• Heimsóknir

  • 108.103 hits
 • júlí 2020
  S M F V F F S
   1234
  567891011
  12131415161718
  19202122232425
  262728293031  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Flöskuvatn

TyrkjavatnLíklega er sumarið tíminn þegar fólk kaupir hvað mest af flöskuvatni, þó að reyndar sé mikið keypt af flöskuvatni allan ársins hring. Ég hef ekki séð tölur um söluna hérlendis, en einhvers staðar sá ég að salan á heimsvísu væri líklega um 200 milljarðar flaskna á ári, þar af um 25% í Bandaríkjunum þar sem búa þó aðeins um 4% mannkynsins. Heildarsalan á flöskuvatni á heimsvísu nemur líklega 50-100 milljörðum dollara á ári. Þetta gætu þá verið á bilinu 6 til 12 þúsund milljarðar íslenskra króna, sem lítur út fyrir að vera alveg þokkalega há upphæð.

Það er áhugavert að velta því fyrir sér hvers vegna fólk kaupi yfirleitt vatn á flöskum, sérstaklega í löndum þar sem nóg er til af rennandi vatni sem alla jafna er litið á sem sameiginlega auðlind. Ef við lítum á þetta í íslensku samhengi, þá getur flöskuvatn vissulega verið handhægt, en það er að sama skapi alveg óþarft ef betur er að gáð. Auðvitað ræður fólk því sjálft í hvaða formi það innbyrðir vatnið sitt, en það er samt áhugavert að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að fá fólk til að kaupa vöru á allt að því 5.000 sinnum hærra verði en því býðst sama vara annars staðar. Hvað myndi okkur til dæmis finnast um það ef samloka sem við getum keypt á 500 kall myndi allt í kosta tvær og hálfa milljón. Er það ekki bara rosalega mikil verðhækkun?

Jæja, þetta er nú kannski ekki alveg svona einfalt. Til dæmis er flöskuvatn sem við kaupum úti í búð ekki alveg sama vara og kranavatnið sem við getum fengið heima hjá okkur og látið renna í sams konar flösku og við hefðum annars keypt í búðinni. Flaskan í búðinni sparar okkur til dæmis ómakið að skrúfa frá krananum, tappinn á henni er hugsanlega fastari á og innihaldið ef til vill kaldara. Já, og svo eru kannski aðeins fleiri bakteríur í henni líka, en ég kem nánar að því síðar.

Vorið 2009, nánar tiltekið þann 25. apríl, keypti ég hálfslítersflösku af tyrknesku vatni í Krónunni í Mosfellsbæ, ekki vegna þess að mig vantaði beinlínis þessa vöru, heldur vegna þess að mig langaði til að kynnast þeirri athyglisverðu viðskiptahugmynd að flytja flöskuvatn til Íslands frá Tyrklandi. Flaskan hafði reyndar millilent í Danmörku á þessu langa ferðalagi sínu. Þar hafði verið settur á hana miði með danskri áletrun, þar sem m.a kom fram að tappinn hefði verið settur á flöskuna í Izmir í Tyrklandi 29. apríl 2008. Þetta ágæta vatn átti sem sagt ársafmæli fjórum dögum eftir að ég keypti það. Mér finnst rétt að taka fram að ég drakk aldrei þetta vatn, enda trúði ég því ekki að í flöskunni væri að finna uppsprettuna að heilbrigði mínu, jafnvel þó að á danska miðanum stæði „Kilden til DIN sundhed“.

Eins og ég nefndi áðan er kranavatn augljóslega mun ódýrara en flöskuvatn. En þar með er ekki öll sagan sögð. Gæði kranavatnsins eru nefnilega víðast hvar líka meiri en gæði flöskuvatnsins. Á þessu hafa verið gerðar margar rannsóknir, sem ég hef að sjálfsögðu ekki kynnt mér nema að litlu leyti. Það sem ég hef séð bendir þó allt til þess að kranavatnið hafi vinninginn, nema þar sem vatnsból eru menguð um lengri eða skemmri tíma. Í einni rannsókninni reyndust bakteríur í flöskuvatni til dæmis vera 50 sinnum fleiri en leyft er í kranavatni.

Ef við lítum nú aðeins á umhverfisáhrif flöskuvatns, þá lítur dæmið enn verr út. Þannig er flöskuvatn að jafnaði um 1500-2000 sinnum orkufrekara en kranavatn þegar tekið hefur verið tillit til framleiðslu og flutnings umbúða. Til að framleiða einn lítra af flöskuvatni þarf að meðaltali um 3 lítra af vatni, olían sem fer í að framleiða flöskurnar myndi líklega duga til að knýja milljón bíla í heilt ár, og svo falla til kynstrin öll af tómum plastflöskum. Hérlendis fer sem betur fer stór hluti þeirra í endurvinnslu, en eitthvað er samt urðað og einhverju er kastað á glæ á víðavangi þar sem það síðan velkist um aldir. Plastflöskur brotna mjög seint niður í náttúrunni og ég hef jafnvel séð því haldið fram að allt að helmingur plastruslsins í hafinu séu plastflöskur, þ.á.m. undan vatni.

Haustið 2009 var efnt til sérstaks átaks í bænum Farum í Danmörku til að vekja athygli á því að kranavatn væri í flestum tilvikum hreinna, heilnæmara, ódýrara og umhverfisvænna en vatn sem keypt er á flöskum. Átakið fólst í því að þáverandi umhverfisráðherra og einn af forsvarsmönnum sveitarfélagsins stóðu á aðaltorgi bæjarins og gáfu vegfarendum 2.300 karöflur undir kranavatn. Á karöflurnar voru grafin kjörorð átaksins, nefnilega „Skift vane – drik vand fra hane“, eða „Droppaðu vananum – drekktu úr krananum“ eins og kjörorðin hljóma í afar lauslegri íslenskri þýðingu. Karöflurnar áttu að auðvelda fólki ódýra og umhverfisvæna vatnsneyslu á heimilunum, því að þær hentuðu einkar vel til geymslu á kranavatni í ísskápum.

