• Heimsóknir

    • 119.600 hits
  • júní 2023
    S M F V F F S
     123
    45678910
    11121314151617
    18192021222324
    252627282930  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Nokkur orð um sjávarorku

??????????Menn hefur lengi dreymt um að virkja sjávarföll, sjávarstrauma og öldur hafsins til raforkuframleiðslu, en enn virðist þó vera langt í að sjávarorkan geti keppt við aðra helstu orkugjafa sem notaðir eru í þessum tilgangi. Orkan er vissulega til staðar eins og sjá má þegar horft er út á hafið þessa dagana, en tól og tæki sem notuð eru til að beisla orkuna þurfa að þola mikið álag, bæði vegna sjávargangs og seltu. Og svo er heldur ekki sérlega auðvelt að búa til traustar tengingar við raforkukerfið í landi.

Íslendingar hafa fengist við ýmis athyglisverð verkefni í tengslum við nýtingu sjávarorku og sú vinna er reyndar stöðugt í gangi þótt ekki fari mikið fyrir henni í fjölmiðlum dags daglega. Sem dæmi um það sem verið er að gera má nefna fyrirtækið Sjávarorku ehf. sem hefur unnið að rannsóknum á möguleikum þess að virkja sjávarfallastrauma í innanverðum Breiðafirði og fyrirtækið Valorku ehf. sem er að þróa tækni til að nýta sjávarfallaorku í annesjaröstum og hefur m.a. náð þeim árangri að búa til hverfil sem var valin besta uppfinning heims af Alþjóðasamtökum uppfinningafélaga árið 2011.

Vorið 2014 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um að fela iðnaðar- og viðskiptaráðherra að hefja vinnu við mat á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku við strendur Íslands með það að markmiði að greina hagkvæmustu nýtingarkosti til framtíðar. Jafnframt átti að leggja drög að uppbyggingu gagnagrunns um nýtingu sjávarorku og kanna með hvaða hætti Ísland gæti orðið aðili að alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði. Þessi vinna er komin vel áleiðis og starfshópur sem ráðherra skipaði um málefnið á að skila tillögum fyrir 1. maí í vor.

En tækifæri Íslendinga í sjávarorku liggja ekki bara í því að nýta hana, enda kannski ekki líklegt að rafmagn úr sjávarorku geti keppt við ódýrt íslenskt rafmagn af öðrum uppruna. Miklu stærri tækifæri gætu legið í því að þróa tæknina og framleiða búnað til útflutnings. Í því sambandi er áhugavert að velta fyrir sér hvert Skotar, já og Bretar yfirleitt, stefna í þessum efnum, en þeir líta á sig sem frumkvöðla á heimsvísu.

Fyrr í þessari viku komu út tvær skýrslur í Bretlandi um tækifærin sem liggja í þróun og nýtingu sjávarorku. Í þessum skýrslum er á það bent, að ef Bretar ætli sér að nýta þessi tækifæri þurfi þeir annars vegar að móta framtíðarstefnu í þessum málum og hins vegar að tryggja fjármagn til áframhaldandi rannsóknar- og þróunarvinnu. Aðeins á þann hátt sé hægt að gera framleiðslu á búnaði fyrir sjávarvirkjanir að atvinnugrein sem geti skapað ný störf og fært Bretum miklar tekjur í framtíðinni. Hér dugi ekki að móta stefnuna frá ári til árs, heldur þurfi að gera áætlun sem nái að minnsta kosti til ársins 2030.

Í annarri skýrslunni sem um ræðir er varað við því að ef Bretar standi ekki saman í þessu verkefni og missi yfirsýnina yfir það sem nú þegar er í gangi, þá sé mikil hætta á að margir aðilar sói kröftum sínum í sömu verkin hver í sínu horni á sama tíma og enginn sinni öðrum verkum sem eru nauðsynleg til að tækifærin nýtist í framtíðinni. Þá muni Bretar einfaldlega missa það forystuhlutverk sem þeir hafi nú.

Skýrsluhöfundar benda á, að engin leið sé að tryggja fjármagn frá einkaaðilum eingöngu í langtímafrumkvöðlaverkefni sem þetta og því þurfi opinberir aðilar og einkaaðilar að taka höndum saman. Tryggja þurfi framlög upp á 300 milljónir sterlingspunda á næstu 10 árum, en þessi upphæð samsvarar rúmlega 60 milljörðum íslenskra króna. Þetta fé geti m.a. komið frá breska ríkinu og úr sjóðum Evrópusambandsins. Nú þegar hafi fyrirtæki í greininni varið um 450 milljónum sterlingspunda í þróunarstarf og þar af hafi aðeins um einn áttundi komið úr opinberum sjóðum. Ef vel takist til á næstu árum gæti framleiðsla á þessu sviði verið orðin svo umfangsmikil árið 2050 að hún bæti 4 milljörðum sterlingspunda við árlega landsframleiðslu Breta. Sú upphæð samsvarar 820 milljörðum íslenskra króna á ári.

Líklega hefur Fergus Ewing, orkumálaráðherra Skotlands, ekki einu sinni verið búinn að lesa skýrslurnar sem hér er vísað til þegar hann tilkynnti í gær að samtökum sjávarorkufyrirtækja í Skotlandi yrði veittur styrkur upp á 14,3 milljónir sterlingspunda, eða sem samsvarar tæplega þremur milljörðum íslenskra króna, á næstu 13 mánuðum til að vinna áfram að lausn ýmissa tæknilegra vandamála. Þetta gerir það m.a. mögulegt að ráða 10-12 starfsmenn og koma á fót sérfræðingateymi sem samræmir aðgerðir og hjálpast að við að finna bestu lausnirnar. Um leið eru opnaðir möguleikar á víðtæku samstarfi milli fyrirtækja, svo og samstarfi við verkfræðistofur og vísindamenn sem vinna að rannsóknum á þessu sviði. Þarna eins og víðar skiptir samstarf gríðarlega miklu máli, eða eins og Stephen Salter, prófessor, sem kallaður hefur verið „faðir sjávaröldutækninnar“ orðaði það: „Frumkvöðlarnir þurfa að bindast samtökum sín á milli gegn ógnum sjávarins í stað þess að berjast sín á milli um ófullnægjandi fjárveitingar“.

Skotar búa svo vel að hafa aðgang að einhverjum bestu sjávarorkusvæðum í heimi. Þessi svæði eru m.a. við Ljóðhús og aðrar eyjar Hebrideseyjaklasans, eða Suðureyja, en þar hafa Skotar gert ýmsar tilraunir með tækninýjungar í nýtingu sjávarorku.

Auðvitað er ekkert því til fyrirstöðu, svona fræðilega séð, að Íslendingar verði í fararbroddi á heimsvísu, rétt eins og Skotar, í því að þróa og framleiða tæknibúnað fyrir sjávarvirkjanir. Það er t.d. ekki svo slæm byrjun að hafa náð að búa til hverfil sem unnið hefur til alþjóðlegra verðlauna. Og það er jú sama Atlantshafið sem leikur um Íslandsstrendur og Ljóðhús. En til þess að vera í fararbroddi þurfa Íslendingar að horfa örlítið lengra fram í tímann en fram í næstu viku eða til næstu kosninga, eins og þeim hættir stundum til að gera. Hér sem víðar gildir að koma auga á tækifærin í tæka tíð og vera nógu framsýnn og þolinmóður til að nýta þau. Þegar rýnt er í þróun orkumála í heiminum virðist það alla vega liggja ljóst fyrir, að tækifærin í orkugeiranum liggi ekki í olíuvinnslu.

(Þessi pistill er samhljóða útvarpspistli sem fluttur var í Samfélaginu á Rás 1 26. febrúar sl. og ber að skoða tímasetningar í textanum í því ljósi. Pistillinn hefur hins vegar ekki birst í skrifaðri útgáfu áður).

Er hagvöxtur góður mælikvarði á velgengni þjóðar?

Styrjaldir auka hagvöxt. (Mynd: Johannes Jansson/  Norden.org)

Styrjaldir auka hagvöxt. (Mynd: Johannes Jansson/ Norden.org)

Hagvöxtur er alls ekkert náttúrulögmál á borð við þyngdarlögmálið eða snúning jarðar. Þvert á móti er hagvöxtur ekkert annað en manngert mælitæki til að sýna hversu mikið landsframleiðslan hefur aukist frá árinu áður. Það þýðir hins vegar ekki að hagvöxtur sé góður mælikvarði á velgengni þjóðar, eins og sumir virðast þó halda.

