• Heimsóknir

  • 112.998 hits
 • júlí 2021
  S M F V F F S
   123
  45678910
  11121314151617
  18192021222324
  25262728293031
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Brjósklos til batnaðar?

Ég hef ekkert hlaupið í 7 vikur, nánar tiltekið frá 20. janúar sl. Þann dag varð ég svo slæmur í vinstri mjöðminni og í vinstra lærinu að ég gat með naumindum skrönglast heim af hlaupaæfingu. Verkurinn var að vísu ekki nýr, en þetta var í fyrsta skipti sem hann sló mig verulega út af laginu á hlaupum.

Ég veit ekki alveg hvenær ég kynntist þessum verk fyrst, en það var alla vega ekki seinna en í október 2016. Um miðjan desember 2016 var þetta orðið svo slæmt að ég tók mér frí frá hlaupum í nokkra daga. Síðan þá hefur verkurinn alltaf verið þarna á sveimi en sjaldan verið til mikilla óþæginda nema eftir langar setur í bíl eða í öðrum vondum sætum. Ég er búinn að vera reglulega í sjúkraþjálfun út af þessu meira og minna í rúmt ár, að vísu með löngu hléi þegar endurhæfing brotinnar axlar var sett í hærri forgang. Sjúkraþjálfunin var til bóta, en náði einhvern veginn ekki að rótum vandans, enda ekki ljóst hverjar þær væru.

Þann 20. janúar urðu sem sagt þáttaskil, því að þá gat ég ekki leitt þetta hjá mér lengur. Og 20. febrúar urðu önnur þáttaskil. Þá hafði segulómun leitt í ljós að ég var með brjósklos á milli hryggjarliða L5 og S1, þ.e.a.s. alveg neðst í hryggnum á mörkum neðsta lendarliðs og spjaldhryggs. Þar með var ég kominn með nýtt verkefni fyrir næstu vikur.

Hvers vegna?
Mannslíkaminn er flókið tæki og því er varhugavert að fullyrða eitthvað um orsakatengsl. Reyndar er ekki einu sinni hægt að fullyrða að verkurinn sem sló mig út af laginu 20. janúar stafi beinlínis af þessu brjósklosi en ekki einhverju öðru. En líkurnar eru verulegar og því lít ég svo á að brjósklosið sé sökudólgurinn, alla vega á meðan ekkert annað kemur í ljós. Og orsökin liggur að öllum líkindum ekki í hlaupum, heldur í löngum setum í misgóðum sætum, krydduðum með röngum stellingum og ónógum vöðvastyrk. Þegar maður hleypur verður hryggurinn fyrir höggum í hverju skrefi. Þegar allt er með felldu styrkja þessi högg bæði bein, brjósk og vöðva, en þegar skaðinn er skeður geta þau gert illt verra.

Hvað gerði ég vitlaust?
Eins og ráða má af textanum hér að framan tel ég mig hafa gert þau mistök að sitja of mikið og í röngum stellingum. Og ég hef heldur ekki verið nógu duglegur í styrktaræfingum gegnum árin. Mér finnst einfaldlega skemmtilegra að hlaupa. Skemmtilegast finnst mér að hlaupa langt og í vetur voru löngu hlaupin fyrirferðamikil. Ég var reyndar frekar duglegur í ræktinni líka, en því til viðbótar hefði ég betur lagt meiri áherslu á styttri og hraðari hlaup. Það sem ég gerði í vetur skipti þó kannski ekki öllu máli. Í fyrravetur sat ég t.d. löngum við á kvöldin í vondum stól í lokahnykk Fjallvegahlaupabókarinnar. Það var líklega dropinn sem fyllti mælinn, þó að ég hafi svo sem þraukað lengi eftir það.

Hvað er til ráða?
Af myndum má ráða að brjósklosið mitt sé vægt, enda finn ég svo sem ekkert fyrir því dags daglega, nema þá helst eftir langar setur og í miklu hnjaski. Svona brjósklos á að geta lagast af sjálfu sér, en maður þarf auðvitað að hafa fyrir því eins og flestu öðru í lífinu. Annars væri ekkert gaman.

Það sem ég geri í málinu er aðallega fernt:

 1. Bakpúðinn minn á eldhússtólnum heima hjá sér.

  Sjúkraþjálfun
  Ég er svo heppinn að hjá Sjúkraþjálfun Halldóru í Borgarnesi starfa bestu sjúkraþjálfarar í heimi. Halldóra hefur sinnt mér ótrúlega vel í öllum mínum stoðkerfisraunum síðustu ár. Hún er sjálf keppnis-manneskja og veit hvernig hugur og líkami svoleiðis fólks vinna saman. Og nú, þegar rót vandans virðist fundin, verður meðferðin enn hnitmiðaðri en ella.

 2. Bakpúði
  Ég fer ekki lengur einn í bíl eða einn á fundi. Bakpúðinn minn er alltaf með. Þetta er lítill púði sem Þorkell sonur minn gaf mér í jólagjöf til að hafa við bakið. Þorkell er gleggri á líkamsstöður fólks en aðrir sem ég þekki og var fyrir löngu búinn að taka eftir því að sveigjan í bakinu á mér er ekki alveg eins og best verður á kosið. Bakpúðinn hjálpar til við að halda þessu öllu í réttri stöðu.
 3. Styrktaræfingar
  Ég hef aldrei á ævinni verið duglegri í styrktaræfingum en síðustu vikur. Mæti í ræktina þrisvar til fimm sinnum í viku og geri mitt besta til að byggja upp þá vöðva sem líklegastir eru til að verða mér að liði. Styrktaræfingar eru algjörlega ómissandi hluti af þjálfun hlaupara, ekki síst hlaupara á mínum aldri þar sem uppbygging og viðgerðir eru farnar að ganga hægar en áður.
 4. Nýjasta hlaupagræjan!

  Flothlaup
  Síðustu vikur hefur oft sést til mín í sundlauginni í Borgarnesi, hlaupandi í djúpu lauginni með þar til gert flotbelti. Svona hlaup, hversu skemmtileg sem þau annars eru, hjálpa manni að viðhalda hlaupaforminu að einhverju leyti, án þess að hryggurinn þurfi að standa í einhverju stappi.

Ég gæti svo sem nefnt fimmta atriðið líka, en það er að sitja sem minnst og aldrei lengi í einu. Reyndar hef ég staðið við skrifborðið mitt í vinnunni alla daga í meira en ár. Það er til bóta, enda er miklu minni þrýstingur á hryggjarliðunum þegar maður stendur en þegar maður situr. En þetta dugar engan veginn eitt og sér. Málið snýst nefnilega ekki bara um að sitja eða standa, heldur um að vera ekki of lengi í einu í sömu stellingu. Kyrrseta er óvinur líkamans og kyrrstaða er það líka.

Hlaupamarkmið ársins
Í upphafi þessa árs setti ég mér fimm hlaupamarkmið, rétt eins og ég er alltaf vanur að gera þegar nýtt ár heilsar. Eins og lesa má um í þar til gerðum pistli eru markmiðin þessi:

 • 90 km ofurhlaup í Svíþjóð
 • Þrjú maraþon
 • A.m.k. 5 fjallvegahlaup
 • A.m.k. 28 styrktaræfingar frá áramótum til aprílloka
 • Gleðin með í för í öllum hlaupum

Í dag eru þessi markmið í fríi. En þau eru ekki úr sögunni. Ultravasan-90 í Svíþjóð er stærsta einstaka markmiðið, en það hlaup verður ekki fyrr en 18. ágúst nk. Tíminn verður að leiða í ljós hvernig mér gengur að undirbúa það, en ég hef enga ástæðu til að halda annað en það muni allt saman hafast með þolinmæði og skynsamlegri hegðun. Þetta tekur bara sinn tíma, hver sem „sinn tími“ er. Hins vegar er afar ólíklegt að ég hlaupi þrjú maraþon á árinu. Úr því sem komið er verður sjálfsagt komið vel fram á sumar þegar ég verð kominn í stand fyrir svoleiðis – og maraþonhlaup þurfa sitt pláss í dagskránni.

Fjallvegahlaupin eru í bið og ég er reyndar ekkert farinn að skipuleggja þau. Fyrst langar mig að sjá fyrir endann á því ferli sem ég er í þessa dagana.

Styrktaræfingamarkmiðið er innan seilingar, því að þegar þetta er skrifað er ég búinn með 27 slíkar frá áramótum. Markmiðinu um gleðina verður svo líklega auðveldast að ná af þeim öllum. Síðustu vikur hafa minnt mig á að það er ekkert sjálfsagt að geta hlaupið og þess vegna held ég að þegar ég get það á nýjan leik verði gleðin enn nær en áður.

Lokaorð
Hlaupin hafa verið mjög stór hluti af lífi mínu síðustu 11 ár, já og reyndar síðustu 50 ár ef allt er talið. Þess vegna viðurkenni ég að mér finnst mikið vanta þegar ég get ekki hlaupið. En þetta er engin stórhríð. Bara él. Ég er heldur ekkert heltekinn af verkjum eins og títt er með þá sem eru að kljást við brjósklos. Þetta er vægt tilfelli og ég finn t.d. aldrei fyrir neinu í liggjandi stöðu, sem þýðir m.a. að ég sef vel. Ég hef enga ástæðu til að vera bitur, en ég hef ríka ástæðu til að vera þakklátur. Þessar vikur eru lærdómsríkar og gefa mér tækifæri til að skerpa á aðalatriðunum. Kannski bæti ég sjötta hlaupamarkmiði ársins við hin fimm, nefnilega að þetta verði brjósklos til batnaðar.

Hlaupaannáll 2017 og markmiðin 2018

Laugavegurinn 2017. Fyrsti hluti. (Ljósm. hlaup.is).

Ég rakst á eftirfarandi heilræði einhvers staðar á netinu í gær: „Segðu ekki fólki frá áformum þínum. Sýndu þeim heldur árangurinn“. Samt sem áður ætla ég sem fyrr að gera upp nýliðið hlaupaár og uppljóstra áformum mínum fyrir nýja árið. Og hefst nú lesturinn.

Meginniðurstaða
Hlaupaárið 2017 var hreint ekki eitt af mínum bestu. Einhverjum kann að detta í hug að þetta tengist aldri mínum á einhvern hátt, en það er auðvitað misskilningur. Einhvers staðar las ég að hlauparar á mínum aldri gætu búist við u.þ.b. 0,7% afturför á ári að meðaltali, en það eitt að verða sextugur orsakar engar stökkbreytingar í þessum efnum. Hins vegar lenti ég í smávegis áföllum á árinu sem trufluðu hlaupin. Þar bar hæst axlarbrot í Laugavegshlaupinu sem hafði óhjákvæmilega bein og óbein áhrif á hlaupaferilinn næstu mánuði þar á eftir.

Til að gera langa sögu stutta náði ég ekki nema einu af fimm hlaupamarkmiðum ársins. Og til að gera stutta sögu aftur langa verður fjallað ítarlega um afdrif þessara markmíða síðar í þessum pistli.

Það sem hæst bar á þessu hlaupaári var útkoma fjallvegahlaupabókarinnar á sextugsafmælinu mínu. Það er ótrúlega gefandi að sigla svoleiðis í höfn, enda voru fjallvegahlaupin svo miklu meira en bara hlaup. Samskiptin við allt það góða fólk sem tók þátt í þessu með mér hafa svo sannarlega auðgað líf mitt síðustu 10 ár!

Helgi Hafsteinn Helgason, læknir og fjallvegahlaupari, fær áritaða bók í útgáfu- og afmælishófinu á Kex 18. mars. (Ljósm. Etienne Menétrey).

Æfingarnar
Æfingar gengu einkar vel fyrstu þrjá mánuði ársins, eins og m.a. má sjá á stólparitinu hér að neðan sem sýnir mánaðarlega hlaupaskammta. Á þessum þremur mánuðum hljóp ég samtals 730 km, sem er það næstmesta á fyrsta ársfjórðungi hingað til. En vegalengdin segir ekki allt, því að í hlaupum gildir það sama og í öðrum hlutum lífsins, að meira er ekki endilega betra. Á þessum fyrstu þremur mánuðum ársins tók ég 7 æfingar 30 km eða lengri, en vanrækti aftur á móti styrktaræfingar og hraðaæfingar. Þetta rann upp fyrir mér þegar ég hljóp 5 km keppnishlaup á 20:47 mín 30. mars við toppaðstæður. Þessu tími var talsvert undir væntingum miðað við æfingamagn og fyrri árangur.

Mánaðarlegir hlaupaskammtar 2017. (Stærri mynd birtist ef smellt er á þessa).

Hlaupaæfing með Gittu í Winterberg í Þýskalandi í apríl. (Ljósm. Þorkell Stefánsson).

Í framhaldi af hlaupinu 30. mars ákvað ég að endurskoða æfingaáætlunina mína og leggja aðaláherslu á styrk og hraða næstu vikurnar. Það mistókst í rauninni, einkum vegna þess að hálfur aprílmánuður fór í vaskinn vegna óvenjuleiðinlegrar kvefpestar sem ég var óvenjulengi að hrista alveg af mér.

Í maí var heilsan aftur eitthvað að stríða mér og í lok mánaðarins tognaði ég svolítið í nára. Það háði mér ekki lengi, en þó nógu lengi til þess að í júní var ég ekki enn kominn í skikkanlegt sumarhlaupaform. Aðalmarkmið sumarsins var reyndar að bæta tímann minn á Laugaveginum og það getur svo sem vel verið að meiri styrkur og meiri hraði hafi ekki endilega verið bráðnauðsynlegar undirstöður þeirra áforma. Viku fyrir Laugaveginn mat ég stöðuna svo að ég væri „vissulega tilbúinn að hlaupa Laugaveginn, en hins vegar [væru] líkurnar á bætingu talsvert minni en ég hefði kosið – jafnvel hverfandi“. Sú varð líka raunin.

Eftir axlarbrotið á Laugaveginum var ég með hægri hendina í fatla í mánaðartíma og eðlilega lögðust hlaupaæfingar af á meðan. Kannski er alveg hægt að hlaupa með hönd í fatla, en brotin bein eru viðkvæm fyrir hristingi og í þessu ástandi er beinlínis hættulegt að detta og því rétt að fara að öllu með gát. En ég notaði tímann vel til gönguferða með mínum nánustu og á 18. degi frá broti fann ég út að ég gat vel skokkað upp og niður Hafnarfjallið. Í brekkunum gekk mér betur að halda öxlinni hreyfingarlausri en á jafnsléttu. Þessu fylgdi auðvitað einhver áhætta, en ég lagði mig virkilega fram við að fara varlega, sérstaklega á niðurleiðinni því að þar er hættan mest. Reyndar felst besta leiðin í gegnum lífið alls ekki í því að forðast áhættu, heldur miklu frekar í að halda áhættunni innan skynsamlegra marka. Ég tel að mér hafi tekist það. Í öllu falli fór ég 7 sinnum á fjallið dagana 2.-12. ágúst og varð síður en svo meint af. Og mér til mikillar undrunar var tíminn á leiðinni upp í 6. ferðinni sá besti sem ég hef náð til þessa, 42:00 mín. Það segir mér að þarna eru tækifæri til úrbóta. Og tíminn með fatlann var lærdómsríkur.

Í lok ágúst var ég farinn að geta æft nokkurn veginn eðlilega. Það var líka eins gott því að ég var skráður í Þriggjalandamaraþonið í Bregenz í Austurríki 8. október og tíminn vissulega orðinn naumur. Þrátt fyrir alla mínu reynslu féll ég í þá freistni að fara fullbratt í þessar síðustu vikur og afleiðing þeirrar óþolinmæði var tognun í læri 19. september, 19 dögum fyrir hlaup. Þetta var engin óskastaða, en ég fór varlega næstu daga í von um að sleppa með skrekkinn. Maraþonvonin hvarf svo endanlega (að ég hélt) þegar tognunin tók sig upp 1. október þegar 8 dagar voru til stefnu. Eftir góða umönnun Bjarkar, reikimeistara og lífsförunautar, og Halldóru, sjúkraþjálfara, ákvað ég þó að láta slag standa og leggja af stað í maraþonið vel „teipaður“ með þann bjargfasta ásetning að hætta strax og tognunin léti vita af sér. Maður var nú einu sinni búinn að borga ferðina. Og viti menn, tognunin lét ekki vita af sér og ég komst heill í mark eins og lesa má um í pistli á hlaup.is.

Hápunktur Þriggjalandamaraþonsins var eiginlega þetta augnablik við Mehrerau klaustrið í Bregenz. Ég hefði skilið Birki bónda í Tröllatungu eftir við 5 km markið, en þarna birtist hann allt í einu, búinn að hlaupa 40,7 km, og svo bara hvarf hann! (Ljósm. Alphafoto).

Eftir hlaupið í Bregenz lofaði ég sjálfum mér að leggja aðaláherslu á styrktaræfingar til áramóta, enda langt í næstu stóru markmið í hlaupum og nógur tími til að byggja upp þol á nýjan leik. Þolið er fljótt að koma (og fljótt að fara). Þetta gekk allt eins og í sögu, ég fór í ræktina 2-3 sinnum í viku og náði samtals 22 styrktaræfingum til áramóta. Hef aldrei verið duglegri á þeim vettvangi og fann greinilegan mun eftir því sem leið á tímabilið. Öxlin fékk líka sinn hluta af athyglinni, bæði í sjúkraþjálfun og í ræktinni, og í árslok var hún löngu hætt að há mér á hlaupum, sem og í flestum öðrum daglegum athöfnum.

Á árinu 2017 hljóp ég samtals 2.453,19 km sem gerir árið að því fjórða lengsta frá upphafi, þrátt fyrir allt.

Árlegir hlaupaskammtar 1985-2017. (Stærri mynd birtist ef smellt er á þessa).

Náði bara einu markmiði

Gleðin með í för í Hvítasunnuhlaupi Hauka. (Ljósm. Ragnhildur Aðalsteinsdóttir).

Ég setti mér fimm hlaupatengd markmið fyrir árið 2017 og náði bara einu þeirra, nefnilega að hafa gleðina með í för í öllum hlaupum. Það tókst þrátt fyrir axlarbrot og tognanir. Það er einfaldlega svo gaman að geta leikið sér eins og mann langar til!

Hin markmiðin fjögur voru í fyrsta lagi að bæta mig í 5 km hlaupi (hlaupa undir 19:39 mín). Ég komst aldrei nálægt því og vissi reyndar strax um miðjan apríl að það væri ekki inni í myndinni. Markmið nr. 2 var að bæta tímann minn á Laugaveginum (5:41:10 klst). Var rétt um korteri frá því. Axlarbrotið tafði mig ekki mikið, en það gerði mótvindurinn hins vegar. Án hans hefði ég kannski átt möguleika. Þriðja markmiðið var að bæta mig í maraþoni (undir 3:08:19 klst). Það átti að gerast í Bregenz um haustið. Líkurnar á að það tækist voru aldrei miklar og gufuðu alveg upp um sumarið og um haustið. Fjórða markmiðið var svo að hlaupa a.m.k. eitt keppnishlaup á braut. Þetta fórst fyrir nú sem endranær. Geri það kannski seinna.

Ég hefði svo sem líka getað sett mér það markmið að klára Fjallvegahlaupabókina. En ég vissi bara alveg í lok árs 2016 að það myndi takast og hafði því enga þörf fyrir að setja það neitt sérstaklega á blað.

Keppnishlaupin
Keppnishlaupin mín á árinu 2017 urðu samtals 15 og hafa aldrei verið fleiri. Voru reyndar jafnmörg árið 2014. Alls eru þau orðin 129 frá upphafi að brautarhlaupum frátöldum. Það telst ekki mikið þegar haft er í huga að það fyrsta var hlaupið fyrir 32 árum. Ég er ekki maðurinn sem mætir í öll hlaup, eins og mér finnst það annars skemmtilegt. Keppnishlaup eru bestu hraðaæfingar sem maður tekur og þar hitti ég líka allt þetta dásamlega fólk sem hefur álíka gaman af þessu og ég. Já, og svo eru þessi hlaup líka góð vísbending um hvað þurfi að laga í hlaupaæfingunum.

Aldrei þessu vant tók ég þátt í hvorki meira né minna en 6 vetrarhlaupum fyrstu þrjá mánuði ársins. Þar ber fyrst að nefna öll þrjú hlaupin í vetrarhlauparöð FH og Atlantsolíu í Hafnarfirði (5 km 26. janúar, 23. febrúar og 30. mars). Tók ekkert á því í fyrsta hlaupinu og endaði á 21:47 mín sem var næstlakasti tíminn minn frá upphafi. Var samt alveg sáttur. Í næsta hlaupi tók ég aðeins meira á því en hafði ekki alveg kraftinn sem þurfti undir lokin. Tíminn var 20:55 mín. Ég fór svo í síðasta hlaupið af fullri alvöru, staðráðinn í að nota allt sem ég ætti til. Gerði það en tíminn var samt ekki nema 20:47 mín. Taldi mig eiga að geta hlaupið undir 20:30 á þessum tímapunkti. Í dagbókinni minni frá þessu kvöldi stendur orðrétt: „Nú þarf að breyta einhverju“, (sbr. líka það sem stendur hér að framan um æfingarnar fyrstu mánuði ársins).

Atlantsolíuhlaupin voru söguleg í hlaupasögunni minni að því leyti að þetta voru fyrstu hlaupin þar sem ég var gjaldgengur í aldursflokknum 60+. Það var svolítið sérstök tilfinning. Og reyndar dugði frammistaðan í þessum hlaupum til að ná 44 stigum af 45 mögulegum í heildarstigakeppni aldursflokksins og standa uppi sem sigurvegari.

Síðustu vetur hef ég yfirleitt verið í forsvari fyrir Flandraspretti í Borgarnesi, en í þetta skipti leyfði ég mér þann munað að taka þátt, bæði í febrúar (16.2) og mars (16.3). Hljóp (5 km) á 20:55 í fyrra skiptið og 20:58 í seinna skiptið, sem var svo sem alveg í takti við árangurinn í Hafnarfirði. Seinna hlaupið er ógleymanlegt því að þá gáfu hlaupafélagarnir mér í afmælisgjöf að fjölmenna sem aldrei fyrr. Alls tóku 77 manns þátt í þessu hlaupi, en mesta þátttaka fram að því voru 33 stykki. Það er ómetanlegt að eiga svona félaga!

