess að hryggurinn þyrfti að standa í einhverju stappi. Þessar æfingar fóru vel með skrokkinn og voru frískandi en ég náði kannski aldrei alveg nógri áreynslu út úr þessu.

Sundskokkstímabilið stóð frá 24. febrúar til 3. apríl. Auk sundskokksins stundaði ég ræktina á þessum tíma sem aldrei fyrr en sleppti öllum æfingum sem framkölluðu verki. Á þeim lista voru m.a. hnébeygjur, réttstöðulyftur og framstig. Seint í mars byrjaði ég líka aðeins að skokka á vellinum. Það var ekki gott en gekk nokkurn veginn svo lengi sem ég fór ekki mikið undir 6 mín/km.

Í lok mars urðu ákveðin þáttaskil, því að þá fór ég að finna til í hægra lærinu líka. Það var óvelkomin viðbót. Lengi vel gat ég náð verknum úr þeim megin með hreyfiteygjum, en smám saman varð hægri hliðin álíka slæm og sú vinstri – og stundum jafnvel verri.

Í byrjun apríl fór ég að venja komur mínar á Hafnarfjallið og komst þá að því að líðanin var betri í brekkum en á jafnsléttu. Fór mér hægt í fyrstu ferðunum en áræddi smám saman að fara hærra upp og hraðar. Það sem kom mér mest á óvart í þessum ferðum var hvað ég þoldi niðurhlaupin vel. Þegar maður hleypur niður brattar og grýttar brekkur ætti álagið á hrygginn að vera verulegt. Þessi uppgötvun styrkti mig í þeirri skoðun að brjósklosið væri kannski ekki hin raunverulega orsök verkjanna, enda vel þekkt að fullorðið fólk getur verið með alls konar einkennalausa missmíði í hryggnum.

Í lok apríl jók ég álagið á hlaupaæfingum um tíma og reyndi að taka bæði sprettæfingar og tempóæfingar. Verkurinn jókst yfirleitt með vaxandi hraða, en á sumardaginn fyrsta tókst mér samt að hlaupa 5 km á íþróttavellinum á 22:56 mín, svona í tilefni af því að þann sama dag var Víðavangshlaup ÍR haldið í Reykjavík. Þegar bakvesenið var byrjað fyrir alvöru í janúar hugsaði ég um Víðavangshlaup ÍR sem stóra endurkomuhlaupið mitt. Þá ætlaði ég m.a. að vígja létta hlaupaskó sem ég keypti í Bregenz í fyrrahaust og hafa síðan beðið inni í fataskáp eftir góðum vígsludegi. Þeir eru þar enn.

Um mánaðarmótin apríl/maí var ég búinn að átta mig á að hröð hlaup voru alls ekki það sem ég þurfti. Þann 6. maí sagði ég skilið við hlaupabrautina og hef sjaldan komið þangað síðan. Ræktin og Hafnarfjallið stóðu eftir og þar gat ég svo sem alveg farið mínu fram. En ég merkti engar framfarir. Um svipað leyti var ég búinn að átta mig á að þriggja ára gamall draumur um 90 km hlaup í Svíþjóð í ágúst (Ultravasan-90) myndi ekki rætast. Í tilefni af því skipti ég um myllumerki við Instagrammyndir úr Hafnarfjallsferðum, úr #ennlangtíultravasan í #ultravasanutanmig.

Efasemdir um að brjósklosið væri hin raunverulega ástæða voru alltaf til staðar og jukust heldur eftir því sem gerðar voru fleiri árangurslausar tilraunir með sjúkraþjálfun og æfingar sem áttu að létta álagi af hryggnum. Ítarleg skoðun sjúkraþjálfara með sérhæfingu í bakmeiðslum ýtti undir þessar efasemdir og styrkti um leið þá skoðun mína sem hafði skotið upp kollinum nokkru fyrr að aðalvandamálið væri festumein þar sem lærvöðvarnir festast á setbeinið (chronic high (proximal) hamstring tendinopathy (PHT)).

Festumeinstímabilið
Þann 31. maí fór ég í segulómun (MRI) nr. 2 þar sem sjónum var sérstaklega beint að mjaðmagrindinni og efsta hluta læra. Í stuttu máli sást hvorki blettur né hrukka á þessu svæði, ekki einu sinni bólga. Það kom mér svolítið á óvart af því að ég gerði ráð fyrir að festumeinið myndi sjást sem einhvers konar missmíði. En á myndunum var sem sagt ekkert sem renndi stoðum undir þessa nýju kenningu. Hins vegar var brjósklosið greinilega á sínum stað.

Þann 7. júní lenti ég í nokkuð harkalegri aftanákeyrslu sem skiptir svo sem ekki máli í þessari sjúkrasögu, nema hvað ég fór óvenjuvarlega í líkamleg átök fyrstu dagana á eftir. Ekkert bendir til að eftirköst þess óhapps muni fylgja mér inn í framtíðina. En ég hreyfði mig sem sagt sáralítið í júní.

Sama daginn og ég lenti í árekstrinum var tekin ákvörðun um að prófa að sprauta sterum í spjaldliðinn (sacroiliac joint). Stuttu festumeinstímabili var sem sagt lokið og nýr sökudólgur fundinn út frá niðurstöðum myndatökunnar og skoðun hjá bæklunarlækni.

Spjaldliðartímabilið
Bjarni Valtýsson svæfingalæknir sprautaði sterunum í spjaldliðinn 25. júní. Fyrir sprautu var ég álíka slæmur og ég hafði verið allan tímann síðan í janúar, svo sem hvorki betri né verri. Sprautan gjörbreytti hins vegar stöðunni og fyrstu dagana á eftir fann ég ekkert til. Af þessu var rökrétt að draga þá ályktun að nú væri hin raunverulega orsök fundin, sem sagt skert hreyfigeta (vanvirkni) í spjaldlið (sacroiliac joint dysfunction).

Sprautan dugði vel í tvær vikur. Undir lok þess tíma var ég aðeins farinn að skokka en ekki voru liðnir margir dagar af þriðju vikunni þegar verkirnir voru farnir að láta á sér kræla. Allt var það þó miklu vægara en áður, sem endurspeglaðist m.a. í að nú gat ég setið vandræðalaust undir stýri í tvo og hálfan tíma í stað klukkutíma áður. Sömuleiðis jókst hreyfanleikinn í skrokknum mikið við sprautuna.

Eftir því sem lengra leið á sumarið versnaði staðan aftur smátt og smátt. Mér gekk alltaf nokkuð vel á Hafnarfjallinu, bæði upp og niður, en gat nánast ekkert hlaupið á jafnsléttu. Reyndi það samt stundum. Hreyfanleikinn fór líka minnkandi. Í lok ágústmánaðar lýsti ég stöðunni svona í pósti til Bjarna (stytt útgáfa):

  1. Afturförin heldur áfram smátt og smátt. Sumir dagar eru betri, en aðrir verri – og línan liggur heldur niður á við. Ég tel mig að flestu leyti vera orðinn álíka slæman og fyrir sprautu.
  2. Hlaupagetan er álíka lítil og hún var fyrir sprautu, en hreyfanleikinn enn ögn meiri og úthaldið í bílstjórasætinu sömuleiðis. 
  3. Ég hef lítið hlaupið síðustu 2 vikur. Sé varla tilgang í því lengur þar sem ég held að það hjálpi mér ekki neitt og er auk þess hætt að vera skemmtilegt, því að verkirnir eru nánast alltaf til staðar. Ég hef ekki heldur nennt í ræktina, en það tengist aðallega sumrinu og þránni eftir því að vera úti. 
  4. Ég er byrjaður í sjúkraþjálfun eftir sumarfrí. Núna er athyglinni beint að spjaldliðnum, því að ég les viðbrögð mín við sprautunni svo að þar hljóti vandinn að liggja, væntanlega þá í að hreyfanleikinn í liðnum sé of lítill. Líður oftast heldur skár fyrst á eftir.
  5. Þessa dagana er staðan með versta móti. Finn fyrir verkjum meira og minna allan daginn, en það truflar mig ekkert í vinnu. Verkirnir eru aðallega við setbeinið og ná yfirleitt styttra niður í lærin en þeir gerðu í vor. Ég upplifi þetta aðallega sem mikinn stirðleika í hamstring og glute. Svo er greinilega veikur punktur e-s staðar í spjaldliðnum vinstra megin. Þar er tilfinningin meira „utanáliggjandi“ og plagar mig svo sem ekki neitt.

Nú er september að renna skeið sitt á enda og staðan er í öllum aðalatriðum sú sama og hún var í lok ágúst. Ég mæti vikulega í sjúkraþjálfun og hef mikið gagn af því, en það hefur samt ekki dugað til að slá á einkennin sem plaga mig mest. Líkamsrækt hefur að mestu lagst af í bili, þar sem ég er hættur að vita hvað er til góðs og hvað til ills í þeim efnum. Maður þarf að vera sæmilega viss um hvert vandamálið er til að geta brugðist almennilega við því. Framundan er enn ein ítarleg skoðun og að henni lokinni verður lagt á ráðin um næstu skref. Þar kemur ýmislegt til greina, þ.á.m. að huga aftur að brjósklosinu sem hugsanlegri orsök. Vonast til að geta sagt einhverjar fréttir af gangi mála í vetrarbyrjun.

Andlega og félagslega hliðin
Hlaup hafa lengi verið afar stór hluti af lífi mínu og mér finnst mikið vanta þegar þau vantar. Mér finnst vont að geta ekki hlaupið snemma á morgnana til að gera daginn bjartari og mér finnst líka vont að geta ekki hlaupið seint á daginn til að eyða þreytu vinnudagsins. Hlaupin eru nefnilega ekki bara árátta, heldur líka þvottavél hugans. Og svo finnst mér vont að eiga ekki erindi á hlaupaæfingar eða í keppnishlaup. Ég hef verið meira og minna á hlaupum í hálfa öld og stór hluti kunningjahópsins eru hlauparar. Ég upplifi sem sagt þetta ástand sem verulega skerðingu á lífsgæðum, hvort sem horft er á málið út frá líkamlegum, andlegum eða félagslegum forsendum. Samtímis geri ég mér þó auðvitað ljóst að það er ekkert sjálfsagt að karlar á sjötugsaldri geti átt svona áhugamál og stundað það að vild og að margir hafa aldrei getað hlaupið og munu aldrei fá tækifæri til þess. En það er bara með þetta eins og annað: Maður vill ekki missa það sem maður hefur.

Hvað er framundan?
Ég er staðráðinn í að finna lausn á þessum vandræðum mínum í samvinnu við sjúkraþjálfara, lækna, heilara og hverja þá aðra sem geta lagt mér lið. Ég er tilbúinn með aðgerðaáætlun fyrir næstu vikur og svo held ég bara áfram að leita að lausninni þangað til hún finnst. Þegar lausnin er fundin mun það taka mig nokkra mánuði að komast aftur í svipað hlaupaform og áður. Ætli ég stefni ekki bara að endurkomu í Víðavangshlaupi ÍR sumardaginn fyrsta 2019 – í skóm sem enn bíða inni í fataskáp eftir góðum vígsludegi?