Og hvað er þá landsframleiðsla? Jú, landsframleiðsla, eða öllu heldur „verg landsframleiðsla“ eins og fyrirbærið heitir á íslensku stofnanamáli, er samanlagt söluverð allrar vöru og allrar þjónustu sem framleidd er í landinu á ákveðnu tímabili, og þá er oftast talað um eitt ár. Stundum er skammstöfunin VLF notuð fyrir „verga landsframleiðslu“, en hér ætla ég að leyfa mér að nota frekar skammstöfunina GDP, þó að hún sé reyndar enskusletta (Gross Domestic Product).

Upphaflega var GDP-stuðullinn þróaður fyrir um það bil 70 árum til að gefa vísbendingu um efnahagslegar framfarir. Þá stóð aldrei til að þessi mælikvarði yrði notaður til annars, en engu að síður er hann býsna almennt notaður til að meta og bera saman velgengni þjóða.

Helsti gallinn á landsframleiðslustuðlinum GDP sem „velgengnismæli“ er annars vegar sá að inn í hann reiknast allar tekjur, óháð því hvernig þær hafa orðið til – og hins vegar sá að inn í hann reiknast engin önnur verðmæti en þau sem ganga kaupum og sölum. Þegar rýnt er nánar í þetta sést að GDP dugar skammt til að segja fyrir um efnahagslega hagsæld, hvað þá aðra sæld. Til að útskýra þetta má notast við einfalt dæmi úr heimilisbókhaldinu:

Hugsum okkur að ég þurfi 5 milljónir á ári til framfærslu. Ef ráðstöfunartekjurnar mínar eru ekki nema 4 milljónir á ári, þá þarf ekki flókna útreikninga til að sjá að endar ná ekki saman. Þar vantar milljónkall á ári uppá. Setjum nú svo að ég eigi 5 milljónir í banka, sem ég erfði til dæmis eftir ömmu mína. Með því að taka eina milljón úr þessum sjóði árlega er ég búinn að loka þessu persónulega fjárlagagati mínu. En þessi aðferð dugar mér bara í 5 ár að óbreyttu, því að eftir 5 ár verð ég búinn að eyða öllum arfinum frá ömmu.

Ég er enginn atvinnumaður í bókhaldi, en mér myndi samt aldrei detta í hug að telja milljónina frá ömmu til tekna. Árstekjurnar eru eftir sem áður bara 4 milljónir. Aukamilljónin frá ömmu eru ekki tekjur, heldur lækkun á eignum. GDP-ið fyrir heimilið, ef hægt væri að reikna svoleiðis, væri samt sem áður 5 milljónir á ári, því að þar teljast öll verðmætin með. Í GDP-inu felst með öðrum orðum engin áminning um að arfurinn, eða auðlindin sem ég hef byggt hluta af velferð minni á, sé um það bil að ganga til þurrðar.

Auðvitað felur þetta dæmi um mig og ömmu í sér mikla einföldun, en þjóð sem byggir afkomu sína að verulegu leyti á nýtingu auðlinda sem ekki endurnýja sig er samt í býsna svipaðri stöðu. GDP helst hátt á meðan auðlindinni er eytt, en dettur svo niður fyrirvaralaust þegar auðlindin gengur til þurrðar.

Páskaeyja er oft nefnd sem dæmi um það sem gerist þegar maður lifir hátt á arðinum frá ömmu eða með öðrum orðum þegar þjóð byggir afkomu sína að verulegu leyti á nýtingu óendurnýjanlegra auðlinda. Páskaeyja var numin af Pólýnesum fyrir um það bil 2.500 árum. Á öldunum þar á eftir byggðist þar upp merkileg menning og mikil velsæld sem byggðist á afurðum pálmatrjáa og annars hitabeltisgróðurs sem þar var gnótt af. Í byrjun 17. aldar er talið að þarna hafi 10-15 þúsund manns lifað í vellystingum praktuglega á þess tíma mælikvarða. Þegar hollenskir landkönnuðir komu fyrst til eyjarinnar á páskadag 1722 voru þar hins vegar ekki eftir nema um 2.000 íbúar, sem bjuggu við frumstæð skilyrði á gróðurlitlu skeri. Þarna hafði velsældin verið byggð á einni óendurnýjanlegri auðlind, og þó að einhver hefði verið búinn að finna GDP upp, hefði það ekki hjálpað til að vara við hruninu sem varð þarna í lok 17. aldar eða í byrjun þeirrar átjándu.

Niðurstaðan er þessi: GDP er ekki nothæfur mælikvarði á raunverulega velsæld þjóðar, enda stóð það aldrei til, ekki frekar en það stóð til að hægt væri að fljúga farþegaþotu eftir hraðamælinum einum saman. Til að bregðast við þessum takmörkunum þessa annars nytsama tækis, hafa menn keppst við að þróa aðra mælikvarða sem gefa betri mynd af stöðu og horfum. Einn þessara mælikvarða er svonefndur Framfarastuðull eða GPI (Genuine Progress Indicator), svo ég sletti nú aðeins meiri ensku. GPI hefur það að markmiði að leiðrétta GDP, annars vegar með því að draga frá þær tekjur sem byggjast á skerðingu náttúrulegra og samfélagslegra auðlinda – og hins vegar með því að bæta við þáttum sem auka velferð þó að þeir gangi ekki kaupum og sölum. Í þessum útreikningum eru t.d. tekjur vegna slysa og glæpa dregnar frá, en slysum og glæpum fylgja ýmis umsvif sem hækka landsframleiðsluna, til dæmis vegna björgunaraðgerða, endurbyggingar, kostnaðarsamra fyrirbyggjandi aðgerða o.s.frv. Af öðrum þáttum sem koma til frádráttar þegar GPI er reiknaður má nefna tekjur vegna mengunar og eyðingar náttúruauðlinda, svo sem jarðvegs, fiskistofna eða pálmatrjáa. Hins vegar koma ólaunuð heimilisstörf og sjálfboðavinna til hækkunar í þessum útreikningum, svo eitthvað sé nefnt.

Í upphafi þessa pistils var talað um hagvöxt, og eins og þar kom fram er hagvöxtur ekkert annað en mælikvarði á það hversu mikið landsframleiðslan hefur aukist frá árinu áður. Þess vegna hefur hagvöxtur nákvæmlega sömu takmarkanir og GDP sem mælikvarði á velgengni þjóða. Auðvelt er að halda hagvextinum uppi meðan stórslysum og glæpum fjölgar ár frá ári og meðan hratt er gengið á náttúruauðlindir. En þegar allt kemur til alls er Jörðin bara eyja, rétt eins og Páskaeyja, nema vissulega miklu stærri. Hagvöxtur sem byggir á eyðingu náttúruauðlinda getur ekki gengið endalaust, hvorki á eyjunni Jörð né á nokkurri annarri eyju.

Ef við lítum á þetta í íslensku samhengi, þá er ljóst að við getum ekki til lengdar stýrt þjóðarskútunni eftir hagvaxtarmælinum eingöngu. Við erum líka sem betur fer byrjuð að skoða önnur tæki í mælaborðinu. Þannig fól Alþingi forsætisráðherra fyrir tæpum þremur árum að vinna að því að framfarastuðull (GPI) fyrir Ísland verði reiknaður og birtur samhliða vergri landsframleiðslu (GDP). Þetta er svo sannarlega skref í rétta átt – og nú bíður maður bara spenntur eftir fyrstu niðurstöðum. Skyldum við vera á grænni grein, eða erum við kannski að endurtaka mistökin sem íbúar Páskaeyju gerðu á meðan allt lék þar í lyndi?

(Þessi pistill er að mestu leyti samhljóða útvarpspistli sem fluttur var í þættinum Sjónmál á Rás 1 12. júní 2013. Pistillinn hefur hins vegar ekki birst í skrifaðri útgáfu áður).

Rauði krossinn vill líka ónýt föt!

fatagamur (169x225)Sennilega fara flestir Íslendingar einhvern tímann með föt í söfnunargáma Rauða krossins og flest bendir til að þessum Íslendingum fari fjölgandi. Alla vega safnast meira og meira af fötum með hverju árinu sem líður. Fatasöfnunin er orðin eitt mikilvægasta fjáröflunarverkefni Rauða kross Íslands, og sem dæmi um það má nefna að á árinu 2013 nam afrakstur Rauða krossins af fatasöfnuninni 100 milljónum króna. Hluti af þessu fé er notaður til að fjármagna rekstur Hjálparsíma Rauða krossins 1717, hluti fer til verkefna á vegum deilda Rauða krossins um allt land og hluti nýtist til hjálparstarfs erlendis.

Í skýrslu um afdrif textílúrgangs á Norðurlöndunum sem kom út í byrjun síðasta mánaðar er að finna yfirlit um það hversu mikið af fötum Íslendingar keyptu á árinu 2012 og sömuleiðis um það hvað verður um þessi föt að notkun lokinni. Rétt er þó að taka fram að allt eru þetta áætlaðar tölur, því að ekkert nákvæmt bókhald er til um fatakaup eða fataeign Íslendinga. Skýrslan byggir á tölum frá Hagstofunni, Sorpu, Rauða krossinum og fleiri aðilum og þegar allt þetta er skoðað í samhengi kemur í ljós að á árinu 2012 voru á að giska 4.800 tonn af taui sett á markað hérlendis, þar af líklega um 3.800 tonn innflutt og 1.000 tonn sem framleidd voru innanlands. Inni í þessum tölum eru ekki bara föt, heldur líka hvers konar önnur textílvara, svo sem sængurföt, dúkar, gluggatjöld og teppi, svo eitthvað sé nefnt. Sé þessi ágiskum rétt eru þetta rétt um það bil 15 kg á hvert mannsbarn á Íslandi.

Af þessum 4.800 tonnum sem komu inn á markaðinn 2012 rötuðu um 1.400 tonn í söfnunargáma. Þar á Rauði krossinn langstærstan hlut að máli, en önnur samtök koma svo sem einnig við sögu. Hin 3.400 tonnin lentu einhvers staðar annars staðar.

Þegar afdrif 1.400 tonnanna sem rötuðu í söfnunargáma eru skoðuð nánar, kemur í ljós að þar af voru um 50 tonn endurnotuð. Þar er þá aðallega um að ræða föt sem voru seld í Rauðakrossbúðunum, en einhver lítill hluti af þessu fór væntanlega beint í hjálparstarf innanlands og utan. Eftir standa þá 1.350 tonn sem voru seld úr landi, en þessi sala er aðaltekjulind fataverkefnis Rauða krossins. Með hæfilegri ónákvæmni er hægt að slá því fram að þessi 1.350 tonn skapi stærstan hluta af 100 milljón króna tekjunum sem nefndar voru hérna áðan. Reyndar erum við þarna að tala um áætlað magn sem selt var árið 2012, á meðan tekjutölurnar tilheyra árinu 2013. En þetta er samt alveg nógu nákvæmt til að gefa hugmynd um það hvernig þetta virkar allt saman.

Jæja, það komu sem sagt 4.800 tonn inn á markaðinn og þar af skiluðu 1.400 tonn sér í söfnunargámana. Hinum 3.400 tonnunum má í grófum dráttum skipta í tvennt. Um það bil 200 tonn hafa líklega safnast fyrir í fataskápum og á háaloftum landsmanna, en afganginum var einfaldlega hent. Það lítur sem sagt út fyrir að á árinu 2012 hafi hvorki meira né minna en 3.200 tonn af textílúrgangi farið endanlega í súginn, eða verið með öðrum orðum urðað með öðrum úrgangi á urðunarstöðum víða um land.

Ef við förum nú aðeins yfir þessa tölfræði aftur, en tölum núna um kíló á hvert mannsbarn í staðinn fyrir tonn á landsvísu, þá er sem sagt áætlað að á árinu 2012 hafi 15 kíló komið inn á markaðinn. Þar af fóru um 10 kíló í urðun, um 4,3 kíló voru seld til útlanda, um það bil 0,2 kíló voru seld í Rauðakrossbúðum og 0,5 kíló söfnuðust upp á heimilum. Þannig gengur bókhaldið upp. Reyndar er ekkert sjálfsagt að svona bókhald gangi upp, því að auðvitað á mikill hluti af þessari vöru lengri líftíma en svo að hún skili sér í gáma eða ruslatunnur sama árið og hún er keypt. En það er svo sem aukaatriði, því að ef innstreymið er svipað ár frá ári skekkist myndin ekki mikið.

Veltum nú aðeins betur fyrir okkur þessum 10 kílóum á hvert mannsbarn, eða með öðrum orðum þessum 3.200 tonnum samtals, sem eru urðuð á hverju ári. Allt þetta hefði betur farið í söfnunargáma Rauða krossins. Þeir taka nefnilega ekki bara við nothæfum fötum, heldur einfaldlega hvaða textílúrgangi sem vera skal, þar með töldum ónýtum rúmfötum, blettóttum borðdúkum, rifnum gallabuxum og stökum sokkum, svo eitthvað sé nefnt. Allt þetta getur skapað Rauða krossinum tekjur. Þetta góss er einfaldlega selt í stórar flokkunarstöðvar í Þýskalandi eða Hollandi. Þaðan fer svo besti hlutinn í endursölu í retróbúðum, en það lakasta er selt í verksmiðjur sem tæta efnið niður og framleiða úr því tvist og tuskur af ýmsu tagi. Með nýrri tækni eru líka að opnast möguleikar til að flokka textílúrgang eftir efnum og vinna nýjan þráð úr ónýtum fötum. Þannig fást enn meiri verðmæti úr lakasta hlutanum.

Ef við höldum nú áfram að leika okkur með tölur, þá nefndi ég áðan að þau 1.350 tonn sem Rauði krossinn selur úr landi árlega gefi af sér um 100 milljónir króna, með öllum þeim fyrirvörum sem ég var búinn að tína til. Ef við tækjum okkur nú öll saman í andlitunum og hættum alfarið að setja ónýt föt og annan textílúrgang í ruslið og færum þess í stað með þetta í Rauðakrossgámana, þá myndi Rauði krossinn fá 3.200 tonn til viðbótar á hverju ári. Og ef við reiknum með sama kílóaverði myndi þessi hrúga gefa af sér hvorki meira né minna en 237 milljónir til viðbótar við þá fjármuni sem Rauði krossinn fær nú þegar. Kannski er þetta samt óþarflega mikil bjartsýni. Eigum við ekki að vera hógvær og segja bara 200 milljónir?

Svo við drögum þetta nú aðeins saman í lokin, þá er boðskapur þessa pistils afskaplega einfaldur: Ef við hættum að henda ónýtum fötum og öðrum textílúrgangi og setjum hann þess í stað allan í söfnunargáma Rauða krossins, þá bætast tugir milljóna, eða jafnvel allt að 200 milljónir, við það fjármagn sem Rauði krossinn hefur til ráðstöfunar í hjálparstarf á hverju ári. Þörfin er brýn og það er náttúrulega alveg út í hött að grafa svona fjársjóð í jörðu eins og hvert annað sorp!

Því er svo við að bæta, svona rétt í blálokin, að Rauðakrossgámarnir taka líka við skóm sem við erum hætt að nota. Skór henta reyndar sjaldan vel til endurvinnslu, en skótau sem við teljum ónýtt getur nýst vel á svæðum þar sem fólk hefur ekki efni á að vera vandlátt. Þeir sem vinna í flokkunarstöðvunum í Þýskalandi og Hollandi eru betur í stakk búnir en við til þess að meta hvað sé nothæft og hvað ekki.

(Þessi pistill er samhljóða pistli sem fluttur var í Sjónmáli á Rás 1 fimmtudaginn 17. júlí 2014. Myndin er tekin af heimasíðu Rauða kross Íslands).

Þú átt valið

Stundum fallast okkur hendur þegar talið berst að umhverfismálum, einfaldlega vegna þess að okkur þykja viðfangsefnin yfirþyrmandi og erum þess fullviss að við getum engu breytt. Hvert okkar um sig er jú bara örlítill dropi í mannhafinu, nánar tiltekið bara einn einasti dropi af rúmlega sjöþúsund milljón dropum samtals. Það er því út af fyrir sig ekkert einkennilegt að okkur finnist við vera fá og smá – og reyndar gildir það sama hvort sem við lítum í eigin barm eða hugsum fyrir íslensku þjóðina alla. Þjóðin öll er jú heldur ekki ýkja margir dropar þegar á heildina er litið.

Ég hef einhvern tímann orðað það svo að stærsta umhverfisvandamál heimsins sé, þegar allt kemur til alls, hvorki loftslagsbreytingar, eyðimerkurmyndun né mengun vatns og jarðvegs, heldur sú trú eða skoðun einstaklingsins að það sem hann gerir eða gerir ekki hafi engin áhrif á heildina. Öll hin vandamálin eru eiginlega bara afleiðing af þessu vandamáli. Sú trú að við fáum engu breytt er að mínu mati beinlínis hættuleg. Hún er eiginlega fyrsta skrefið í algjörri uppgjöf, sem væri sjálfsagt kölluð UPPGJÖF 101 ef hún væri kennd í framhaldsskólum. Við getum nefnilega vel haft áhrif – og ef við getum það ekki getur það enginn. Allir hinir milljón skrilljón droparnir eru jú bara dropar eins og við þegar allt kemur til alls.

Nú er eðlilegt að spurt sé hvernig í ósköpunum við getum beitt þessari getu til áhrifa sem ég held fram að við búum yfir. Svarið við þessari spurningu er ekki einfalt, enda er auðvitað ekki til neitt eitt rétt svar hér frekar en annars staðar. En þrennt af því sem við getum gert til að hafa áhrif er alla vega að kjósa, að spyrja og að sýna. Þessi pistill fjallar um þessar þrjár mögnuðu en vanmetnu aðferðir.

Við getum sem sagt í fyrsta lagi breytt með því að kjósa. Það gerum við ekki bara í kjörklefanum í alþingiskosningum, sveitarstjórnarkosningum, forsetakosningum, þjóðaratkvæðagreiðslum og hvað þetta nú heitir allt saman. Við kjósum á hverjum degi, til dæmis í Nettó, í Bónusi og við eldhúsborðið heima hjá okkur. Þegar við stöndum frammi fyrir búðarhillu og ákveðum að velja vöruna í bláa pakkanum en ekki vöruna í rauða pakkanum, þá erum við að kjósa. Við erum ekki bara að kjósa um það hvort við ætlum að eyða 400 kalli eða 450 kalli, við erum líka að velja tiltekna framleiðsluaðferð fram yfir aðra og við erum kannski líka að kjósa um framtíð einhvers fólks eða einhverrar fjölskyldu í fjarlægu landi. Kannski er önnur varan framleidd af börnum í þrælahaldi, sem vaða eiturefnin á verksmiðjugólfinu í mjóalegg. Kannski er hún einmitt ódýr af því að börnin fengu næstum ekkert kaup fyrir vinnuna sína. En kannski er hin varan með Fairtrade vottun sem tryggir að fólkið sem vann við framleiðsluna fái mannsæmandi laun og búi við félagslegt réttlæti. Ákvörðunin sem við tökum þarna við búðarhilluna hefur áhrif miklu lengra en ofaní veskið okkar, hún hefur jafnvel áhrif um allan heim. Ef við kaupum til dæmis vöruna sem var framleidd í barnaþrælkun, þá greiðum við atkvæði með því að svoleiðis barnaþrælkun haldi áfram. Með hverri svona ákvörðun höfum við áhrif.

Í öðru lagi getum við breytt með því að spyrja. Hér hentar aftur vel að taka Nettó og Bónus sem dæmi, já eða bara hvaða verslun sem er. Ef okkur er ekki sama um það hvaðan varan sem við kaupum kemur, hvað hún inniheldur og hvernig hún er framleidd – og ef við getum ekki fengið að vita nægju okkar um það með því að skoða merkin á umbúðunum eða lesa innihaldslýsinguna, þá eigum við að spyrja. Allar spurningar hafa að minnsta kosti tvíþættan tilgang. Tilgangurinn með því að spyrja er nefnilega ekki bara sá að fá svar, heldur líka að láta vita að manni sé ekki sama. Ef okkur vantar að vita eitthvað en spyrjum ekki, þá er okkur sama. Þá erum við með öðrum orðum að afsala okkur því valdi sem við höfum til að hafa áhrif. Nú halda kannski sumir að það sé tilgangslaust að spyrja einhverra svona spurninga í búðum, til dæmis spurninga um það hvort varnarefni hafi verið notuð við ræktun á vínberjunum eða hvort gallabuxurnar hafi verið bleiktar með nonýlfenólethoxýlötum. Fólk sem vinnur í búðum viti nefnilega ekkert um svoleiðis hluti. Þetta getur svo sem alveg verið rétt, en það er þá örugglega vegna þess að enginn hefur spurt um þetta áður. Allir hinir hafa líkast til líka haldið að það þýddi ekki neitt. Hér er vert að hafa í huga það sem almennt gildir í viðskiptum, að eftirspurn er ekki eftirspurn nema þeir sem sjá um framboðið frétti af henni.

Þriðja einfalda leiðin til að hafa áhrif er að sýna, nánar tiltekið að sýna gott fordæmi. Rannsóknir benda reyndar til að fátt eða jafnvel ekkert sé líklegra til að hafa áhrif að hegðun fólks en einmitt það hvernig fyrirmyndir þess hegða sér. Og öll erum við fyrirmyndir einhverra. Við erum til dæmis fyrirmyndir barnanna okkar, annarra í fjölskyldunni, vinnufélaganna, nemendanna og sjálfsagt margra annarra sem við vitum ekki einu sinni að líta upp til okkar og taka eftir því sem við gerum. Bara með því að sýna gott fordæmi getum við komið af stað hreyfingu sem er erfitt að stöðva.

Reyndar geymir sagan ótal mörg dæmi sem ættu að duga til að sýna okkur fram á að það sem einstaklingurinn gerir eða gerir ekki getur skipt gríðarlega miklu máli fyrir heildina. Hver hefur til dæmis ekki heyrt um eldhugann sem reif upp íþróttastarfið í smábænum þar sem flest hafði legið í láginni árum saman og hver hefur til dæmis ekki heyrt talað um Nelson Mandela. Allt í kringum okkur sjáum við dæmi um fólk sem tók ástfóstri við tiltekið viðfangsefni og hreif aðra með sér. Og fyrr en varði var þetta litla frumkvæði orðið að fjöldahreyfingu. Með tilkomu samfélagsmiðla gerist þetta jafnvel margfalt hraðar nú en nokkru sinni fyrr.

Niðurstaðan er í stuttu máli þessi: Hvert okkar sem er getur haft veruleg áhrif, bæði í umhverfismálum og á öðrum sviðum. Þetta er hægt að gera með ýmsu móti, meðal annars með því að vera meðvitaður um að allar ákvarðanir sem við tökum fela í sér kosningu með eða á móti einhverju, með því að spyrja um allt sem við viljum vita, ekki bara til að fá svarið heldur líka til að láta vita að okkur sé ekki sama og með því að sýna öðrum gott fordæmi, því að þessir aðrir eru miklu fleiri en maður heldur. Niðurstaðan í enn styttra máli felst í orðum Edmunds Burke sem sagði á sínum tíma: „Enginn gerði stærri mistök en sá sem gerði ekkert af því að honum fannst hann geta gert svo lítið“.

(Þessi pistill er samhljóða pistli sem fluttur var í Sjónmáli á Rás 1 mánudaginn 21. júlí 2014).

Stóra tækifærið á Drekasvæðinu

Dreki„Þetta land á ærinn auð, ef menn kunna‘ að nota‘ hann“, orti Jón Ólafsson fyrir margt löngu. Þessi orð eiga vel við um Drekasvæðið norðaustur af Íslandi. Þar liggur ærinn auður, sem fátt bendir að vísu til að menn kunni að nota.

Ég gæti skrifað langt mál um umhverfisþætti sem tengjast olíuvinnslu á Drekasvæðinu, langt mál um áhættuna fyrir vistkerfi þessa viðkvæma hafsvæðis, langt mál um fáránleika þess að dæla enn meiri olíu úr iðrum jarðar á sama tíma og mönnum er fullljóst að það jarðefnaeldsneyti sem þegar er tiltækt dugar til að breyta loftslagi á jörðinni svo mikið að ekki verður aftur snúið, eða langt mál um tvöfalt siðgæði þjóðar sem þykist vilja vera í fararbroddi í umhverfismálum á 21. öldinni. En það hafa aðrir gert. Og þessi grein fjallar heldur ekki um umhverfismál. Hún fjallar um efnahagsmál. Hún fjallar einfaldlega um það hvernig Íslendingar geti grætt sem mest á Drekasvæðinu og á sem stystum tíma.

„Stóra tækifærið á Drekasvæðinu“ liggur ekki í því að vinna olíu. Það liggur í því að vinna hana ekki. Það eitt að mikil líkindi séu á því að olía finnist á svæðinu er nóg til þess að skapa Íslendingum tækifæri sem er einstætt á heimsvísu. Þetta tækifæri veitist bara þjóð sem á miklar eldsneytisauðlindir í jörðu, en er ekki byrjuð að nýta þær. Og rétti tíminn er núna!

Til að nýta stóra tækifærið á Drekasvæðinu þurfa Íslendingar að lýsa því yfir í samfélagi þjóðanna að þarna sé olía sem Íslendingar ætli aldrei að nýta eða leyfa nýtingu á. Þess í stað hafi stjórnvöld ákveðið að ganga í fararbroddi til móts við nýja og bjartari framtíð án jarðefnaeldsneytis. Í ljósi þessarar ákvörðunar bjóðist Íslendingar til að gegna lykilhlutverki í samstarfi þjóða heims á sviði loftslagsmála.

Í framhaldi af ákvörðuninni um að nýta ekki olíuna á Drekasvæðinu munu opnast ný og óvænt tækifæri í rannsóknum og ferðaþjónustu, tækifæri til að byggja upp aðstöðu fyrir norðurslóðarannsóknir og tækifæri til að fá hingað alþjóðlegar ráðstefnur um loftslagsmál og um verndun hafsins, svo eitthvað sé nefnt. Um leið opnast ný tækifæri í markaðssetningu á íslenskum vörum, íslenskri þjónustu, íslenskri þekkingu og íslenskri menningu, jafnvel þótt hún tengist Drekasvæðinu ekki neitt.
Tekjurnar sem af þessu leiða verða mun fljótari að skila sér en tekjur af hugsanlegri olíuvinnslu síðar meir. Og það þarf varla að reikna lengi til að fá það út að nettótekjurnar af þessum auði verði miklu hærri en af hugsanlegri olíu. Og þetta verður ekki bara skammtímagróði fyrir mína kynslóð, heldur langtímagróði, bæði fyrir mína kynslóð og þær kynslóðir sem á eftir koma, bæði á Íslandi og í öðrum hlutum heimsþorpsins.

Ef við kunnum að nota auðinn á Drekasvæðinu mun kastljós heimsins beinast að þessari huguðu smáþjóð í norðri sem varð fyrst til þess að segja það sem allir vissu og sýna jafnframt í verki að henni væri alvara.

(Þessi grein birtist upphaflega í Fréttablaðinu og á visir.is 17. desember 2013, en er endurbirt hér og nú í tilefni af því að í dag mun Orkustofnun gefa út þriðja sérleyfið til olíuleitar á Drekasvæðinu. Útgáfa þess leyfis er enn ein staðfesting þess að þeir sem stjórna þessu landi kunni ekki að nýta þann auð sem það á).

202×2020

2020 131025Í dag birtist 202. umhverfisfróðleiksmolinn á umhverfisfróðleikssíðunni 2020.is. Ég skrifaði fyrsta molann á þessa síðu 30 . ágúst 2012 og síðan þá hef ég bætt við einum mola á hverjum virkum degi ef frá eru taldir þónokkrir dagar í vor, sumar og haust, þegar þetta tómstundagaman mitt varð undir í samkeppni um tímann við vinnuna mína og önnur gæluverkefni.

Moli dagsins fjallar um landbúnað í Argentínu. Málefnin eru annars álíka mörg og dagarnir sem líða. Megintilgangurinn með skrifunum er fræða um umhverfismál og sjálfbæra þróun með einföldum og auðskildum hætti, enda er fræðsla forsenda þekkingar – og þekking er forsenda framfara í umhverfismálum.

Þeir sem vilja fræðast um ritstjórnarstefnu 2020.is geta lesið sér til um hana á þar til gerðri síðu. Hinir, sem vilja bara fræðast um umhverfismál, geta hins vegar stytt sér stundir við að lesa alla 202 fróðleiksmolana, hvort sem þeir fjalla um efnavörur, erfðabreyttar lífverur, grænt hagkerfi, hafið, heilsu, líffræðilega fjölbreytni, lífræna framleiðslu, loftslagsmál, neytendamál, orku, samgöngur, siðræn viðskipti, sjálfbæra þróun, umhverfismerki, úrgang, vistkerfi eða vistvæna hönnun.

Að nýliðnum yfirdráttardegi

EOD2013-A_web2Yfirdráttardagurinn 2013 var í fyrradag. Á þriðjudagskvöldið var mannkynið nefnilega búið að eyða öllu því sem náttúran getur framleitt á þessu ári, sem þýðir að frá og með gærdeginum verðum við að lifa á yfirdrætti til áramóta. Í gærmorgun stóð hinn vistfræðilegi tékkareikningur mannkynsins á núlli – og engin útborgun fyrr en á næsta ári.

Samtökin Global Footprint Network hafa þróað aðferð til að reikna vistfræðilegt fótspor þjóða, eða vistspor eins og það er venjulega kallað. Út frá sömu forsendum tímasetja samtökin „yfirdráttardaginn“ (sem á ensku er kallaður „Earth Overshoot Day“). Yfirdráttardagurinn er sá dagur þegar afrakstur ársins er genginn til þurrðar. Þá er með öðrum orðum búið að nota allar þær auðlindir sem jörðin getur gefið af sér á árinu og ekki um annað að ræða en að ganga á birgðir.

Að sjálfsögðu er ekki til nein ein rétt aðferð til að tímasetja yfirdráttardaginn og þar af leiðandi enginn einn réttur yfirdráttardagur, en smátt og smátt verður aðferðafræðin betri og niðurstaðan nær því að gefa rétta mynd af ástandinu. Yfirleitt hefur þessi dagsetning færst fram um nokkra daga á ári, en stundum verða meiri sveiflur þegar unnið er að lagfæringum á aðferðafræðinni. Árið 1993 bar yfirdráttardaginn upp á 21. október, 10 árum síðar, þ.e.a.s. 2003, var hann 22. september – og núna var hann 20. ágúst. Hann hefur þannig færst fram um u.þ.b. einn mánuð á hverju 10 ára tímabili – og flest bendir til að sú þróun haldi áfram enn um sinn.

Þriðjudagurinn í fyrradag var 232. dagur ársins, af 365. Það þýðir með öðrum orðum að á þessu ári notar mannkynið 365/232 = 1,57 jörð til að framfleyta sér, samkvæmt útreikningum Global Footprint Network. Svona getur þetta augljóslega ekki gengið til lengdar.

Nú er eðlilegt að spurt sé: Hvar fáum við þessar 0,57 jarðir sem vantar upp á? Svarið er einfalt: Þetta tökum við af höfuðstólnum, svo sem úr olíu og öðrum jarðefnum sem við höfum nurlað saman á milljónum ára, ef svo má að orði komast. Og við tökum þetta líka úr andrúmslofti og vatni, sem hafa kannski tekið við 57% meiri úrgangi en þau ráða við á einu ári, og úr jarðvegi og regnskógum, sem hafa kannski verið skert um 57% umfram það sem getur endurnýjast á einu ári.

Eins og vænta má gengur þjóðum heims misvel að lifa af því sem landið þeirra gefur af sér, já eða landið þeirra og sjórinn svo öllu sé nú haldið til haga. Þannig eru lönd á borð við Ástralíu, Brasilíu, Kanada, Svíþjóð og Madagaskar sæmilega aflögufær, því að neysla þessara þjóða hverrar um sig nemur aðeins um eða innan við helmingi af líffræðilegri getu viðkomandi lands, en með líffræðilegri getu er átt við þau gæði sem vistkerfi landsins geta gefið af sér á einu ári. Hins vegar eiga öll þessi lönd það sameiginlegt að líffræðileg geta þeirra hefur farið minnkandi á síðustu árum, í það minnsta ef tekið er til tillit til íbúafjölda. Það sem er til ráðstöfunar fyrir hvern einstakling hefur með öðrum orðum farið minnkandi ár frá ári, þó að enn sé borð fyrir báru. Væntanlega nýta aðrar þjóðir sér þessa umframgetu með einum eða öðrum hætti, sem er jú eins gott, því að víðast hvar er eftirspurn eftir landsins gæðum mun meiri en framboðið. Þannig þurfa Kínverjar um það bil tvö og hálft Kína til að framfleyta sér, Bandaríkjamenn þurfa næstum tvö Bandaríki og Japanir rúmlega sjö Japön, eða hvernig sem maður segir annars Japan í fleirtölu. Ef við lítum á þau ríki sem næst okkur standa, þá eru Norðmenn nokkurn veginn á pari, sem þýðir að þeir fullnýta auðlindir sínar frá ári til árs, Finnar nýta aðeins helming af líffræðilegri getu sinni, en Danir þurfa um það bil tvær Danmerkur til að standa undir sinni neyslu.

Sumar þjóðir eru svo heppnar, ef hægt er að orða það þannig, að vera fámennar og búa í stóru og gjöfulu landi. Mér finnst til dæmis líklegt að neysla hvers Svía sé ekki mjög frábrugðin neyslu hvers Dana. Samt gætu allir Svíar lifað á um það bil hálfri Svíþjóð á sama tíma og Danir þurfa tvær Danmerkur. Þegar neysla þjóða er borin saman er því í raun réttara að skoða hvað jarðarbúar myndu þurfa margar jarðir til að framfleyta sér ef allir lifðu eins og einstaklingar viðkomandi þjóðar. Þá kemur í ljós að Norðmenn, Svíar og Finnar eru allir á svipuðu róli. Ef allir jarðarbúar myndu lifa eins og þessar þjóðir þyrfti mannkynið líklega rétt rúmar 3 jarðir til að framfleyta sér. Danir virðast reyndar örlítið þyngri á fóðrum, því að í þeirra tilviki þyrfti um 4 jarðir.

Allt það sem hér hefur verið sagt miðast við útreikninga Global Footprint Network, en þar á bæ er hins vegar ekki til nein opinber tala fyrir Ísland. Í meistararitgerð sinni 2010 skoðaði Sigurður Eyberg Jóhannesson vistspor Íslands sérstaklega, en þar kom í ljós að erfitt er að beita sömu aðferðafræði til að leggja mat á stöðu Íslands, meðal annars vegna sérstæðs orkubúskapar og þess hversu stór fiskveiðilögsagan er miðað við flatarmál landsins. En hvernig sem litið er á málið er ljóst að Íslendingar eru í hópi neyslufrekustu þjóða í heimi. Ýmsar tölur hafa verið nefndar í því sambandi, en sú lægsta sem ég hef heyrt er að jarðarbúar myndu þurfa 5-6 jarðir til að framfleyta sér ef allir lifðu eins og Íslendingar. Það setur okkur á bekk með Sameinuðu arabísku furstadæmunum sem telst neyslufrekasta þjóð heims eins og staðan er í dag í bókhaldi Global Footprint Network. Meðaljóninn í heimsþorpinu þarf jú 1,57 jörð miðað við að afrakstur ársins sé uppurinn á 232. degi eins og ég gat um fyrr í þessum pistli.

Það má annars orða þetta með yfirdráttardaginn þannig, að nú séum við, þ.e.a.s. mannkynið, í sömu stöðu og bóndi sem er búinn að gefa ánum sínum eða kúnum allt heyið frá liðnu sumri. Hann á ekki nema um tvennt að velja; annað hvort að kaupa hey frá öðrum bændum sem eru betur settir, eða ganga á fyrningarnar, þ.e.a.s. ef hann á einhverjar fyrningar. Við erum svo heppinn að eiga enn slatta af fyrningum, en þær duga ekki endalaust, því að það eyðist jú sem af er tekið. Og fyrningarnar eru okkar eina von eins og staðan er, því að í okkar sveit er enginn annar bóndi.

(Þessi pistill er samhljóða pistli sem fluttur var í útvarpsþættinum Sjónmál á Rás 1 í morgun).

Flöskuvatn

TyrkjavatnLíklega er sumarið tíminn þegar fólk kaupir hvað mest af flöskuvatni, þó að reyndar sé mikið keypt af flöskuvatni allan ársins hring. Ég hef ekki séð tölur um söluna hérlendis, en einhvers staðar sá ég að salan á heimsvísu væri líklega um 200 milljarðar flaskna á ári, þar af um 25% í Bandaríkjunum þar sem búa þó aðeins um 4% mannkynsins. Heildarsalan á flöskuvatni á heimsvísu nemur líklega 50-100 milljörðum dollara á ári. Þetta gætu þá verið á bilinu 6 til 12 þúsund milljarðar íslenskra króna, sem lítur út fyrir að vera alveg þokkalega há upphæð.

Það er áhugavert að velta því fyrir sér hvers vegna fólk kaupi yfirleitt vatn á flöskum, sérstaklega í löndum þar sem nóg er til af rennandi vatni sem alla jafna er litið á sem sameiginlega auðlind. Ef við lítum á þetta í íslensku samhengi, þá getur flöskuvatn vissulega verið handhægt, en það er að sama skapi alveg óþarft ef betur er að gáð. Auðvitað ræður fólk því sjálft í hvaða formi það innbyrðir vatnið sitt, en það er samt áhugavert að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að fá fólk til að kaupa vöru á allt að því 5.000 sinnum hærra verði en því býðst sama vara annars staðar. Hvað myndi okkur til dæmis finnast um það ef samloka sem við getum keypt á 500 kall myndi allt í kosta tvær og hálfa milljón. Er það ekki bara rosalega mikil verðhækkun?

Jæja, þetta er nú kannski ekki alveg svona einfalt. Til dæmis er flöskuvatn sem við kaupum úti í búð ekki alveg sama vara og kranavatnið sem við getum fengið heima hjá okkur og látið renna í sams konar flösku og við hefðum annars keypt í búðinni. Flaskan í búðinni sparar okkur til dæmis ómakið að skrúfa frá krananum, tappinn á henni er hugsanlega fastari á og innihaldið ef til vill kaldara. Já, og svo eru kannski aðeins fleiri bakteríur í henni líka, en ég kem nánar að því síðar.

Vorið 2009, nánar tiltekið þann 25. apríl, keypti ég hálfslítersflösku af tyrknesku vatni í Krónunni í Mosfellsbæ, ekki vegna þess að mig vantaði beinlínis þessa vöru, heldur vegna þess að mig langaði til að kynnast þeirri athyglisverðu viðskiptahugmynd að flytja flöskuvatn til Íslands frá Tyrklandi. Flaskan hafði reyndar millilent í Danmörku á þessu langa ferðalagi sínu. Þar hafði verið settur á hana miði með danskri áletrun, þar sem m.a kom fram að tappinn hefði verið settur á flöskuna í Izmir í Tyrklandi 29. apríl 2008. Þetta ágæta vatn átti sem sagt ársafmæli fjórum dögum eftir að ég keypti það. Mér finnst rétt að taka fram að ég drakk aldrei þetta vatn, enda trúði ég því ekki að í flöskunni væri að finna uppsprettuna að heilbrigði mínu, jafnvel þó að á danska miðanum stæði „Kilden til DIN sundhed“.

Eins og ég nefndi áðan er kranavatn augljóslega mun ódýrara en flöskuvatn. En þar með er ekki öll sagan sögð. Gæði kranavatnsins eru nefnilega víðast hvar líka meiri en gæði flöskuvatnsins. Á þessu hafa verið gerðar margar rannsóknir, sem ég hef að sjálfsögðu ekki kynnt mér nema að litlu leyti. Það sem ég hef séð bendir þó allt til þess að kranavatnið hafi vinninginn, nema þar sem vatnsból eru menguð um lengri eða skemmri tíma. Í einni rannsókninni reyndust bakteríur í flöskuvatni til dæmis vera 50 sinnum fleiri en leyft er í kranavatni.

Ef við lítum nú aðeins á umhverfisáhrif flöskuvatns, þá lítur dæmið enn verr út. Þannig er flöskuvatn að jafnaði um 1500-2000 sinnum orkufrekara en kranavatn þegar tekið hefur verið tillit til framleiðslu og flutnings umbúða. Til að framleiða einn lítra af flöskuvatni þarf að meðaltali um 3 lítra af vatni, olían sem fer í að framleiða flöskurnar myndi líklega duga til að knýja milljón bíla í heilt ár, og svo falla til kynstrin öll af tómum plastflöskum. Hérlendis fer sem betur fer stór hluti þeirra í endurvinnslu, en eitthvað er samt urðað og einhverju er kastað á glæ á víðavangi þar sem það síðan velkist um aldir. Plastflöskur brotna mjög seint niður í náttúrunni og ég hef jafnvel séð því haldið fram að allt að helmingur plastruslsins í hafinu séu plastflöskur, þ.á.m. undan vatni.

Haustið 2009 var efnt til sérstaks átaks í bænum Farum í Danmörku til að vekja athygli á því að kranavatn væri í flestum tilvikum hreinna, heilnæmara, ódýrara og umhverfisvænna en vatn sem keypt er á flöskum. Átakið fólst í því að þáverandi umhverfisráðherra og einn af forsvarsmönnum sveitarfélagsins stóðu á aðaltorgi bæjarins og gáfu vegfarendum 2.300 karöflur undir kranavatn. Á karöflurnar voru grafin kjörorð átaksins, nefnilega „Skift vane – drik vand fra hane“, eða „Droppaðu vananum – drekktu úr krananum“ eins og kjörorðin hljóma í afar lauslegri íslenskri þýðingu. Karöflurnar áttu að auðvelda fólki ódýra og umhverfisvæna vatnsneyslu á heimilunum, því að þær hentuðu einkar vel til geymslu á kranavatni í ísskápum.

Allt það sem hér hefur verið sagt gildir í aðalatriðum líka um vatn úr svokölluðum vatnsvélum sem víða eru í notkun á vinnustöðum. Eflaust er gæðum drykkjarvatns á vinnustöðum víða áfátt, en líklega væri því fjármagni sem fer í kaup á vatni betur varið í endurbætur á vatnslögnum.

Margir kannast við heimildarmyndir Annie Leonard undir yfirskriftinni „Story of Stuff“ – eða saga af dóti. Ein þessara mynda fjallar einmitt um flöskuvatn, það er að segja myndin „Story of bottled water“. Ástæða er til að hvetja þá sem hafa áhuga á umhverfismálum að kynna sér þessar myndir, en þetta eru stuttar teiknimyndir á einfaldri ensku. Hægt er að nálgast þær á síðunni www.storyofstuff.com.

Svona að lokum er rétt að taka fram að ég hef ekki í hyggju að banna fólki að kaupa flöskuvatn, enda hef ég ekki umboð til þess. Þegar þessi mál eru skoðuð er líka mikilvægt að íhuga hvað væri drukkið í staðinn. Ef fólk velur flöskuvatn í stað sætra gosdrykkja, þá er það náttúrulega hið besta mál, bæði fyrir heilsuna og umhverfið. Standi valið hins vegar á milli flöskuvatns og kranavatns, þá hefur kranavatnið næstum alltaf vinninginn, hvort sem litið er á málið í fjárhagslegu, umhverfislegu eða heilsufarslegu samhengi. Lykilatriðið í þessu máli, rétt eins og í flestum öðrum málum er:

Gagnrýnin hugsun!

Takið svo endilega tómar flöskur með ykkur í sumarfríið og fyllið þær af fersku vatni í þar til gerðum krönum eða í frískum fjallalækjum, frekar en að borga fullt af peningum fyrir innpakkaða skammta af þessari sameiginlegu auðlind.

(Þessi pistill er samhljóða pistli sem fluttur var í útvarpsþættinum Sjónmál á Rás 1 mánudaginn 1. júlí 2013).

Notuð og ónotuð föt

cover_normalÍ framhaldi af umræðum síðustu vikna um aðstæður verkafólks í fataframleiðslu er ekki úr vegi að velta fyrir sér hvað verður um öll þessi föt, já og bara föt yfirleitt. Það fyrsta sem manni dettur í hug er sjálfsagt að einhver kaupi þau, noti þau og hendi þeim svo þegar þau eru orðin ónýt. En saga fatanna er ekki alltaf svona einföld.

Norræn skýrsla
Á síðasta ári kom út skýrsla sem Norræna ráðherranefndin lét vinna til að fá fram tillögur um aðgerðir til að lágmarka fataúrgang. Í þessari skýrslu er reynt að draga upp mynd af ástandinu, þ.e.a.s. af því hversu mikið af fatnaði er sett á markað á hverju ári og hvað verður svo um þennan fatnað. Úttektin náði til Danmerkur, Svíþjóðar og Finnlands, en sambærilegar tölur fyrir Noreg og Ísland voru ekki eins aðgengilegar. Reyndar er hvergi til áreiðanlegt talnaefni um innkaup, notkun og afdrif fatnaðar, þannig að víða þarf að geta í eyðurnar. Í skýrslunni er það gert fyrir hvert land um sig – og niðurstöðurnar eru alls staðar nokkuð svipaðar. Auðvitað er erfitt að fullyrða um hvort hægt sé að heimfæra þessar tölur upp á Ísland, en líklega kaupum við a.m.k. jafn mikið af fötum og nágrannaþjóðirnar og hendum a.m.k. jafn miklu.

Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að þegar talað er um fatnað í þessu samhengi, þá er líka átt við handklæði, rúmföt, borðdúka, teppi og fleira, þ.e.a.s. hvers konar laus klæði eða textílefni sem notuð eru á heimilum og ekki eru hluti af öðrum vörum. Þetta gætu verið svona 20% af heildarmagninu, sem skiptir ekki öllu máli í niðurstöðunni, að minnsta kosti ekki á meðan hún er svona lauslega reiknuð.

15 kíló á mann á ári
Svo við lítum nú fyrst á innkaupin, þá virðast Danir, Svíar og Finnar kaupa 13-16 kíló af fatnaði á hvert mannsbarn á ári. Ef við gefum okkur töluna 15 kíló fyrir Ísland, þá má geta sér þess til að við kaupum samanlagt um það bil 4.800 tonn af fatnaði á ári. Miðað við tölur frá hinum löndunum fara 40-70% af þessu í ruslið. Ef við gerum ráð fyrir að við séum í hærri kantinum, þá gætu þetta verið 10 kíló á hvert mannsbarn á ári eða samtals um 3.200 tonn á landinu öllu, sem fara þá í urðun. Talsvert magn er endurnotað með einum eða öðrum hætti, þar með talið það sem Rauði krossinn og önnur samtök safna. Þetta gætu verið um það bil 1.400 tonn á ári eða um það bil 4,5 kíló á hvert mannsbarn. Þá vantar um það bil 200 tonn eða um það bil hálft kíló á mannsbarn til þess að dæmið gangi upp. Miðað við tölur frá Danmörku og Finnlandi gæti þetta einmitt verið það magn sem safnast árlega upp í fataskápum, háaloftum og kjöllurum landsmanna umfram það sem rutt er þaðan út í tiltektum.

Í margumræddri skýrslu kemur fleira áhugavert fram. Það lítur meðal annars út fyrir að fatainnkaup Norðurlandabúa vaxi jafnt og þétt, langt umfram fólksfjölgun. Þannig jókst magn fatnaðar sem settur var á markað í Svíþjóð um 40% milli áranna 2000 og 2009. Hins vegar virðist áhugi á endurnotkun líka fara ört vaxandi. Sífellt fleiri selja og kaupa notuð föt á netinu og verslanir með notuð föt blómstra. Þetta er auðvitað jákvætt þar sem það bætir nýtingu auðlinda. Í skýrslunni er líka bent á aðferðir sem stjórnvöld geta beitt til að draga úr sóun fatnaðar. Í Frakklandi er til dæmis að einhverju leyti búið að innleiða framlengda framleiðendaábyrgð á fötum, sem þýðir að framleiðendur eru skyldaðir til að taka notuð föt til baka. Og í Japan eru kröfur um hlutfall endurunninna efna í nýjum fötum orðnar hluti af innkaupareglum hins opinbera. Loks er bent á þann möguleika að lækka eða endurgreiða virðisaukaskatt af fataviðgerðum og fræða fólk jafnframt um slíka möguleika og um það hvar og hvernig sé hægt að skila af sér notuðum fötum. Allt myndi þetta stuðla að betri nýtingu fatnaðar og minni sóun.

Milljarður á ári í ónotuð föt?
Ef við drögum þetta nú aðeins saman, þá má getum að því leiða að við kaupum hátt í 5.000 tonn af fötum á hverju ári og að rúmlega 3.000 tonn af fötum séu urðuð á hverju ári. Þarna hlýtur að mega spara eitthvað, bæði fjárútlát vegna innkaupa og úrgangsmeðhöndlunar – og auðlindir sem kastað er á glæ í hvert sinn sem klæði er urðað. Í þessu sambandi er áhugavert að rifja upp tölur úr rannsókn sem Einar Mar Þórðarson og félagar hjá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerðu skömmu fyrir hrun á neysluvenjum Íslendinga og viðhorfum til endurvinnslu. Þar kom fram að nær helmingur aðspurðra hafði keypt föt eða skó á útsölu sem höfðu svo bara verið notuð einu sinni eða tvisvar, eða jafnvel aldrei. Og 19% höfðu keypt sér föt sem voru aldrei notuð vegna þess að kaupandanum tókst ekki að grennast nógu mikið til að passa í þau. Í þessari sömu rannsókn var reiknað út að á hverju ári eyddu Íslendingar 1,3 milljörðum króna í föt sem ekki voru notuð.

Til umhugsunar
Það er örugglega gaman að ganga í fínum fötum, en það væri líka hægt að kaupa sér margt skemmtilegt fyrir þennan eina eða eina og hálfa milljarð sem hent er með ónotuðum fötum. Það eykur nefnilega ekki lífsgæði manns að eiga föt til að henda, og líklega ekki heldur að safna fötum í skápa, kjallara og háaloft. Þaðan af síður aukast lífsgæðin þegar við hið fjárhagslega tjón bætist samviskubitið yfir því að fólk hafi þurft að deyja í fjarlægum löndum til að framleiða þessi föt fyrir okkur. Kannski hefði það skapað meiri lífsgæði, já eða vellíðan, að kaupa færri flíkur, borga aðeins meira fyrir hverja þeirra, nýta tiltækar aðferðir til að tryggja sómasamleg lífsskilyrði þeirra sem vinna verkin – og nota svo afganginn af peningunum í eitthvað skemmtilegt.

(Þessi pistill er nær samhljóða pistli sem fluttur var í útvarpsþættinum Sjónmál á Rás 1 fimmtudaginn 23. maí 2013).

Uppruni fatnaðar og réttlætismerking

Bangladess verksmiðja 2Í bloggpistli 10.maí sl. velti ég fyrir mér nokkrum spurningum sem vöknuðu í framhaldi af hruni fataverksmiðjunnar í Dakka í Bangladess síðasta vetrardag. Sá skelfilegi atburður hefur svo sannarlega vakið fólk til umhugsunar. Samt voru þetta eiginlega ekki alveg nýjar fréttir. Mörg svipuð mál hafa komið upp á yfirborðið síðustu árin, þó að sjaldan eða aldrei hafi svona margir misst lífið í einum slíkum atburði. Hörmungarnar í Dakka eru „hávær vekjaraklukka“, sem hlýtur að verða til þess að allir leggist á eitt um að tryggja að viðlíka atburðir endurtaki sig ekki. Hér sem víðar eru engar skyndilausnir í boði, en við eigum þó tæki sem okkur er í lófa lagið að nota til að stuðla að bættu ástandi. Þessi pistill fjallar m.a. um slík tæki.

Eigin siðareglur duga skammt
Margar þekktar fatakeðjur á Vesturlöndum, og þar með talið á Norðurlöndunum, hafa orðið uppvísar af því að láta framleiða fyrir sig föt í verksmiðjum þar sem vinnuaðstæður eru með öllu óboðlegar. Nokkrar slíkar hafa fengið á baukinn í úttektum rannsóknarblaðamanna og nægir þar að nefna sænsku fataverslunarkeðjuna Indiska, sem lenti í slíkri úttekt hjá fréttaskýringaþættinum Granskning í sænska sjónvarpinu haustið 2006. Þar kom m.a. í ljós að eigin siðareglur fyrirtækisins dugðu skammt, þar sem þeim var ekki fylgt eftir á framleiðslustaðnum. Nöfn H&M og IKEA hafa líka verið nefnd í svipuðu samhengi, auk til dæmis Walmart, Gap og Tommy Hilfiger, svo litið sé út fyrir Norðurlöndin. Líklega eru fá stórfyrirtæki alveg undanskilin ef út í það væri farið.

Spyrjum!!!
Fyrstu viðbrögð neytenda eru oft þau að hætta, eða segjast ætla að hætta, að kaupa föt frá viðkomandi fyrirtækjum. Það eitt út af fyrir sig er þó ekki líklegt til að breyta miklu, öðru en því að fólkið í verksmiðjunum missir þá litlu og illa launuðu vinnu sem það hafði. Mun betri aðferð, og reyndar eina aðferðin sem er líkleg til að skila árangri, er að spyrja hvar viðkomandi vara hafi verið framleidd og hvað hafi verið gert til að tryggja fólkinu sem þar vann mannsæmandi laun og réttindi. Fáist ekki fullnægjandi svör við því er sjálfsagt að snúa sér annað.

Eftirspurn sem ekki heyrist er ekki eftirspurn!
Nú kann einhver að segja sem svo, að það þýði lítið að spyrja svona spurninga í búðum. Þar vinni bara einhverjir krakkar sem viti ekki neitt um svona lagað. Við þetta hef ég tvennt að athuga: Annars vegar er alveg óþarfi að vanmeta þekkingu afgreiðslufólks í verslunum, því að yfirleitt veit þetta fólk heilan helling um vöruna sem það er að selja. Hins vegar er alveg öruggt að þetta fólk veit ekkert um að okkur sé ekki sama ef við spyrjum aldrei! Ef okkur er ekki sama, þá eigum við að spyrja, því að um leið og nokkrir hafa spurt er alveg öruggt að eigendur verslunarinnar frétta af áhuganum og fara að leita sér upplýsinga um uppruna vörunnar, hafi þær upplýsingar ekki legið fyrir allan tímann. Því að um leið og kaupendum er hætt að standa á sama, þá er líklegt að salan minnki ef ekki er brugðist við þessari nýju eftirspurn eftir upplýsingum. Það er nefnilega ekki hægt að selja vöru sem neytendur vilja ekki kaupa.

Réttlætismerking = eitt besta tækið
Það er ekki auðvelt verk, hvorki fyrir venjulegan neytanda eða venjulegan verslunareiganda að komast að því hvar og hvernig venjuleg flík í venjulegri búðarhillu er framleidd, hvað þá að ganga úr skugga um hvort fólkið sem vann við framleiðsluna hafi fengið mannsæmandi laun og aðbúnað, hvort það hafi fengið að ganga í verkalýðsfélög og þar fram eftir götunum. Sem betur fer eru þó til nokkur tæki sem geta hjálpað til við þessa upplýsingaöflun. Réttlætismerking, öðru nafni fairtradevottun, er eitt þessara tækja.

Hvað er réttlætismerking?
FairtradeRéttlætismerking felur það í sér að varan ber ákveðinn stimpil sem vottar siðræn viðskipti með fatnað og fleiri vörur frá þróunarlöndunum. Merkið tryggir m.a. að þeir sem unnu við framleiðslu vörunnar hafi notið lágmarksréttinda hvað varðar laun og aðbúnað og að barnaþrælkun hafi ekki verið stunduð við framleiðsluna. Þar að auki felur merkið í sér staðfestingu á því að inni í verði vörunnar sé dálítið aukagjald, sem framleiðandanum er skylt að verja í félagsleg verkefni í viðkomandi landi, t.d. til skólabygginga. Samt er verð þessarar vöru ekkert endilega miklu hærra en verð annarrar vöru til sömu nota. Ástæðan er sú, að réttlætismerktu vörurnar fara að jafnaði í gegnum mun færri milliliði en hinar vörurnar. Samtökin Fairtrade International, öðru nafni FLO, halda utan um þetta kerfi á heimsvísu og hafa meðal annars milligöngu um beina samninga við framleiðendur. Um leið fá þau yfirsýn yfir alla vörukeðjuna og geta fylgst með að hvergi sé svindlað á skilmálunum sem fylgja þessari vottun.

Þróunaraðstoð sem virkar
Með því að kaupa réttlætismerkt föt eða aðrar vörur leggur maður sitt af mörkum til þróunaraðstoðar. Maður getur líka treyst því að sú aðstoð komist til skila og nýtist þar sem hún á að nýtast. Kaup á réttlætismerktum vörum er ekki bara eitthvað sem einstaklingar geta gert til að bæta eigin samvisku og minnka líkurnar á að harmleikurinn í Dakka endurtaki sig, heldur felst einnig í þessu kjörið tækifæri fyrir fyrirtæki og stofnanir til að styðja við þróunarstarfið og bæta eigin ímynd um leið.

Svanurinn og GOTS
SvanurinnGOTSSéu viðkomandi vörur merktar með Norræna umhverfismerkinu Svaninum má líka treysta því að réttindi verkafólks hafi verið virt. Sama gildir þegar keypt eru föt með svonefnda GOTS-vottun, en GOTS stendur fyrir Global Organic Textile Standard. Til að flík megi bera merki GOTS þurfa allir aðilar í virðiskeðjunni að uppfylla tiltekin lágmarksskilyrði um félagslegt réttlæti, a.m.k. 70% af þráðunum í flíkinni verða að vera með lífræna vottun, og öll litarefni og hjálparefni verða að uppfylla tilteknar kröfur um áhrif á heilsu og umhverfi. Auðvitað felur engin vottun í sér 100% tryggingu fyrir einu né neinu, en vottunarkerfin eru þó alla vega bestu tækin sem við höfum. Þau hafa það m.a. fram yfir eigin yfirlýsingar seljenda að þau eru óháð.

VIÐ getum breytt þessu!
Okkur finnst við kannski standa ráðþrota gagnvart atburðum eins og þeim sem varð í Dakka síðasta vetrardag. Það er rétt að því leyti að við getum ekki afturkallað það sem gerðist. En að öðru leyti er það rangt. Við þurfum ekki að standa ráðþrota. Ef okkur er ekki sama, þá eigum við að spyrja. Og við höfum tæki á borð við fairtradevottun, Norræna svaninnn, GOTS-vottun og aðrar vottanir til að hjálpa okkur í viðleitninni við að bæta ástandið.

(Þessi pistill er nær samhljóða pistli sem fluttur var í útvarpsþættinum Sjónmál á Rás 1 miðvikudaginn 14. maí 2013).