Enn er ónefnt 10 km Poweradehlaup 9. mars. Því lauk ég á 43:44 mín, sem getur engan veginn talist góður tími. Brautin var reyndar óvenjuslæm vegna gatnaframkvæmda. Og ég bjóst svo sem ekki við neinu meiru. Poweradehlaupin eru alltaf góðra vina fundir – og það er fyrir mestu!

Ég sleppti bæði Víðavangshlaupi ÍR og Vormaraþoni FM þetta árið enda enn hundslappur eftir veikindi sem herjuðu á mig um páskana. Sjöunda hlaup árins var því Icelandair-hlaupið (7 km) 4. maí, 8. árið í röð, í vestan golu, sól og 14 stiga hita. Lauk þessu hlaupi á 29:27 mín og um kvöldið skrifaði ég þetta: „Vonaðist til að vera ekki á PW (>29:34) en taldi allt umfram það vera í plús. Leit aldrei á klukkuna og leið vel allan tímann“. Þetta var allt í samræmi við raunsæjar væntingar og dugði auk heldur til sigurs í flokki 60 ára og eldri. Og í töflunni hér til hliðar má sjá árangur minn í öllum Icelandairhlaupum sem ég hef tekið þátt í. Þarna er engin stórvægileg sveifla.

Flandrarar að loknu Icelandairhlaupi, þ.e.a.s. ég, Hrafnhildur, Anna Helga, Pálína, Gunnar og Jósep. Það er ekki amalegt að vera hluti af svona hlaupahópi! (Man ekkert hver tók þessa mynd).

Keppnishlaup nr. 8 var Hvítasunnuhlaup Hauka 5. júní. Nokkrum dögum áður hafði ég tognað í nára á leiðinni niður Hafnarfjallið. Var frekar slæmur daginn fyrir hlaup en góður um morguninn og ákvað að vera með af því að Hvítasunnuhlaupið er alltaf svo skemmtilegt. Valdi stystu vegalengdina (sem ég geri annars aldrei) (14 km), fór að öllu með gát (nema kannski í blálokin) og kláraði hlaupið á 1:10:14 klst. sem var miklu betra en ég hafði þorað að vona. „Leið stórvel allan tímann og sól skein í heiði. Eitt af notalegustu hlaupum ævinnar“, svo vitnað sé í samtímaheimildir. Og svo fékk ég hlaupaskó í útdráttarverðlaun að hlaupi loknu og hef ekki fundið fyrir tognuninni síðan!

Hvítasunnuhlaupið. Gleði og gott veður! (Ljósm. hlaup.is).

Miðnæturhlaup Suzuki var 9. hlaup ársins. Þá var ég orðinn alheill en átti enn langt í land í æfingunum. Taldi mig í besta falli geta hlaupið á 1:35 klst. og var svo sem nálægt því, þ.e. á 1:35:56 – og nokkuð langt á undan næsta sextuga karli. Tíunda hlaupið var svo Laugavegurinn með axlarbroti en furðu góðum árangri. Þá reynslu hef ég tíundað í löngu bloggi. Þar var ég líka fyrsti sextugi karlinn, 38 mín. á undan næsta manni í aldursflokknum.

Uppáhaldshlaupamyndin mín frá árinu 2017, tekin á Laugaveginum á söndunum norðan við Emstrur, með Hattfell í baksýn. (Ljósm. Pascale Dengis, (belgísk kona sem átti þarna leið um með fjölskyldunni)).

Kominn í mark í Þórsmörk, blóðugur í framan með brotna öxl. Glaður, en leið ekki vel. (Ljósm. Hlaup.is).

Eftir Laugaveginn hafði ég hægt um mig í hlaupunum, enda ekki aðrir kostir í stöðunni. Lét mér nægja að horfa á Gittu mína og alla hina hlauparana í fyrsta Dyrfjallahlaupinu 22. júlí – og svo naut ég lífsins með Björk og skyldmennum í gönguferðum fyrir austan, með fatlann. Mætti svo óæfður í hálft maraþon í RM 19. ágúst. Það gekk furðu vel. Hljóp fyrstu 10 km á 44:53 mín og næstu 10 líka á 44:53 mín. Hraðinn var sem sagt býsna jafn alla leið, lokatíminn var 1:34:30 klst. og ég vann aldursflokkinn. Ég var óvenju heppinn með aldursflokk þetta árið! Þetta var framar vonum og líklega ekkert útilokað að ég gæti hlaupið gott Þriggjalandamaraþon um haustið. Þarna voru enn 7 vikur til stefnu.

Tólfta hlaupið var Hreppslaugarhlaupið (14,2 km) 31. ágúst. Kom þangað beint af fundi á Hvolsvelli og þurfti að hlaupa nánast beint út úr bílnum. En það gerði ekkert til, þetta átti bara að vera góð æfing. Vildi helst ná að halda aðeins meiri hraða en í RM, sem þýddi að ég vildi vera undir 1:04 klst. Það gekk eftir, lokatíminn var 1:03:19 klst. og engir á undan mér nema uppáhaldshlaupafélagarnir Birkir og Gunnar Viðar. Þetta var bara stórskemmtilegt.

Sloppinn heill í gegnum Þriggjalandamaraþonið. Nokkrir metrar eftir. (Ljósm. Alphafoto).

Í september reyndi ég af fremsta megni að byggja upp getu fyrir Þriggjalandamaraþonið, en ætlaði mér reyndar aðeins um of eins og fyrr segir. Mætti í Flensborgarhlaupið (10 km) 19. september þrátt fyrir að hafa tekið frekar stífa hraðaæfingu daginn áður. Ég veit svo sem alveg að það má ekki, en skynsemin ræður ekki alltaf. Mér gekk alveg þokkalega í þessu hlaupi, hljóp á 42:47 mín sem var svipað og ég bjóst við. En þegar 300 m voru eftir tognaði ég í vinstra læri. Það var rökrétt en ekki að sama skapi ánægjulegt.

Keppnistímabili ársins lauk í Þriggjalandamaraþoninu í Bregenz sunnudaginn 7. október. Hljóp þar fyrst létt 4 km keppnishlaup daginn áður, svona til að athuga hvort ég gæti yfirleitt hlaupið eitthvað svona tognaður. Tíminn í því hlaupi var 18:27 mín og lærið var alveg til friðs. Ákvað þá að halda mínu striki með maraþonið og lauk því á 3:25:31 klst. án vandræða. Auðvitað vildi ég gera betur, en það eitt að geta klárað hlaupið var miklu meira en ég hafði þorað að vona. Viku fyrr hafði ég ekki getað hlaupið svo mikið sem eitt skref. Um þessa reynslu má sem fyrr segir lesa eitthvað í pistli á hlaup.is.

Fátt kemur á óvart núorðið
Eins og sést á keppnishlaupafrásögnunum hér að framan kom fátt á óvart þetta árið. Kannski er það ein af neikvæðum aukaverkunum reynslunnar. Maður veit orðið nokkurn veginn hvar maður stendur og því eru tímar óvæntra atburða að mestu liðnir. Tímar í keppnishlaupum eru hættir að vera miklu betri en maður bjóst við og þeir eru líka hættir að vera miklu verri en maður bjóst við, nema ef einhver stór skakkaföll setja strik í reikninginn. Þetta er frekar spurning um nokkrar sekúndur til eða frá, eða í mesta lagi örfáar mínútur í lengstu hlaupunum. Málið snýst kannski um 3% frávik að hámarki. Og til að gera þetta enn fyrirséðara tók ég mjólkursýrupróf að gamni mínu á liðnu vori (nánar tiltekið 20. apríl), já eða laktatþröskuldspróf eins og ég kýs frekar að kalla það. Með svona prófi getur maður fundið út með sæmilegri nákvæmni hversu hratt maður getur hlaupið í langan tíma án þess að efnarafalar vöðvanna hætti að hafa undan og laktat taki að safnast upp í stað þess að brotna niður jafnóðum. Með „löngum tíma“ er hér átt við einn til einn og hálfan klukkutíma, eða u.þ.b. 14 km til hálft maraþon í mínu tilviki. Niðurstaðan var sú að ég ætti að geta haldið út í „langan tíma“ á hraðanum 4:33 mín/km (13,2 km/klst) og með púlsinn í 156 slögum/mín. Hraðinn minn í þeim tveimur hálfmaraþonhlaupum sem ég tók þátt í á liðnu sumri var 4:33 og 4:29 mín/km og í Hreppslaugarhlaupinu var hann 4:28 mín/km. Allt er þetta innan 2% skekkjumarka miðað við „mjólkursýruprófið“! Svo má bæta því við að ég tók aftur svona próf 1. desember. Það kom aðeins betur út og gaf til kynna að laktatþröskuldshraðinn væri 4:31 mín/km (13,3 km/klst) og laktatþröskuldspúlsinn 160 slög/mín. Stefni að því að endurtaka prófið 1. mars 2018 með betri niðurstöðum. Viljiði kannski að ég bloggi um það líka? Það er sko alveg hægt að hækka þennan þröskuld með réttum æfingum. Það eru engin geimvísindi!

Fjallvegahlaupin
Eins og áður segir var útkoma fjallvegahlaupabókarinnar á 6-tugsafmælisdaginn minn stærsti viðburðurinn í hlaupaárinu mínu. Ég fylgdi bókinni eftir með nokkrum kynningum hér og þar um landið um sumarið og haustið og í tengslum við þetta efndi ég líka til fjallvegahlaups yfir Svínaskarð 20. maí í samvinnu við útgefendurna mína í Sölku. Þátttakan í þessu hlaupi fór fram úr björtustu vonum en alls voru 64 hlauparar með okkur þennan dag.

Stærsti fjallvegahlaupahópur allra tíma í þann veginn að taka á rás frá Hrafnhólum norður yfir Svínaskarð. (Ljósm. Guðmundur Sigurbjörnsson).

Eftir að bókin var komin út var ég oft spurður hvað ég ætlaði að taka mér fyrir hendur næstu 10 ár. Þegar ég var nýbúinn að brjóta á mér öxlina fann ég að mig langaði til að halda áfram að hlaupa um fjallvegi, enda nóg til af þeim og óþarfi að gera sér upp einhvern frumleika. Ætlunin er sem sagt að hlaupa 50 fjallvegi til viðbótar áður en ég verð 7-tugur. Fyrstu tveir fjallvegirnir í þessum pakka voru hlaupnir um sumarið, reyndar áður en ákvörðun um framhald var tekin. Fyrst hljóp ég yfir Sælingsdalsheiði úr Saurbæ í Dölum að Laugum í Sælingsdal og síðan yfir Bæjardalsheiði úr Reykhólasveit til Steingrímsfjarðar. Síðarnefnda hlaupið var jafnframt hluti af árlegu Hamingjuhlaupi í tengslum við Hamingjudaga á Hólmavík.

Nýlögð af stað úr Saurbæ í Dölum suður yfir Sælingsdalsheiði. Kjallaksvellir eru rétt í hvarfi við vinstri jaðar myndarinnar.

Skemmtihlaupin
Að vanda stóð ég fyrir eða stuðlaði að þremur skemmtihlaupum á árinu, sem áttu það sameiginlegt að vera hvorki keppnishlaup né formleg fjallvegahlaup. Þar ber fyrst að nefna hinn árlega Háfslækjarhring sem jafnan er hlaupinn á uppstigningardag og endar með matarveislu sem Björk útbýr á meðan ég hleyp þennan 21 km hring með boðsgestunum. Nú var þetta hlaup þreytt í 8. sinn og hlaupararnir voru 16 talsins.

Alhörðustu hlaupafélagarnir á Háfslækjarhringnum á uppstigningardag, nánar tiltekið spölkorn vestan við Skilklett. Lærið beið á grillinu heima hjá Björk.

Hin tvö skemmtihlaupin eru Þrístrendingur og Hamingjuhlaupið. Þrístrendingur er hugarfóstur okkar Dofra Hermannssonar, en móðir mín og afi hans voru systkini og ólust upp á Kleifum í Gilsfirði. Þaðan hlaupum við einu sinni á ári norður Steinadalsheiði til Kollafjarðar, yfir Bitruháls að æskuheimili mínu í Gröf í Bitru og loks suður (eða vestur) Krossárdal að Kleifum, samtals um 41 km. Nú var þessi leið hlaupin í 8. sinn laugardaginn 17. júní. Þátttakendur voru með fæsta móti, en alls fóru 8 hlauparar einhvern hluta leiðarinnar, þar af þrír sem kláruðu allan hringinn. Hamingjuhlaupið fór svo fram í 9. sinn laugardaginn 1. júlí – og var fjallvegahlaup í leiðinni. Að þessu sinni var hlaupið yfir Bæjardalsheiði til Hólmavíkur og endað með tertuhlaðborði að vanda. Við villtumst reyndar aðeins á heiðinni, ekki vegna þess að veðrið hafi verið svona dimmt, heldur einfaldlega af aðgæsluleysi. Svoleiðis kemur stundum fyrir. Eitthvað seinkaði okkur fyrir bragðið, en annars kom þetta ekkert að sök.

Hamingju- og fjallvegahlaup yfir Bæjardalsheiði. Kolbrún Unnarsdóttir fremst meðal jafningja – og þarna vorum við líklega nýbúin að villast.

Markmiðin 2018
Ef maður veit ekki hvert maður ætlar er hætt við að maður lendi einhvers staðar annars staðar. Þess vegna þarf maður að setja sér markmið, jafnt í hlaupum sem í öðrum viðfangsefnum lífsins. Annars gerist ekki neitt!

Mörg síðustu ár hef ég sett mér fimm hlaupamarkmið í upphafi árs. Stundum hef ég einfaldað málið með því að endurnota þau markmið síðasta árs sem ekki náðust. Þannig hef ég t.d. stefnt að því tvö síðustu ár að bæta mig í 5 km götuhlaupi (undir 19:39 mín). Þetta er ágætis markmið en ég ætla samt ekki að nota það oftar i bili. Það passar nefnilega ekki inn í innréttingu ársins 2018, sem á að verða „ár hinna löngu hlaupa“. Nú er komið að því að takast á við eins og eitt ofurmaraþon í útlöndum, nánar tiltekið Ultravasan-90, þar sem hlaupin er sama leið og gengin er í hinni margfrægu Vasagöngu, frá Sälen til Mora í Dölunum í Svíþjóð. Þetta á að gerast 18. ágúst 2018.

En markmiðin fimm eru sem sagt eftirtalin:

 • 90 km ofurhlaup í Svíþjóð
 • Þrjú maraþon
 • A.m.k. 5 fjallvegahlaup
 • A.m.k. 28 styrktaræfingar frá áramótum til aprílloka
 • Gleðin með í för í öllum hlaupum (endurnotað og sígilt)

Já, og svo getur vel verið að ég bæti mig í 5 km hlaupi, eða einhverju öðru, þó að það sé ekkert markmið í sjálfu sér.

Lokaorð
Ekkert er sjálfsagt í þessum heimi – og alls ekki það að geta unað sér við áhugamál sem gefur manni jafnmikla andlega, líkamlega og félagslega vellíðan og hlaupin gefa mér. Þess vegna er lokaorð þessa pistils aðeins eitt: Takk!

Mótlæti á Laugaveginum

Rásnúmerið mitt, vælubílsnúmerið 113. Var þetta fyrirboði?

Síðastliðinn laugardag hljóp ég Laugaveginn í fjórða sinn. Þó að leiðin sé alltaf sú sama eru engar tvær ferðir eins og upplifunin ný í hvert skipti. Þessi Laugavegur var t.d. ríkari af mótlæti en tveir þeir næstu á undan. Annars vegar höfðum við vindinn í fangið næstum alla leið og hins vegar lenti ég í óhappi undir lokin sem setti strik í reikninginn. En ég er sáttur við árangurinn eins og hann mældist í mínútum. Og öll ný reynsla bætir einhverju við lífið.

Undirbúningurinn
Æfingarnar fyrir Laugaveginn gengu ekki alveg eins vel og ég hafði ætlað mér. Mörgu ferðirnar sem ég ætlaði upp á Hafnarfjallið urðu að fáum ferðum og minni háttar meiðsli og veikindi gerðu það að verkum að æfingatímabilið varð heldur skörðótt. Þetta rakti ég allt saman í þar til gerðum bloggpistli á dögunum. Þrátt fyrir þetta hafði ég trú á að ég gæti jafnvel bætt mig í þessu Laugavegshlaupi ef aðstæður yrðu hagstæðar. Ég hafði tekið tiltölulega margar langar hlaupaæfingar og hraðinn, sem ég vissi að ég átti ekki til, var ekki líklegur til að skipta sköpum í svona löngu utanvegahlaupi. Ég taldi sem sagt að í mér byggi býsna þrautseigur langhlaupari, þó að spretthlauparinn væri í fríi. Það var helst að brekkurnar gætu orðið erfiðar, sérstaklega upp í móti, því að brekkuhlauparinn var ekki upp á sitt besta.

Að morgni hlaupadags
Ég var ekki aldeilis einn á ferð frá Borgarnesi þennan laugardagsmorgun. Auk mín ætluðu þrír félagar mínir úr Hlaupahópnum Flandra að hlaupa Laugaveginn og þar við bættist Strandamaðurinn Birkir Stefánsson í Tröllatungu sem oft áður hefur veitt mér góðan félagsskap á hlaupum. Og af því þetta var nú orðinn svona álitlegur hópur var ákveðið að sleppa rútuferðinni þetta árið og reyna þess í stað að finna fararskjóta sem gæti flutt allt liðið í Landmannalaugar og heim aftur frá Þórsmörk, þ.m.t. yfir Krossá. Haukur Þórðarson, hlaupafélagi okkar, hafði fyrir löngu boðið sig fram sem bílstjóri og Björgunarsveitin Heiðar í Borgarfirði var svo vinsamleg að leigja okkur öflugan bíl til fararinnar. Þar með var allt til reiðu og við lögðum af stað úr Borgarnesi stundvíslega kl. 4 að morgni.

Borgarnesi kl. 4 á laugardagsmorgni.

Ferðin upp í Landmannalaugar gekk eins og í sögu. Vorum komin þangað um kl. 7:30, vel á undan rútunum sem fluttu flesta hlauparana á staðinn. Þessu fylgdu tiltekin forréttindi, svo sem greiður aðgangur að annars takmörkuðum fjölda salerna. Veðurspá dagsins gerði ráð fyrir suðvestan kalda, skúrum og fremur svölu veðri, en veðrið í Landmannalaugum var stórfínt, hægur vindur, þurrt og svalt.

Fyrsti hópurinn í Laugavegshlaupinu var ræstur upp úr kl. 9 og tíminn þangað til var að vanda notaður í vangaveltur um hvernig best væri að klæða sig, hvaða búnað og nesti ætti að taka með sér og hvað væri betur geymt í bílnum þannig að grípa mætti til þess í Þórsmörk að hlaupi loknu. Þarna er vandrataður meðalvegurinn á milli þess annars vegar að vera of lítið klæddur og verða gegnkaldur þegar hitastigið lækkar á fjöllum og hins vegar að burðast með óþarfa sem þyngir mann í hverju skrefi. Reynslan kemur að góðum notum í þessu, en samt verður hver og einn að finna þá lendingu sem hentar honum best.

Allt tilbúið í Landmannalaugum. F.v.: Birkir Þór Stefánsson, Gunnar Viðar Gunnarsson, SG, Kristinn Óskar Sigmundsson, Auður H Ingólfsdóttir og Haukur Þórðarson. (Ljósm. Brynjar Berg).

Áætlun dagsins
Áætlun mín fyrir hlaupið var einföld: Ég ætlaði að reyna að ná sömu millitímum á helstu viðkomustöðvum og ég gerði í hlaupinu 2015 þegar ég náði mínum besta tíma til þessa, 5:41:10 klst. Ef það gengi ekki upp var ég tilbúinn að gefa mér 5% afslátt, sem myndi þýða lokatíma upp á 5:58:14 klst. Ég hefði útbúið lítið spjald með helstu vegalengdum og tímasetningum, sem ég skellti í vasann til að geta rifjað upp áformin. Reyndar notaði ég þetta spjald lítið. Á frekar auðvelt með að muna tölur.

Kjarninn í áætlun dagsins.

Við „Flandratröllin“ höfðum gert ráð fyrir að fylgjast að mestu að til að byrja með, en svo yrði framhaldið auðvitað að ráðast af líðan hvers og eins. „Flandratröll“ var nafnið á fjögurra manna sveit sem var skipuð okkur Gunnari Viðari, Kristni (Kiddó) og Birki. Þrír okkar eru félagar í Hlaupahópnum Flandra og Birkir hefur fylgt okkur í ýmsum hlaupum síðustu árin. Nafnið á sveitinni er augljóslega tengt nafni hlaupahópsins og búgarði Birkis, en í því felst jafnframt tilvísun í vaxtarlag okkar félaganna, sem mörgum þykir með knappara móti.

Í samantektinni hér á eftir nota ég vegalengdirnar sem úrið mitt sýndi á laugardaginn. Þær eru örlítið frábrugðnar sams konar tölum úr sams konar bloggi frá 2015, enda má alltaf búast við einhverjum mun á svona mælingum frá ári til árs.

1. áfangi: Landmannalaugar – Hrafntinnusker: 9,99 km
Félagar mínir þrír eru allir talsvert sterkari í brekkum en ég, sérstaklega á uppleiðinni. Ég hafði því hvatt þá til að nýta þennan styrkleika af festu og ábyrgð á leiðinni upp í Hrafntinnusker, þó að það myndi þýða að leiðir skildu. Ég myndi svo hugsanlega saxa á forskotið á flatari köflum þegar líða tæki á hlaupið og reynslan og þolið færu að segja til sín. Birkir og Kiddó virtust hafa ákveðið að fara að mínum ráðum. Alla vega náðu þeir fljótlega góðu forskoti þrátt fyrir að ég hefði reynt að fara sem hraðast á fáeinum stuttum og flötum köflum í upphafi hlaupsins. Gunnar var hins vegar lengst af í humátt á eftir mér og þegar ég var kominn lengra upp í brekkurnar fór hann að dragast aftur úr. Þá vissi ég strax að ekki var allt með felldu. Hins vegar var vinur okkar, Gunnar Ólason, allan tímann í námunda við mig. Hann sagðist staðráðinn í að fara ekki fram úr mér snemma í hlaupinu, því að það hefði aldrei reynst honum vel. Þar var hann að vísa í einhver löng hlaup sem við höfum verið samferða í síðustu tvö árin.