Hlaupaleið á Hafnarfjallið

Þegar Borgnesingar hlaupa (eða ganga) á Hafnarfjallið fara þeir alla jafna upp fjallsöxlina norðanvert í fjallinu, þ.e.a.s. lengst til vinstri þegar horft er á fjallið frá Borgarfjarðarbrúnni. U.þ.b. 300 m ofan við Hótel Hafnarfjall er þokkalegt bílastæði þar sem vegurinn til Hvanneyrar og áfram norður í land lá fyrir daga Borgarfjarðarbrúarinnar. Frá þessu bílastæði eru fyrst hlaupnir um 300 m til norðurs eftir gamla veginum, en síðan beygt inn á vegarslóða sem liggur beint í átt til fjalls. Eftir tæpa 200 m af þeim slóða er komið að girðingarhliði, þar sem hin eiginlega ferð á fjallið hefst að mínu mati. Frá hliðinu er hlaupið áfram upp veginn, sem er frekar grýttur og laus í sér. Ofan við fyrstu brekkuna, um 200 m ofan við hliðið, er gamalt malarnám. Eftir það er um tvær leiðir að velja, sem hér á eftir verða nefndar „auðveldari leiðin“ og „erfiðari leiðin“.

„Auðveldari leiðin“ fylgir vegarslóðanum áfram inn fyrir norðurendann á fjallinu og inn í Ytra-Seleyrargil. Eftir drjúgan spöl (um 850 m frá hliðinu) endar vegurinn við annað hlið, skammt frá dálítilli stíflu í gilinu. Þar er sveigt til hægri upp svolítinn skorning og svo enn meira til hægri upp í fjallsöxlina. Þessi spölur er hvorki langur né strangur og þegar farnir hafa verið um 250 m frá stíflunni er komið að stórum steini sem liggur nánast á fjallsbrúninni með ágætu útsýni yfir Borgarnes og nágrenni. Þar með er maður kominn „upp að Steini“, eins og það er kallað í daglegu tali Borgnesinga. Steinninn, sem er í u.þ.b. 200 m hæð yfir sjó, er gott viðmið fyrir þá sem leggja á fjallið og fyrir marga er gangan þangað upp næg áskorun. Þarna sameinast „auðveldari leiðin“ „erfiðari leiðinni“ og lýkur því hér að segja frá þeirri fyrrnefndu.

Sé „erfiðari leiðin“ valin er beygt til fjalls strax og komið er framhjá malarnáminu. Þarna hefur myndast sæmilega greinileg slóð í gegnum móana. Stefnan er tekin beint á fjallsendann en þangað eru ekki nema um 200 m frá malarnáminu. Í fjallsendanum verður fljótlega fyrir manni troðin slóð áleiðis upp fjallsöxlina, mjög brött, grýtt og laus í sér til að byrja með.

Eftir fyrstu og erfiðustu brekkurnar taka við ögn greiðfærari kaflar og fljótlega er komið að steininum sem áður var nefndur. Þangað eru um 850 m frá hliðinu, sem þýðir að „erfiðari leiðin“ þangað upp er rétt um 250 m styttri en „auðveldari leiðin“. Við steininn er líklega tæpur fjórðungur leiðarinnar á toppinn að baki í mínútum talið, sé miðað við „erfiðari leiðina“. Allar vegalengdartölur sem hér fara á eftir miðast við hana.

Slóðin frá steininum áfram upp fjallið er víðast greinileg, sérstaklega þegar líða tekur á sumarið og margir eru búnir að fara þarna upp og niður. Einhvers staðar uppi í miðju fjalli liggur leiðin yfir aflagða girðingu á blábrúninni upp af snarbröttum skorningi. Þangað eru um 1,7 km frá hliðinu og hæðin komin í u.þ.b. 440 m. Þarna má ætla að ferðalagið frá hliðinu upp á topp sé rúmlega hálfnað í mínútum talið. Enn er svo haldið upp fjallsöxlina. Sums staðar er slóðin ógreinileg en stefnan er nokkurn veginn alltaf sú sama, meðfram fjallsbrúninni að „aftanverðu“.

Hærra uppi í fjallinu er fjallsbrúnin kvödd, sveigt lítið eitt til vinstri og haldið áfram eftir greinilegri slóð utan í skriðunum bakatil í fjallinu. Að þessari beygju eru um 2,6 km frá hliði og hæðin nálægt 640 m. Slóðin í skriðunum er tiltölulega flöt til að byrja með en fer svo hækkandi á ný. Þar liggur leiðin framhjá dálitlum kletti og áfram þar til komið er að ljósleitu holti í u.þ.b. 730 m hæð. Þar sveigir slóðin upp til hægri og eftir það liggur leiðin síðustu 300 metrana upp brött holt beint upp á fjallstoppinn í 791 m hæð. Hliðið þar sem lagt var af stað er á að giska í 80 m hæð og hækkunin því um 710 m. Heildarvegalengdin frá hliði upp á topp er um 3,3 km. Á toppnum er alla jafna gestabók sem sjálfsagt er að skrifa nafn sitt í.

Hægt er fylgja fjallsöxlinni alla leið upp í stað þess að beygja í skriðurnar eins og hér hefur verið lýst. Þar má greina götu en sú leið er ívið verri yfirferðar og ekki mælt með henni hér.

Hlaupaleið á Hafnarfjall 4. ágúst 2017. (Strava.com)

Horft niður eftir hlaupaleiðinni á Hafnarfjall 2. ágúst 2017. Myndin er tekin í skriðunni ofarlega í fjallinu með Borgarnes í baksýn. Slóðin er alla jafna ekki svona greinileg, en þarna var sólin í heppilegri síðdegisstöðu. (Ljósm. Stefán Gíslason).

Brjósklos til batnaðar?

Ég hef ekkert hlaupið í 7 vikur, nánar tiltekið frá 20. janúar sl. Þann dag varð ég svo slæmur í vinstri mjöðminni og í vinstra lærinu að ég gat með naumindum skrönglast heim af hlaupaæfingu. Verkurinn var að vísu ekki nýr, en þetta var í fyrsta skipti sem hann sló mig verulega út af laginu á hlaupum.

Ég veit ekki alveg hvenær ég kynntist þessum verk fyrst, en það var alla vega ekki seinna en í október 2016. Um miðjan desember 2016 var þetta orðið svo slæmt að ég tók mér frí frá hlaupum í nokkra daga. Síðan þá hefur verkurinn alltaf verið þarna á sveimi en sjaldan verið til mikilla óþæginda nema eftir langar setur í bíl eða í öðrum vondum sætum. Ég er búinn að vera reglulega í sjúkraþjálfun út af þessu meira og minna í rúmt ár, að vísu með löngu hléi þegar endurhæfing brotinnar axlar var sett í hærri forgang. Sjúkraþjálfunin var til bóta, en náði einhvern veginn ekki að rótum vandans, enda ekki ljóst hverjar þær væru.

Þann 20. janúar urðu sem sagt þáttaskil, því að þá gat ég ekki leitt þetta hjá mér lengur. Og 20. febrúar urðu önnur þáttaskil. Þá hafði segulómun leitt í ljós að ég var með brjósklos á milli hryggjarliða L5 og S1, þ.e.a.s. alveg neðst í hryggnum á mörkum neðsta lendarliðs og spjaldhryggs. Þar með var ég kominn með nýtt verkefni fyrir næstu vikur.

Hvers vegna?
Mannslíkaminn er flókið tæki og því er varhugavert að fullyrða eitthvað um orsakatengsl. Reyndar er ekki einu sinni hægt að fullyrða að verkurinn sem sló mig út af laginu 20. janúar stafi beinlínis af þessu brjósklosi en ekki einhverju öðru. En líkurnar eru verulegar og því lít ég svo á að brjósklosið sé sökudólgurinn, alla vega á meðan ekkert annað kemur í ljós. Og orsökin liggur að öllum líkindum ekki í hlaupum, heldur í löngum setum í misgóðum sætum, krydduðum með röngum stellingum og ónógum vöðvastyrk. Þegar maður hleypur verður hryggurinn fyrir höggum í hverju skrefi. Þegar allt er með felldu styrkja þessi högg bæði bein, brjósk og vöðva, en þegar skaðinn er skeður geta þau gert illt verra.

Hvað gerði ég vitlaust?
Eins og ráða má af textanum hér að framan tel ég mig hafa gert þau mistök að sitja of mikið og í röngum stellingum. Og ég hef heldur ekki verið nógu duglegur í styrktaræfingum gegnum árin. Mér finnst einfaldlega skemmtilegra að hlaupa. Skemmtilegast finnst mér að hlaupa langt og í vetur voru löngu hlaupin fyrirferðamikil. Ég var reyndar frekar duglegur í ræktinni líka, en því til viðbótar hefði ég betur lagt meiri áherslu á styttri og hraðari hlaup. Það sem ég gerði í vetur skipti þó kannski ekki öllu máli. Í fyrravetur sat ég t.d. löngum við á kvöldin í vondum stól í lokahnykk Fjallvegahlaupabókarinnar. Það var líklega dropinn sem fyllti mælinn, þó að ég hafi svo sem þraukað lengi eftir það.

Hvað er til ráða?
Af myndum má ráða að brjósklosið mitt sé vægt, enda finn ég svo sem ekkert fyrir því dags daglega, nema þá helst eftir langar setur og í miklu hnjaski. Svona brjósklos á að geta lagast af sjálfu sér, en maður þarf auðvitað að hafa fyrir því eins og flestu öðru í lífinu. Annars væri ekkert gaman.

Það sem ég geri í málinu er aðallega fernt:

  1. Bakpúðinn minn á eldhússtólnum heima hjá sér.

    Sjúkraþjálfun
    Ég er svo heppinn að hjá Sjúkraþjálfun Halldóru í Borgarnesi starfa bestu sjúkraþjálfarar í heimi. Halldóra hefur sinnt mér ótrúlega vel í öllum mínum stoðkerfisraunum síðustu ár. Hún er sjálf keppnis-manneskja og veit hvernig hugur og líkami svoleiðis fólks vinna saman. Og nú, þegar rót vandans virðist fundin, verður meðferðin enn hnitmiðaðri en ella.

  2. Bakpúði
    Ég fer ekki lengur einn í bíl eða einn á fundi. Bakpúðinn minn er alltaf með. Þetta er lítill púði sem Þorkell sonur minn gaf mér í jólagjöf til að hafa við bakið. Þorkell er gleggri á líkamsstöður fólks en aðrir sem ég þekki og var fyrir löngu búinn að taka eftir því að sveigjan í bakinu á mér er ekki alveg eins og best verður á kosið. Bakpúðinn hjálpar til við að halda þessu öllu í réttri stöðu.
  3. Styrktaræfingar
    Ég hef aldrei á ævinni verið duglegri í styrktaræfingum en síðustu vikur. Mæti í ræktina þrisvar til fimm sinnum í viku og geri mitt besta til að byggja upp þá vöðva sem líklegastir eru til að verða mér að liði. Styrktaræfingar eru algjörlega ómissandi hluti af þjálfun hlaupara, ekki síst hlaupara á mínum aldri þar sem uppbygging og viðgerðir eru farnar að ganga hægar en áður.
  4. Nýjasta hlaupagræjan!