Allt það sem hér hefur verið sagt gildir í aðalatriðum líka um vatn úr svokölluðum vatnsvélum sem víða eru í notkun á vinnustöðum. Eflaust er gæðum drykkjarvatns á vinnustöðum víða áfátt, en líklega væri því fjármagni sem fer í kaup á vatni betur varið í endurbætur á vatnslögnum.

Margir kannast við heimildarmyndir Annie Leonard undir yfirskriftinni „Story of Stuff“ – eða saga af dóti. Ein þessara mynda fjallar einmitt um flöskuvatn, það er að segja myndin „Story of bottled water“. Ástæða er til að hvetja þá sem hafa áhuga á umhverfismálum að kynna sér þessar myndir, en þetta eru stuttar teiknimyndir á einfaldri ensku. Hægt er að nálgast þær á síðunni www.storyofstuff.com.

Svona að lokum er rétt að taka fram að ég hef ekki í hyggju að banna fólki að kaupa flöskuvatn, enda hef ég ekki umboð til þess. Þegar þessi mál eru skoðuð er líka mikilvægt að íhuga hvað væri drukkið í staðinn. Ef fólk velur flöskuvatn í stað sætra gosdrykkja, þá er það náttúrulega hið besta mál, bæði fyrir heilsuna og umhverfið. Standi valið hins vegar á milli flöskuvatns og kranavatns, þá hefur kranavatnið næstum alltaf vinninginn, hvort sem litið er á málið í fjárhagslegu, umhverfislegu eða heilsufarslegu samhengi. Lykilatriðið í þessu máli, rétt eins og í flestum öðrum málum er:

Gagnrýnin hugsun!

Takið svo endilega tómar flöskur með ykkur í sumarfríið og fyllið þær af fersku vatni í þar til gerðum krönum eða í frískum fjallalækjum, frekar en að borga fullt af peningum fyrir innpakkaða skammta af þessari sameiginlegu auðlind.

(Þessi pistill er samhljóða pistli sem fluttur var í útvarpsþættinum Sjónmál á Rás 1 mánudaginn 1. júlí 2013).

100% náttúrulegur grænþvottur

100% náttúrulegtÁ leið heim úr vinnunni í gær kom ég við í matvöruverslun til að kaupa rúsínur og fleira góðgæti til heimilisins. Þar sá ég hvar allsendis óvottuðum rúsínum frá fyrirtækinu Heilsa ehf. hafði verið stillt upp innan um lífrænt vottaðar rúsínur og aðrar slíkar vörur í hillu, sem mér hefur skilist að sé sérstaklega ætluð lífrænt vottuðum vörum og e.t.v. heilsuvörum. Umræddur rúsínupoki var kyrfilega merktur með áletruninni „100% náttúrulegt“, en á pokanum var hins vegar engin önnur áletrun sem staðfesti þessa yfirlýsingu um innihaldið. Þetta er dæmi um það sem kallað er „grænþvottur“ (e. greenwash). Ég hef svo sem séð þessar rúsínur þarna áður, en bara ekki komið því í verk að blogga um þær.

Verslunin sem í hlut á er Nettó í Borgarnesi. Þar er jafnan gott úrval af lífrænt vottuðum vörum, sérstaklega í fyrrnefndri hillu. Þangað ven ég komur mínar tíðum. Ég er nokkuð viss um að þessi staðsetning óvottaða rúsínupokans var ekki til þess ætluð að villa um fyrir kaupandanum, heldur finnst mér líklegra að starfsfólk verslunarinnar hafi ekki áttað sig á tómarúminu á bak við orðin „100% náttúrulegt“ og því sett pokann þarna í þeirri góðu trú að hann væri vel að þessari staðsetningu kominn. Réttara hefði verið að setja hann í hilluna þar sem öllum hinum rúsínunum sem ekki eru lífrænt vottaðar er stillt upp. Þrjár slíkar tegundir fengust í Nettó í gær.

Orðin „100% náttúrulegt“ þýða í stuttu máli ekki neitt, eða þá bara hvað sem er, eftir því hvernig hver og einn kýs að skilja þau. Engin samræmd skilgreining er til á þessum orðum, og því geta framleiðendur notað þau að vild án þess að vera beinleinis að ljúga að einum né neinum. Hins vegar gefur þessi áletrun óneitanlega til kynna að varan sé á einhvern hátt náttúrulegri en önnur vara til sömu nota. Í því felst grænþvotturinn í þessu tilviki, þ.e.a.s. í því að nota áletrun sem villir um fyrir neytendum og fær þá til að ofmeta umhverfislegt ágæti vörunnar. Ég hef áður skrifað sitthvað um grænþvott, m.a. í all ítarlegri bloggfærslu frá 5. nóvember 2011, þar sem ég reyndi að útskýra fyrirbærið. Grænþvegnu rúsínurnar myndu flokkast þar sem „Grænþvottasynd nr. 3:  Óræð skilaboð (e. Sin of Vagueness)“, en sú synd er drýgð með því að nota orð eða hugtök sem hafa svo óljósa eða breiða merkingu að auðvelt sé að misskilja þau eða oftúlka.

Skilaboð dagsins eru þessi: Yfirlýsingar framleiðenda eða seljenda vöru um umhverfislegt ágæti vörunnar eru lítils virði nema þær séu staðfestar af óháðum aðila. Það er ekki bannað að segja að einhver vara sé „100% náttúruleg“, en þau orð hafa nákvæmlega enga þýðingu. Þau eru í besta falli sett fram í hugsunarleysi, en í versta falli vísvitandi til að blekkja neytendur. Verslanir sem láta glepjast af slíkum yfirlýsingum auka enn á áhrif „syndarinnar“.