Veðrið á þessum fyrsta kafla var ekkert til að kvarta yfir og náttúrufegurðin jafn óviðjafnanleg og alltaf. Ég fylgdist lítið með klukkunni, enda lítið um viðmiðanir á þessari leið. Mér leið frekar vel þó að mér fyndist ég ekki sérlega ferskur, en svoleiðis tilfinningar í upphafi langra hlaupa hafa lítið forspárgildi.

Ofan við Stórahver sat enn talsverður snjór í giljum, þó ekki nærri eins mikill og 2015 ef ég man rétt. Ég reyndi að halda mig utan við troðnustu brautina í sköflunum, því að þar finnst mér undirlagið oft fastara fyrir. Reyndar miðaði mér ágætlega upp skaflana og var farinn að draga verulega á Kiddó og Birki. Ofarlega í brekkunum fór að rigna og svo breyttist rigningin í slyddu. Þá var gott að grípa til lambhúshettunnar sem ég hafði geymt í vasa mínum til öryggis. Annars er ég lítið gefinn fyrir höfuðföt.

Og allt í einu birtist skálinn í Hrafntinnuskeri, miklu fyrr en mig hafði minnt. Við þremenningarnir skokkuðum þar í hlaðið næstum samtímis, ég var óþreyttur og mér leið vel þrátt fyrir að vera orðinn vel blautur. Tölurnar á klukkunni komu verulega á óvart. Þar stóð 1:10:43 klst, sem þýddi að ferðin uppeftir hafði tekið 3:47 mín styttri tíma en ég hafði best gert áður. Nú var gaman!

2. áfangi: Hrafntinnusker – Álftavatn: 10,99 km
Ég hef vanið mig á að eiga litla viðdvöl á drykkjarstöðvum. Hélt uppteknum hætti að þessu sinni og staldraði ekkert við í Hrafntinnuskeri, þáði bara fyllingu á vatnsbrúsann minn og hélt svo ferðinni áfram, glaður í bragði, á móti sunnanáttinni sem var aðeins farin að sækja í sig veðrið. Slyddan var hætt en gekk á með skúrum. Líðanin var góð en einhvern veginn fannst mér ég þó vera farinn að lýjast, fyrr en ég hefði viljað. Að vanda fylltist hugurinn af gleði þegar útsýni opnaðist suður af fjöllunum og yfir Álftavatn og ég sá ekki betur en þar skini sól inn á milli skúraklakkanna. Framundan var leiðin niður Jökultungur, sem sögð var óvenju viðsjárverð að þessu sinni. Sögur höfðu jafnvel borist af klaka og hálku.

Leiðin niður Jökultungur reyndist allsendis klakalaus, en álíka brött og laus í sér og vant er. Niðurhlaup hafa löngum verið mín sterkasta grein en þarna fannst mér mig vanta styrk í fæturna til að geta „látið vaða“ eins og mig langaði til. En þetta gekk nú samt ágætlega og við talningarstöðina við Álftavatn sýndi klukkan 2:19:08 klst, sem var 3:22 mín betra en 2015. Ég var sem sagt búinn að glutra niður 25 sek af forskotinu sem ég vann mér inn á leiðinni upp í Hrafntinnusker, en þetta leit samt ágætlega út. Kannski myndi ég ná að bæta „PB-ið“ mitt þegar allt kæmi til alls. En, samt, eitthvað var farið að hægjast á mér og greinilegt að suðvestanáttin var ekkert hætt að blása í fangið á okkur. Kiddó og Birkir voru þarna rétt hjá mér og Gunnar Ólason sömuleiðis. Kiddó hafði átt í einhverjum vanda með innlegg í skónum sínum, en að öðru leyti virtust þeir félagar þokkalega ferskir.

3. áfangi (a): Álftavatn – Bláfjallakvísl: 5,20 km
Ég hef tekið upp þann sið að skipta Laugaveginum í sex áfanga en ekki bara fjóra eins og flestir gera. Þannig fæ ég oftar vísbendingu um gang mála og um leið finnst mér leiðin styttast. Í svona löngum hlaupum finnst mér best að beina huganum að einum áfanga í einu, því að mér finnst léttara að hugsa um 5 kílómetrana sem eru eftir að næsta viðkomustað en 32 kílómetrana sem eru eftir í mark.

Á þessum kafla var ég farinn að finna meira fyrir mótvindinum. Kannski var hann að aukast, eða kannski var ég bara orðinn þreyttur. Annað slagið gerði skúrir en þær öngruðu mig ekki neitt. Þetta var ekki svo mikið að maður blotnaði að gagni, hitastigið var bærilegt og lambhúshettan komin á sinn stað í vasanum. Ég hafði meiri áhyggjur af því að hlaupafélagarnir voru farnir að dragast aftur úr. Gunnar Ólason var þó alltaf í sjónmáli.

Millitíminn við Bláfjallakvísl olli vonbrigðum en kom ekki beinlínis á óvart, 2:52:22 klst. Nú voru bara 2:08 mín eftir af forskotinu á tímann minn frá 2015 og ég vissi að næsti áfangi gæti reynst mér drjúgur í mótvindinum. En ég hafði enga ástæðu til að kvarta, fann hvergi til, bara svolítið lúinn.

3. áfangi (b): Bláfjallakvísl – Emstrur: 10,74 km
Vatnið í Bláfjallakvísl náði mér rúmlega í hné þar sem dýpst var og mér fannst það kalt. En ég hélt ferðinni strax áfram og hlýnaði fljótt aftur. Það var bara verst þetta með vindinn. Framundan voru sandarnir, hátt í 11 km leið sem mér hafði tekist að hlaupa á sléttum klukkutíma, bæði 2013 og 2015. Nú hafði ég á tilfinningunni að þetta gæti orðið seinlegra.

Á þessum kafla var ég lengst af einn á ferð. Sá þó Gunnar Ólason alltaf tilsýndar þegar ég leit um öxl og eins sá ég nokkra hlaupara drjúgan spöl á undan mér, þ.á.m. sænska konu sem hafði farið fram úr mér á leiðinni frá Álftavatni að Bláfjallakvísl. Hún varð einmitt þriðja kona í mark á tæpum 5:38 klst, sem er einmitt tími sem ég gæti vel hugsað mér að ná. Mér finnst reyndar ekkert endilega verra að vera einn á ferð á svona köflum, það er bara öðruvísi. Þegar fleiri eru saman er hægt að gleyma tímanum við spjall um eitthvað annað en hvað manni líði illa og hversu langt sé eftir, auk þess sem hægt er að skiptast á um að kljúfa vindinn. Sjálfur hef ég reyndar aldrei velt þessu vindsamstarfi neitt fyrir mér. Í einverunni reyni ég hins vegar að gleyma tímanum með því að slökkva sem mest á skynjuninni og hugsa ekki um neitt nema e.t.v. taktinn í einhverju lagi sem hljómar í huganum. Þar á ég innbyggðan lagalista sem gott er að grípa til og oft á tiltekið lag einhverja tengingu við tiltekna minningu, t.d. minningu úr hlaupi þar sem allt lék í lyndi. Takturinn getur sameinast fótataki manns sjálfs eða einhverju öðru hljóði, t.d. reglubundnu hringli í salttöflum sem ég tek stundum með mér í litlu boxi í löng hlaup, af því að ég held að svoleiðis töflur minnki líkurnar á krömpum.

Í öllum löngum hlaupum er ég með fyrirframgerða næringaráætlun og í þetta sinn var hún mjög einföld. Á 45 mínútna fresti skyldi sporðrennt einu hnausþykku GU-geli með koffíni og einni salttöflu í bragðbæti og hvoru tveggja skolað niður með tveimur gúlsopum af vatni. Þess á milli skyldi dreypt á vatni af og til, nógu miklu til að á hverjum 10 km kafla lækkaði um 300-400 ml. í vatnsbrúsanum sem ég hafði meðferðis. Á hverri drykkjarstöð lét ég svo bæta nógu vatni í brúsann til að hann entist í næsta áfanga – og helst ekkert umfram það. Þetta var fyrsta Laugavegshlaupið þar sem gel var eina nestið, enda sagði reynslan að það myndi duga mér ágætlega. Sú varð og raunin. Ég býst við að löngu hlaupin mín síðustu misseri hafi þjálfað líkamann í að brenna fitu þegar á þarf að halda. Af henni á ég nóg, þótt það sjáist kannski ekki í fljótu bragði.

Mér tókst vel að hverfa inn í einsemdina á söndunum, þó að ég fyndi vissulega að hægt miðaði. Reyndi að sniðganga úrið algjörlega, það tifaði víst jafnhratt hvort sem var. En svo tók ég allt í einu eftir því að tónlist saltboxins var þögnuð. Ástæðan var augljós, boxið hafði dottið úr beltinu og myndi nú sjálfsagt veltast um úti í náttúrunni í 1.000 ár með öllu hinu plastinu sem ég og allt hitt fólkið hafði misst frá sér á lífsleiðinni. Þetta voru ekki góðar fréttir. Reyndar hafði ég engar stórar áhyggjur af salttöfluleysinu, aðallega vegna þess að áhyggjur leysa engan vanda en líka vegna þess að gelin mín innihéldu eitthvað af natríum, alla vega sum. Hitt var öllu verra, að ég skyldi eiga þennan þátt í að menga þessa dásamlegu náttúru.

Rétt áður en ég kom að drykkjarstöðinni á söndunum, spölkorni sunnan við Innri-Emstruá, heyrði ég Gunnar kalla til mín að hann væri með boxið sem ég týndi. Ég hinkraði augnablik við stöðina svo að Gunnar næði mér, fékk boxið og tróð því í vasa sem það átti ekki að geta dottið úr og hélt svo áfram ferðinni í svipuðum takti og fyrr. Minn hluti af mengunarvanda dagsins var úr sögunni, þökk sé Gunnari. Gætti þess að líta aldrei á klukkuna og hugsa aldrei hversu langt væri eftir í Emstrur. Einbeitti mér þess í stað að því að hlaupa afslappaður með slakar axlir. Það getur verið gott að hugsa um smáatriði þegar stóra myndin er ekki hagstæð. Emstrur létu bíða eftir sér, en alltaf finnst mér samt jafngott að koma þangað. Núna var það jafnvel enn betra en venjulega, því að þar tóku Erla Gunnarsdóttir og annað starfslið mér svo sannarlega opnum örmum. En klukkan hafði tifað og sýndi 4:01:47 klst. Það var meira að segja hægara en í hlaupinu 2013 þegar millitíminn í Emstrum var 4:00:00 klst. Þar með voru allar hugmyndir um að bæta tímann frá 2015 afskrifaðar. Nú snerist þetta bara um að ljúka hlaupinu á innan við 6 klst. Það átti enn að vera hægt.

4. áfangi (a): Emstrur – Þröngá: 13,31 km
Starfsfólkið í Emstrum sagði mér að nú væri mesti mótvindurinn búinn. Það fannst mér gott að heyra, þó að ég vissi að það gæti naumast verið rétt. Vindurinn hlaut að ná sér aftur á strik þegar komið væri upp úr gljúfri Fremri-Emstruár. Sú varð líka raunin. En mér var svo sem alveg sama, þetta snerist bara um að halda áfram jafnt og þétt hvað sem á gengi. Og það gerði ég, ákveðinn í að vera sáttur við tímann minn hver sem hann yrði. Þetta var erfitt en virkilega gaman.

Eftir mjög drjúga stund með lágmarksskammti af hugsunum sýndist mér ég sjá Kápuna framundan. Nú var sem sagt farið að síga verulega á seinnihlutann, þreytan í líkamanum bara svipuð og hún hafði verið og engir krampar eða önnur vandamál höfðu gert vart við sig. En þá gerðist það, bara nokkrum metrum áður en ég kom að drykkjarstöðinni við Ljósá. Ég steyptist fram fyrir mig og lenti beinlínis á andlitinu á jörðinni. Hef ekki hugmynd um hvað fór úrskeiðis, kannski gleymdi ég mér bara við að horfa á drykkjarstöðina og gleðjast yfir því hvað ég ætti stutt eftir, bara rétt um 5 km – og hægur vandi að ljúka hlaupinu á innan við 6 klst. Þarna lá ég alla vega, alveg flatur á troðnum moldarstíg. Hefði varla getað fundið betri stað á allri leiðinni til að detta á. Þetta var samt vont og ég fann að það blæddi einhvers staðar úr andlitinu á mér. Eftir að hafa legið smástund til að reyna að ná áttum brölti ég á fætur með góðri hjálp starfsfólksins á drykkjarstöðinni. Ég gat alla vega labbað, það var gott og ég hlaut að vera óbrotinn. Nú væri líklega næsta mál að rölta á leiðarenda og gleyma 6 tíma markmiðinu. Framundan var Kápan og upp hana myndi ég hafa labbað hvort sem var.

Á leiðinni upp Kápuna skolaði ég mesta blóðið og moldina úr andlitinu með vatni sem hafði verið bætt í brúsann minn á drykkjarstöðinni. Var greinilega með sár á efri vörinni en virtist hafa sloppið mjög vel að öðru leyti. Meira að segja gleraugun voru bæði heil og hrein. Þegar upp var komið byrjaði ég að skokka en fann þá að hægri handleggurinn hafði ekki áhuga á frekari þátttöku í þessu hlaupi. Ég vissi svo sem ekki til að hann hefði orðið fyrir hnjaski í byltunni, en þarna var greinilega eitthvað í ólagi. Reyndar var þessi handleggur ekkert sérstaklega góður fyrir, því að síðustu mánuði hafði ég glímt við einhverja klemmu í öxlinni og ekki haft betur. Núna var hann bara u.þ.b. tífalt verri en vanalega.

Ég var frekar illa til reika þegar ég kom að Þröngá. Hitti Ingvar Garðarsson við vaðið eins og stundum áður og sagði farir mínar ekki sléttar. Reyndi svo að láta eitthvað af mold skolast af fötunum mínum í ánni. Klukkan sýndi 5:37:36 mín, sem þýddi að ég gat enn gert mér vonir um 6 tímana. Árið 2015 hljóp ég þennan síðasta spöl á 17:10 mín og þrátt fyrir afleitt ástand hlaut ég að geta skreiðst þetta á 22 mín. Þetta eru ekki nema 2,8 km.

Nýkominn yfir Þröngá og hægri handleggurinn kominn í varanlega stöðu. (Ljósm. Magnús Jóhannsson).

4. áfangi (b): Þröngá – Húsadalur: 2,76 km
Í þann mund sem ég var kominn yfir Þröngá náði Reimar Snæfells Pétursson mér, en við höfðum hist sem snöggvast fyrr í hlaupinu. Reimar var hinn hressasti og ágætt að skiptast á hvatningarorðum fyrir lokasprettinn. Þetta varð þó auðvitað enginn sprettur í mínu tilviki en ég fann út að með því að halda þéttingsfast með hinni ósamstarfsfúsu hægri hendi í framstykkið á hlaupajakkanum mínum gat ég svo sem alveg skokkað. Þessi síðasti áfangi tók þegar allt kom til alls ekki nema 18:19 mín, þ.e. rúmri mínútu lengri tíma en 2015, og þegar ég kom í mark sýndi klukkan 5:55:56 klst. Ég gat ekki annað en verið mjög sáttur við það miðað við aðstæður. En ég hef sjálfsagt oftast litið betur út á marklínunni.

Stundirnar eftir hlaup
Marksvæðið í Laugavegshlaupinu er alltaf í sérstöku uppáhaldi hjá mér og ég reyni helst að staldra þar við eins lengi og ég get til að spjalla við allt það góða fólk sem þar hefur safnast fyrir. Þetta var svo sem eins í þetta sinn, en upplifunin var önnur en venjulega því að sjálfum leið mér verulega illa í öxlinni og þar í kring. Náði þó að tína í mig næringu af ýmsu tagi og gleðjast yfir góðum degi. Gunnar Ólason kom í mark tæpum tveimur mínútum á eftir mér. Hann hafði nánast aldrei misst sjónar af mér alla leiðina og það var gott að vita af honum í nágrenninu. Kiddó skilaði sér svo fyrr en varði, glaður í bragði og allvel haldinn á 6:06:35 klst. í sínu fyrsta Laugavegshlaupi. Birkir og Gunnar komu svo rúmum 20 mín. síðar, báðir dálítið lerkaðir. Auður var talsvert lengur á leiðinni eins og við mátti búast, en hún náði tímamörkunum og vel það. Og þar með var allur hópurinn í höfn.

Flandratröll að hlaupi loknu. (Ljósm. Felix Sigurðsson).

Þegar hér var komið sögu gerði ég mér grein fyrir að sturtuferð gæti orðið mér ofviða. Frestaði henni því til betri tíma og lét mér nægja að skipta um föt. Það var ærið verkefni og sársaukafullt, en þetta hafðist og við tók hefðbundinn kvöldverður og verðlaunaafhending. Ég reyndist vera öruggur sigurvegari í flokki 60-69 ára, réttum 38 mín á undan næsta manni og rúmlega einum og hálfum tíma á undan næsta Íslendingi. Mér finnst alltaf gaman að vinna til verðlauna. Verkir í öxl breyta engu um það.

Heimferðin
Haukur bílstjóri beið okkar í Þórsmörk eins og til stóð og þjónustaði okkur þar á alla lund. Það er ómetanlegt að hafa aðgang að annarri eins hjálparhellu á stundum sem þessum. Hann hafði reyndar lent í töluverðum hremmingum sjálfur, því að á leiðinni úr Landmannalaugum sprakk á bílnum. Einhvern veginn tókst honum að komast á leiðarenda á lánsdekki, en dekk á fullvaxna bíla liggja ekkert endilega á lausu. Þegar allt var yfirstaðið röðuðum við okkur inn í fararskjótann og héldum af stað heimleiðis eftir að hafa ferjað fáeina hlaupara yfir Krossá. Ferðalaginu lauk svo í Borgarnesi um miðnættið, 20 tímum eftir að það hófst.

Eftirköstin
Ég var nokkuð góður í fótunum daginn eftir hlaup og gat ekki annað en glaðst yfir því. Hins vegar hafði verkurinn í öxlinni hreint ekki skánað, enda leiddi læknisskoðun sunnudagsins í ljós að öxlin var brotin. Góðu fréttirnar voru þær að axlarliðurinn er heill og ef allt gengur að óskum ætti beinið að vera orðið gróið eftir 4-5 vikur í fatla. Það verður því lítið um hlaup á næstunni og sumar daglegar athafnir munu reynast ögn snúnari en á venjulegum degi.

Þakkir
Ég á mörgum mikið að þakka eftir þetta Laugavegshlaup. Þar ber fyrst að nefna eiginkonuna Björk sem hefur umborið þetta tímafreka áhugamál mitt í áratugi og aðstoðað mig við að sinna því, hversu mikið sem það hefur bitnað á öðrum verkefnum. Svo fá ferðafélagar dagsins sérstakar þakkir og þó sérstaklega bílstjórinn Haukur. Það var ný og afar jákvæð upplifun að fara þessa ferð í svona litlum og samhentum hópi, þar sem allir leggja gott til mála. Og svo má ekki gleyma öllum þeim fjölda starfsmanna, sjálfboðaliða og þátttakenda sem gera Laugavegshlaupið að þeim glæsilega stórviðburði sem það er. Það eru forréttindi að hafa heilsu og möguleika til að taka þátt í svona ævintýrum. Ég er lánsamur maður. Brotin öxl breytir engu um það.

Er ég tilbúinn í Laugaveginn?

Laugav 2015. Hlaup.is.

Laugardaginn 15. júlí nk. ætla ég að hlaupa Laugaveginn í 4. sinn. Fór hann fyrst sumarið 2007 (á 6:40:50 mín) og svo aftur 2013 (5:52:33 klst) og 2015 (5:41:10 klst). Þetta hefur sem sagt verið saga stöðugra framfara. Eitt stærsta hlaupamarkmiðið mitt fyrir árið 2017 er að framlengja þessa sögu, þ.e.a.s. að bæta tímann minn frá 2015, þó ekki væri nema um 1 sekúndu. Og nú sit ég í svipuðum vangaveltum og margir aðrir hlauparar: Er ég tilbúinn í þetta?

Svar við spurningunni
Stutta svarið við spurningunni hér að framan er að ég sé vissulega tilbúinn að hlaupa Laugaveginn, en hins vegar séu líkurnar á bætingu talsvert minni en ég hefði kosið – jafnvel hverfandi. Ég tel mig reyndar að flestu leyti vera í góðu standi þrátt fyrir einhver ónot hér og þar í skrokknum. Ég á sem sagt ekki við nein veruleg meiðsli að stríða og hef enga sérstaka ástæðu til að ætla að einhver vandamál af því tagi skjóti upp kollinum á leiðinni. Hins vegar hafa æfingarnar það sem af er árinu ekki gengið sem skyldi og tímarnir í þeim keppnishlaupum sem ég hef farið í gefa ekki tilefni til bjartsýni.

Æfingarnar
Fyrstu sex mánuði ársins hljóp ég samtals 1.409 km á æfingum. Það er reyndar með mesta móti miðað við fyrri ár, en meira er ekki alltaf betra í þessum efnum. Þetta hefur líka að sumu leyti gengið skrykkjótt, eins og sjá má á stólpariti yfir vikulega hlaupaskammta frá áramótum. (Stærri mynd birtist ef smellt er á þessa).

Lengd hlaupaviknanna minna frá áramótum í kílómetrum talin. (Vika 27 stendur yfir þegar þetta er skrifað og því er þar ekki komin endanleg tala).