    Flothlaup
    Síðustu vikur hefur oft sést til mín í sundlauginni í Borgarnesi, hlaupandi í djúpu lauginni með þar til gert flotbelti. Svona hlaup, hversu skemmtileg sem þau annars eru, hjálpa manni að viðhalda hlaupaforminu að einhverju leyti, án þess að hryggurinn þurfi að standa í einhverju stappi.

Ég gæti svo sem nefnt fimmta atriðið líka, en það er að sitja sem minnst og aldrei lengi í einu. Reyndar hef ég staðið við skrifborðið mitt í vinnunni alla daga í meira en ár. Það er til bóta, enda er miklu minni þrýstingur á hryggjarliðunum þegar maður stendur en þegar maður situr. En þetta dugar engan veginn eitt og sér. Málið snýst nefnilega ekki bara um að sitja eða standa, heldur um að vera ekki of lengi í einu í sömu stellingu. Kyrrseta er óvinur líkamans og kyrrstaða er það líka.

Hlaupamarkmið ársins
Í upphafi þessa árs setti ég mér fimm hlaupamarkmið, rétt eins og ég er alltaf vanur að gera þegar nýtt ár heilsar. Eins og lesa má um í þar til gerðum pistli eru markmiðin þessi:

  • 90 km ofurhlaup í Svíþjóð
  • Þrjú maraþon
  • A.m.k. 5 fjallvegahlaup
  • A.m.k. 28 styrktaræfingar frá áramótum til aprílloka
  • Gleðin með í för í öllum hlaupum

Í dag eru þessi markmið í fríi. En þau eru ekki úr sögunni. Ultravasan-90 í Svíþjóð er stærsta einstaka markmiðið, en það hlaup verður ekki fyrr en 18. ágúst nk. Tíminn verður að leiða í ljós hvernig mér gengur að undirbúa það, en ég hef enga ástæðu til að halda annað en það muni allt saman hafast með þolinmæði og skynsamlegri hegðun. Þetta tekur bara sinn tíma, hver sem „sinn tími“ er. Hins vegar er afar ólíklegt að ég hlaupi þrjú maraþon á árinu. Úr því sem komið er verður sjálfsagt komið vel fram á sumar þegar ég verð kominn í stand fyrir svoleiðis – og maraþonhlaup þurfa sitt pláss í dagskránni.

Fjallvegahlaupin eru í bið og ég er reyndar ekkert farinn að skipuleggja þau. Fyrst langar mig að sjá fyrir endann á því ferli sem ég er í þessa dagana.

Styrktaræfingamarkmiðið er innan seilingar, því að þegar þetta er skrifað er ég búinn með 27 slíkar frá áramótum. Markmiðinu um gleðina verður svo líklega auðveldast að ná af þeim öllum. Síðustu vikur hafa minnt mig á að það er ekkert sjálfsagt að geta hlaupið og þess vegna held ég að þegar ég get það á nýjan leik verði gleðin enn nær en áður.

Lokaorð
Hlaupin hafa verið mjög stór hluti af lífi mínu síðustu 11 ár, já og reyndar síðustu 50 ár ef allt er talið. Þess vegna viðurkenni ég að mér finnst mikið vanta þegar ég get ekki hlaupið. En þetta er engin stórhríð. Bara él. Ég er heldur ekkert heltekinn af verkjum eins og títt er með þá sem eru að kljást við brjósklos. Þetta er vægt tilfelli og ég finn t.d. aldrei fyrir neinu í liggjandi stöðu, sem þýðir m.a. að ég sef vel. Ég hef enga ástæðu til að vera bitur, en ég hef ríka ástæðu til að vera þakklátur. Þessar vikur eru lærdómsríkar og gefa mér tækifæri til að skerpa á aðalatriðunum. Kannski bæti ég sjötta hlaupamarkmiði ársins við hin fimm, nefnilega að þetta verði brjósklos til batnaðar.

Hlaupaannáll 2017 og markmiðin 2018

Laugavegurinn 2017. Fyrsti hluti. (Ljósm. hlaup.is).

Ég rakst á eftirfarandi heilræði einhvers staðar á netinu í gær: „Segðu ekki fólki frá áformum þínum. Sýndu þeim heldur árangurinn“. Samt sem áður ætla ég sem fyrr að gera upp nýliðið hlaupaár og uppljóstra áformum mínum fyrir nýja árið. Og hefst nú lesturinn.

Meginniðurstaða
Hlaupaárið 2017 var hreint ekki eitt af mínum bestu. Einhverjum kann að detta í hug að þetta tengist aldri mínum á einhvern hátt, en það er auðvitað misskilningur. Einhvers staðar las ég að hlauparar á mínum aldri gætu búist við u.þ.b. 0,7% afturför á ári að meðaltali, en það eitt að verða sextugur orsakar engar stökkbreytingar í þessum efnum. Hins vegar lenti ég í smávegis áföllum á árinu sem trufluðu hlaupin. Þar bar hæst axlarbrot í Laugavegshlaupinu sem hafði óhjákvæmilega bein og óbein áhrif á hlaupaferilinn næstu mánuði þar á eftir.

Til að gera langa sögu stutta náði ég ekki nema einu af fimm hlaupamarkmiðum ársins. Og til að gera stutta sögu aftur langa verður fjallað ítarlega um afdrif þessara markmíða síðar í þessum pistli.

Það sem hæst bar á þessu hlaupaári var útkoma fjallvegahlaupabókarinnar á sextugsafmælinu mínu. Það er ótrúlega gefandi að sigla svoleiðis í höfn, enda voru fjallvegahlaupin svo miklu meira en bara hlaup. Samskiptin við allt það góða fólk sem tók þátt í þessu með mér hafa svo sannarlega auðgað líf mitt síðustu 10 ár!

Helgi Hafsteinn Helgason, læknir og fjallvegahlaupari, fær áritaða bók í útgáfu- og afmælishófinu á Kex 18. mars. (Ljósm. Etienne Menétrey).

Æfingarnar
Æfingar gengu einkar vel fyrstu þrjá mánuði ársins, eins og m.a. má sjá á stólparitinu hér að neðan sem sýnir mánaðarlega hlaupaskammta. Á þessum þremur mánuðum hljóp ég samtals 730 km, sem er það næstmesta á fyrsta ársfjórðungi hingað til. En vegalengdin segir ekki allt, því að í hlaupum gildir það sama og í öðrum hlutum lífsins, að meira er ekki endilega betra. Á þessum fyrstu þremur mánuðum ársins tók ég 7 æfingar 30 km eða lengri, en vanrækti aftur á móti styrktaræfingar og hraðaæfingar. Þetta rann upp fyrir mér þegar ég hljóp 5 km keppnishlaup á 20:47 mín 30. mars við toppaðstæður. Þessu tími var talsvert undir væntingum miðað við æfingamagn og fyrri árangur.

Mánaðarlegir hlaupaskammtar 2017. (Stærri mynd birtist ef smellt er á þessa).

Hlaupaæfing með Gittu í Winterberg í Þýskalandi í apríl. (Ljósm. Þorkell Stefánsson).

Í framhaldi af hlaupinu 30. mars ákvað ég að endurskoða æfingaáætlunina mína og leggja aðaláherslu á styrk og hraða næstu vikurnar. Það mistókst í rauninni, einkum vegna þess að hálfur aprílmánuður fór í vaskinn vegna óvenjuleiðinlegrar kvefpestar sem ég var óvenjulengi að hrista alveg af mér.

Í maí var heilsan aftur eitthvað að stríða mér og í lok mánaðarins tognaði ég svolítið í nára. Það háði mér ekki lengi, en þó nógu lengi til þess að í júní var ég ekki enn kominn í skikkanlegt sumarhlaupaform. Aðalmarkmið sumarsins var reyndar að bæta tímann minn á Laugaveginum og það getur svo sem vel verið að meiri styrkur og meiri hraði hafi ekki endilega verið bráðnauðsynlegar undirstöður þeirra áforma. Viku fyrir Laugaveginn mat ég stöðuna svo að ég væri „vissulega tilbúinn að hlaupa Laugaveginn, en hins vegar [væru] líkurnar á bætingu talsvert minni en ég hefði kosið – jafnvel hverfandi“. Sú varð líka raunin.

Eftir axlarbrotið á Laugaveginum var ég með hægri hendina í fatla í mánaðartíma og eðlilega lögðust hlaupaæfingar af á meðan. Kannski er alveg hægt að hlaupa með hönd í fatla, en brotin bein eru viðkvæm fyrir hristingi og í þessu ástandi er beinlínis hættulegt að detta og því rétt að fara að öllu með gát. En ég notaði tímann vel til gönguferða með mínum nánustu og á 18. degi frá broti fann ég út að ég gat vel skokkað upp og niður Hafnarfjallið. Í brekkunum gekk mér betur að halda öxlinni hreyfingarlausri en á jafnsléttu. Þessu fylgdi auðvitað einhver áhætta, en ég lagði mig virkilega fram við að fara varlega, sérstaklega á niðurleiðinni því að þar er hættan mest. Reyndar felst besta leiðin í gegnum lífið alls ekki í því að forðast áhættu, heldur miklu frekar í að halda áhættunni innan skynsamlegra marka. Ég tel að mér hafi tekist það. Í öllu falli fór ég 7 sinnum á fjallið dagana 2.-12. ágúst og varð síður en svo meint af. Og mér til mikillar undrunar var tíminn á leiðinni upp í 6. ferðinni sá besti sem ég hef náð til þessa, 42:00 mín. Það segir mér að þarna eru tækifæri til úrbóta. Og tíminn með fatlann var lærdómsríkur.

Í lok ágúst var ég farinn að geta æft nokkurn veginn eðlilega. Það var líka eins gott því að ég var skráður í Þriggjalandamaraþonið í Bregenz í Austurríki 8. október og tíminn vissulega orðinn naumur. Þrátt fyrir alla mínu reynslu féll ég í þá freistni að fara fullbratt í þessar síðustu vikur og afleiðing þeirrar óþolinmæði var tognun í læri 19. september, 19 dögum fyrir hlaup. Þetta var engin óskastaða, en ég fór varlega næstu daga í von um að sleppa með skrekkinn. Maraþonvonin hvarf svo endanlega (að ég hélt) þegar tognunin tók sig upp 1. október þegar 8 dagar voru til stefnu. Eftir góða umönnun Bjarkar, reikimeistara og lífsförunautar, og Halldóru, sjúkraþjálfara, ákvað ég þó að láta slag standa og leggja af stað í maraþonið vel „teipaður“ með þann bjargfasta ásetning að hætta strax og tognunin léti vita af sér. Maður var nú einu sinni búinn að borga ferðina. Og viti menn, tognunin lét ekki vita af sér og ég komst heill í mark eins og lesa má um í pistli á hlaup.is.

Hápunktur Þriggjalandamaraþonsins var eiginlega þetta augnablik við Mehrerau klaustrið í Bregenz. Ég hefði skilið Birki bónda í Tröllatungu eftir við 5 km markið, en þarna birtist hann allt í einu, búinn að hlaupa 40,7 km, og svo bara hvarf hann! (Ljósm. Alphafoto).

