• Heimsóknir

  • 119.600 hits
 • október 2010
  S M F V F F S
   12
  3456789
  10111213141516
  17181920212223
  24252627282930
  31  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Sjálfbær hjöðnun

Hugtakið „sjálfbær hjöðnun“ (e: Sustainable de-growth) hefur heyrst nefnt annað slagið síðustu ár. Reyndar hefur þetta hugtak lítið sem ekkert verið til umræðu á Íslandi. Í öllu falli finna leitarvélar enga umfjöllun um málið á íslenskum vefsíðum. Í fljótu bragði finnst heldur ekkert sem bendir til þess að hugtakið hafi fengið íslenskt heiti. „Sjálfbær hjöðnun“ er líklega fyrsta tillagan að slíku heiti.

Hugmyndin um „sjálfbæra hjöðnun“ rifjaðist upp fyrir mörgum í sumar í kjölfar greinar sem birtist í tímaritinu Ecological Economics. Aðalhöfundur greinarinnar er Joan Martínez-Alier, prófessor við Universidad Autonoma de Barcelona, en hann virðist hafa verið leiðandi í þessari umræðu síðustu ár. Meðhöfundarnir koma frá háskólum í Bretlandi, Frakklandi og Belgíu.

Hugmyndin um „sjálfbæra hjöðnun“ felur í sér lýðræðislega og sanngjarna umbreytingu frá núverandi fyrirkomulagi til smærri hagkerfa þar sem framleiðsla og neysla er stöðug og innan þeirra marka sem auðlindir jarðar þola um ókomna tíð, þ.e.a.s. minni en við eigum að venjast. Markmiðið er að skapa samfélag sem byggist á gæðum fremur en magni og á samvinnu fremur en samkeppni.

Sjálfbær hjöðnun / Sjálfbær þróun
Áhugavert er að bera hugmyndina um „sjálfbæra hjöðnun“ saman við hugmyndina um sjálfbæra þróun. Sú síðarnefnda spratt í sinni núverandi mynd upp úr skýrslu Brundtlandnefndarinnar 1987 og festist í sessi eftir Ríóráðstefnuna 1992. Á þessum tveimur hugmyndum er sá grundvallarmunur að sjálfbær þróun felur í sér vöxt hagkerfa, en „sjálfbær hjöðnun“ gerir ráð fyrir hagkerfi án vaxtar, hvort tveggja í sátt við umhverfi og samfélag.

Í greininni í Ecological Economics velta Joan Martínez-Alier og félagar því fyrir sér hvort „sjálfbær hjöðnun“ geti leyst sjálfbæra þróun af hólmi, en svo virðist sem síðarnefnda hugtakið hafi á einhvern hátt glatað mikilvægi sínu eða tiltrú á allra síðustu árum. Meginniðurstaða félaganna er sú, að til að svo megi verða þurfi að að skilgreina hjöðnun (e: De-growth) nánar og útskýra hvað hún feli í sér í raun og veru, sérstaklega með tilliti til atvinnuþátttöku og atvinnuleysis.

Þversögnin um endalausan vöxt
Eins og fyrr segir kallar „sjálfbær hjöðnun“ á að hagkerfið sé dregið saman eða kælt, enda hljóti endalaus hagvöxtur að endingu að fela í sér félagslegt og vistfræðilegt hrun, jafnvel þótt vöxturinn sé sagður í takt við hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Órökrétt sé að eitthvað geti vaxið endalaust á hnetti sem ekki vex sjálfur. Það sé með öðrum orðum óhjákvæmilegt að draga úr auðlindanotkun, en um leið þurfi að styrkja félagsleg og vistfræðileg gildi. Hins vegar er slík hjöðnun ekki eitthvað sem hægt er að kveikja á eins og hverjum öðrum lampa, því að flestum myndi þykja breytingin óþægileg. Áður en lagt er upp í slíkt ferðalag þurfa menn líka að vera sæmilega vissir um að það komi samfélaginu á þann áfangastað sem stefnt er að. Þetta kallar m.a. á rannsóknir á því hvernig samfélögin virka í raun og veru, með sérstakri áherslu á iðnframleiðslu og almenna neyslu.