Eins og myndin gefur til kynna hafa hvað eftir annað komið skörð í þróunina, sérstaklega frá og með viku 15, þ.e.a.s. frá því í apríl. En svona gerast auðvitað kaupin á eyrinni hjá flestum hlaupurum. Heilsan er ekkert sem maður getur gengið að sem vísu og svo þarf maður stundum að gera eitthvað fleira en að æfa sig. En til að ná sem bestum árangri hefði þetta þurft að vera jafnara.

Keppnishlaupin
Það sem af er árinu hef ég hlaupið 9 keppnishlaup, sem er svo sem hvorki meira né minna en ég er vanur. Ég tók m.a. þátt í öllum þremur hlaupunum (5 km) í Atlantsolíuhlauparöð FH í janúar-mars. Tímarnir í þessum hlaupum sýndu að ég var ekki í jafngóðu 5 km formi og ég hef verið síðustu ár. Þetta kom gleggst í ljós í síðasta hlaupinu 30. mars þar sem ég hljóp 5 km á 20:47 mín (flögutími) við toppaðstæður. Það væri náttúrulega vanþakklæti af manni sem er nýorðinn sextugur að kvarta yfir svoleiðis tíma, enda sýnist mér að aðeins tveir íslenskir karlar á aldrinum 60-64 ára hafi náð betri tíma frá því að mælingar hófust. En ég ber mig ekki mikið saman við aðra, heldur fyrst og fremst við sjálfan mig, enda snýst þetta um að sigra mig en ekki hina. Og 5 km tímarnir í vetur voru með þeim lökustu sem ég hef náð síðustu árin. Þess vegna vissi ég í lok mars að ég hefði verk að vinna ef ég ætlaði að bæta mig eitthvað á árinu.

Fimm kílómetra hlaup gefa ekki mikla vísbendingu um líklega frammistöðu á Laugaveginum. Lengri hlaup eru hins vegar ívið betri mælikvarði, enda þótt brautarhlaup og utanvegahlaup séu sitt hvað. Í Miðnæturhlaupinu 23. júní hljóp ég hálft maraþon við góðar aðstæður á 1:35:56 mín, sem var 4:40 mín (um 5%) lakari tími en í sama hlaupi á sömu braut 2015, þ.e.a.s. árið sem ég hljóp Laugaveginn síðast. Sá tímamunur segir mér kannski eitthvað.

Líklegur tími á Laugaveginum
Reynslan hefur sýnt mér að ég stend mig yfirleitt hlutfallslega betur í hlaupum eftir því sem þau eru lengi. Þess vegna get ég svo sem dregið þá ályktun að ef ekkert annað skekkir myndina ætti ég ekki að vera meira en 5% lengur að hlaupa Laugaveginn núna en sumarið 2015. Þeir útreikningar gefa mér líklegan lokatíma upp á u.þ.b. á 5:58 klst. Eigum við ekki bara að segja að það væri ásættanleg eða alla vega raunhæf niðurstaða? Með því að setja þetta á blað er ég reyndar hugsanlega búinn að „búa mér til vonbrigði“, eins og ég hef einhvern tímann kallað þá stöðu sem maður setur sig í með því að setja sér (að óþörfu) markmið sem ekki næst. Önnur leið til að segja það, er að með þessu sé ég búinn að færa vonbrigðalínuna um 18 mínútur mér í hag, þ.e.a.s. úr 5:41 klst í 5:58 klst. Allt undir 5:58 klst er þá orðinn bónus og allt undir 5:41:10 klst mun leiða til enn taumlausari gleði en verið hefði ef ég hefði talið mig vera í toppstandi!

Spilar aldurinn inn í?
Auðvitað á aldurinn einhvern þátt í því hvernig manni gengur á hlaupum. En ég tók í hreinskilni sagt ekki eftir neinni breytingu við að árafjöldinn í lífi mínu breyttist úr 59 í 60 eina nótt í mars. Og ef ég verð 5% lengur að hlaupa Laugaveginn sextugur en 58 ára þarf að finna aðrar skýringar en aldurinn. Ég las alla vega einhverja fræðilega grein um daginn þar sem menn höfðu komist að þeirri niðurstöðu með rannsóknum að meðalafturför aldraðra hlaupara væri um 0,7% á ári. Það segir mér að ég get enn bætt mig. Til þess þarf bara rúmlega 0,7% meiri og markvissari æfingar en í fyrra. Og 5% eru miklu meira en 2×0,7%.

Meginniðurstaða
Ég tel mig sem sagt vera tilbúinn í Laugaveginn, þrátt fyrir að atvikin (en ekki aldurinn) hafi hagað því þannig að ég er ekki í alveg eins góðu hlaupaformi og ég hef oftast verið síðustu árin. Það er hins vegar líklegt að ég slái engin persónuleg met þetta árið og nái þar með ekki einu helsta hlaupamarkmiðinu mínu frá síðustu áramótum. Svo þarf líka að hafa í huga að sérhvert Laugavegshlaup er óvissuferð þar sem margt óvænt getur sett strik í reikninginn. En hvað sem þessu líður er ég staðráðinn í að láta Laugavegshlaupið næsta laugardag verða lið í að uppfylla mikilvægasta hlaupamarkmið árins, þ.e. að hafa gleðina með í för í öllum hlaupum!

Eftirmáli
Að vanda geri ég ráð fyrir að skrifa sérstakt Laugavegsblogg að Laugavegshlaupinu loknu, þar sem upplifun mín og nýfengin reynsla verður tíunduð í allmiklum smáatriðum. Fyrri ferðasögur má finna undir þessum tenglum:

Hamingjuhlaup 1. júlí

Tertuhlaðborð á Hamingjudögum á Hólmavík 2014.

Laugardaginn 1. júlí nk. verður hlaupið til móts við hamingjuna á Hólmavík 9. árið í röð. Að þessu sinni liggur leiðin yfir fjallveginn Bæjardalsheiði, þannig að þetta er ekki bara hamingjuhlaup, heldur líka fjallvegahlaup. Þetta tvennt fer einstaklega vel saman. Leiðin öll er um 31,3 km að lengd og fer hæst í um 485 m hæð. Þeir sem ekki treysta sér alla leið geta auðveldlega valið að hlaupa hluta leiðarinnar, sbr. tímatöflu sem finna má neðar á þessari síðu.

Hamingjuhlaupið er fastur liður í bæjarhátíðinni Hamingjudögum á Hólmavík. Sú hefð hefur skapast að þegar hlaupararnir koma á leiðarenda fái þeir fyrstu sneiðarnar af árlegu hnallþóruhlaðborði sem þar er jafnan boðið upp á. Þetta hefur aukið hamingju þátttakenda enn frekar.

Lagt af stað úr Króksfirði
Hamingjuhlaupið yfir Bæjardalsheiði hefst kl. 11:10 á laugardag rétt vestan við Bæ í Króksfirði. Fyrir þá sem ekki vita hvar Króksfjörður er, þá er hann í Reykhólahreppi, ekki ýkja langt frá Króksfjarðarnesi, bara aðeins vestar. Upphafsstaður hlaupsins er nánar tiltekið á Vestfjarðavegi um 4,4 km vestan við vegamótin þar sem beygt er upp á Þröskulda. Enn nánar tiltekið er upphafsstaðurinn u.þ.b. 325 m vestan við bæinn Bæ í Króksfirði og hefur hnattstöðuna N65°30,71′ – V21°58,56′. Hlaupaleiðin liggur til norðurs, nokkurn veginn samsíða veginum upp á Þröskulda. Munurinn er bara sá að bílvegurinn liggur upp Gautsdal en hlaupaleiðin upp Bæjardal. Báðir enda þessir vegir hins vegar á sama stað Steingrímsfjarðarmegin.

Fróðleikur um leiðina
Leiðin yfir Bæjardalsheiði er ein nokkurra leiða sem menn gátu valið um á árum áður þegar þeir áttu erindi úr Reykhólasveit til Hólmavíkur, t.d. í verslunarleiðangra eftir að lauaskaupmenn hófu að stunda verslun í Skeljavík upp úr miðri 19. öld og eftir að Hólmavík fékk verslunarréttindi með konungsbréfi 3. janúar 1890. Tröllatunguheiði er dálítið austar og Laxárdalsheiði dálítið vestar, þ.e.a.s. sú Laxárdalsheiði sem sagt er frá í Fjallvegahlaupabókinni minni (leið nr. 5) og sem hlaupin var í Hamingjuhlaupinu 2015.

Bæjardalsheiði er afar fáfarin nú til dags og slóðin yfir hana sums staðar orðin ógreinileg. Fyrsta spölinn inn Bæjardal er þó fylgt greinilegum vegi, en af kortum að dæma virðist vegurinn gerast öllu frumstæðari þegar komið er á stað með hnattstöðuna N65°31,82′ – V21°57,62′ inn undir Selgili. Áfram er þó haldið sem leið liggur, enn eftir auðrötuðum slóða, upp á heiðina þar til komið er að þremur vötnum sem nefnast Lambavötn, vestan við svonefndar Bláfjallabrúnir. Leiðin liggur á vesturbakka syðsta vatnsins og miðvatnsins, (þ.e.a.s. vinstra megin við vötnin þegar hlaupið er sunnan frá). Vestan við miðvatnið er punktur með hnattstöðuna N65°33,31′ – V21°53,62′ og þangað eru u.þ.b. 7,15 km frá upphafsstaðnum. Rétt rúmlega hálfum kílómetra síðar er beygt til austurs sunnan við nyrsta vatnið (N65°33,52′ – V21°53,15′) og hlaupið áfram til norðurs eða norðaustur austan við það og áfram eftir háum hrygg með stefnu á Miðheiðarborg (494 m). Vestur og norður af Miðheiðarborg er allstórt vatn Gedduvatn. Þangað liggur leiðin þó ekki, enda kváðu þar þrífast hræðilega hættulegir fiskar, svonefndar eiturgeddur. Þær eru bláar á lit, eða kannski gylltar, og svo eitraðar að þær brenna gat á hvern þann flöt sem þær eru lagðar á, jafnvel löngu eftir að þær eru dauðar.

Sem fyrr segir liggur leiðin ekki að Gedduvatni, heldur er sveigt lítið eitt meira til austurs (til hægri) áður en þangað er komið og stefnan tekin á Þrívörður (N65°34,40′ – V21°50,99′). Þar er hæsti punktur leiðarinnar, um 485 m. yfir sjávarmáli. Að Þrívörðum eru u.þ.b. 10,4 km frá upphafsstaðnum. Þaðan er hægt að velja þrjár mismunandi leiðir norður af heiðinni og niður í Arnkötludal og allar eru þessar leiðir varðaðar að einhverju leyti. Greinilegasta leiðin liggur áfram nokkurn veginn beint frá Þrívörðum út fjallið, en þar hlóð fjallvegafélagið upp vörður á sínum tíma, líklega seint á 19. öld. Í þessu hlaupi verður hins vegar fylgt þeirri leið sem líklega var fjölförnust fyrr á öldum, þ.e.a.s. innstu leiðinni, í þeirri frómu trú að hún sé upphaflegust og þannig „mest ekta“, þó að lítið standi þar eftir af merkingum nema lúin vörðubrot og slóðin víðast orðin máð. Þessi leið liggur í austnorðaustur frá Þrívörðum, rakleiðis niður í Arnkötludal með stefnu á Víghól (N65°34,65′ – V21°47,63′) á vesturbakka Arnkötludalsár. Frá Þrívörðum eru u.þ.b. 2,8 km að Víghóli, þannig að þar er heildarvegalengdin frá upphafi komin í u.þ.b. 13,2 km.

Í Fóstbræðrasögu er sagt frá því þegar Þorgeir Hávarsson skrapp um öndverðan vetur frá Reykhólum norður að Hrófá í Steingrímsfirði til að drepa mann fyrir kónginn. Að loknu verki fór hann svo aftur að Reykhólum, eins og hann gerði gjarnan þegar hann var búinn að drepa einhvern. Til eru sagnir af því, þó að þess sé ekki getið í Fóstbræðrasögu, að honum og mönnum hans hafi verið veitt eftirför frá Hrófá og að slegið hafi í brýnu á Víghóli. Þar var barist með bareflum og grjóti, enda nóg til af því á svæðinu. Þrír lágt settir menn eiga að hafa týnt lífi í þessum átökum og verið dysjaðir í urðinni skammt frá hólnum, þar sem síðan heitir Dys.

Við Víghól liggur beinast við að vaða austur yfir ána, enda eru hún vatnslítil á venjulegum sumardegi. Á austurbakkanum er komið inn á aðalveginn til Hólmavíkur, Djúpveg, og um leið breytist hlaupið úr utanvegahlaupi í malbikshlaup. U.þ.b. einum kílómetra neðar liggur vegurinn vesturyfir ána og eftir u.þ.b. 2,2 km til viðbótar má sjá rústir eyðibýlisins Vonarholts á árbakkanum rétt fyrir neðan veginn. Síðustu ábúendurnir þar voru hjónin Sigurður Helgason og Guðrún Jónatansdóttir. Þau fluttu frá Vonarholti árið 1935 og settust að í Arnkötludal, einni bæjarleið neðar í dalnum. Þaðan fóru þau líka síðust manna árið 1957 þegar þau færðu sig niður að Hrófá þar sem þau bjuggu eftir það. Síðan þá hefur enginn búið í dalnum.

Við Vonarholt eru um 16,4 km að baki og 14,9 km eftir til Hólmavíkur. Arnkötludalsbærinn er um 6 km neðar í dalnum og stendur handan við ána. Frá Arnkötludal eru um 2,7 km niður að vegamótunum við Hrófá, þar sem valið stendur um að beygja til hægri og hlaupa inn Strandir, áleiðis til Akureyrar, eða til vinstri og taka stefnuna á Hólmavík. Frá þessum vegamótum eru um 6,9 km eftir af Hamingjuhlaupinu.

Endaspretturinn
Segja má að á vegamótunum við Hrófá ljúki fjallvegahlaupinu yfir Bæjardalsheiði og að við taki endasprettur Hamingjuhlaupsins. Hvernig sem þessari orðanotkun er háttað gerir tímaáætlun hlaupsins ráð fyrir að hamingjuhlaupararnir verði staddir við Hrófá kl. 14:40 á laugardag og að endaspretturinn þaðan taki nákvæmlega 50 mínútur að meðtaldri u.þ.b. einnar mínútu viðdvöl við lögreglustöðina á Kálfanesskeiði í útjaðri Hólmavíkur. Hlaupið endar að þessu sinni á túninu við Galdrasafnið og að vanda er þess að vænta að hlaupurum verði fagnað eins og þjóðhetjum þegar þangað er komið, (sbr. mynd í upphafi þessa pistils).

Tímaáætlun
Rétt er að minna á að Hamingjuhlaupið er ekki keppnishlaup, heldur halda hlaupararnir yfirleitt hópinn og fylgja fyrirfram gerðri tímaáætlun sem svipar mjög til strætisvagnaáætlunar. Áætlunin fyrir Hamingjuhlaupið 2017 fer hér á eftir.

Tímatafla Hamingjuhlaupsins 2017. (Smellið á myndina til að stækka hana).

Úr myndaalbúmum sögunnar
Eins og fram hefur komið verður þetta 9. Hamingjuhlaupið frá upphafi. Myndirnar hér að neðan gefa örlitla innsýn í sögu hlaupsins og fela í sér sönnun þess hversu mikil hamingja fylgir jafnan þátttökunni í því. Sé smellt á ártölin undir myndunum birtast sögulegar heimildir um viðkomandi hlaup, hafi þær á annað borð verið skráðar.

Hamingjuhlaupið 2009. Þarna byrjaði þetta allt saman – á Drangsnesi. F.v.: Arnfríður, Birkir, Guðmann, Ingimundur, Stefán, Þorkell og Eysteinn.

Hamingjuhlaupið 2010. Þetta var frekar fámennt en afskaplega góðmennt hlaup yfir Þröskulda. F.v.: Kristinn, Birkir, Stefán og Ingimundur.

Hamingjuhlaupið 2011. Á leið upp Bitruháls með Gunnlaug Júlíusson, Birki Stefánsson og Hafþór Benediktsson í broddi fylkingar.

Hamingjuhlaupið 2012 í ótrúlega góðu veðri norður í Reykjarfirði.

Hamingjuhlaupið 2013. Afskaplega hamingjusamir hlauparar í fjörunni í Djúpavík.

Hamingjuhlaupið 2014. Líf og yndi í grænum dal, Vatnadal.

Hamingjuhlaupið 2015. Fersk gleði á fjöllum, nánar tiltekið á Laxárdalsheiði.

Hamingjuhlaupið 2016. Á Bjarnarfjarðarhálsi með Birki, Hauk og Noémie fremstum meðal jafningja.

Helstu heimildir

 • Jón Guðnason (1955): Strandamenn. Æviskrár 1703-1953. Jón Guðnason, Reykjavík.
 • Jón Torfason o.fl. (ritstj.) (1985): Íslendingasögur. Fyrra bindi. Svart á hvítu, Reykjavík.
 • Matthías Lýðsson (2010): Lítið eitt um Arnkötludalhttp://strandir.is/litid-eitt-um-arnkotludal.
 • Sigurður Ægisson og Jón Baldur Hlíðberg (2008): Af öfuguggum og öðrum kynjaskepnum á Vestfjörðum. Í „Vestfirðir. Sumarið 2008“. H-prent ehf., Ísafjörður.

Sérstakar þakkir

 • Hafdís Sturlaugsdóttir fyrir aðstoð við leiðarlýsingu og GPS-mælingar
 • Hólmvíkingar fyrir góðar móttöku og hvatningu öll þessi ár

Hlaupaannáll 2016 og markmiðin 2017

Á Arnarvatnsheiði. Ljósm. Kristín Gísla.

Á Arnarvatnsheiði. (Ljósm. Kristín Gísladóttir).

Árið 2016 var engan veginn eitt af bestu hlaupaárunum mínum. En það kemur ekki í veg fyrir hefðbundið áramótauppgjör (þótt síðbúið sé) sem felst í að rifja upp helstu viðburði síðasta árs og gefa yfirlýsingar um væntingar mínar til hlaupaársins 2017.

Stærsti hlaupaáfangi ársins 2016 var tvímælalaust fullnusta fjallvegahlaupaverkefnisins, en því lauk með eftirminnilegu 81 km hlaupi yfir Arnarvatnsheiði í júlí. Þar með náði ég markmiði sem ég setti mér fyrir tæpum 10 árum og hvikaði aldrei frá. Að öðru leyti mótaðist hlaupaárið talsvert af annríki í vinnu sem átti stóran þátt í að æfingar fyrstu mánuði ársins voru talsvert færri en ég hefði þurft til að komast á þann stað í hlaupunum sem ég vil vera á. Sitthvað fleira setti strik í reikninginn til skamms tíma, eins og gengur, en þegar á heildina er litið gekk þetta allt saman ágætlega og engin meiri háttar meiðsli gerðu vart við sig. Og þó að sigurvíma væri frekar fátíð á árinu gáfu hlaupin mér margar ánægjustundir sem gerðu þetta ár enn betra en það hefði annars verið.

Æfingarnar
Fyrstu þrír mánuðir ársins 2016 einkenndust af miklu annríki vegna hlutverks míns sem formanns verkefnisstjórnar rammaáætlunar. Þetta kom eðlilega niður á fjölda hlaupaæfinga á virkum dögum, en ég bætti það upp að hluta með þeim mun lengri helgarhlaupum. Á þessu tímabili náði ég t.d., í fyrsta skipti á æfinni, að hlaupa meira en 33 km tíu laugardaga (eða sunnudaga) í röð. Þessar tíu æfingar voru meira en helmingur af heildarvegalengd þessara þriggja mánaða. Í lok mars þóttist ég því vera kominn með allgott þol, en styrkur og hraði höfðu frekar setið á hakanum.

Lengsti laugardagurinn. Hólmavík 19. mars.

Lengsti laugardagurinn. Hólmavík 19. mars.

Í lok mars náði ég mér í óvenjuslæma magapest sem stóð í nokkra daga og í kjölfarið fylgdi önnur óáran sem þróaðist upp í sýkingu í lunga. Engin langvarandi eftirköst urðu af þessu, en það tók mig samt nokkrar vikur að ná aftur fullum styrk – og á þessum tíma þurfti ég líka að þvælast á fundi um landið þvert og endilangt í boði rammaáætlunar.

Æfingar gengu ágætlega yfir sumarmánuðina og 4. júlí náði ég t.d. mínum bestu tímum frá upphafi bæði upp og niður Hafnarfjallið, (42:40 mín. upp, 16:43 mín. niður). Frammistaðan á fjallinu gefur ágæta vísbendingu um líkamlegt atgervi mitt á hverjum tíma.

Ég hljóp ekkert í tvær vikur eftir Arnarvatnsheiðarhlaupið 23. júlí. Undir lok hlaupsins fann ég fyrir miklum sársauka framan á vinstri sköflungi niður undir ökkla. Þetta gat hugsanlega verið eitthvert alvarlegt og þess vegna ákvað ég að sleppa allri tilraunastarfsemi. Eftir viku gat ég gengið óhaltur og viku síðar var ég farinn að hlaupa án þess að finna fyrir neinu. Þarna slapp ég með skrekkinn en þetta hlaupafrí kom ekki beinlínis á réttum tíma fyrir Reykjavíkurmaraþonið 20. ágúst. Um það leyti stóð líka önnur stærsta vinnutörn ársins sem hæst, aftur í boði rammaáætlunar.

Æfingar haustsins gengu almennt vel, án þess þó að ég næði nokkurn tímann að byggja upp almennilegan ferskleika. Ég tók mér ekkert hlaupafrí á þessum tíma eins og ég hef stundum gert, enda höfðu fríin komið sjálfkrafa af og til eins og ráða má af yfirferðinni hér að framan. Mér veittist auðvelt að hlaupa langar vegalengdir á æfingum og reyndar hef ég aldrei áður hlaupið eins langt í október (245 km) og nóvember (209 km) og einmitt á þessu ári, án þess þó að hafa ætlað mér það neitt sérstaklega. Á þessum tíma voru samt að grafa um sig einhver ónot í bakinu á mér og um miðjan desember ákvað ég að hætta að hlaupa um sinn á meðan ég kæmist að því hvað væri í gangi. Úr þessu varð u.þ.b. tveggja vikna hlaupafrí. Í lok ársins þótti sýnt að bakvandræðin stöfuðu af langvarandi setum en ekki af hlaupum og með það hófust æfingar á nýjan leik. Í árslok var heildarvegalengd ársins komin í nákvæmlega 2.625,51 km, sem er það næstlengsta sem ég hef hlaupið á einu ári til þessa.

manudir-2016

Mánaðarlegir hlaupaskammtar 2016.