Eftir hlaupið í Bregenz lofaði ég sjálfum mér að leggja aðaláherslu á styrktaræfingar til áramóta, enda langt í næstu stóru markmið í hlaupum og nógur tími til að byggja upp þol á nýjan leik. Þolið er fljótt að koma (og fljótt að fara). Þetta gekk allt eins og í sögu, ég fór í ræktina 2-3 sinnum í viku og náði samtals 22 styrktaræfingum til áramóta. Hef aldrei verið duglegri á þeim vettvangi og fann greinilegan mun eftir því sem leið á tímabilið. Öxlin fékk líka sinn hluta af athyglinni, bæði í sjúkraþjálfun og í ræktinni, og í árslok var hún löngu hætt að há mér á hlaupum, sem og í flestum öðrum daglegum athöfnum.

Á árinu 2017 hljóp ég samtals 2.453,19 km sem gerir árið að því fjórða lengsta frá upphafi, þrátt fyrir allt.

Árlegir hlaupaskammtar 1985-2017. (Stærri mynd birtist ef smellt er á þessa).

Náði bara einu markmiði

Gleðin með í för í Hvítasunnuhlaupi Hauka. (Ljósm. Ragnhildur Aðalsteinsdóttir).

Ég setti mér fimm hlaupatengd markmið fyrir árið 2017 og náði bara einu þeirra, nefnilega að hafa gleðina með í för í öllum hlaupum. Það tókst þrátt fyrir axlarbrot og tognanir. Það er einfaldlega svo gaman að geta leikið sér eins og mann langar til!

Hin markmiðin fjögur voru í fyrsta lagi að bæta mig í 5 km hlaupi (hlaupa undir 19:39 mín). Ég komst aldrei nálægt því og vissi reyndar strax um miðjan apríl að það væri ekki inni í myndinni. Markmið nr. 2 var að bæta tímann minn á Laugaveginum (5:41:10 klst). Var rétt um korteri frá því. Axlarbrotið tafði mig ekki mikið, en það gerði mótvindurinn hins vegar. Án hans hefði ég kannski átt möguleika. Þriðja markmiðið var að bæta mig í maraþoni (undir 3:08:19 klst). Það átti að gerast í Bregenz um haustið. Líkurnar á að það tækist voru aldrei miklar og gufuðu alveg upp um sumarið og um haustið. Fjórða markmiðið var svo að hlaupa a.m.k. eitt keppnishlaup á braut. Þetta fórst fyrir nú sem endranær. Geri það kannski seinna.

Ég hefði svo sem líka getað sett mér það markmið að klára Fjallvegahlaupabókina. En ég vissi bara alveg í lok árs 2016 að það myndi takast og hafði því enga þörf fyrir að setja það neitt sérstaklega á blað.

Keppnishlaupin
Keppnishlaupin mín á árinu 2017 urðu samtals 15 og hafa aldrei verið fleiri. Voru reyndar jafnmörg árið 2014. Alls eru þau orðin 129 frá upphafi að brautarhlaupum frátöldum. Það telst ekki mikið þegar haft er í huga að það fyrsta var hlaupið fyrir 32 árum. Ég er ekki maðurinn sem mætir í öll hlaup, eins og mér finnst það annars skemmtilegt. Keppnishlaup eru bestu hraðaæfingar sem maður tekur og þar hitti ég líka allt þetta dásamlega fólk sem hefur álíka gaman af þessu og ég. Já, og svo eru þessi hlaup líka góð vísbending um hvað þurfi að laga í hlaupaæfingunum.

Aldrei þessu vant tók ég þátt í hvorki meira né minna en 6 vetrarhlaupum fyrstu þrjá mánuði ársins. Þar ber fyrst að nefna öll þrjú hlaupin í vetrarhlauparöð FH og Atlantsolíu í Hafnarfirði (5 km 26. janúar, 23. febrúar og 30. mars). Tók ekkert á því í fyrsta hlaupinu og endaði á 21:47 mín sem var næstlakasti tíminn minn frá upphafi. Var samt alveg sáttur. Í næsta hlaupi tók ég aðeins meira á því en hafði ekki alveg kraftinn sem þurfti undir lokin. Tíminn var 20:55 mín. Ég fór svo í síðasta hlaupið af fullri alvöru, staðráðinn í að nota allt sem ég ætti til. Gerði það en tíminn var samt ekki nema 20:47 mín. Taldi mig eiga að geta hlaupið undir 20:30 á þessum tímapunkti. Í dagbókinni minni frá þessu kvöldi stendur orðrétt: „Nú þarf að breyta einhverju“, (sbr. líka það sem stendur hér að framan um æfingarnar fyrstu mánuði ársins).

Atlantsolíuhlaupin voru söguleg í hlaupasögunni minni að því leyti að þetta voru fyrstu hlaupin þar sem ég var gjaldgengur í aldursflokknum 60+. Það var svolítið sérstök tilfinning. Og reyndar dugði frammistaðan í þessum hlaupum til að ná 44 stigum af 45 mögulegum í heildarstigakeppni aldursflokksins og standa uppi sem sigurvegari.

Síðustu vetur hef ég yfirleitt verið í forsvari fyrir Flandraspretti í Borgarnesi, en í þetta skipti leyfði ég mér þann munað að taka þátt, bæði í febrúar (16.2) og mars (16.3). Hljóp (5 km) á 20:55 í fyrra skiptið og 20:58 í seinna skiptið, sem var svo sem alveg í takti við árangurinn í Hafnarfirði. Seinna hlaupið er ógleymanlegt því að þá gáfu hlaupafélagarnir mér í afmælisgjöf að fjölmenna sem aldrei fyrr. Alls tóku 77 manns þátt í þessu hlaupi, en mesta þátttaka fram að því voru 33 stykki. Það er ómetanlegt að eiga svona félaga!

Enn er ónefnt 10 km Poweradehlaup 9. mars. Því lauk ég á 43:44 mín, sem getur engan veginn talist góður tími. Brautin var reyndar óvenjuslæm vegna gatnaframkvæmda. Og ég bjóst svo sem ekki við neinu meiru. Poweradehlaupin eru alltaf góðra vina fundir – og það er fyrir mestu!

Ég sleppti bæði Víðavangshlaupi ÍR og Vormaraþoni FM þetta árið enda enn hundslappur eftir veikindi sem herjuðu á mig um páskana. Sjöunda hlaup árins var því Icelandair-hlaupið (7 km) 4. maí, 8. árið í röð, í vestan golu, sól og 14 stiga hita. Lauk þessu hlaupi á 29:27 mín og um kvöldið skrifaði ég þetta: „Vonaðist til að vera ekki á PW (>29:34) en taldi allt umfram það vera í plús. Leit aldrei á klukkuna og leið vel allan tímann“. Þetta var allt í samræmi við raunsæjar væntingar og dugði auk heldur til sigurs í flokki 60 ára og eldri. Og í töflunni hér til hliðar má sjá árangur minn í öllum Icelandairhlaupum sem ég hef tekið þátt í. Þarna er engin stórvægileg sveifla.

Flandrarar að loknu Icelandairhlaupi, þ.e.a.s. ég, Hrafnhildur, Anna Helga, Pálína, Gunnar og Jósep. Það er ekki amalegt að vera hluti af svona hlaupahópi! (Man ekkert hver tók þessa mynd).

Keppnishlaup nr. 8 var Hvítasunnuhlaup Hauka 5. júní. Nokkrum dögum áður hafði ég tognað í nára á leiðinni niður Hafnarfjallið. Var frekar slæmur daginn fyrir hlaup en góður um morguninn og ákvað að vera með af því að Hvítasunnuhlaupið er alltaf svo skemmtilegt. Valdi stystu vegalengdina (sem ég geri annars aldrei) (14 km), fór að öllu með gát (nema kannski í blálokin) og kláraði hlaupið á 1:10:14 klst. sem var miklu betra en ég hafði þorað að vona. „Leið stórvel allan tímann og sól skein í heiði. Eitt af notalegustu hlaupum ævinnar“, svo vitnað sé í samtímaheimildir. Og svo fékk ég hlaupaskó í útdráttarverðlaun að hlaupi loknu og hef ekki fundið fyrir tognuninni síðan!

Hvítasunnuhlaupið. Gleði og gott veður! (Ljósm. hlaup.is).

Miðnæturhlaup Suzuki var 9. hlaup ársins. Þá var ég orðinn alheill en átti enn langt í land í æfingunum. Taldi mig í besta falli geta hlaupið á 1:35 klst. og var svo sem nálægt því, þ.e. á 1:35:56 – og nokkuð langt á undan næsta sextuga karli. Tíunda hlaupið var svo Laugavegurinn með axlarbroti en furðu góðum árangri. Þá reynslu hef ég tíundað í löngu bloggi. Þar var ég líka fyrsti sextugi karlinn, 38 mín. á undan næsta manni í aldursflokknum.

Uppáhaldshlaupamyndin mín frá árinu 2017, tekin á Laugaveginum á söndunum norðan við Emstrur, með Hattfell í baksýn. (Ljósm. Pascale Dengis, (belgísk kona sem átti þarna leið um með fjölskyldunni)).

Kominn í mark í Þórsmörk, blóðugur í framan með brotna öxl. Glaður, en leið ekki vel. (Ljósm. Hlaup.is).

Eftir Laugaveginn hafði ég hægt um mig í hlaupunum, enda ekki aðrir kostir í stöðunni. Lét mér nægja að horfa á Gittu mína og alla hina hlauparana í fyrsta Dyrfjallahlaupinu 22. júlí – og svo naut ég lífsins með Björk og skyldmennum í gönguferðum fyrir austan, með fatlann. Mætti svo óæfður í hálft maraþon í RM 19. ágúst. Það gekk furðu vel. Hljóp fyrstu 10 km á 44:53 mín og næstu 10 líka á 44:53 mín. Hraðinn var sem sagt býsna jafn alla leið, lokatíminn var 1:34:30 klst. og ég vann aldursflokkinn. Ég var óvenju heppinn með aldursflokk þetta árið! Þetta var framar vonum og líklega ekkert útilokað að ég gæti hlaupið gott Þriggjalandamaraþon um haustið. Þarna voru enn 7 vikur til stefnu.

Tólfta hlaupið var Hreppslaugarhlaupið (14,2 km) 31. ágúst. Kom þangað beint af fundi á Hvolsvelli og þurfti að hlaupa nánast beint út úr bílnum. En það gerði ekkert til, þetta átti bara að vera góð æfing. Vildi helst ná að halda aðeins meiri hraða en í RM, sem þýddi að ég vildi vera undir 1:04 klst. Það gekk eftir, lokatíminn var 1:03:19 klst. og engir á undan mér nema uppáhaldshlaupafélagarnir Birkir og Gunnar Viðar. Þetta var bara stórskemmtilegt.

Sloppinn heill í gegnum Þriggjalandamaraþonið. Nokkrir metrar eftir. (Ljósm. Alphafoto).