Tengsl vinnuframlags og tekna
„Sjálfbær hjöðnun“ hefur augljóslega í för með sér neikvæðan hagvöxt og minnkandi landsframleiðslu (GDP) eins og þessar stærðir eru mældar í dag. Þetta myndi að öllum líkindum leiða til aukins atvinnuleysis, nema jafnframt væri gripið til ráðstafana til að fækka vinnustundum hvers og eins, eða rjúfa með einhverjum hætti tengslin milli vinnuframlags og tekna, t.d. með grunnlífeyri fyrir alla (e: Basic income). Reyndar má líta á landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins sem viðleitni í þessa átt, þ.e.a.s. að því leyti sem opinberar greiðslur til bænda eru miðaðar við sjálfbær afnot af landi (grænar greiðslur) í stað þess að greiða fasta fjárhæð fyrir hverja framleiðslueiningu.

Gegn ráðandi hagsmunum!
Einn augljósasti hindrunin í vegi hugmyndarinnar um „sjálfbæra hjöðnun“ er að hún gengur gegn hagsmunum ráðandi afla í samfélaginu. Hvorki stjórnmálaleiðtogar né framámenn í atvinnulífinu eru líklegir til að taka upp stefnu sem gerir ekki ráð fyrir neinum vexti í hagkerfinu, jafnvel þótt framfylgd slíkrar stefnu geti haft ýmsa kosti í för með sér í umhverfislegu, félagslegu og siðferðilegu tilliti. Af sömu ástæðum sitja vísindamenn sem stunda rannsóknir á þessu sviði ekki við sama borð og kollegar þeirra þegar kemur að fjárveitingum.

Aukin skilvirkni er ekki nóg
Hugmyndin um sjálfbæra þróun gengur út á að hægt verði að tryggja komandi kynslóðum viðunandi lífsgæði um ókomna tíð, samfara vexti hagkerfisins. Mörg efnileg hugtök hafa skotið upp kollinum í þessari umræðu síðustu 18 ár, en þegar grannt er skoðað er líklega ekkert þeirra til þess fallið að tryggja lífsgæði til framtíðar á sama tíma og gerð er krafa um endalausan efnahagslegan vöxt (hagvöxt), jafnvel þótt hugtökin væru þýdd yfir í raunverulegar aðgerðir. Factor-4 er dæmi um slíkt hugtak. Það gerir ráð fyrir að hægt sé að fjórfalda skilvirkni í nýtingu auðlinda, t.d. með því að framleiða tvöfalt meiri verðmæti úr helmingi minna hráefni eða orku. Þetta er gott svo langt sem það nær, en ef miðað er við 3% hagvöxt á ári tekur það samt ekki nema 47 ár að eyða öllum ávinningnum af þessari fjórföldun skilvirkninnar. Reyndar hafa menn líka talað um Factor-10 sem möguleika. Þá lengist tíminn úr 47 árum í 78 ár, en eftir þann tíma er mannkynið í sömu súpunni. Sé reiknað með minni hagvexti lengist þessi tími auðvitað, (t.d. í 71 og 117 ár miðað við 2% hagvöxt á ári), en niðurstaðan er alltaf sú sama: Hnöttur af endanlegri stærð gefur ekki möguleika á endalausum vexti. Og til að gera þetta enn verra eru ýmsar neikvæðar aukaverkanir nánast innbyggðar í núverandi kerfi. Aukin skilvirkni leiðir t.d. að öðru jöfnu til aukins kaupmáttar, t.d. þegar minni orku þarf til að skila sama verki. Sparnaðurinn er þá í mörgum tilvikum notaður í aðra neyslu, sem í versta falli eyðir strax hinum umhverfislega ávinningi af sparnaðinum. Þetta er það sem nefnt hefur verið frákastsáhrif (e: Rebound effect).