Árlegir hlaupaskammtar 1985-2016.

Árlegir hlaupaskammtar 1991-2016.

Tvö eða þrjú markmið af fimm
Ég setti mér fimm hlaupatengd markmið fyrir árið 2016 og náði tveimur þeirra, já eða kannski þremur. Í fyrsta lagi ætlaði ég að hlaupa sjö fjallvegahlaup. Það gekk eftir! Í öðru lagi ætlaði ég að bæta mig í 5 km götuhlaupi með því að hlaupa undir 19:39 mín, sem var reyndar endurnýtt markmið frá árinu áður. Þetta gekk ekki upp, en reyndar komst ég furðu nálægt því í Vatnsmýrarhlaupinu 11. ágúst, þar sem hljóp á 19:53 mín þrátt fyrir að vera varla kominn almennilega af stað eftir Arnarvatnsheiðina. Þetta þýðir að ég get notað sama markmið áfram. Endurnýting er góð.

Markmið nr. 3 var bæting á ofur-Vesturgötunni (45 km) í júlí (undir 4:12:03 klst). Þetta tókst. Kláraði hlaupið á 4:03:20 klst. Lagði sjálfsagt aðeins meira í þetta en árið 2014 þegar ég hljóp á 4:12, en bæting er alltaf bæting.

Fjórða markmiðið var að hlaupa a.m.k. eitt keppnishlaup á braut. Þetta fórst fyrir. Ekkert gerist af sjálfu sér og ég hafði bara í nógu öðru að snúast. Hins vegar náði ég 5. markmiðinu, alla vega næstum því, nefnilega að hafa gleðina með í för í öllum hlaupum. Ég verð samt að játa á mig dálítinn pirring eftir af hafa leitt mig og aðra í fráleitar og ekki alveg hættulausar ógöngur í fjallvegahlaupi vestur á Klofningsheiði. Þetta fór samt allt vel og pirringurinn var fljótur að hverfa. Veit samt ekki alveg hvort ég á að staðhæfa að gleðimarkmiðið hafi náðst.

Keppnishlaupin
Keppnishlaupin mín á árinu 2016 urðu 11 talsins sem telst tæplega í meðallagi miðað við síðustu ár. Keppnishlaupin skipta mig talsverðu máli, annars vegar vegna þess að þar fæ ég betri mælikvarða á ástandið en á æfingum og hins vegar vegna þess að þar hitti ég gamla og nýja hlaupavini sem ég hitti ekki oft við önnur tækifæri. Mér finnst þessi félagslegi þáttur vera mikilvægari en flest annað í þessum hlaupaheimi.

Fyrsta keppnishlaup ársins var 101. Víðavangshlaup ÍR 21. apríl, á sumardaginn fyrsta (5 km). Þetta er að mínu mati alltaf eitt af skemmtilegustu hlaupum ársins, því að þarna finnast mér dyrnar að hlaupasumrinu opnast. Ég var þó engan veginn búinn að ná fullum kröftum eftir páskaveikina og hljóp á einum af lökustu tímum ævisögunnar, 20:54 mín. Bjóst alveg eins við því að vera mínútu lengur, þannig að þegar upp var staðið var ég hæstánægður.

Hlaup nr. 2 var Icelandairhlaupið 12. maí, en þar var ég að taka þátt sjöunda árið í röð. Tíminn var 28:56 mín (á 7 km), sem var 1 sek lakara en árið áður. Ég gat vel við unað. Er ekki einnar sekúndu afturför á milli ára bara vel ásættanleg?

Farinn að nálgast markið í Icelandairhlaupinu - á undan öllum þeim sem voru á eftir mér. (Ljósm. Hlaup.is).

Farinn að nálgast markið í Icelandairhlaupinu – á undan öllum þeim sem voru á eftir mér. (Ljósm. Hlaup.is).

Þriðja hlaupið var Hvítasunnuhlaup Hauka 16. maí, öldungis bráðskemmtilegt 17,5 km hlaup um hæðir og hóla í baklandi Hafnarfjarðar. Þennan spotta kláraði ég á 1:27:22 klst. sem var svipað og ég taldi raunhæft. Þarna sem oftar voru nokkrir félagar mínir úr Hlaupahópnum Flandra í Borgarnesi með í för. Samvistir við það fólk hafa svo sannarlega gefið hlaupunum mínum aukið gildi síðustu ár.

Fjölnishlaupið 26. maí var fjórða keppnishlaup ársins. Þetta var eitt af mínum slökustu hlaupum, mér leið illa allan tímann og komst lítið áleiðis. Samt var gleðin með í för. Þetta voru 10 km og tíminn var 42:52 mín, sá lakasti í 4 ár.

Fimmta hlaupið var Miðnæturhlaupi Suzuki 23. júní þar sem ég var skráður í hálft maraþon. Ég fór hægt af stað, staðráðinn í að njóta. Bætti svo heldur í eftir því sem á leið og lauk hlaupinu á mínum 3. besta tíma frá upphafi, 1:30:53 klst. Þarna fannst mér ég vera endanlega kominn upp úr vorlægðinni.

Um miðjan júlí lá leiðin vestur á firði þar sem ég tók þátt í keppnishlaupum nr. 6. og 7. Fyrst var það Arnarneshlaupið 15. júlí, 10 km í kvöldsól og blíðu. Þetta var dásamlega skemmtilegt hlaup frá upphafi til enda og tíminn a.m.k. jafngóður og ég gat með nokkru móti gert mér vonir um, þ.e.a.s. 40.44 mín, nákvæmlega sami tími og í Óshlíðarhlaupinu tveimur árum fyrr. Arnarneshlaupið er reyndar arftaki Óshlíðarhlaupsins sem var aflagt 2015 vegna þess hversu mikið hefur hrunið úr veginum úti í Óshlíð. Í 38 10 km hlaupum hef ég ekki nema fjórum sinnum náð betri tíma en þetta og reyndar var þetta besta götuhlaupið mitt á árinu 2016 samkvæmt hlaupareiknivél McMillan sem ég nota gjarnan og hefur reynst mér vel.

Sjöunda hlaupið var svo tvöföld Vesturgata 17. júlí. Ég veit fátt skemmtilegra en að hlaupa Vesturgötuna, einfalda eða tvöfalda – og sú vitund breyttist ekkert í þessu hlaupi, sem var án nokkurs vafa skemmtilegasta keppnishlaup ársins. Bæði er hlaupaleiðin einstök og móttökurnar hlýlegri en nokkurs staðar annars staðar. Eins og fram kemur hér að framan var það eitt af fimm hlaupamarkmiðum ársins að bæta fyrri tíma minn í þessu hlaupi. Áætlun mín fyrir hlaupið miðaðist við það og gekk upp í öllum aðalatriðum. Lokatíminn var 4:03:20 klst., um 9 mín betri en 2014 þegar ég hljóp þessa leið í fyrra sinnið. Ferðasöguna alla má lesa í miklum smáatriðum í þar til gerðri bloggfærslu frá liðnu sumri. Næsta markmið er að hlaupa þetta undir 4 klst. sumarið 2018. Það verður verðugt viðfangsefni.

Þrír fyrstu menn í flokki 40-99 ára í tvöfaldri Vesturgötu. F.v. SG, Gunnar Atli og Birkir. (Ljósm. Björk Jóh.)

Þrír fyrstu menn í flokki 40-99 ára í tvöfaldri Vesturgötu 2016. F.v. SG, Gunnar Atli og Birkir. (Ljósm. Björk Jóh.)

Áttunda keppnishlaup ársins var Vatnsmýrarhlaupið sem fyrr var nefnt (5 km). Það fór fram 11. ágúst þegar ég var rétt um það bil búinn að ná mér almennilega eftir Arnarvatnsheiðina. Í þessu hlaupi fylgdi ég þaulskipulagðri áætlun sem gekk í stuttu máli út á að fara ekki of hratt af stað og reyna síðan að ljúka hverjum kílómetra á 4 mínútum. Þetta gekk upp og lokatíminn var 19:53 mín sem er næstbesti tíminn minn í 5 km götuhlaupi frá upphafi. Þetta var eiginlega vonum framar.

Reykjavíkurmaraþonið var 9. keppnishlaup ársins, en þetta var 12. árið í röð sem ég tek þátt í því. Yfirleitt hef ég þá hlaupið heilt maraþon, eins og ég gerði núna, en stundum hálft. Þetta gekk svo sem eins og við mátti búast miðað við óheppilega tímasett tveggja vikna hlaupahlé eftir Arnarvatnsheiðina. Ég varð bara aðeins of þreyttur síðustu 15 kílómetrana og tíminn í samræmi við það, nokkuð undir væntingum, 3:21:16 klst. Ég átti að geta betur, en í maraþonhlaupi þarf margt að ganga upp. Veðrið var dásamlegt og dagurinn fullur af gleði, hvað sem tímanum leið.

Þreyttur en glaður út við Gróttu eftir 37 km af 42 í Reykjavíkurmaraþoninu. (Ljósm. Hlaup.is).

Þreyttur en glaður út við Gróttu eftir 37 km af 42 í Reykjavíkurmaraþoninu. (Ljósm. Hlaup.is).

Í Haustmaraþoni Félags maraþonhlaupara ætlaði ég að bæta fyrir þennan fremur slaka tíma í Reykjavíkurmaraþoninu. Það fór samt á svipaða leið, e.t.v. að hluta fyrir tilstilli vinds og vætu sem gerðu vart við sig á leiðinni. Lokatíminn var 3:22:40 klst, en mér leið nú samt bara vel lengst af og líka það sem eftir var dagsins.

Síðasta keppnishlaup ársins var svo Powerade vetrarhlaup í Árbænum 10. nóvember. Mér leið mjög illa í þessu hlaupi og fann til í ökklunum í hverju skrefi. Þarna var á ferðinni eitthvert uppáfallandi vandamál sem hafði engin eftirköst og tengdist e.t.v. bara skónum sem ég var í. Lokatíminn var 44:57 mín, sem var u.þ.b. heilli mínútu lakari tími en mér datt í hug að ég gæti náð í 10 km hlaupi. En mér var svo sem alveg sama. Þetta var bara áfangi á einhverri leið og alls engin endalok. Hlaupagleðin skemmdist ekkert þennan dag.

Fjallvegahlaupin
Sumarið 2016 var síðasta sumarið í fjallvegahlaupaverkefninu sem ég gaf sjálfum mér í fimmtugsafmælisgjöf í mars 2007 og til þess að svíkja ekki sjálfan mig þurfti ég að ljúka 7 hlaupum þetta sumar. Það gekk allt eins og í sögu með hjálp góðra manna á borð við Björk og Sævar Skaptason, sem bæði hjálpuðu mikið til við framkvæmd verksins á þessum lokaspretti.

Hlaupið norður úr Arnardalsskarði.

Hlaupið norður úr Arnardalsskarði.

Fjallvegahlaupavertíðin 2016 hófst með hlaupi yfir Arnardalsskarð á Snæfellsnesi í maí í sól og blíðu. Arnardalsskarð er hár og brattur fjallvegur og útsýnið á leiðinni er með því besta sem gerist. Nokkrum dögum seinna var það svo Svínbjúgur milli Hörðudals í Dölum og Hítardals á Mýrum. Þar hrepptum við stífan mótvind en upplifunin var engu lakari fyrir það. Um miðjan júni var svo Þingmannaleið hlaupin yfir Vaðlaheiði með afskaplega fríðum hópi hlaupara frá Akureyri og daginn eftir lá leiðin yfir Kiðaskarð milli Skagafjarðar og Svartárdals, sömuleiðis með fríðum hópi þótt fámennari væri. Um miðjan júlí bættust tveir vestfirskir fjallvegir í safnið, sem báðir fara í hóp þeirra eftirminnilegustu. Sá fyrri var Klofningsheiði frá Flateyri til Suðureyrar, þar sem mér tókst að leiða hópinn í ógöngur, ekki bara einu sinni heldur tvisvar. En þetta var hraust fólk og veðrið eins og best verður á kosið, þannig að þegar upp var staðið var þetta einfaldlega dásamlegt. Síðari fjallvegurinn vestra var Sléttuheiði úr Aðalvík að Hesteyri. Þessi leið var öðruvísi en allar hinar 49 leiðirnar í fjallvegahlaupaverkefninu að því leyti að þarna er hvorki hægt að komast akandi að rásmarkinu né endamarkinu. Svo er líka alltaf eitthvað sérstakt að hlaupa um heiðar milli eyðibyggða þar sem horfin gleði og horfnar sorgir eiga enn bústað í hverjum steini, eða kannski aðallega í þokunni, eins og staðan var þennan júlídag.

Við hjónin á heimleið frá Hesteyri eftir Sléttuheiðarhlaupið.

Við hjónin á heimleið frá Hesteyri eftir Sléttuheiðarhlaupið.

Fjallvegahlaupunum lauk svo eins og til stóð með langlengsta hlaupi verkefnisins yfir Arnarvatnsheiði 23. júlí. Þar hlupum við rúmlega 81 km úr Miðfirði suður að Kalmanstungu tíu saman, dyggilega studd af áhöfninni á trússbílnum Hrímni II sem Sævar Skaptason útvegaði til verksins. Síðustu kílómetrana bættist okkur svo liðsauki úr Borgarnesi og af Ströndum og um kvöldið buðum við hjónin öllum þátttakendum verkefnisins og fjölskyldunni okkar til lokahófs í Húsafelli. Ég held að ekki sé á aðra daga ársins hallað þó að því sé haldið fram að þessi hafi verið sá stærsti, hvort sem það er mælt í hlaupavegalengd eða í öðrum tiltækum mælieiningum.

Með Arnarvatnsheiðarhlaupurum við Kalmanstungu eftir góðan dag á fjöllum. (Ljósm. Etienne Menétrey)

Með Arnarvatnsheiðarhlaupurum við Kalmanstungu eftir góðan dag á fjöllum. (Ljósm. Etienne Menétrey)

Öllum fjallvegahlaupunum eru gerð ítarleg skil á heimasíðu verkefnisins og á sextugsafmælinu mínu 18. mars 2017 kemur út bók um þetta allt saman.

Skemmtihlaupin
Árlega stend ég fyrir eða á einhvern þátt í þremur skemmtihlaupum, sem hvorki eru keppnishlaup né formleg fjallvegahlaup. Þar ber fyrst að nefna hinn árlega Háfslækjarhring sem jafnan er hlaupinn á uppstigningardag. Raunar má segja að þetta sé fyrst og fremst matarboð, sem má þá orða þannig að á uppstigningardag á hverju ári bjóðum við hjónin fólki í mat, með því skilyrði að það hlaupi Háfslækjarhringinn fyrst. Umræddur hringur er í nágrenni Borgarness, rúmlega 21 km að lengd heiman að frá mér og heim. Nú var þetta hlaup þreytt í 8. sinn og boðsgestir voru 17 talsins.

Unnið fyrir mat sínum í norðanáttinni.

Unnið fyrir mat sínum í norðanáttinni.

Hin tvö skemmtihlaupin eru Þrístrendingur og Hamingjuhlaupið, sem oftast lenda hvort á sínum laugardeginum seint í júní. Þrístrendingur er hugarfóstur okkar Dofra Hermannssonar, en móðir mín og afi hans voru systkini og ólust upp á Kleifum í Gilsfirði. Þaðan hlaupum við einu sinni ári norður Steinadalsheiði til Kollafjarðar, yfir Bitruháls að æskuheimili mínu í Gröf í Bitru og loks suður (eða vestur) Krossárdal að Kleifum. Hringurinn allur er um 40 km, en auðvelt er að skipta honum upp í þrjá áfanga. Nú var þessi leið hlaupin í 7. sinn laugardaginn 18. júní. Þátttakendur voru 12 þegar allt er talið, þar af 4 sem hlupu alla leið. Allt er þetta tíundað í smáatriðum í viðeigandi bloggpistli.

Sum föt henta einfaldlega betur en önnur að hlaupi loknu.

Sum föt henta einfaldlega betur en önnur að loknum Þrístrendingi.

Hamingjuhlaupið fór fram tveimur vikum eftir Þrístrending, þ.e.a.s. laugardaginn 2. júlí. Það var nú haldið í 8. sinn í tengslum við Hamingjudaga á Hólmavík og að þessu sinni lá leiðin frá Laugarhóli í Bjarnarfirði, yfir Bjarnarfjarðarháls eftir gamalli leið frá Hvammi að Sandnesi og þaðan til Hólmavíkur, samtals rétt um það bil 33,76 km. Þar biðu tertur að vanda. Þátttakendur komu víða að, svo sem af Ströndum, úr Borgarnesi, Reykjavík og Kanada. Veðrið var svalt en nokkurn veginn þurrt – og hamingjan jókst með hverju skrefi!

Hamingjuhlauparar á Bjarnarfjarðarhálsi 2. júlí 2016.

Hamingjuhlauparar á Bjarnarfjarðarhálsi 2. júlí 2016. F.v. Birkir Þór Stefánsson, Gunnar Viðar Gunnarsson, Noémie Godin, Ari Hermann Oddsson, Magnús Steingrímsson, Haukur Þór Lúðvíksson, Kristinn Óskar Sigmundsson og Ragnar Kristinn Bragason.

Markmiðin 2017
Nýju ári fylgja ný markmið, sum alveg ný en önnur endurnotuð. Tvö eftirtalinna markmiða falla í fyrri flokkinn en þrjú í þann síðari:

 1. Bæting í 5 km götuhlaupi (undir 19:39 mín) (endurnotað)
 2. Bæting á Laugaveginum (undir 5:41:10 klst) (NÝTT)
 3. Bæting í maraþoni (undir 3:08:19 klst) (NÝTT)
 4. A.m.k. eitt keppnishlaup á braut (endurnotað)
 5. Gleðin með í för í öllum hlaupum (endurnotað og sígilt)

Á þessum lista er svo sem ekkert óvænt. Meira að segja nýju markmiðin byggjast á gömlum hugmyndum, eins og ráða má af eftirfarandi texta sem ég skrifaði fyrir rúmu ári síðan:

Talandi um markmið, þá eru áformin fyrir árið 2017 líka tekin að skýrast. Þá á að reyna að slá persónuleg met í maraþoni og á Laugaveginum. Held að það verði ágæt sextugsafmælisgjöf. Svo er eitthvað verið að tala um 90 km hlaup í Svíþjóð sumarið 2018. Á maður ekki að reyna að vera framsýnn?

Já, vel á minnst! Ég er alveg að verða sextugur. Hverjum nýjum áratug fylgja ný tækifæri og nýjar áskoranir.

Sextugsafmæli og fjallvegahlaupabók
Eins og fram kemur hér að framan er fjallvegahlaupabók á leiðinni. Hún verður formlega gefin út og kynnt á sextugsafmælinu mínu 18. mars í útgáfuhófi Bókaútgáfunnar Sölku á Kex Hostel í Reykjavík. Þangað eru allir velkomnir!

Haustmaraþon 2016

Á Ægissíðunni eftir 32 km. (Ljósm. Þorkell).

Á Ægissíðunni eftir 32 km. (Ljósm. Þorkell).

Ég ákvað snemma í haust, líklega strax eftir Reykjavíkurmaraþonið (RM), að taka þátt í árlegu Haustmaraþoni Félags maraþonhlaupara (FM) fyrsta vetrardag. Aðalástæða ákvörðunarinnar var sú að mig langaði að bæta tímann frá því í RM (3:21:16 klst.) og svo vantaði mig líka eitthvert hlaupamarkmið sem næði langt fram eftir hausti. Besta leiðin til að halda sér við efnið er að stefna að einhverju tilteknu markmiði. Nú, í stuttu máli mætti ég í hlaupið og gekk vel. Árangurinn var að vísu undir væntingum og lakari en í RM sé bara horft á tölurnar. Hins vegar var þetta allt innan eðlilegra marka að teknu tilliti til æfinga og aðstæðna þennan laugardagsmorgun. Hvert vel heppnað maraþonhlaup sem bætist í safnið hressir upp á sjálfsmyndina, jafnvel þótt hún sé þokkalega sterk fyrir. Og í hverju hlaupi lærir maður eitthvað nýtt sem kemur sér vel síðar í lífinu, innan og utan hlaupaleiða.

Aðdragandinn
Æfingar haustsins voru langt frá því að duga sem undirbúningur fyrir virkilega gott maraþonhlaup, aðallega vegna þess hversu fáar þær voru. Að meðaltali tók ég 4 æfingar á viku síðustu 7 vikurnar fyrir hlaup og meðalvegalengdin var 59 km/viku. Þetta dugar mér rúmlega til viðhalds en meira þarf til ef stefnt er að framförum. Þessar vikur voru hins vegar alveg án skakkafalla á borð við meiðsli og veikindi. Ég var sem sagt almennt í góðu standi þó að ég væri ekki í toppformi. Svolítil vinnutörn með löngum ferðalögum síðustu tvo dagana fyrir hlaup spillti kannski örlítið fyrir, en ég þóttist þó vita að ég ætti að geta klárað hlaupið á u.þ.b. 3:20 klst. við eðlilegar aðstæður.

Eðlilegar aðstæður
Þessi laugardagsmorgunn var alveg eðlilegur, nema hvað hann var kannski örlítið hlýrri en gengur og gerist með síðustu laugardaga októbermánaðar. Hitastigið var rétt neðan við 10°C, talsverður vindur úr suðaustri og útlit fyrir rigningu. Mér finnst rigning skipta litlu máli í maraþonhlaupum að öðru leyti en því að þá er hráslagalegra en ella við rásmarkið og kuldinn sækir hratt að manni eftir að hlaupi lýkur. Mér finnst vindurinn verri, sérstaklega seint í löngum hlaupum þegar þreytan er farin að segja til sín. Vindáttin var þannig að búast mátti við meðvindi á fyrsta og þriðja hluta hlaupaleiðarinnar, þ.e.a.s. úr Elliðaárdal vestur á Ægissíðu, en mótvindi á öðrum og fjórða hluta þar sem sama leið er hlaupin til baka, sérstaklega í grennd við Reykjavíkurflugvöll þar sem ekkert skjól er að hafa.

Morgunverkin
Morgnar maraþondaga eru flestir keimlíkir þegar ég á í hlut: Vakna 3 klst. fyrir hlaup, borða sams konar morgunmat og alla aðra morgna, koma sér á hlaupstað og vera mættur þar hátt í klukkutíma fyrir hlaup. Að þessu sinni var ég einn á ferð úr Borgarnesi. Fjórir félagar mínir úr Hlaupahópnum Flandra voru reyndar skráðir til þátttöku, en þau ætluðu öll í hálft maraþon sem var ræst 2 klst. síðar en maraþonið. Mér finnst gott að fara með öðrum í svona hlaupaferðir, en mér finnst líka gott að fara einn. Það er bara öðruvísi. Í einverunni er fátt sem dreifir huganum og í henni býr ákveðin ró. En róin er að vísu berskjölduð fyrir áhyggjum af því sem í vændum er. Hæfilegur skammtur af áhyggjum er góður því að hann gerir líkamann tilbúinn til átaka. Of stór skammtur skapar vanlíðan og leiðindi. Viðfangsefnið í einverunni er að hafa sem besta stjórn á þessu.

Síðustu mínútur fyrir hlaup
Áður en lagt er af stað í keppnishlaup þarf að taka ýmsar ákvarðanir, sem eru mikilvægar á því augnabliki sem þær eru teknar þó að þær séu léttvægar í eilífðinni. Á maður t.d. að hlaupa í stuttbuxum? Ég hafði ætlað mér það í þessu tilviki, því að í 10 stiga hita þarf maður svo sem ekkert að vera í síðum buxum á hlaupum. Stuttbuxur eru léttari og það gerir ekkert til þó að manni finnist svolítið kalt í rásmarkinu. Þannig á það eiginlega að vera, því að annars verður manni jafnvel allt of heitt þegar líður á hlaupið. En þennan morgun langaði mig bara alls ekki að hlaupa í stuttbuxum. Það var súldarvottur úti og dimmt og hrollur í mér, hvað sem öllum hitamælum leið. Þar með var klæðaburður dagsins ákveðinn: Langermabolur og hlýrabolur utanyfir, síðar buxur og ullarhanskar. Engin húfa. Ég er ekki mikið fyrir höfuðföt nema við jaðaraðstæður. Og svo var kominn tími til að hita upp. Sumum finnst óþarfi að hita upp fyrir maraþonhlaup, því að vissulega hitnar maður á leiðinni. En mér finnst upphitun alltaf nauðsynleg, helst að skokka í 15 mínútur eða svo og ná að taka 4 góðar hraðaaukningar til að koma kerfinu í gang. Gamlar vélar þurfa sinn tíma. Í samræmi við þetta skokkaði ég svo sem 2 km á síðasta hálftímanum fyrir hlaup, en sleppti teygjunum sem mér finnst þó til bóta að blanda inn í þetta. Aðalatriðið er kannski ekki að vera allur orðinn mjúkur, heldur aðallega að líða sæmilega þegar lagt er af stað.

Áætlun dagsins
Sem fyrr segir langaði mig að hlaupa þetta hlaup undir 3:20 klst. Taldi mig svo sem geta hlaupið nálægt 3:16 við bestu aðstæður en það átti ekki alveg við í þessu tilviki. Ákvað að hlaupa fyrstu kílómetrana á 4:36 mín/km eða þar um bil en láta þó nægja að skoða gang mála ítarlega á 5 km fresti. Hver 5 km kafli átti samkvæmt þessu að vera á 23:00 mín.

Kílómetramerkingar í hlaupum FM eru alltaf dálítið villandi, sem á sér sínar skýringar en getur verið óþægilegt fyrir þá sem ekki þekkja til. Þannig eru t.d. 1,2 km að merkinu sem sýnir 1 km í maraþonhlaupinu. Í stað þess að nota þessar merkingar sem grunn í útreikningum mínum stillti ég Garminúrið mitt þannig að það tæki sjálfkrafa millitíma á 5,05 km fresti. Þetta hljómar kannski einkennilega en viðurkenndar hlaupaleiðir eru yfirleitt mældar með 1% öryggismörkum sem tryggja að leiðirnar séu aldrei styttri en sagt er. Þess vegna dugar ekki að reikna líklegan lokatíma út frá millitímanum á Garminúrinu, t.d. eftir 5 km. Þeir útreikningar gefa of bjartsýna niðurstöðu.

Hlaupið sjálft
Hlaupið var ræst við gömlu rafstöðina við Elliðaárnar kl. 8. Við vorum tæplega 40 sem lögðum af stað og smám saman voru væntanlega allir búnir að finna hraða sem hentaði þeim vel til lengdar. Ég var fljótlega lentur í góðum félagsskap þeirra Gunnars Ólasonar og Gauta Kjartans Gíslasonar, en ég oft verið samferða þeim báðum í hlaupum eða í einhverjum hlutum þeirra. Mér sýndist hraðinn vera nálægt áætlun en fór fljótt að gruna að áætlun dagsins myndi samt ekki ganga upp. Fyrstu 10 km voru nefnilega hlaupnir í meðvindi og þess vegna hefði hraðinn kannski þurft að vera aðeins meiri. Og þó, 4:36 mín/km samsvarar reyndar rétt rúmlega 3:14 klst. í maraþonhlaupi.

Millitíminn eftir 5 km (eða 5,05 km á Garminúrinu) var 23:12 mín, þ.e. 12 sek lakari en að var stefnt. Það var í fínu lagi en þó varla nógu gott miðað við aðstæður. Einhvers staðar nálægt 5 km markinu var einhver okkar þremenninganna næstum farinn villur vegar þar sem græn ör vísaði beint áfram en óljósari hvít ör til hægri. Sem betur fer áttuðum við okkur á að hvíta örin var sú rétta. Fréttum seinna að ekki hefðu allir verið svo heppnir. Það hafði svolítil eftirmál en mistök geta alltaf orðið.  Næst þarf að merkja brautina betur.

Ég gaf mér góðan tíma á öllum drykkjarstöðvum þennan dag. Tók eitt GU-gel við þær allar (7 stk.) og drakk vel fullt glas af vatni með. Missti af félögunum á fyrstu drykkjarstöðinni (við HR) en náði þeim aftur í Nauthólsvíkinni. Við fylgdumst svo meira og minna að lengi hlaups, stundum var einhver aðeins á undan, stundum á eftir, stundum var ég einn. Millitíminn eftir 10 km var 45:58 mín, sem sagt eiginlega alveg á áætlun. En um það leyti var meðvindurinn úr sögunni í bili og mótvindur tók við, sérstaklega á næsta 5 km kafla.

Vestur á Ægissíðu voru eldri börnin mín, Þorkell og Birgitta, mætt til að hvetja mig. Yngsta barnið, Jóhanna, þurfti hins vegar að mæta í vinnu og var því fjarri góðu gamni. Reyndar veit ég ekki hversu gott gaman það er að standa úti í strekkingi og súld á laugardagsmorgni og bíða eftir hlaupara sem er svo farinn hjá eftir augnablik. En fyrir hlauparann skiptir þessi stuðningur miklu máli, sérstaklega þegar fjölskyldan á í hlut.

Ágætlega sáttur, 12 km að baki og vindurinn í fangið. (Ljósm. Torfi Leifsson, hlaup.is).

Ágætlega sáttur, 12 km að baki og vindurinn í fangið. (Ljósm. Torfi Leifsson, hlaup.is).

Við snúningspunktinn á Ægissíðu voru 10,7 km að baki. Ég var ekki kominn langt á bakaleiðinni þaðan þegar ég var orðinn nánast viss um að lokatími undir 3:20 klst. væri ekki í boði. Vindurinn tók talsvert í, sérstaklega á bersvæði við flugvöllinn. Mótvindur hægir alltaf á manni og meðvindurinn sem maður fær í kaupbæti þegar snúið er við nær aldrei alveg að bæta það upp. Þriðji 5 km kaflinn var á 24:32 mín og sá fjórði á 24:52 mín. Millitíminn eftir 20 km var með öðrum orðum 1:35:22 klst. Og þegar ferðalagið var hálfnað var klukkan komin í 1:40:08 klst. Svo slakan millitíma eftir hálft maraþon sá ég síðast í RM í ágúst 2012 þegar ég var nýstiginn upp úr meiðslum og hálfveikur í þokkabót.

Þegar ég var kominn inn að Elliðaám, búinn að setja stefnuna aftur vestur á Ægissíðu og kominn með vindinn í bakið fann ég að ég var svo sem ekkert þreyttari en ég hafði verið á fyrstu kílómetrunum um morguninn. Mér leið prýðisvel og þetta gekk allt eins og best var á kosið, nema hvað ég hljóp hægar en mig langaði til að geta. Þegar markmiðin fjarlægjast er um þrennt að ræða; að berjast til þrautar í þeirri von að kraftarnir dugi á leiðarenda, að sætta sig við orðinn hlut og bægja frá sér hugsunum um erfiði og tilgangsleysi, eða að leggjast í almennt volæði. Ég valdi kost nr. 2, þ.e.a.s. að njóta gleðinnar í þessu öllu saman og gefa neikvæðum hugsunum frí. Hinir tveir valkostirnir eru oftast ávísun á vonbrigði. Þessi afslappaða nálgun leiðir kannski stundum til þess að maður hlaupi undir getu. Ég hef t.d. tekið eftir því að stundum hægist á hjartslætti og öndun í mótvindi og í brekkum, líklega vegna þess að ég nota ómeðvitað tækifærið til að slaka aðeins á úr því að hraðinn er hvort sem er orðinn minni. Þetta er líklega birtingarform einhvers konar leti. En hvaða máli skiptir það annars? Það er hvort sem er öllum nema sjálfum mér samt þótt ég komi hálfri mínútu seinna í mark. Dugleysinu verða ekki gerð skil á forsíðum blaða. Engir auglýsingasamningar tapast og ekkert landsliðssæti í veði.

Fimmta 5 km kaflann hljóp ég á 23:08 mín og þann sjötta á 23:13 mín. Þar með voru 30 km að baki og heildartíminn kominn í 2:21:43 klst, þ.e. 3:43 mín lengri en að var stefnt. Stundum er sagt að maraþonhlaup byrji eftir 30 km. Það gat svo sem alveg átt við þennan dag. Kannski var 31,7 km þó nærri lagi, því að þar var snúningspunkturinn á Ægissíðu, 10,5 km eftir og vindurinn aftur búinn að snúast gegn mér. Reynslan segir mér að síðustu 12,2 kílómetrana get ég hlaupið á 54-67 mín eftir því hvernig liggur á mér þann daginn. Sléttur klukkutími er oftast nærri lagi. Það hefði þýtt lokatíma upp á 3:22 klst. eða þar um bil. Svo sem ekkert nema gott um það að segja. Í allra versta falli gæti tíminn farið upp í 3:29 klst.

Ég hljóp ekkert tiltakanlega hratt vestan af Ægissíðu og í markið við Elliðaár, en mér leið vel allan tímann og var aldrei óþægilega þreyttur. Mér tókst líka að sjúga til mín orku frá öllum sem ég mætti á leiðinni og svo var sérstaklega notalegt að koma í 4. sinn við á drykkjarstöðinni hjá Jóhönnu Eiríks og félögum við HR. Vindurinn var líklega heldur farinn að gefa eftir þegar þarna var komið sögu, en úrkoman fór vaxandi. En hver getur kvartað yfir svolítilli golu og mildri rigningu seint í október?

Á endasprettinum á hitaveitustokknum við Elliðarár. Rigningin aðeins farið að setja mark sitt á myndefnið. (Ljósm. Haustmaraþon FM).

Á endasprettinum á hitaveitustokknum við Elliðarár. Rigningin aðeins farið að setja mark sitt á myndefnið. (Ljósm. Haustmaraþon FM).

Síðustu metrarnir – og svo heldur dagurinn áfram
Sjöundi 5 km kaflinn var ekkert hægari en kaflar nr. 3 og 4 þar sem líka var mótvindur. Tíminn á þeim sjöunda var 24:22 mín. Sá áttundi var hins vegar hægari en ég hafði búist við, 26:02 mín. Samt fann ég ekki að tekið væri að draga af mér að neinu ráði. Endamarkinu náði ég á 3:22:40 klst og átti nóg eftir í sæmilegan endasprett síðasta kílómetrann. Árangurinn var vissulega um 3 mín undir væntingum en líðanin góð og gleðin alveg óskemmd. Og þá var ekkert annað eftir en að komast í þurrt, njóta stundarinnar með þeim fjölmörgu sem ég kannaðist við á marksvæðinu, komast í heitan pott, fara út að borða með hlaupafélögunum úr Borgarnesi, setjast á kaffihús með þykka möppu og mæta á fund með fólki úr ítölsku viðskiptalífi á hóteli niðri í bæ kl. 4 síðdegis. Lífið og vinnan heldur áfram þó að eitt maraþon hafi bæst í safnið við þau 17 sem fyrir voru. En mér finnast bæði lífið og vinnan auðgast við hvert hlaup.

Reykjavíkurmaraþon í blíðunni

Eftir 37 km. Hlaup.is.

Eftir 37 km. (Ljósm. Hlaup.is).

Í sumar hljóp ég 17. maraþonið mitt. Tók sem sagt þátt í Reykjavíkurmaraþoninu 20. ágúst sl., aðallega vegna þess að ég er vanur því og finnst það gaman. Og nú er ég búinn að skrifa maraþonbloggið, vegna þess að ég er líka vanur því og finnst það líka gaman.

Aðdragandinn
Fjórum vikum fyrir Reykjavíkurmaraþonið hljóp ég yfir Arnarvatnsheiði í afskaplega góðum félagsskap. Fann þá fyrir óþægindum framan á vinstri sköflungi á síðustu kílómetrunum og var naumast gangfær fyrstu tvo dagana á eftir. Vissi vel að þetta gat hvort sem er verið meiri háttar meiðsli eða minni háttar meiðsli sem gæti orðið meiri háttar ef ég leyfði því ekki að lagast áður en ég héldi hlaupaæfingum áfram af fullum krafti. Þegar allt kom til alls var þetta líklega bara einhver bólga sem stafaði einfaldlega af ofnotkun á þessum tiltekna sköflungi. Alla vega kenndi ég mér ekki nokkurs meins eftir að ég áræddi að byrja aftur að hlaupa tveimur vikum eftir Arnarvatnsheiðina. En þar sem þessar tvær vikur voru 50% af þeim fjórum vikum sem ég hafði til að undirbúa Reykjavíkurmaraþonið vissi ég að ég þyrfti að stilla maraþonvæntingunum í hóf. Almennt taldi ég þó andlegt og líkamlegt ástand mitt vera í góðu meðallagi.

Væntingarnar
Miðað við aðdragandann sem lýst er hér að framan og að teknu tilliti til skorts á gæðaæfingum næstu vikur og mánuði þar á undan vissi ég að þetta maraþon yrði ekki eitt af mínum bestu. Besta tímanum mínum til þessa náði ég í Reykjavíkurmaraþoninu 2013, 3:08:19 klst. Við venjulegar aðstæður á ég vel að geta hlaupið undir 3:15 klst. en á árunum 2009-2012 hljóp ég iðulega á 3:17-3:20 klst. Í versta falli hafa sést tölur á borð við 3:25 eða 3:30. Út frá þessu öllu saman áætlaði ég að 3:15-3:20 klst. væri raunhæft markmið. Betri tími kæmi varla til greina og lakari tími myndi valda vonbrigðum.

Ónógur undirbúningur fyrir maraþonhlaup hefur þann galla að maður getur ekki bætt sinn besta tíma. Kosturinn er hins vegar sá að þá getur manni verið nokk sama um 2-3 mínútur til eða frá. Maður losnar sem sagt við þessa sjálfsköpuðu pressu sem myndast þegar mikið er lagt undir.

Laugardagsmorgunn
Ég vaknaði að vanda kl. 5:40 að morgni Reykjavíkurmaraþondagsins. Hlaupið átti nefnilega að hefjast kl. 8:40 og ég hef það fyrir reglu að vakna alltaf 3 klst. fyrr og fá mér góðan morgunverð. Þá á mesta annríkið í meltingunni að vera búið þegar hlaupið hefst. Veðrið þennan morgun var eins og best varð á kosið og veðurspáin enn betri, útlit fyrir hægan vind, þurrt veður og allt að 15 stiga hita.

Kl. 6:40 lögðum við af stað úr Borgarnesi fjórir saman, nánar tiltekið ég, Gunnar Viðar, Kristinn (hér eftir nefndur Kiddó) og Bjarni Freyr, sonur Gunnars. Við karlarnir þrír vorum allir á leiðinni í heilt maraþon, þó að enginn okkar væri svo sem beinlínis í standi til þess. Ég hafði auk heldur boðist til að stjórna hlaupahraða okkar allra til að byrja með, sem eftir á að hyggja var kannski ekki gott tilboð. Áætlunin mín hljóðaði upp á rétt um það bil 4:37 mínútur á hvern kílómetra frá upphafi hlaups og þar til þreyta eða aðrar tilfinningar tækju hraðastjórnina yfir. Þessi hraði skilar manni í mark á 3:15 klst. (já, eða 3:14:48 svo fullrar nákvæmni sé gætt).

Segir nú ekki af ferðum okkar fyrr en bílnum hans Gunnars hafði verið lagt skammt frá BSÍ. Þaðan röltum við niður í miðbæ og drukkum í okkur eftirvæntinguna sem lá í loftinu á þessum fallega morgni. Maraþonmorgnar einkennast alltaf af eftirvæntingu og jafnvel hátíðleika. Og þegar veðrið er svona gott truflar fátt þá upplifun. Hluti af upplifuninni er að hitta fólk sem er að njóta þess sama og eftir því sem árin líða þekkir maður fleira og fleira af þessu fólki. Félagsskapurinn er eitt af því sem gerir það að verkum að maður er ríkari eftir hvert hlaup. Þarna er hvorki spurt um stétt né stöðu, enda eiga allir þeir sem raða sér upp við ráslínuna hlutabréf í sama kvíðanum, sömu eftirvæntingunni og sömu gleðinni.

Fyrstu 18 kílómetrarnir
Fyrr en varði var klukkan orðin 8:40 og allur skarinn lagður af stað, þ.á.m. við maraþonfélagarnir þrír úr Borgarnesi. Reyndar voru þarna tveir borgfirskir maraþonfélagar til viðbótar en þeir tóku sér stöðu aftar í rásröðinni. Mér fannst ég örlítið þungur á mér fyrsta kílómetrann en hraðinn var samt nokkurn veginn sá sem lagt var upp með, þ.e.a.s. 4:37 mín/km. Gunnar og Kiddó fylgdu mér eins og skugginn, eða öllu heldur ég þeim, því að þeir voru lengst af skrefinu á undan. Þetta gekk allt samkvæmt áætlun.

Þeir sem hafa hlaupið Reykjavíkurmaraþon hljóta að hafa tekið eftir því að Lynghaginn er aðalmaraþongatan. Þetta er hvorki löng né fjölmenn gata, en það er eins og fólkið sem þar býr viti betur en aðrir hvers virði það er fyrir maraþonhlaupara að fá hvatningu í nesti. Ég tók fyrst eftir þessu fyrir mörgum árum og nú tók ég enn betur eftir því en nokkru sinni fyrr, því að nú býr Birgitta dóttir mín einmitt í þesari götu. Hún var að sjálfsögðu mætt út á gangstétt þennan morgun með tónlist og bros til að hvetja pabba sinn, hlaupafélagana og öll hin þúsundin sem streymdu þarna hjá. Við Ægissíðuna hittum við svo Þorkel son minn sem var kominn út á gangstétt, nývaknaður með kaffibollann sinn, í sömu erindagjörðum. Þetta var góð byrjun á löngu hlaupi!

Gott augnablik eftir 6,5 km í Reykjavíkurmaraþoni. Ég er lengst til hægri á myndinni, þá Gunnar, Kiddó og Kjartan Sævarsson. (Ljósm. Hlaup.is).

Gott augnablik eftir 6,5 km í Reykjavíkurmaraþoni. Ég er lengst til hægri á myndinni, þá Gunnar, Kiddó og Kjartan Sævarsson. (Ljósm. Hlaup.is).

Þegar 15 km voru að baki vorum við félagarnir nákvæmlega 3 sek. á undan áætlun (1:09:12 klst í stað 1:09:15 klst). Það var náttúrulega alveg innan skekkumarka. Þegar þarna var komið sögu vorum við staddir á Sæbrautinni á inneftirleið. Við 16 km markið, rétt innan við gatnamótin við Langholtsveg, var snúið við og hlaupin sama leið til baka í átt að Kirkjusandi. Snúningspunktar hafa sína galla og sína kosti. Helsti gallinn finnst mér vera sá að þegar þreytan fer að segja til sín er lítið gaman að hlaupa 180° beygjur. Það kemur reyndar lítið að sök svona snemma í hlaupi. Þeir sem fylgdust með útsendingunni frá maraþonhlaupinu á Ólympíuleikunum í Ríó daginn eftir Reykjavíkurmaraþonið sáu hins vegar hversu óþægilegt þetta getur verið á síðustu kílómetrunum. Helsti kosturinn er aftur á móti sá að fyrir og eftir beygju getur maður stytt sér stundir við að horfa á hina hlauparana og skiptast á hvatningarorðum.

Mér fannst kaflinn fyrst eftir snúninginn á Sæbrautinni svolítið erfiður. Þarna er bunga á veginum en hallinn er þó ekki nema 1% þannig að í raun skiptir hann litlu máli. Kannski var æfingaskorturinn bara farinn að segja til sín. Og svo var komið að drykkjarstöðinni við Kirkjusand, þar sem u.þ.b. 18 km eru að baki. Ég hef alltaf svolítið uppáhald á þessari drykkjarstöð. Þar í kring er oft slæðingur af áhorfendum, einhverjir að spila tónlist – og bara almennt gott og hvetjandi andrúmsloft. En þegar ég var kominn framhjá drykkjarstöðinni fann ég allt í einu að ég var orðinn einn. Gunnar og Kiddó höfðu greinilega hægt á sér. Kannski myndu þeir birtast aftur fljótlega, kannski ekki. Þannig gengur þetta fyrir sig. Maður nær sjaldnast að kveðjast með handabandi þegar leiðir skilja. Það gerist bara.

Áætlunarferð: Kirkjusandur-Fossvogur
Leiðin frá Kirkjusandi upp að Hótel Nordica er brattasti kaflinn í Reykjavíkurmaraþoninu. Einu sinni fannst mér þetta kvíðvænlegur kafli en ég er hættur að hugsa þannig. Þarna hækkar leiðin um 25 m á rúmum km, sem er svo sem ekki neitt. Alla vega er ekkert erfiðara að hlaupa upp svona smábrekkur en á jafnsléttu. Það er í mesta lagi ögn seinlegra. Hraðinn var enn samkvæmt áætlun og mér leið vel. Millitíminn í Laugardalunum eftir hálft maraþon var 1:37:23 klst sem var nákvæmlega 1 sek. hraðara en ég hafði ætlað mér. Ég hafði samt á tilfinningunni að lokatími upp á 3:15 klst væri út úr myndinni, 3:18 væri hins vegar raunhæft. Og mér fannst það bara fínt.

Inn við Glæsibæ náði ég Ragnari bónda á Heydalsá á Ströndum. Hann var að hlaupa sitt fyrsta maraþon og hafði farið fram úr okkur Borgnesingunum einhvers staðar á fyrstu kílómetrunum. Á þessum slóðum var ég líka ýmist rétt á undan eða rétt á eftir Kjartani Sævarssyni úr Laugaskokki. Trausti Valdimarsson var líka þarna skammt undan. Þessir kappar hafa oft verið nágrannar mínir í hlaupum síðustu árin. Reyndar miðaði ég lengi vel við að mér gengi vel svo lengi sem Trausti hyrfi ekki úr augsýn.

Við Víkingsheimilið í Fossvogi voru 25 km að baki og enn var ég nánast nákvæmlega á áætlun, svo nákvæmlega að ekki skakkaði meiru en 10 sek. Þarna var drykkjarstöð að vanda og einhvern veginn gekk mér óhönduglega að gera það sem ég ætlaði að gera þar. Verkefnið var samt ekkert flókið, bara að vera búinn að sporðrenna einu orkugeli áður en komið væri á stöðina, ná mér í tvö glös af vatni, drekka slurk úr öðru á hlaupum og hella afganginum yfir í hitt og taka með út að næstu eða þarnæstu ruslafötu, og í þessu tilviki líka að veiða eitt steinefnahylki upp úr einhverjum vasa og koma því í mig. En nú brá svo við að mér tókst þetta allt hálf óhönduglega. Vatnið sullaðist niður að hluta, steinefnahylkið var næstum farið sömu leið og svo svelgdist mér einhvern veginn á þessu öllu saman. Ekkert af þessu telst reyndar til tíðinda eða flokkast sem alvarlegt bakslag í hlaupi. Ef allt er með felldu er maður fljótur að vinna upp fáeinar sekúndur sem ef til vill tapast í svona brölti. En þarna vissi ég samt að ferskleikinn var búinn og að erfiðari hluti hlaupsins væri í þann mund að hefjast með tilheyrandi hraðamissi. Ég var einfaldlega orðinn þreyttur. Þetta voru svolítil vonbrigði því að hafði reiknað með að þessi erfiðari hluti myndi ekki hefjast fyrr en eftir 30-32 km.

Ný áætlun
Nú var um tvo kosti að velja, annað hvort að hlusta á líkamanum, halda svipuðu álagi og áður og leyfa hraðanum að minnka, eða að reyna að halda hraðanum og taka afleiðingunum að því, hvort sem þær yrðu í formi yfirþyrmandi þreytu eða krampa, eða kannski bara ekki neinar eins og stundum gerist þó að maður haldi annað. Ég tók fyrri kostinn, hélt svipuðu álagi og sá hvernig mínussekúndurnar byrjuðu af safnast upp. Ég var hvort sem er ekki að keppa að neinum tilteknum lokatíma.

Millitíminn eftir 30 km var 2:19:34 klst sem þýddi að ég var orðinn u.þ.b. 1 mín á eftir áætlun. Ég geri yfirleitt ráð fyrir að ég geti klárað síðust 12,2 kílómetrana á klukkutíma, sem þýddi að lokatíminn yrði rétt undir 3:20 klst. En það var síður en svo í hendi enda þreytan orðin greinileg í skrokknum.

Einhvers staðar í grennd við 34 eða 35 km markið hitti ég Þorkel minn aftur. Hann var löngu búinn með kaffið sitt og búinn að skreppa niður í bæ að hvetja aðra hlaupara. Nú var hann mættur þarna aftur til að hvetja mig og taka myndir. Þetta hjálpaði mér heilmikið, ekki síst vegna þess að eftir fyrstu myndatökuna tók hann á rás á undan mér og var aftur mættur svo sem kílómetra síðar – og aftur kílómetra eftir það. Það væri gott að hafa fleira svona fólk í stuðningsliðinu sem hleypur á undan og hvetur mann svo á völdum stöðum.

Tekið að síga á seinni hlutann. Virðist samt þokkalega léttur tilsýndar. Þorkell tók myndina vestur á Seltjarnarnesi á 36. kílómetranum.

Tekið að síga á seinni hlutann. Virðist samt þokkalega léttur tilsýndar. Þorkell tók myndina vestur á Seltjarnarnesi á 36. kílómetranum.

Enn hægðist á og Garminúrið sýndi oftar en ekki hærri tölu en 5 mín/km. Eftir 40 km var millitíminn 3:10:06 klst. Á virkilega góðum maraþondegi hefði ég átt að vera kominn í markið um það leyti. En mér fannst það ekki skipta miklu máli þennan dag. Það stóð aldrei til að koma leiður í mark í þessu hlaupi og við það skyldi staðið hver sem lokatíminn yrði. Ég var svo sem í ágætu standi, engir krampar eða neitt, bara almenn þreyta í skrokknum. Ég held að mér hafi tekist vel að láta líta svo út að ég væri í toppstandi á lokakaflanum og í markið kom ég á 3:21:16 klst, vel studdur af fjölskyldu og nágrönnum sem höfðu raðað sér meðfram Lækjargötunni.

Sjö hlauparar úr Hlaupahópnum Flandra úr Borgarnesi að loknu Reykjavíkurmaraþoni, þar af 5 búnir með heilt maraþon, þar af 3 íbúar í Þórðargötu.

Sjö hlauparar úr Hlaupahópnum Flandra úr Borgarnesi að loknu Reykjavíkurmaraþoni, þar af 5 búnir með heilt maraþon, þar af 3 íbúar í Þórðargötu. (Man ekki hver tók myndina).

Lokaorð
Maraþon er alltaf óvissuferð og í óvissuferðum veit maður ekki sjálfur hvernig ferðasagan muni enda. En ég var alla vega sáttur við þetta ferðalag og leið þokkalega þar sem ég ráfaði um marksvæðið og ræddi málin við alla sem ég hitti, eins og maður gerir ævinlega eftir svona hlaup. Það er hluti af upplifuninni. Ég gat líka fjarlægt tímatökuflöguna af skónum mínum hjálparlaust, sem ég tel vera merki um gott ástand að hlaupi loknu. Stundum er erfitt að beygja sig en það var bærilegt þennan dag.

Eftir drykklanga viðdvöl á marksvæðinu fann ég leiðina út fyrir girðinguna sem lokar svæðið af, en fyrst tók ég á móti Ragnari Bragasyni og hlaupafélögum mínum úr Borgarnesi þegar þeir komu í markið. Ragnar og Kiddó voru báðir að hlaupa sitt fyrsta maraþon og mér finnst alltaf gott að deila þeirri upplifun með fólki. Þeir voru auðvitað þreyttir, en þó ekki sýnilega verr á sig komnir en ég eftir fyrsta maraþonið mitt fyrir réttum 20 árum. Eftir því sem maraþonunum fjölgar kemur færra á óvart.

Tveir af aðalstyrktaraðilunum, miðbarnið Birgitta og eiginkonan Björk. Birgitta nýbúin að hlaupa síðasta sprett (12,2 km) fyrir Umhverfisstofnun í maraþonboðhlaupi. Yngsta barnið Jóhanna tók myndina.

Tveir af aðalstyrktaraðilunum, miðbarnið Birgitta og eiginkonan Björk. Gitta nýbúin að hlaupa síðasta sprett (12,2 km) fyrir Umhverfisstofnun í maraþonboðhlaupi. Yngsta barnið Jóhanna tók myndina.

Tvöföld Vesturgata öðru sinni

Miði með millitímum frá 2014

Miði með millitímum frá 2014

Á dögunum hljóp ég tvöfalda Vesturgötu í annað sinn, en þessa leið fór ég fyrst sumarið 2014. Sú ferð var mikil gleðiferð eins og ráða má af þar til gerðum bloggpistli og eðlilega langaði mig til að endurtaka gleðina. Í stuttu máli sagt tókst það fullkomlega. Auðvitað er hver ferð sérstök og það sem gleður í einni ferð er e.t.v. ekki til staðar í þeirri næstu. En þá kemur bara einhver önnur og nýrri gleði í staðinn.

Hvað er tvöföld Vesturgata?
Tvöföld Vesturgata er keppnishlaup sem er hluti af Hlaupahátíð á Vestfjörðum. Lagt er af stað frá Þingeyri í Dýrafirði, hlaupið inn Kirkjubólsdal, yfir Álftamýrarheiði niður í Fossdal í Arnarfirði, út að Stapadal og áfram eftir Kjaransbraut og Svalvogavegi út í Svalvoga og inn að Sveinseyri við Dýrafjörð. Leiðin öll er 45 km og liggur um stórbrotið landslag og eitt af ótrúlegustu mannvirkjum á Íslandi, þ.e.a.s. veginn sem Elís Kjaran kroppaði inn í þverhníptar hlíðar sumarið 1973 á örsmárri jarðýtu, nánast fyrir eigin reikning þrátt fyrir „loforð um 400 þúsund hjá Þorvaldi Garðari, 500 þúsund hjá Steingrími og Fálkaorðuna hjá Hannibal“, eins og Elís orðaði það sjálfur, (Elís Kjaran (2007): Svalvogavegur. Kafli úr lífsbók minni ásamt vísnagátum. Vestfirska forlagið, Brekku í Dýrafirði, (bls. 34)).

Þátttaka mín í tvöföldu Vesturgötunni þetta árið var hluti af vikulangri hlaupaferð til Vestfjarða. Mestan hluta þessarar viku bjuggum við hjónin ásamt fleira fólki í sumarbústað í Önundarfirði og þaðan var gert út til þátttöku í hinum ýmsu hlaupum, ýmist á malbiki eða á fjöllum. Frá þessum bústað lögðum við einmitt af stað fimm saman í bítið að morgni sunnudagsins 17. júlí, þ.e.a.s. ég sjálfur, Gunnar Viðar hlaupafélagi minn úr Borgarnesi, Birkir Þór Stefánsson bóndi í Tröllatungu á Ströndum og hjónin Sævar Skaptason og Bryndís Óladóttir sem hafa fylgt mér í fleiri hlaupum um fjöll en nokkrir aðrir.

Tvöföld Vesturgata á korti með áfangaskiptingu SG.

Tvöföld Vesturgata á korti með áfangaskiptingu SG.

Áætlun dagsins
Ég legg yfirleitt ekki af stað í hlaup án þess að vera með áætlun eða markmið. Í þetta skiptið var markmiðið einfalt: Ég ætlaði að bæta tímann minn frá sumrinu 2014, þ.e.a.s. að hlaupa á betri tíma en 4:12:03 klst. Aðgerðaáætlunin sem fylgdi þessu markmiði var líka einföld: Sem flestir áfangar hlaupsins skyldu hlaupnir hraðar en síðast, sérstaklega fyrri hluti hlaupsins inn Kirkjubólsdal og yfir Álftamýrarheiði. Ég taldi mig nefnilega vera sterkari í brekkum en ég var 2014. Það mat mitt byggði ég á vel heppnuðum hraðferðum upp og niður Hafnarfjallið fyrr í sumar. Ég var því bjartsýnn á að markmiðið næðist. Við þetta bættist svo að sumarið 2014 tóku aðeins þrír karlar og tvær konur þátt í hlaupinu og við karlarnir (Gunnar Viðar, Klemenz og ég) fylgdumst allir að yfir heiðina og vorum meira í því að spjalla en flýta okkur. Þar hlutu því að liggja tækifæri til úrbóta hvað hlaupatímann varðaði. Eftir að yfir heiðina væri komið myndi ég svo bara þurfa að þrauka og þá væri markmiðið í höfn.

Til þess að sem auðveldast yrði að fylgjast með framgangi áætlunarinnar skipti ég hlaupinu fyrirfram í sömu áfanga og ég gerði 2014. Og til að vera nú alveg viss um að stopult minni myndi ekki rugla mig í útreikningunum skrifaði ég alla millitímana frá 2014 á miða sem ég tók með mér í hlaupið, (sjá mynd efst í þessum pistli).

26 hlauparar
Hlaupið var ræst við kirkjuna á Þingeyri stundvíslega kl. 8 þennan sunnudagsmorgun í hægum vindi, þurrviðri og u.þ.b. 10 stiga hita. Þátttakendur voru fimmfalt fleiri en síðast eða samtals 26, þar af 20 karlar og 6 konur. Í þessum hópi voru m.a. tveir bestu langhlauparar Íslands, þeir Kári Steinn Karlsson og Þorbergur Ingi Jónsson. Það var því næsta víst að ég yrði ekki með í baráttunni um gullið.

1. áfangi: Þingeyri-Kirkjuból
Ég fór talsvert hraðar af stað en í hlaupinu 2014, enda var það líka ætlunin. Svo er líka alltaf hvetjandi að hafa hraðari hlaupara á undan sér. Kári Steinn og Þorbergur hurfu svo sem strax, en þarna var líka hópur af öðrum mönnum sem voru nær mér að getu en þó ívið hraðari. Í þannig félagsskap hleypur maður gjarnan hraðar en ella.

Strax á fyrstu kílómetrunum skýrðust línur. Kári Steinn og Þorbergur voru strax orðnir langfyrstir og tveir erlendir hlauparar fóru í humátt á eftir þeim. Gunnar Atli, Gauti Gíslason og Guðmundur Guðnason mynduðu næsta hóp þar á eftir og ég fylgdi þeim til að byrja með. Gunnar Viðar og Birkir voru heldur ekki langt undan og Svíinn Linus Björk var líka þarna einhvers staðar. Þar fyrir aftan myndaðist strax bil sem ég bjóst varla við að myndi lokast.

Í hlaupinu 2014 var ég 28:18 mín. inn að Kirkjubóli, en þangað eru u.þ.b. 5,63 km frá Þingeyri. Í þetta skiptið sýndi klukkan 27:34 mín sem þýddi að ég var strax kominn með 44 sek í „plús“, þ.e.a.s. kominn með 44 sek forskot miðað við hlaupið 2014. Þar með var ég strax næstum sannfærður um að ég myndi ná markmiðinu, þ.e.a.s. ef allt gengi áfallalaust fyrir sig. Þetta var góð tilfinning.

2. áfangi: Kirkjuból-Álftamýrarheiði
Á leiðinni inn Kirkjubólsdal dróst ég aftur úr þremenningunum sem fyrr voru nefndir og fylgdist þess í stað með Gunnari, Birki og Línusi. Mér fannst ég frekar þungur á mér á þessum kafla og var ekki alveg frá því að í fótum mér leyndust eftirstöðvar af Arnarneshlaupinu einum og hálfum sólarhring fyrr. Þar hafði ég lagt 10 km að baki á 40:44 mín, sem var upp á sekúndu sami tími og í sama hlaupi 2014, (sem þá hét reyndar Óshlíðarhlaup). Það var enn ein vísbending um að ég væri ekki verr á mig kominn en þá. Þrátt fyrir þyngslin í fótunum hafði ég líka á tilfinningunni að hraðinn væri meiri en 2014. Og ef það skyldi nú vera misskilningur þóttist ég viss um að ég myndi vinna þetta upp á leiðinni upp heiðina, eða þá að minnsta kosti niður hana hinum megin enda tiltölulega góður á undanhaldinu.

Þegar við vorum komnir í brekkurnar voru þremenningarnir að mestu horfnir úr augsýn og þarna skildi Birkir bóndi okkur Gunnar líka eftir. Brekkur eru kjörlendi Birkis og það síðasta sem við sáum til hans var að hann var búinn að ná hinum. Linus dróst hins vegar afturúr, enda sagðist hann vera linur upp brekkur en fljótur niður.

Þegar þarna var komið sögu var okkur Gunnar farið að lengja eftir drykkjarstöð. Ég hafði búist við fyrstu stöð niðri í dalnum eftir svo sem 7-10 km, en nú var kílómetramælirinn „alveg að detta“ í 12 km og ekkert að frétta af drykkjunum. Ég hafði ákveðið, rétt eins og síðast, að hlaupa vatnslaus og reiða mig á brynningar á leiðinni. Þannig finnst mér ég verða ögn léttari og frjálsari. En þetta var svo sem allt í lagi. Vatnslöngunin er aðallega huglæg svona snemma í hlaupi. Það er líklega ekki fyrr en eftir 20 km eða meira sem þetta fer að skipta einhverju máli í raun. Og ofarlega í brekkunum birtist drykkjarstöðin líka allt í einu og þá skellti ég í mig einu orkugeli til að viðhalda þokkalegu næringarjafnvægi. Þegar til átti að taka var hins vegar ekkert vatn í boði á þessari drykkjarstöð, heldur bara orkudrykkir. Svoleiðis lagað drekk ég aldrei ótilneyddur. Í sumum orkudrykkjum eru gervisætuefni sem ég held að séu manni frekar til armæðu en gagns. Gunnar var hins vegar svo vinsamlegur að gefa mér af vatnsbirgðunum sínum og þannig gat ég skolað gelinu niður vandræðalaust. Staðsetning og framboð á þessari tilteknu drykkjarstöð var það eina sem fór úrskeiðis í framkvæmd þessa hlaups. Allt annað var að mínu mati eins og best gerist. Jafnvel betra!

Og skömmu síðar vorum við Gunnar komnir í skarðið á háheiðinni, sem ég hef haldið að heiti Kvennaskarð en heitir það líklega ekki. Þarna voru 13,96 km að baki og klukkan sýndi 1:23:41 klst. Nú var ég glaður! Við höfðum greinilega verið miklu fljótari upp brekkurnar en síðast og allt í einu var forskotið komið í 5:30 mín.

3. áfangi: Niður heiðina
Ég var ákveðinn í að njóta þess að hlaupa eins og fætur toguðu niður í Fossdal, fullviss um að niðurhlaupin á Hafnarfjalli hefðu gert sitt gagn. Mér leið stórvel og hlakkaði til framhaldsins. En allt í einu var Gunnar horfinn. Ég hafði svolitlar áhyggjur af honum en vissi svo sem að ég gæti ekkert gert í málinu, hvert sem málið væri. Málið var eitthvert magavesen, en ég frétti auðvitað ekkert af því fyrr en við hittumst á marksvæðinu löngu síðar.

Þrátt fyrir dágóðan hraða niður brekkurnar geystist Linus fram úr mér. Ég var þá einn eftir, í 10. sæti í hlaupinu þá stundina. Neðar í brekkunum datt Linus en slapp sem betur fer með smáskrámur. Þar náði ég líka Guðmundi Guðnasyni og við þrír fylgdumst að mestu leyti að þar til við vorum komnir niður á veg Arnarfjarðarmegin. Þarna voru 19,67 km að baki, millitíminn 1:47:53 klst. og forskotið komið í 6:29 mín miðað við hlaupið 2014. Þetta gekk alveg eins og í sögu hjá mér. Meðalhraðinn niður heiðina hafði verið 4:14 mín/km.

4. áfangi: Út í Stapadal
Mér er það sérstakt tilhlökkunarefni í tvöföldu Vesturgötunni að koma út í Stapadal. Þar finnst mér fyrri hluta hlaupsins lokið, en hitt er þó meira að þar hittir maður hlauparana sem eru að bíða eftir því að hið hefðbundna 24 km Vesturgötuhlaup verði ræst. Hvatningin sem bíður manns þarna er aðaltilhlökkunarefnið. Í Stapadal voru 20,94 km að baki og millitíminn 1:53:50 mín, þ.e.a.s. 7:48 mín betri en í hlaupinu 2014. Tilhlökkunin hafði greinilega nýst mér vel. Meðalhraðinn þennan stutta spöl út með Arnarfirði hafði verið 4:41 mín/km þó að leiðin sé hreint ekki öll lárétt. Og ég sá í hendi mér að ég gæti lokið hlaupinu á 4:04 mín, bara með því að halda í horfinu það sem eftir lifði hlaups, þ.e. með því að halda sama hraða og 2014. Þetta var við það að fara fram úr björtustu vonum.

5. áfangi: Þar til 20 km eru eftir
Mér finnst sérstaklega gaman að hlaupa fyrsta spölinn út fjöruna fyrir utan Stapadal. Undirlagið er reyndar frekar erfitt því að þarna er hlaupið í óvenjugrófri sjávarmöl, eða næstum því sjávargrjóti. En þetta svæði er bara svo einstakt að maður getur ekki annað en verið glaður að fá tækifæri til að hlaupa þarna um, vel varinn fyrir þeim náttúruöflum sem gerðu lífsbaráttuna þarna eins harða og raun bar vitni.

Í flestum götuhlaupum sýna kílómetramerkingar hversu langt er liðið á hlaupið, en í Vesturgötunni sýna skilti þann fjölda kílómetra sem eftir er. Þetta finnst mér skemmtileg tilbreyting, auk þess sem þetta auðveldar framkvæmd hlaupa þar sem fleiri en ein vegalengd er í boði en endamarkið það sama. Samkvæmt áætluninni skyldi næsti millitími tekinn þegar 20 km væru eftir.