Þessum rúsínupakka tókst að villa á sér heimildir og stilla sér upp á milli tveggja pakka af lífrænt vottuðum rúsínum.

Þessum rúsínupakka tókst að villa á sér heimildir og stilla sér upp á milli tveggja pakka af lífrænt vottuðum rúsínum.

Hillan góða í Nettó. Mæli með henni, en mæli líka með gagnrýnu hugarfari.

Hillan góða í Nettó. Mæli með henni, en mæli líka með gagnrýnu hugarfari.

Hvernig verður ál til?

AlverkSíðustu daga hefur álframleiðslu stöku sinnum borið á góma í fjölmiðlum. Þar hefur meðal annars verið sagt frá þeirri ákvörðun matsfyrirtækisins Moody’s að færa lánshæfiseinkunn Alcoa niður í ruslflokk og vilja stjórnvalda til að stuðla með auknum krafti að uppbyggingu álvers í Helguvík. Þetta gefur tilefni til að rifja upp nokkur grunnatriði varðandi framleiðslu á áli og helstu umhverfisþætti sem þar koma við sögu.

Byrjar í báxíti
Álframleiðslan sem stunduð er í álverum á Íslandi, þ.e.a.s. í Straumsvík, á Grundartanga og á Reyðarfirði, er bara hluti af lengra ferli. Allt byrjar þetta í báxítnámum einhvers staðar úti í heimi, t.d. í Ástralíu þar sem stærstu báxítnámurnar er að finna. Báxít er málmgrýti sem inniheldur mikið af áli og álframleiðslan snýst einfaldlega um að ná álinu úr berginu, þannig að hægt sé að breyta því í nýtilega hluti á borð við vélarhluta, bjórdósur, álpappír eða kertabotna, svo fátt eitt sé nefnt.

Heitt vítissódabað
Svo við förum nú fljótt yfir sögu, þá er fyrsta stóra skrefið í álframleiðslunni fólgið í því að leysa malað báxít upp í allt að því 280 stiga heitri vítissódalausn. Í framhaldinu er svo hluti af því sem út úr þessu kemur hitaður enn meira, eða upp í u.þ.b. 1.000 gráður. Út úr öllu þessu ferli kemur aðallega tvennt, það er að segja annars vegar fíngert hvítt duft, þ.e.a.s. súrál eða öðru nafni áltríoxíð – og hins vegar þykk rauð leðja, sem inniheldur m.a. vítissóda og ýmis önnur efni sem leystust úr báxítinu í vítissódabaðinu. Reyndar koma fleiri efni þarna við sögu, hvort sem við lítum á það sem fer inn í ferlið eða það sem kemur út úr því, en magn þeirra er hverfandi í hlutfalli við hin, þannig að við tökum þau bara út fyrir sviga í þessari einföldu samantekt.

Rauða leðjan
Rauða leðjan er helsta umhverfisvandamálið sem fylgir báxítvinnslunni, ef frá eru talin vandamál sem tengjast landnotkun á námusvæðunum. Leðjan inniheldur vítissóda og sitthvað fleira eins og áður var nefnt og er alla jafna til einskis gagns. Fræðilega séð er reyndar hægt að þurrka hana og nýta í vegfyllingar eða jafnvel í flísaframleiðslu, en oftast er henni þó safnað í lekaþéttar þrær til varanlegrar geymslu. Ef þessar þrær eru ekki nægjanlega sterkbyggðar getur farið illa. Þannig muna sjálfsagt margir eftir mengunarslysi sem varð í Ajka í Ungverjalandi í október 2010, en þar brast einmitt veggur í svona leðjuþró, með þeim afleiðingum að u.þ.b. milljón rúmmetrar af leðjunni sluppu út og flæddu yfir u.þ.b. 40 ferkílómetra landssvæði, þar með talið yfir bæina Kolontár og Devecser. Í þessu slysi dóu 10 manns og eitthvað á annað hundrað slasaðist. Og þremur dögum eftir slysið var eitthvað af leðjunni komið út í Dóná.

Úr súráli í ál
Að meðaltali má gera ráð fyrir að eitt tonn af báxíti gefi af sér hálft tonn af súráli og hálft tonn af rauðri leðju. Þetta getur þó verið talsvert breytilegt eftir gæðum báxítsins. Hvað sem verður svo um leðjuna, þá er súrálið flutt til vinnslu í álveri, oftar en ekki um langan veg á stað þar sem hægt er að tryggja öruggan aðgang að ódýrri raforku. Í álverinu fer síðari meginhluti álframleiðslunnar fram, þ.e.a.s. vinnsla á hreinu áli úr súráli. Þessi framleiðsla er mjög orkufrek enda fer mikill hluti hennar fram við hátt hitastig, nánar tiltekið með rafgreiningu í u.þ.b. 960 stiga heitri kríólítlausn. Þessi mikla orkuþörf er einmitt ástæða þess að álver hafa verið reist hérlendis.

Eitt tonn af báxíti orðið að 250 kg af áli
Ef við höldum okkur við þetta eina tonn af báxíti sem ég nefndi til sögunnar áðan, þá er það sem sagt orðið að u.þ.b. hálfu tonni af súráli, en hitt hálfa tonnið, þ.e.a.s. rauða leðjan er úr sögunni í bili. Úr þessu hálfa tonni af súráli er hægt að framleiða u.þ.b. fjórðung úr tonni af hreinu áli. Til þess þarf reyndar sitthvað fleira, svo sem rafskaut sem gefa frá sér kolefni sem er nauðsynlegt í vinnsluna. Þess vegna losa álver líka talsvert af koltvísýringi út í andrúmsloftið, jafnvel þótt þau gangi fyrir kolefnishlutlausu rafmagni.