Sterk sjálfbærni
Hugmyndin um „sjálfbæra hjöðnun“ rímar vel við hugmyndir þeirra sem aðhyllast sterka sjálfbærni (e: Strong sustainability), en ekki verður farið nánar út í þá sálma hér.

Örlítið um söguna
Hægt er að rekja hugmyndina um „sjálfbæra hjöðnun“ aftur til áranna um og eftir 1970, þ.e. til tímabilsins þegar Rómarklúbburinn var stofnaður og Meadows og félagar gáfu út bókina um Endimörk vaxtarins. Árið 1979 kom út bókin Demain la Décroissance (Hjöðnun á morgun) með samansafni af skrifum Nicholas Georgescu-Roegen. Þar má segja að hugtakið hafi komist á blað, þó að sjálfbærni hafi svo sem ekki verið nefnd í sömu andránni og hjöðnun.

Refhvörf ???
Nicholas Georgescu-Roegen benti á það strax eftir að Brundtlandskýrslan kom út 1987, að sjálfbær vöxtur væri í raun refhvörf (e: Oxymoron), þ.e.a.s. að orðin „sjálfbær“ annars vegar og „vöxtur“ hins vegar hefðu í eðli sínu gagnstæðar merkingar. Hann sagðist þar af leiðandi aðeins vera hlynntur sjálfbærri þróun ef „þróun“ væri skilgreind sem „ekki vöxtur“ (e: Non-growth).

Flótti fjárfesta
Sem fyrr segir hefur „sjálfbær hjöðnun“ ýmis vandamál í för með sér miðað við það kerfi sem við búum við í dag. Eitt vandamálið er að land þar sem komin væri á „sjálfbær hjöðnun“ gæti ekki uppfyllt væntingar fjárfesta um arðsemi. Því er hætt við að fjármagn leiti til annarra hagkerfa sem eru styttra komin á þessari braut. Reyndar gefur það þeim löndum sem enn búa við fátækt, tækifæri til að stuðla að hagvexti innanlands enn um sinn, áður en þau fylgja fordæmi hinna. Þannig njóta þeir uppbyggingarinnar sem mest þurfa á henni að halda. En áður en langt um líður yrði þó heimsbyggðin öll að vera samstíga á vegferðinni inn í „sjálfbæra hjöðnun“.

Hamingjan sanna?
Eftir stutta skoðun finnst sjálfsagt mörgum hugmyndin um „sjálfbæra hjöðnun“ dálítið ógnvekjandi. En þá má á móti spyrja hvort við höfum einhvern annan valkost. Sömuleiðis benda rannsóknir til að hagvöxtur eða landsframleiðsla annars vegar og hamingja hins vegar fylgist ekki að eftir að grunnþörfum hefur verið fullnægt. Það liggur sem sagt nokkurn veginn fyrir að það er vel hægt að lifa hamingjusömu lífi án hagvaxtar. Og hamingjusamt líf, eða lífsgæði öðru nafni, hljóta þegar allt kemur til alls að vera helsta markmið hvers manns.

Aths:
Því er við þetta að bæta að hugmyndir um hagkerfi án vaxtar voru til umræðu á svonefndri Balaton-ráðstefnu á vegum Háskóla Íslands 13.-14. september sl.

Helstu heimildir:
Joan Martínez-Alier, Unai Pascual, Franck-Dominique Vivien and Edwin Zaccai: Sustainable de-growth: Mapping the context, criticisms and future prospects of an emergent paradigm. Ecological Economics, Volume 69, Issue 9, 15. júlí 2010, (bls. 1741-1747).
Joan Martínez-Alier: Sustainable De-Growth. Fyrirlestur, París 18.-19. apríl 2008.
Simon Dresner. The Principles of Sustainability. 2. útg. Earthscan, London, 2008.
The Worldwatch Institute: State of the World 2010. Transforming Cultures. From Consumerism to Sustainability. The Worldwatch Institute, New York, 2010.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: