Ég hef oft tekið þátt í rökræðum um það hvað sjálfbærni þýði í raun og veru. Í morgun rakst ég á skemmtilega útskýringu Walters Stahel á hugtakinu. Hann útskýrir hugtakið með sögu af þremur verkamönnum sem vinna við að höggva múrstein og eru spurðir hvað þeir séu að gera. Einn segist bara vera að vinna þessa 8 tíma sem honum sé ætlað að skila þann daginn. Annar segist vera að breyta kalksteini í múrsteina. Sá þriðji segist vera að byggja dómkirkju. „Sjálfbærni er dómkirkjan sem við erum öll að byggja“, segir Walter Stahel.
Þetta er alla vega ein leið til að segja það – sem minnir mig reyndar á önnur orð, sem ég hef gjarnan notað í fyrirlestrum, þó að ég muni ekki í bili hvaðan ég tók þau að láni: „Ef maður veit ekki hvert maður ætlar er mikil hætta á að maður lendi einhvers staðar annars staðar“.
(Sjá m.a.: L. Hunter Lovins: Rethinking Production. State of the World 2008 – Innovation for a Sustainable Economy, (bls. 32-44). Worldwatch Institute, Washington, 2008).
Filed under: Sjálfbær þróun |
Færðu inn athugasemd