Efna- og orkunotkun pr. tonn
Áðan talaði ég um 1 tonn af báxíti, sem að endanum verður að fjórðungi úr tonni af áli. Ef við skoðum reikningsdæmið hins vegar út frá lokaafurðinni, þ.e.a.s. álinu, þá lítur það nokkurn veginn svona út:

Til að framleiða 1 tonn af áli þarf um það bil

 • 4 tonn af báxíti,
 • 100 kg af 50% vítissóda,
 • 400 kg af kolefni
 • og 15.000 kwst af raforku.

Auk þess þarf meðal annars

 • 100 kg af kalki,
 • 20 kg af álflúoríði
 • og hátt í 10.000 lítra af vatni, svo eitthvað sé nefnt.

Við þetta verða til m.a. um það bil

 • 2 tonn af rauðri leðju,
 • 1,5 tonn af koltvísýringi,
 • og dálítið af flúoríði, brennisteinsoxíði, ryki o.fl. sem sleppur að einhverju leyti út í andrúmsloftið frá hreinsivirkjum álveranna.

(Rétt er að taka fram að allt eru þetta meðaltalstölur með allt að því 50% skekkjumörk).

Endurvinnsla borgar sig – (en þarf ekki ódýra orku)!
Áður en við segjum skilið við þessa einfölduðu yfirferð yfir álframleiðsluna er ekki úr vegi að bera frumframleiðslu á áli saman við endurvinnslu. Það vill nefnilega svo vel til að fræðilega séð er hægt að endurvinna ál óendanlega oft án þess að gæðin rýrni. Þegar nýtt ál er búið til úr álúrgangi þarf ekkert báxít og engan vítissóda. Og í þokkabót myndast engin rauð leðja og raforkunotkunin er bara 5% af því sem þarf til að frumvinna sama magn af áli. Orkusparnaðurinn í endurvinnslunni er sem sagt hvorki meira né minna en 95% miðað við frumvinnslu, og endurunna álið er alveg nákvæmlega eins og hitt. Endurvinnsla á áli er hins vegar ekki stunduð á Íslandi, enda skiptir ódýr raforka litlu máli í þeirri grein.

Langar einhvern að spara 95%?
Báxítvinnsla og álframleiðsla snerta venjulegan Íslending ekki sérlega mikið, enda er aðeins hluti af þessu ferli sjáanlegur hérlendis. Þessi sami venjulegi Íslendingur getur hins vegar lagt sitt af mörkum til að spara þær auðlindir sem þarf til að framleiða ál. Einfaldasta leiðin til þess er að skila öllum álúrgangi í endurvinnslu, þar með töldum smáhlutum á borð við álpappír og kertabotna, svo ekki sé nú minnst á bjórdósirnar. Reyndar er til nóg af báxíti í heiminum, en manni bjóðast sjaldan tækifæri til 95% sparnaðar eins og raunin er þegar ál er endurunnið. Margur drífur sig á útsölu fyrir minni afslátt en það.

(Þessi pistill er nær samhljóða pistli sem fluttur var í útvarpsþættinum Sjónmál á Rás 1 þriðjudaginn 4. júní 2013).

Lífræn hænsni og ónotuð atvinnutækifæri

13 002 160Í dag urðu ákveðin þáttaskil í lífi mínu sem neytanda, því að í dag keypti ég í fyrsta sinn kjöt af erlendu dýri þrátt fyrir að ég ætti þess kost að kaupa kjöt af íslensku dýri sömu tegundar. Ég fór sem sagt í Lifandi markað og keypti lífrænt vottaðan kjúkling frá Danmörku.

Nú kann einhver að spyrja hvers vegna ég hafi keypt lífrænt vottaðan kjúkling frá Danmörku þegar nóg var til af íslenskum kjúklingi. Þetta gerði ég vegna þess að ég vildi frekar kaupa kjúkling sem alinn var með lífrænum hætti en íslenskan kjúkling úr þauleldi. Í framhaldi af því kann einhver að spyrja hvers vegna ég vildi lífræna kjúklinginn frekar. Þeirri spurningu gæti ég svarað í löngu máli, en það svar skiptir svo sem engu máli á þessu stigi málsins.

Aðalatriðið í málinu er þetta: Ég og margir fleiri vilja stundum frekar kaupa lífrænt vottaðar vörur en einhverjar aðrar vörur. Íslendingar framleiða mikið af góðum lífrænt vottuðum vörum, en sú framleiðsla dugar hvergi nærri til að mæta eftirspurninni, jafnvel þótt um sé að ræða vörur sem auðveldlega mætti framleiða hérlendis. Kjúklingur er dæmi um slíka vöru. Með öðrum orðum er eftirspurnin eftir lífrænt vottuðum matvörum meiri en framboðið – og fer vaxandi. Þetta þýðir að ný störf verða til við að mæta þessari eftirspurn. Það er hins vegar undir íslenskum framleiðendum og íslenskum stjórnvöldum komið hvort þessi störf verða til á Íslandi eða í útlöndum.

(PS: Áletrunin á kjúklingnum sem ég keypti í dag gefur svolitla hugmynd um það hvernig lífrænt vottaður kjúklingur er frábrugðinn öðrum kjúklingum. Lífrænt vottaði kjúklingurinn var sem sagt alinn í samræmi við gildandi reglur um lífræna framleiðslu, sem þýðir m.a. að meðan hann lifði hafði hann frjálst aðgengi að fóðri og vatni, svo og möguleika á að spóka sig utandyra, baða sig í ryki og róta í moldinni, (sjá myndina hér að neðan). Þar að auki uppfyllti fóðrið hans ákveðin skilyrði og innihélt m.a. engin erfðabreytt efni, hann fékk líklega engin lyf – og svo mætti lengur telja).

13 008 crweb

Fjórðapartstunnur í allar búðir!

Í bloggpistli sem ég skrifaði um síðustu helgi kom fram – og var haft eftir Matvett í Noregi – að u.þ.b. fjórði hver innkaupapoki sem kemur heim úr matvörubúðinni fari beint í ruslið. Ég hef verið mjög hugsi yfir þessu síðan, en nú tel ég mig loksins vera kominn með lausn á málinu. Það þarf einfaldlega að koma upp fjórðapartstunnum í öllum matvöruverslunum ekki seinna en strax.

Það fylgir því augljóslega gríðarlegt umstang og erfiði að bera heim innkaupapoka fullan af matvörum, til þess eins að henda honum þegar heim er komið. Þetta á sérstaklega við um fólk eins og mig sem fer stundum gangandi í búðina og dröslast svo með allan varninginn heim á tveimur jafnfljótum. Og hugsið ykkur allt erfiðið og óþörfu ferðirnar upp og niður stiga og út að ruslatunnu í misjöfnum vetrarveðrum, allt til þess að losa sig við þennan fjórðapart af innkaupunum. Þetta er kannski engin ofraun einstaka sinnum, en þegar málið er skoðað á ársgrundvelli er augljóst hversu gríðarlegt álag fylgir þessum fjórða innkaupapoka, sem hvort sem er verður hent!

Af framanskráðu er augljóst hversu mikið hagsmunamál það er fyrir neytendur að settar verði upp fjórðapartstunnur í öllum búðum, helst við hliðina á búðarkössunum, þar sem fólk getur strax hent fjórða hverjum poka og haldið svo hamingjusamt heim með þá þrjá fjórðuparta af matnum sem ætlunin er að nota aðeins lengur. Það er eiginlega furðulegt að enginn skuli hafa sinnt þessu brýna hagsmunamáli fyrr. Verst að ég er hættur í stjórn Neytendasamtakanna. Annars hefði ég örugglega reynt að fá þau til að beita sér í þessu.

Krafan er skýr: Fjórðapartstunnur í allar búðir!

(Þess má geta í lokin að fjórðapartstunnan er ekki að öllu leyti ný hugmynd, þó að hana sé enn sem komið er ekki að finna í íslenskum verslunum. Ég fékk t.d. einu sinni ágæta kynningu á svipaðri hugmynd í Noregi, eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi).

Leiðir til að draga úr sóun matvæla

Flokkun úrgangs er afskaplega mikilvæg. En það er samt enn mikilvægara að koma í veg fyrir að úrgangur myndist, enda líklegt að fyrir hvert kíló sem fer í ruslið fari nokkur kíló til spillis einhvers staðar annars staðar við framleiðslu á viðkomandi vöru. Hvert kíló sem fer ekki í ruslið hefur því meira vægi en flesta grunar. Kíló er ekki bara kíló.

Tölum um mat
En hvernig kemur maður í veg fyrir að úrgangur myndist? Til þess eru ýmsar aðferðir, allt eftir því hvaða varningur á í hlut. Í þessum pistli verður eingöngu rætt um matvæli, en þar er sóunin líklega einna mest. Það er jafnvel talið að um helmingur allra matvæla sem framleidd eru í heiminum fari óétin í ruslið! Ef hægt væri að nýta þetta allt og dreifa því með sanngjörnum hætti um heiminn, þá hefðu allir nóg að borða!

Sóun á írskum veitingastöðum
Víða á Vesturlöndum hafa sprottið upp grasrótarsamtök og verkefni sem hafa það að markmiði að draga úr sóun matvæla. Frá einu slíku verkefni var sagt á umhverfisfróðleikssíðunni 2020.is 19. október sl. Þar var reyndar ekki beinlínis um grasrótarverkefni að ræða, því að kveikjan að því voru lög sem tóku gildi á Írlandi fyrir tveimur árum og gera veitingastöðum skylt að skilja matarúrgang frá öðrum úrgangi. Reyndar var engin vanþörf á að fara ofan í saumana á þessu, því að á hverju ári er matvælum að verðmæti um 125 milljónir sterlingspunda (um 25 milljarðar ísl. kr) hent á írskum veitingastöðum!

Lagasetningin varð til þess að eigendur veitingastaðanna lögðust í greiningar á því hvar í ferlinu úrgangurinn myndast. Í ljós kom að stærstur hluti úrgangsins, um 65%, voru matarleifar af diskum gesta!

Auðveld leið til að minnka matarleifar á diskum er að minnka skammtana. En þá kemur annað vandamál í ljós. Gestir á veitingahúsum í þessum heimshluta virðast nefnilega einhvern veginn hafa fengið þá flugu í höfuðið að það sé hallærislegt að fá litla skammta sem maður getur klárað. Þá fái maður ekki nógu mikið fyrir peninginn. En væri ekki betra að borga aðeins minna og fá bara það sem mann langar til að borða? Þá myndu allir græða; gesturinn, veitingahúsið og umhverfið!

Goðsögnin um síðasta söludag
Ein auðveldasta leiðin til að draga úr sóun matvæla heima hjá sér er að hætta að trúa því að vörur sem eru komnar fram yfir síðasta söludag séu óhæfar til neyslu. Þær eru þvert á móti yfirleitt alveg jafngóðar og þær voru daginn áður, enda síðasti söludagur alls ekki það sama og síðasti neysludagur. Einhvern tímann bloggaði ég um þetta, en eftirfarandi tafla gefur líka hugmynd um málið. Minnir að hún sé upphaflega byggð á norskum heimildum.

Tegund matvæla Endingartími eftir síðasta söludag
Hunang Nokkrar aldir
Niðursuðuvörur/þurrvörur Nokkur ár
Egg Nokkrir mánuðir
Jógúrt o.fl. Vika eða meira
Mjólk Nokkrir dagar

Matvett.no
Norska vefsíðan Matvett er dæmi um eitt þeirra fjölmörgu verkefna sem nú eru í gangi í kringum okkur og miða að því að draga úr sóun matvæla. Þar kemur fram að sóun matvæla sé hvergi meiri en á heimilum, og að u.þ.b. fjórði hver innkaupapoki sem kemur heim úr matvörubúðinni fari beint í ruslið. Um leið er þá væntanlega verið að henda u.þ.b. fjórðu hverrri krónu sem varið er til matarinnkaupa. Ætli það sé ekki svona 25 þúsund kall á mánuði á venjulegu íslensku heimili? Og til að geta keypt sér mat fyrir 25 þúsund kall þarf að vinna sér inn 40 þúsund kall ef miðað er við að tæp 40% af kaupinu fari beint í skatta. Og ef tímakaupið er 1.500 krónur, þá þurfa fyrirvinnurnar á heimilinu að vinna 27 klst. á mánuði aukalega, bara til að borga fyrir matinn sem hent er!

Er þetta ekki bara vitleysa?
Sjálfsagt telja margir sig nýta matinn miklu betur en hér er sagt. Rannsóknir benda líka til að fólk telji sig henda miklu minni mat en það gerir í raun. Eitt af góðu ráðunum á Matvett.no er að vigta allan þann mat sem fer í ruslið til að átta sig betur á raunverulegu umfangi vandans.

Að elska mat og hata úrgang
Breska síðan Love Food Hate Waste er annað gott dæmi um framtak sem stuðlar að aukinni meðvitund fólks um þá gríðarlegu sóun matvæla sem flest okkar taka virkan þátt í.

Ungt hugsandi fólk!
En við sitjum ekki öll í sömu súpunni. Fyrir tveimur árum hitti ég unga ruslara, þ.e.a.s. fólk sem kaupir aldrei í matinn, heldur hirðir fyrirtaks matvæli úr ruslinu. Þetta unga fólk var ekki drifið áfram af fátækt, heldur var það bara að nýta sér tækifæri sem liggja í fáránleikanum – og kannski að mótmæla fáránleikanum svolítið í leiðinni. Peningunum sem losnuðu við þetta gat það svo skipt fyrir önnur lífsgæði, eða þá að það sleppti því bara að vinna þessa 27 tíma á mánuði, eða hvað það nú var, og notaði þann tíma til að njóta lífsins.

Ekki bara kíló
Og gleymum því ekki, að fyrir hvert kíló sem fer til spillis heima hjá okkur liggja líklega mörg kíló dauð eftir einhvers staðar annars staðar. Kíló er ekki bara kíló!

(Þessi fimmtudagspistill er skrifaður í tilefni Nýtnivikunnar (European Week for Waste Reduction (EWWR) sem nú stendur yfir).

Að henda tímanum sínum

Við eignumst alls konar hluti um dagana, sem er merkilegt vegna þess að þegar við fæðumst eigum við ekki neitt, í það minnsta ekki peninga. Og allir þessir alls konar hlutir kosta peninga. En þegar betur er að gáð fæðumst við ekki eins allslaus og okkur hættir til að halda. Þegar við fæðumst eigum við nefnilega tíma. Tíminn er eini gjaldmiðillinn okkar í lífinu, eins konar spilapeningar sem við fáum afhenta á byrjunareit þessa mikla spils. Þessa spilapeninga getum við ekki talið. Við vitum sem sagt aldrei hvað er mikið eftir af þeim. En flest okkar fá heilan helling af þessum dýrmæta gjaldmiðli í vöggugjöf, sjálfsagt ein 80 ár að meðaltali.

Tímanum sem við fengum úthlutað við fæðingu getum við skipt út fyrir næstum hvað sem er, þ.á.m. fyrir peninga, sem við getum svo aftur skipt út fyrir alls konar hluti. Þess vegna er bæði hollt og rökrétt að meta verðmæti hluta í klukkustundum frekar en krónum.

Kannski keypti ég mér farsíma fyrir þremur árum á 30 þúsund krónur. Kannski er hann enn í góðu lagi, en samt úreltur af því að vinir mínir eru allir búnir að kaupa sér nýrri og fullkomnari farsíma með „spennandi nýtingarmöguleikum“. Peningalega er síminn minn einskis virði, ég get ekki selt hann, þrjátíuþúsundkallinn sem ég keypti hann fyrir er orðinn að engu. Og fyrst síminn minn er einskis virði get ég kannski bara lagt honum og keypt mér nýjan eins og vinirnir.

Þrjátíuþúsundkallinn er afskrifaður. Þegar grannt er skoðað var þessi þrjátíuþúsundkall heldur ekki hið raunverulega verð sem ég galt fyrir símann. Hann var bara ávísun sem ég fékk í skiptum fyrir 20 klukkustundir af tímaskammtinum sem ég fékk í vöggugjöf, þ.e.a.s. ef ég gef mér að ég hafi unnið mér inn 1500 krónur á tímann eftir skatta. Þessar stundir get ég ekki endurheimt. En ég á val um það hvort ég vilji láta aðrar 20 klukkustundir, já eða kannski 40, af vöggugjöfinni fyrir nýjan síma, eða hvort ég vilji nota þann tíma í annað. Og þegar og ef ég horfi á eftir gamla símanum mínum í ruslið (sem má náttúrulega ekki) eða í endurvinnslukerið fyrir rafeindatækjaúrgang, þá er mér hollt að hafa í huga að þarna liggur hálf vika frá því í október 2009.

Hugsum áður en við hendum – tímanum okkar. Sóun efnislegra gæða fækkar gæðastundunum í lífinu.

(Þessi föstudagspistill er skrifaður í tilefni Nýtnivikunnar (European Week for Waste Reduction (EWWR) sem byrjar á morgun – og með vísan í eina af uppáhaldsbókunum mínum, Tio tankar om tid eftir Bodil Jönsson).

Veldur Voltaren hundaæði?

Þessi mynd felur í sér fyrstu vísbendingu um svar við gátu dagsins.

Hvað eftir annað hafa mönnum orðið á þau mistök að ætla að „lagfæra“ eitthvað í náttúrunni með einföldu inngripi, t.d. með því að dreifa einhverju tilteknu efni með vel þekkta virkni, flytja inn plöntur til skrauts eða uppgræðslu, sleppa dýrum sem koma í veg fyrir óhóflega fjölgun annarra dýra o.s.frv. Oftar en ekki hefur komið í ljós að þegar fram í sækir hafa inngripin allt önnur og mun víðtækari áhrif en þeim var upphaflega ætlað. Í hvert sinn sem slíkt gerist gefst tilefni til að rifja upp orð sem indíánahöfðinginn Sea The á að hafa látið falla 1854: „Maðurinn óf ekki vef lífsins, hann er aðeins þráður í honum. Hvað sem maðurinn gerir vefnum gerir hann sjálfum sér“.

Eitt af fjölmörgum dæmum um óvænta atburðarás í náttúrunni í kjölfar vanhugsðara aðgerða mannsins birtist í sunnanverðri Asíu um miðjan síðasta áratug. Þar voru menn farnir að nota bólgueyðandi lyfið Diclofenac (virka efnið í Voltaren) í allmiklum mæli fyrir húsdýrin sín. Þetta setti í gang ófyrirséða atburðarás, sem m.a. leiddi til fjölgunar hundaæðistilfella á Indlandi.

Af þessu tilefni er eftirfarandi vistfræðigáta hér með lögð fyrir lesendur þessarar bloggsíðu: Hvernig gat aukin notkun á Diclofenac fyrir húsdýr leitt til fjölgunar hundaæðistilfella? Þeir sem vilja geta skrifað tillögur að svari í athugasemdakerfið hér á síðunni.

Fyrstu vísbendingu um svarið við framangreindri spurningu er að finna í færslu dagsins í dag á umhverfisfróðleikssíðunni www.2020.is. Þar er lýsing á fyrsta stigi atburðarásarinnar. Svo er bara að geta í eyðurnar!

(Til að taka af öll tvímæli, þá veldur Voltaren ekki hundaæði sem slíkt, þó að það geti leitt til fjölgunar tilfella).

Svarthvítt frumvarp um búfjárbeit

Í dag var dreift á Alþingi frumvarpi til laga um búfjárbeit. Flutningsmenn eru þingmennirnir Mörður Árnason og Birgitta Jónsdóttir. Markmið frumvarpsins er að „efla landvernd og sjálfbæra búfjárbeit“ og til þess að ná því markmiði skal búfé „aðeins beitt innan girðingar“. Gert er ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. janúar 2023.

Neikvæðar aukaverkanir
Fáum blandast hugur um mikilvægi þess að „efla landvernd og sjálfbæra búfjárbeit“. Hins vegar er hætt við að sú aðferð sem lögð er til í frumvarpinu stuðli síður en svo að „sjálfbærri búfjárbeit“. Í þessu sambandi er óhjákvæmilegt að taka tillit til ólíkrar stöðu landshlutanna. Þannig myndi algjört lausagöngubann líklega leiða til þess að sauðfjárrækt legðist að mestu leyti af á Vestfjörðum, víða á Austurlandi og á fleiri svæðum þar sem sauðfé er einmitt beitt í mestri sátt við náttúruna og þar sem sauðfjárrækt vegur þyngst í atvinnusköpun og viðhaldi byggðar. Um leið myndi sú kjötframleiðsla sem eftir væri færast nær því að vera verksmiðjubúskapur með öllum þeim neikvæðu aukaverkunum sem honum fylgja, svo sem aukinni áburðarnotkun og hækkandi hlutfalli korns í fóðri á kostnað gróffóðurs.

Vestfirðir sem dæmi
Tökum Vestfirði sem dæmi. Þar er byggð mjög dreifð og gróður- og jarðvegseyðing í lágmarki, ef nokkur. Búin er flest lítil og rúmt í högum, enda hefur bæði jörðum og sauðfé fækkað til muna á síðustu árum og áratugum. Ræktunarland er víðast af skornum skammti og því byggir afkoma búanna á skynsamlegri nýtingu þess mikla beitilands sem til staðar er. Þetta beitiland tilheyrir í mörgum tilvikum öðrum jörðum, sem komnar eru í eyði. Nýting þeirra kallar á gott samkomulag bænda og annarra jarðeigenda, en það er út af fyrir sig annað mál. Aðalmálið er að landrými á svæðinu er yfirdrifið þegar á heildina er litið og fátt sem bendir til að það sé ofnýtt. Þrátt fyrir að þarna fáist hvað mestar afurðir eftir hvern grip eiga búin mjög erfitt með að mæta auknum rekstrarkostnaði, smæðar sinnar vegna. Ófrávíkjanlegar lagakröfur um uppsetningu girðinga útiloka líklega áframhaldandi rekstur margra þeirra.

Lækningin verri en sjúkdómurinn?
Sá fjárhagslegi baggi sem krafan um girðingar myndi binda vestfirskum búum og öðrum búum af svipuðu tagi, er aðeins hluti ástæðunnar fyrir því að „sjálfbærasta búfjárbeitin“ myndi líklega leggjast af að mestu. Þau bú sem hefðu fjárhagslega burði til að setja upp girðingar myndu óhjákvæmilega nýta mun minna land til beitar eftir breytinguna, sem þýðir einfaldlega að gengið yrði nær þeim hluta landsins en áður. Hér þarf einnig að taka umhverfisleg áhrif girðinganna sjálfra með í reikninginn. Sums staðar hagar reyndar þannig til að uppsetning girðinga er óframkvæmanleg, en annars staðar yrði gróðureyðing og landrask vegna framkvæmdanna sjálfra vafalítið langt umfram það sem sjálf beitin getur valdið. Þetta á í það minnsta við þar sem rásir eru ristar í ósnortið land til að búa til gott undirlag fyrir girðingar, eins og nú má víða sjá í sveitum landsins.