Í september reyndi ég af fremsta megni að byggja upp getu fyrir Þriggjalandamaraþonið, en ætlaði mér reyndar aðeins um of eins og fyrr segir. Mætti í Flensborgarhlaupið (10 km) 19. september þrátt fyrir að hafa tekið frekar stífa hraðaæfingu daginn áður. Ég veit svo sem alveg að það má ekki, en skynsemin ræður ekki alltaf. Mér gekk alveg þokkalega í þessu hlaupi, hljóp á 42:47 mín sem var svipað og ég bjóst við. En þegar 300 m voru eftir tognaði ég í vinstra læri. Það var rökrétt en ekki að sama skapi ánægjulegt.

Keppnistímabili ársins lauk í Þriggjalandamaraþoninu í Bregenz sunnudaginn 7. október. Hljóp þar fyrst létt 4 km keppnishlaup daginn áður, svona til að athuga hvort ég gæti yfirleitt hlaupið eitthvað svona tognaður. Tíminn í því hlaupi var 18:27 mín og lærið var alveg til friðs. Ákvað þá að halda mínu striki með maraþonið og lauk því á 3:25:31 klst. án vandræða. Auðvitað vildi ég gera betur, en það eitt að geta klárað hlaupið var miklu meira en ég hafði þorað að vona. Viku fyrr hafði ég ekki getað hlaupið svo mikið sem eitt skref. Um þessa reynslu má sem fyrr segir lesa eitthvað í pistli á hlaup.is.

Fátt kemur á óvart núorðið
Eins og sést á keppnishlaupafrásögnunum hér að framan kom fátt á óvart þetta árið. Kannski er það ein af neikvæðum aukaverkunum reynslunnar. Maður veit orðið nokkurn veginn hvar maður stendur og því eru tímar óvæntra atburða að mestu liðnir. Tímar í keppnishlaupum eru hættir að vera miklu betri en maður bjóst við og þeir eru líka hættir að vera miklu verri en maður bjóst við, nema ef einhver stór skakkaföll setja strik í reikninginn. Þetta er frekar spurning um nokkrar sekúndur til eða frá, eða í mesta lagi örfáar mínútur í lengstu hlaupunum. Málið snýst kannski um 3% frávik að hámarki. Og til að gera þetta enn fyrirséðara tók ég mjólkursýrupróf að gamni mínu á liðnu vori (nánar tiltekið 20. apríl), já eða laktatþröskuldspróf eins og ég kýs frekar að kalla það. Með svona prófi getur maður fundið út með sæmilegri nákvæmni hversu hratt maður getur hlaupið í langan tíma án þess að efnarafalar vöðvanna hætti að hafa undan og laktat taki að safnast upp í stað þess að brotna niður jafnóðum. Með „löngum tíma“ er hér átt við einn til einn og hálfan klukkutíma, eða u.þ.b. 14 km til hálft maraþon í mínu tilviki. Niðurstaðan var sú að ég ætti að geta haldið út í „langan tíma“ á hraðanum 4:33 mín/km (13,2 km/klst) og með púlsinn í 156 slögum/mín. Hraðinn minn í þeim tveimur hálfmaraþonhlaupum sem ég tók þátt í á liðnu sumri var 4:33 og 4:29 mín/km og í Hreppslaugarhlaupinu var hann 4:28 mín/km. Allt er þetta innan 2% skekkjumarka miðað við „mjólkursýruprófið“! Svo má bæta því við að ég tók aftur svona próf 1. desember. Það kom aðeins betur út og gaf til kynna að laktatþröskuldshraðinn væri 4:31 mín/km (13,3 km/klst) og laktatþröskuldspúlsinn 160 slög/mín. Stefni að því að endurtaka prófið 1. mars 2018 með betri niðurstöðum. Viljiði kannski að ég bloggi um það líka? Það er sko alveg hægt að hækka þennan þröskuld með réttum æfingum. Það eru engin geimvísindi!

Fjallvegahlaupin
Eins og áður segir var útkoma fjallvegahlaupabókarinnar á 6-tugsafmælisdaginn minn stærsti viðburðurinn í hlaupaárinu mínu. Ég fylgdi bókinni eftir með nokkrum kynningum hér og þar um landið um sumarið og haustið og í tengslum við þetta efndi ég líka til fjallvegahlaups yfir Svínaskarð 20. maí í samvinnu við útgefendurna mína í Sölku. Þátttakan í þessu hlaupi fór fram úr björtustu vonum en alls voru 64 hlauparar með okkur þennan dag.

Stærsti fjallvegahlaupahópur allra tíma í þann veginn að taka á rás frá Hrafnhólum norður yfir Svínaskarð. (Ljósm. Guðmundur Sigurbjörnsson).

Eftir að bókin var komin út var ég oft spurður hvað ég ætlaði að taka mér fyrir hendur næstu 10 ár. Þegar ég var nýbúinn að brjóta á mér öxlina fann ég að mig langaði til að halda áfram að hlaupa um fjallvegi, enda nóg til af þeim og óþarfi að gera sér upp einhvern frumleika. Ætlunin er sem sagt að hlaupa 50 fjallvegi til viðbótar áður en ég verð 7-tugur. Fyrstu tveir fjallvegirnir í þessum pakka voru hlaupnir um sumarið, reyndar áður en ákvörðun um framhald var tekin. Fyrst hljóp ég yfir Sælingsdalsheiði úr Saurbæ í Dölum að Laugum í Sælingsdal og síðan yfir Bæjardalsheiði úr Reykhólasveit til Steingrímsfjarðar. Síðarnefnda hlaupið var jafnframt hluti af árlegu Hamingjuhlaupi í tengslum við Hamingjudaga á Hólmavík.

Nýlögð af stað úr Saurbæ í Dölum suður yfir Sælingsdalsheiði. Kjallaksvellir eru rétt í hvarfi við vinstri jaðar myndarinnar.

Skemmtihlaupin
Að vanda stóð ég fyrir eða stuðlaði að þremur skemmtihlaupum á árinu, sem áttu það sameiginlegt að vera hvorki keppnishlaup né formleg fjallvegahlaup. Þar ber fyrst að nefna hinn árlega Háfslækjarhring sem jafnan er hlaupinn á uppstigningardag og endar með matarveislu sem Björk útbýr á meðan ég hleyp þennan 21 km hring með boðsgestunum. Nú var þetta hlaup þreytt í 8. sinn og hlaupararnir voru 16 talsins.

Alhörðustu hlaupafélagarnir á Háfslækjarhringnum á uppstigningardag, nánar tiltekið spölkorn vestan við Skilklett. Lærið beið á grillinu heima hjá Björk.

Hin tvö skemmtihlaupin eru Þrístrendingur og Hamingjuhlaupið. Þrístrendingur er hugarfóstur okkar Dofra Hermannssonar, en móðir mín og afi hans voru systkini og ólust upp á Kleifum í Gilsfirði. Þaðan hlaupum við einu sinni á ári norður Steinadalsheiði til Kollafjarðar, yfir Bitruháls að æskuheimili mínu í Gröf í Bitru og loks suður (eða vestur) Krossárdal að Kleifum, samtals um 41 km. Nú var þessi leið hlaupin í 8. sinn laugardaginn 17. júní. Þátttakendur voru með fæsta móti, en alls fóru 8 hlauparar einhvern hluta leiðarinnar, þar af þrír sem kláruðu allan hringinn. Hamingjuhlaupið fór svo fram í 9. sinn laugardaginn 1. júlí – og var fjallvegahlaup í leiðinni. Að þessu sinni var hlaupið yfir Bæjardalsheiði til Hólmavíkur og endað með tertuhlaðborði að vanda. Við villtumst reyndar aðeins á heiðinni, ekki vegna þess að veðrið hafi verið svona dimmt, heldur einfaldlega af aðgæsluleysi. Svoleiðis kemur stundum fyrir. Eitthvað seinkaði okkur fyrir bragðið, en annars kom þetta ekkert að sök.

Hamingju- og fjallvegahlaup yfir Bæjardalsheiði. Kolbrún Unnarsdóttir fremst meðal jafningja – og þarna vorum við líklega nýbúin að villast.

Markmiðin 2018
Ef maður veit ekki hvert maður ætlar er hætt við að maður lendi einhvers staðar annars staðar. Þess vegna þarf maður að setja sér markmið, jafnt í hlaupum sem í öðrum viðfangsefnum lífsins. Annars gerist ekki neitt!

Mörg síðustu ár hef ég sett mér fimm hlaupamarkmið í upphafi árs. Stundum hef ég einfaldað málið með því að endurnota þau markmið síðasta árs sem ekki náðust. Þannig hef ég t.d. stefnt að því tvö síðustu ár að bæta mig í 5 km götuhlaupi (undir 19:39 mín). Þetta er ágætis markmið en ég ætla samt ekki að nota það oftar i bili. Það passar nefnilega ekki inn í innréttingu ársins 2018, sem á að verða „ár hinna löngu hlaupa“. Nú er komið að því að takast á við eins og eitt ofurmaraþon í útlöndum, nánar tiltekið Ultravasan-90, þar sem hlaupin er sama leið og gengin er í hinni margfrægu Vasagöngu, frá Sälen til Mora í Dölunum í Svíþjóð. Þetta á að gerast 18. ágúst 2018.

En markmiðin fimm eru sem sagt eftirtalin:

  • 90 km ofurhlaup í Svíþjóð
  • Þrjú maraþon
  • A.m.k. 5 fjallvegahlaup
  • A.m.k. 28 styrktaræfingar frá áramótum til aprílloka
  • Gleðin með í för í öllum hlaupum (endurnotað og sígilt)

Já, og svo getur vel verið að ég bæti mig í 5 km hlaupi, eða einhverju öðru, þó að það sé ekkert markmið í sjálfu sér.

Lokaorð
Ekkert er sjálfsagt í þessum heimi – og alls ekki það að geta unað sér við áhugamál sem gefur manni jafnmikla andlega, líkamlega og félagslega vellíðan og hlaupin gefa mér. Þess vegna er lokaorð þessa pistils aðeins eitt: Takk!

Mótlæti á Laugaveginum

Rásnúmerið mitt, vælubílsnúmerið 113. Var þetta fyrirboði?

Síðastliðinn laugardag hljóp ég Laugaveginn í fjórða sinn. Þó að leiðin sé alltaf sú sama eru engar tvær ferðir eins og upplifunin ný í hvert skipti. Þessi Laugavegur var t.d. ríkari af mótlæti en tveir þeir næstu á undan. Annars vegar höfðum við vindinn í fangið næstum alla leið og hins vegar lenti ég í óhappi undir lokin sem setti strik í reikninginn. En ég er sáttur við árangurinn eins og hann mældist í mínútum. Og öll ný reynsla bætir einhverju við lífið.

Undirbúningurinn
Æfingarnar fyrir Laugaveginn gengu ekki alveg eins vel og ég hafði ætlað mér. Mörgu ferðirnar sem ég ætlaði upp á Hafnarfjallið urðu að fáum ferðum og minni háttar meiðsli og veikindi gerðu það að verkum að æfingatímabilið varð heldur skörðótt. Þetta rakti ég allt saman í þar til gerðum bloggpistli á dögunum. Þrátt fyrir þetta hafði ég trú á að ég gæti jafnvel bætt mig í þessu Laugavegshlaupi ef aðstæður yrðu hagstæðar. Ég hafði tekið tiltölulega margar langar hlaupaæfingar og hraðinn, sem ég vissi að ég átti ekki til, var ekki líklegur til að skipta sköpum í svona löngu utanvegahlaupi. Ég taldi sem sagt að í mér byggi býsna þrautseigur langhlaupari, þó að spretthlauparinn væri í fríi. Það var helst að brekkurnar gætu orðið erfiðar, sérstaklega upp í móti, því að brekkuhlauparinn var ekki upp á sitt besta.

Að morgni hlaupadags
Ég var ekki aldeilis einn á ferð frá Borgarnesi þennan laugardagsmorgun. Auk mín ætluðu þrír félagar mínir úr Hlaupahópnum Flandra að hlaupa Laugaveginn og þar við bættist Strandamaðurinn Birkir Stefánsson í Tröllatungu sem oft áður hefur veitt mér góðan félagsskap á hlaupum. Og af því þetta var nú orðinn svona álitlegur hópur var ákveðið að sleppa rútuferðinni þetta árið og reyna þess í stað að finna fararskjóta sem gæti flutt allt liðið í Landmannalaugar og heim aftur frá Þórsmörk, þ.m.t. yfir Krossá. Haukur Þórðarson, hlaupafélagi okkar, hafði fyrir löngu boðið sig fram sem bílstjóri og Björgunarsveitin Heiðar í Borgarfirði var svo vinsamleg að leigja okkur öflugan bíl til fararinnar. Þar með var allt til reiðu og við lögðum af stað úr Borgarnesi stundvíslega kl. 4 að morgni.

Borgarnesi kl. 4 á laugardagsmorgni.

Ferðin upp í Landmannalaugar gekk eins og í sögu. Vorum komin þangað um kl. 7:30, vel á undan rútunum sem fluttu flesta hlauparana á staðinn. Þessu fylgdu tiltekin forréttindi, svo sem greiður aðgangur að annars takmörkuðum fjölda salerna. Veðurspá dagsins gerði ráð fyrir suðvestan kalda, skúrum og fremur svölu veðri, en veðrið í Landmannalaugum var stórfínt, hægur vindur, þurrt og svalt.

Fyrsti hópurinn í Laugavegshlaupinu var ræstur upp úr kl. 9 og tíminn þangað til var að vanda notaður í vangaveltur um hvernig best væri að klæða sig, hvaða búnað og nesti ætti að taka með sér og hvað væri betur geymt í bílnum þannig að grípa mætti til þess í Þórsmörk að hlaupi loknu. Þarna er vandrataður meðalvegurinn á milli þess annars vegar að vera of lítið klæddur og verða gegnkaldur þegar hitastigið lækkar á fjöllum og hins vegar að burðast með óþarfa sem þyngir mann í hverju skrefi. Reynslan kemur að góðum notum í þessu, en samt verður hver og einn að finna þá lendingu sem hentar honum best.

Allt tilbúið í Landmannalaugum. F.v.: Birkir Þór Stefánsson, Gunnar Viðar Gunnarsson, SG, Kristinn Óskar Sigmundsson, Auður H Ingólfsdóttir og Haukur Þórðarson. (Ljósm. Brynjar Berg).

Áætlun dagsins
Áætlun mín fyrir hlaupið var einföld: Ég ætlaði að reyna að ná sömu millitímum á helstu viðkomustöðvum og ég gerði í hlaupinu 2015 þegar ég náði mínum besta tíma til þessa, 5:41:10 klst. Ef það gengi ekki upp var ég tilbúinn að gefa mér 5% afslátt, sem myndi þýða lokatíma upp á 5:58:14 klst. Ég hefði útbúið lítið spjald með helstu vegalengdum og tímasetningum, sem ég skellti í vasann til að geta rifjað upp áformin. Reyndar notaði ég þetta spjald lítið. Á frekar auðvelt með að muna tölur.

Kjarninn í áætlun dagsins.

Við „Flandratröllin“ höfðum gert ráð fyrir að fylgjast að mestu að til að byrja með, en svo yrði framhaldið auðvitað að ráðast af líðan hvers og eins. „Flandratröll“ var nafnið á fjögurra manna sveit sem var skipuð okkur Gunnari Viðari, Kristni (Kiddó) og Birki. Þrír okkar eru félagar í Hlaupahópnum Flandra og Birkir hefur fylgt okkur í ýmsum hlaupum síðustu árin. Nafnið á sveitinni er augljóslega tengt nafni hlaupahópsins og búgarði Birkis, en í því felst jafnframt tilvísun í vaxtarlag okkar félaganna, sem mörgum þykir með knappara móti.

Í samantektinni hér á eftir nota ég vegalengdirnar sem úrið mitt sýndi á laugardaginn. Þær eru örlítið frábrugðnar sams konar tölum úr sams konar bloggi frá 2015, enda má alltaf búast við einhverjum mun á svona mælingum frá ári til árs.

1. áfangi: Landmannalaugar – Hrafntinnusker: 9,99 km
Félagar mínir þrír eru allir talsvert sterkari í brekkum en ég, sérstaklega á uppleiðinni. Ég hafði því hvatt þá til að nýta þennan styrkleika af festu og ábyrgð á leiðinni upp í Hrafntinnusker, þó að það myndi þýða að leiðir skildu. Ég myndi svo hugsanlega saxa á forskotið á flatari köflum þegar líða tæki á hlaupið og reynslan og þolið færu að segja til sín. Birkir og Kiddó virtust hafa ákveðið að fara að mínum ráðum. Alla vega náðu þeir fljótlega góðu forskoti þrátt fyrir að ég hefði reynt að fara sem hraðast á fáeinum stuttum og flötum köflum í upphafi hlaupsins. Gunnar var hins vegar lengst af í humátt á eftir mér og þegar ég var kominn lengra upp í brekkurnar fór hann að dragast aftur úr. Þá vissi ég strax að ekki var allt með felldu. Hins vegar var vinur okkar, Gunnar Ólason, allan tímann í námunda við mig. Hann sagðist staðráðinn í að fara ekki fram úr mér snemma í hlaupinu, því að það hefði aldrei reynst honum vel. Þar var hann að vísa í einhver löng hlaup sem við höfum verið samferða í síðustu tvö árin.

Veðrið á þessum fyrsta kafla var ekkert til að kvarta yfir og náttúrufegurðin jafn óviðjafnanleg og alltaf. Ég fylgdist lítið með klukkunni, enda lítið um viðmiðanir á þessari leið. Mér leið frekar vel þó að mér fyndist ég ekki sérlega ferskur, en svoleiðis tilfinningar í upphafi langra hlaupa hafa lítið forspárgildi.

Ofan við Stórahver sat enn talsverður snjór í giljum, þó ekki nærri eins mikill og 2015 ef ég man rétt. Ég reyndi að halda mig utan við troðnustu brautina í sköflunum, því að þar finnst mér undirlagið oft fastara fyrir. Reyndar miðaði mér ágætlega upp skaflana og var farinn að draga verulega á Kiddó og Birki. Ofarlega í brekkunum fór að rigna og svo breyttist rigningin í slyddu. Þá var gott að grípa til lambhúshettunnar sem ég hafði geymt í vasa mínum til öryggis. Annars er ég lítið gefinn fyrir höfuðföt.

Og allt í einu birtist skálinn í Hrafntinnuskeri, miklu fyrr en mig hafði minnt. Við þremenningarnir skokkuðum þar í hlaðið næstum samtímis, ég var óþreyttur og mér leið vel þrátt fyrir að vera orðinn vel blautur. Tölurnar á klukkunni komu verulega á óvart. Þar stóð 1:10:43 klst, sem þýddi að ferðin uppeftir hafði tekið 3:47 mín styttri tíma en ég hafði best gert áður. Nú var gaman!

2. áfangi: Hrafntinnusker – Álftavatn: 10,99 km
Ég hef vanið mig á að eiga litla viðdvöl á drykkjarstöðvum. Hélt uppteknum hætti að þessu sinni og staldraði ekkert við í Hrafntinnuskeri, þáði bara fyllingu á vatnsbrúsann minn og hélt svo ferðinni áfram, glaður í bragði, á móti sunnanáttinni sem var aðeins farin að sækja í sig veðrið. Slyddan var hætt en gekk á með skúrum. Líðanin var góð en einhvern veginn fannst mér ég þó vera farinn að lýjast, fyrr en ég hefði viljað. Að vanda fylltist hugurinn af gleði þegar útsýni opnaðist suður af fjöllunum og yfir Álftavatn og ég sá ekki betur en þar skini sól inn á milli skúraklakkanna. Framundan var leiðin niður Jökultungur, sem sögð var óvenju viðsjárverð að þessu sinni. Sögur höfðu jafnvel borist af klaka og hálku.

Leiðin niður Jökultungur reyndist allsendis klakalaus, en álíka brött og laus í sér og vant er. Niðurhlaup hafa löngum verið mín sterkasta grein en þarna fannst mér mig vanta styrk í fæturna til að geta „látið vaða“ eins og mig langaði til. En þetta gekk nú samt ágætlega og við talningarstöðina við Álftavatn sýndi klukkan 2:19:08 klst, sem var 3:22 mín betra en 2015. Ég var sem sagt búinn að glutra niður 25 sek af forskotinu sem ég vann mér inn á leiðinni upp í Hrafntinnusker, en þetta leit samt ágætlega út. Kannski myndi ég ná að bæta „PB-ið“ mitt þegar allt kæmi til alls. En, samt, eitthvað var farið að hægjast á mér og greinilegt að suðvestanáttin var ekkert hætt að blása í fangið á okkur. Kiddó og Birkir voru þarna rétt hjá mér og Gunnar Ólason sömuleiðis. Kiddó hafði átt í einhverjum vanda með innlegg í skónum sínum, en að öðru leyti virtust þeir félagar þokkalega ferskir.

3. áfangi (a): Álftavatn – Bláfjallakvísl: 5,20 km
Ég hef tekið upp þann sið að skipta Laugaveginum í sex áfanga en ekki bara fjóra eins og flestir gera. Þannig fæ ég oftar vísbendingu um gang mála og um leið finnst mér leiðin styttast. Í svona löngum hlaupum finnst mér best að beina huganum að einum áfanga í einu, því að mér finnst léttara að hugsa um 5 kílómetrana sem eru eftir að næsta viðkomustað en 32 kílómetrana sem eru eftir í mark.

Á þessum kafla var ég farinn að finna meira fyrir mótvindinum. Kannski var hann að aukast, eða kannski var ég bara orðinn þreyttur. Annað slagið gerði skúrir en þær öngruðu mig ekki neitt. Þetta var ekki svo mikið að maður blotnaði að gagni, hitastigið var bærilegt og lambhúshettan komin á sinn stað í vasanum. Ég hafði meiri áhyggjur af því að hlaupafélagarnir voru farnir að dragast aftur úr. Gunnar Ólason var þó alltaf í sjónmáli.

Millitíminn við Bláfjallakvísl olli vonbrigðum en kom ekki beinlínis á óvart, 2:52:22 klst. Nú voru bara 2:08 mín eftir af forskotinu á tímann minn frá 2015 og ég vissi að næsti áfangi gæti reynst mér drjúgur í mótvindinum. En ég hafði enga ástæðu til að kvarta, fann hvergi til, bara svolítið lúinn.

3. áfangi (b): Bláfjallakvísl – Emstrur: 10,74 km
Vatnið í Bláfjallakvísl náði mér rúmlega í hné þar sem dýpst var og mér fannst það kalt. En ég hélt ferðinni strax áfram og hlýnaði fljótt aftur. Það var bara verst þetta með vindinn. Framundan voru sandarnir, hátt í 11 km leið sem mér hafði tekist að hlaupa á sléttum klukkutíma, bæði 2013 og 2015. Nú hafði ég á tilfinningunni að þetta gæti orðið seinlegra.

Á þessum kafla var ég lengst af einn á ferð. Sá þó Gunnar Ólason alltaf tilsýndar þegar ég leit um öxl og eins sá ég nokkra hlaupara drjúgan spöl á undan mér, þ.á.m. sænska konu sem hafði farið fram úr mér á leiðinni frá Álftavatni að Bláfjallakvísl. Hún varð einmitt þriðja kona í mark á tæpum 5:38 klst, sem er einmitt tími sem ég gæti vel hugsað mér að ná. Mér finnst reyndar ekkert endilega verra að vera einn á ferð á svona köflum, það er bara öðruvísi. Þegar fleiri eru saman er hægt að gleyma tímanum við spjall um eitthvað annað en hvað manni líði illa og hversu langt sé eftir, auk þess sem hægt er að skiptast á um að kljúfa vindinn. Sjálfur hef ég reyndar aldrei velt þessu vindsamstarfi neitt fyrir mér. Í einverunni reyni ég hins vegar að gleyma tímanum með því að slökkva sem mest á skynjuninni og hugsa ekki um neitt nema e.t.v. taktinn í einhverju lagi sem hljómar í huganum. Þar á ég innbyggðan lagalista sem gott er að grípa til og oft á tiltekið lag einhverja tengingu við tiltekna minningu, t.d. minningu úr hlaupi þar sem allt lék í lyndi. Takturinn getur sameinast fótataki manns sjálfs eða einhverju öðru hljóði, t.d. reglubundnu hringli í salttöflum sem ég tek stundum með mér í litlu boxi í löng hlaup, af því að ég held að svoleiðis töflur minnki líkurnar á krömpum.

Í öllum löngum hlaupum er ég með fyrirframgerða næringaráætlun og í þetta sinn var hún mjög einföld. Á 45 mínútna fresti skyldi sporðrennt einu hnausþykku GU-geli með koffíni og einni salttöflu í bragðbæti og hvoru tveggja skolað niður með tveimur gúlsopum af vatni. Þess á milli skyldi dreypt á vatni af og til, nógu miklu til að á hverjum 10 km kafla lækkaði um 300-400 ml. í vatnsbrúsanum sem ég hafði meðferðis. Á hverri drykkjarstöð lét ég svo bæta nógu vatni í brúsann til að hann entist í næsta áfanga – og helst ekkert umfram það. Þetta var fyrsta Laugavegshlaupið þar sem gel var eina nestið, enda sagði reynslan að það myndi duga mér ágætlega. Sú varð og raunin. Ég býst við að löngu hlaupin mín síðustu misseri hafi þjálfað líkamann í að brenna fitu þegar á þarf að halda. Af henni á ég nóg, þótt það sjáist kannski ekki í fljótu bragði.

Mér tókst vel að hverfa inn í einsemdina á söndunum, þó að ég fyndi vissulega að hægt miðaði. Reyndi að sniðganga úrið algjörlega, það tifaði víst jafnhratt hvort sem var. En svo tók ég allt í einu eftir því að tónlist saltboxins var þögnuð. Ástæðan var augljós, boxið hafði dottið úr beltinu og myndi nú sjálfsagt veltast um úti í náttúrunni í 1.000 ár með öllu hinu plastinu sem ég og allt hitt fólkið hafði misst frá sér á lífsleiðinni. Þetta voru ekki góðar fréttir. Reyndar hafði ég engar stórar áhyggjur af salttöfluleysinu, aðallega vegna þess að áhyggjur leysa engan vanda en líka vegna þess að gelin mín innihéldu eitthvað af natríum, alla vega sum. Hitt var öllu verra, að ég skyldi eiga þennan þátt í að menga þessa dásamlegu náttúru.

Rétt áður en ég kom að drykkjarstöðinni á söndunum, spölkorni sunnan við Innri-Emstruá, heyrði ég Gunnar kalla til mín að hann væri með boxið sem ég týndi. Ég hinkraði augnablik við stöðina svo að Gunnar næði mér, fékk boxið og tróð því í vasa sem það átti ekki að geta dottið úr og hélt svo áfram ferðinni í svipuðum takti og fyrr. Minn hluti af mengunarvanda dagsins var úr sögunni, þökk sé Gunnari. Gætti þess að líta aldrei á klukkuna og hugsa aldrei hversu langt væri eftir í Emstrur. Einbeitti mér þess í stað að því að hlaupa afslappaður með slakar axlir. Það getur verið gott að hugsa um smáatriði þegar stóra myndin er ekki hagstæð. Emstrur létu bíða eftir sér, en alltaf finnst mér samt jafngott að koma þangað. Núna var það jafnvel enn betra en venjulega, því að þar tóku Erla Gunnarsdóttir og annað starfslið mér svo sannarlega opnum örmum. En klukkan hafði tifað og sýndi 4:01:47 klst. Það var meira að segja hægara en í hlaupinu 2013 þegar millitíminn í Emstrum var 4:00:00 klst. Þar með voru allar hugmyndir um að bæta tímann frá 2015 afskrifaðar. Nú snerist þetta bara um að ljúka hlaupinu á innan við 6 klst. Það átti enn að vera hægt.

4. áfangi (a): Emstrur – Þröngá: 13,31 km
Starfsfólkið í Emstrum sagði mér að nú væri mesti mótvindurinn búinn. Það fannst mér gott að heyra, þó að ég vissi að það gæti naumast verið rétt. Vindurinn hlaut að ná sér aftur á strik þegar komið væri upp úr gljúfri Fremri-Emstruár. Sú varð líka raunin. En mér var svo sem alveg sama, þetta snerist bara um að halda áfram jafnt og þétt hvað sem á gengi. Og það gerði ég, ákveðinn í að vera sáttur við tímann minn hver sem hann yrði. Þetta var erfitt en virkilega gaman.

Eftir mjög drjúga stund með lágmarksskammti af hugsunum sýndist mér ég sjá Kápuna framundan. Nú var sem sagt farið að síga verulega á seinnihlutann, þreytan í líkamanum bara svipuð og hún hafði verið og engir krampar eða önnur vandamál höfðu gert vart við sig. En þá gerðist það, bara nokkrum metrum áður en ég kom að drykkjarstöðinni við Ljósá. Ég steyptist fram fyrir mig og lenti beinlínis á andlitinu á jörðinni. Hef ekki hugmynd um hvað fór úrskeiðis, kannski gleymdi ég mér bara við að horfa á drykkjarstöðina og gleðjast yfir því hvað ég ætti stutt eftir, bara rétt um 5 km – og hægur vandi að ljúka hlaupinu á innan við 6 klst. Þarna lá ég alla vega, alveg flatur á troðnum moldarstíg. Hefði varla getað fundið betri stað á allri leiðinni til að detta á. Þetta var samt vont og ég fann að það blæddi einhvers staðar úr andlitinu á mér. Eftir að hafa legið smástund til að reyna að ná áttum brölti ég á fætur með góðri hjálp starfsfólksins á drykkjarstöðinni. Ég gat alla vega labbað, það var gott og ég hlaut að vera óbrotinn. Nú væri líklega næsta mál að rölta á leiðarenda og gleyma 6 tíma markmiðinu. Framundan var Kápan og upp hana myndi ég hafa labbað hvort sem var.

Á leiðinni upp Kápuna skolaði ég mesta blóðið og moldina úr andlitinu með vatni sem hafði verið bætt í brúsann minn á drykkjarstöðinni. Var greinilega með sár á efri vörinni en virtist hafa sloppið mjög vel að öðru leyti. Meira að segja gleraugun voru bæði heil og hrein. Þegar upp var komið byrjaði ég að skokka en fann þá að hægri handleggurinn hafði ekki áhuga á frekari þátttöku í þessu hlaupi. Ég vissi svo sem ekki til að hann hefði orðið fyrir hnjaski í byltunni, en þarna var greinilega eitthvað í ólagi. Reyndar var þessi handleggur ekkert sérstaklega góður fyrir, því að síðustu mánuði hafði ég glímt við einhverja klemmu í öxlinni og ekki haft betur. Núna var hann bara u.þ.b. tífalt verri en vanalega.

Ég var frekar illa til reika þegar ég kom að Þröngá. Hitti Ingvar Garðarsson við vaðið eins og stundum áður og sagði farir mínar ekki sléttar. Reyndi svo að láta eitthvað af mold skolast af fötunum mínum í ánni. Klukkan sýndi 5:37:36 mín, sem þýddi að ég gat enn gert mér vonir um 6 tímana. Árið 2015 hljóp ég þennan síðasta spöl á 17:10 mín og þrátt fyrir afleitt ástand hlaut ég að geta skreiðst þetta á 22 mín. Þetta eru ekki nema 2,8 km.

Nýkominn yfir Þröngá og hægri handleggurinn kominn í varanlega stöðu. (Ljósm. Magnús Jóhannsson).

4. áfangi (b): Þröngá – Húsadalur: 2,76 km
Í þann mund sem ég var kominn yfir Þröngá náði Reimar Snæfells Pétursson mér, en við höfðum hist sem snöggvast fyrr í hlaupinu. Reimar var hinn hressasti og ágætt að skiptast á hvatningarorðum fyrir lokasprettinn. Þetta varð þó auðvitað enginn sprettur í mínu tilviki en ég fann út að með því að halda þéttingsfast með hinni ósamstarfsfúsu hægri hendi í framstykkið á hlaupajakkanum mínum gat ég svo sem alveg skokkað. Þessi síðasti áfangi tók þegar allt kom til alls ekki nema 18:19 mín, þ.e. rúmri mínútu lengri tíma en 2015, og þegar ég kom í mark sýndi klukkan 5:55:56 klst. Ég gat ekki annað en verið mjög sáttur við það miðað við aðstæður. En ég hef sjálfsagt oftast litið betur út á marklínunni.

Stundirnar eftir hlaup
Marksvæðið í Laugavegshlaupinu er alltaf í sérstöku uppáhaldi hjá mér og ég reyni helst að staldra þar við eins lengi og ég get til að spjalla við allt það góða fólk sem þar hefur safnast fyrir. Þetta var svo sem eins í þetta sinn, en upplifunin var önnur en venjulega því að sjálfum leið mér verulega illa í öxlinni og þar í kring. Náði þó að tína í mig næringu af ýmsu tagi og gleðjast yfir góðum degi. Gunnar Ólason kom í mark tæpum tveimur mínútum á eftir mér. Hann hafði nánast aldrei misst sjónar af mér alla leiðina og það var gott að vita af honum í nágrenninu. Kiddó skilaði sér svo fyrr en varði, glaður í bragði og allvel haldinn á 6:06:35 klst. í sínu fyrsta Laugavegshlaupi. Birkir og Gunnar komu svo rúmum 20 mín. síðar, báðir dálítið lerkaðir. Auður var talsvert lengur á leiðinni eins og við mátti búast, en hún náði tímamörkunum og vel það. Og þar með var allur hópurinn í höfn.