Við Guðmundur fylgdumst að fyrstu kílómetrana út með firðinum. Hann stefndi að því að ljúka hlaupinu á svipuðum tíma og ég gerði 2014, en þá einsetti ég mér að ljúka síðustu fjórum 5 km köflunum í hlaupinu á 27:30 mín að meðaltali. Þegar við komum að 20 km skiltinu (u.þ.b. 25 km að baki) sýndi klukkan 2:15:49 klst. Forskotið á 2014-hlaupið hafði enn aukist lítillega og var komið í 7:59 mín. Guðmundur hafði orð á því að ég gæti hugsanlega náð undir fjóra tímana. Það hafði vissulega hvarflað að mér, en þá þyrfti forskotið að aukast úr 8 mínútum í 12, sem þýddi að ég yrði að sneiða heila mínútu af hverjum 5 km kafla sem eftir væri. Ég sá að það var ekki raunhæft. Hálf mínúta á hverja 5 km væri líklega það mesta sem ég gæti gert mér vonir um og þá myndi lokatíminn verða um 4:02 klst, en 4:04 ef ég næði bara að halda í horfinu. Það yrði að duga í þetta sinn, hvað sem síðar yrði.

6. áfangi: Þar til 15 km eru eftir
Þegar 15 km eru eftir af tvöfaldri Vesturgötu eru 30 km búnir. Um það leyti eru flestir teknir að lýjast. Mér fannst líka heldur vera farið að hægjast á mér, en í hvert sinn sem ég leit á hraðamælinn í GPS-úrinu („peisið“ (eða kannski „peysið“(?))) var hraðinn meiri en ég hélt. Þetta gekk sem sagt alveg áætlega og í raun fann ég lítið fyrir þreytu. Guðmundur var farinn að dragast aðeins aftur úr þegar hér var komið sögu, Linus hafði ég ekki séð lengi og Gauti var ekki svo ýkja langt á undan mér. Ég var sem sagt í 8. sæti í hlaupinu um þetta leyti. Eins og ég hef margsagt og skrifað skiptir það mig svo sem engu máli hvort ég er á undan einhverjum eða eftir, því að ég sjálfur er alltaf eini keppinauturinn sem ég þarf að hafa áhyggjur af. En samt er hvetjandi að sjá einhvern á undan sér og reyna að ná honum. Í því felst líka afþreying fyrir hugann. Þegar 15 km voru eftir sýndi klukkan 2:43:07 klst. Forskotið var komið í 8:45 mín sem leit reyndar býsna vel út. Lokatími upp á 4:00 var svo sem enn fræðilegur möguleiki, en ég mat stöðuna þó svo að 4:02-4:04 væri ennþá það sem eðlilegt væri að miða við.

7. áfangi: Þar til 10 km eru eftir
Einhvers staðar langt út með Arnarfirðinum fór ég fram úr tveimur hlaupurum, þ.e.a.s. Gauta og breskum hlaupara sem hafði verið annar þeirra tveggja sem fylgdu í humátt á eftir Kára Steini og Þorbergi í upphafi hlaups. Bretinn sagðist hafa átt betri daga. Eftir þetta var ég einn míns liðs þar til undir lok hlaupsins. Var orðinn svolítið lúinn en naut þess virkilega að hlaupa í þessu ótrúlega umhverfi. Úti við Svalvoga var ljósmyndari sem gaf mér tilefni til að hlaupa léttilega upp brekku sem ég hefði annars líklega gengið og þegar upp var komið blasti 10 km skiltið við. Klukkan sýndi 3:09,23 klst., sem var 8:50 mín betra en 2014. Ávinningurinn síðustu 5 km hafði sem sagt ekki verið nema 5 sek, en enn voru þó allir áfangar hraðari en síðast. Það gat hins vegar orðið erfitt yrði að halda þessu forskoti, því að eflaust hafði meiri hraði á Álftamýrarheiðinni tekið sinn toll í þetta skiptið.

Við Svalvoga. (Ljósm. Guðmundur Ágústsson)

Hlaupið fyrir ljósmyndara við Svalvoga. (Ljósm. Guðmundur Ágústsson)

8. áfangi: Þar til 5 km eru eftir
Næstu kílómetrar voru tíðindalitlir. Aðalviðfangsefnið var að þrauka þannig að ekki drægi mikið úr hraðanum. Þegar ég kom upp á hæðir eða út í beygjur á veginum var ég farinn að eygja Gunnar Atla nokkur hundruð metrum á undan mér. Hugsaði með mér að gaman væri að ná honum, þó að forskotið virtist reyndar heldur mikið. Ég var hins vegar hissa á að vera ekkert farinn að sjá til Birkis bónda. Ég var ekkert hissa á að hann væri fljótur yfir heiðina, en mér hafði frómt frá sagt ekki dottið í hug að hann gæti haldið út svona lengi á þessum hraða. Hæfileikana vantar ekki, en Birkir er erfiðisvinnumaður og ég vissi að miðað við æfingamagn sumarsins ætti hann að vera löngu sestur út í kant ef hann væri einhver meðalmaður að upplagi.

Rétt utan við Keldudal kom ég að 5 km skiltinu. Þetta var alveg að verða búið og nóg eftir af gleði í sinninu. Klukkan sýndi 3:37:35 klst sem þýddi að ég hafði ekki alveg náð að halda í horfinu síðustu 5 km. Forskotið á tímann frá 2014 hafði minnkað niður í 8:47 mín. Allt innan skekkjumarka, en ég vissi að ég yrði að hafa mig allan við til að ljúka hlaupinu á 4:03 klst. Líklega yrði ég nær 4:04.

9. áfangi: Síðustu 5 kílómetrarnir
Nú var ég farinn að taka hvern kílómetra fyrir sig og hugarreikningsæfingarnar gengu út á að giska á líklegan lokatíma. Gunnar Atli virtist alltaf vera í svipaðri fjarlægð en allt í einu var ég búinn að ná Birki. Mér fannst hann hafa unnið ótrúlegt afrek að halda hraðanum í rúmlega 40 km, en hann var á öðru máli og sagði alla vera að fara fram úr sér. Allir voru engir nema Gunnar Atli og ég, en auðvitað verður maður svolítið svartsýnn þegar þreytan sverfur að.

Í brekkunni upp úr Keldudal rifjaði ég upp það sem ég hafði lesið kvöldið áður í Vesturgötupistlinum mínum frá 2014 að þá hefði ég náð að skokka upp alla brekkuna. Það varð mér hvatning til að gera slíkt hið sama núna. Annað hefði verið merki um afturför og líklega leitt til lakari lokatíma en vonir stóðu til. Á brekkubrúninni voru ekki nema 2,5 km í mark og ég var ekki þreyttari en svo að ég gat notið hvers einasta metra sem eftir var af hlaupinu. Brekkan niður að Sveinseyri var tekin á góðum og vaxandi hraða og eins og stundum áður var ég vandræðalega glaður þegar ég kom í markið. Lokatíminn var 4:03:20 klst, þ.e.a.s. 8:43 mín bæting frá því í hlaupinu 2014. Síðustu 5 km voru að vísu 4 sek. hægari en þá, en hverjum var ekki sama. Markmiðinu var náð og auk þess var ég í 5. sæti í hlaupinu á eftir Kára Steini, Þorbergi, Svíanum Markus Living og Gunnari Atla. Ég gat ekki með nokkru móti gert mér vonir um hagstæðari úrslit en þetta!

Á marklínunni í Dýrafirði. 45 km að baki. (Ljósm. Björk Jóh.)

Á marklínunni í Dýrafirði. 45 km að baki. (Ljósm. Björk Jóh.)

Að hlaupi loknu
Gleðin í markinu var enn meiri en ella þegar ég sá að Björk, Gitta og Etienne voru öll mætt til að taka á móti mér og hinum fjórum sem lögt höfðu upp frá bústaðnum í Önundarfirði snemma um morguninn. Svo var þarna fjöldinn allur af öðru fólki sem ég þekki og þekki ekki – og gleðin og gestrisnin í aðalhlutverki eins og ævinlega á Hlaupahátíð á Vestfjörðum. Mér finnst ekki á neinn hallað þótt ég fullyrði að hvergi gangi maður að þessum systrum eins vísum að hlaupi loknu og þarna.

Eitt af mörgu sem gladdi mig þennan dag var að heyra hversu margir höfðu haft Vesturgötupistilinn minn frá 2014 til hliðsjónar í undirbúningi hlaupsins. Þetta átti jafnt við um þann sem kom fyrstur og þann sem kom síðastur í mark og meira að segja Markus Living hafði rennt í gegnum pistilinn með dyggri aðstoð Google Translate. Svona vitneskja hvetur mig til að halda áfram að skrifa. Ég þarf reyndar ekki sárlega á slíkri hvatningu að halda. En hún er góð samt.

Þrír fyrstu menn í flokki 40-99 ára. F.v. SG, Gunnar Atli og Birkir. (Ljósm. Björk Jóh.)

Þrír fyrstu karlar 40-99 ára: SG, Gunnar Atli og Birkir. (Ljósm. Björk Jóh.)

Af mörgum tilfinningum sem eiga vísan stað í huga mínum að loknu góðu hlaupi er þakklætið jafnan með þeim efstu. Þennan dag var það efst. Ég var þakklátur forsjóninni fyrir að leyfa mér að leika mér eins og mér þykir skemmtilegast, þakklátur Björk og öllum hinum sem fylgdu mér í þessu hlaupi og í þessari Vestfjarðaferð og þakklátur öllu þessu frábæra fólki sem stendur að Hlaupahátíð á Vestfjörðum og hefur tekist að gera hana að þeirri gleðiveislu sem hún er.

Þetta var góður dagur.

Tölulegt uppgjör í boði Garmin Connect

Tölulegt uppgjör í boði Garmin Connect.

(Stærri mynd birtist ef smellt er á þessa).

Þrjár strendur, fjórir menn

Um þarsíðustu helgi, nánar tiltekið laugardaginn 18. júní, var Þrístrendingur hlaupinn í 7. sinn. Fyrir þá sem ekki vita, sem hljóta að vera teljandi á fingrum annarrar handar,  er Þrístrendingur árlegt skemmtihlaup þar sem hlaupið er þvert yfir Íslands, tvisvar, sama daginn. Hlaupið hefst á hlaðinu á Kleifum í Gilsfirði þar sem sameiginlegir forfeður og formæður okkar Dofra Hermannssonar bjuggu í 100 ár og þar sem móðir mín og afi hans slitu barnskónum snemma á síðustu öld. Frá Kleifum er hlaupið norður yfir Steinadalsheiði í botn Kollafjarðar á Ströndum, yfir Bitruháls að æskiheimili mínu í Gröf í Bitru, og áfram sem leið liggur í vesturátt suður Krossárdal alla leið að Kleifum. Leiðin er á að giska dagleið, nánar tiltekið rétt rúmir 40 km. Það er vissulega langt í samanburði við þær vegalengdir sem tíðkast að skokka á einum degi, en þetta er samt hér um bil stysta leiðin tvisvar yfir Ísland. Landið er breiðara annars staðar.

Allt tilbúið á hlaðinu á Kleifum. F.v.: Arnór, Stefán, Hlynur, Dofri, Birkir, Magnús, Ási, Erlendur, Sigríður, Marta.

Allt tilbúið á hlaðinu á Kleifum. F.v.: Arnór, Stefán, Hlynur, Dofri, Birkir, Magnús, Ási, Erlendur, Sigríður, Marta.

Það var óvenjufámennt á hlaðinu á Kleifum þennan laugardagsmorgun, enda mörg önnur afþreyingartækifæri í boði fyrir hlaupara landsins þennan dag. Samtals lögðum við af stað tíu saman niður heimreiðina um hálfellefuleytið, þar af 8 hlaupandi og 3 á hjóli. Þurrt var í veðri, austan gola, skýjað að mestu og 10 stiga hiti, en í norðri var Húnaflóaþokan skammt undan.

Heimreiðin að Kleifum (eða öllu heldur frá Kleifum í þessu tilviki). Þær gerast ekki öllu lengri og beinni. Gilsfjörður blasir við.

Heimreiðin að Kleifum (eða öllu heldur frá Kleifum). Þær gerast ekki öllu lengri og beinni. Gilsfjörður blasir við.

Okkur sóttist allvel ferðin frá Kleifum, yfir að Gilsfjarðarbrekku og áleiðis upp Steinadalsheiði, enda var þetta allt hreyfivant fólk. Ólíkt því sem verið hafði öll hin árin var Vegagerðin ekki búin að opna heiðina. Það snerist þó fremur um form en innihald, því að heiðin var orðin vel fær fyrir sæmilega fjórhjóladrifsbíla, bara einn þunnur skafl eftir. Fyrir svo sem 70 árum var vegurinn yfir Steinadalsheiði eini akfæri bílvegurinn að sunnan áleiðis til Hólmavíkur. Vegurinn hefur verið endurbættur talsvert síðan þá, en aðrir vegir hafa verið endurbættir talsvert meira og henta því síður til náttúruhlaupa. Steinadalsheiðin er upplögð til þeirra nota.

Á leið upp Steinadalsheiði. Gaman væri að vita nafn á þessum fossi sem rennur í skömmtum niður hlíðina.

Á leið upp Steinadalsheiði. Gaman væri að vita nafn á þessum fossi sem rennur í skömmtum niður hlíðina.

Heiðin að baki. Hlaupið yfir Steinadalsá.

Heiðin að baki. Hlaupið yfir Steinadalsá.

Einn helsti kosturinn við að hlaupa upp heiðar er að þá getur maður hlakkað til að hlaupa niður þær hinum megin. Niðurhlaup eru oftast sýnu auðveldari en upphlaup, að því tilskyldu að niðurleiðin sé ekki mjög brött. Þessi niðurleið er það ekki og því var ekkert slegið af, ekki heldur við Hestasteininn í Steinadal þar sem venja hefur verið að staldra við í Þrístrendingshlaupum. Þess í stað var haldið áfram framhjá myndarbýlinu í Steinadal þar sem hvergi er óreiðu að sjá og alla leið að Stóra-Fjarðarhorni í Kollafirði, þaðan sem Stefán frá Hvítadal gekk til kirkju á Felli á jóladag, líklega 8 ára gamall, árið 1895. Þessi gönguferð varð að öllum líkindum kveikjan að sálminum „Kirkjan ómar öll“ sem margir þekkja. Nú er engin kirkja á Felli, en ættmenni Stefáns búa enn í Stóra-Fjarðarhorni, rétt eins og þau hafa gert allar götur síðan 1844.

Við Stóra-Fjarðarhorn sýndi Garminúrið 18,91 km og 2:05:36 klst. Líklega höfðum við verið ögn fljótari en oftast áður, en í Þrístrendingi er ekki keppt við tímann. Og það sem meira er, tíminn var í fríi þennan dag.

Trússbíllinn beið við Stóra-Fjarðarhorn. Sumir segja að gott sé að liggja undir Land-Rover.

Trússbíllinn beið við Stóra-Fjarðarhorn. Mörgum finnst gott að liggja undir Land-Rover.

Hugað að fótabúnaði. Slíkur búnaður er mikilvægur á hlaupum.

Hugað að fótabúnaði. Slíkur búnaður er mikilvægur á hlaupum.

Allir hlauparar dagsins samankomnir við Stóra-Fjarðarhorn. Hjólreiðafólkið farið.

Allir hlauparar dagsins samankomnir við Stóra-Fjarðarhorn. Hjólreiðafólkið farið.

Á leið upp frá Stóra-Fjarðarhorni.

Á leið upp frá Stóra-Fjarðarhorni.

Eftir hefðbundna áningu lögðum við upp í næsta áfanga, upp Fjarðarhornssneiðinga áleiðis upp á Bitruháls. Tveir hlauparar höfðu látið Steinadalsheiðina nægja og sömuleiðis var hjólreiðafólkið farið sína leið. Í staðinn bættust tvær hraustar konur frá Hólmavík í hópinn þannig að við vorum sex saman þarna á hálsinum. Þokan var á undanhaldi og sólin gægðist meira að segja fram. Vorið hafði líka greinilega verið fyrr á ferð en síðustu ár, því að leiðin var orðin snjólaus og klaki farinn úr jörðu. Tíminn leið fljótt við spjall um hlaup, líf, tilveru og uppvaxtarárin mín í Gröf. Þangað vorum við svo komin fyrr en varði, nánar tiltekið kl. 14:48. Tölur hafa alltaf skipt máli í Gröf, í það minnsta í þau tæpu 60 ár sem ég hef fylgst með í þeim efnum.

Arnór á háhálsinum. Þokan alveg að hverfa.

Arnór á háhálsinum. Þokan alveg að hverfa.

Húsráðendur í Gröf voru fjarverandi þennan dag en við tókum okkur engu að síður bessaleyfi að bæla grasið við suðurgafl vélageymslunnar ofan við bæinn. Þar átti ég mín fyrstu markskot á knattspyrnuferlinum. Boltinn var að mig minnir minjagripur frá heimsmeistaramótinu 1966, gerður úr einhvers konar plasti með ventli sem átti það til að detta inn í boltann ef maður var ekki nógu gætinn með loftpumpuna. Þessi bolti var í nokkurn veginn réttri stærð af fótbolta að vera en helst til léttur. Þyngdarpunkturinn var heldur ekki alveg í miðjum bolta, sem gerði það að verkum að hann beygði stundum af leið í miðju skoti. Það gat komið sér illa, bæði fyrir útileikmenn og markmenn (hvort tveggja í eintölu). Og svo var líka hættulegt að hitta ekki markið, því að þá gat boltinn skoppað „út í gil“, þ.e.a.s. út í lækinn sem rann eftir gilinu niður með bænum. Þá var aldrei að vita hvort maður næði gripnum í tæka tíð áður en straumurinn tæki hann. Til þess kom reyndar aldrei. Samt varð knattspyrnuferillinn stuttur.

Í Gröf - áður en konurnar yfirgáfu okkur.

Í Gröf – áður en konurnar yfirgáfu okkur.

Eftir svo sem hálftíma hvíld og sögustund við vélageymsluna í Gröf var tekið á rás suður Krossárdal, fram hjá Gili og Árdal og fram fyrir Torffell. Torffell blasti við úr glugganum fyrir ofan rúmið mitt í Gröf í gamla daga, það lokaði eiginlega dalnum og þar endaði heimurinn minn til vesturs. Heiminn á bak við Torffell kannaði ég ekki fyrr en á unglingsárum. Og fyrst að hér er notuð hugtökin „suður Krossárdal“ og „fram fyrir Torffell“ er rétt að taka fram að Krossárdalur liggur í vestur og það sem ég kalla „fram fyrir Torffell“ væri kallað „inn fyrir Torffell“ í einhverjum öðrum landshlutum.

Á þessum síðasta áfanga leiðarinnar vorum við bara fjórir eftir. Í Gröf hafði hjálpsamur bílstjóri beðið eftir konunum frá Hólmavík og þar endaði hlaupið þeirra þennan dag. Önnur þeirra giftist meira að segja þessum bílstjóra viku síðar. Svona eru forlögin.

Við Skáneyjargil áðum við um stund og söfnuðum liðinu saman. Þar endar hinn greinilegi slóði fram (eða inn) dalinn og því hentaði vel að bera þar saman bækur sínar um áframhaldið. Eftir þessa áningu fylgdumst við Birkir bóndi að fram að Krossárvatni en hinir tveir, Arnór og Hlynur, fóru hraðar yfir. Í Þrístrendingi fyrir ári síðan hafði ég einhver orð um að ég myndi dýfa mér í vatnið næst, enda voru ferðafélagarnir þá búnir að gefa tóninn hvað það varðaði. Sannast sagna er ég hvorki mikið fyrir böð í köldu vatni né fyrir sundiðkun yfirleitt. Ég lét samt verða af því að vaða út í vatnið, en bara upp í mið læri.

Síðasta spölinn niður að Kleifum hlupum við fjórmenningarnir í fjórum hópum, sem allir komu þó á leiðarenda á svipuðum tíma. Sem fyrr segir er leiðin öll rétt rúmir 40 km og á hverju ári fær einhver Þrístrendingshlaupari þá flugu í höfuðið að ekki sé nóg að gert fyrr en dagleiðin er orðin jafnlöng maraþoni, þ.e.a.s. 42,2 km. Að þessu sinni var ég þessi einhver, enda engan veginn orðinn saddur af hlaupum. Bætti því við svolitlu skokki niður heimreiðina á Kleifum og aftur til baka. Að þeirri viðbót lokinni settist ég að kjötsúpuveisluborði að hætti Birnu á veröndinni á Kleifum. Það var án nokkurs vafa hápunktur dagsins! Þaðan fóru allir saddir og glaðir rétt í þann mund sem íslenska landsliðið í knattspyrnu var búið að gera 1:1 jafntefli við Ungverja á EM í Frakklandi.

Birna beið með súpuna heima á Kleifum. Þarna var gestrisnin allsráðandi!

Birna beið með súpuna heima á Kleifum. Þar var gestrisnin allsráðandi!

Sum föt henta einfaldlega betur en önnur að hlaupi loknu.

Sum föt henta einfaldlega betur en önnur að hlaupi loknu.

Eftirtaldir hlauparar tóku þátt í Þrístrendingi 2016:

 • Alla leið (3 fjallvegir með tilheyrandi):
  Arnór Hauksson
  Birkir Þór Stefánsson
  Hlynur Skagfjörð Pálsson
  Stefán Gíslason
 • Einn fjallvegur (Steinadalsheiði):
  Magnús Steingrímsson
  Sigþór Ási Þórðarson
  Erlendur Breiðfjörð Magnússon (á hjóli)
  Marta Sigvaldadóttir (á hjóli)
  Sigríður Drífa Þórólfsdóttir (á hjóli)
 • Einn fjallvegur (Bitruháls):
  Esther Ösp Valdimarsdóttir
  Hrafnhildur Þorsteinsdóttir
 • Styttri leið (hluti af Steinadalsheiði):
  Dofri Hermannsson