Svolítill útúrdúr
Reyndar er hægt að hugsa sér einfalda lausn hvað Vestfirði varðar. Þetta er bara spurning um þann skilning sem lagður er í orðin „innan girðingar“. Það vill nefnilega svo vel til að Vestfirðir eru lokaðir frá öðrum landshlutum með varnargirðingu milli Gilsfjarðar og Bitrufjarðar. Kannski er þá hægt að líta á að öllu búfé á Vestfjörðum sé beitt „innan“ þeirrar girðingar. Ég geri þó frekar ráð fyrir að þessi skilningur þyki fela i í sér útúrsnúning á orðum frumvarpsins.

111. meðferð á landi og búfé!
Sums staðar á landinu eru svæði þar sem varla er eftir stingandi strá, en þar sem búfé er engu að síður beitt. Sjálfur hef ég t.d. bæði séð kindur á beit á Mývatnsöræfum og uppi undir Veiðivötnum, þrátt fyrir að þar væri varla meira en ein gróin þúfa eða einn grasbrúskur. Slíka meðferð á landi og búfé hefði átt að stöðva fyrir löngu. Reyndar gafst kjörið tækifæri til þess fyrir svo sem 30 árum þegar ljóst var að draga þyrfti úr lambakjötsframleiðslunni. En í stað þess að skoða í alvöru hvar væri forsvaranlegt að halda fé til beitar og hvar ekki, var farin sú leið að beita flötum niðurskurði og gera í engu upp á milli þeirra sem beittu fé sínu í sátt við náttúruna og hinna sem níddust á landinu. Þarna brást menn kjark, ekki bara stjórnmálamenn, heldur einnig og ekki síður forystu bændahreyfingarinnar.

Betri tillaga:
Með hliðsjón af framanskráðu legg ég til að þingmennirnir dragi frumvarp sitt til baka og leggi þess í stað fram tillögu til þingsályktunar um gerð markvissrar áætlunar um nýtingu beitilands á Íslandi, þar sem raunverulegt tillit væri tekið til hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Í slíkri áætlun þarf að sjálfsögðu að taka áhrif allra grasbíta með í reikninginn. Líklegt má telja að í framhaldinu yrðu lögð fram frumvörp sem gera það mögulegt að banna alfarið beit á viðkvæmum svæðum og beita sektum ef út af er brugðið. Þarna hlýtur krafan um upprunamerkingu búfjárafurða einnig að koma við sögu. Það er hreinlega kjánalegt að neytendum skuli ekki gert kleift að sjá hvort lambinu sem þeir hyggjast leggja sér til munns hafi verið beitt á Hornstrandir eða Mývatnsöræfi.

Til vara
Lítist þingmönnunum ekki á að draga frumvarp sitt til baka, legg ég til að þeir striki út úr því allar tilvísanir í sjálfbærni. Því hugtaki er gáleysislega beitt í frumvarpinu.

Lokaorð í lit
Ég fagna umræðunni um nýtingu beitilands. Það er löngu kominn tími til að taka alvarlega til í þeim málum. En sé horft á viðfangsefnið í svarthvítu er hætt við að lausnin verði jafnvel verri en vandamálið.

Erfðabreytt umræða á villigötum

Síðustu daga hefur mikið verið rætt um erfðabreyttar lífverur í kjölfar greinar eftir Gilles-Eric Séralini og félaga í vísindatímaritinu Food and Chemical Toxicology, þar sem fram kom hækkuð sjúkdóma- og dánartíðni hjá rottum sem fengu erfðabreyttan maís sem gerður hafði verið ónæmur fyrir plöntueitrinu Roundup, hvort sem maísinn hafði verið meðhöndlaður með eitrinu eður ei. Ég fagna þessari umræðu, en mér finnst hún samt hafa verið á villigötum. Mér finnst umræðan hafa snúist allt of mikið um áreiðanleika Séralinis og kosti og galla þeirra aðferða sem hann og félagar hans beittu. Aðalatriði málsins hefur að mínu mati orðið útundan.

Aðalatriðið er þetta: Þessi eina rannsókn, hversu gölluð eða fullkomin sem hún er, sannar hvorki né afsannar staðhæfingar um skaðsemi eða skaðleysi erfðabreyttra lífvera. Hún undirstrikar fyrst og fremst þá staðreynd að skaðleysið hefur ekki verið sannað. Um leið undirstrikar hún að við þurfum að ráðast í mun meiri rannsóknir áður en lengra er haldið í nýtingu erfðabreyttra lífvera til fóðurs og manneldis. Í þessum rannsóknum er sérstaklega mikilvægt að huga að hugsanlegum langtímaáhrifum á heilsu manna. Það rannsóknarsvið er nánast óplægður akur!

Komandi kynslóðir eiga betra af okkur skilið en að við drepum á dreif málum sem geta skipt sköpum fyrir þær. Horfumst í augu við aðalatriðin og hættum að karpa um tölfræðileg álitamál og gáfnafar ritrýnenda!

Að lokum þykir mér rétt að minna á að áður en við tökum ákvarðanir um nýtingu erfðabreyttra lífvera til framtíðar þurfum við að rannsaka fleira en hugsanleg áhrif á heilsu manna. Vistfræðilegir og félagshagfræðilegir þættir eru ekki síður mikilvægir!