Flandratröll að hlaupi loknu. (Ljósm. Felix Sigurðsson).

Þegar hér var komið sögu gerði ég mér grein fyrir að sturtuferð gæti orðið mér ofviða. Frestaði henni því til betri tíma og lét mér nægja að skipta um föt. Það var ærið verkefni og sársaukafullt, en þetta hafðist og við tók hefðbundinn kvöldverður og verðlaunaafhending. Ég reyndist vera öruggur sigurvegari í flokki 60-69 ára, réttum 38 mín á undan næsta manni og rúmlega einum og hálfum tíma á undan næsta Íslendingi. Mér finnst alltaf gaman að vinna til verðlauna. Verkir í öxl breyta engu um það.

Heimferðin
Haukur bílstjóri beið okkar í Þórsmörk eins og til stóð og þjónustaði okkur þar á alla lund. Það er ómetanlegt að hafa aðgang að annarri eins hjálparhellu á stundum sem þessum. Hann hafði reyndar lent í töluverðum hremmingum sjálfur, því að á leiðinni úr Landmannalaugum sprakk á bílnum. Einhvern veginn tókst honum að komast á leiðarenda á lánsdekki, en dekk á fullvaxna bíla liggja ekkert endilega á lausu. Þegar allt var yfirstaðið röðuðum við okkur inn í fararskjótann og héldum af stað heimleiðis eftir að hafa ferjað fáeina hlaupara yfir Krossá. Ferðalaginu lauk svo í Borgarnesi um miðnættið, 20 tímum eftir að það hófst.

Eftirköstin
Ég var nokkuð góður í fótunum daginn eftir hlaup og gat ekki annað en glaðst yfir því. Hins vegar hafði verkurinn í öxlinni hreint ekki skánað, enda leiddi læknisskoðun sunnudagsins í ljós að öxlin var brotin. Góðu fréttirnar voru þær að axlarliðurinn er heill og ef allt gengur að óskum ætti beinið að vera orðið gróið eftir 4-5 vikur í fatla. Það verður því lítið um hlaup á næstunni og sumar daglegar athafnir munu reynast ögn snúnari en á venjulegum degi.

Þakkir
Ég á mörgum mikið að þakka eftir þetta Laugavegshlaup. Þar ber fyrst að nefna eiginkonuna Björk sem hefur umborið þetta tímafreka áhugamál mitt í áratugi og aðstoðað mig við að sinna því, hversu mikið sem það hefur bitnað á öðrum verkefnum. Svo fá ferðafélagar dagsins sérstakar þakkir og þó sérstaklega bílstjórinn Haukur. Það var ný og afar jákvæð upplifun að fara þessa ferð í svona litlum og samhentum hópi, þar sem allir leggja gott til mála. Og svo má ekki gleyma öllum þeim fjölda starfsmanna, sjálfboðaliða og þátttakenda sem gera Laugavegshlaupið að þeim glæsilega stórviðburði sem það er. Það eru forréttindi að hafa heilsu og möguleika til að taka þátt í svona ævintýrum. Ég er lánsamur maður. Brotin öxl breytir engu um það.

Er ég tilbúinn í Laugaveginn?

Laugav 2015. Hlaup.is.

Laugardaginn 15. júlí nk. ætla ég að hlaupa Laugaveginn í 4. sinn. Fór hann fyrst sumarið 2007 (á 6:40:50 mín) og svo aftur 2013 (5:52:33 klst) og 2015 (5:41:10 klst). Þetta hefur sem sagt verið saga stöðugra framfara. Eitt stærsta hlaupamarkmiðið mitt fyrir árið 2017 er að framlengja þessa sögu, þ.e.a.s. að bæta tímann minn frá 2015, þó ekki væri nema um 1 sekúndu. Og nú sit ég í svipuðum vangaveltum og margir aðrir hlauparar: Er ég tilbúinn í þetta?

Svar við spurningunni
Stutta svarið við spurningunni hér að framan er að ég sé vissulega tilbúinn að hlaupa Laugaveginn, en hins vegar séu líkurnar á bætingu talsvert minni en ég hefði kosið – jafnvel hverfandi. Ég tel mig reyndar að flestu leyti vera í góðu standi þrátt fyrir einhver ónot hér og þar í skrokknum. Ég á sem sagt ekki við nein veruleg meiðsli að stríða og hef enga sérstaka ástæðu til að ætla að einhver vandamál af því tagi skjóti upp kollinum á leiðinni. Hins vegar hafa æfingarnar það sem af er árinu ekki gengið sem skyldi og tímarnir í þeim keppnishlaupum sem ég hef farið í gefa ekki tilefni til bjartsýni.

Æfingarnar
Fyrstu sex mánuði ársins hljóp ég samtals 1.409 km á æfingum. Það er reyndar með mesta móti miðað við fyrri ár, en meira er ekki alltaf betra í þessum efnum. Þetta hefur líka að sumu leyti gengið skrykkjótt, eins og sjá má á stólpariti yfir vikulega hlaupaskammta frá áramótum. (Stærri mynd birtist ef smellt er á þessa).

Lengd hlaupaviknanna minna frá áramótum í kílómetrum talin. (Vika 27 stendur yfir þegar þetta er skrifað og því er þar ekki komin endanleg tala).

Eins og myndin gefur til kynna hafa hvað eftir annað komið skörð í þróunina, sérstaklega frá og með viku 15, þ.e.a.s. frá því í apríl. En svona gerast auðvitað kaupin á eyrinni hjá flestum hlaupurum. Heilsan er ekkert sem maður getur gengið að sem vísu og svo þarf maður stundum að gera eitthvað fleira en að æfa sig. En til að ná sem bestum árangri hefði þetta þurft að vera jafnara.

Keppnishlaupin
Það sem af er árinu hef ég hlaupið 9 keppnishlaup, sem er svo sem hvorki meira né minna en ég er vanur. Ég tók m.a. þátt í öllum þremur hlaupunum (5 km) í Atlantsolíuhlauparöð FH í janúar-mars. Tímarnir í þessum hlaupum sýndu að ég var ekki í jafngóðu 5 km formi og ég hef verið síðustu ár. Þetta kom gleggst í ljós í síðasta hlaupinu 30. mars þar sem ég hljóp 5 km á 20:47 mín (flögutími) við toppaðstæður. Það væri náttúrulega vanþakklæti af manni sem er nýorðinn sextugur að kvarta yfir svoleiðis tíma, enda sýnist mér að aðeins tveir íslenskir karlar á aldrinum 60-64 ára hafi náð betri tíma frá því að mælingar hófust. En ég ber mig ekki mikið saman við aðra, heldur fyrst og fremst við sjálfan mig, enda snýst þetta um að sigra mig en ekki hina. Og 5 km tímarnir í vetur voru með þeim lökustu sem ég hef náð síðustu árin. Þess vegna vissi ég í lok mars að ég hefði verk að vinna ef ég ætlaði að bæta mig eitthvað á árinu.

Fimm kílómetra hlaup gefa ekki mikla vísbendingu um líklega frammistöðu á Laugaveginum. Lengri hlaup eru hins vegar ívið betri mælikvarði, enda þótt brautarhlaup og utanvegahlaup séu sitt hvað. Í Miðnæturhlaupinu 23. júní hljóp ég hálft maraþon við góðar aðstæður á 1:35:56 mín, sem var 4:40 mín (um 5%) lakari tími en í sama hlaupi á sömu braut 2015, þ.e.a.s. árið sem ég hljóp Laugaveginn síðast. Sá tímamunur segir mér kannski eitthvað.

Líklegur tími á Laugaveginum
Reynslan hefur sýnt mér að ég stend mig yfirleitt hlutfallslega betur í hlaupum eftir því sem þau eru lengi. Þess vegna get ég svo sem dregið þá ályktun að ef ekkert annað skekkir myndina ætti ég ekki að vera meira en 5% lengur að hlaupa Laugaveginn núna en sumarið 2015. Þeir útreikningar gefa mér líklegan lokatíma upp á u.þ.b. á 5:58 klst. Eigum við ekki bara að segja að það væri ásættanleg eða alla vega raunhæf niðurstaða? Með því að setja þetta á blað er ég reyndar hugsanlega búinn að „búa mér til vonbrigði“, eins og ég hef einhvern tímann kallað þá stöðu sem maður setur sig í með því að setja sér (að óþörfu) markmið sem ekki næst. Önnur leið til að segja það, er að með þessu sé ég búinn að færa vonbrigðalínuna um 18 mínútur mér í hag, þ.e.a.s. úr 5:41 klst í 5:58 klst. Allt undir 5:58 klst er þá orðinn bónus og allt undir 5:41:10 klst mun leiða til enn taumlausari gleði en verið hefði ef ég hefði talið mig vera í toppstandi!

Spilar aldurinn inn í?
Auðvitað á aldurinn einhvern þátt í því hvernig manni gengur á hlaupum. En ég tók í hreinskilni sagt ekki eftir neinni breytingu við að árafjöldinn í lífi mínu breyttist úr 59 í 60 eina nótt í mars. Og ef ég verð 5% lengur að hlaupa Laugaveginn sextugur en 58 ára þarf að finna aðrar skýringar en aldurinn. Ég las alla vega einhverja fræðilega grein um daginn þar sem menn höfðu komist að þeirri niðurstöðu með rannsóknum að meðalafturför aldraðra hlaupara væri um 0,7% á ári. Það segir mér að ég get enn bætt mig. Til þess þarf bara rúmlega 0,7% meiri og markvissari æfingar en í fyrra. Og 5% eru miklu meira en 2×0,7%.

Meginniðurstaða
Ég tel mig sem sagt vera tilbúinn í Laugaveginn, þrátt fyrir að atvikin (en ekki aldurinn) hafi hagað því þannig að ég er ekki í alveg eins góðu hlaupaformi og ég hef oftast verið síðustu árin. Það er hins vegar líklegt að ég slái engin persónuleg met þetta árið og nái þar með ekki einu helsta hlaupamarkmiðinu mínu frá síðustu áramótum. Svo þarf líka að hafa í huga að sérhvert Laugavegshlaup er óvissuferð þar sem margt óvænt getur sett strik í reikninginn. En hvað sem þessu líður er ég staðráðinn í að láta Laugavegshlaupið næsta laugardag verða lið í að uppfylla mikilvægasta hlaupamarkmið árins, þ.e. að hafa gleðina með í för í öllum hlaupum!

Eftirmáli
Að vanda geri ég ráð fyrir að skrifa sérstakt Laugavegsblogg að Laugavegshlaupinu loknu, þar sem upplifun mín og nýfengin reynsla verður tíunduð í allmiklum smáatriðum. Fyrri ferðasögur má finna undir þessum tenglum: